Tag Archive for: Vatnsleysuheiði

Rauðhólssel

Gengið var upp í Fornasel á Strandarheiði ofan Reykjanesbrautar, í Auðnasel og áfram upp í Rauðhólssel. Þaðan var gengið til baka niður heiðina með viðkomu í Flekkuvíkurseli.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel – stekkur.

Fornasel er austan við svofnefnda Strokka. Ein heimild segir það vera frá Þórustöðum, en önnur heimild segir að selið gæti heitið Litlasel og verið frá Landakoti. Í Jarðabókinni 1703 er ekki getið um Fornasel eða annaðs el á þessm slóðum, en bókin nefnir Fornuselshæðir, sem eru líklega nokkuð ofar í heiðinni. Selið sést vel frá Strokkum og er stutt að ganga að því, hvort sem er frá Reykjanesbrautinni eða línuveginum. Það liggur utan í hól mót vestri og sjást þar þrjár eða fjórar tóftir og lítil kví neðan við þær. Rétt ofan við hólinn að austanverðu er lítið vatnsstæði í klöpp, 3-4 m á lengd, um 2 m á breidd og er grjóthleðsla í kring.

Fornasel

Fornasel.

Auðnasel er norðaustur af Knarrarnesseli. Þangað var um 15 mín. gangur. Selið liggur suðvestan við hæð eina sem heitir Sýholt. Margar tóftir er þar mismikið grónar, en þarna var haft í seli frá bæjum í Auðnahverfinu, s.s. Auðnum, Höfða og Breiðagerði. Á hæsta hólnum í seltúninu er varða. Vatnsstæði hefur fundist við selið, en heimildir segja það vera norðvestan af því nokkurn spöl neðan þess og sunnan við háan og brattan klapparhól.

Fornusel

Fornusel í Fornuselshæðum (Sýrholti).

Fornuselshæða er getið í Jarðabókinni 1703 og þá þar sem Kálfatjörn og Þórustaðir höfðu í seli áður en þeir bæir fengu selstöðu í Sogaseli. Engin önnur heimild er til um Fornuselshæðir, en líklega eru hæðirnar í eða við Sýrholtið. Vestan í holtinu sjást þrjár mjög gamlar kofatóftir og þar hefur mjög líklega verið sel fyrrum og gæti verið selstaða sú sem getið er um í Jarðabókinni. Mikill uppblástur er á þessum slóðum og á holtinu sjást merki eftir landgræðslu.
Í landamerkjalýsingu Auðna og Landakots frá árinu 1886 er Stórhæð nefnd og sagnir eru til um að setið hafi verið yfir sauðum í Stórhæð.

Rauðhólssel

Rauðhólssel.

Ofarlega í heiðinni eru nokkir grónir rauðamelshólar. Rauðhólar standa við vesturjarðar Afstapahrauns, en í kring um þá að hluta hefur hraunið runnið. Þetta eru fjórir hólar eða hæðir og tveir sem standa fjærst hrauninu heita Stóri-Rauðhóll eða Rauðhóll og Litli-Rauðhóll, sem stendur neðan hans. Undir þessum hólum að norðaustanverðu er Rauðhólssel, en þar var frá Stóru-Vatnsleysu. Sagt var fyrrum að ekki hefði verið hægt að hafast við í selinu eftir að sextán vikur voru af sumri vegna draugagangs. Við selið finnst ekkert vatnsbvól. Aðalbláberjalyng er mjög skaldgæf jurt í hreppslandinu, en við hólana má sjá það teygja sig upp úr þröngum gjám.

Kolhólasel

Kolhólasel.

Á leiðinni til baka niður heiðina var komið við í Kolhól og Kolgrafarhólum í leiðinni niður að Flekkuvíkurseli. Það er suðaustan Kolgrafarholts og Kirkholts en norðaustan Sýrholts. Selið stendur nokkuð fyrir neðan Grindavíkurgjá og er háa, nafnlausa, varðan ofan og austan Auðnasels í suðurstefnu frá Flekkuvíkurseli. Um hálftíma gangur er milli Auðnasels og Flekkuvíkursels. Í selinu sjást sex kofatóftir og kví. Vatnsstæði er í klapparholu uppi á ásunum norðan kofatóftanna og fáeinir steinar við það. Kálfatjarnarbræður sögu Herdísi Jónsdóttur, f: 1858, hafa komið í selið sem barn. Þar voru þá eingöngu hafðar kindur.

Flekkuvíkursel

Bræður.

Ásarnir, sem selið stendur við, heita Vestri-Flekkuvíkurselás og Nyrðri-Flekkuvíkurselás. Á vesturásnum er Selásvarða, önnur varða er á miðhluta hans og sú þriðja á nyrðri endanum. Norðan ássins, rétt neðan við vatnsbólið, eru þrjár gamlar tóftir og há grasivaxin grjóthrúga, líklega mjög gömul húsatóft. Norðan Flekkuvíkursel, mitt á milli selsins og Reykjanesbrautar, eru tvær stórar vörður er standa mjög þétt saman. Þær heita Bræður.
Frábært veður. Gangan tók 4 klst og 4 mín.

Heimildir m.a.
-Örnefni og göngileiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Flekkuvíkursel

Flekkuvíkursel.

Vatnsleysa
Gengið var um Vatnsleysuheiði og Flekkuvíkurheiði umhverfis Hafnhóla. Ástæðan var tvíþætt; annars vegar hafði FERLIR skömmu áður flogið yfir svæðið með Ólafi Erni og þá m.a. rekið augun í mikið vörðumannvirki á hól, fjárborg, gamlar götur og fleiri minjar og hins vegar var vitað um fjölmargar vörður á svæðinu sem að öllum líkindum höfðu ekki verið hlaðnar til einskis.
DigravarðaVið fyrstu sýn virðast heiðarnar lítt áhugaverðar tilsýndar, en þegar betur er að gáð mátti í þeim finna bæði fornar og áður óskráðar mannvistarleifar sem og áhugaverðar ábendingar um breytingar í gróðurfari umliðinna alda.
Í örnefnalýsingu fyrir Vatnsleysu segir m.a.: „Suður og nokkru ofar í heiðinni er hóll, sem heitir Svartavarða, og áfram ofar er hóll, sem heitir Digravarða. Hlaðnar vörður og vörðubrot eru á öllum þessum hólum. Heiðarslakkinn í austur af Digruvörðu er kallaður Digravörðulágar. Ofan Digruvörðu eru svo litlir hólar, sem heita Geithólar, og skammt þar frá aðrir, sem heita Svínhólar.“ Segja má með sanni að víða leynast vörður og vörðubrot. Með lagni má þó greina vörður frá öðrum „vörðum“. Norðan við Digravörðulágar eru t.d. slík mannvirki, en þegar betur er að gáð er augljóst að þar hafa refaveiðimenn verið að verki. Bæði hafa verið hlaðin skjól á hólum og gamlar hlaðnar refagildrur verið aflagaðar eftir að þær hættu að þjóna hlutverki sínu sem slíkar. Skjólin eru seinna tíma mannvirki, þ.e. eftir að byssan kom til sögunnar, en gildrurnar eru leifar enn eldri veiðiaðferða – þá þegar aflagðra.

Stekkur

Þegar gengið var um ofanverða Vatnsleysuheiðina var auðvelt að staðsetja Svörtuvörðu. Ofar í heiðinni var áberandi hóll. Þegar betur var að gáð reyndist á honum vera hið veglegasta mannvirki, fyrrum einkar stór varða. Hún var að vísu fallin og gróin umleikis, en augljóst var að þarna hafði fyrrum verið mikið mannvirki. Ekki var auðvelt að koma auga á mannvirkið úr fjarlægð, en þess greinilegra var það í návígi á hólnum. Standandi við vörðubrotið virtist sem þarna hafði fyrrum verið eyktarmark (hádegi) frá Stóru-Vatnsleysu eða mið af sjó í Keili.
Undir hólnum að suðaustanverðu var lítill hlaðinn stekkur eða kví. Austan við mannvirkið má ætla að hafi verið hús, líkum þeim er sjá má í seljum. Munurinn var þó sá að ekkert eldhús var þarna greinilegt, sennilega vegna nálægðar við bæinn. „Digravörðulágar“ munu þá heita gróningarnir góðu efra.
Haldið var áfram upp heiðina uns komið var að heillegum vörðum upp undir núverandi Reykjanesbraut. Þegar tekið var stöðumat á svæðinu var einna líklegast að ætla að þarna hafi fyrrum legið þjóðleið frá Kúagerði og áfram yfir heiðarnar áleiðis að Vogastapa. Bæði var leiðin einstaklega greiðfær og eðlileg í alla staði. Fyrir Grindvíkinga eða aðra Suðurnesjamenn myndu sparast nokkrar klukkustundir á göngu ef farin væri þessi greiðfæra leið millum staða en farin væri Ströndin. Um hefði verið að ræða svo til beina leið að Skógfellaleið eða Stapagötu. Og þá var bara að sannreyna áætlunina.
FjárborgÞegar leiðin var gengin var jafnan komið að vandlega hlöðnum vörðum eða greinlegum vörðubrotum. Til hægri handar, á klapparhryggjum, voru og heillegar vörður, sem erfitt var að sjá hvaða tilgangi öðrum hafi gegnt en að vera leiðarmerki yfir heiðarnar. Þegar komið var upp að Hafnhólum (þeim Stóra) mátti sjá að gatan hélt áfram til vesturs yfir heiðina. Ætlunin er að fylgja henni til enda síðar.
Í örnefnalýsingu fyrir Vatnsleysu segir m.a. um þetta svæði: „Heiðarslakkinn suðaustur og upp af þeim er kallaður Miðmundarlágar. Næsta kennileiti er nokkuð stór klapparhóll, sem er kallaður Litli-Hafnhóll. Annar hóll er nokkru ofar, og heitir sá Stóri-Hafnhóll. Báðir þessir hólar eru svipaðir að því leyti, að þeir hafa sprungið eftir endilöngu eða frá norðri til suðurs í jarðskjálftum eða eldsumbrotum. Breiðar gjár hafa þá skipt hólunum í tvennt. Nú eru þær að mestu uppfylltar jarðvegi. Hafnhólar eru á hæsta punkti heiðarinnar á nokkuð stóru svæði og sjást mjög vel af sjó. Þeir voru og eru sjálfsagt enn notaðir sem mið af grunnslóð. Frá Litla-Hafnhól er svo línan um hól, sem á eru vörður tvær, og kallast hann Bræður.“ Síðastnefna kennileitið er vel þekkt.
ARefaskyttubirgiuðvelt var að fylgja leið áfram til vesturs norðan núverandi Reykjanesbrautar. Mjög líklegt má telja að þar hafi fyrrum verið gata undir fótum Grindvíkinga millum Innnesja og Útnesja, aukinheldur Rosmhvalsnesinga. Reykjanesbrautin virðist hafa verið lögð með sömu hagsmuni og sjónarmið í huga og gilt hafa um aldir.
Og þá var bara eftir að leita að fyrrnefndri fjárborg í óravíddinni.
Gengið var til norðvesturs áleiðis niður Flekkuvíkurheiðina frá miðlægum Hafnhólum uns komið var að vandlega hlaðinni vörðu nokkru suðaustan Miðmundahóla í Flekkuvíkurlandi. Þar virðist vera um landamerki að ræða, enda eldri vörðuleifar skammt frá. Þarna hafði leið legið um fyrrum með stefnu á Staðarborg, sem blasti við sem kennileiti í suðvestri. Þegar hugsanleg leið var fetuð til baka upp heiðina að áleiðis að Hafnhólum kom fyrrnefnd „fjárborg“ í ljós. Um var að ræða hringlaga hleðslu á annars sléttu landi. Op virtist til suðurs.
Hér, á þessum stað, var í raun komið hið ágætasta viðfangsefni til verulegra skoðanaskipta. Mannvirkið var hringlaga. Veggir stóðu grónir að utanverðu, en grjótför að innanverðu. Mannvirkið hafði fallið bæði út á við og inn. Ef þarna hefði verið um fjárborg (sú 98. á Reykjanesskaganum) að ræða hefði hún verið hlaðin ofar, t.a.m. á nálægum klapparhólum. Óljós gata lá niður (eða upp) með tóftinni. Staðarborgin blasti við í suðvestri og Hafnhólar til beggja handa í norðaustri.

Varða

Eftir gaumgæftir mátti ætla að þarna hafi fyrrum verið áningarstaður Kálfatjarnarbænda (-presta) á leið þeirra í selstöðuna, hvort sem um var að ræða Kolhólssel, Oddafellssel eða Sogasels í Sogaselssgíg, nokkurs konar og kærkominn áningastaður á langri leið. Um langan veg var að fara frá bæ að selstöðu, hvort sem um var að ræða selstöðuna í Sogaselsgíg eða Oddafelli, og því hefði þarna gjarnan verð um kærkominn áfangastað að ræða á bakaleiðinni úr selstöðunni. Fornminjar, sem þarna má augum líta, gætu því verið hvort sem er aðhald fyrir skepnur ábúenda eða afdrep þeirra sjálfra. Þá gæti tóftin hafa verið sæluhús, jafnvel hof í heiðinni eða tengst gömlum sögnum um kaupstað í Hafnhólum. Erfitt er um það að segja nema að undangegnum frekari rannsóknum (sem Fornleifastofnun ríkisins virðist alls ekki svo áhugasöm um að fenginni reynslu). Umræddar minjar hafa hvergi verið skráðar sem fornminjar – líkt og svo fjölmargar aðrar á Reykjanesskaganum.

Varða milli borganna

Varðandi skráningu á minjum á Vatnsleysuheiðinni eða annars staðar, svona til að gæta sanngirnis, þá er það sennilega ekki vegna áhugaleysis að Fornleifavernd ríkisins skráir ekki minjarnar. Eins og staðan er í dag er enginn mannskapur til eða fjármagn til skráningarvinnu. Það er frekar sorglegt en satt að afar fá sveitarfélög hafa séð ástæðu til þess að leggja út í fornleifaskráningu af eigin hvötum og áhuga á verkefninu og varðveislu minjanna. Eins og staðan er í dag þá fer nánast engin skráning fram af hálfu opinberra aðila, sem ekki tengist mati á umhverfisáhrifum eða skipulagi, sem kostar skráninguna. Fornleifastonfun Íslands er stærst á þeim markaði, en er auðvitað rekin á markaðsgrundvelli og útseldri vinnu, eins og flestir aðilar sem sinna skráningu fornleifa hér á landi.
Hér má sjá lýsingu af göngu um Kálfatjarnarheiði, þá næstu að vestan, og óvæntum fornleifafundum þar.

Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. HÉR má sjá myndband úr Strandarheiðinni.Heimildir m.a.
-Örnefnalýsingar fyrir Vatnsleysu, Flekkuvík og Kálfatjörn.

Fjárborg

Kolagröf eða skjól í Strandarheiði.

Selhólar

Á vefsíðu Minjastofnunar Íslands 26. mars 2021 árið 2021 er fjallað um „Náttúruvá á Reykjanesi:

Minjastofnun Íslands„Það hefur ekki farið fram hjá neinum að fyrir viku síðan hófst eldgos á Reykjanesi. Starfsmenn Minjastofnunar hafa síðustu vikur unnið að því að taka saman gögn um þekktar minjar á svæðinu og hófst sú vinna eftir að ljóst varð að minjum gæti stafað hætta af yfirvofandi náttúruvá. Í ljós kom að töluverður hluti af þeim minjum sem skráður hefur verið á hættusvæðinu var ekki uppmældur, sem er í dag hluti af þeim gögnum sem þarf að liggja fyrir til þess að fornleifaskráning teljist fullnægjandi samkvæmt þeim stöðlum sem Minjastofnun setur. Því var ákveðið að fara á þessa staði og mæla minjarnar upp, auk þess að taka þar nýjar ljósmyndir sem og drónamyndir ef veður leyfði.

Þegar eldgosið braust út í Geldingadal að kvöldi föstudagsins 19. mars hafði fornleifafræðingum hjá Minjastofnun tekist að heimsækja og mæla upp stóran hluta þeirra minja sem taldar voru í mestri hættu vegna yfirvofandi eldsumbrota. Má þar nefna að meginþorri minja í hættu á Ísólfsskála höfðu verið mældar upp sem og minjar við Keilisveg og fjöldi minja á og við Vogaheiði sunnan Reykjanesbrautar.

Sel á Reykjanesi

Gjásel

„Sel, eða selstöður, voru staðir sem nýttir voru á sumrin – stundum einnig kölluð sumarhús. Þangað var farið með búsmala, kindur og/eða kýr, til að halda þeim frá heimatúnum á meðan grassprettan var sem mest. Í seljum voru skepnurnar mjólkaðar og mjólkin unnin. Einnig eru vísbendingar um að fleiri athafnir hafi farið fram í seljum, s.s. nýting á öðrum auðlindum í umhverfinu.

Sel - tilgáta

Selshús – tilgáta ÓSÁ.

Í seljum voru hús sem hýstu þá sem þar dvöldu auk kvía/aðhalds (til að smala skepnunum í til mjalta); eldhús, geymslur/búr og jafnvel fleiri rými. Venjan var að hver bær ætti sitt sel, þótt stundum hafi þau verið samnýtt, og eru selin því oft nefnd eftir heimabænum. Í góðum seljalöndum má oft finna mörg sel, frá mörgum bæjum en jafnvel einnig frá mismunandi tímum. Seljabúskapur hófst á Íslandi snemma eftir landnám og var stundaður allt til aldamóta 1900, en þó mislengi eftir landshlutum. Seljabúskapur var ekki eingöngu stundaður fyrir efnahagslegan ávinning og betri landnýtingu heldur einnig sem hluti af samfélagslegri hefð sem tekin var að heiman með fyrstu landnámsmönnunum en var haldið við hér í nýju landi. Selin hafa einnig haft pólitíska þýðingu en með þeim gátu menn helgað sér land, jafnvel langt frá bæ og þannig sýnt vald sitt. Seljabúskapur hefur því margar hliðar sem áhugavert er að skoða í samhengi við samfélag, efnahag og landslag hvers svæðis fyrir sig.

Selstöður

Brunnastaðasel
Á Vogaheiði er að finna leifar a.m.k. 20 selja, bæði frá bæjum sunnan- og norðanvert á Reykjanesskaganum. Sum selin eru einföld að gerð og þeim hafa aðeins tilheyrt ein til tvær litlar byggingar en önnur eru stærri og augljóst að þar hefur margvísleg starfsemi farið fram. Vegna þess hve heimahagar við bæi á Vatnsleysuströnd voru almennt rýrir, hefur verið nauðsynlegt að hafa í seli að sumri, þá sérstaklega kýr. Vatnsskortur á heiðinni hefur án vafa aftrað veru selsmala og annarra sem í seli voru en í Jarðabókinni er sagt frá því að fólk hafi þurft að flytja heim úr seli vegna vatnsleysis og uppblásturs. Heimildir eru til um vatnsflutninga á hestum til selja í Hafnahreppi og einnig að bræða hafi þurft snjó úr gjám til að fá vatn. Hið sama hefur án efa átt við um selstöðurnar í Vatnsleysustrandarhreppi þegar þurrviðrasamt var.

Ótrúlegt er að hugsa til þess að í þessu hrjóstruga landslagi sem ríkjandi er á Vogaheiðinni, leynist allur þessi fjöldi af seljum. En þegar betur er að gáð eru þar fjölmargir grænir grasbalar, oft undir hól eða klettabarði á skjólsælum stað. Hér verður skýrt frá nokkrum völdum seljaminjum á svæðinu en ljóst er að af nægu er að taka.

Fornasel

Fornasel – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um „Sel vestan Esju“.

Fornasel er lítil selstaða, staðsett rétt um 700 m sunnan við Reykjanesbrautina. Selið stendur á lítilli hæð á grónu svæði. Heimildum ber ekki saman um frá hvaða bæ var haft þarna í seli. Ein heimild segir selið vera frá Þórustöðum en önnur heimild segir selið vera frá Landakoti og að það heiti Litlasel. Fornasels er ekki getið í Jarðabókinni 1703 eða annars sels á þessum slóðum en bókin nefnir þó Fornuselshæðir, sem líklega eru nokkuð ofar í heiðinni. Tóftir selsins standa mót vestri og sjást þar þrjár tóftir, allar vel greinanlegar, auk þess sem ein stök kví stendur litlu neðar. Rétt fyrir ofan hólinn, að austanverðu, er lítið vatnsból með grjóthleðslu í kring.

Knarrarnessel

Knarrarnessel – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um „Sel vestan Esju“.

Knarrarnessel er u.þ.b. á miðri Vogaheiðinni, um 2 km suðvestur af Fornaseli. Í Knarrarnesseli er mest flatlendi umhverfis sel miðað við aðrar selstöður á heiðinni. Selstaðan er stórt með mörgum tóftum en líklegt er að flestir bæir í Knarrarnesshverfi hafi haft selstöðu þar og útskýrir það því fjölda bygginga sem þar hefur staðið. Því til stuðnings nefna heimildir að auk Knarrarness hafi Litla-Knarrarnes og Ásláksstaðir haft í seli í selstöðunni. Vatnsból selsins er í hól, um 100 m norðvestan við selið. Þegar loftmynd af svæðinu er skoðuð má sjá hvernig selrústirnar raðast á þennan litla grasbala í auðninni, sem einungis er um 150 m í þvermál.

Gjásel

Gjásel í Vogaheiði – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um „Sel vestan Esju“.

Gjásel er staðsett á miðri Vogaheiðinni og rétt ofan við það er Gjáselsgjá. Ekki er vitað með vissu frá hvaða bæ var haft þar í seli en selstaðan er staðsett nálægt austurmörkum Brunnastaðasels. Í sumum heimildum er sagt frá því að selið hafi verið frá Brunnastöðum en aðrar heimildir nefna Hlöðunes í því samhengi. Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns frá 1703 segir að selstaða Hlöðuness, sem staðsett var ofar í heiðinni, sé aflögð vegna uppblásturs en Brunnastaðir eru þá enn með nothæfa selstöðu. Af því má leiða líkur að Gjásel hafi verið frá Hlöðunesi eftir að Hlöðunessel er lagt af. Stærð Gjásels gæti reyndar bent til þess að fleiri en einn bær hafi haft þar í seli en þar er að finna tóftir af átta húsum sem standa þétt í beinni röð undir gjárveggnum og mælast tóftirnar rúmir 30 m á lengd. Í öðrum seljum á heiðinni eru byggingar yfirleitt í pörum eða í mesta lagi þríhólfa byggingar. Tóftirnar eru vel greinanlegar og veggir enn uppistandandi sem bendir til þess að selið sé í yngra lagi, jafnvel með þeim yngstu á heiðinni.

Selsvellir

Selsvellir – uppdráttur ÓSÁ. Úr BA ritgerð um „Sel vestan Esju“.

Þó að gosið, sem hófst í Geldingadölum að kvöldi 19. mars, hafi enn ekki eyðilagt neinar fornminjar má nefna að vísindamenn telja líklegt að gosið geti verið upphafið að nýju gostímabili. Ef svo reynist vera er nokkuð ljóst að minjar munu áfram vera í hættu og þá á öllu Reykjanesinu. Við mat á fjölda þeirra fornminja, sem settar voru í hættuflokk í tengslum við gosóróann sem hófst í byrjun mars 2021, var stuðst við gögn stofnunarinnar um minjar sem þekktar eru á svæðinu og heimilda hafði verið aflað um. Það er þó alveg ljóst að þau gögn eru ekki tæmandi listi þar sem heildarskráning fornleifa á svæðinu hefur ekki farið fram. Sé einungis talað út frá seljaminjum má nefna að talið er líklegt að á Reykjanesskaga öllu sé að finna minjar um 250 selstaða og eru þá ótaldir allir aðrir minjaflokkar sem á skaganum er að finna. Því er ljóst að mikið verk er fyrir höndum við að rannsaka og skrá þessar minjar, áður en illa fer.“

Framangreindar hugleiðingar Minjastofnunar Íslands eru að mörgu leiti svolítið skondnar og því ástæða til að gera við þær nokkrar athugasemdir:

Reykjanes

Reykjanes – kort frá 1903.

Í fyrsta lagi virðist vera um einhverja hugtakavillu í höfðum starfsfólks Fornleifastofnunar Íslands þegar fjallað er um „Reykjanes“; Reykjanes er einungis ysti hluti Reykjanesskagans. Allt austan þess tilheyrir Skaganum og ber því réttilega að ritast allt slíkt; á „Reykjanesskaganum“.

Sel vestan Esju

Sel vestan Esju. BA-ritgerð frá 1994.

Í öðru lagi hefur vitneskja um selsminjarnar á Reykjanesskaganum ávallt legið fyrir fótum þeirra er hafa haft vilja til að kanna þær. Ekki þurfti eldgos til. Minjastofnun lætur líta svo út að starfsfólkið sé að forskrá óskráðar minjar á svæðinu. Því fer víðs fjarri.

Örnefni og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd

Örnefi og gönguleiðir á Vatnsleysuströnd – Sesselja Guðmundsdóttir.

Í þriðja lagi liggur ljóst fyrir að Fornleifastofnun Íslands hefur fram að þessu dregið lappirnar varðandi nauðsynlegar skráningar fornleifa á Reykjanesskaganum, eins og svo margsinnis hefur verið bent á í gegnum tíðina.
Í fjórða lagi eru selin á Reykjanesskaganum ekki „um 250“ talsins. Þau eru u.þ.b. 400 talsins.

Sel vestan esju

Sel vestan Esju – BA-ritgerð 2007.

Í fimmta lagi hafa öll sel „Vestan Esju“ þegar verið skráð – sjá m.a. fyrirliggjandi BA-ritgerð um sel á vestanverðum Reykjanesskaga. Í þeim skrifum kemur t.d. fram allt framangreint og fjölmargt annað að auki.
Í sjötta lagi er augljóst að starfsfólk Minjastofnunar virðist haldið einhvers konar minnimáttarkennd gagnvart öðrum er best þekkja til svæðisins. A.m.k. hefur það ekki leitað til þeirra er gerst þekkja til þeirra minja er það geymir.

Sýrholt

Sel í Sýrholti (Fornusel).

Í sjöunda lagi er augljóst, m.v. fyrirliggjandi skráningu starfsfólks Minjastofnunar, að margar minjar á svæðinu er ekki að finna í þess skrám. Það þarf því að gera betur.
Í áttunda lagi virðist vera um handahófskennda leit að þegar skráðum fornleifnum hafði verið að ræða. Ekki hafa verið gerðar tilraunir til að leita uppi óskráðar fornleifar, sem víða leynast.
Hægt væri að halda lengi áfram með ábendingar þær er betur mætti fara í framangreindum starfsháttum Minjastofnunar Íslands…

Heimild:
-Minjastofnun Íslands, apríl 2021.

Kolhólssel

Kolhólssel.