Tag Archive for: Tunglið

Tunglið, tunglið taktu mig

FERLIRsfélagar héldu fótagangandi frá Stóra-Nýjabæ í Krýsuvík yfir að Víti í Kálfadölum.

Ásgeir Long

Ásgeir Long.

Ásgeir Long og Valgarð Runólfsson gerðu stuttmyndina „Tunglið, tunglið taktu mig“ árið 1954. Kvikmyndin var að hluta til tekin í bátasmiðjunni Dröfn í Hafnarfirði og útiatriðin vestan við framangreint Víti austan Stóra-Nýjabæjar. Víti er hraunfoss í austanverðum syðri Kálfadölum er rann skömmu fyrir landnám úr eldgosahrinu í sunnanverðum Brennisteinsfjöllum – ofan Geitahlíðar.
Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir svæðið segir: „Norður af Geitahlíð, sem fyrrnefnd er, tekur við háslétta, sem er víðast eldbrunnin. Vestur af hálendisbrúninni norðan Geitahlíðar fellur hraunfoss, sem allur er vaxinn þykkum grámosa. Foss þessi heitir Víti. Norður af Geitahlíð og Víti eru Kálfadalahlíðar, og vestan þeirra eru dalir eða lægðir, nokkuð djúpar, og heita Kálfadalir. Inn af þeim er svo Kálfadalahnúkur. Hér norðar á hásléttunni er Vörðufellið, sem fyrr var getið, og austan þess heita Sandfjöll. Hér uppi er hásléttan áfram hallandi til vesturs eða suðvesturs. Er hún frekar mishæðalítil, en öll eldbrunnin, með hrauntröðum og formfögrum gígum.

Víti

Myndatökustaðurinn vestan Vítis.

Efst, þar sem er markalínan móti Herdísarvík, eru svonefnd Brennisteinsfjöll. Hækka þau til norðurs. Heldur sunnar en háaustur frá norðurenda Kleifarvatns er uppi á há Brennisteinsfjöllum svonefnt Kistufell. Þar norður af eru svo Draugahlíðar, sem munu vera í Herdísarvíkurlandi, enda hallar þeim mót austri, og er þá skammt eftir í Kóngsfell.“

Víti

Myndatökustaðurinn vestan Vítis.

Fátt er um örnefni á svæðinu. Þó er getið um Austurengjafellið milli syðri Kálfadala og Austurengjahvers (Stórahvers), en nafns hinnar feikimiklu hraunbreiðu ofan Geitahlíðar er hvergi getið. Þar eru nokkrir formfagrir gígar og nokkur samliggjandi hraun er benda til þess að gosið hafi þar nokkrum sinnum í mismunandi goshrinum, líkt og nú gerist í og við Fagradalsfjall. Hraunfossinn Víti er afurð eins þessa. Hraunstraumurinn fyllti að hluta til Kálfadalina, bæði til suðurs og norðurs, líkt og sjá má á meðfylgjandi loftmynd neðst. Á jarðfræðikortum ÍSOR er hraunið nefnt Kálfadalshraun og aldur þess sagður 1100-4000 ára.

Víti

Víti.

Stórbrotið er að standa andspænis hraunfossinum og ímynda sér þær miklu náttúruhamfarir þá er þar urðu.
Vestan við syðri Kálfadali eru miklar móbergsmyndanir í bland við hraungos undir jökli fyrir meira en ellefu þúsund árum. Landslagið þar mynnir á yfirborð Tunglsins. Það var því ekki að ástæðulausu sem Ásgeir Long og félagar hafi ákveðið að gera það að sviðsmynd stuttmyndarinnar „Tunglið, tunglið taktu mig„. Lengi vel má sjá leifar „kóngulóarvefs“ leikmyndarinnar í móbergsmyndunum.

TungliðÍ Tímanum 16. ágúst 1961 segir m.a. um kvikmynd þeirra Ásgeirs og Valgarðs: „Tunglið, tunglið taktu mig segir frá ferð lítils drengs með eldflaug til tunglsins og ævintýrum hans þar. Leikur Jón Guðjónsson drenginn. Kvikmyndin er að mestu tekin við Víti við Kleifarvatn, en þar er ákaflega tunglslegt landslag. Leikstjórinn að báðum þessum kvikmyndum var Jónas Jónasson útvarpsþulur.“

Tunglið

Úr stuttmyndinni; karlinn í Tunglinu.

Í bæjarblaðinu Hamri 1955 er fjallað um stuttmyndina undir fyrirsögninni „Íslenzk barnakvikmynd“: „Ásgeir Long sýndi barnaskólabörnum og fleirum tvær kvikmyndir, sem hann hefur tekið. Er önnur þeirra „Dagur við ána“, laxveiðimynd, tekin við Haukadalsá í Dölum og er hún mjög vel tekin. Er þar fjölbreytilegt og fagurt landslag en myndin er í litum og eru þeir mjög fagrir. Um 15 mínútur tekur að sýna myndina.

Tunglið

Úr kvikmyndinni.

Hin myndin er barnakvikmynd, og heitir „Tunglið, tunglið taktu mig“ og eru þeir Ásgeir Long og Valgarð Runólfsson höfundar hennar, en Ásgeir tók myndina. Tekur um 20 mínútur að sýna hana. Þetta er fyrsta barnamyndin, sem þeir framleiða og er hún því gerð í tilraunaskyni, en ætlun þeirra félaga er að framleiða íslenzkar barnamyndir og nota m. a. efni úr þjóðsögunum.
Myndin segir frá Nonna litla, sem í draumi fer í geymfari til tunglsins og lendir hann í hinum mestu mannraunum bæði á leiðinni og svo eftir að hann kom til tunglsins. Hitti hann þar karlinn í tunglinu og bjargaði honum úr lífsháska, en komst svo í hann krappan sjálfur, því þar átti einnig hin mesta ófreskja heimkynni sín.

Tunglið

Úr kvikmyndinni.

Leikendur í myndinni eru: Nonni litli leikinn af Jóni Guðjónssyni, pabbi og mamma leikin af Valgarð Runólfssyni og Guðrúnu Helgadóttur, karlinn í tunglinu leikinn af Ólafi Friðjónssyni og ófreskjan leikin af Jóni Má Þorvaldssyni. Hefur myndin heppnast vel og hafa bæði börnin og fullorðnir haft mikla ánægju af að sjá hana. Þeir Ásgeir og Valgarð eru langt komnir með aðra barnamynd og er við gerð hennar stuðst við þjóðsöguna um Gilitrutt. Mun taka um 1 klst og 20 mínútur að sýna hana.
Hér er um merkilegt starf að ræða í því að framleiða íslenzkar barnakvikmyndir og er vonandi, að þeim Ásgeiri og Valgarð takist að ná því marki að geta framleitt góðar og skemmtilegar barnamyndir.!

Tunglið

Úr kvikmyndinni.

Í ritinu „Unga Ísland“ árið 1954, undir fyrirsögninni „Ný íslensk barnakvikmynd- Tunglið, tunglið taktu mig“, segir: „Bráðum verður farið að sýna nýja íslenzka kvikmynd fyrir börn, sem heitir „Tunglið, tunglið taktu mig.“ En framleiðendur myndarinnar þeir Ásgeir Long vélstjóri í Hafnarfirði og Valgarð Runólfsson kennari í Reykjavík. Myndin fjallar um lítinn dreng, sem kallaður er Nonni.

Tunglið

Úr kvikmyndinni.

Á gamlárskvöld horfir hann á eftir flugeldi, sem skotið er upp í loftið. En Nonni litli á sjálfur dálítið geimfar, sem hann leikur sér oft að; og nú sjáum við inn í hugarheim drengsins, — fljúgum með honum út í endalausan geiminn í litlu eldflauginni hans og stefnum á tunglið. Á leiðinni lendir hann í ýmsum erfiðleikum, en kemst að lokum til tunglsins og hittir þar fyrir óvænta íbúa. En ekki meira um efnið að sinni.

Víti

Tökustaðurinn.

Talsverðum erfiðleikum var bundið að gera þessa mynd, og lengi var aðalvandinn að finna hentugt húsnæði. En úr því rættist sem öðru. Skipasmíðastöðin Dröfn í Hafnarfirði lánaði stóran sal endurgjaldslaust í þrjá mánuði undir kvikmyndatökuna. Flugfélag Íslands lánaði ýmislegt er þurfti við smíði flugskipsins, og ennfremur lánuðu Randíóverkstæði Landssímans og Flugskólinn Þytur ýmsa nauðsynlega hluti. Engu starfsfólki var hægt að greiða kaup, og urðu allir, sem hönd lögðu að verkinu, að vera sjálfboðaliðar og áhugafólk.

Víti

Kvikmyndastaðurinn.

Auk Valgarðs og Ásgeirs unnu við myndina þeir Axel Sölvason rafvélavirki, Reykjavík, er sá um ljós og annan rafmagnsútbúnað, Sigurður Haraldsson, Reykjavík, er gerði flug geimfarsins kleift, og Þórður Bjarnar útvarpsvirki, Reykjavík, er tók allar ljósmyndir og vann við ýms tækniatriði. — Einn mann skorti þó tilfinnanlega, en það var leikstjóri. Ber myndin þess að sjálfsögðu merki og hefði vafalaust getað orðið betri, ef hans hefði notið við.
Leikendur eru: Jón Guðjónsson (10 ára), sem leikur Nonna og því aðalhlutverkið; Guðrún Helgadóttir leikur mömmuna og Valgarð Runólfsson pabbann. Auk þess leika þeir Ólafur Friðriksson og Jón Már Þorvaldsson persónur, sem bezt er að vita sem minnst um fyrirfram.

Víti

Víti.

Byrjað er á töku annarrar myndar, sem sótt er í íslenzkar þjóðsögur. Verður Jónas Jónasson útvarpsþulur leikstjóri hennar, en Ásgeir Long sér um kvikmynda- og tónupptökuna o. fl. Ljósameistari verður Axel Sölvason, og Valgarð Runólfsson semur kvikmyndahandritið og leikur eitt aðalhlutverkið.
Erfitt er að spá nokkru um framtíð þessa unga fyrirtækis að svo stöddu, en ef aðstandendur þess vinna áfram af sama áhuga og hingað til, er ekki útilokað að þeir geti með tímanum boðið íslenzkum bömum upp á kvikmyndir, sem þau skilja og sem hafa meiri fræðandi og þroskandi áhrif á þau en mikið af þeim erlendu barnamyndum, sem nú tíðkast í kvikmyndahúsum okkar.“
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 2 mín.

Heimildir:
-Krýsuvík, örnefnalýsing; Aro Gíslason.
-Tíminn, miðvikudagur 16. ágúst 1961, bls. 16.
-Hamar IX. árg. 9. maí 1955, bls. 3.
-Unga Ísland, 4. tbl. 01.12.1954, Ný íslensk barnakvikmynd, bls. 8-9.
https://www.youtube.com/watch?app=desktop&v=DtYmcBHjRck

Víti

Víti – loftmynd.