Færslur

Laugarvatnshellir

Á Mbl.is þann 10.01.1999 er fjallað um “Hellana í Lyngdalsheiði“.

Lyngdalsheiði

Lyngdalsheiði.

“Á Lyngdalsheiði eru nokkrir afar merkilegir hellar sem vert er að kíkja á og fara ofan í sé gát höfð á. Vilmundur Kristjánsson fór í skoðunarferð og segir að meðal nauðsynja í slíka ferð séu hjálmar, ljós, hlýr fatnaður, reipi eða stigi og félagar.

Upphaflegi vegurinn um Lyngdalsheiði var lagður fyrir komu Friðriks VIII Danakóngs sumarið 1907 og þessvegna í eina tíð kallaður Kóngsvegur. Þó hann sé í dag kallaður Lyngdalsvegur eða Lyngdalsheiðarvegur þá er það rangnefni. Hann liggur nefnilega fyrir norðan Lyngdalsheiði, um Gjábakkahraun og um Reyðarhraun.

Sé farið frá Þingvöllum frá eyðibýlinu Gjábakka um Gjábakkahraun og til Laugarvatns kemst maður ekki hjá því að rekast á nokkra hella. Aðeins þarf að hafa augun hjá sér. Á þessari leið er urmull hella og gjótna.

Ég hef oft farið þessa leið og kíkt á hellana og umhverfið með myndavél í farteskinu enda félagi í Ljósálfum sem er félag áhugamanna um ljósmyndun. Þessi leið er í uppáhaldi hjá mér en hellar hafa alltaf vakið einhverja undarlega kennd hjá mér, sennilega arfur frá forfeðrum okkar; víkingunum sem lögðu á sig að kanna ókunna stigu.

Með stiga ofan í Lambhelli

LambhellirLambhellir er stutt fyrir ofan veginn eða um 50 metra frá. Hann fékk nafn sitt af því að einhverju sinni hefur fallið lamb ofan í hellinn og borið bein sín þar í bókstaflegri merkingu. Er hellirinn fannst voru beinin óhreyfð á syllu innarlega í honum. Ekki verður komist niður í hellinn án áhalda, hægt er að bjargast með reipi en af eigin reynslu myndi ég mæla með stiga því hann er um 4 metra djúpur og ekkert til að spyrna í. Leiðin til hans þekkist á því að við veginn norðan megin, eru hjólför og troðið svæði þar sem bílunum er yfirleitt lagt.

Gjábakkahellir

Gjábakkahellir

Gjábakkahellir.

Gjábakkahellir liggur undir veginn um 2 km frá Gjábakka. Hann er opinn í báða enda og er neðri endinn merktur með vörðu. Efri hellismunninn er fyrir ofan Lambhelli. Hann er mikið hruninn og ógreiðfær en bót í máli að auðvelt er að komast niður í hann. Þar er nokkuð um sepa og ýmsar hraunmyndanir. Á einum stað skiptist hellirinn í tvennt og á öðrum er hann á tveim hæðum.

Tvíbotna á tveimur hæðum

Tvíbotni

Í Tvíbotna.

Tvíbotni er sá glæsilegasti í Gjábakkahrauni. Hann er 310 metra langur og tiltölulega lítið snortinn. Hann fannst 1985. Erfitt er að rata á hann en hann er nokkrum hundruð metrum ofar en Gjábakkahellir og í sömu hraunrás. Nafnið er tilkomið vegna þess að hann er á tveim hæðum en einnig að velja má um tvær leiðir er niður er komið. Um tvær mannhæðir eru niður í hann svo stiga eða reipi þarf til. Mikið er í honum af ósnortnum spenum en einnig nokkrir dropasteinar. Í honum þarf sérstaka aðgát, bæði til að stíga ekki sumstaðar niður úr veiku gólfinu en einnig vegna sérlegra viðkvæmra hraunmyndana.

Vegkanthellir

TvíbotniVegkantshellir er um metra hægra megin eða sunnan við veginn. Hann birtist skyndilega í einni beygjunni skammt vestan við afleggjarann að Tintron. Ekki er ráðlegt að fara ofan í hann án áhalda en reyndar er það takmarkað sem er í honum að sjá. Heilmikið stórgrýti er í honum því mikið hefur hrunið úr þakinu svo þakþykktin er sumstaðar ekki nema nokkrir tugir sentimetrar. Hann liggur undir veginn. Er ég var þarna seinast höfðu vegfarendur haft það að leik að henda ótrúlegasta rusli í hann. Vegkantshellir er ekki ruslakista!

Sérstæður hraunketill

Trinton

Trinton.

Tintron er sunnan undir Stóra- Dímon og er á náttúruminjaskrá. Tintron er nokkuð sérstæður hraunketill ofan við veginn. Þangað er ágætur vegarslóði. Hann er í raun rúmlega 10 metra djúp hola og er í laginu einsog gosflaska. Hann er um 27 metra langur frá suðri til norðurs. Efsti hluti hans er 3 metra hraunhraukur með litlum hraunrásum, bæði opnum og lokuðum. Góðan sigbúnað þarf í þennan helli og er ekki óvönum fært. Talið er að hann hafi myndast við það, að brennheit gufa hafi brotist þarna upp úr hrauninu. Er Tintron einn af mörgum slíkum kötlum, sem liggja þarna í röð nokkurnveginn frá norðri til suðurs. Ég hef séð fólk brjóta bita úr hraunrásunum og finnst mér það vægast sagt ljótur siður.

Laugarvatnshellir

Laugarvatnshellir.

Gamlar áletranir á veggjum

Seinastir í röðinni eru Laugarvatnshellar sem eru sandsteinshellar staðsettir í Reyðarbarmi. Reyðarbarmur er á Laugardalsvöllum (Vellir í daglegu tali) sem eru sléttar valllendisflatir, skammt frá Gjábakkavegi. Fátt bendir til að í hellunum hafi verið búið fyrr en á þessari öld þó þeir hafi í eina tíð verið í þjóðbraut. Lengstum voru þeir notaðir sem fjárhellar og lá þar sauðamaður á nóttum. Þá þótti þar reimt. Síðar flytja þangað ung hjón, Guðrún Kolbeinsdóttir og Indriði Guðmundsson, til að hefja búskap og voru þar 1910-1911. Nefndu þau býlið “Reyðarmúli” sem reyndar er fornt nafn staðarins og kemur fyrir í fornsögunum. Þau ráku þar veitingasölu í tjaldi skammt frá hellunum. Reyðarmúli var í eyði til 1918 en þá fluttust önnur hjón þangað, Jón Þorvarðarson og Vigdís kona hans, og dvöldu þar frá 1918-1922. Á þessu tímabili eignaðust þau Vigdís dóttur sem Jón tók sjálfur á móti, en svo braust hann í ófærð langa leið til að finna ljósmóður.

Laugarvatnshellir

Laugarvatnshellir.

Sjá má ummerki búskaparins en fram undan hellunum má enn sjá móta fyrir kálgörðum. Hellarnir eru litlir, þeir eru tveir og sá stærri er 12 metra langur og 4 metrar á breidd en hinn er álíka langur en mjórri. Nú eru allir veggir hellanna og nágrenni útskorið fangamörkum og má þar sumstaðar greina ansi gamlar áletranir.

Ef menn eru á góðum bílum með fjórhjóladrifi má þræða ýmsa slóða og finna margt forvitnilegt. Það verður að gefa sér góðan tíma, sérstaklega ef verið er að hugsa um göngutúra, hellakönnun eða ljósmyndun eða þá allt þetta. Á góðviðrisdegi er þetta ótrúlega falleg leið og ekki skemmir fyrir að hún liggur til Laugarvatns í kaffi.”

Heimild:
-Mbl.is, 10.01.1999, Hellarnir í Lyngdalsheiði, – https://www.mbl.is/greinasafn/grein/442201/

Gjábakka

Gjábakkahellir.