Í bókinni „Ferðir um Ísland á fyrri tíð“ segir Sigurður Jónsson frá Syðstu-Mörk undir Eyjafjöllum frá ferð hans og fleiri að Njarðvíkum, Miðnesi, á Reykjanesskaga þann 24. janúar 1879.
Leiðin, sem þeir félagar fóru, lá um Krýsuvík, Krýsuvíkurháls, Vigdísarvelli, Móhálsa, með Keili niður á Strönd og áfram að Njarðvíkum. Í bókinni eru nokkrir snjallir íslenzkir ferðaþættir, m.a. eftir Eggert Ólafsson og Pál Ólafsson, sem rituðu um „Skynsemd hesta“, „Svona eru Norðlingarnir“ eftir Jón Steingrímsson, „Dálítill ferðaþáttur“ eftir Jón Þorsteinsson, „Af eilífum ófrið“ eftir Gísla Hjálmarsson, „Fyrsta verzlunarferðin mín“ eftir Tryggvi Gunnarsson og í „Í útverum“ eftir fyrrnefndan Sigurð Jónsson frá Syðstu-Mörk. Þá eru auk þessa „Sendiförin“ eftir Björn Eysteinsson, „Vetrarferð til Reykjavíkur“ eftir Matthías Jochumsson, „Suðurferð í Latínuskólann“ eftir Friðrik Friðriksson, um „Jón Teitsson á Hafgrímsstöðum“, „Af Árna Oddssyni, og „Vesturreið Þórðar kakala síðla nóvembermánaðar 1242“.
Hér verður drepið niður í fyrrnefnda leiðarlýsingu Sigurðar Jónssonar eftir að þeir héldu frá Herdísarvík: „Morgunin eftir, löngu fyri dag, lögðum við félagar af stað. Var nú hópurinn stærri. Við vorum níu. Í Krýsuvík komum við er dagur ljómaði. Gengum við á hinn svonefnda Krýsuvíkurháls. Vestan við hálsinn er býli eitt, sem heitir á Vigdísarvöllum. Kom okkur félögum saman um að æja þar, taka dögurð og um leið kaupa kaffi. Lét bóndi það til reiðu, og kostaði tíu aura fyrir hvern okkar.
Eftir að við höfðum hvílt okkur um stund, var lagt á stað hina svonefndu Móhálsa. er það fjallvegur mikill ofan Strandarheiði, niður hjá Keili. Vegur sá er allgreiður, hraun og mosaræmur yfir að fara. Er það óbyggð ein alla leið ofan á Strönd. Um dagsetur komum við suður í Njarðvíkur, eftir seytján klukkutíma göngu. Tókum við gistingu í Tjarnarkoti. Var ég þá allmjög þrekaður. Þar bjó þá hinn héraðskunni höfðingi Arinbjörn Ólafsson og Kristín Björnsdóttir kona hans. Í Tjarnarkoti var á þeirri tíð öllum gisting heimil, sem hafa þurftu, og gestrisni og góðvild framúrskarandi við æðri og lægri.“
Ekki er ljóst hvaða leið þeir félagar hafa valið frá Keili. Þeir gætu hafa farið um Þórustaðastíg, en þó er líklegra að þeir hafi farið sunnan við Keili og þá fylgt götu niður í Breiðagerðissel og áfram niður á Strönd. Þá gætu þeir hafa tekið stefnu á Brunnastaðasel og fylgt selstígnum áfram niður á Strönd og gengið síðan um Stapagötu að Njarðvíkum. Þá er og ekki útilokað að einhverjir ferðalanganna hafi verið allkunnugir af fyrri ferðum sínum um svæðið og bara tekið beina línu frá sunnanverðum Keili að Stapanum, þverað Brúnaveginn á leið sinni og ekki staðnæmst fyrr en á leiðarenda, enda má telja líklegt, ef þeir hefðu valið áðurnefndar götur, að þeir hefðu eftir u.þ.b. 12 klst göngu ákveðið að banka upp á einhverjum bænum á leiðinni, s.s. á Þórustöðum, í Knarrarnesi, í Breiðagerði, á Brunnastöðum eða í Vogum og beðið um viðurgjörning.
Það, að þeir skulu hafa þverað Móhálsa ofan Vigdísarvalla, bendir jafnvel til þess að þeir hafi farið stystu leið, komið niður á milli Hraunssels og Selsvalla, haldið auðveldustu leiðina yfir hraunið norðan Hraunssels-Vatnsfells og tekið stefnuna niður á Stönd um Brunnastaðasel eða Vogsel, jafnvel enn sunnar; niður með vestanverðu Kálffelli, um Mosadal, framhjá Snorrastaðatjörnum og stystu leið að Njarðvíkum. Lýsingin, þ.e. að „fjallvegurinn mikill liggi ofan Strandarheiði, niður með Keili“, gæti alveg eins vísað á Strandarheiðina og leiðina.
Einn FERLIRsfélaga telur sig nú hafa staðsett Brúnaveginn, sem framhald af Skógfellastíg ofan Stóru-Aragjár. Erfiðlega hafi tekist að staðsetja hann með vissu því „vinkilbeygja“ er á honum þegar komið er að Gjánum. Ætlunin er að skoða aðstæður nánar þar þegar hlánar.
Heimild:
-Finnbogi Guðmundsson og Jóhannes Halldórsson – Ferðir um Ísland á fyrri tíð – Reykjavík: Menningarsjóður 1981.