Hér verður drepið niður í skrif Ólafs Þorvaldssonar um „Sögu Kaldársels„. Þau birtust í bók hans „Áður en fífan fýkur„, sem gefin var út af Skuggsjá 1968:
„Á þeim tíma, sem menn ferðuðust um landið á hinum frumstæðu farartækjum, svo sem eigin fótum eða á hestum, bar allvíða fyrir augu þeirra sitthvað, sem minnti þá á, að þar hefði einhvern tíma fólk hafst við eða haft nokkurn umgang lengur eða skemur. Víða gat að líta rústir og tóttabrot, misstæðileg eftir aldri og efni þeirra. Sums staðar var þyrping húsatótta, sem bentu til þess, að þar hefði bær verið, og oft mátti rekja húsaskipan greinilega. Allt voru þetta þegjandi vitni þess, að þar hefðu endur fyrir löngu menn að verki verið, sem byggðu úr íslensku efni að mestu.
Eftir framanskráðar hugleiðingar um hin fornu eyðibýli skal nú vikið að einu þeirra. Þetta býli er Kaldársel. Staður þessi hefur nokkuð komið við sögu síðustu áratugina, einkum Hafnarfjarðar.
Ég held því, að ekki sé úr vegi að tína hér nokkuð til af því, sem vitað er um þennan stað áður en hinn nýi tími hélt þar innreið sína. Mun spora þess tíma getið síðar, og þá í þeirri tímaröð, sem þau hafa verið stigin.
Býli þetta á sér ekki langa sögu sem fastur bústaður, og ekki er saga þess á nokkurn hátt frábrugðin sögu svipaðra smábýla á þeim tíma, – en sögu á þetta býli samt – „sigurljóð og raunabögu“. En að Kaldársel eigi sér nokkra sögu, áður en nýi tíminn nemur þar land, mun ekki almenningi kunnugt, og fækkar nú óðum þeim, sem nokkuð vita þar um, umfram það sárafá, sem fært er í letur, þó á víð og dreif, ýmist prentað eða óprentað.
Kaldársel liggur í 6-7 km fjarlægð suðaustur frá Hafnarfirði. Staðurinn dregur nafn af lítilli á, sem rennur fast sunnan við hið forna tún. Bærinn stóð sem næst á miðjum túnbletti, örfá metra frá Kaldá.
Áin rennur á mótum tveggja hrauna, hefur annað komið frá suðri, hitt úr Búrfelli, norðaustur af Kaldárseli. Það þarf ekki lengi að virða fyrir sér þessi hraun til að sjá, að ekki hafa þau úr sama eldgígnum komið, svo ólík er þau að flestu, hraunið sunnan Kaldár tilbreytingarlítið og snautt af gróðri, nema grámosa, allt til Óbrennishóla en kringum Kaldársel með margs konar gróðri. Gjár eru þar með vatni í botni og hraunmyndanir eru þar margvíslegar, og mætti helst líkja þeim við suma staði við Mývatn.
Árið 1929 kom út í Reykjavík lítil bók með þremur kvæðum eftir Friðrik Friðriksson. Hver þetta nefnist „Útilegumenn“ og heitir aðalkvæðið „Kaldársel„. Fyrsta erindið er svona:
Eitt sinn ég kom
að Kaldárseli,
eyðistað
í ógna hrauni, gömlu býli
og bæjarrústum:
Einmana tóttir eftir stóðu.
Næsta erindi var svona:
Reikaði ég einn
um rústir þessar, ríkti þar yfir
ró og friður,
unaðskyrrð djúp
við elfu niðinn
svölun gaf sál
og sæla gleði.
Selstöð í Kaldárseli
Elstu heimild, sem ég hef séð um Kaldársel, er að finna í Jarðabók þeirra Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá árinu 1703. Þar segir í III. bindi, bls. 180, í sambandi við Garða á Álftanesi: „Selstöð á staðurinn þar sem heitir við Kaldá, þar eru bæði hagar og vatnsból gott“. Þetta telur Jarðabókin ein af hlunnindum Garðastaðar, án kvaða eða afgjalds, og því augljóst, að staðurinn hefur átt landið, og hefur sjálfsagt sá eignarréttur verið ævaforn, og eflaust hefur þar engin breyting á orðið, þar til Hafnarfjarðabær kaupir árið 1912 allmikinn hluta af Garðakirkjulandi, og er Kaldársel í þeim keypta hluta.
Þótt Kaldársel hafi um aldir verið eign Garðakirkju ásamt miklu landflæmi til suðurs, austurs og norðurs frá Kaldárseli, er með öllu óvíst, hvort Garðaprestar hafi nokkru sinni haft þangað selfarir. Þó er það engan veginn óhugsandi. Hitt er vitað, að þar var haft í seli frá Hvaleyri á síðasta fjórðungi síðustu aldar, sem leiguselstöð hlýtur það að hafa verið, þar að elstu landamerki, sem vitað er um, liggja í að minnsta kosti eins km vegalengd vestur frá Kaldárseli. Meðan selfarir voru mikið tíðkaðar, urðu landlitlir bændur oft að leigja land undir sel sín hjá landríkum bændum, svo að einsdæmi hefði það ekki verið, þótt Hvaleyrarbóndinn leigði selstöð í Garðakirkjulandi.
Hvenær þessi selstöð hafi fyrst verið notuð frá Hvaleyri, er með öllu óljóst. Þegar litið er á bændatal Hvaleyrar um árið 1700 og það ástand, sem var þar í búskap mann, þegar jarðamat fór fram, 1703, sést, að bændur þar hafa allir búið við sátt, og varla er hugsanlegt, að selfarir hafi haft og síst svo langt burtu sem í Kaldárseli, þar eð allgott selland og nóg vatn var fullkomlega helmingi nær Hvaleyri og auk þess í heimalandi, þar sem var selstöðin við Hvaleyrarvatn. – Í fyrrnefndri Jarðabók frá 1703 segir, að Hvaleyri eigi selstöð, þar sem heitir Hvaleyrarsel, og séu þar sæmilegir hagar og gott vatnsból. Vitað er, hvar þessi selstöð hefur verið, hennar sjást glöggar minjar enn í svonefndum Selhöfða suður af Hvaleyrarvatni; þar nálægt er einnig Seldalur og Selhraun.
Það eina, sem nú er vitað með vissu um selfarir í Kaldárseli, er að hjónin Jón Hjartarson (Hjörtsson var hann oftast nefndur) og Þórunn Sigurðardóttir höfðu þar í seli. Jón Hjartarson keypti Hvaleyrina ásamt öllum hjáleigum, sem voru sex, árið 1842. Jón mun vera ríkasti bóndi, sem nokkru sinni hefur setið á Hvaleyri. Þórunn, kona hans, var kvenkostur góður og skörungur mikill, og var hennar meir getið til allra búsforráða heldur en manns hennar, sem þó var hinn mætasti maður. Jón dó árið 1866. Bjó Þórunn eftir það á Hvaleyri til 1873, að einu ári undanteknu, en var þar þó það ár. Þórunn dó 1880.
Góðar heimildir tel ég mig hafa fyrir búskap þessara Hvaleyrishjóna, eftir að þau komu þangað. Foreldrar mínir þekktu þau allvel, einkum þó Þórunni, þar eð hún lifði mann sinn í fjórtán ár.
Þegar Þórunn dvaldist í „Selinu“ á sumrin, sem var þó ekki nema við og við, fór hún stundum með orf sitt og hrífu upp með Kaldá og sló þar í hólmum, þar sem slægt var, einnig smámýrarbletti milli kvíslanna í Kaldárbotnum. Hvert skipti sem hún gekk heim í „Selið“, bar hún með sér það, sem hún kom í svuntu sína af heyinu. Þessi sjaldgæfa vinnuaðferð Þórunnar lýsir hyggindum hennar og nýtni vinnuaflsins, svo sem verst mátti verða, og var talið einsdæmi, jafnvel þá.
Þegar Þórunn á Hvaleyri hætti selförum að Kaldárseli, lagðist selstöð þar niður með öllu, og má ætla, eftir því sem síðar kemur fram, að það hafi verið 1865 eða 1866.
Eftir því sem best verður vitað, hafa selfarir Þórunnar á Hvaleyri verið þær síðustu í Garðahreppi og líklega á öllum Reykjanesskaganum.
Kaldársel verður fastur bústaður
Í Húsvitjunarbók Garðaprestakalls sést, að ábúandi er kominn í Kaldársel árið 1867, og er svo að sjá sem það sé fyrsta árið, sem fólk sé þar til ársdvalar. Þessi ábúandi var Jón Jónsson, kona hans og tvö börn, eftir því sem fyrrnefnd húsvitjunarbók ber eðs ér. Þessa fólks er ekki aftur getið í Kaldárseli, þó mun Jón hafa verið þar tvö eða þrjú ár, þó varla nema tvö, eftir því sem sonur Jóns, Sigurjón, hefur sagt mér, en hann lifir enn.
Fátæk voru hjón þessi og bústofn þeirra mjög lítill. Óhægur var þeim búskapurinn og sáu þau brátt, að í Kaldárseli var þeim engin framtíð búin. Þau voru einyrkjar og höfðu engin tök á hjúahaldi sökum fátæktar, en unglingsstelpa var þeim lánuð við og við, húsfreyju til hjálpar, einkum þegar bóndi fór að heiman til matfanga. Þessi hjálparstelpa var Sigríður Jónsdóttir frá Setbergi, móðir Árna Helgasonar ræðismanns í Chicago. Efir hina skömmu dvöl Jóns í Kaldárseli fluttist hann að Ási í Garðahreppi í byggingu Vigfúsar Vigfússonar og Úlfhildar.
Við burtför Jóns frá Kaldárseli lagðist þar búskapur niður um nokkur ár.
Þorsteinn í Selinu
Árið 1876 er manntal tekið í Kaldárseli, og er það sennilega fyrsta árið, sem það er í byggð eftir burtför áðurnefnds Jóns. Sá, sem þá er orðinn ábúandi Kaldársels, er Þorsteinn Þorsteinsson, upprunninn í Ölfusi. þetta ár telur húsvitjunarbók þar þrjár manneskjur í heimili, bóndann, ráðskonu og tökubarn. Árið eftir, 1877, eru þar fjórir í heimili, og hefur þá bæst við vinnukona.
Svo er að sjá, að manntal hafi ekki verið tekið í Kaldárseli frá 1877 fram til 1881. Það er þó vitað, að Þorsteinn var þar þau ár. Árin 1881 og 1882 eru fimm og sex manns í heimili hvort árið, þar á meðal vinnumaður og vinnukona, auk barns, sem er talið sveitarómagi, og vikadrengs. Árið 1883 virðist allmikil breyting hafa orðið á fólkshaldi Þorsteins, því að þá er hann orðinn einn í Kaldárseli.
Sama er að segja um árið 1884. Árið eftir hefur nokkuð úr þessu raknað. Þá fer til Þorsteins stúlka úr Hafnarfirði, Sigríður Bjarnadóttir, og er hún hjá honum þegar hann deyr í Kaldárseli 14. júlí 1886, þá 67 ára. Þar með lauk búsetu í Kaldárseli.
Báðir hafa þessir fyrrnefndu búendur Kaldársels setið í byggingu Þórarins prófasts Böðvarssonar að Görðum á Álftanesi, þar eð hann hafði öll umráð yfir landi Garðakirkju, en í því lá Kaldársel, eins og fyrr er getið. Ekki hefur mér tekist að hafa upp á byggingarbréfum eða öðrum skriflegum leiguskilmálum, hafi þeir nokkrir verið. Í manntalinu 1867 er Jón, sem áður er nefndur, talinn þurrabúðarmaður, en Þorsteinn er aftur á móti nefndur bóndi.
Þegar Þorsteinn í Kaldárseli fellur frá eru þar nokkrar byggingar og önnur mannvirki, þar á meðal matjurtagarður ekki svo lítill, og lá frá bænum niður að ánni mót suðri, einnig vörslugarður af grjóti umhverfis túnið. Ætla verður, að mest af þessu, jafnvel allt, hafi verið verk Þorsteins, og styður það þá tilgátu, að öll hús eru seld á opinberu uppboði, haustið eftir dauða Þorsteins, ásamt gripum hans og öllum eftirlátnum munum.
Hús öll í Kaldárseli keypti Jón Guðmundsson bóndi að Setbergi svo og flestar kindurnar. Bæjarhús voru lítil en snoturlega byggð, og voru baðstofa, búr, eldhús og bæjardyr. Allar voru tætturnar vel hlaðnar úr sléttum, en nokkuð þykkum brunahellum og hvergi mold né torf á milli, svo sem venja var til um flestar byggingar þess tíma.
– Danski höfuðsmaðurinn Daniel Bruun kom í Kaldársel árið 1897. Lýsir hann allvel Kaldárseli og umhverfi þar. Hann segir meðal annars um húsatætturnar, að þær séu frábrugðnar flestum, ef ekki öllum þess konar byggingum hér á landi, þar sem þær séu byggðar úr grjóti einu saman, en almennt sé annars staðar byggt úr grjóti og torfi eða mýrarhnaus, þar sem grjóts sé vant. Tættur þessar gætu staðið enn lítt eða ekki haggaðar, ef menn hefðu ekki skemmt þær með því að taka úr þeim grjót til einhverra nota. Þó stendur þar enn, eftir sem næst 90 ár, það mikið, að vel sést, hver húsaskipan þar var. tel ég illa farið, að tættur þessar skyldu ekki fá að standa óáreittar og þeim haldið við, ef steinar féllu úr hleðslu, efir því sem þörf gerðist.
Aðalbústofn Þorsteins var sauðfé og eitt eða tvö hross, kú mun hann aldrei hafa haft þar. Að mestu mun Þorsteinn hafa haft fullorðna féð á útigangi, þar eða heyfengur var þar lítill. Fjárhús með jötu við annan vegg var norðvestan við bæjarhúsin, og mun hann hafa haft lömb sín þar. Fullorðna féð hafði hann við hella, sem voru skammt norðan frá bænum, eða þá í fjárborgum uppi á Standinum, sem er nokkru nær. Eitt sérkenni var á flestu fé Þorsteins, það var ferhyrnt, með fáum undantekningum. Fé þetta var oft nefnt horseigt.
Þorsteinn í Kaldárseli var alla tíð ókvæntur og barnlaus, bjó með bústýrum þau ár, sem hann var í Selinu, en þau munu hafa verið tíu. Áður var hann búinn að vera allmörg ár á Lækjarbotnum í Seltjarnarneshreppi og þá ýmist skrifaður bóndi eða vinnumaður. Þá bjó á Lækjarbotnum hinu eldri, sem stóðu suður með Selfjalli, og munu sjást þar enn bæjartóftir og fleiri mannvirki frá þeim tíma, ekkja, Hallbera að nafni, stórbrotin kona í meira lagi, en tröll í tryggðum og mannkostum, þar sem henni þótti við eiga. Þorsteinn mun hafa haldið fé þeirra mest á útigangi, það er litlar voru slægjur í Lækjarbotnum.
Eggert G. Norðdahl á Hólmi hefur sagt mér, að efst í heiðmörk sé hellir, sem Þorsteinn hafi haft fé sitt við á vetrum, og er hellir sá eftir honum nefndur og heitir Þorsteinshellir. Viðbúið er, að fáir þekki nú helli þennan. Síðasta árið áður en Þorsteinn fór að Kaldárseli bjó hann í Hvammakoti, sem nú heitir Fífuhvammur.
Með Þorsteini lagðist niður að fullu búskapur í Kaldárseli, en handverk sjást þar enn nokkur eftir hann, en of illa tel ég þau farin. Bráðlega voru öll hús rifin í Kaldárseli nema baðstofa ein, sem látin var standa uppi fram undir aldamót. Var hún á þeim árum einkum notuð sem sæluhús fyrir fjármenn Setbergsbænda, sem þá héldu fé sínu, einkum sauðum, víðs vegar þar í högunum. Einnig var gott fyrir krýsvíkinga, sem þá áttu aðalleið um Kaldársel, þegar til Hafnarfjarðar fóru, að hafa þarna nokkurt afdrep. Þarna lágu einnig haustleitarmenn Grindavíkurhrepps, sem þá leituðu alla leið að Kaldá og höfðu náttstað í Kaldárseli. Á þessum árum var mikill straumur erlendra ferðamann, aðallega enskra, til Krýsuvíkur. Voru það einkum hinar svo til nýyfirgefnu brennisteinsnámur þar, sem þessir ferðamenn voru að skoða. Við námurnar stóðu þá enn tvö stór og allvönduð hús frá þeirri starfsemi, og voru þau mikið notuð til gistingar af þessu fólki. Mjög bar baðstofan Í Kaldárseli merki þess, að þar hefðu margir komið, og mjög voru sperrur og súð skorin mannanöfnum, bæði fullum og skammstöfunum, og voru þar nöfn bæði innlendra manna og erlendra.
Að liðnum aldamótum síðustu var svo komið, að ekkert hús stóð lengur í Kaldárseli, og flest gekk þar af sér.
Enn gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli
Árin 1906-1908 er enn gerð tilraun til búskapar í Kaldárseli. Maður sá, sem þá fékk Kaldársel til afnota, var ungur Hafnfirðingur, Kristmundur Þorláksson að nafni, síðar stórbóndi í Stakkavík í Selvogi.
Þegar Kristmundur fékk Kaldárselsland til nytja, átti hann víst framt að fimmtíu kindur, ungar og gamlar. Þennan fjárstofn hafði hann á fáum árum dregið saman og aflað fóðurs fyrir með fádæma dugnaði, án þess þó að niður væri sleppt nokkurri vinnu, þegar hún bauðst. Um sumarið vann hann að því að koma upp smáheyhlöðu með því að byggja yfir hin gömlu baðstofutótt, sem þá stóð enn ófallin.
Þegar hlaðan var komin undir þak, fór Kristmundur að öngla saman heyi í hana. Þennan heyfeng fékk hann víðs vegar í landi Garðakirkju, svo sem hann hafði leyfi fyrir, og mun hafa numið um 30 hestburðum. Þetta þurfti að endast 15-20 lömbum og einum hrút. Ærnar áttu að lofa að mestu á jörðinni, því að fjárland var þarna gott. Ekki hafði hann not gömlu tóttanna þar að öðrum en því, að í þeim var gnægð af góðu og sléttu helluhraungrýti, sem hann varð að nokkru að færa úr stað.
Kristmundur hélt fé sínu í Kaldárseli, en hafði búsetu í Hafnarfirði. Langur var því beitarhúsavegur hans, eða um 1 1/2 stundar gangur í sæmilegu færi. Í myrkri fór hann að morgni og í myrkri heim að kvöldi. Lömbin hafði Kristmundur í húsi og beitti ekkert framan af vetri, en ærnar hafði hann við hella þá hina gömlu, sem eru skammt norður af Selinu. – Brátt kom í ljós, að eitthvað háði nokkrum lömbunum, þau fóru ekki að, þegar gefið var á, en stóðu þess í stað lotin úti við veggi. Músin étur sig venjulega ofan í herðakamb lambanna, ogfái hún að vera óáreitt, étur hún sig stundum langt niður með bóg, og er þá sárið lítt læknanlegt.
Allir þessir erfiðleikar, sem Kristmundi mættu þarna, áttu drjúgan þátt í því, að hann treysti sér ekki til að halda áfram búskap í Kaldárseli. Hann flutti fé sitt að Hvassahrauni, þar sem hann fékk vist. Þannig lauk búskap þessa síðasta bónda í Kaldárseli. Með honum gekk hinn gamli tími þar úr garði, alfarinn.
Nýi tíminn hefur innreið sína í Kaldársel
Um síðustu aldamót rann upp yfir Hafnarfjörð nýtt tímabil, tímabil nýrra atvinnutækja, nýrra framkvæmda, nýs lífs. Á sama tíma sem síðasta tilraun til búskapar í Kaldárseli beið algjöran ósigur, komu Hafnfirðingar upp hjá sér allstóru fyrirtæki eftir þess tíma framkvæmdum, fyrstu vatnsveitu, sem bærinn fékk. Á því tímabili keypti Hafnarfjarðarbær mikið af landi Garðakirkju, eða allt fjallland sunnan Selvogsvegar, þar á meðal Kaldársel, og hafði bærinn þar með tryggt sér nægjanlegt vatn til langrar framtíðar. Kaldá varð því fyrir valinu til úrbóta þeim vatnsskorti, sem orðinn var ærið ískyggilegur.
– Árið 1918 var ákveðið að leið vatn úr Kaldá, að vísu lítið brot af vatnsmagni árinnar, í ofanjarðar tréstokk allstórum, og sleppa vatninu lausu við suðurhorn Sléttuhlíðar. Stokkur þessi var rösklega 1 1/2 km að lengd. Eftir að vatninu var sleppt úr stokknum, átti það að finna sér leið neðanjarðar eftir hrauninu til Lækjarbotna, þar sem vatnsveitan var fyrir, og þar með auka vatnsmagn lækjarins, sem þá þyldi, að víðari rör væru sett í upptökuna. þetta bragð Hafnfirðinga lánaðist. vatnið skilaði sér á tilætlaðan stað, og nægjanlegt vatn varð um langt árabil. Var nú kyrrð um hríð í Kaldárseli, nema hvað vatnsstokkurinn krafðist viðhalds og umbóta.
Næst lætur nýi tíminn bóla á sér í Kaldárseli árið 1925. Þá fá K. F. U. M. og K. í Reykjavík og Hafnarfirði leigumála fyrir gamla túninu og leyfi til að byggja þar hús. Hús þetta skyldi vera sumardvalarstaður barna úr þessum félögum nokkurn hluta sumars. Mest efni hússins varð að bera á bakinu fjórða hluta leiðarinnar frá Hafnarfirði.
Árin 1949 til 1953 var ráðist í að gera fullkomna og trygga vatnsleiðslu í neðanjarðarleiðslu frá Kaldá til Hafnarfjarðar. Árið 1955 var byggð lögrétt fyrir Hafnarfjarðarbæ, Garða- og Bessastaðahrepp í Kaldárseli.
Þessi rétt kom í stað hinnar fornu Gjáréttar, sem lögð var niður fyrir rúmum 40 árum og þá flutt á óhentugan og vatnslausan stað í Gráhelluhrauni.
Niðurlagsorð
Saga Kaldársel, sem hér er sögð, er hvorki löng né stórviðburðarík, en saga er það samt, og þótt ekki væri nema það fólk, sem nú nýtur þess, sem þessi staður hefur að miðla og mun gera um ófyrirsjáanlega framtíð, vissi hann nokkru betri deili en áður, tel ég tilgangi mínum náð og tíma minn við samantekningu þessa þáttar allvel greiddan.“
Heimild:
-Áður en fífan fýkur – Ólafur Þorvaldsson – 1968; Saga Kaldársels, bls. 119-139.