Tag Archive for: þvottalaugar

Þvottalaugar

Í lok 18. aldar var farið að nota heita vatnið í Laugunum nokkuð til þvotta. Vatn úr sjóðandi uppsprettum rann í dálitla tjörn sem bæjarbúar notuðu sem þvottapott. Skammt frá tjörninni var grasi gróinn hóll. Þar tjölduðu Reykvíkingar og aðrir sem gistu við laugina.

Reykjavík

Reykjavík um 1900.

Lengi vel var náttúrulegi suðupotturinn í Laugunum aðallega nýttur á sumrin. Á fyrstu áratugum 19. aldar fjölgaði þeim Reykvíkingum mikið sem lögðu leið sína í Laugarnar með óhreinar spjarir. Þvottalaugarnar voru nýttar af allflestum heimilum í Reykjavík um 1830. Af þeim sökum beitti Ulstrup bæjarfógeti sér fyrir almennum samskotum meðal bæjarbúa til að smíða hús yfir laugagesti árið 1833. Í þvottahúsinu voru bekkir til að tylla bölum á, hillur meðfram veggjum fyrir þvott og fimm balar. Fyrir utan húsið var komið upp snúrustólpum. Húsið veitti þvottakonum kærkomið skjól í tæpan aldarfjórðung. Í aftakaveðri árið 1857 fauk laugahúsið illu heilli. Næstu 30 árin var ekkert skýli í Þvottalaugunum.
ÞvottalaugarReykjavíkurbær festi kaup á Laugarnesinu árið 1885. Þá hafði Thorvaldsensfélagið, fyrsta kvenfélag sem stofnað var í bænum, starfað í tíu ár. Félagið lét reisa hús við Þvottalaugarnar á sinn kostnað árið 1888. Jakob Sveinsson snikkari smíðaði húsið, sem var tæpir 80 fermetrar. Viku eftir að húsið var opnað var hins vegar búið að brjóta nær allar rúður í því og stela snúrunum. Thorvaldsensfélagið ákvað að gefa Reykjavíkurbæ laugahúsið árið 1889. Bæjarfulltrúar voru ekki sammála um hvort taka ætti við gjöfinni. Einn þeirra hélt því fram að þvottahúsið væri eingöngu notað af kvenfólki sem enginn kærði sig um og átti þá við vinnukonur. Félagar hans í bæjarstjórn, sem vildu þiggja laugahúsið, urðu þó ofaná. Yfirvöld bæjarins viðurkenndu þar með í verki að þeim bæri skylda til að veita íbúum Reykjavíkur þokkalega vinnuaðstöðu í Þvottalaugunum.
ÞvottalaugarÁrið 1893 var þvottahúsið stækkað. Í viðbyggingunni voru tvö náðhús, þau fyrstu sem reist voru í Þvottalaugunum. Framan af var timburgólf í húsinu. Það náði sjaldan eða aldrei að þorna og varð fljótlega hættulegt gestum. Á vormánuðum árið 1896 var loks steypt gólf í húsið. Þvottahúsið fylltist oft og komust gjarnan færri að en vildu. Þar fór ágætlega um 30 konur. Þær urðu þó iðulega helmingi fleiri og varð sambúðin þá að vonum stirðari. Stundum slettist upp á vinskapinn meðal gestanna í þvottahúsinu. Konur sem höfðu lifibrauð sitt af þvottum voru fastagestir í húsinu. Þær þóttu sumar hverjar ráðríkar og yfirgangssamar.
ÞvottalaugarÍ laugahúsinu ríkti sjaldan þögn. Þar var bæðið talað og hlegið svo dátt að undirtók í timburhúsinu.Í þvottahúsi Thorvaldsensfélagsins var unnið við þvotta allt fram á fjórða áratug líðandi aldar. Þá var húsið hins vegar tekið undir geymslu, m.a. fyrir Hitaveituna. Kvenfélög í Reykjavík fetuðu mörg hver í fótspor Thorvaldsensfélagsins og beittu sér fyrir betri vinnuaðstöðu í Þvottalaugunum.

Eftirfarandi fróðleik um Þvottalaugarnar í Laugardal má finna á vef Árbæjarsafns um „Menningarmerkingar í Reykjavík„:

Klæðaleysi Reykvíkinga

Þvottalaugar

Reykjavíkurbörn um 1900.

Í lok 19. aldar voru ígangsklæði fátækra Reykvíkinga bæði skjóllítil og léleg. Árið 1883 voru klæðlítil börn í Reykjavík jafnvel lokuð inni þegar erlenda gesti bar að garði. Þeir áttu ekki að sjá larfana sem smáfólkið í bænum hafði á kroppnum. Á stríðsárunum fyrri kom fataleysi barna í Reykjavík berlega í ljós. Guðrún Lárusdóttir bæjarfulltrúi fullyrti í árslok 1917 að mörg börn í bænum kæmust tæplega úr rúmum vegna klæðleysis. Mæður yrðu auk þess iðulega, að sögn Guðrúnar, að hátta afkvæmi sín niður í rúm þegar þær þvoðu föt þeirra. Ígangsklæði og rúmfatnaður Reykvíkinga voru löngum af skornum skammti og fjölskyldur áttu vart til skiptanna. Fátækir bæjarbúar urðu því að treysta á góðan þurrk á þvottadögum.

Óvinur alþýðukvenna

Þvottalaugar

Reykvískt býli 1922 – Sölvhóll.

Reykvískar alþýðukonur áttu mikið undir duttlungum veðurguðanna, ekki síst við þvotta. Efnameiri bæjarbúar höfðu þurrkhjalla á lóðum sínum. Á stöku heimilum voru þurrkloft í risi eða þvottahús í kjallara þar sem hægt var að hengja til þerris. Þröngbýlið í Reykjavík leiddi til þess að flestir bæjarbúar urðu lengst af að þurrka þvotta utandyra.
Í óþurrkatíð gripu konur jafnvel til þess ráðs að þurrka bleiur og barnaföt á sjálfum sér innanklæða milli utanyfirpilsa og millipilsa.

Taurullur og þvottavindur
ÞvottalaugarAllt þar til í lok 19. aldar urðu konur að vinda allan þvott í höndunum. Þá skipti vitaskuld miklu að vinda vel svo betur gengi að þurrka. Það hlaut þó að vera erfitt að vinda mikinn þvott með sárum höndum eftir heitt hveravatnið í Þvottalaugunum. Í lok 19. aldar bjuggu aðeins efnameiri heimili í Reykjavík að taurullum. Þær voru mjög þungar og ekki kom til greina að flytja þær í Laugarnar. Eftir aldamótin var farið að flytja til landsins handhægar þvottavindur sem hægt var að festa á bala. Á stríðsárunum fyrri voru konur farnar að nota þær í Þvottalaugunum.

Snúrur, girðingar og gras
Konur kusu að fara í Þvottalaugarnar á þurrviðrisdögum enda var gríðarlega erfitt að koma blautum þvotti úr Laugunum. Þegar fyrsta þvottahúsið var byggt í Laugunum árið 1833 voru settar upp snúrur fyrir utan skýlið. Þær voru jafnan við öll þau þvottahús sem reist voru á svæðinu. Þvottakonur komu sjálfar með heimatilbúnar klemmur í Laugarnar.
ÞvottalaugarFraman af dugðu snúrurnar ekki alltaf til þegar mannmargt var í Þvottalaugunum. Þá gripu konur til þess ráðs að hengja þvott á girðingar sem umluktu svæðið. Leppar voru jafnvel hengdir á ljósker til að láta renna úr þeim.
Á sumrin þegar jörð var þurr var þvottur gjarnan breiddur á gras til þerris. Þegar konur vildu fá fallegan blæ á hvítan léreftsþvott var hann bleiktur. Þá var hann fyrst þveginn en ekki skolaður. Fatnaðurinn var síðan breiddur á gras, vökvaður reglulega og snúið við. Eftir nokkra tíma, jafnvel sólahringa, var þvotturinn loks skolaður. Best þótti að bleikja á vorin áður en gróður varð mikill til að koma í veg fyrir grasbletti.

Vatnsskortur í Reykjavík

Ingólfsbrunnur

Ingólfsbrunnur í Aðalstræti.

Í lok síðustu aldar var vatnsskortur í Reykjavík orðinn verulegt vandamál. Bæjarbúar urðu að sækja allt vatn í brunna sem iðulega þornuðu upp. Konur urðu að fara margar ferðir eftir vatni í póstana á þvottadögum. Vatnsveitan tók til starfa á haustdögum árið 1909. Hún létti verulega störf kvenna, einkum þvotta í heimahúsum. Á stríðsárunum fyrri fór aftur að bera á vatnseklu í Reykjavík, aðallega í húsum sem lágu ofan til í bænum. Næstu áratugi var viðvarandi vatnsskortur í ákveðnum hverfum höfuðstaðarins.
Í húsum þar sem varla fékkst dropi úr vatnshönum nema örfáar stundir á dag var illmögulegt að sinna stórþvottum. Örlátir vatnskranar dugðu þó skammt ef eldsmatur var ekki til í kotinu. Óhreindindi víkja sjaldnast fyrir köldu vatni. Allt vatn til þvotta í heimahúsum varð því að hita. Alþýðukonur spöruðu dýrt eldsneytið í lengstu lög. Vatnsskortur í Reykjavík og hátt verð á eldsmat leiddi til þess að konur sóttu óhjákvæmilega í Þvottalaugarnar. Þar var hægt að ganga að heitu vatni vísu. Laugalækurinn sá hins vegar oftast fyrir köldu vatni til að skola þvottinn úr.

Matargerð
þvottalaugarÞvottakonur notuðu heita vatnið í Laugunum löngum til matargerðar. Í hvernum við þvottahús Thorvaldsensfélagsins var dálítið útskot sem notað var til matreiðslu. Þar suðu konur fisk, kartöflur og stöku sinnum kjötbita. Maturinn var vafinn í tuskur og settur ofan í laugina. Seinna var farið að nota litlar fötur við suðuna. Kaffið var ómissandi í laugaferðum. Konur helltu einfaldlega heitu vatni úr lauginni í könnuna. Kaffidrykkja jafnt kvenna og barna var mikil í Þvottalaugunum. Matargerð Reykvískra kvenna í Laugunum var óbrotin og einföld. Erlendir ferðamenn matreiddu hins vegar stöku sinnum miklar krásir með hjálp heita vatnsins.
Árið 1917 var gerð tilraun til að hverabaka brauð í Þvottalaugunum með styrk bæjarstjórnar.
þvottalaugarBrauðgerðin í Laugunum lagði fljótlega upp laupana. Þar gekk hins vegar betur að sjóða ost.
Árið 1922 framleiddi Jón Á. Guðmundsson rúm tvö tonn af mysuosti í Þvottalaugunum á tæpum 16 vikum. Ostagerðarmaðurinn byggði lítið skýli undir framleiðsluna í janúarmánuði 1923. Í árslok flutti Jón hins vegar úr bænum og mysuostagerð í Þvottalaugunum lagðist niður. Heita vatnið í Laugunum var einnig nýtt til að rækta grænmeti og blóm. Árið 1924 reistu þeir Ragnar Ásgeirsson garðyrkjumaður og Carl Olsen konsúll lítið gróðurhús við Laugalækinn. Þeir fengu leyfi bæjarstjórnar til að taka vatn úr leiðslum sem lágu frá Þvottalaugunum að Sundlauginni.

Heilsa og þrifnaður
þvottalaugarSóðaskapur og nábýli ruddi smitsjúkdómum braut í Reykjavík. Óþrifnaður hefði ugglaust orðið enn meiri ef íbúar höfuðstaðarins hefðu ekki búið að náttúrulegum suðupotti í Laugunum. Þar var hægt að sjóða og sótthreinsa óværu úr fatnaði bæjarbúa. Heita vatnið í Þvottalaugunum varð ein mikilvægasta heilsulind Reykvíkinga.
Frostaveturinn mikla fraus allt sem frosið gat í Reykjavík. Um miðjan janúar 1918 hafði ekki verið hægt að tæma kamra bæjarbúa í rúma viku. Veganefnd sat lengi á rökstólum um hvernig leysa ætti vandamálið. Loks var ákveðið að flytja salernisílátin inn að Laugalæknum og þýða þau þar á hentugum stað.
Súkkulaðivagnarnir áttu aldrei þessu vant að ferðast um bæinn á daginn meðan frostið varði, flytja ílátin inn í Laugar og láta heita vatnið vinna á frosnum úrgangi Reykvíkinga.

Gönguleiðin í Þvottalaugarnar

Rauðará

Rauðará – Mynd: Myndinn sýnir bílinn Re-24 og prúðbúið fólk á ferð, á bak við er Gasstöðin og nær er Laugavegur og brú yfir Rauðarárlæk, Hlemm.

Úr miðbæ Reykjavíkur og inn að Þvottalaugum eru rúmir 3 km. Sú leið var ekki hættulaus og gat orðið æði torsótt í svartamyrkri. Úr Lækjargötu lá leiðin upp Bankastræti. Á móts við Laugaveg 18 eða 20 beygðu þvottakonur niður í Skuggahverfi. Þær þræddu síðan strandlengjuna og reyndu að fylgja götutroðningum uppi á bakkanum fyrir ofan fjöruna.
Þegar komið var að Fúlutjarnarlæk var snúið upp frá sjónum og yfir Kirkjumýri sem var blaut og keldótt. Fúlutjarnarlækur gat orðið erfiður farartálmi í votviðri. Þá breyttist lækurinn í stórfljót sem þvottakonur komust ekki yfir nema á fjöru.
Göngumóðir laugagestir komu örugglega gegnvotir til fótanna í áfangastað. Íslenskar alþýðukonur áttu fæstar vatnsstígvél fyrr en á fyrstu áratugum líðandi aldar.

Vinnukonur notaðar sem áburðarklárar

þvottalugar

Í lok 19. aldar urðu margir til að fordæma þann sið Reykvíkinga að nota vinnukonur sem burðarklára. Þá mátti iðulega sjá heila lest af kengbognum konum rogast með laugapokaklyfjar á götum bæjarins. Þeir sem vildu afnema þennan „skrælingjasið“ bentu á að hann hneykslaði ekki aðeins erlenda gesti heldur einnig utanbæjarmenn. Gæðingar betri borgaranna voru ekki látnir erfiða til jafns við vinnukonur. Reykvískar alþýðukonur báru iðulega mun meira en hestar bæjarbúa, bæði við uppskipun og í laugaferðum.
Þvottakona flutti gríðarlegan farangur inn í Laugar. Hún bar bala, fötu, klapp, þvottabretti, sápu, sóda, kaffikönnu, bolla, matarpakka og auðvitað þvottinn. Á veturna bættust yfirhöfn og kerti eða önnur ljósfæri í farteskið. Þvottakonan bar byrðina á bakinu. Þvottabrettið var fyrst látið skáhallt ofan á balann. Þvotturinn, sem var jafnan í strigapoka, var settur ofan á brettið og brúnina á balanum. Reipi eða bandi var síðan brugðið í balaeyrun.
ÞvottalaugarÞvottakonan setti klyfjarnar á stein eða þúfu. Hún brá síðan böndunum fram fyrir brjóstið og batt þau saman fyrir framan sig. Þvottabrettið hvíldi þá á hnakka hennar og balinn á herðunum. Þvottakonan hélt á fötunni. Í henni var kaffikanna, sápa, nestisbiti og annað smádót.
Fullfrísk kona var eflaust veglúin eftir rúmlega 3 km göngu með klyfjarnar á bakinu. Hún átti þó mun erfiðari ferð fyrir höndum. Gangan heim með blautan þvott eftir 10 til 15 tíma erfiðisvinnu í Laugunum var mikil þrekraun.

Heimasmíðuð farartæki

Þvottalaugar

Handvagn.

Á haustdögum árið 1885 var byrjað að leggja veg inn að Þvottalaugum, Laugaveginn. Fimm árum síðar var hann loks fullgerður. Eftir það fóru konur að nota heimasmíðuð farartæki til laugaferða. Þau voru af ýmsum gerðum og sum býsna frumleg.
Hjólbörur og litlir fjórhjólaðir vagnar voru algengastir. Kerrur sem konum var beitt fyrir í stað hesta komu til sögunnar í aldarlok. Á vetrum þegar snjór var á jörðu komu sleðar sér vel til laugaferða.
Þá drógu drengir oft sleðana fyrir mæður sínar. Þvottakonur treystu þó varlega dragfærinu. Þegar þær höfðu unnið á óhreinum fatnaði var snjórinn stundum horfinn. Þess eru dæmi að konur og börn hafi borið sleða og annan farangur heim úr Þvottalaugunum. Í úrkomutíð óðu Reykvíkingar leðjuna á Laugaveginum í ökkla. Þá gat orðið illfært heim úr Laugunum með blautan þvott á frumstæðum hjólatíkum.

Fyrstu áætlunarferðir í Reykjavík
ÞvottalaugarÍ júníbyrjun árið 1890 hófust reglubundnar ferðir í Þvottalaugarnar. Þá var kominn vagnfær vegur heim að þvottahúsi Thorvaldsensfélagsins. Þetta voru fyrstu áætlunarferðir í Reykjavík enda höfðu aldrei fyrr verið aðstæður fyrir hestvagna í vegleysunum í bænum.
Vagninn var fjórhjólaður og gat tekið allt að átta menn í sæti. Einn eða tveir hestar drógu hann. Hestvagninn var ekki notaður til að flytja fólk inn í Laugar heldur þvott.
Laugapokar Reykvíkinga voru sóttir heim til þeirra sem bjuggu við akfæra vegi. Hinir urðu að koma þvottinum á ákveðinn móttökustað í bænum. Þvottakonur urðu enn sem fyrr að fara fótgangandi í Laugarnar. Þar gátu þær tekið óþreyttar til hendinni ef hestaflið létti laugapokaklyfjunum af þeim. Of fáir Reykvíkingar voru hins vegar reiðubúnir að greiða fyrir þjónustuna.
Þessar fyrstu áætlunarferðir í bænum lögðust því fljótt niður.

Laugavagn Hins íslenska kvenfélags
ÞvottalaugarHið íslenska kvenfélag var stofnað í Reykjavík árið 1894. Á öðru starfsári ákvað það að „létta af kvenfólki hinu þunga oki, laugaburðinum.“
Kvenfélagið hóf laugaferðir um miðjan maí árið 1895. Félagskonur hugðust þannig koma í veg fyrir að kynsystur þeirra væru notaðar sem áburðarklárar í Þvottalaugarnar. Í árslok höfðu rúmlega 600 pokar fullir af þvotti verið fluttir í Laugarnar. Réttu ári síðar neyddist Kvenfélagið til að leysa flutningafyrirtækið upp. Fjölmörg heimili í bænum gátu ekki pungað út aurum fyrir akstri á þvotti.

Þvottalaugar

Vinnukonur.

Húsbændur bjargálna fjölskyldna kusu auk þess, sumir hverjir, að senda vinnukonur sem fyrr með þvottinn á bakinu. Áætlunarferðir hestvagna í Þvottalaugarnar varpa ljósi á þau áhrif sem ný tækni getur haft á verkaskiptingu kynjanna. Reykvískar konur höfðu í áratugi flutt lungann af þvotti bæjarbúa á bakinu í Laugarnar. Þegar hestaflið leysti bök kvenna af hólmi voru það karlmenn sem héldu um tauma hestvagnsins. Þeir höfðu hins vegar allt að helmingi hærri laun fyrir vinnu sína en konur fyrir stritvinnu þvottanna.

Bærinn flytur þvott í tonnatali

Árið 1917 ákvað bæjarstjórn Reykjavíkur að hefja skipulagðar laugaferðir. Fjórir móttökustaðir víðsvegar um bæinn tóku á móti farangri Reykvíkinga í Þvottalaugarnar.
Laugakeyrslan hófst 16. júní en mest var flutt í september og október. Í árslok 1917 var búið að flytja 72 tonn í Þvottalaugarnar. Árið 1918 voru flutt rúm 161 tonn og árið eftir tæplega 178.

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar um 1900.

Reykvíkingar sendu raunar fleira en þvott með hestvagninum. Hann var hlaðinn bölum, fötum, körfum, þvottabrettum og nokkrar þvottavindur slæddust jafnvel með. Á árunum 1918-1919 var mest flutt á vormánuðum en minnst í desember.
Þvottakonur þurftu eftir sem áður að fara fótgangandi inn í Laugar. Þær báru þá gjarnan með sér fötur, klapp, nesti og annað smálegt.
Yfirvöld bæjarins stilltu fargjaldinu í hóf og urðu jafnan að leggja með áætlunarferðum laugavagnsins. Ófáir Reykvíkingar urðu engu að síður að spara þau útlát. Alþýðukonur héldu því margar hverjar áfram að flytja þvottinn sjálfar inn í Laugar.
Árið 1920 ákvað bæjarstjórn að kaupa bifreið hefja skipulagðar laugaferðir. Fjórir til fimm til að leysa laugahestana af hólmi. þvottalaugar
Bifreiðin var móttökustaðir víðsvegar um bæinn tóku á móti ekki aðeins notuð til að flytja farangur inn í farangri Reykvíkinga í Þvottalaugarnar. Þvottalaugar. Hún var í upphafi einnig notuð til Laugakeyrslan hófst 16. júní en mest var flutt í sjúkraflutninga. Stöðugt fleiri konur fóru hjólandi í Laugarnar, sumar með allt sitt hafurtask.
Þvottakonum var ekki boðið upp á skipulagðar áætlunarferðir fyrr en í lok þriðja áratugarins.
Sumarið 1927 hóf Bifreiðastöð Reykjavíkur reglubundnar ferðir inn í Sundlaugar. Fjórum árum síðar fóru fyrstu strætisvagnarnir að ganga í bænum. Þeir fækkuðu verulega sporum kvenna sem áttu leið í Þvottalaugarnar.

Hermannaþvottur
þvottalaugarÁ millistríðsárunum dró töluvert úr aðsókn í Þvottalaugarnar. Hún jókst þó aftur eftir að Ísland var hernumið í maímánuði árið 1940. Fjölmargar konur í Reykjavík tóku að sér þvotta fyrir hernámsliðið. Í árslok 1940 unnu um 200 konur í bænum við þvotta. Þá fengu þær greiddar 2 krónur fyrir þvott af einum hermanni. Tímakaup verkakvenna var 1 króna og 14 aurar í dagvinnu. Erfiði þvottanna var ekki metið til margra fiska frekar en endranær. Konur sem tóku að sér hermannaþvott sóttu töluvert í Laugarnar. Þær voru oftar en ekki með mikinn fatnað og nokkuð heimaríkar. Vinnulag þeirra þótti ekki alltaf til fyrirmyndar, frekar en hjá karlmönnum í Bretavinnunni. Sumar virðast hafa tekið upp verklag sem var alþekkt í Suður-Evrópu. Þegar þvotturinn hafði legið í bleyti fylgdu þær sjálfar á eftir ofan í balann íklæddar stígvélum. þar tróðu þær á þvottinum um stund, skoluðu hann síðan og hengdu til þerris.

Bylting á vinnuaðstöðu

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar 1908.

Þvottahúsið í Laugunum hafði þjónað Reykvíkingum í 40 ár og var að vonum gengið úr sér. Bæjarstjórn var á einu máli um að nauðsynlegt væri að reisa nýtt hús. Þvottahúsið var opnað árið 1942 og gat í upphafi hýst 32 gesti. Fyrirrennarar þess voru timburhús. Nú fyrst var byggt steinhús yfir laugagesti. Undirstöður og gólf voru steinsteypt en veggir hlaðnir úr vikurholsteini.
Í þvottahúsinu var bjart og rúmgott herbergi sem upphaflega var ætlað til að ganga frá þurrum þvotti. Við hönnun hússins var hins vegar ekki gert ráð fyrir kaffistofu. Laugagestir fóru því fljótlega að nýta herbergið til að drekka hverakaffið og borða bitann sinn.
Í „kaffistofunni“ var þá komið fyrir nokkrum kollum og síðar baklausum bekkjum. Í húsinu voru vatnssalerni. Þau leystu útikamra sem reistir höfðu verið í fyrra stríði af hólmi. Eftir endilöngu þvottaherberginu og meðfram gluggaveggjum voru borð og bekkir. Voldugir trébalar voru hlekkjaðir við bekkina. Laugagestir stóðu á timburhlerum við þvottana. Þá var minni hætta á að þvottakonur rynnu á hálu gólfinu. Heitt og kalt vatn var leitt inn í þvottahúsið. Nú fyrst í sögu Þvottalauganna var hægt að skrúfa frá krana og láta vatnið fossa í bala og fötur. Þetta gjörbreytti öllum vinnuaðstæðum við þvottana. Ekki þurfti lengur að bera allt vatn að utan og inn í þvottahúsið.

Kraftajötnar taka við af þvottakonum

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar í byrjun 20. aldar.

Þvottahúsið í Laugardalnum iðaði enn af lífi flesta daga ársins í upphafi sjötta áratugarins.
Í Þvottalaugarnar komu einkum konur úr úthverfum Reykjavíkur og frá næstu nágrannabæjum sem ekki státuðu af hitaveitu. Árið 1951 var komið upp steypiböðum í þvottahúsinu sem eingöngu voru ætluð þeim konum sem þvoðu í Laugunum. Eftir það gátu aðeins 24 unnið í húsinu í einu. Fram til þessa höfðu þvottabretti verið nær einráð í Þvottalaugunum.
Í árslok 1951 komu fyrstu þvottavélarnar í laugahúsið. Þá fóru konur að flytja þessa kostagripi með sér í Laugarnar. Margar urðu þó að láta sér nægja að nota þvottabrettin enn um sinn.
Sumarið 1976 var ákveðið að loka þvottahúsinu.
Í októbermánuði fengu kraftlyftingamenn afnot af húsinu. Hundrað árum fyrr höfðu formæður þeirra borið þungar byrðar fram og til baka úr Þvottalaugunum. Þær hlutu hvorki gullpeninga fyrir afrek sín né virðingu samferðamanna.

Saklaus smáskemmtun eða uppspretta lauslætis
ÞvottalaugarÍslendingar voru töluvert farnir að nýta heita vatnið í Laugunum til baða á seinni hluta 18. aldar. Þetta kemur fram í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar sem kom út árið 1772. Allstór og djúp baðlaug var suður af Laugarnesi að sögn þeirra félaga. Fyrir neðan hana voru auk þess tveir eða þrír aðrir staðir sem hentuðu vel til baða. Laugarnar voru vel nýttar á laugardags- og sunnudagskvöldum yfir sumartímann. Þá komust stundum færri en vildu í aðallaugina.
Uno von Troil, sem síðar varð biskup í Uppsölum, ferðaðist til Íslands árið 1772. Hann hélt því fram í bók um ferðina að íslenskir elskhugar færu gjarnan í heitt laugabað með festarmeyjum sínum. Sveinn landlæknir Pálsson tók þessi orð von Troil óstinnt upp. Landlæknir fullyrti að ekkert lauslæti væri í baðferðum í Laugarnesi. Þangað færu að vísu bæði karlar og konur sem ferðuðust jafnvel langt að til þess. Kynin færu hins vegar mjög sjaldan saman í bað nema þá hjón. Baðferðirnar væru ekki annað en saklaus smáskemmtun.

Sundlaugar
ÞvottalaugarVorið 1824 var farið að kenna ungum sveinum sund við Laugalækinn. Sextíu árum síðar var lækurinn dýpkaður, breikkaður og stíflaður þannig að lítil laug myndaðist.
Sundfélag Reykjavíkur lét reisa sundskýli við Laugarnar árið 1886. Húsið stóð í miðri lauginni á steinstólpum. Umhverfis skýlið sem var úr timbri voru bryggjur og frá þeim lágu brýr að laugarbökkunum. Sundskýlið var aðeins rétt rúmir 20 fermetrar. Þar voru bekkir meðfram veggjum og þrír litlir fataklefar.
Sundlaug úr steini var loks fullgerð árið 1908. Heitt vatn úr Þvottalaugunum var leitt til hennar í pípum. Eftir að vatnsveitan tók til starfa í árslok 1909 var köldu vatni veitt í sundlaugina. Þá varð mun auðveldara að stjórna hitastiginu í lauginni. Þetta var eina sundlaugin í Reykjavík sem var opin almenningi allt til ársins 1937 þegar Sundhöll Reykjavíkur tók til starfa.
Gömlu sundlaugarnar voru lagðar niður þegar Laugardalslaugin var fullgerð árið 1966.

Fáklæddar konur á almannafæri

Þvottalaugar

Þvottalaugar – málverk Eggerts Guðmundssonar.

Sundfatnaður var lengi vel einkum Adams- og Evuklæði. Eftir að sundskýlið var opnað árið 1886 var bannað að nota laugina nema vera í „sundbuxum“. Í skýlinu var frá upphafi hægt að leigja bæði sundfatnað og þurrkur.
Ekki þótti við hæfi að konur væru fáklæddar á almannafæri fyrr en á þessari öld. Reykvíkingar fengu í fyrsta sinn að berja stúlkur í sundfatnaði augum 1. ágúst árið 1909 þegar sundskáli Grettis var vígður í Skerjafirði. Þessar hugprúðu formæður bæjarbúa voru nánast kappklæddar í samanburði við sundfatnað kynsystra þeirra í dag.
Í sundlaugunum voru sérstakir karla- og kvennatímar framan af. Þá var ekki hætta á því að kynin römbuðu fáklædd saman. Sólbaðsskýli voru einnig kyngreind. Karlaskýlið var lengst af mun stærra. Samt vildi löngum brenna við að strákar væru að klifra upp á vegginn sem skildi að sólbaðsskýlin og horfa á Evudætur.

Vetrarmyrkrið

Þvottalaugar

Kerti.

Reykvískar konur urðu lengi að treysta á sól og mána við vinnu í Þvottalaugunum.
Í svartasta skammdeginu hafa þvottakonur fylgst náið með stöðu tunglsins. Þær sáu lítt til vinnu sinnar nema í tunglsljósi. Ratljós var auk þess háð skini mánans.
Mýrarkeldur og lækir sem blésu upp í leysingum gátu orðið hættulegir farartálmar á leiðinni inn í Þvottalaugar, ekki síst í myrkri. Ljósmeti var lengst af fremur dýrt og nauðsynlegt að fara sparlega með það.
Húsbændur stjórnuðu ljósinu. Þeir hafa sjaldnast séð ástæðu til að senda vinnukonur með ljósfæri í laugaferðir.
Gufa lék um allt nánasta umhverfi Þvottalauganna. Hún gat orðið svo þétt að varla sást handa skil. Oft var því skuggalegt við Laugarnar einkum þegar myrkrið lagðist á sveif með gufunni.
Þvottakonur töldu margar hverjar að reimt væri í Laugunum. Þær höfðu fyrir satt að fólk sem látist hafði af slysum við Þvottalaugarnar vitjaði þeirra á næturnar.

Ljóskerið sem kom bæjarstjórn í uppnám
ÞvottalaugarÁrið 1892 réð bæjarstjórn umsjónarmann að Þvottalaugunum og veitti honum erfðafestu að Laugabóli.
Jón Guðnason var ráðinn laugavörður en hann átti m.a. að hreinsa þvottahúsið. Um miðjan nóvembermánuð leitaði Jón ásjár bæjarstjórnar. Hann óskaði eftir að yfirvöld bæjarins festu kaup á lugt. Náttmyrkur vetrarmánaðanna gerði Jóni illmögulegt að ræsta laugahúsið. Erindi laugavarðar var vel tekið og ákveðið að verja þremur krónum til að kaupa ljósker. Bæjarstjórn áréttaði í sérstakri samþykkt að lugtin væri í eigu bæjarins þótt Jón notaði gripinn. Ljóskerið góða kom verulegu róti á hugi bæjarfulltrúa í ársbyrjun 1893. Jón laugavörður bar ábyrgð á lugtinni. Hann átti að tendra á henni, slökkva og halda hnossinu hreinu. Nú fór Jón fram á að fá tíu potta af steinolíu yfir veturinn til að næra ljóskerið. Þau ósköp gátu bæjarfulltrúar ekki fallist á. Þeir þráttuðu lengi um hvort veita ætti fimm eða sjö pottum af olíu á laugalugtina. Eftir miklar deilur varð loks ofan á að Jón fengi fimm potta yfir vetrarmánuðina.

Þvottahúsin raflýst
þvottalaugarHið íslenska kvenfélag óskaði eftir því við bæjarstjórn í árslok 1895 að sett yrði lugt við þvottahús Thorvaldsensfélagsins. Fallist var á að koma upp ljóskeri á húsinu til reynslu. Yfirvöld óttuðust að lugtin yrði skemmdarvörgum erfið freisting. Ljóskeri var komið upp fyrir utan þvottahúsið. Á því logaði fram á nætur en þá bar laugavörðum að slökkva. Árið 1901 var aðsókn að Þvottalaugunum orðin það mikil að margir kusu að þvo á næturnar. Bæjarstjórnin ákvað þá að láta loga á laugalugtinni á næturnar þegar nauðsyn þótti til.
Í árslok 1923 voru enn aðeins tvær olíulugtir í Þvottalaugunum, báðar utanhúss. Birtugjafar innandyra voru kertaljós og aðrar álíka tírur sem fólk flutti með sér að heiman.
þvottalaugarÞá var loks afráðið að raflýsa Þvottalaugarnar. Raka- og vatnsheldar rafmagnslugtir voru settar upp bæði innandyra og utan. Myrkrið í þvottahúsunum þokaði loks fyrir birtunni 24. september árið 1924. Þá var í fyrsta sinn kveikt rafljós í húsunum.

Hnefar kvenna
Hnefar kvenna voru lengi nær allsráðandi í glímunni við óhreinindin. Þeir kváðu niður þann leiða draug sem gengur þó stöðugt aftur. Konur nudduðu þvottinn milli handanna. Þær reyndu að núa sem liðlegast svo að hann slitnaði sem minnst.
Vinnulúnir laugagestir hafa þó vísast verið sárhentir á heimleið úr Þvottalaugunum.
Þvottakonur gátu hvorki varið hendur sínar gegn heitu og sterku sápuvatni né ísköldu skolvatni.

Þvottaklapp
ÞvottalaugarElsta amboð sem notað hefur verið við þvotta hér á landi er klappið. Það var sennilega notað allt frá landnámi og fram á 20. öld. Á þvottaklappið voru oft skornir upphafsstafir og ártöl. Þá var minni hætta á að það lenti í röngum höndum þegar mannmargt var í Laugunum. Í Danmörku gáfu karlmenn gjarnan konum sínum klapp í brúðargjöf. Þau voru þá iðulega fagurlega útskorin.
Þvottur var lagður á sléttan stein og barinn með klappi. Ullarföt voru gjarnan klöppuð þegar þau voru skoluð. Þannig mátti ná úr þeim sápunni sem ella átti til að brenna þau. Þvottavífl var stafur eða prik og notað líkt og klappið til að berja með þvott svo að óhreinindi losnuðu betur. Vífl eða klapp kom sér einkar vel þegar hræra þurfti í þvottakösinni í Lauginni svo sjóðandi vatnið léki um hverja flík.

Þvottabretti
ÞvottalaugarÞvottabretti námu land á Íslandi fyrir rúmri öld. Þau elstu og frumstæðustu voru fjalir með þverskorum. Blikkbretti leystu þau af hólmi og loks bretti með bylgjugleri. Trégrind umlukti brettið sjálft. Hún var tvífætt. Á efri hluta grindarinnar var dálítið hólf til að geyma sápu. Þvottabrettið var lagt á ská yfir balann. Fætur þess námu við botninn fjær þeim sem þvoði.
Þvottakonan hélt brettinu þétt upp að sér. Hún nuddaði hverja flík með höndunum, eina og eina í senn, upp og niður brettið.
Varlega varð þó að fara með kraftana þegar þvottabretti voru notuð. Þau þóttu slíta fatnaði ótæpilega. Konum var jafnvel ráðið frá því að nota bretti, nema ef vera skyldi á gróf föt.

Dauðaslys

Þvottalaugar

Anna.

Þegar Anna kom inn í Þvottalaugar varð hún að standa úti við vinnuna. Bæjarbúar höfðu ekki hirt um að endurreisa þvottahúsið sem fauk árið 1857. Starfssystur Önnu höfðu mátt strita óvarðar fyrir veðri og vindum við þvottana í tæpa þrjá áratugi. Náttmyrkur var skollið á þegar hún lauk við þvottinn. Þá arkaði hún af stað heim með allt sitt hafurtask á bakinu. Anna hafði unnið sér til hita í Þvottalaugunum. Hún hefur sennilega ekki veitt því athygli að þíða hafði leyst frostið af hólmi. Þegar Anna kom að Fúlutjarnarlæk hugðist hún fara yfir hann á snjóbrú.
Lækurinn var hins vegar búinn að éta neðan úr henni í blotanum. Snjóbrúin brast undan Önnu og hún féll í lækinn.
Morguninn eftir fannst hún örend liggjandi á grúfu í Fúlutjarnarlæk. Balinn og blautur þvotturinn með öllum sínum þunga hvíldu á Önnu.

Þvottakona drukknar í Fúlutjarnarlæk
þvottalaugarÍ lok janúarmánaðar árið 1885 var Anna Þorsteinsdóttir, 46 ára vinnukona, send inn í Þvottalaugar. Hún var vistráðin hjá Þórði tómthúsmanni Guðmundssyni og konu hans Sigríði Hansdóttur. Hjónin áttu þrjár ungar telpur. Á heimili þeirra í Lækjargötu voru einnig tveir vinnumenn og tvær vinnukonur. Anna hefur því vísast verið með töluvert af fatnaði þegar hún lagði af stað í frostköldu veðri. Úr miðbæ Reykjavíkur og inn í Þvottalaugar eru rúmir þrír km. Þá leið bar Anna þvottinn, balann og annan farangur á bakinu.

Ekkert á móti því að sjóða nokkra kvenmenn
þvottalaugarÍ lok 19. aldar voru þvottakonur búnar að vinna sér fastan sess í Reykjavík. Stöndugar húsmæður réðu gjarnan konur til að sjá um þvotta.
Soffía Ólafsdóttir var nafnkennd þvottakona í bænum, jafnan kölluð Lauga-Soffía. Um miðjan febrúarmánuð árið 1894 var hún sem oftar við vinnu sína í Þvottalaugunum. Þar gat verið erfitt að fóta sig á hálum klöppum, einkum fyrir 66 ára gamla konu eins og Soffíu sem hlaut að bera merki erfiðis og þreytu. Eitt augnablik missti hún fótanna og féll við það í þvottahverinn. Þar svall um 70 gráðu heitt vatn sem varð Soffíu Ólafsdóttur þvottakonu að aldurtila. Rúmum fjórum árum síðar biðu sömu örlög Kristínar Ólafsdóttur. Hún lést 25. ágúst 1898, 63 ára að aldri, eftir að hafa dottið í hverinn.
Aldamótaárið voru þessi hörmulegu slys rifjuð upp í blaðagrein sem birtist í Fjallkonunni. Þar var m.a. hvatt til þess að settar yrðu upp járngrindur við laugarnar til að koma í veg fyrir fleiri dauðsföll. „En verið getur“, skrifar höfundur, „að mönnum sýnist þetta óþarfi og að ekkert þyki á móti því að sjóða nokkra kvenmenn í hvernum ennþá.“

Kona með barni fellur í þvottahverinn
þvottalaugarÁrið 1901 leituðu sálusorgarar landsmanna gjarnan til húsmóður í Austurstræti. Björg Sigurðardóttir bjó að fagkunnáttu sem þjónaði snyrtilegum prestum. Hún kunni þá list að þvo og stífa prestakraga.
Eiginmaður Bjargar var Ásgrímur Eyþórsson verslunarmaður. Sonur þeirra hjóna Eyþór var á þriðja ári. Björg var farin að gildna undir belti í lok júlímánaðar árið 1901. Hún hélt engu að síður með prestakraga inn í Þvottalaugar. Björg var í þann mund að ljúka verki sínu þegar hún missti jafnvægið og steyptist í hverinn. Nærstaddar þvottakonur náðu Björgu upp. Þær bjuggu um hana í kerru með þvotti og hröðuðu sér til bæjarins.
Tæpum þremur sólarhringum síðar, 25. júlí árið 1901, lést Björg Sigurðardóttir aðeins 27 ára að aldri. Vonum seinna fór bæjarstjórn Reykjavíkur nú fyrst að huga að öryggi laugagesta.

Aukið öryggi
ÞvottalaugarÞvottahús Thorvaldsensfélagsins var orðið of lítið árið 1895. Húsið gat ekki hýst allan þann fjölda sem sótti í Þvottalaugarnar. Reykvíkingar urðu því iðulega að feta í fótspor formæðra sinna og þvo undir berum himni. Vatnsskortur í Reykjavík var farinn að setja mark á bæjarlífið um aldamótin. Stöðugt fleiri íbúar höfuðstaðarins leituðu því í Laugarnar. Þar var ekki hörgull á vatni, hvorki köldu né heitu.
Á vormánuðum árið 1901 fór bæjarstjórn loks að huga að stækkun þvottahússins. Fljótlega var þó ákveðið að verja allt að 2000 krónum til að byggja nýtt hús. Knud Zimsen verkfræðingur hvatti þá til gagngerðra endurbóta. Hann vildi breyta öllum aðstæðum í Laugunum. Þvottahverinn ætti að byrgja. Vatni bæri að veita inn í þvottahúsið. Leggja skyldi lokað skólpræsi frá húsinu og út í mýri. Zimsen lagði auk þess til að fastir balar væru í þvottahúsinu og tveir kranar við hvern. Annar með heitu vatni en hinn með köldu.
þvottalaugarHugmyndir hans miðuðu einkum að betri þrifnaði á svæðinu og öryggi laugagesta. Þær kostuðu hins vegar tíu sinnum hærri upphæð en bæjarstjórn hafði ákveðið að leggja til verksins. Þetta var of stór biti til að sporðrenna í heilu lagi.
Bæjaryfirvöld viðurkenndu þó að nauðsynlegt væri að tryggja betur öryggi laugagesta. Sumarið 1902 voru hlaðnar upp tvær laugar við sitt þvottahúsið hvor. Tréplankar voru settir á hliðarbarma laugabakkanna og í þá fest bogagrindum sem náðu yfir laugarnar. Umhverfis þær var loks steypt steinstétt. Bogagrindurnar áttu að koma í veg fyrir að fólk félli í laugarnar. Þær bættu ekki aðeins öryggi laugagesta. Vinnuaðstaða breyttist til hins betra. Nú var hægt að liggja á hnjánum á tréplönkunum og halda í grindurnar.

Þvottalaugar

Gölu þvottalaugarnar.

Áður hafði fólk ýmist legið á hnjánum við þvottana eða staðið hálfbogið yfir laugunum. Á járngrindurnar mátti auk þess leggja sjóðheitan þvottinn og láta renna úr honum. Laugin við þvottahús Thorvaldsensfélagsins var einkum nýtt þegar mannmargt var í Þvottalaugunum. Franskir skútusjómenn notuðu hana einnig töluvert þegar þeir voru að þvo. Vestari laugin var mun vinsælli. Í henni var vatnið heitara og meira. Laugin stóð auk þess við yngra húsið sem þótti að vonum betra.

Bærinn reisir hús
Í árslok 1901 var nýja þvottahúsið risið við Laugarnar. Þetta var fyrsta húsið sem bæjarstjórn lét smíða á eigin kostnað í Þvottalaugunum. Í því voru þvottaborð og bekkir fram með báðum hliðum og einnig eftir endilöngu steinsteyptu gólfinu.
ÞvottalaugarHúsið var tæpir 80 fermetrar að stærð. Þar gátu 30 og allt upp í 50 manns unnið í einu.
Laugahús Thorvaldsensfélagsins var eigi að síður nýtt áfram. Ekki veitti af báðum húsunum til að hýsa allan þann fjölda sem sótti í Laugarnar.
Þvottahúsin gátu veitt milli 60 og 100 mönnum skjól. Í steinþrónum fyrir utan húsin gátu auk þess um 50 manns þvegið í einu. Þegar líflegast var í Þvottalaugunum má ætla að á annað hundrað menn hafi verið þar saman komnir. Allt frá börnum sem komu í fylgd mæðra sinna og upp í vinnulúna og aldraða Reykvíkinga. Þar mátti einnig gjarnan sjá hattprýdda erlenda hefðarhálsa spígspora milli íslenskra alþýðukvenna.

Þvottalaugar

Reykjavík – Þvottalaugar; minnismerki.

Laugahús Thorvaldsensfélagsins fékk nýtt hlutverk á kreppuárunum. Eftir það var aðeins eitt þvottahús í Laugunum. Timburhús sem stöðugt er umlukið vatni og gufu gengur fljótt úr sér. Í lok fjórða áratugarins var þvottahúsið orðið mergfúið og gisið. Rottur áttu því greiða leið inn og sóttu í bita þvottakvenna. Sápa var jafnvel ekki óhult fyrir gini óboðnu gestanna. Þvottahúsið var orðið mjög hrörlegt í árslok 1941. Þá hafði óveður sprengt annan gaflinn frá hliðunum. Ekki þótti svara kostnaði að gera við húsið en ákveðið að byggja nýtt í staðinn.

Þvottalaugarnar – fyrr og nú
Knud Zimsen verkfræðingur, síðar borgarstjóri lagði til róttækar breytingar á öllum aðstæðum í Þvottalaugunum árið 1901. Rúmum 40 árum síðar voru þær loks allar komnar til framkvæmda. Hins vegar voru öryggisgrindur þvottahveranna settar upp strax sumarið 1902.

Þvottalaugar

Í Þvottalaugunum skjóta mannvirki nú upp kollinum hér og þar, hlaðnar laugar með bogagrindum, borholur og húsatóftir.
Sýningargrind er brot úr minningu þvottahúss sem reist var á sama stað árið 1901. Laugalækurinn hefur vikið fyrir gróðri en eftir stendur vegghleðslan meðfram farvegi lækjarins. Þar sem reykvískar konur lögðu eða hengdu þvott til þerris í meira en hundrað ár eru nú línhvít blómabeð.

Þvottahúsið 1833
þvottalaugarÍ lok 18. aldar var farið að nota heita vatnið í Laugunum nokkuð til þvotta. Vatn úr sjóðandi uppsprettum rann í dálitla tjörn sem bæjarbúar notuðu sem þvottapott. Skammt frá tjörninni var grasi gróinn hóll. Þar tjölduðu Reykvíkingar og aðrir sem gistu við laugina. Lengi vel var náttúrulegi suðupotturinn í Laugunum aðallega nýttur á sumrin. Á fyrstu áratugum 19. aldar fjölgaði þeim Reykvíkingum mikið sem lögðu leið sína í Laugarnar með óhreinar spjarir.
Þvottalaugarnar voru nýttar af allflestum heimilum í Reykjavík um 1830. Af þeim sökum beitti Ulstrup bæjarfógeti sér fyrir almennum samskotum meðal bæjarbúa til að smíða hús yfir laugagesti árið 1833. Í þvottahúsinu voru bekkir til að tylla bölum á, hillur meðfram veggjum fyrir þvott og fimm balar. Fyrir utan húsið var komið upp snúrustólpum. Húsið veitti þvottakonum kærkomið skjól í tæpan aldarfjórðung. Í aftakaveðri árið 1857 fauk laugahúsið illu heilli.
Næstu 30 árin var ekkert skýli í Þvottalaugunum

Þvottahús Thorvaldsensfélagsins
þvottalaugarReykjavíkurbær festi kaup á Laugarnesinu árið 1885. Þá hafði Thorvaldsensfélagið, fyrsta kvenfélag sem stofnað var í bænum, starfað í tíu ár.
Félagið lét reisa hús við Þvottalaugarnar á sinn kostnað árið 1888. Jakob Sveinsson snikkari smíðaði húsið, sem var tæpir 80 fermetrar. Viku eftir að húsið var opnað var hins vegar búið að brjóta nær allar rúður í því og stela snúrunum.
Thorvaldsensfélagið ákvað að gefa Reykjavíkurbæ laugahúsið árið 1889. Bæjarfulltrúar voru ekki sammála um hvort taka ætti við gjöfinni. Einn þeirra hélt því fram að þvottahúsið væri eingöngu notað af kvenfólki sem enginn kærði sig um og átti þá við vinnukonur. Félagar hans í bæjarstjórn, sem vildu þiggja laugahúsið, urðu þó ofaná.
Yfirvöld bæjarins viðurkenndu þar með í verki að þeim bæri skylda til að veita íbúum Reykjavíkur þokkalega vinnuaðstöðu í Þvottalaugunum.
þvottalaugarÁrið 1893 var þvottahúsið stækkað. Í viðbyggingunni voru tvö náðhús, þau fyrstu sem reist voru í Þvottalaugunum. Framan af var timburgólf í húsinu. Það náði sjaldan eða aldrei að þorna og varð fljótlega hættulegt gestum. Á vormánuðum árið 1896 var loks steypt gólf í húsið.
Þvottahúsið fylltist oft og komust gjarnan færri að en vildu. Þar fór ágætlega um 30 konur. Þær urðu þó iðulega helmingi fleiri og varð sambúðin þá að vonum stirðari. Stundum slettist upp á vinskapinn meðal gestanna í þvottahúsinu.
Konur sem höfðu lifibrauð sitt af þvottum voru fastagestir í húsinu. Þær þóttu sumar hverjar ráðríkar og yfirgangssamar. Í laugahúsinu ríkti sjaldan þögn. Þar var bæðið talað og hlegið svo dátt að undirtók í timburhúsinu.
Í þvottahúsi Thorvaldsensfélagsins var unnið við þvotta allt fram á fjórða áratug líðandi aldar. Þá var húsið hins vegar tekið undir geymslu, m.a. fyrir Hitaveituna. Kvenfélög í Reykjavík fetuðu mörg hver í fótspor Thorvaldsensfélagsins og beittu sér fyrir betri vinnuaðstöðu í Þvottalaugunum.

Balar
þvottalaugarBalar voru nauðsynlegir þarfahlutir sem ekkert heimili gat verið án. Beykjar í Reykjavík smíðuðu og seldu bala af ýmsum stærðum og gerðum. Fátækir bæjarbúar klömbruðu gjarnan sjálfir saman einfaldari bölum. Þeir urðu sér úti um olíutunnu og söguðu hana sundur í miðjunni. Í öllum þvottahúsunum fjórum sem reist voru í Laugunum voru nokkrir stórir balar sem gestir máttu nota að vild. Þeir sem fyrstir komu í húsin að morgni gátu tryggt sér bala. Hinir voru mun fleiri sem komu með bala að heiman. Fæstir hafa þorað að treysta á að laugabalarnir væru til reiðu þegar grípa þurfti til þeirra.
Konur komu stöku sinnum í Þvottalaugarnar um það leyti sem húsum var lokað. Þá lögðu þær þvottinn í bleyti, breiddu þykkt og gott stykki yfir balann og héldu að því búnu heim. Þær mættu síðan aftur í bítið næsta morgun til glímunnar við óhreinindin. Mun léttara var að ná óþverra úr þvotti þegar heitt vatn, sápa og sódi hafði unni á honum yfir nóttina.

Fötur

þvottalaugar

Fata.

Allt fram á fimmta áratug 20. aldar voru fötur ómissandi í farangri kvenna sem sóttu í Þvottalaugarnar. Oftast var hægt að ganga að vatninu vísu í Laugunum en konur urðu að sækja hvern dropa sjálfar. Þær urðu að ná í heitt vatn í þvottahverina og bera inn í húsin. Það kostaði oftar en ekki margar ferðir með skjólurnar. Þvottakonur brenndust stundum illa þegar heitt vatnið skvettist úr fötunum. Allt nánasta umhverfi þvottahúsanna var að vonum síblautt. Erfitt var að fóta sig í bleytunni sem var menguð af sápu eða á hálum klöppum með þunga vatnsskjólu í hendinni. Ekki bætti vetur konugur og fylgjur hans úr skák. Svellalög lágu um allt svæðið á vetrum.

Minni vatnsburður

Í þvottahúsunum voru gólfin jafnan fljótandi í vatni. Rennur sem áttu að taka við skólpi höfðu ekki alltaf undan. Óhroðinn rann þá niður tröppur á húsunum. Gestir sem notuðu þvottahús Thorvaldsensfélagsins urðu oft að leysa jafnvægisþraut til að komast inn í húsið.

Þvottalaugar

Í Þvottalaugunum.

Á uppgangi þvottahússins var lengi vel ekkert handrið. Þar gat því orðið erfitt að fóta sig með skjólu fulla af heitu vatni. Öllu verri var þó stiginn á þvottahúsinu sem reist var árið 1901. Tröppurnar voru mjög brattar og handrið úr járni öðru megin. Þegar þvottakonur komu úr húsinu með heitar og dofnar hendur úr balanum var ekki heiglum hent að taka um járnhandriðið í frosti. Kvennadeild Jafnaðarmannafélagsins benti bæjarstjórn á þessi augljósu vankanta á þvottahúsunum árið 1922 og leiðir til úrbóta. Yfirvöld tóku vel í tillögur félagsins. Skömmu síðar voru sett tréklædd handrið við þvottahúsin og tröppur lækkaðar. Kvenfélagið lagði auk þess til að lagt yrði rennandi vatn í húsin.
Knud Zimsen hafði fyrstur manna borið þá hugmynd undir bæjaryfirvöld 20 árum fyrr. Nú var hann sjálfur borgarstjóri og hafnaði kröfunni. Vatn var loks leitt í þvottahús í Laugunum árið 1942. Þá fyrst var þreytandi vatnsburði létt af herðum þvottakvenna og hættan á brunaslysum minnkaði verulega.

Leiksvæði barna
þvottalaugarLaugaferðir tóku að jafnaði 10 til 15 tíma. Konur neyddust því iðulega til að taka börn með í Þvottalaugarnar.
Mæður áttu stundum ekki nema tvo kosti og báða slæma. Þær urðu að trúa götunni fyrir afkvæmum sínum eða taka þau með inn í Laugar. Oftar en ekki völdu þær síðari kostinn. Þá vissu þær af ungviðinu nálægt sér og gátu litið upp frá þvottabrettunum og haft auga með því. Ung börn sem gátu ekki fótað sig í heiminum voru bundin niður milli laugapokanna og dregin á sleðum eða vögnum. Þau eldri urðu að ganga í Laugarnar.
Margt bar fyrir lítil augu og eyru í Þvottalaugunum. Þar voru oft erlendir gestir sem stungu gjarnan bragði frá framandi löndum upp í smáfólkið. Stálpaðir krakkar fundu sér ýmis „leiktæki“ í Laugunum, sum býsna hættuleg. Girðingar, snúrustólpar, ljósker, skúrar og jafnvel öryggisgrindur þvottahveranna komu í stað klifurgrinda.
Smáfætta fólkið reyndi einnig getuna í langstökki yfir Laugalækinn.

Bannað börnum
ÞvottalaugarSmáfólkið gleymir sér gjarnan í hita leiksins. Í Þvottalaugunum leyndust margar hættur fyrir börn. Mæður hafa eflaust oft haft áhyggjur af leik afkvæma sinna í Laugunum. Þar urðu stöku sinnum alvarleg slys á yngstu bæjarbúunum. Sumarið 1917 var börnum innan við fermingu bannað að koma í Þvottalaugarnar nema í fylgd með fullorðnum. Þeim var aukinheldur bannað að leika sér á svæðinu.
Þá var öllum börnum forboðið að koma nálægt þvottahverunum. Þar var iðulega mikill handagangur. Töluverð hætta var á því að heitt vatn skvettist á þá sem leið áttu hjá laugunum. Yfirvöld bæjarins treystu sér ekki til að ganga lengra og banna börnum aðgang. Þá hefðu þau í raun útilokað þær konur frá Þvottalaugunum sem ekki áttu vísa gæslu fyrir börn sín. Í júnímánuði árið 1918 féll 5 ára telpa í þvottahverinn og lést. Eftir slysið forbauð borgarstjóri börnum yngri en 14 ára að koma í Laugarnar. Það var hins vegar aldrei hægt að framfylgja banninu til hlítar. Laugaverðir aftóku að bera nokkra ábyrgð á öryggi barna á svæðinu. Þeir töldu það ekki í verkahring sínum að sinna barnagæslu enda væri börnum óheimilt að koma í Þvottalaugarnar. Mæður sem komu með börn sín urðu sjálfar að sjá um að þau færu sér ekki að voða.

Vinna barna
þvottalaugarKarlmenn eiga margir góðar minningar frá æskudögum úr Þvottalaugunum. Strákum þótti gaman að fylgjast með mannlífinu í Laugunum. Drengir drógu oft sleða eða vagna fyrir mæður sínar. Þeir sóttu einnig heitt vatn í þvottahverinn og báru í þvottahúsið. Á sumrin gátu snáðar jafnvel unnið sér inn fáeina aura með því að gæta hesta erlendra gesta sem sóttu Þvottalaugarnar heim. Skyldustörf strákanna voru ekki tímafrek. Þeir höfðu meira svigrúm til leikja en telpur. Konur virðast ekki eiga eins gleðiríkar æskuminningar úr Þvottalaugunum og karlmenn. Mæður byrjuðu snemma að kenna dætrum sínum helstu handtökin við þvottana. Ungar hnátur hófu yfirleitt verknámið með því að vinda úr sokkum. Um fermingu voru stúlkur hins vegar taldar fullgildar þvottakonur.

Bætt þjónusta í Laugunum

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar 1932.

Á stríðsárunum fyrri var mikill skortur á kolum á Íslandi. Í árslok 1916 varð því að grípa til skömmtunar. Í maímánuði árið 1917 voru kol seld á nær 300 krónur smálestin. Dagvinnulaun verkakvenna voru þá 36 aurar á tímann. Alþýðufólk eyddi ekki dýrum eldsmat til að hita vatn í þvotta, enda var nóg af heitu vatni í Þvottalaugunum. Reykvíkingar hópuðust því í Laugarnar þar sem þvottar kostuðu engin útlát. Bæjarstjórn mætti þörfum fjöldans með bættri þjónustu í Þvottalaugunum. Yfirvöld bæjarins komu á reglulegum áætlunarferðum í Laugarnar með þvott sumarið 1917. Þá voru einnig ráðnir tveir umsjónarmenn í Þvottalaugarnar. Þeir áttu að hafa eftirlit með húsum, girðingum, mannvirkjum og munum bæjarins á staðnum.
Umsjónarmennirnir tóku einnig á móti þvotti sem bæjarstjórn lét flytja í Laugarnar.

Laugarferðir verkakonu
þvottalaugarSíðustu daga októbermánaðar árið 1916 var stillt og gott veður í Reykjavík en næturfrost. Þriðjudaginn 31. október fór Elka Björnsdóttir, 35 ára verkakona, í Þvottalaugarnar. Hún var með þvott af sér og bróður sínum Ólafi. Elka fékk lánaðar litlar hjólbörur hjá nágranna sínum fyrir farangurinn í Þvottalaugarnar. Verkakonan skrifaði dagbók og segir þannig frá laugarferðinni í bók sinni:
„Það var hálfhart og óslétt að aka inneftir en því verr heim því þiðnað hafði, en börurnar ekki góðar og þvotturinn mikill og ég ónýt; ég hélt ég mundi ekki komast heim, en fór alveg með mig, en heim komst ég þó með guðs hjálp og var lengi að taka mig. Dagana á eftir þurrkaði ég, enda var þá þurrkurinn að byrja. (Handritadeild Landsbókasafns: Lbs 2235, 8vo. Dagbók Elku Björnsdóttur frá Skálabrekku, 22. mars 1916 til 17. september 1917“.

Þvottaluagr

Þvottalaugarnar 2020.

Á stríðsárunum þvoði Elka aðallega í Þvottalaugunum eins og flestar kynsystur hennar í Reykjavík. Elka leigði risherbergi að Laugavegi 60 á fyrstu árum stríðsins. Tveir yngstu bræður hennar gistu oft í risherberginu hjá systur sinni. Yfirleitt fór Elka í Laugarnar á þriggja vikna fresti þegar veður leyfði. Oftar en ekki var hún einnig með þvott af bræðrum sínum. Laugarferðir Elku tóku að jafnaði rúmar fimm stundir og allt upp í 12 tíma. Stöku sinnum þvoði hún á næturnar en oftast lagði Elka af stað í Þvottalaugarnar snemma á morgnana. Kröfur magans urðu að ganga fyrir öðrum þörfum verkakonunnar í risinu á Laugaveginum.
Laun Elku hrukku vart fyrir húsaleigu og fæði. Fatnaður og skór mættu afgangi í útgjöldum hennar. Þvottadagar Elku voru í höndum veðurguðanna. Oft var erfitt að þurrka þvott í risherberginu. Ullarfatnaður gat verið rúma viku að þorna hjá Elku.
Verkakona sem vart átti til skiptana á kroppinn varð að treysta á þurrk í Laugarferðum. Þungu fargi var létt af herðum Elku þegar þvottadagar voru að baki. Tímafrek stritvinna þvottanna gekk nærri þreki hennar og heilsu.

Þvottalaugarnar – Fyrsta skipulagið 1901

Þvottalaugar

Þvottalaugarnar fyrrum.

 

Sápa, sódi og þvottaefni
ÞvottalaugarFæst óhreinindi eru leysanleg í vatni og gildir þá einu hve lengi þvotturinn er núinn. Sápa og sódi voru nauðsynleg hjálparmeðul í baráttunni fyrir hreinleikanum. Vatn nær að þrengja sér betur á milli einstakra þráða vefjarefnis og losa óhreinindi með hjálp sápunnar. Áhrif sóda eða lúts eru svipuð og kalla auk þess fram eiginleika sápunnar. Lengi vel voru öll þvottaefni sápa sem mulin var niður, bætt í hana sóda og jafnvel ýmsum öðrum efnum.
Stangasápa var notuð til þvotta í heitu vatni en grænsápa í volgu vatni og til hreingerninga. Á fimmta og sjötta áratug 20. aldar komu til sögunnar þvottaefni sem sameinuðu kosti sápu og sóda. Áhrif þeirra voru auk þess jafnmikil í volgu og heitu vatni.

Munaður örfárra karlmanna
Á 19. öld varð notkun á sápu fyrst almenn á Íslandi. Framan af var hún munaður sem örfáir karlmenn veittu sér við rakstur. Öll mótuð sápa var lengi vel kölluð skeggsápa hér á landi. Í lok 19. aldar var farið að flytja nokkuð af sápu til landsins.
Ef aðfluttri sápu hefði verið skipt jafnt meðal landsmanna árið 1872 hefðu komið rúm 500 grömm á hvert mannsbarn í landinu. Þau urðu að duga bæði til líkamsþvotta og í allan annan þvott.
Flestir reyndu því að spara sápuna í lengstu lög. Húsmæðurnar báru hana jafnvel sjálfar í fatnað sem þveginn var þótt vinnukonur sæju að öðru leyti um þvottinn. Í lok 19. aldar voru hagsýnir Reykvíkingar hvattir til að sækja Þvottalaugarnar.
Þeir gætu bæði sparað eldsmat og sápu með því að nýta heita vatnið til þvotta.

Heimsfriður í Þvottalaugunum

Þvottalaugar

Þvottalaugar – Friðrik VIII við laugarnar.

Þvottalaugarnar voru lengi einn vinsælasti viðkomustaður þeirra erlendu ferðamanna sem komu til Reykjavíkur. Þar mátti iðulega sjá prúðbúnar hefðardömur, hattskrýdda herra og virðulega vísindamenn spranga um meðal reykvískra alþýðukvenna. Hefðarfólkið leigði sér hesta til ferðarinnar og kom gjarnan saman í hópum. Ungir snáðar gátu þá unnið sér inn aura með því að halda í hesta ferðafólksins meðan það skoðaði mannlífið.
Á vormánuðum þegar farfuglar fóru að tínast til landsins sigldu franskar skútur í tugatali inn á höfnina í Reykjavík. Sjómennirnir lögðu iðulega leið sína inn í Þvottalaugar með saltstorkinn fatnað. Þeir báru þvottapoka úr segldúk á bakinu inn í Laugar. Biskví var jafnan með í för og auðvitað voldug skipskannan fyrir hverakaffið. Þorvaldur Guðmundsson forstjóri í Síld og fiski var barnungur þegar hann fór með móður sinni í Þvottalaugarnar á stríðsárunum fyrri. Þá var alþjóðlegur bragur á lífinu í Laugunum. Þorvaldur segir:
„Fransmenn, kannski af mörgum skútum, marseruðu inn eftir með pokana á bakinu og á stórum klossum sem vöktu mikla athygli því að þeir voru óþekktir hér. Og svo komu Færeyingar með sínar fallegu húfur og þetta mættist allt inn í Þvottalaugum. … Þarna mátti segja að talaðar væru ýmsar tungur, en allir skildu hvern annan því að þeir voru í þessu góða þjónustuskapi eins og vera ber milli þjóða. Þarna var heimsfriður eins og maður getur bara sagt.“ (Guðjón Friðriksson: Reykjavík bernsku minnar. Nítján Reykvíkingar segja frá. Reykjavík 1985, 197-198.)

Dýrðlegasti staður jarðarkringlunnar
þvottalaugarErlendir gestir sem komu til Reykjavíkur létu margir ekki hjá líða að fara í Sundlaugarnar. Flestir hafa þeir eflaust haft kynni af mun glæsilegri sundlaugum að öllum ytra búnaði. En erlendu laugarnar státuðu hins vegar fæstar af jafn heitu vatni og Sundlaugin í Reykjavík. Sumarið 1925 kenndi Ingibjörg Guðbrandsdóttir, sem jafnan var kölluð Imba Brands, reykvískum hnátum sund eins og hún hafði gert undangengin 17 sumur. Í skýrslu sem Imba sendi um kennsluna til bæjarstjórnar Reykjavíkur sagði hún m.a.:
„Ég vil leyfa mér, að taka það fram, að þær útlendu konur sem notuðu Sundlaugarnar, voru svo ánægðar með veru sína þar innfrá, að engu tali tók. Ég man sérstaklega eftir einni sextugri noskri dömu sem oft kom inneftir og synti, að hún sagði fleirum sinnum að þessi Sundlaug væri sá dýrlegasti staður sem hún hefði hitt fyrir á lífsleiðinni, og hafði hún þó ferðast í kringum hnöttinn og dvalið víða“.

Vélvæðing heimilisstarfanna
þvottalaugarEftir að Reykvíkingar fengu rafmagn árið 1923 fór heimilistækjum að fjölga hjá betri borgurum í bænum. Stöndugar húsmæður í Reykjavík höfðu þó margar eignast suðupotta eftir að vatnsveitan tók til starfa árið 1909. Íslendingar kynntust hins vegar heimilistækjum fyrst að einhverju marki á stríðsárunum síðari. Á haftaárunum, 1947-1951, varð innflutningur á heimilistækjum háður leyfum og gjöldum. Skatturinn á tækjunum nam þá um helmingi af kaupverði. Yfirvöld flokkuðu heimilistæki til munaðarvarnings. Vélvæðing heimilisstarfanna var ekki á forgangslista þeirra. Vinnuálag á húsmæður í Reykjavík fór vaxandi, þær áttu æ erfiðara með að fá vinnukonur til starfa. Á sama tíma voru gjöld á tækjum sem léttu undir með húsmæðrum bæjarins gríðarlega há. Þær urðu því flestar sem fyrr að puða við brettin á þvottadögum.

Þvottavélar
Þvottavélar léttu miklu erfiði af konum við stritvinnu þvottanna. Vélarnar voru hins vegar frekar á tíma og býsna háværar. Þær voru gjarnan með handsnúnum vindum og tóku hvorki inn á sig vatn né hituðu það. Þá varð að hleypa af þeim vatninu að loknum þvotti. Vélarnar kölluðu því á stöðuga athygli kvenna. Á millistríðsárunum fóru efnameiri heimili í Reykjavík að státa af þvottavélum. Í upphafi sjötta áratugarins voru engu að síður fáar fjölskyldur í bænum sem áttu þessa kostagripi.

Vélar í Þvottalaugarnar
ÞvottalaugarÁrið 1951 fóru að berast skellibjölluhljóð úr þvottahúsinu í Laugunum. Þau komu frá tveimur þvottavélum sem konur gátu tekið á leigu. Tæpum áratug síðar gátu átta vélar argað saman í þvottahúsinu. Mannsröddin laut í lægra haldi fyrir vélunum og þvottakonur unnu verk sín þegjandi. Árið 1960 sóttu að jafnaði milli 300-500 konur í laugahúsið mánaðarlega. Sumar þeirra komu með þvottavélar sínar að heiman. Þá var vélunum, sem ekki voru nein smásmíði, ekið í Þvottalaugarnar. Konur gátu þó einnig geymt vélarnar í laugahúsinu milli þvotta.
Þvottahús og straustofur voru rekin í Reykjavík allt frá fyrsta áratug 20. aldar. Fæstir bæjarbúar gátu þó veitt sér þann munað að kaupa þjónustu þeirra. Í ársbyrjun 1952 tók fyrsta almenningsþvottahúsið með sjálfvirkum þvottavélum til starfa í bænum. Þar var hægt að leigja vélar til þvotta. Konur sem sóttu í Þvottalaugarnar fengu hins vegar bæði frítt vatn og rafmagn.
Ekkert þvottahús í bænum bauð upp á betri kjör á sjötta áratugnum en laugahúsið við gömlu Þvottalaugarnar.

Gullborinn
ÞvottalaugarÁ vormánuðum árið 1928 ákvað bæjarstjórn Reykjavíkur að kaupa jarðbor og byrja rannsóknir á jarðhita í bæjarlandinu.
Haglaborinn sem bærinn keypti var jafnan nefndur Gullborinn. Mastrið á bornum er þrífótur úr stálrörum, sex til sjö metra hár. Gullbornum fylgdu um 300 m af borstöngum en hann gat í raun borað helmingi dýpri holur.
Á árunum 1928-1942 var byrjað á 15 borholum í Þvottalaugunum og næsta nágrenni. Af þeim var lokið við 14 holur. Boranir hófust 26. júní árið 1928 og var að mestu lokið 19. maí 1930. Rafmagnsveita Reykjavíkur stóð að þessum jarðborunum í Laugunum. Kanna átti möguleika á því að nota gufuna til þess að framleiða rafmagn. Það höfðu Ítalir gert með góðum árangri á jarðhitasvæði hjá Larderello nálægt Toskana.
Vatnið í borholunum við Þvottalaugarnar reyndist þó ekki nógu heitt til að nýta mætti gufuna til rafmagnsframleiðslu. Þá lagði Rafmagnsveita Reykjavíkur til að vatnið yrði notað til að hita hús.

Laugaveitan
ÞvottalaugarHitaveita Þvottalauganna var lögð árið 1930. Vatnsæðar veitunnar voru rétt tæpir fimm km og lágu frá Reykjaveg að Snorrabraut. Það voru einkum börn og sjúklingar sem nutu Laugaveitunnar.
Austurbæjar- og Laugarnesskólinn voru tengdir við veituna. Landspítalinn, sem tók til starfa í árslok 1930, naut einnig heita vatnsins úr Þvottalaugunum. Þá var loks lögð hitaveita í um 60 íbúðarhús í næsta nágrenni við Austurbæjarskólann. Þegar Sundhöll Reykjavíkur var opnuð árið 1937 var afrennsli Austurbæjarskólans notað í laugina.
Nánasta umhverfi Þvottalauganna breyttist óhjákvæmilega nokkuð með hitaveitunni.
Þvottalaugin við laugahúsið sem reist var árið 1901 fékk nýtt hlutverk. Steypt var þró yfir laugina og vatnið úr henni virkjað. Við boranir í Þvottalaugunum þvarr hins vegar uppsprettan í þvottahvernum við laugahús Thorvaldsensfélagsins. Þá var gripið til þess ráðs að leggja pípu frá einni borholunni í þvottalaugina. Konur gátu því sem fyrr gengið að sjóðandi heitu vatni vísu til þvotta í Laugunum.
Níu árum eftir að Laugaveitan fór að ylja börnum og sjúklingum í austurbæ Reykjavíkur hófust framkvæmdir við hitaveituna frá Reykjum. Þá var lagt upp með reynslu og þekkingu af vinnunni við Laugarnar, sem hlaut að vera ómetanlegt veganesti.
Reykvíkingar höfðu sannarlega ástæðu til að fagna tilkomu hitaveitunnar, ekki síst konur. Reykháfar bæjarbúa höfðu áður spúð kolasóti yfir vegfarendur og óhreinindin settust að vonum á fatnað fólks og heimili. Kolakyndingin kostaði konur gríðarlega vinnu við þvotta og hreingerningar. Yfir höfuðstað landsins lá iðulega svartur reykjarmökkur.
Hitaveitan útrýmdi kolareyknum úr Reykjavík, hreinsaði andrúmsloftið og hleypti geislum sólarinnar að bæjarbúum. Hún sparaði Reykvíkingum vissulega útlát vegna kyndingar. En hitaveitan varð auk þess mikilvægt heilbrigðismál fyrir bæjarbúa.

Heimild:
-https://borgarsogusafn-api.prod.thon.is/uploads/T_Hvottalaugarnar_abe3b01315.pdf
Menningarmerkingar í Reykjavík

Þvottalaugar

Gömlu þvottalaugarnar – stytta Ásgríms Jónssonar af „Þvottakonunni“.