Tag Archive for: tófuhreiður

Húsatóftir

Eftirfarandi um sögu refaveiða er úr riti Landverndar 1980. Höfundur er Páll Hersteinsson:

Ref-1

Refagildra við Húsatóftir.

Forfeður okkar höfðu veitt loðdýr öldum saman, áður en þeir fluttust til Íslands fyrir 1100 árum. Það er því ekki að undra, að þeir skyldu veiða tófur hér frá upphafi. Refskinn voru líka löggiltur gjaldmiðill og talin jafnvirði lambagæra á þjóðveldistímanum og lengur. Einnig ber snemma á því, að refurinn hafi verið álitinn skaðvaldur. Í Grágás og Jónsbók er tekið fram að melrakkar séu á hvers mann jörðu óheilagir. Árið 1295 var samþykkt á Alþingi að hver sá maður sem hefði 6 sauði á vetri í sinni ábyrgð, skyldi veiða einn melrakka gamlan eða tvo unga á ári, ellegar greiða 2 álnir í mat fyrir fardaga. Það kallaðist dýratollur. Fjórar álnir skyldu greiðast í sekt ef ekki væri staðið í skilum, og átti helminginn hreppstjórinn, sem sótti skuldina, en hinn helmingurinn, ásamt dýratollinum, lagðist til að greiða kostnað við refaveiðar framvegis.
Alþingissamþykkt þessi var síðan endurnýjuð orðrétt árið 1485, og árið 1680 féll samhljóða alþingisdómur. Sennilega hefur verið talsverður misbrestur á að bændur stunduðu refaveiðar sem til var ætlast samkvæmt lögum. A.m.k. hefur verið talið nauðsynlegt að minna bændur á þetta við uppsögn leiðarþinga, eins og fram kemur í Formálabók Jóns lögmanns Jónssonar frá árabilinu 1570-1581: ,,Item minni eg bændur á, að þeir sig vel til temji að fara að dýraveiðum, eftir því, sem lögréttumenn hafa áður samþykkt“.
DyrabogarBændum var skylt að stunda grenjaleit á vorin á jörðum sínum og á afréttum á eigin kostnað, en tófuföngurunum sjálfum var greitt úr dýratollssjóði.
Árið 1809 gefa amtmenn út fyrirmæli til hreppstjóra um skyldur þeirra eftir konunglegri tilskipun frá árinu áður. Í meginatriðum er þar fylgt fyrrnefndum alþingissamþykktum, en hér eru samt nákvæm fyrirmæli um hvernig farið skuli að við refaveiðar, um laun tófufangara og um sektir, sé ekki farið eftir fyrirmælum.
Árið 1834 voru veigamiklar breytingar gerðar á fyrrnefndum reglugerðum. Mikilvægast var, að dýratollur féll ekki lengur niður þótt bændur veiddu refi, en öll grenjaleit, grenjavinnsla og veiðar voru launaðar úr dýratollsjóði. Þá var tollurinn hækkaður þannig að hann miðaðist við höfðatölu veturgamalla sauðkinda og eldri í ábyrgð hvers bónda. Að lokum var skýrt tekið fram, að hvorki andlegir nér veraldlegir embættismenn skyldu vera undanskildir dýratollinum.
Reglugerðir þessari stóðu óbreyttar að mestu næstu 50 árin. Árið 1890 samþykkir Kristján konungur níundi lög þar sem kveðið er á um að kostnað við eyðingu refa skuli greiða úr sveitarsjóði. Tveimur árum síðar var dýratollur innheimtur í síðasta sinn. Lýkur þar 6 alda sögu eins sérstæðasta skatts á Íslandi.

Ref

Tiltölulega litlar breytingar hafa orðið á lögum um refaveiðar síðan 1890 nema hvað að ríkið hefur smám saman tekið á sig stærri hlut af kostnaðinum. Árið 1930 voru sett lög, sem kváðu á um, að sýslusjóður greiði verðlaun fyrir veidda hlauparefi en sveitasjóðir skuli standa undir kostnaði við grenjavinnslu. Árið 1949 verður sú breyting samkvæmt lögum, að allur kostnaður við eyðingu refa skiptist jafnt á milli sveitarsjóðs, sýslusjóðs og ríkissjóðs. Loks verður sú lagabreyting árið 1957, að refaeyðingarkostnaður fellur að 2/3 á ríkissjóð, 1/6 á sýslusjóð og 1/6 á sveitarsjóð.
Ýmsar aðferðir hafa verið notaðar við refaveiðar á Íslandi. Algengast í upphafi byggðar mun hafa verið að bræla refi inni í grenjum á vorin og veiða þá í grjótgildrur á veturna. Hvorug aðferðin var samt líkleg til árangurs til fækkunar refa. Notkun grjótgildra virðist hafa lagst niður í upphafi 19. aldar. Um svipað leyti voru dýrabogar orðnir algengir, en tilkoma þeirra var sennilega aðalástæðan fyrir því, að hætt var að nota grjótgildrurnar. Hætt var að mestu að nota dýraboga við vetrarveiði um síðustu aldamót, en þeir eru enn notaðir við yrðlingaveiðar á grenjum. Um aldamótin 1700 voru byssur orðnar algengar við grenjavinnslu og í lok 18. aldar voru þær orðnar aðalvopnið við refaveiðar og hafa verið það síðan.
Byrjað var að eitra fyrir refi um miðja átjándu öld, eftir að innflutningur hófst á svokölluðum kransaugum eða refakökum öðru nafni. Kransuaugu eru fræ austurlenskar trjátegundar. Aðaleitrið í þessu fræi er stryknin þótt magn þess sé ekki mikið, aðeins 1-2% af innihaldinu. Kransaugun voru mulin og hnoðuð inn í kjötbita. Sumum fannst lítið gagn að kransaugunum, enda voru þau ekki mikið notuð fyrr en leið undir miðja 19. öld. Sennilega stendur sú aukning í sambandi við þá uppgvötun, að þau voru mun áhrifameiri ef mulið flöskugler var sett saman við þau til að særa meltingarveginn og auka þannig upptöku eitursins inn í líkamann.

Refs

Á 18. eða 19. öld voru einnig notaðar svokallaðir refaknettir. Það voru kjöt- eða mörbitar, sem inn í voru látin nálabrot eða þar til gerð agnjárn. Það voru tveir litlir pinnar, annar með gati í miðju og hinum smokkað þar í gegn svo að úr þeim myndast kross. Pinninn með gatinu í var um þumlungur á lengd, en hinn nokkuð styttri. Þessir pinnar festust í meltingarvegi dýrsins og drógu það til dauða.
Þá voru hundar stundum notaðir til að hlaupa uppi og drepa refi. Þeir voru kallaðir dýrhundar. Enn í dag er nokkuð algengt, að hundar drepi refi, þótt ekki séu þeir sérstaklega þjálfaðir til þess.

Grjótgildra-2

Refagildra ofan Staðarbergs.

Fyrstu heimildir um víðtæka eitrunarherferð á vegum sveitarfélags eru frá 1837, en almennt taka sveitarfélög að eitra fyrir refi upp úr 1860. Hreint stryknin í duftformi kemur til sögunnar upp úr 1870, en er ekki komið í almenna notkun fyrr en undir aldamót. Trú manna á mátt eitursins var mikil, og þar að auki var eitrunin með ódýrustu veiðiaðferðum, svo að á þessu tímabili var mjög slakað á grenjavinnslu. Ekkert bendir samt til þess að skaði af völdum refa hafi minnkað og árið 1913 skrifar Jón Guðmundsson frá Ljárskógum grein í Frey, þar sem hann bendir á þetta atriði og telur ástæðuna vera þá, að ,,vesælustu, úrræðaminnstu og einföldustu dýrin“ éti helst eitrið, en ,,athugulustu, harðgjörðustu og bestu veiðidýrin“ verði helst eftir. Hann setur fram þá kenningu, að þessir eiginleikar séu arfgengir og því fjölgi hlutfallslega þeim dýrum sem eiginleikana hafi, þ.e.a.s. að stofninn sé í rauninni kynbættur. Kenninng Jóns hlaut talsvert fylgi og hefur haft fram á þennan dag. Að mínum dómi á hún fullan rétt á sér, þótt seint verði hún sönnuð. Víst er, að fá hrædýr nálgast dauðyfli, sem borin hafa verið út af mönnum. Af slíkri varkárni sem íslenski refurinn, þrátt fyrir 16 ára eitrunarbann.

Refagildra

Refagildra í Slokahrauni oafn við Hraun. Sigurður Gíslason sýnir Sesselju Guðmundsdóttir fjögurra dyra gildru.

Það er augljóst, að menn hafa talið, að hægt væri að fækka refum svo með eyðingarherferðum, að skaði af þeirra völdum yrði óverulegur. En slíkar herferðir hafa verið stundaðar af misjafnri kostagæfni eftir landshlutum. Til dæmis var dýratollur ekki alltaf innheimtur alls staðar, sennilega vegna þess að hann var þung byrði og árangur af melrakkaveiðum talinn lítill. Þess er getið að á ofanverðri 18. öld hafi verið lítil brögð um refatoll í Barðastrandarsýslu og að svo muni hafa verið víðar vestanlands.
Þar sem dýratollur var greiddur á annað borð var kvartað undan honum. Á árunum 1832-34 neita Sléttungar að samþykkja reglugerð um refaveiðar og dýratoll og bera því við, að ómögulegt sé að vinna greni til fulls á Melrakkasléttu. Það var því ekki von, að refum fækkaði. En jafnvel þótt lögum og reglugerðum hefði verið framfylgt er ólíklegt, að náðst hefði sá árangur, sem menn vonuðust eftir. Það sést í ljósi þess, að aðeins með því gífurlega átaki, sem gert hefur verið undanfarin 20 ár og með því móti, að ríkissjóður taki á sig megnið af kostnaðinum hefur refum tekið að fækka. Slíkt átak hefði verið óhugsandi án þess.“
Á Reykjanesskaga eru þekktar um 100 grjótgildrur til refaveiða.

Refagildra

Refagildra í Skollahrauni austan Ísólfsskála.

Skrifað hefur verið um refaveiðar og -gildrur í gegnum tíðina. Arnheiður Sigurðardóttir skrifar t.d. um „Nokkra málshætti úr málsháttasöfnum dr. Hallgríms Schevings:

Húsatóftir

Refagildra ofan Húsatófta.

„Í riti séra Björns Halldórssonar, Atla, er svohljóðandi kafli um refagildrur:… „allra minst kostar þig at gera þer Toougilldru, vidiijka og þu getr sied uppaa bruuninni her fyrir ofan Bæinn, enn huun er giord eptir Forskript nockurs gamalls Prests, sem gaf mer hana, og med þvij saa umbuuningr er nu flestum okendr her i grend vil eg segia þer hana“. B.H. Atli, bls. 152.
Síðan kemur nákvæm lýsing af gerð gildrunnar, og sést af því, að hún hefur í aðalatriðum líkzt húskofa. Orðalag kaflans, sem hér fer á undan, sýnir, að það hefur verið forn venja, orðin litt þekkt á 18. öld, að hafa refagildrur yfirbyggðar eða eins konar byrgi.
Sú hugsun, sem upphaflega hefur falizt í málshættinum, virðist mér þessi: gildran er í augum refsins hið sama og gistihúsið ferðamanninum, þ. e. hæli, sem hann kemur að á förnum vegi, þar sem skjól og ríkuleg máltíð biður hans.
Bl. hefur málsháttinn og þýðir hann þannig: „Saksen er for Ræven som Gildeshus“.“

Kristján Helgason, frá Dunkárbakka, skrifar um refagildrur í Lesbók Morgunbalaðsins árið 1961 undir yfirskriftinni „Refagildrur eða tófuhreiður“:
„Hér segir frá einkennilegri aðferð til þess að ginna grenlægjur og veiða hvolpana: Hér skal sagt frá refagildru eða gothreiðri, sem ég hefi allmikla reynslu af.

Refagildra

Dæmigerð refagildra – ÓSÁ.

Í nágrenni gamalla urðargrenja útbýr maður gren, með einum útgangi, og í það er látið hræ af tófu. Upp úr greninu innst, þar sem tófunni er ætlað að hreiðra um sig, er gerður strompur eða gluggi og honum síðan lokað með seigum jarðvegshaus og nokkuð þung hella lögð ofan á. Tófur leggja gjarnan í slíkt greni þegar á næsta vori. Áríðandi er að vitja um grenið á hæfilegum tíma. Þá er hægt að taka yrðlingana fyrirhafnarlaust upp um opið, og er það eitthvað annað en ná yrðlingunum úr urðargrenjum. Og þessu fylgir einnig sá kostur, að hægt er að vinna grenin áður en tófan er byrjuð að leggjast á lambfé.
Einu sinni þegar ég ætlaði að taka yrðlinga, greip ég í bakið á grenlægjunni, sem lá á þeim. Þá varð mér ljóst, að auðvelt er að hafa þarna þann útbúnað, að grenlægjan náist með yrðlingunum. Í eitt slíkt gren, sem ég bjó til á þennan hátt, hefir tófan gotið 9 sinnum og allir yrðlingar náðst.
Þótt ég telji það hafa mikla þýðingu að ganga vel frá þessum grenjum og hafa munnann vel falinn, þá tel ég samt að tófuhræið eigi mestan hátt í að hæna grenlægjur að þeim. -Kristján Helgason, frá Dunkárbakka.“

Í skrifum GHj „Á slóðum Eskimóa með íslenskt blóð“,  í Vestfirska fréttablaðinu árið 1994 segir m.a.:
„Strax og kom yfir ána gat að líta litlar hleðslur á hverju holti. Minntu þessar hleðslur á hrundar vörður og hugði ég svo vera. Þegar svo þessar hleðslur voru skoðaðar nánar kom í ljós að þarna var um ótölulegan fjölda refagildra að ræða. Hleðslan er þannig uppbyggð, að í miðjunni er holrúm sem er nægjanlega stórt fyrir heimskautarefinn, sem er sama tegund og tófan á Íslandi, að komast inn í. Opið er inn í holrúmið og þar er agn, oft lítill kjöt- eða spikbiti. Agnið er fest við stein og þegar refurinn togar í það hrynur öll hleðslan yfir dýrið og drepur það. Er þetta mjög hugvitslega hlaðið. Svona refagildra er einnig rétt hjá Hvallátrum, eða undir Brunnanúp, rétt norðan við Bjargtanga á Íslandi. Virðist því þessi gerð af refagildrum einnig hafa verið notuð til forna á Íslandi. Eina veðrið sem við höfðum af ref var það að á nokkrum stöðum sást refaskítur og var hann auðþekktur því hann er eins á Íslandi og Grænlandi.“

Refagildra

Refagildra á Selatöngum.

Erik Knatterud segir lesendum Mbl frá lífinu á hjara veraldar, „Á Jan Maeyn höfum við allt – nema kvenfólk“ árið 1965. Þar getur hann um refagildrur:
„Dýralífið hér er fátæklegt miðað við það, sem var á dögum Hollendinga hér. Nú eru hér aðeins nokkrir heimskautsrefir og mávar, en allmikið er þó af hinum síðasttöldu. Einstaka sinnum má þó sjá hval eða sel, en ísbirnir sjást hér mjög sjaldan. En um alla eyna getur að líta gamlar refagildrur, rústir veiðikofa, og hvalbein á víð og dreif kringum Fuijama norðurslóða, hinar gömlu stöðvar Hollendinga hér. Frá því um 1600 og fram eftir öldum var nóg af hvölum, selum, rostungum og ísbjörnum meðfram ströndum Jan Mayens. Nú er stunduð áhugamannafornleifafræði í hinum gömlu bústöðum Hollendinga. Er það einkum í Rostungavík, sem fornleifar hafa fundizt, og hefur þeim verið komið fyrir í gömlum varðskúr
frá stríðsárunum.“
Sjá MYNDIR af refagildrum á Reykjanesskaganum.

Heimildir:
-Úr riti Landverndar, nr. 7 (1980) – VILLT SPENDÝR : Saga refaveiða, höfundur: Páll Hersteinsson, bls. 70-73.
-Skírnir – 1. tölublað (01.01.1957), Arnheiður Sigurðardóttir; Nokkrir málshættir úr málsháttasöfnum dr. Hallgíms Scheving, bls. 113-114.
-Lesbók Morgunblaðsins – 14. tölublað (23.04.1961), Kristján Helgason frá Dunkárbakka, Refagildrur eða tófuhreiður, bls. 236.
-Vestfirska fréttablaðið – 33. tölublað (31.08.1994), GHj „Á slóðum Eskimóa með íslenskt blóð“, bls. 7.
-Morgunblaðið – 246. tölublað (28.10.1965), Erik Knatterud, „Á Jan Maeyn höfum við allt – nema kvenfólk“, bls. 17.

Hraun

Refagildra.