Færslur

Húsfell

Farin var fjögurra fjalla för ofan Hafnarfjarðar.
Lagt var stað frá Kaldárseli og gengin S-slóðin á Helgafell. Þetta er Hrafnlangeinfaldasta og þægilegasta gönguleiðin á fellið, sem æ fleirum virðist vera orðin kunn.
Haldið var niður að að norðanverðu og gengið að tröllunum þremur á Valahnúk. Þau böðuðu sig í sólinni og ekki var laust við að kerlinginn sæist blikka öðru auga. Kannski var það bara sólargeisli. Undir karlinum kúrði lítill fallegur úlfhundur. Eigandinn var skammt undan.
Gengið var stysta leið af Valahnúkum, með Víghól sunnanverðum og á Húsfell. Í leiðinni var komið við vestan undir fellinu til að líta á hrafnslaup, sem Haukur Ólafsson hafði rekið augun í er hann var þar á göngu nýlega. Hrafnarnir sveimuðu yfir, settust, hoppuðu og krunkuðu. Þeir virtust óánægðir með gestaganginn. Þegar gengið var svo til alveg að laupnum létu þeir enda öllum illum látum svo undirtók í fellinu.
Frá Húsfelli var gengið hiklaust norður að Búrfelli, upp á gígbarminn og eftir honum til vesturs. Gígbarmurinn speglaðist fallega í kvöldsólinni.
Gengið var niður um hrauntröðina og síðan Mosana til baka í Kaldársel.

Gangan tók nákvæmlega fjóra stundarfjórðunga. Veður var frábært – sól og logn.

Tröllin á Valahnúkum

Tröllin á Valahnúkum.