Sagan segir að “einu sinni hafa nátttröllafjölskylda búið í Kerlingarhnúk sunnan við Kerlingarskarð, en norðan við Kerlingargil og er þá Lönguhlíðahorn á millum. Stórkonusteinar eru norður undir Lönguhlíðarhorni. Sögn er af tilvist þeirra, en hún verður ekki rakin hér.
Eitt sinn að vetri þegar dagurinn var stystur ákvað fjölskyldan í Kerlingarhnúk að leggja land undir fót og sækja sér hval (sumir segja skreið) til Hafnarfjarðar en sá hafði rekið á Hvaleyri. Þetta var löngu áður en mennskir höfðu sest að hér á landi. Lögðu tröllin; móðir, faðir, dóttir og stálpaður sonur þegar af stað er sólin hafði skriðið undir ysta hafflöt Faxaflóans. Hundur þeirra fylgdi fast á eftir. Sóttist ferðin vel niður hraunin. Fóru þau beint að augum; yfir Valahnúka (Austurhnúka og Vesturhnúka), sniðgengu þó Helgafell. héldu um Brunna, sem nú er Kaldársel, yfir Bleiksteinsháls og sem leið lá yfir Ásfjall niður á Hvaleyri. Fleiri tröll voru þá mætt á svæðið og þrættu þau drjúga stund um fenginn. Fór þó svo að lokum að tröllafjölkskyldan í Kerlingarhnúk fékk drjúgan skerf og hélt hún að því búnu áleiðis heim á leið. Sóttist henni nú ferðin seint því hvalkétið bæði seig í og var ekki auðborið. Eftir að hafa áð við Brunna undir Kaldárhnúkum héldu þau ferðinni áfram. Faðirinn, sem bar hryggjarstykkið, dróst svolítið aftur úr, enda landið á fótinn. Fjölskyldan hélt sig í hæfilegri fjarlægð frá Helgafelli því vættir þess voru ekki af þeirra ættum.
Eitthvað virðist fjölskyldan annað hvort hafa misreiknað tímann eða hún hefur farið hægar yfir á heimleiðinni en ætlað var því þegar hún kom upp fyrir brún Austurhnúka birtust skyndilega fyrstu morgunsólargeislarnir í Grindarskörðum. Hundurinn, sem fór með hæstu hæðum, steinrann fyrstur. Ætlaði fjölskyldan þá að freista þess að komast niður af Austurhnúkum, en höfðu ekki við sólinni. Urðu fremstu fjölskyldumeðlimirnir að steinum þeim er standa þar enn; móðirin og börnin austar, en faðirinn lítt vestar. Sést vel hvar hann hefur sest niður þegar hann varð þess áskynja er gerst hafði.
Saga þessi hefur lifað meðal tröllanna í fjöllunum ofan Hafnarfjarðar allt til þessa dags. [Aðrir segja að sjá megi skreiðina umleikis tröllunum, sem fyrr sagði.]
Og endar svo þessi saga.”
Eru þetta ekta nátttröll þarna á Valahnúkum? Er þetta ekki bara lygasaga? Ótrúlegt þykir að nátttröll hafi verið til – eða hvað? Lífssteinarnir að baki “tröllunum” segja sína sögu. Auk þess er sagan góð – en þó verður að segja eins og er að tröll eru ekki til í raun og veru (þ.e. engar áþreifanlegar sannanir liggja fyrir um tilvist þeirra (aðrar en bráðin að baki þeim svo miðvetra)). Þau tilheyra ekki náttúrunni eins og fuglar eða fiskar og þess vegna er ekki hægt að fjalla um ummyndun þeirra í stein með því að útskýra einhver líffræðileg ferli í líkama þeirra, á sama hátt og til dæmis hefur verið fjallað um umbreytingu plantna á koltvísýringi í súrefni eða það hvernig hrökkálar mynda rafstuð.
Umbreyting tröllanna er þess vegna mannanna verk. Tröll verða því að steini þegar sólin skín á þau af því að þannig segja menn sögur af tröllum!
Að vísu er rétt að geta þess að ekki verða öll tröll að steini ef þau komast í tæri við sólarljós heldur á það fyrst og fremst við um svonefnd nátttröll.
Það getur verið ágætis skemmtun að koma auga á form í náttúrunni sem líkjast tröllum, eins og við ímyndum okkur að þau líti út.
En svo má auðvitað spyrja af hverju tröll verða endilega að steini, af hverju breytast þau ekki í vatn, gorkúlur, banjó, færiband eða eitthvað allt annað?
Og alveg eins má spyrja af hverju verður ummyndunin við sólarljós en ekki við tunglskin, þegar það rignir, í sunnanstrekkingi eða við eitthvað allt annað?
Til þess að svara þessum spurningum er rétt að hafa í huga hvernig menn búa íslensk tröll til. Lengst af hefur íslenska orðið tröll þó ævinlega verið notað um einhvers konar bergbúa eða vættir í mannsmynd. Fram kemur í þjóðsögum að tröll eru stórvaxnar verur sem búa í hellum og gljúfrum. Þau eru ólík jötnakyni goðsagnanna að því leyti að jötnarnir búa vel og ríkmannlega, eiga góð húsakynni og berast á, eins og lesa má um í Þrymskviðu og víðar.
Af þessu sést að það er ekki fjarri lagi að láta tröll verða að steini, enda eru þau bergbúar. Ef tröllin yrðu að banjói, færibandi eða einhverju öðru sem tengist þeim ekki neitt, væri verið að fara á skjön við skáldskaparlega rökvísi.
Það felst einnig rökvísi í því að láta tröllin verða að steini þegar sólin kemur upp. Andstæða sólarljóss og dagsbirtu er nóttin og myrkrið, en þá fara kynjaverur einmitt á kreik. Þegar hin upplýsta og bjarta veröld tekur aftur völdin er “eðlilegt” að myrkaöflin láti undan síga. Þá verða nátttröllin beinlínis steinrunnin.
Umbreyting (e. metamorphosis) er eins konar afbrigði af myndhverfingu (e. metaphor) en með því hugtaki er átt við að merking orða færist af einu sviði yfir á annað. Ummyndun tröllanna verður til þess að þau hætta að vera tröll en verða að grjóti í staðinn. Það getur verið ágætis skemmtun að koma auga á tröll þegar menn eru á gönguferðum og eins og getur verið gaman að sjá andlit í skýjafari.
Hvað eru vættir? Vættir geta verið bæði af hinu góða og illa, það er hollvættir eða óvættir.
Hvort dularvættir séu til í alvörunni eða ekki, er ógerningur að svara með óyggjandi hætti. Það fer í rauninni eftir viðhorfi hvers og eins hverju hann vill trúa. Þess má geta að til eru einstaka raunvísindamenn sem segjast trúa því að vættir séu til í venjulegum skilningi. Reynsla manna sýnir að sannanir sem menn taka gildar um tilvist vætta munu seint koma fram.
Rétt er að hafa í huga að framangreind saga af tröllunum á Valahnúkum er ekki þjóðsaga. Hún var samin af einum Ferlirsfélaganna í tilefni að göngu á hnúkana árið 2009.
Heimild m.a.:
-www.visindavefur.hi.is