Gengið var upp með Lambagjá frá gamla Kaldárselsveginum. Gjáin, sem reyndar er hrauntröð, er bæði löng og breið. Til marks um mikilfeng hennar má geta þess að hún er nú friðlýst sem náttúruvætti.
Hér er um að ræða eina af hrauntröðum Búrfells, en Búrfellshraun kemur úr gíg þess þarna skammt norðaustar. Búrfell tilheyrir eldstöðvakerfi kennt við Krísuvík. Búrfell er hringlaga gígur úr hraunkleprum og er gígurinn 179 metrar yfir sjó þar sem hann er hæstur og 140 metrar að þvermáli milli barmanna. Dýptin hefur mælst 58 metrar frá hæsta og 26 metrar frá lægsta barmi. Mismunurinn á barmi gígsins stafar af misgengi sem átti sér stað eftir að eldvarpið hlóðst upp. Sama fyrirbærið er ástæðan fyrir því að Lambagjá virðist standa hærra en hraunið austan við hana. Kvikan hefur runnið um rás frá Búrfelli áleiðis að Kaldárseli. Þar sem op Níutíumetrahellisins er nú opnaðist rásin að hluta og kvikan streymdi í farvegi líkt og fljót. Þakið á efsta hluta hennar storknaði, en eftir að forðinn tæmdist, og þar með rásin, féll þakið niður og mundaði smafelldari tröð.
Búrfell gaus einu sinni, það var flæðigos og framleiðslan var fyrst og fremst þetta Búrfellshraun.
Búrfellshraun er innan marka Garðabæjar og Hafnarfjarðarbæjar. Tveir megin hraunstraumar hafa komið frá Búrfelli. Það sem aðgreinir þessar kvíslir er Helgadalshraun, en í því er Lambagjáin. Búrfellið gengur undir ýmsum nöfnum eftir því hvar það er. Sá hraunstraumur sem er Hafnarfjarðarmegin hefur eftirfarandi nöfn: Næst Búrfelli er Smyrlabúðahraun (kennt við fuglinn smyril sem gerði sér hreiður þarna), Gráhelluhraun, Lækjarbotnahraun, Stekkjarhraun, Sjávarhraun, Arnarhraun og vestar heitir það Flatarhraun. Garðabæjarmegin er fyrst Garðahraun, Urriðakotshraun, Vífilstaðahraun, Hraunholtshraun, Gálgahraun og Balahraun. Hraunið er stórbrotið apalhraun og meðalþykkt þess er ekki undir 20 metrum. Samkvæmt aldursákvörðun á mó sem kom í ljós hjá Bala á Álftanesi er það um 7240±130 C14 ára.
Áberandi mannvirki liggur þvert á Lambagjá vestarlega og er allnokkuð hátt. Þetta eru leifar af undirhleðslu fyrsta vatnsstokksins úr Kaldárbotnum um 1919. Vatninu var fleytt yfir Lambagjána og áfram yfir í Gjáahraunið og Gráhelluhraun þar sem það rann með undir hrauninu uns það kom upp í Lækjarbotnum. Þótt leiðslan sé löngu aflögð og að mestu horfin má enn sjá undirhleðsluna frá Lækjarbotnum yfir að ofanverðri Sléttuhlíð.
„Fyrr á tímum þegar engin vatnsveita var í Hafnarfirði sótti fólk vatn í Hamarkotslæk. Þessu fylgdi mikil óhollusta vegna óþrifnaðar og sýkingarhættu. Eftir að Vatnsveitufélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1904 var grafinn brunnur vestan í Jófríðarstaðaholtinu, þar sem svonefnt Kaldadý var. Frá honum voru lagðar pípur um bæinn. Þessi vatnsveita var ein af fyrstu vatnsveitum á landinu. Árið 1908 geisaði taugaveiki upp í Hafnarfirði og töldu menn að rekja mætti orsök hennar til vatnsveitunnar. Þá var hún orðin ófullnægjandi og ákveðið var að leggja vatnsveitu frá Lækjarbotnum þar sem hluti af vatni því sem myndar Hamarkotslæk er. Þar koma lindir framundan hrauninu. Stuttu eftir það komust menn að því að uppsprettan í Lækjarbotnum var ekki næg. Þá fóru menn að huga að því að leggja vatnsæð frá Kaldá til bæjarins. Svo var ákveðið að veita vatni úr Kaldá yfir á aðalrennslissvæði Lækjarbotna til að tryggja vatnsveitunni og rafstöð bæjarins nægilegt vatn.
Vatnið úr Kaldá var leitt mestan hluta leiðarinnar í opinni trérennu. Trérennan var lögð yfir Hjallamisgengið og hraunið en vatninu var síðan sleppt við suðurenda Setbergshlíðar [Setbergshlíð endar við Þverhlíð, hér á því að standa „Sléttuhlíðar“] þar sem hraunið byrjar að falla að Lækjarbotnum í þeirri von um að jarðlög undir hrauninu skiluðu vatninu í Lækjarbotna sem það og gerði eftir nokkra daga. Þegar þetta var ekki fullnægjandi var lögð breiðari pípa. Við þá aukningu höfðu flestar götur bæjarins nægilegt vatn. Það dugði samt ekki lengi því að eftir nokkur ár fór svo aftur að bera á vatnsskorti. Ástæðan fyrir því var m.a. sú að rennan úr Kaldá gekk smá saman úr sér og úreltist og þá minnkaði stöðugt vatnsmagnið sem hún gat flutt. Einnig var þetta vegna þess að þrýstingurinn í vatnsleiðslunum í bænum var ófullnægjandi og náði vatnið þá ekki upp í þau hús sem hæst stóðu.
Þá var ákveðið að leggja vatnsæð úr Kaldárbotnum. Nokkrar endurbætur voru svo gerðar á henni þegar húsum í bænum fór að fjölga. Þegar grunnvatnsyfirborðið fór að lækka ört vegna minnkunar á úrkomu, voru nokkrar holur boraðar við Kaldárbotna og þær tengdar við vantsveituna. Orsakir hinnar miklu vatnsnotkunar í Hafnarfirði voru taldar vera vegna mikils fjölda fiskvinnslustöðva, göllum í gatnakerfi bæjarins, óhóflegrar vatnsnotkunar og vegna skemmda og bilana á heimilislögnum. Árið 1967 rættist svo úr þessu. Vatnsmagnið í vatnsbólinu í Kaldárbotnum jókst vegna aukinnar úrkomu og ýmsar endurbætur voru gerðar á vatnsveitunni.“
Á leiðinni var m.a. kíkt á Níutíumetrahellinn við endann á Lambagjá.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimildir m.a.:
-Úr sögu Vatnsveitu Hafnarfjarðar.