Tag Archive for: Urriðakotsdalur

Urriðakot

Friðlýsingu svæðisins sem fólkvangs er ætlað að tryggja aðgengi almennings að náttúru Urriðakotshrauns, sem býr yfir fjölbreyttum náttúru- og menningarminjum og miklum möguleikum til útivistar, náttúruskoðunar og umhverfisfræðslu, m.a. um göngu- og reiðstíga sem liggja um svæðið.

Urriðakotshraun - friðlýsing

Guðlaugur þór, Almar og aðrir viðstaddir friðlýsingu Urriðakotshrauns.

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, undirritaði í dag, 10. jan. 2024, friðlýsingu Urriðakotshrauns sem fólkvangs.

Friðlýsingin er staðfest að beiðni Garðabæjar og landeigendanna, Styrktar- og líknarsjóðs Oddfellowa, og unnin í samstarfi ráðuneytisins og Umhverfisstofnunar.

Urriðakotshraun er hluti af Búrfellshrauni sem rann fyrir um 8100 árum og er þar nokkuð um hraunhella. Markmið friðlýsingarinnar er einnig að vernda jarð- og hraunmyndanir sem og menningarminjar Urriðakotshrauns, sem eru fágætar á heimsvísu, sem og náttúrulegt gróðurfar svæðisins.

Urriðakotshraun - friðlýsing

Hið friðlýsta svæði Urriðakotshrauns.

„Það er afskaplega gott þegar hægt er að ljúka verkefnum svona farsællega eins og þessu. Friðun fólkvangsins hefur mikla þýðingu fyrir Garðbæinga, þetta verður til þess að samfella er í þeim svæðum sem eru friðlýst og heildarsýn er að myndast. Mér finnst líka gott í heilsueflandi samfélagi að greiða aðgengi almennings að þessu svæði á sama tíma og við verndum það,” segir Almar Guðmundsson bæjarstjóri.

Hið friðlýsta svæði er 1,05 km2 að stærð, en samhliða vinnu við friðlýsingu var unnið deiliskipulag fyrir svæðið sem nú hefur verið staðfest og auglýst af Skipulagsstofnun.

Deiliskipulagið gerir ráð fyrir að í náinni framtíð verði lögð golfbraut sem er hluti af golfvellinum Urriðavelli innan fólkvangsins.

Urriðakotshraun - friðlýsing

Urriðakotshraun og nágrenni.

Fólkvangurinn í Urriðakotshrauni er mikilvægur hlekkur í röð friðlýstra svæða sem nær frá upplandi Garðabæjar nær óslitið til sjávar.

Svæðin sem um er að ræða eru: Reykjanesfólkvangur (friðlýst 1975), Búrfell (friðlýst 2020), Garðahraun efra og neðra, Vífilsstaðahraun og Maríuhellar (friðlýst 2021), Gálgahraun (friðlýst 2009) og innan marka Garðabæjar (friðlýst 2009) og Bessastaðanes (friðlýst 2023) og nú bætist Urriðakotshraun við net verndarsvæða Garðabæjar.

Heimild:
-https://www.gardabaer.is/stjornsysla/utgefid-efni/frettir/urridakotshraun-fridlyst-sem-folkvangur

Urriðakotshraun - friðlýsing

Svæðið, sem friðlýst var í umræddum áfanga.