Tag Archive for: Undirhlíðarvegur

Kerin

Í „Svæðisskráningu fyrir Hafnarfjörð“ 1989 er m.a. fjallað um Undirhlíðarveg, „aðalleiðina“ millum Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur fyrrum.

Undirhlíðarvegur

Undirhlíðar

Stóri-Hríshvammur.

„Fyrst skal hér lýst þem vegi, sem mest var farinn og aðallega þegar farið var með hesta. Vestur sá var tekinn úr Hafnarfirði öðru hvoru megin Hamarskotshamars, upp yfir Öldur, þar sem nú er kirkjugarður Hafnfirðinga, upp í Lækjarbotna, með Gráhelluhrauni sunnanverðu, upp að Gjám, sem er hraunbelti frá því móts við Fremstahöfða, upp í Kaldársel.

Kaldá

Kaldá við Kaldársel.

Þar var venjulega aðeins staldrað við, hestar látnir drekka, þegar farið var yfir ánna, því oftast var ekki um annað vatn að ræða, fyrr en til Krýsuvíkur var komið. Frá Kaldárseli lá leiðin yfir smáhraunbelti, uns komið var að Undirhlíðum. Lá vegurinn suður með þeim, víðar allsæmilegur, moldar- og melagötur. Vegurinn liggur yfir eitt hraunhaft, norðarlega með Undirhlíðum, kringum eldvörp þau sem Ker heita, og hefur hraun streymt þar upp undan hlíðinni á vinstri hönd, þegar suður er farið. Syðst undir Undirhlíðum, eða nokkru sunnar ern Stóri-Hríshvammur, er farið yfir með rauðu gjalli, og heitir sá melur Vatnskarðsháls, þaðan er stutt í Vatnsskarð, þar sem hinn nýi vegur liggur nú úr hrauninu upp á hálsinn.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur í bakgrunni.

Í Vatnsskarði var talin hálfnuð leiðin milli Hafnarfjarðar og Krýsuvíkur. Venjulega var áð þar snöggvast, lagað á hestunum, gert að, sem kallað var, stundum skipt ofan, einkum ef lest var ekki þung. Þegar lagt var upp úr Vatnsskarði, taka við honum svonefndu Hálsar, réttu nafni Sveifluháls, og má segja, að suður með hálsinum sé góður vegur. Sem næst þriggja stundarfjórðunga lestargang frá Vatnsskarði skerst dálítil melalda fram úr hálsinum, og heitir þar Norðlingaháls. Nokkru þar sunnar tekur við stór Grasflöt, sem Hofmannsflöt heitir.

Miðdegishnúkur

Miðdegishnúkur (Hádegishnúkur).

Við suðurenda hennar rís upp úr hálsinum hæsti tindur Sveifluháls, sem Miðdegishnjúkur heitir. Veit ég ekki hvernig það nafn er til orðið – en gamalt er það. Ef um dagsmörk er að ræða í því sambandi, getur það ekki komið frá Krýsuvík. Fremur gæti það átt við frá Hvaleyri eða Ási eða annars staðar í grennd Hafnarfjarðar. Þegar Hofmannsflöt sleppir, er skammt ófarið að Ketilsstíg, þar sem vegurinn liggur yfir hálsinn. Stór steinn er á hægri hönd og á honum dálítil varða, og er það leiðarmerki um það, að þeir sem til Krýsuvíkur ætluðu tækju stíginn upp hálsinn, en héldu ekki lengra suður með, því sá vegur lá til Vigdísarvalla og enda alla leið suður fyrir háls, og er syðsti útvörður þess langa og tildótta háls, fagurt, keilulagað fell, – Mælifell.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Þegar Ketilsstígur er tekinn, liggur vegurinn fyrst upp allbratt klettahögg, en þegar upp á það er komið, liggur Ketillinn svo að segja fyrir fótum manns. Ketillinn er kringlóttur, djúpur dalur eða skál inn og ofan við hálsinn.

Ketilsstígur

Ketilsstígur.

Grasflöt er í botni ketilsins, sem er svo djúpur, að born hans mun vera jafn undirlendinu fyri neðan Hálsinn. …Ketilsstígur liggur því í fullan hálfhring um Ketilinn, hærra og hærra, þar til á brún kemur. Láta mun nærri, að verið sér 30-40 mín. upp stíginn með lest, enda sama þótt lausir hestar væru, því að flestir teymdu hesta sína upp stíginn. … Þegar upp á brún kemur, sést, að hálsinn er klofinn nokkuð langt norður, allt norður að Miðdegishnjúk, og eru í þeirri klauf sanddalir, sem Folaldadalir heita. Af vestari brún hálsins liggur vegurinn spölkorn eftir sléttum mel to suðuausturs, og blasir þar við hæsta nípa hálsins og heitir Arnarnípa. Litlu sunnar er komið að dálitlu stöðuvatni, sem Arnarvatn heitir. Eftir það fer að halla niður af hálsinum að sunnan, og er nú ekki eins bratt og að vestan, þar til komið er fram á síðari brekkuna, sem er brött en stutt.

Arnarvatn

Arnarvatn.

Þegar brekkunni sleppir, er komið í grashvamm, sem Seltún heitir. …Þegar í Seltún kemur, er talið, að komið sé til Krýsuvíkur, þó er um einnar stundar lestargangur heim í Krýsuvík. …Úr Seltúnshvamminum er farið yfir alldjúpt gil, Segil. …Sunnan gilsins er Seltúnsbarð. ….Af Seltúnsbarði er haldið yfir svonefnda Vaðla. Eftir það taka við melar, og liggur vegurinn þar á vesturbakka Grænavatns. Nokkuð norðvestar er Gestsstaðavatn, umlukt háum melum, og sést ekki af veginum.

Grænavatn

Grænavatn.

Þegar Grænavatni sleppir, er örstuttur spölur suður á móts við við Nýjabæina, Stóra-Nýjabæ til vinstri, Litla-Nýjabæjar til hægri, og þar með komið í Krýsuvíkurhverfi. Milli Nýjabæjanna og heimajarðarinnar Krýsuvíkur er um 12 mín. gangur. Tún heimajarðarinnar liggur sunnan undir og upp í Bæjarfelli, en bæjarhús, kirkjan og kirkjugarðurinn standa á hól eða hrygg sunnarlega á túninu.
Hér hefir verið lýst að nokkru aðalveginum milli Krýsuvíkur og Hafnarfjarðar, sem eins og fyrr segir, var oftast farinn og aðalleiðin á sumrin, þegar farið var lausríðandi eða með lest, og var þessi leið tali um 8 klst. lestargangur.“

Heimildir:
-Svæðisskráning fyrir Hafnarfjörð 1989, Fornleifastofnun Íslands, bls. 265-266.
-Ólafur Þorvaldsson; Árbók 1943-48, bls. 83-87.

Undirhliðarvegur

Undirhlíðarvegur.