Í Lesbók Morgunblaðsins 1969 fjallar Árni Óla um „Kjalarnesþing og Alþingi hið forna“:
„Fundur landsins og landnám eru vitanlega að því leyti merkustu viðburðir í sögu landsins sem þeir eru nauðsynlegur undanfari alls þess, sem hér hefir síðar gerzt. Og vafalaust hafa margir landnámsmenn vorir unnið afreksverk um byggingu landsins. En landnámin eru þó eigi svo margþætt né svo mikil vitraun sem setning Alþingis var, stofnun allsherjarríkis og setning laga handa landsmönnum öllum. Það er hið ágætasta verk og hafa margir góðir menn að því unnið, enda þótt Úlfljótur hafi mest í því átt. Það hefir kostað mikinn tíma og fyrirhöfn, og hefir útheimt margar skýringar og fortölur. Hafa höfðingjar þeir, sem Úlfljótur ráðfærði sig við áður en hann sigldi, sennilega unnið nokkuð fyrir málið, og svo Grímur geitskör, er hann fór um landið. — Svo sagði Einar prófessor Arnórsson, (Skírnir 1930).
Ingólfur hét maður norrænn, er sannlega er sagt, að færi fyrstur þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annað sinn fám vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjarvík. —
Alþingi – þingstaðurinn á Þingvöllum.
Svo segir Ari ífróði í Íslendingabók. En í Hauksbók Landnámu segir svo: Ingólfur tók sér bústað, þar sem öndvegissúlur hans höfðu á land komið. Hann bjó í Reykjarvík. Þar eru enn öndvegissúlur þær í eldhúsi. En Ingólfur nam land milli Ölfusár og Hvalfjarðar og öll nes út. Hann var frægastur allra landnámsmanna, því að hann kom hér að auðu landi og byggði fyrst landið, og gerðu það aðrir landnámsmenn eftir hans dæmum síðan. Ingólfur átti Hallveigu Fróðadóttur, systur Lofts hins gamla. Þeirra son var Þorsteinn, er þing lét setja á Kjalarnesi, áður alþingi væri sett.
Ingólfur var frægastur allra landnámsmanna vegna þess að hann nam hér fyrstur land. En ekki ætti hann síður að vera frægur fyrir hitt, að afkomendur hans og venslamenn stjórnuðu landinu fram að kristnitöku, eins og enn mun sagt verða.
Dr. Guðbrandur Vigfússon leit svo á, að þótt talið væri að Ísland hefði byggzt úr Noregi, þá hefði komið hingað á landnámsöld álíka margt fólk af keltnesku kyni eins og norsku. En norska kynið var „herraþjóðin“ í landinu, eins og glöggt má sjá af fornsögunum, og þær sýna líka að norsk menning og norskur hugsunarháttur hefir verið hér yfirgnæfandi. Í Noregi var byggð hagað öðruvísi en í öðrum germönskum nágrannalöndum. Í Svíþjóð, Danmörku og Þýzkalandi bjuggu menn í þorpum, en í Noregi voru sérstök bændabýli, og sama varð reglan hér á landi.
Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík.
Þeir, sem fyrstir komu, námu mjög víð lönd, en byggðu þau svo skipverjum sínum og öðrum er seinna komu. Með þessu móti höfðu þeir nokkurn liðsstyrk, ef á þá yrði ráðizt og jafnframt voru þeir þá höfðingjar, hver í sínu landnámi. Vegna þessa stefndi allt að því, að hér risi upp smáríki, eins og var í Noregi áður en Haraldur hárfagri lagði land allt undir sig.
Esjuberg – Leiðvöllur 1946.
Þessir fyrstu héraðshöfðingjar stjórnuðu svo landinu um hríð, án þess að nokkur sameiginleg lög væru hér gildandi. Að vísu komu þeir með nokkrar norskar venjur viðvíkjandi eignarhaldi einstaklinga, kaupskap, hjúskap, um erfðir, hefndir fyrir víg o.s.frv. En þetta gat orðið breytilegt eftir héruðum er fram í sótti og sáu framsýnir menn hver voði var búinn innanlandsfriði ef framvindan yrði slík. Nauðsyn væri að stofna hér þjóðfélag áður en í óefni væri komið. Þá var það, að Þorsteinn Ingólfsson stofnaði Kjalarnesþing og „höfðingjar þeir, er að því hurfu“, eins og Ari fróði kemst að orði. Tveir aðrir af stofnendum þingsins eru nefndir Helgi bjóla, tengdasonur Ingólfs og Örlygur gamli á Esjubergi, og voru þeir báðir kristnir. En svo hafa aðrir höfðingjar bætzt í hópinn og þeir hafa átt heima í Borgarfirði og Árnessýslu. Þetta þing skyldi setja lög er giltu á yfirráðasvæði þess og dæma um mál manna.
Hvenær var Kjalarnesþing stofnað?
Það skiptir nokkru máli ef unnt er að ákveða hvenær þing þetta var stofnað, því að með hverju ári fjölgaði mikið fólki í landinu og þá um leið ýfingum og ófriði milli manna. Meðan engar reglur voru til að fara eftir í viðskiptum manna, var óhægt um vik að setja niður deilur.
Kjalarnessþings er getið í Íslendingabók, Landnámu Grettis sögu, Harðarsögu og Kjalnesingasögu, en hvergi er þess getið hvenær það var stofnað. Í Grettissögu segir, að skömmu eftir útkomu Önundar tréfótar, sem bjó í Kaldbaksvík á Ströndum, „hófust deilur þeirra Ófeigs grettis og Þorbjarnar jarlakappa og lauk svo, að Ófeigur féll fyrir Þorbirni í Grettisgeil hjá Hæli. Þar varð mikill liðsdráttur að eftirmáli með sonum Ófeigs. Var sent eftir Önundi tréfæti og reið hann suður um vorið“. Önundur var tengdasonur Ófeigs grettis. Á leiðinni suður gisti hann í Hvammi hjá Auði djúpúðgu. Hún bað að Ólafur feilan sonarsonur sinn mætti ríða með honum suður til að biðja Alfdísar hinnar barreysku, og að hann styddi það mál. Tók Önundur því vel. Þegar hann hitti svo vini sína og mága, var talað um vígamálin, „og voru þau lögð til Kjalarnessþings, því að þá var enn eigi sett alþingi. Síðan voru málin lögð í gerð, og komu miklar fébætur fyrir vígin, en Þorbjörn jarlakappi var sekur gerr. . . .Þetta haust fékk Ólafur feilan Alfdísar hinnar barreysku. Þá andaðist Auður hin djúpúðga, sem segir í sögu Laxdæla“.
Heiðnir víkingar og kristnir keltar virðast hafa lifað í sátt í upphafi landnámsins.
Í Tímatalsritgerð sinni telur dr. Guðbrandur Vigfússon, að Auður djúpúðga muni hafa andast á árunum 908—910. Nokkru fyrir þann tíma hlýtur Kjalarnesþing því að hafa verið stofnað. Af frásögn Ara fróða í Íslendingabók mætti ráða, að Kjalarnesþing hefði upphaflega aðeins verið fyrir landnám Ingólfs Arnarsonar, því að þar segir, að Þorsteinn Ingólfsson hafi haft þetta þing, „og höfðingjar þeir, er að því hurfu“. Er þar með gefið í skyn, að smám saman hafi honum bætzt samþingsmenn, og gat það vel tekið nokkur ár að þingháin næði alla leið austur að Þjórsá.
Hér verður því að álykta svo sem Kjalarnesþing hafi verið stofnað rétt upp úr aldamótum 900. Nú telur og dr. Guðbrandur Vigfússon að Ingólfur Arnarson muni hafa dáið um 900 og getur þess að menn ætli að þingið hafi verið stofnað eftir hans dag. Bendir það til þess, að þingstofnunin hafi verið fyrsta verk Þorsteins Ingólfssonar eftir að hann tók við mannafonnráðum í héraði. Þing þetta mun hafa verið stofnað að fyrirmynd norsku fylkjaþinganna á Frosta, Gula og Eiðsvelli, og það mun hafa verið orðið aldarfjórðungs gamalt þegar alþingi var stofnað.
Hvar var þingið háð?
Aðeins á einum stað er þess getið, hvar Kjalarnesþnig var háð. Nú þekkist þetta örnefni ekki lengur.
Vegna nafns þingsins héldu menn lengi vel, að það hefði verið háð á Kjalarnesi. Jónas Hallgrímsson tók sér fyrir hendur sumarið 1841 að finna þingstaðinn og leitaði upplýsinga víða. Honum var bent á Leiðvöll, sem er skammt frá Móum á Kjalarnesi. Fór Jónas þangað, en sannfærðist fljótt um, að þar hefði aldrei verið háð þing, heldur hefði þar aðeins verið leið.
Svo fékk hann fregnir af því að í Þingnesi í Elliðarvatni væru margar og glöggvar búðatóftir, og þangað fór hann við áttunda mann til þess að rannsaka staðinn. Þar fann hann rúmlega 20 búðatóftir. Hann byrjaði á því að grafa upp stærstu tóftina, og segir hann að það hafi verið sú stærsta búðartóft, sem hann hafi séð á Íslandi, um 100 ferálnir að innanmáli. Veggir höfðu verið hlaðnir úr völdu grjóti og taldi hann að þeir mundu hafa verið um sex feta háir.
Því næst rannsakaði hann grjótdyngju nokkra utan við búðirnar, því að honum sýndist sem mannvirki mundi vera, en fann þar ekki annað en stóra steina og vissi ekki hvað þetta var. Þá réðist hann á merkasta staðinn, sjálfan dómhringinn. Þar var hringhlaðinn grjótgarður og taldi Jónas að hann mundi upphaflega hafa verið um tveggja álna þykkur neðst og álíka hár. Þvermál hringsins var 43 fet. Í miðjum hringnum var grjóthrúga og gat grjótið ekki verið komið úr hringgarðinum, og hélt hann því að þar mundu dómendur hafa setið.
Ekki var Jónas í nokkrum vafa um, að hér hefði hann fundið hinn gamla þingstað Þorsteins Ingólfssonar. Skammt þaðan voru einnig aðrar rústir, sem Jónas skoðaði ekki. Handan vatnsins, gegnt Þingnesi, undir holtinu sem Bugða rann fram með og heitir Norlingaholt, voru fram á þessa öld miklar búðatóftir og voru þær nefndar Norlingabúðir. Þarna hafa Borgfirðingar þeir, er þingið sóttu haft búðir sínar og bendir nafnið til þess, því að um aldir voru Borgfirðingar kallaðir Norlingar hér um nesin.
Þingnes heldur enn nafni sínu enda þótt það sé nú orðið að ey í vatninu, síðan vatnsborð Elliðavatns var hækkað vegna rafmagnsstöðvarinnar hjá ánum. Nesið gekk út í vatnið að sunnan, hér um bil miðja vegu milli bæjanna Elliðavatns og Vatnsenda. Var fyrrum aðeins mjótt sund milli þess og engjanna fyrir norðan.
Þarna er einn af sagnmerkustu stöðum Íslands, en þó hefir verið farið illa með hann. Laust eftir seinustu aldamót, þegar ræktunaráhugi vaknaði meðal manna hér á landi, var ráðizt á Þingnes með plógum og öðruum jarðræktarverkfærum, öllum búðatóftum byllt um og eins dómhringnum, svo að þar var ekkert að sjá nama moldarflag. Norðlingabúðir vonu seinna kaffærðar, þegar afrennsli vatnsins var stíflað og yfirborð þess hækkað. Og þar með voru þurrkaðar út seinustu sýnilegu minjarnar um Kjalarnesþing.
Kristið þing
Heimildir fornsagnanna herma, að Örlygur gamli og Helgi bjóla hafi verið aðalhvatamenn að stofnun þingsins með Þorsteini. Þeir voru báðir kristnir og trúræknir vel. Örlygur hafði verið sendur hingað af Patreki biskupi á Iona með trúboðserindum. „Biskup lét hann hafa með sér kirkjuvið og járnklukku og plenaríum og mold vígða, er hann skyldi leggja undir hornstafina“ (Landn). Örlygur bjó á Esjubergi og reisti þar þegar kirkju hina fyrstu er sögur fara af hér á landi.
Esjuberg á Kjalarnesi.
Helgi bjóla átti Þórnýju dóttur Ingólfs Arnarsonar og var því mágur Þorsteins. Einn af sonum þeirra Þórnýjar var nefndur Kollsveinn og mun það bafa verið auknefni, því að svo voru kallaðir sveinar þeir er fareldrar færðu guði nýfædda.
Þeir Helgi hjóla og Örlygur eru taldir meðal göfugustu landnámsmanna í Sunnlendingafjórðungi. Er því líklegt að þeir hafi ráðið miklu við stofnun þingsins og hvernig það var helgað. Er þá líklegt að þeir hafi látið helga það með tákni krossins og þar af sé komið nafnið Krossnes á þingstaðnum. Og þá er eigi ólíklegt, að grjótdyngjan sem Jónas Hallgrímsson fann þar í nesinu og vissi ekki hvennig á stóð, hafi verið leifar af stöpli, sem hlaðinn hefir verið undir krossmerkið. En er þing lagðist niður á þessum stað, hafi Kristnesnafnið horfið úr mæltu máli, og nesið síðan verið kallað Þingnes, eins og það heitir enn í dag.
Um þær mundir er Kjalarnesþing var stofnað voru engar trúarbragðadeilur hér á landi. Kristnir menn og heiðnir höfðu dreifzt um land allt og bjuggu þar í nábýli og fyrst í stað bar þeim ekki á milli í trúmálum. Og hafi nú verið — sem allar líkur benda til — að kristnir mennn hafi ráðið miklu á fyrsta Kjalarnesþingi, þá er eðlilegt að þeir réðu því hvernig þingið var helgað. En um þinghelgun með krossi má lesa í Kristnisögu, þar sem sagt er frá krossunum á alþingi árið 1000.
Lagasetning og dómnefna
Ætla má að hlutverk þingsins hafi að upphafi verið tvíþætt: lagasetning og dómnefna.
Um lagasetningu hefir verið farið eftir þeim réttarfarsvenjum, en mennn hafa alizt upp við í Noregi, og þó með þeim breytingum, er hæfðu breyttum aðstæðum. Hafa svo ný lög verið sett smám saman, eftir því sem hentaði og reynslan kenndi mönnum að nauðsynlegt var. En engin lög þessa þings gátu gilt annars staðar en í þinghánni.
Um dómaskipan verður ekkert sagt með vissu. Líklegt er að dómendur hafi verið kosnir af þingheimi hverju sinni og menn valdir eftir metorðum og mannviti. Dómhringurinn í Þingnesi sýnir, að dómar hafa farið þar út, enda vitum vér um tvo dóma, sem þar voru kveðnir upp. Fyrri dómurinn vax í vígsmáli Ófeigs grettis og hefir þegar verið sagt frá honum, en því má við bæta, að þeim dómi hefur verið fullnægt. Þorbjörn jarlakappi varð að fara utan og mun ekki hafa komið til Íslands aftur, og ekki heldur Sölmundur sonur hans. En Kári sonur Sölmundar kom til Íslands og segir frá því í Njáls sögu.
Frá hinum dómnum segir Ari fróði í Íslendingabók: „Maður hafði orðið sekurr um þrælsmorð eða leysings, sá er land átti í Bláskógum. Hann er nefndur Þórir kroppinskeggi, en dóttursonur hans er nefndur Þorvaldur kroppinskeggi, sá er fór síðan í Austfjörðu og brenndi þar inni Gunnar bróður sinn. Svo sagði Hallur Órækjusonur. En sá hét Kolur er myrður var. Við hann er kennd gjá sú, er þar er kölluð síðan Kolsgjá, sem hræin fundust. Land það varð síðan allsherjarfé, en það lögðu landsmenn till alþingisneyslu. Af því er þar almenning að viða til allþingis í skógum og á heiðum hagi til hrossahafnar. Svo sagði Úlfheðinn oss“.
(Bláskógar kallast nú Þingvallasveit. Hallur Órækjuson var systursonur Kolskeggs hins fróða, sem margt sagði fyrir um landnám á Austurlandi.
Nafnið Kolsgjá er nú týnt, en menn halda að gjáin sé uppi á Leirunum. Úlfheðinn mun vera Úlfhéðinn Gunnarsson lögsögumaður). Þessi dómur hefir verið kveðinn upp áður en það væri afráðið hvar alþingi skyldi háð, og því aðeins var hægt að leggja landið til allþingisneyzlu að það var áður orðið almenningseign. Þórir hefir verið dæmdur sekur á Kjalarnesþingi en landi hans ekki ráðstafað á annan hátt en þann, að það skyldi vera almenningur.
Nauðsynlegt hefir verið á Kjalarnesþingi, eins og á alþingi síðar, að velja mann til að segja upp lög þau er samþykkt höfðu verið, og sjá um að dómum væri fullnægt. Engar sagnir höfum vér um, hver sá lögsögumaður hafi verið, en eflaust hefir hann átt heima í landnámi Ingólfs Arnarssonar. Og engin goðgá er þótt gizkað sé á, að það hafi verið Úlfljótur, hinn sami og seinna samdi allsherjarlög fyrir Ísland.
Konrad Maurer hefir það eftir séra Símoni Beck á Þingvöllum, að þar í sveitinni lifi þau munnmæli, að Úlfjótur lögsögumaður hafi upphaflega átt heima á Úlfljótsvatni í Grafningi.
Í Landnámu og fornsögum er aðeins getið um tvo menn, er hétu þessu nafni. Annar er talinn landnámsmaður norður í Skagafirði, og ekkert fleira um hann sagt, en hinn er Úlfljótur lögsögumaður, en ekkert getið um bústað hans fyrr en hann keypti Bæ í Lóni af Þórði skeggja, eftir að Þórður fluttist hingað suður í Mosfellssveit.
Þingin voru fyrst fornfáleg – haldin undir berum himni.
Nafnið Úlfljótsvatn er gamalt, því að það kemur fyrir í Harðarsögu, og enginn vafi er á, að það hefir verið kennt við einhvern mann, sem ÚlfLjótur hét. Þessi bær var í landnámi Ingólfs.
Úlfljótur var kynborinn, sonur Þóru, dóttur Hörða-Kára, sem talinn var ágætur maður, og segir Snorri, að á dögum Ólafs konungs Tryggvasonar hafi ættbogi hans verið mestur og göfgastur á Hörðalandi. Hjörleifur fóstbróðir Ingólfs var einnig komimin af Hörða-Kára, og er því líklegt, að vinátta hafi verið með Úlfljóti og þeim feðgum Ingólfi og Þorsteini.
Skeggjastaðir og Hrafnhólar.
Forn munnmæli, sem engar öfgar fylgja skyldu menn ekki sniðganga. Ritaðar heimildir bera heldur ekki á móti því, að Úlfljótur hafi fyrst í stað átt heima á Úlfjótsvatni. Þeim ber aftur á móti saman um, að hann hafi keypt Lónslönd af Þórði skeggja þegar hann fluttist suður í Mosfellssveit, en Þórður hafi búið þar alt að 15 ár áður en hann fór hingað og þess vegna líklega ekki komið að Skeggjastöðum fyrr en eftir 900, eða í þann mund er Kjalarnesþing var stofnað. Þá hefði Úlfljótur enn átt að vera búandi á Úlfljótsvatni, og verið einn af þeim „vitru mönnum“, er stofnuðu þingið með Þorsteini Ingólfssyni.
Það getur varla talizt getgáta, að hugmyndin um stofnun allsherjarríkis á Íslandi og alþingis hafi verið frá Þorsteini runnin, því að engum manni er betur trúandi tii þess en honum að hugsa svo stórmannlega. Hugmyndina mun hann þá fyrst hafa borið fram er honum þótti Kjalarnesþing orðið nógu öflugt til þess að vera bakhjall hennar, og allir helztu höfðingjar frá Hvítá í Borgarfirði austur á Rangárvelli höfðu heitið stuðningi sínum. Hið fyrsta, sem þurfti að gera, var að finna hentugan stað fyrir allsherjarþingið. Þetta var nauðsynlegt til þess að ekki yrði reipdráttur um það um allt land, að hver höfðingi vildi hafa hann hjá sér. Það gat hæglega spillt því, að málið næði fram að ganga.
Almannagjá 1862 – málað af Bayard Taylor, 1862.
Misskilningur er það að Grímur geitskör hafi valið þingstaðinn. Það hafa höfðingjar á Kjalarnesþingi gert. Og hafi Úifljótur verið lögsögumaður þingsins, þá virðast fyrstu ráðin um undirbúning að stofnun alþingis vera frá honum komin. Hann mun hafa ráðið því, þá er Þórir kroppinskeggi var gerður sekur og útlægur, að landið í Bláskógum væri ekki dæmt sektarfé handa einstökum mönnum (t.d. dómendum), heldur gert að almenningi. Það er skammt á milli Úlfljótsvatns og Þingvalla og hefir Últfljótur eflaust verið kunnugur staðháttum á Þingvöllum, og þess vegna lagt til að alþingi skyldi háð þar. Er líklegt að hann hafi dregið fram kosti landsins líkt og gert er í Íslendingabók og haft eftir Úlfhéðni Gunnarssyni lögsögumanni, að þar mættu allir „viða til alþingis í skógum, og á heiðum hagi til hrossahafnar“. Aðrir þingmenn fallast á þetta og svo er ákveðið að þingstaðurinn skuli vera þarna. Margt fleira hefir staðnum að vísu veriðfundið til ágætis, og þá ekki sízt það að hann var þegar orðinn almenningseign.
Úlfljótur hefir gert meira. Hann hefir fengið því framgengt að Grímur geitskör, fóstbróðir hans, væri sendur um land allt til þess að hafa tal af höfðingjum og fá þá til aðfallast á hugmyndina um stofnun allsherjarríkis á Íslandi og alþing í Bláskógum. Var nauðsynlegt að vita hug höfðingja tiL þessa máls áður en fullnaðaðarákvörðun um ríkisstofnun væri tekin. Sagt er að Grímur hafi verið þrjú ár í þessu ferðalagi um landið og kæmi hann aftur erindi feginn, því að flestir eða allir höfðingjar hefðu verið málinu fylgjandi.
Og nú var komið að því, sem vandasamast var, að semja stjórnarskrá fyrir hið tilvonandi ríki. Og þá er Úlfljóti falið þetta vandaverk. Enginn aðili annar en Kjalarnesþing, var fær um að fela honum það. Þetta þing hafði tekið að sér forustu um stofnun allsherjarríkis og unnið að undirbúningi þess máls og þingmenn sjálfsagt komið sér saman um hvernig stjórnarskráin ætti að vera í höfuðdráttum. Það hafði ekki öðrum á að skipa að svo komnu máli, heldur en einhverjum af þingmönnum sínum. Og hver var þá líklegri til þess að verða fyrir vailnu, heldur en sjálfur lögsögumaðurinn — Úlfljótur. Hér virðast allar líkur benda í eina átt að Úllfljótur hafi átt heima á Úlfljótsvatni, eins og munnmælin herma; að hann hafi verið einn af þingmönnum Þorsteins Ingólfssonar; og verið kjörinn lögsögumaður Kjalarnessþings. Þetta gæti einnig stuðst við þessa frásögn Íslendingabókar: „Því nær tók Hrafn lögsögu Hæings sonur landnámamanns, næstur Úlfljóti“, því að Úlfljótur var aldrei lögsögumaður alþingis og væri hér bent til þess að hann hefði verið lögsögumaður Kjalarnessþings. Samkvæmt lögsögumannatali Ara fróða í Ísendingabók, hefir fyrsta alþingi 930 kosið Hrafn lögsögumann þegar er þingstörf gátu hafizt.
Kjalarnesþing fól Úlfljóti að semja stjórnarskrána, en enda þótt höfðingjarnir þar hefðu komið sér saman um hvernig hún ætti að vera í aðalatriðum, hefir þeim þótt réttara að hafa hliðsjón af norskri löggjöf. Þess vegna fór Úlfljótur utan og er þrjá vetur í Noregi, kemur svo út með allsherjarlögin 929 og voru þau fyrst kölluð Úlfljótslög „en þau voru flest sett að því, sem þá voru Gulaþingslög eða ráð Þorleifs spaka Hörða-Káraasonar voru til, hvar við skyldi auka eða af nema eða annan veg setja“. — Svo sagði Teitur Ísleifsson biskups (Ísl. bók).
Næsta sumar var „alþingi sett að ráði Úljóts og allra landsmanna, þar sem nú er, en áður var þing á Kjaiarnesi“ (Ísl. bók). Á þessu orðalagi má sjá, að Kjalarnesþing hefir verið talið upphaf, eða fyrirrennari alþingis og samband þessara þinga svo náið, að rétt var að segja að Hrafn Hængsson tæki lögsögu næstur Úlfljóti, því að lögsögu Úlfljóts var lokið með stofnun alþingis. Hann var þá 63 ára að aldri og mun hafa dregið sig í hlé eftir þetta afrek og farið austur í Lón.
Reykvíkingar fá æðstu völd Á þessu fyrsta allsherjarþingi var skipuð fyrsta embættismannastétt landsins. Þá var landinu skipt í 36 goðorð og goðarnir voru héraðsstjórar hver í sínu umdæmi; þeir voru einnig þingmenn og dómarar á alþingi. Eitt goðorðið var framar öllum hinum og kallað allsherjargoðorð. Það var goðorð Reykvíkinga og fylgdi því það heiðursstarf að helga alþingi.
Þorsteinn Ingólfsson mun hafa helgað þetta fyrsta alþing og hefir þótt sjálfkjörinn til þess sem stofnandi Kjalarnessþings og frumkvöðull að stofnun alþingis. Sést hér enn sambandið milli þessara tveggja þinga. Síðan fylgdi helgun alþingis goðorði Reykvíkinga og hefir það verið sérstakur virðingarvottur við minningu fyrsta landnámsmannsins og til heiðurs Þorsteini syni hans fyrir að vera stofnandi fyrsta þings á Íslandi og driffjöðrin í stofnun alþingis.
Með nýju allsherjarlögunum varð lögsögumaðurinn forseti alþingis og helzti embættismaður hins nýja ríkis, því að framkvæmdavaldið var í höndum hans, eins og sést á því, er Ari fróði segir um Skafta Þóroddsson lögsögumann: „Á hans dögum urðu margir höfðingjar og ríkismenn sekir eða landlótta of víg eða barsmíðar af ríkis sökum hans og landstjórn“.
Ingólfur Arnarsson – minnismerki á Arnarhóli í Reykjavík.
Fyrsti lögsögumaður alþingis varð Hrafn Hængsson og hefir það ef til vill verið af því að faðir hans og bræður hafi stutt drengilega stofnum alþingis.
Jón Sigursson telur að Hrafn muni hafa verið fæddur 879 og „ef til vill fyrsti maður, sem fæddur er á Íslandi“ (Safn til sögu Íslands I). Hafi svo verið, gat það nokkru ráðið um lögsögumannskjör hans, að mönnum hafi þótt vel við eiga að fyrsti innborni Íslendingurinn skipaði æðsta embætti á hinu nýja alþingi, þar sem hann var líka göfugur höfðingi og ættstór. Hrafn gegndi embættinu um 20 ár, eða fram til 950, en eftir það ráða Reykvíkingar lögsögumannskjöri allt fram að kristniöku og hafa því verið valdamestu menn landsins á þeim tíma.
Árið 950 tekur Þórarinn Raga bróðir við lögsögu, en hann var mægður Reykvíkingum, því að Ragi bróðir hans mun hafa verið kvæntur systur Þorsteins Ingólfssonar og búið í Laugarnesi. Þórarinn gegndi embættinu í 20 ár, fram til 970, en þá tekur við Þorkell máni sonur Þorsteins Ingólfssonar og gegnir því um 15 ára skeið. Þá tekur við Þorgeir Ljósvetningagoði, en þeir Þorkell máni voru að öðrum og þriðja og er sú ættfærsla þannig: Þorkell máni var sonur Þóru dóttur Hrólfs rauðskeggs á Fossi á Rangárvöllum, en móðir Þorgeirs Ljósvetningagoða var Þórunn dóttir Ásu Hrólfsdóttur rauðskeggs. Þorgeir andaðist tveimur árum eftir kristnitöku og þá gekk lögsögumannsstarfið úr ættum Reykvíkinga, en goðorði þeirra fylgdi enn lengi helgun alþingis.“
Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, 25. tbl. 06.07.1969, Kjalarnesþing og Alþingi hið forna, Árni Óla, bls. 6-7.