Strax á haustin var farið að búa út “færur” þeirra, er róa áttu í verunum, en færur var nefnt einu nafni allt það, sem vermaður þurfti að hafa að heiman, svo sem föt, gerðir skór, skinnklæði, ýmsir smámunir, sem búast mátti við, að ekki fengjust í verinu, eða væru dýrari þar, og verskrínan með smjöri, sem drepið var í annan enda, en “smálka” eða kæfu rennt í hinn. Færurnar voru svo sendar í verið, annaðhvort á haustin, eða um það bil að menn fóru til vers. Duglegir menn tóku þá að sér að flytja þær fyrir marga, voru það oft slæmar ferðir um hávetur, allt veglaust og býr engar. Ráku þeir hestana lausa til baka og voru þá kallaðir “heimrekstrarmenn”.
Vermenn áttu að vera komnir í verin sunnudaginn fyrstan í góu. Var brottfarardagur vermanna allmikill alvörudagur á heimilunum. Öllum var ljóst, hve mikil hætta fylgir sjóróðrunum, en tilfinnanlegast var það vinum og vandamönnum. Þar að auki neyddust sumir til róðranna frá misjöfnum ástæðum heima fyrir.
Verbúðir, stundum nefndar sjóbúðir, voru útihús, stundum eitt sér, eða fleiri saman, veggir hlaðnir að innan úr grjóti og torfi eða grjóti eingöngu, en að utan úr grjóti og torfi eða sniddu. Veggjaþykkt við undirstöðu var um 2 ½ alin, en dróst að sér að utan, svo að veggir urðu að ofan 1 ½ alin á þykkt. Dyr voru jafnan á öðrum gafli, og kampur nokkru þykkri en veggir. Hæð veggja var um 2 ½ alin. Breidd búðanna var 5 álnir, en lengd þriggja eða fjögra rúma. Hæð frá gólfi til mæniáss var um 5 ½ alin, gólfbreidd 1 ½ alin. Oft voru gólfin flóruð með flötum steinum. Venjulega var haft ofurlítið niðurgengt í búðirnar, til að verjast gólfkulda.
Í bilið milli hliðarveggja og stoða var hlaðinn grjótbálkur, um 18 þuml. á hæð, sem tók jafnlangt fram og stoðirnar. Dálítil hola var látin vera framan í bálkinn um miðju hvers rúmsstæðis. Bálkur þessi var botn rúmanna. Framan á allar stoðirnar við efri brún bálkans var slegið borðum, sem mynduðu rúmstokkana, svo langt sem venjuleg rúmbrík myndi hafa náð. Frá stoðunum og út í vegginn gengu fjalir, sem mynduðu rúmgaflana. Hurð á hjörum með lás og og loku var fyrir búðum að utanverðu. Dyraumbúningurinn var einungis þröskuldur og dyrastafir, sem greyptir voru í digurt þvertré að ofan, sem gekk út á kampana. Þverreft var yfir dyrnar.
Öllum verbúðum fylgdi smiðjukofi. Stóð hann við búðarhliðina eða ystu búðina, ef fleiri stóðu saman.
Um þetta bil voru skipin flest tírónir áttæringar, með 14 mönnum auk hálfdrættings, nokkrir sexæringar áttrónir með 10 mönnum, og örfáir teinæringar tólfrónir, með 16 mönnum.
Þegar vermenn komu til búa, lá fyrst fyrir að búa um sig. Hey, hálmur, hefilspænir eða marhálmur var látð í rúmstæðin, og lagði útgerðarmaður það til. Tveir og tveir skipverjar gerðust lagsmenn, bjuggu um sig og sváfu í sama rúmi, og ef hálfdrættingur var, þá var hann sá þriðji í einu rúminu. Létu þeir skrínur sínar efst við vegg í rúmin. Hver maður hafði eina rekkjuvoð og eitt brekán, flestir kodda og einstaka yfirsæng. Ígangsföt voru höfð að höfðalagi, og þar með var rúmið tilbúið.
Allir lágu andfætis og tóku sér rúm annaðhvort eftir samkomulagi eða fyrirsögn formanns. Þó svaf formaður jafan í ysta rúmi til vinstri handar, þá er í búðina var gengið, eða í þverrúmi,sem í sumum búðum var fyrir gaflinum, og kallað var “kórrúm”. Úr þessum stöðum mátti best sjá yfir alla búðina.
Skinnklæðin voru hengd á stoðirnar við höfðalögin, en skór og vettlingar um bríkurrimlana. Matvæli, sem eigi komust í skrínuna, svo sem hangikjöt, brauð og harðfiskur, voru hengd upp í rjáfrið.
Matvæli þau, sem vermenn áttu að hafa um vertíðina, voru nokkurnveginn fastákveðin, að minnsta kosti hvað þá snerti, er gerðir voru út af öðrum, svo sem vinnumanna og þeirra, er einstakir menn gerðu út.
Í verstöðvunum átti verðmaðurinn að hafa útgerð, ef vel átti að vera; í skrínu 3 fjórðunga af smjöri og 1 sauð, soðinn niður í smálka eða kæfu. Þetta var kölluð “mata”. Þar að aiki eitt sauðafall reykt, 5 fjórðunga af rúgi og 4 fjórðunga af harðfiski, auk skipulagsins, sem var 1 fjórðungur af harðfiski og 1 fjórðungur af rúgi. Ennfremur 2 pd. af kaffi, 2 pd. af kandíssykri og 1 pd. af kaffirót. Entist þetta ekki til loka, varð hlutaðeigandi að bæta við frá sjálfum sér.
Einstöku maður lauk mikils til of fljótt úr skrínu sinni, og var hann þá kallaður “mötustuttur”. Þar á móti voru aðrir, sem spörðuðu helst til mikið við sig, til þess að geta selt af mötunni, og þótti hvorutveggja heldur niðrandi.
Þjónustu og brauðgerð fengu vermenn ánæstu bæjum og guldur fyrir eftir samkomulagi.
Þegar ekki var róið, var máltíðum hagað eins og tíðkaðist heima fyrir, en daglegu lífi manna var þá þannig háttað, að hver sýslaði það, er hann vildi, ef ekki þurfti að starfa að skipi eða veiðarfærum. Sumir saumuðu skinnklæði, aðrir unnu úr hrosshári, sem haft var með að heiman, nokkrir fléttuðu reiptögl, hnappheldur eða brugðu gjarðir, hagir menn smíðuðu búsáhöld ýmislegt, klyfbera, lampa, kyrnur, hornspæni o.fl., sem lítið fór fyrir, því að þrengsli voru mikil.
Skemmtanir inni við voru helst sögusagnir, sögulestur og rímna kveðskapur, einnig gátur og “skanderingar” (að kveðast á) ennfremur spil, tafl, skák, “kotra”, “mylla”, og að “elta stelpu”.
Úti skemmtu menn sér við glímur, aflraunir og ýmsa leiki svo sem “höfrungahlaup”, “að ríða til páfans”, “járna pertu”, “sækja smér í strokk” o.fl. Var oft glatt á hjalla í landlegum í þá daga. Á hverju kvöldi var lesinn húslestur og sálmar sungnir hvernig sem á stóð, áður menn legðust til svefns.
Formaður leit til veðurs að morgni dags og ákvað hvort róið væri. Síðan var gengið til skips, stundum langan veg og þess gætt að formaður færi fyrstur. Hindraðist hann af einhverju á leiðinni, stönsuðu allir á meðan. Væri þess ekki gætt var það talið óhappamerki, en enn verra var, ef kvenmaður var á vegi skipshafnar. Þá var síst við góðu að búast þann róður; sjálfasagt “fýla”, bullandi barningur eða brotalág.
Þegar komið var á flot var farið með sjóferðabæn.
Í lendingu hlupu framámenn, sem voru skiphaldsmenn, útbyrðis og urðu að vera búnir að fóta sig áður en skipið tók niður af framan. Héldu þeir svo við svo skipinu á “kollubandinu”, sem fest var í mitt stefnið, svo að skipið gat hvorki farið upp eða út, var það oft hið mesta þrekvirki, því fyrir gata komið, að sjór gengi þeim um axlir og skipið tók ákaflega á. Formaðurinn einn, eða með örðum, hélt skipinu með stjaka í horfinu, eða að því slægi ekki til hliðar, á meðan aðrir seiluðu fiskinn, og þurfti það að gerast svo fljótt sem unnt var.
Ef ekki var róið aftur, var skipið sett upp fyrir flæðamál eða dregið upp á hlunnum. Hásetar báru fiskinn upp á skiptivöllinn. Formaður skipti í köst og voru tveir hásetar um eitt kast, hétu það hlutalagsmenn.
Þar sem færi voru notuð, var næstum ekki öðru skipt en þorski, hitt voru “happadrættir”, eign þeirra, er þá drógu, t.d. keila, steinbítur, ufsi, karfi og jafnvel ýsa, ennfremur sporður, hryggur, haus og rafabelti af flakandi lúðu, sköturassar og hrognið úr löngunni (lönguskjaldið). Þetta dró drjúgum góða fiskimenn, enda var það kölluð “hlutabótin”. Ennfremur tók skipeigandi 1 besta fiskinn úr hverjum róðri af óskiptu, ef segl voru notuð í róðrinum. Hét það seglfiskur. Drykkjarfisk var þá hætt að taka á sama hátt fyrir að fá sér færðan drykk að skipi, er komið var að.
Útgerðarmaður tók 3 hluti, 2 fyrir skipið með áhöldum, búðar- og byrkisleigu, uppsátur og færi, – öngul og sökku lögðu hásetar sér til – og 1 fyrir “tilögurnar”, en það voru skipulag, sýra lifurílát, seilar- og byrðarólar, sjóskóþvengir, skinnstakksvindingur, bróklindi og baggaband, auk þess var glaðning á sumardaginn fyrsta nokkurskonar skylduskattur á útgerðarmann.
Ef einhver skipverji veiktist, var honum gefinn hlutur og jafnvel þótt hann lægi alla vertíðina.
Þegar búið var að “gera að” fiskinum, var hann þakinn grjótbyrgi, eða lagður í “kös”, ef gera átti hann að harðfiski. Þorskhausar voru þvegnir, helst upp úr sjó, þóttu þá “renna” fremur, síðan ýmist raðað hverjum við annan með munnana upp, “skrúfað”, eða hver látinn sér “trantað” á steina. Þegar þeir höfðu þornað nokkuð, voru þeir klofnir upp og lagðir í hlaða.
Í “kös” gat fiskur haldist mjög lengi óskemmdur, hvernig sem viðraði, ef vel var kasað, svo að vatn gæti hvergi staðið á fiskinum. Flattur fiskurinn var lagður saman þannig í lítinn hring, að sporðar komu saman, og utanyfir var lögð önnur röð og tóku sporðar hennar upp á hina miðja og svo koll af kolli eftir rúmi og þörfum, kösin þurfti helst að vera í sléttum halla.
Þegar fiskurinn var tekinn úr kösinni og breiddur upp, venjulega á lága grjótgarða (vergögnin) reið mjög á því, að frostlaus þerrir héldist næstu daga, svo að fiskurinn næði að þorna að utan (skelja). Ef það heppnaðist, var fiskurinn venjulega úr allri hættu, varð hlaðatækur, og með góðri hirðu bestan vara, hvort sem vildi til kaupstaðar eða matar.
Ef illa vildi til og fiskurinn fékk ekki þurrk strax eftir uppbreiðslu, slepjaði hann og varð “maltur”, en meltingur sá þótti fáum góður matur og var öldungis óhæf verslunarvara. Ef fiskurinn fraus í herslunni, varð hann að vísu ágæt matvara, en gekk ekki í kaupstað. Væri hann breiddur upp nýr og þornaði án þess að frjósa, varð hann “ólseigur” og illur til átu, en ágæt kaupstaðavara.
Að hirða vel um afla sinn og “bösl” – svo voru sjóklæðin í heild sinni kölluð – tók allmikinn tíma í landlegum, og ef róið var alla vikuna, varð að nota sunnudaginn til þess. Þá tíðkuðust ekki helgidagaróðrar.
Lífið í verbúðunum var furðulega skemmtilegt, þegar þess er gætt, að svo að segja öll þægindi, sem menn voru vanir heima, skorti, enginn stóll, ekkrt borð, ekkert matarílát nema vasahnífurinn og eitt bollapar eða krukka til að drekka kaffið úr, þrengsli mikil, þegar 2 menn og stundum 3, með hálfdrætting, urðu að sofa og vinna allt, sem unnið var, innan búðar á sama rúminu, blaut og grútug skinnklæðiin hangandi á hverri stoð við höfðalögin, skór og vettlingar á bríkarrimlum og rottur hlaupandi út og inn um veggjarholurnar. En í verinu var ofurlítið meira frjálsræði en heima, og því hafa Íslendingar unnað frá öndverðu.
Á lokadaginn 11. maí á hádegi, voru menn lausir úr skipsrúmi og bjuggust til heimferðar. Sammældu sig oft margir, er samleið áttu, og voru þá kallaðir “heimgöngumenn”.
Heimkoman var sannalega fagnaðarfundur, er allt hafði gengið slysalaust, og afli sæmilegur, en ástvinir og vandamenn svo sem úr helju heimtir. Öðru máli var að gegna á þeim heimilum, þar sem unnustinn, sonurinn, faðirinn eða eiginmaðurinn var ekki í flokki heimgöngumanna – sem því miður bar oft við – þá skerandi sorg, sem á þeim heimilum ríkti, getur enginn þekkt nema guð einn og þeir, sem hana reyndu.
Heimildir:
-Oddur Oddsson – Sagnir og þjóðhættir – 1941.
-Málverk eftir Bjarna Jónsson.