Tag Archive for: vatnsból

Duushús

Um 248 gamlir vatnsbrunnar eru þekktir á Reykjanesskaganum. Brunnar og vatnsból voru mikilvæg enda var greiður aðgangur að vatni grunnforsenda þess hvar bæjum og seljum var valinn staður. Grundvallaskilyrði var greitt aðgengi að vatni, hvort sem var að ræða tjörn, á, læk, vatnsból, upppsprettu eða öruggt brunnstæði. Hér einungis fjallað um brunnana. Umfjöllun um nýtingu vatna, áa, lækja og vatnsstæða er annar kapítuli út af fyrir sig.

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnur í Brunntjörninni.

Brunnar voru oft grjóthlaðnir, gjarnan hringlaga en stundum ferkantaðir og gátu verið nokkurra metra djúpir. Vatnsból s.s. við uppsprettulindir voru einnig gerð aðgengileg með hleðslum, ef þurfti.

Gamlir brunnar teljast til fornleifa. Samkvæmt skilgreiningu minjalaga þá eru fornleifar allar leifar fornra mannvirkja og annarra staðbundinna minja sem menn hafa gert eða manna verk eru á, og eru 100 ára eða eldri.

Í Þjóðháttaskrá Þjóðminjasafnsins er fjallað um neysluvatn og öflun þess. Þar er m.a. spurst fyrir um vatnsstæði, vatnsból, vatnsþrær, brunna, uppsprettur, lækningalindir og vatnsleiðslur:

Þorbjarnarstaðir

Þorbjarnarstaðir – brunnurinn á lágfjöru.

„Öll mannavist í landinu er tengd öflun neysluvatns fyrir fólk og fénað. Landnámsmenn, sem reistu fyrst byggð hérlendis, hafa m.a. sælst til þess að rennandi vatn félli hjá bæjarstæðinu og til skamms tíma hefur það þótt góður kostur á sveitabýli að eiga góðan bæjarlæk rétt hjá bæjarveggnum. Allt hefur þetta breyst á þessari öld [20. öld], flest byggð ból eiga nú kost á streymandi lindarvatni eftir vatnsleiðslum um lengri eða skemmri veg. Þessi breyting hefur gerst á svo skömmum tíma í sögu þjóðarinnar að enn muna fjölmargir Íslendingar til þess að bera þurfti allt neysluvatn frá brunni eða bæjarlæk í hús.
Í dag þykir okkur nútímabúum sjálfsagt að þiggja rennandi vatn inn í híbýli okkar, en forfeður og -mæður þekktu ekki slíka dásemd, öðu nær.

Flankastaðir

Flankastaðir – byrgður brunnur.

Hvað felst í orðinu vatnsból? Er það eingöngu notað um þann stað sem neysluvatn heimilisins er tekið úr? Gilti þá einu hvort vatnið var sótt í læk, tjörn eða jafnvel brunn? Var ábýlisjörðum talið gott vatnsból til kosta í umræðu manna á milli? Var þá einnig talað um langan eða stuttan vatnsveg og miðað við það hve langan veg þurfti að sækja neysluvatn? Voru dæmi þess að sækja þyrfti neysluvatn á hestum um langan veg?
Hvað um bæjarlækinn? Var hlaðin þar sérstök vatnsþró? Var hlaðið þrep í farveginn til að mynda smáfoss (lækjarbuna) við vatnsbólið? Var sérstakur, flatur steinn við vatnsbólið, ætlaður til að klappa á þvott (þvottasteinn)?

Bæjarsker.

Bæjarsker – brunnur.

Var vegur lagaður með einhverjum hætti að vatnsbóli (stíflur, upphækkun)? Var vatnsbólið haft til þess að afvatna í saltfisk og e.t.v. kjöt? Voru dæmi þess að bæjarlæknum væri veitt gegnum hús, innanbæjar, eða að byggt væri hús eða skýli yfir vatnsbólið? Var neysluvatn sótt í tjörn nálægt bænum? Var einhver umbúnaður í sambandi við vatnstöku þar, t.d. hleðsla útí tjörnina eða grafin þró í tjarnarbotninn? Voru til upphlaðin vatnsból, án aðrennslis eða frárennslis ofanjarðar. Eru til sagnir eða munnmæli varðandi slík vatnsból, t.d. hvað varðar öryggi vatns til nota (að engum skyldi verða meint af vatninu ef vissum skilyrðum var fullnægt)?

Lónakot

Lónakot – brunnur á Brunnhæð.

Brunnar voru víða, einkum í seinni tíð, einkum þar sem ekki var völ á neysluvatni nema með því að grafa brunn. Einstakir menn, öðrum fremur, unnu víða að brunntöku og hleðslu brunna og hlutu jafnvel viðurnefni af því. Var bæjarbrunnurinn innanbæjar, t.d. í fjósi? Var ranghali eða gangur til brunns innanbæjar og byggt sérstakt hús þar yfir brunninn? Var e.t.v. sérstakt brunnhús utanbæjar? Lýsið brunntöku og brunnhleðslu ef tök eru á. Var sprengiefni notað við brunntöku þar sem hraun eða klettar voru til hindrunar? Voru brunnar yfirleitt hringhlaðnir? Hvað með hleðsluefnið.

Staðarhverfi

Staðarbrunnurinn hefur nú verið endurhlaðinn – 14 m djúpur.

Hvað vita menn dæmi til þess að brunnar hafi verið grafnir djúpt niður? Hvernig var umbúnaði yfir brunnopum (yfirgerslu með hlemmi og brunnvindu t.d.) háttað? Vita menn dæmi þess að brunnar hafi jafnan verið opnir vegna gamalla ummæla? Fylgdi sérstök vatnsfata brunni (vatnsponta)? Voru dæmi þess að silungur (eða silungar) væri hafður í brunni (brunnsilungur) til að útrýma þar brunnklukku t.d.? Voru vatnsleiðslur síðar tengdar við gamla brunna? Voru brunnar hreinsaðir að jafnaði einu sinni á ári (eða oftar)? Eru gamlir brunnar e.t.v. enn í notkun? Hvað nefndist járnborið vatn í brunni (járnláarvatn t.d.)? Er orðið brunnur (brunnar) einnig notað um uppsprettur vatns, t.d. í örnefnum? Þekkja menn sagnir, orðtök eða kveðskap um brunna?

Arnarfell

Arnarfell – yfirborðsbrunnur.

Regnvatn gegndi þýðingamiklu hlutverki og var safnað víða. Með tilkomu rennuhúsa urðu tök á því að safna regnvatni í tunnur eða vatnsgeyma. Þetta varð á tímabili þýðingamikill þáttur í vatnsöflun margra sveitaheimila og sumra þéttbýlisstaða.
Hvernig voru vatnsgeymar og söfnunarílát regnvatns, hreinsun þeirra og annað, er efnið varðar. Sá þetta allri neysluvatnsþörf heimila borgið á vissu tímabili?
Vatn á vetrardegi gat verið miklum erfiðleikum bundin. Vatn þvarr í langvarandi frostum, eigi síður en í þurrkum, og vatnsból lögðust undir ís. Hvernig var unnin var bót á þeim vanda, m.a. með því að vaka læki og tjarnir fyrir búfénað. Var sérstakt áhald til þeirra nota (vakarbroddur t.d.)? Voru dæmi þess að snjór væri bræddur til vatnsöflunar, t.d. í fjósi?

Aðalstræti 1836

Aðalstræti 1836. Þangað sótti fólk vatn í Ingólfsbrunn.

Vatnsburður frá vatnsbóli til bæjar var eitt af húsverkunum. Hafði viss heimilismaður einkum það starf að bera vatn í bæ eða fjós? Kunna menn af eigin raun eða eftir annarra sögn að segja frá fólki sem vann fyrir sér með því að bera vatn í hús frá vatnspósti eða vatnsbóli? Hvernig voru áhöld sem notuð voru við vatnsburð og hver voru nöfn þeirra (vatnsfötur, vatnsgrindur, og o.s.frv.). Voru vatnsker eða vatnstunnur til að hella í vatninu innanbæjar svo jafnan væri þar tiltækur nægilegu vatnsforði?

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur við Alfaraleiðina.

Lækningalindir hafa verið víða hér á landi, margar að sögn tengdar vígslum Guðmundar góða. Hér er leitað eftir fróðleik um lækningalindir, nöfnum þeirra, notum og sögnum tengdum þeim. Þekkjast nöfn eins og Gvendarlind eða Maríulækur í nánd bæja eða byggða? Var einkum sótt vatn í þessar lindir handa veiku fólki? Voru dæmi þess að þangað væri sótt neysluvatn til drykkjar og matarsuðu en vatn til annarra nota (t.d. þvotta) sótt í annað vatnsból?

Var sama á hvaða tíma sólarhrings vatn var sótt í lækningalindir? Eru til sagnir um það að lækningalindir hafi verið saurgaðar með einhverjum hætti þannig að þær misstu kraft sinn? Hvenær var hætt að sækja vatn í lækningalindir þar sem þeirra var annars völ? Er trú á lækningalindir e.t.v. enn fyrir hendi?

Lækjarbotnar

Lækjarbotnar – vatnsleiðsla eftir að vatni hafði verið hleypt úr Kaldárbotnum yfir Sléttuhlíð er rann síðan undir Gráhelluhraunið og kom upp í Botnunum. Góð tilraun, en dugði skammt fyrir sívaxandi bæjarfélag, Hafnarfjörð.

Vissa varúð þurfti að hafa við öflun vatns á víðavangi, einkum er menn lögðust niður við vatn úti á víðavangi til að svala þorsta sínum (að signa yfir vatnið eða drekka gegnum dúk eða síu einhverskonar)? Var e.t.v. algengasta aðferðin sú að drekka úr lófa sínum?
Vatnsleiðslur með sjálfrennandi vatni eða tengdar dælum eða vatnshrútum koma til sögunnar undir lok 19. aldar og þó einkum á þessari öld. Í fyrstu var um stein- og tréstokka að ræða. Einstakar sveitir hafa lagt samveitur vatns um langar leiðir nú í seinni tíð. Þessar framkvæmdir hafa létt miklu oki af fólki og eru þýðingamikill þáttur í framför aldarinnar. Um þetta er völ margra heimilda en annað liggur engan veginn ljóst fyrir og þá allra helst um það hverjir fyrst hófust handa við að leiða vatn í bæjarhús og útihús í einstökum sveitum eða byggðum. Höfðu einstakir menn forgöngu um það, öðrum fremur, að leggja vatnsleiðslur til heimila og fóru til þeirra starfa bæ frá bæ?“

Garður

Króksbrunnur – fylltu með grjóti.

Af þessum umleitunum má sjá að vatnsöflun og -neysla hefur þótt áhugaverð fornsöguleg arfleifð – og þarf engan að undra því hér hefur verið um að ræða einn af grundvallarþáttum afkomunnar frá upphafi lífs alls staðar á jörðinni – allt til þessa dags.

Brunnar voru jafnan fylltir með grjóti eftir sjálfrennani vatn tíðkaðist í sérhvern bæ. Það var gert til að minnka slysahættu. Þó má enn síða sjá djúphlaðna brunna, sem oftast hafa verið byrgðir. Brunnarnir við Flekkuvík, Norðurkot á Ströndinni og á Stað við Grindavík eru ágæt dæmi um slíka, en síðastnefndi brunnurinn, sem nú hefur verið hreinsaður og endurhlaðinn hið efra, er 14 m djúpur.

Gufuskálar

Lindarbrunnur við Gufuskála.

Fallegir hlaðnir lindarbrunnar eru og enn til, s.s. á Gufunesi við Leiru og Garðalind neðan Garða á Garðaholti í Garðabæ. Þá eru til séstakar útfærslur af brunnum, t.d. brunnurinn neðan Reykjanesvita, sem sérstaklega var hlaðinn úr „betunssteinum“ upp á dönsku. Brunnurinn er í raun grafinn og hlaðinn sem brunnhús. Þá er niðurgrafni brunnurinn við Merkines allmerkilegur því hann er grafinn og hlaðinn líkt og Írskibrunnur við Gufuskála á Snæfellsnesi. Við Nes í Selvogi var brunnurinn niðurgrafinn í brunnhúsi.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Vogum.

A.m.k. 6 nafngreindir Gvendarbrunnar er á Skaganum, s.s. við Alfaraleiðina milli Hafnarfjarðar og Hvassahrauns, í Vogum, í Heiðmörk Reykjavíkurmergin, við Esjuberg á Kalarnesi, í Arnarneshæð í Garðabæ og við Kröggólfsstaði í Ölfusi. Nokkrir aðrir brunnar og lindir hafa verið eignaðar Guðmundi biskupi góða, en heimildir þar að lítandi standast ekki í tíma, líkt sem og svo margt er sagt var í þjóðsögunum um Eirík galdraprest á Vogsósum. Má þar nefna t.d. lindina Sælubunu í Strandardal.

Hraun

Hraun – Gamli brunnur.

Brunnarnir í Brunntjörnunum við Straum og Þorbjarnarstaði í fyrrum Garðahverfi eru svolítið sérstakir. Þeir eru hlaðnir með brúm úti tjarnirnar, nákvæmlega á þeim stöðum þar sem ferskt vatn leysti undan hraununum þegar sjórinn féll út. Grindavíkurbæirnir að Hrauni, Þórkötlustöðum, Járngerðarstöðum og Stað stóðu lágt og því átti saltvatn greiðan aðgang í brunnana. Almælt var því er Grindvíkingar komu á bæi annars staðar og þáðu kaffi báður þeir jafnan um svolítið salt í það til bragðbætis.

Nokkrir gamlir brunnar, s.s. Reykjavíkurbrunninum við Aðalstræti í Reykjavík, og Keflavíkurbrunninum í Reykjanesbæ, hafa verið virtir að verðleikum og gert hærra undir höfði en öðrum, enda sannsögulega sögulegir í báðum tilvikum.

Keflavík

Keflavík – brunnur.

Merkinesbrunnur

„Regnvatn er mér vitanlega ekki haft til matar eða drykkjar hér á landi, annarstaðar en í Vestmannaeyjum. Vatnið er látið renna af husþökunum (járnþökum) niður í vatnsheldar
steinhlaðnar graflr. Þetta er talið neyðarúrræði, því að hreint vatn kemur ekki af þakinu fyrr on rignt hefir góða stund, og hætt við að vatnið volgni og skemmist, ef það geymist lengi í hita. Ef vatnssía er höfð millum þakrennunnar og grafarinnar, verður vatnið auðvitað hreinna og betra.
Brunnur-4Ár og vötn eru ekki hentug vatnshól. Vatnið verður oft of volgt á sumrum, og ofkalt á vetrum. Í leysingum og úrkomutíð verður það óhreint (gruggugt, skolótt); loks er hætt við, að saurindi komist í það, ef mikil bygð er nærri. Skal jafnan gæta þess, að hafa ekki peningshús, hauga eða forir nærri bæjarlæknum, fyrir ofan þann stað, þar sem vatn er sótt í hann.
Jarðvatn er bezta neyzluvatnið; það er hreinast og jafnkaldast. Víða kemur það sjálfkrafa upp úr eða út úr jörðinni; það köllum vér uppsprettur eða lindir. Vatnið í þeim er álíka
kalt sumar og vetur, aldrei volgt á sumrum, aldrei ískalt á vetrum. Er hitinn í þessu vatni mjög líkur meðalárs-hitanum í héraðinu kring um uppsprettuna. Lindirnar frjósa þess vegna ekki á veturna og eru því oft kallaðar kaldavermsli. Lindirnar gruggast ekki í leysingum á vorin; þær eru jafn-hreinar allan ársins tíma. Lindir eru því miklu betri vatnsból en ár og lækir, og lindarvatn er bezta, hreinasta og ljúffengasta vatnið, sem hægt er að fá.
Brunnur-3Þar sem engar lindir eru, má engu að síður víðast hvar ná í jarðvatnið, ef jarðvegurinn er þannig gerður, að hægt er að vinna hann og vatnið ekki afar-djúpt í jörðunni; ekki þarf annað en gera gang beint niður í jarðveginn, þar til er kemur niður í jarðvatnið. Jarðvatnið safnast þá á gangbotninn. Slíka ganga köllum vér brunna. Þeir eru tvenns konar, leggbrunnar og strokkbrunnar. Það er strokkbrunnur, ef gangur er grafinn niður í jarðveginn, en leggbrunnur ef járnpípa er rekin niður í jörðina. Allir brunnar hér á landi eru strokkbrunnar, enginn leggbrunnur til, mér vitanlega. Strokkbrunnar eiga að vora hlaðnir innan úr grjóti, og er mjög aríðandi, að hleðslan sé vatnsheld, til þess að óhreina vatnið í efstu jarðlögunum (leysingarvatn, regnvatn) komist ekki inn í gegn um hleðsluna og niður í brunninn. Ef brunnurinn er mjög grunnur, 4 – 8 fet, og bygt ból í kring, þá er ávalt hætt við, að óhreinindi geti komist niður í jarðvegsvatnið kring um brunninn og runnið inn í hann undir hleðsluna. Ef kostur er á vatni djúpt í jörðu, 20—40 fet eða meira, og brunnurinn gerður svo djúpur, þá má treysta því, að vatnið sé hreint. Í hleðsluna er ýmist hafður grásteinn eða múrsteinn og bor jafnan að líma stein við stein með steinlími (cementi).
Hér í Reykjavik eru brunnarnir hlaðnir úr höggnum grásteini og steinarnir vel límdir saman. Gallinn er sá, að grásteinninn er ávalt gljúpur (holóttur) og þar að auk dýr, ef hann er vel höggvinn. Almennur múrsteinn er líka of holóttur, en þóttur (klinkbrændt) múrsteinn ágætur, og þó hingað fluttur vafalaust talsvert ódýrari en höggvinn grásteinn. Ef beðið er um þess konar múrsteina utanlands frá, þá skal taka fram að þeir eigi að vera í brunna, því að þá verða sendir steinar með sérstöku lagi, sem bezt á við hringhleðslu.
Brunnur-2Í kringum steinstrokkinn skal setja hátt og lágt góðan deigulmó eða annan seigan jarðleir og hafa leirlagið hálfa alin á þykt eða meir. Ef brunnurinn er grafinn í gegn um leirlag eða móhellulag í jarðveginum, þá skal vandlega fylla opið gegn um þetta lag utanvert við brunnhleðsluna með samskonar leir. Leirinn ver óhreinu vatni aðgang að brunnstrokknum að utan. Steinstrokkurinn á að ná 1/2-l fet upp yfir yfirborð jarðvegsins og svo um búið, að halli sé frá brunninum á allar hliðar, til þess að leysingavatn og regnvatn geti ekki runnið ofan í brunninn. Utan um barmana á steinstrokknum skal vera 4 feta breiður vatnsheldur kragi úr steinsteypu eða steinum límdura saman, fleginn niður á við og út á við. Þessi kragi ver því, að saurugt vatn (af fótum manna o.s.frv.) geti sigið beina leið niður með hleðslunni. Hér á landi er víðast siður að sækja vatn í brunna á þann hátt að sökkva fötu niður í brunninn og vega hana upp á handafli eða með vindu. Brunnurinn er þá opinn og engin trygging fyrir því, að óhreinindi geti ekki komist niður í hann. Brunnar eiga jafnan að vera lokaðir; skal hafa vatnsheldan hlemm yfir brunnopinu og vatnsdælu gegn um hann miðjan til þess að ná upp vatninu. Ef hlemmurinn fellur alveg loftþétt að brunnopinu (í frostum á veturna) og dælað er úr brunninum nokkuð að mun, þá hættir vatn að koma úr dælunni innan skamms af því að ekki kemst loft niður í hrunninn í stað vatnsins, sem tekið er. Þess vegna á að vera strompur gegnum hlemminn við hliðina á dælunni og burst yfir strompinum; þessi strompur er líka nauðsynlegur til þess að óhreint loft safnist ekki í brunninn.
Brunnur-1Leggbrunnar eru þannig gerðir, að járnleggir eru settir niður í jörðina, hver á fætur öðrum og vandlega skeyttir saman, nýjum bætt við, þá er sá næsti á undan er að mestu kominn í kaf. Neðsti liðurinn á þessum langa, samskeytta járnlegg á að hafa odd á endanum, ná niður í jarðvatnið og vera alsettur smágötum á hliðunum, til þess að vatnið komist inn í hann. Ef leggendinn stendur í vatnsæð eða vel votri jorð, sem er millum tveggja vatnsbotna, þannig að vatnshelt lag er í jörðunni bæði undir og ofan á, og sé vatnið komið úr halla ofan úr brekkum og runnið á ská niður inn á milli vatnsbotnanna, þá verður þrýstingin á því svo mikil, að það spýtist upp í gegn um legginn. Það er gosbrunnur (artesiskur brunnur), eins konar lind, gerð af manna höndum. Oft er þó þrýstingin svo lítil, að vatnið kemst ekki upp alla leið og verður þá að sjúga það úr leggnum með dælu. Þessir leggbrunnar bera langt af strokkbrunnum: 1. Engin hætta er á því, að óhreinindi komist inn í þá eða niður í þá. 2. Járnleggi má setja mörg hundruð fet í jörð niður, en stokkbrunna er naumast unt að gera 100 feta djúpa, því síður dýpri; þess vegna er víða hægt að ná í vatn með járnleggjum, þar sem ekki er gerlegt að komast að því með nokkra öðru móti. 3. Leggbrunnar eru miklu ódýrari en strokkbrunnar úr steini. Í góðum strokkbrunnum kostar hvert dýptar-fet 20 -30 kr., en í leggbrunni ekki nema 8—15 kr. Tvent er þó enn að athuga; leggbrunnarnir hafa þann eina ókost, að vatn getur ekki safnast í þá að neinum mun milli þess að í þá er sótt; og þess vegna koma þeir ekki að liði þar sem jarðvatnið er mjög dræmt. Þó er það sjaldnast að leggbrunsgorð strandi á vatnsskorti. Hitt er verra, að það getur verið ógerningur að koma leggjunum niður, ef jarðvegurinn er grýttur. Þó má telja víst, að víða hér á landi megi gera leggbrunna, ef réttir staðir eru valdir.“

Heimild:

-Eir, 1. árg. 1899, 9. tbl. bls. 133-137.

Gvendarbrunnur

Gvendarbrunnur í Hraunum.

Tag Archive for: vatnsból