Tag Archive for: upphaf landnáms

Kringlumýri

Á Vísindavef HÍ var spurt: „Hófst landnám á Íslandi 200 árum fyrr en talið hefur verið?“ Höfundur svarsins var Orri Vésteinsson prófessor í fornleifafræði við Háskóla Íslands.

„Stutta svarið er nei.
Hér kemur langa svarið:

Orri Vésteinsson

Orri Vésteinsson.

Í hugum flestra hefst landnám með því að einhver kemur á hinn nýja stað, kastar eign sinni á landið, kemur undir sig fótunum og skilur eftir sig arfleifð í afkomendum, örnefnum og sögum. Fleiri fylgja í kjölfarið og leika sama leikinn þar til landið er orðið fullt og ekki pláss fyrir fleiri. Allar landnámssögur fylgja þessum stefum og gildir þá einu hvort söguhetjan er Ingólfur Arnarson á Íslandi, Abraham og Lot í Jórdandalnum og Kananslandi, eða skipverjarnir á Mayflower í Nýja Englandi.

Víkingar

Víkingar komu til Norður-Ameríku, þar sem nú er Nýfundnaland í Kanada, í kringum árið 1000. En af hverju gerðu þeir svæðið ekki að nýlendu sinni eins og aðrir Evrópubúar gerðu nokkrum öldum síðar?
Þessari spurningu var nýlega velt upp á vef Live Science sem bendir á að í kjölfar fyrstu ferðar Kristófers Kólumbusar yfir Atlantshafið 1492 hafi Spánn og fleiri Evrópuríki staðið fyrir stórfelldu landnámi sem varð til þess að evrópskir landnemar og afkomendur þeirra lögðu stærsta hluta álfunnar undir sig.
En eins og við Íslendingar vitum, þá voru Kristófer Kólumbus og samferðamenn hans ekki fyrstu Evrópubúarnir sem komu til Norður-Ameríku. Eftir að víkingarnir tóku sér bólfestu á Íslandi og Grænlandi á níundu og tíundu öld, náðu þeir til Nýfundnalands í krinum árið 1000. Þeir komu sér upp útvarðstöð í L‘anse aux Meadows og notuðu hana sem útgangspunkt fyrir könnunarferðir um önnur svæði í norðausturhluta Norður-Ameríku. Sögulegar heimildir benda til að þeir hafi síðan komið sér upp annarri útvarðstöð sem nefnist „Hop“ en hún var einhvers staðar þar sem nú er New Brunswick.
En víkingarnir stunduðu ekki stórfellt landnám í Norður-Ameríku, að minnsta kosti ekki í samanburði við það sem aðrir Evrópubúar gerðu eftir 1492.

Slíkar sögur lúta lögmálum frásagnarinnar: það verður að vera aðalpersóna og gerðir hennar verða að hafa sæmilega skýrt upphaf og skilgreinanlegar afleiðingar. Það er erfitt að segja sögu um landnám nema það sé einhver skilgreindur gerandi sem gerir markverða hluti á ákveðnum stað og á ákveðnum tíma. Landnámssögur lúta hins vegar ekki lögmálum raunveruleikans. Raunveruleikinn er iðulega lítið annað en kássa af samhengislausum atburðum og nafnlausu fólki sem hegðar sér alls ekki eins og sögupersónur. Landnám gerist í raun ekki eins og sögur um það bera með sér; það hefur ekki eitt ákveðið upphaf og það er ekki hægt að skilgreina það út frá einstaklingum eða verkum þeirra.
Upphafsmýta Bandaríkjanna segir til dæmis frá því þegar skipverjar á Mayflower stigu á land á Plymouth Rock í Massachusetts árið 1620 en er það upphaf landnáms Evrópumanna á þeim slóðum? Sumir rekja upphafið frekar til þess að Plymouth-félagið fékk konunglega heimild til landnáms þar sem nú er Nýja England árið 1606 og stofnaði skammlífa nýlendu í Popham í Maine árið eftir. Aðrir benda á aðra staði þar sem Evrópumenn voru löngu búnir að koma sér fyrir þegar Mayflower bar að landi, frá Red Bay á Labrador (frá um 1550) til Jamestown í Virginíu (1607), St. Augustine í Flórída (1565) og Santa Fe í Nýju Mexíkó (1598). Fyrir öðrum eru þetta allt afleiðingar af því að Kólumbus fann Ameríku árið 1492 og enn öðrum sýnist að allir þessir atburðir séu aukaatriði í meir en fimmtán þúsund ára sögu mannvistar í Ameríku. Hvenær byrjaði þá landnám í Ameríku?

Hvalstöð

Leyfar eldhólfs hvalsbræðslu á Asknesi í Mjóafirði.

Margir myndu segja að landnámssögur geymi kjarna málsins. Að það skipti ekki svo miklu máli að einhverjir Baskar voru að veiða hvali við Labrador á 16. öld enda leiddi það hvorki til varanlegrar byggðar þeirra þar né hafði það nein sýnileg áhrif á seinni þróun. Að það séu fremur atburðir eins og koma Mayflower sem lýsa því sem markvert er: koma fólks með þekkta afkomendur sem leiddi til samfelldrar sögu og vaxandi byggðar, og sem þar að auki gerði með sér sáttmála – Mayflower compact – sem markar upphaf hugmyndarinnar um sérstakt samfélag Evrópumanna á austurströnd Norður-Ameríku. Þessu má halda fram en þegar spurt er um upphaf landnáms verður að skilgreina hvað það er sem maður á við: er það þegar landið var uppgötvað, þegar fyrsta tilraunin var gerð til að búa þar eða þegar slík tilraun bar fyrst árangur sem skilaði sér í varanlegri byggð? Eða var það sú varanlega byggð sem hafði mest áhrif á síðari þróun sem skiptir mestu máli að halda á lofti?

Mayflower

Mayflower.

Í íslenskri sagnahefð skipar Ingólfur Arnarson sams konar sess og Mayflower í bandarískri. Sagan um hann markar það upphaf sem Íslendingum, frá 12. öld að minnsta kosti, hefur þótt skipta máli. Hún lýsir upphafi samfelldrar byggðar fólks sem átti eitthvað undir sér og átti þekkta afkomendur sem þar að auki voru lykilmenn í þróun laga og réttar á fyrstu áratugum íslensks samfélags. Aðrar sögur eru til, um Naddoð, Garðar og Hrafna-Flóka að ekki sé minnst á Náttfara (sem fær ekki að vera fyrsti landnámsmaðurinn, ekki af því að hann hafi ekki verið það, heldur af því að hann var ekki nógu fínn pappír).

Skarðsbók

Skarðsbók Landnámu.

Sagnahefð okkar er nógu rík til að fólk getur á grundvelli hennar einnar saman valið sér mismunandi áherslur og haft ólíkar skoðanir á hvað það var sem skipti máli. Í einu af handritum Landnámu, Skarðsárbók, hefur einhver skemmt sér við að setja ártöl á spássíuna hjá sögunum um landkönnuðina. Samkvæmt því kom Naddoður til Íslands árið 770. Af hverju skyldum við ekki taka mark á þessu og nota sem upphafsár landnáms á Íslandi?
Í hugum Íslendinga er landnám Íslands órjúfanlega tengt þessum sögum og flestum finnst erfitt að hugsa um það án tilvísunar til þeirra. Á síðastliðnum áratugum hafa hins vegar verið að koma í ljós æ fleiri fornleifar sem knýja okkur til að hugsa öðruvísi um landnámið. Þær sýna að mikill fjöldi fólks tók sér bólfestu á Íslandi skömmu eftir að mikið gjóskulag, svokallað landnámslag, sem þekur um tvo þriðju hluta landsins, féll um 870.

Torfbær

Torfbær.

Fyrir lok 9. aldar var komin byggð á smákotum upp til heiða jafnt sem góðbýlum á láglendi og bendir það til þess að landnámið hafi gengið mjög hratt fyrir sig. Það sést einnig af því að í byrjun 10. aldar hafði orðið gerbreyting á gróðurfari landsins: þar sem áður voru samfelldir birkiskógar voru nú grasmóar. Fornleifar sem örugglega eru frá seinni hluta 9. aldar og þeirri 10. eru mjög miklar að vexti og í samanburði við þær eru vísbendingar um eldri mannvist hverfandi. En þær eru þó til og hefur fólki eðlilega orðið starsýnt á þær: gætu þær bent til þess að fólk hafi verið komið til Íslands löngu áður en Ingólfur á að hafa stigið á skipsfjöl?

Landnámslagið

C-14 aldursgreining byggist á kolefni 14 (C-14, C14 eða 14C), sem er samsæta kolefnis, sem inniheldur 6 róteindir og 8 nifteindir í kjarna. Þessi kolefnissamsæta er geislavirk og klofnar með beta klofnun og myndar köfnunarefni. C-14 er til staðar í öllu náttúrulegu kolefni í hlutfalli sem er nokkurn veginn 1:1012. Helmingunartíminn er 5730±40 ár, sem samsvarar því að í einu grammi kolefnis úr lifandi lífveru verði um það bil 14 klofnanir á mínútu.
Á þessu byggist C-14 aldursgreiningin. Þegar lífvera deyr hættir hún að sjálfsögðu að taka til sín kolefni, en það kolefni sem er til staðar klofnar í sífellu og breytist þá hlutfall geislakolsins með tímanum. Með því að mæla það hlutfall geislakols, sem til staðar er má meta hve langt er síðan lífveran, sem hið lífræna sýni er komið frá, lauk ævi sinni. Sé eitthvert mælanlegt magn geislakols til staðar, gefur það til kynna að aldur sýnisins sé mjög lítill í jarðsögulegum skilningi. Til dæmis eru jarðolía og kol of gömul til þess að magn geislakols í þeim sé mælanlegt.

Tvær hliðar eru á þessu máli. Annars vegar snýst það um ákveðna tímasetningaraðferð, kolefnisaldursgreiningu. Sú aðferð hefur þann kost að hún gefur aldur á lífrænum leifum óháð samhengi. Hún er sjálfstæð og þegar henni var fyrst beitt á leifar frá upphafi Íslandsbyggðar virtist hún sýna að landnám gæti hafa hafist allt að 200 árum fyrr en talið hafði verið. Á þeim tíma var ekki búið að tímasetja landnámslagið og þá snerust deilur vísindamanna um tímasetningu landnáms í raun um hversu gamalt landnámslagið væri – það var innan ramma hins mögulega að lagið væri mun eldra og þar með öll byggð sem hægt var að tímasetja út frá því. Árið 1995 var sýnt, með tilvísun í lagskiptingu vegna bráðnunar íss á yfirborði Grænlandsjökuls, að landnámslagið hefði fallið á árunum 869-73. Þar með dró kraft úr þessum deilum því þó að á tveimur stöðum hafi fundist torfveggir undir landnámslaginu þá hafa hvergi fundist nein yfirgefin hús, hvergi neinar grafir, öskuhaugar eða gripir sem sannarlega eru undir þessu lagi og þar með eldri en það.
Á fjölmörgum stöðum eru hins vegar merki um mannvist beint ofan á landnámslaginu sem sýnir að veruleg breyting verður ekki fyrr en eftir að lagið féll. Eftir standa allmargar kolefnisaldursgreiningar sem virðast benda í aðra átt. Margar hafa einfaldlega verið túlkaðar vitlaust: skekkjumörkin eru oft víð og ná iðulega fram yfir 870 þó miðgildið sé mun eldra og þó það sé freistandi að horfa á miðgildið þá er það ekki líklegri aldur á tilteknu sýni en gildin til endanna á líkindadreifingunni.

Hrísbrú

Hrísbrú – uppgröftur.

Ýmiss konar vandræði geta verið með tæknileg atriði eins og hlutfall geislavirks kolefnis í umhverfinu og eiginn aldur sýnanna en meginatriðið er að ekkert einasta sýni sem gefur svo háan aldur er sannarlega tekið úr lögum sem eru eldri en landnámslagið. Sýnin eru annaðhvort tekin úr lögum sem eru sannarlega yngri en landnámslagið eða þau eru úr óþekktu samhengi (sem þýðir líka að þá er óvíst hvað þau eru að tímasetja).
Þetta þýðir ekki að fólk hafi ekki verið komið til Íslands fyrir 870 og er það hin hlið málsins. Torfveggirnir tveir sýna raunar ótvírætt að fólk var komið til Íslands áður en landnámslagið féll en þeir skera ekki úr um hvort það hafi verið nokkrum mánuðum fyrr eða áratugum.

Húshólmi

Húshólmi – garður. Landnámslagið er í garðinum.

Undir landnámslaginu hafa fundist frjó sem gætu verið úr korni, kolasalli sem gæti stafað af bruna af mannavöldum og ummerki um að birkiskógarnir hafi verið byrjaðir að minnka áður en lagið féll. Þá eru nokkrir gripir til sem geta hafa verið komnir til landsins fyrir 870. Engar af þessum vísbendingum eru ótvíræðar en þær koma heim og saman við þá hugmynd að fólk hljóti að hafa verið komið til Íslands allnokkru fyrir 870.
Það er ekki einfalt mál eða auðvelt að nema land þar sem enginn býr og það myndi gera það miklu skiljanlegra sem gerðist á árunum eftir 870 ef við gerum ráð fyrir því að fólk hafi þá verið hér á ferli um hríð til að kanna landið, gera tilraunir með búskap og koma upp bústofni.

Húshólmi

Húshólmi – skáli. Skráð fornleif, sennilega sú elsta hér á landi.

Einkum og sér í lagi verður allt auðveldara ef fólkið sem kom eftir 870 hefur getað keypt eða leigt búfé sem þegar var búið að rækta. Það eru getgátur einar að svo hafi verið en það er ekkert í fornleifaheimildunum sem útilokar að Ísland hafi fundist og það hafi verið kannað áratugum, og jafnvel öldum, áður en stórfellt landnám hófst, né að fólk hafi verið byrjað að prófa sig áfram með búskap nokkrum áratugum fyrr. Það getur ekki hafa verið mjög víða eða í stórum stíl en nógu mikið til að gera eftirleikinn mögulegan.
Kolefnisaldursgreiningarnar sem notaðar hafa verið til að rökstyðja landnám á 7. öld stafa ekki frá slíkri frumbyggð. Þær tengjast allar byggðinni sem reis eftir 870. En það þýðir ekki að fólk hafi ekki getað verið hér á ferli á 7. eða 8. öld.“

Heimild:
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=64420

Hellir

Hellir landnámsmanna, Papa eða Kelta, á Suðurlandi.

Landnám

Í Tímanum árið 1989 fjallar Margrét-Hermanns Auðardóttir um kenningar sýnar um upphaf landnáms hér á landi að fenginni reynslu hennar að uppgreftri landnámsbýlis í Herjólfsdal í Vesmannaeyjum undir fyrir sögninni „Öllum fyrri kenningum um upphaf og tímasetningu landnáms á Íslandi kollvarpað – Var Ingólfur á seinni skipunum?“. Þrátt fyrir að tilefnið tengist ekki Reykjanesskaganum, fyrrum landnámi Ingólfs, beint er þó ástæða til að gefa hugmyndafræðinni gaum.

Margrét-Hermanns Auðardóttir

Margrét-Hermanns Auðardóttir, f. 1949.

„Margrét Auðar-Hermannsdóttir fornleifafræðingur varði nýlega doktorsritgerð sína við Umeaa Háskóla í Svíþjóð. Ritgerðin ber heitið: „Islands tidiga bosattning“ og fjallar um fyrstu byggð norrænna manna á Íslandi. Þar er því haldið fram að byggð á Íslandi nái allt aftur á sjöundu öld.
Niðurstöður sínar byggir Margrét á fornleifarannsóknum í Herjólfsdal í Vestmannaeyjum sem fóru fram á árunum 1971 til 1983. Tímasetning Margrétar á landnáminu byggir á uppgreftrinum í Herjólfsdal, þ.e. því hvað má lesa út frá húsaleifunum og þeim munum sem þar hafa fundist. Þá er mannvistarlagið, þykktin á því og hvernig það hefur hlaðist upp í gegnum tímann, borið saman við gjóskulög eða gosöskulög. Sú viðmiðun sem Margrét notar er meðal annars svokallað landnámslag sem er öskufall frá gosi á Vatnaöldusvæðinu fljótlega eftir að landið byggðist. Hún styðst einnig við aldursgreiningar með geislakoli, svokallaða C-14 aðferð, við aldursgreiningarnar.

Landnámsbyggð í Herjólfsdal

Herjólfsdalur

Uppgraftrarsvæðið í Herjólfsdal séð frá austri. Eftirfarandi er merkt á myndina:
I) Skáli-íveruhús
II) Skáli-íveruhús
III) Eldhús
IV) Fjós
V) Skáli-íveruhús
VI) Heygarður
VII) Matargerðarhús
VIII)Fjós og íveruhús undir sama þaki
IX) Byggingaleifar
X) Garður, sennilega kví
XI) Lítið gripahús, trúlega fyrir svín.

Niðurstöður Margrétar eru í stuttu máli á þá leið að byggð norrænna manna á Íslandi nái allt aftur á sjöundu öld og að byggðin í Herjólfsdal hafi varað frá sjöundu öld og fram á tíundu eða elleftu öld. Margrét hefur j afnframt tengt niðurstöður rannsóknanna úr Herjólfsdal við rannsóknir sem hafa verið gerðar á fastalandinu og telur hún að komið hafi í ljós að byggðin á fastalandinu sé jafngömul byggðinni í Herjólfsdal.
Margrét hefur bent á að áður hafi niðurstöður mælinga samkvæmt geislakolsaðferðinni bent til byggðar á Íslandi fyrir árið 874. Menn hafi hinsvegar aðeins tekið þær niðurstöður gildar sem stutt hafi að landnám hafi átt sér stað í kringum 874 en ekki þær niðurstöður sem gefi til kynna eldri uppruna.
Fyrrnefnt landnámslag, sem Margrét hefur meðal annars til viðmiðunar hefur verið tímasett í kringum árið 900 e. Kr. en Margrét telur að gosið hafi átt sér stað allt að 200 árum fyrr.

Landnámslag 200 árum eldra

Herjólfsdalur

Herjólfsdalur – viðarleifar.

Átta sýni, viðarkol úr birki, úr uppgreftrinum í Herjólfsdal voru tekin til aldursgreiningar. Sex aldursgreiningar benda til hærri aldurs en 874 og þrjár þeirra gáfu til kynna að byggð á svæðinu nái allt aftur á sjöundu öld.
Í viðtali við Tímann útskýrði Margrét niðurstöður sínar varðandi aldur landnámslagsins á eftirfarandi hátt: „Niðurstöður aldursgreininganna eru á bilinu frá sjöundu öld og fram á tíundu og elleftu öld. Neðarlega í mannvistarlaginu í Herjólfsdal er svokallað landnámslag. Ég lít svo á úr því að landnámsaska hefur fallið snemma á byggðina, þá sé það væntanlega eftir elstu aldursgreiningarnar sem ná aftur á sjöundu öld. Þessvegna held ég því fram að þetta gos hafi orðið á sjöundu öld eða í seinasta lagi í kringum árið 700.“

Herjólfsdalur

Sumarið 1971 hóf Margrét Hermanns Auðardóttir, fornleifafræðingur, ásamt öðrum sérfræðingum, uppgröft á sama svæði og Matthías Þórðarson hafði grafið upp langhús áratugum áður. Rannsóknin hélt áfram í fimm sumur en tafðist um nokkur ár vegna eldgossins í Heimaey 1973. Haustið 1980 lauk formlega áralöngum rannsóknum Margrétar og sagði hún í fréttatilkynningu í september, þetta sama ár, að á því 1300 m² uppgraftarsvæði hefðu m.a. fundist átta hús og garðhleðslur. Þau tilheyrðu 4-5 byggingarskeiðum og voru frá mismunandi tímum. Þarna bjuggu bændur, enda ummerki um húsdýr, en einnig nýttu bændur sér hin ýmsu hlunnindi s.s. fugl og fisk. Samkvæmt aldursgreiningum Herjólfsdalsbyggðar, sem formlega voru út gefnar ári seinna, var um mjög forn híbýli að ræða. Elstu húsbyggingarnar eru frá fyrri hluta 9. aldar eða mun eldri en áður var talin. Byggð þessi virðist síðan hafa lagst af á seinni hluta 10. aldar, líklega vegna uppblásturs. Landnámsbyggð í Vestmannaeyjum er því, samkvæmt þessu, eldri en kemur fram í elstu heimildum, Sturlubók og Hauksbók.

Margrét bætti því við að niðurstöður sem þessar byggðu auðvitað á líkum á sama hátt og niðurstöður jarðfræðinga sem hafa verið ríkjandi varðandi aldur gosa og gjóskulaga. „Ég er sammála öðrum fræðimönnum um að gjóskufallið frá Vatnaöldusvæðinu er landnámslag. Þetta er gjóskufall frá gosi sem á sér stað skömmu eftir að land byggðist. Það eru flestir fræðimenn sammála um að það megi kalla þetta landnámslag en ég er ekki sammála þeim um hvenær gosið varð. Auðvitað getur verið að það eigi eftir að mæla þetta nákvæmar. En ef miðað er við uppgröftinn í Eyjum og aldursgreiningarnar þaðan, þá er byggðin í landinu örugglega eldri en frá árinu 874. Spurningin er hvort að ég teygi aldurslíkurnar of langt aftur eða of stutt, það verður ekki vitað fyrr en haldið verður áfram að rannsaka þessa hluti með tilliti til aldurs.“- En er þá hægt að komast lengra í að fá nákvæmari vitneskju um aldur landnámsins?
„Já, slíkt er mögulegt. Það þarf að halda rannsóknum áfram hvað varðar elstu byggð í landinu, enda er stöðugt unnið að því að þróa aðferðir til að fá fram nákvæmari aldur til dæmis á lífrænum leifum.“

Aldursgreining gagnrýnd
Margrét Hallsdóttir jarðfræðingur hefur gagnrýnt niðurstöður Margrétar Auðar-Hermannsdóttur varðandi aldur landnámslagsins. Gagnrýnir hún að aldursgreint er út frá viðarkolum en ekki út frá gróðurleifum í öskulaginu. Viðarkol séu ekki endilega úr gróðri sem lifði á Íslandi við upphaf Íslandsbyggðar.

Landnámslagið

C-14 aldursgreining byggist á kolefni 14 (C-14, C14 eða 14C), sem er samsæta kolefnis, sem inniheldur 6 róteindir og 8 nifteindir í kjarna. Þessi kolefnissamsæta er geislavirk og klofnar með beta klofnun og myndar köfnunarefni. C-14 er til staðar í öllu náttúrulegu kolefni í hlutfalli sem er nokkurn veginn 1:1012. Helmingunartíminn er 5730±40 ár, sem samsvarar því að í einu grammi kolefnis úr lifandi lífveru verði um það bil 14 klofnanir á mínútu.
Á þessu byggist C-14 aldursgreiningin. Þegar lífvera deyr hættir hún að sjálfsögðu að taka til sín kolefni, en það kolefni sem er til staðar klofnar í sífellu og breytist þá hlutfall geislakolsins með tímanum. Með því að mæla það hlutfall geislakols, sem til staðar er má meta hve langt er síðan lífveran, sem hið lífræna sýni er komið frá, lauk ævi sinni. Sé eitthvert mælanlegt magn geislakols til staðar, gefur það til kynna að aldur sýnisins sé mjög lítill í jarðsögulegum skilningi. Til dæmis eru jarðolía og kol of gömul til þess að magn geislakols í þeim sé mælanlegt.

Geislakolsmælingar á gróðurleifum úr landnámslaginu hafi sýnt aldur á bilinu frá 700-900 e. Kr. og 95% líkur séu á því að lagið sé frá því tímabili. Aðrar rannsóknaraðferðir en geislakolsmælingar bendi þó á síðari hluta níundu aldar.
Varðandi þessa gagnrýni segir Margrét Auðar-Hermannsdóttir: „Hvað varðar aldursgreiningar á lífrænum leifum í landnámslaginu sjálfu, þá hafa þeir sem ég hef leitað ráða hjá mælt með sýnum sem tekin eru undir landnámslaginu til aldursgreininga, en ekki í því vegna truflana sem geta skapast á gosog öskufallstímanum.
Það er greinilegt ósamræmi í því hvernig fjallað er um 14 C aldursgreiningar. Jarðfræðingar draga til dæmis sjaldnast í efa aldursgreiningar frá tíundu og elleftu öld en ef að aldursgreiningar benda til eldri tíma en 874 þá er þeim fundið allt til foráttu. Það sem ég geri í minni rannsókn er að raða saman upplýsingum sem fengnar eru með því að skoða húsaleifarnar og muni sem fundust. Því miður hef ég ekki muni úr elsta hluta mannvistarlagsins, sem gætu sagt til um aldur út frá gildandi formfræði, svokallaðri týpólogíu fornleifafræðinnar. Aftur á móti hef ég hluti efst úr mannvistarlaginu sem eru frá sama tímaskeiði og yngstu aldursgreiningarnar. Þar af leiðandi bendi ég á að þarna er ákveðin fylgni á milli. Rétt er að taka fram að það er mjög algengt að formfræðilega greindir munir finnist ekki í lögum frá þessum eldri tíma, sé tekið mið af fornleifarannsóknum á eyðibýlum í Skandinavíu.“

Myrkar aldir

Vestmannaeyjar

Vestmannaeyjar – Uppdráttur af Heimaey frá 1776
eftir Sæmund Holm.

„Við verðum að hafa í huga að á þessu tímabili, frá 600-800, eru myrkar aldir á Norðurlöndum, sérstaklega í Vestur-Noregi. Mér sýnist á öllu að þetta landnámsfólk komi frá sömu svæðum og áður hefur verið talið út frá hinni hefðbundnu skoðun.
Ari fróði nefnir að hér á landi hafi verið fólk, papar, fyrir hið eiginlega landnám. Ég kem inn á það í ritgerðinni að papar hafi hugsanlega verið norrænir menn. Enda er alltaf tilgreint að Norðmenn kalli þá papa. Einnig má nefna vangaveltur sem hafa komið fram um að þeir hafi verið kristnir og þess vegna kallast papar. Þó að hér hafi fundist írskar bjöllur og baglar þá segir það ekkert til um uppruna fólksins. Það var engin kirkja til á Norðurlöndum svo snemma, þannig að kirkjuleg tákn sem finnast á Íslandi koma annað hvort frá Bretlandseyjum eða meginlandi Evrópu, en segja ekki endilega til um uppruna fólksins sem bjó hér fyrst.

Landnáma

Landnáma.

Þeir sem stóðu að baki Landnámabók á miðöldum gátu ekki haldið því fram að papar hafi verið fyrstu landnámsmennirnir. Með ritun bókarinnar var verið að verja ákveðin völd og eignir og þar þurfti gjarnan að rekja jarðnýtingarréttinn aftur á „landnámstíma“ viðkomandi ætta.
Ég tel sýnt að fyrsta byggðin nái aftur fyrir árið 874 en það verður örugglega áfram deilt um hve langt aftur hún nær. Þar sem ekki er að sjá nein greinileg skil í byggingahefð eða öðru er snertir fyrstu landnámsmenn og þá er seinna koma, þá virðist sem þetta fólk sé að stærstum hluta af sameiginlegum uppruna.“- Af hverju eru menn svona tregir til að meðtaka niðurstöður af þessu tagi?

Herjólfsdalur

Herjólfsdalur – uppdráttur af uppgraftarsvæðinu.

„Í ritgerðinni kem ég inn á það strax í byrjun að íslensk menningarsaga hefur stjómast af miðalda heimildum, en alls ekki af fornleifafræði. Þegar ráðist hefur verið í fornleifauppgreftri á stöðum sem grunur leikur á að tengist elstu byggð, þá er yfirleitt byrjað á að slá upp í Landnámu eða öðrum rituðum heimildum og að loknum uppgreftri lestu yfirleitt í niðurstöðunum að þetta sé landnámsbær þessa eða hins og þetta passi við hefðbundnar hugmyndir um landnám, o.s.frv. Það hafa sjaldnast verið notaðar aldursgreiningaraðferðir að hætti fornleifafræðinnar. Auk þess er lítill hluti svokallaðra heiðinna grafa eða kumla þar sem munir hafa fundist sem geta sagt til um aldur.“

Að breyta fornleifafræðinni

Herjólfsdalur

Herjólfsdalur – skilti.

„Ég sé ritgerðina sem lið í því að það verði vonandi tekið öðruvísi á fornleifaframkvæmdum hér á landi en hingað til hefur verið gert. Þá vil ég ekki síður sýna fram á að fornleifafræðin vinnur ekki út frá rituðum heimildum heldur eigin aðferðum. Auðvitað hundsar hún ekki ritaðar heimildir en hún gengur ekki út frá þeim sem vísum. Fomleifafræðingar eiga að veita gjaldgengum aðferðum eigin faggreinar sem að mínu mati hefur verið gert of lítið af hér á landi, og erum við þar langt á eftir nágrannaþjóðunum bæði hvað opinber framlög varðar og eins menntun þeirra sem bera ábyrgð á framkvæmdunum. “

Er 874 heilög tala?- Afhverju hefur þessi afstaða verið ríkjandi?

Landnám

Ingólfur og öndvegissúlurnar í Reykjavík um 870.

„Allt þetta með landnámið, ártalið 874 og sjálfstæðisbaráttuna er svo greipt í huga Íslendinga að það er nánast heilagt. En þar sem sjálfstæðisbaráttunni lauk meira eða minna með fullveldinu 1918 þá hefði maður búist við að ný og ferskari stefna yrði ríkjandi í sagnfræði og norrænum fræðum og lögð yrði áhersla á þátt fomleifarannsókna, en sú varð ekki raunin. Þegar stöðnun festist í sessi þá er henni alltaf beitt hatrammlega gegn öllu sem dregur í efa ríkjandi skoðanir og þar með stöðu einhverra valdaaðila og svo er því miður með íslenska fornleifafræði og aðrar tengdar greinar.
Í nágrannalöndunum finnst mönnum óskaplega skrítin sú afstaða að finna því allt til foráttu ef einhver kemst að því að byggð á Íslandi sé hugsanlega eldri en hefðbundnar hugmyndir gera ráð fyrir. “

Sömu niðurstöður í miðbæ Reykjavíkur- Hafa fleiri komist að sömu niðurstöðu?

landnámsskáli

Reykjavík – minjar landnámsbæjar í Aðalstræti.

„Það eru til háar aldursgreiningar frá fleiri stöðum á Íslandi en Herjólfsdal. Fyrir mörgum er þetta greinilega mikið tilfinningamál, fyrir mér er þetta auðvitað bara fagleg staðreynd sem hefur ekkert með tilfinningar að gera.
Það eru til háar aldursgreiningar úr uppgreftrinum í miðbæ Reykjavíkur frá síðasta áratug. Skýrslan um þann uppgröft kom út í vetur í sænskri ritröð sem út af fyrir sig sýnir hve staða íslenskrar fornleifafræði er bágborin. Þar koma fram aldursgreiningar sem eru sambærilegar við aldursgreiningarnar úr Eyjum. Auk þess eru til merki um elstu byggð, þ.e.a.s. mannvist undir landnámslagi, á vesturhluta Suðurlands.“

Er hægt að breyta svona rótgrónum hugmyndum?

Hólar

Fornleifauppgröftur að Hólum. Fornleifafræðingar er jafnan sjálfum sér verstir. Skýrsla um stjórnsýslu fornleifarannsókna og fornleifavernd hafði t.d. að geyma tímbundnar rangfærslur um störf Ragnheiðar Traustadóttur, stjórnanda Hólarannsóknarinnar, sem voru til þess fallnar að valda henni tímabundnum álitshnekki og fjártjóni. Ragnheiður er í dag einn traustvekjandi fornleifafræðingur landsins.

„Já, ég hugsa það. Þetta síast smám saman inn í vitund manna. Þetta er spurning um tíma. Það verða örugglega einhverjir aðrir en ég sem fá hluti upp í hendurnar sem benda í sömu átt. Ég túlka það þannig að það hafi þegar gerst með uppgreftrinum í miðbæ Reykjavíkur. Þetta er spurning um hvernig maður vill líta á þessar aldursgreiningar í heild sinni. Það er ekki hægt að taka einungis góðar og gildar þær aldursgreiningar sem eru okkar megin við 874 og neita að horfa á þær sem eru hinumegin við sama ártal. Við verðum að líta á niðurstöðurnar sömu augum hvoru megin sem þær lenda við hefðbundnar hugmyndir.“

Í ómarkvissu þarsi fornleifafræðinga í gegnum tíðina um mat á einstökum merkilegheitum virðist meginmarkmið fræðagreinarinnar gleymst. Dæmi eru um að einhverjir þóknanlegir pótentátar eru fengnir til að taka saman „rannsóknarskýrslur“ fyrir einstakar stofnanir eða Hið opinbera án þess þó að hafa a.m.k. lágmarksþekkingu á viðfangsefninu. Þeir eða þau er hlut eiga að máli hafa sjaldnast fengið að tjá sig um um „rannsóknina.
Fornleifafræðingar landsins þurfa að reyna að hefja sig upp úr daglegu argaþrasi hversdagsins, sem engu skilar, og beina þekkingu sinni að því sem raunverulega skiptir máli – til framtíðar litið.

Heimildir:
-Tíminn, 192. tbl. 28.09.1989, Öllum fyrri kenningum um upphaf og tímasetningu landnáms á Íslandi kollvarpað: Var Ingólfur á seinni skipunum?, bls. 10-11.
-Fornleifaskráning; Fyrri hluti – heimildir fyrir Vestmannaeyjar, 2002.

Herjólfsbær

Herjólfsbær. Í októbermánuði 2005 var ráðist í byggingu nýs Herjólfsbæjar í Herjólfsdal. Að smíðinni er notast við áreiðanlegastu heimildir og reynt að gera hann sem líkastan upprunalegum bænum. Húsið er byggt sem langhús og gripahús. Lista- og menningarfélagið Herjólfsbæjarfélagið hafði frumkvæði að smíðinni. Að framkvæmdinni stóðu Árni Johnsen, Þórður Guðnason, Þorsteinn D. Rafnsson, Esra Ó. Víglundsson og Víglundur Kristjánsson.