Efitt er að finna ritaðar lýsingar á verklagi því er viðhaft var í seljum á Reykjanesi. Tiltækar lýsingar eru þó í flestu samhljóða. Þótt víst megi telja að verklagið hafi tekið einhverjum breytingum í gegnum aldirnar má því eins víst vera að það hafi þó lítið breyst í grundvallaratriðum.
Til að gefa einhverja innsýn í verklagið er vitnað hér í grein Ólafs Þ. Kristjánssonar, fyrrverandi skólastjóra Flensborgarskóla og kennara höfundar, sem hann ritaði árið 1978 í Ársrit Sögufélags Ísfirðinga um selsbúskap í Holtaseli í Önundarfirði, og í handriti Sigurlínu Sigtryggsdóttur, Æsustöðum í Eyjafirði, er nefnist “Upp til selja”.
Ólafur virðist hafa leitað eftir og safnað fróðleik um verklag í seljum, “en það er með Holtasel eins og fleiri sel á landinu að næsta lítið er vitað um hvernig vinnubrögðum þar var háttað og yfirleitt hvernig selið var hagnýtt”. Hann skrifaði þó eftirfarandi eftir Ágústi Guðmundssyni, bónda á Sæbóli á Ingjaldssandi, það sem hann hafði eftir móður sinni, Guðrúnu Sakaríasdóttur (hún var í Holti um 1870) um Holtasel: “2-3 stúlkur voru í selinu að jafnaði. Kýrnar voru mjólkaðar fyrst, og var það oftast búið þegar féð kom. Ein stúlkan fór að öllum jafnaði þegar búið var að mjólka kýrnar og ærnar fyrri mjölt til þess að setja mjólkina, en hinar mjólkuðu eftirmjölt. Smérið var flutt heim í krókum, en skyrið einu sinni í viku í strokkum. Drukkurinn var fluttur heim í tvíbytnum að vetrinum, dreginn á sleða”.
Þorkell Guðmundsson, heimildamaður Ólafs lýsir selsbúskapnum svo: “Eftir fráfærur voru ærnar reknar fram í Holtasel. Yfirleitt var ekki setið hjá ánum nema kannski einn dag, heldur var þeim smalað allan fráfærutímann. Eftir mjaltir kvölds og morgna voru þær reknar fram á Heiðará á Mjóadal. Ekki er bema 7-8 mínútna gangur frá selinu fram að Heiðará eða tæplega það….”. Smalinn var vakinn kl. 3-4 á nóttunni til smalamennskunnar og einnig var farið að smala um svipað leyti, kl. 3-4, að degi til. Smalinn hélt alltaf til í selinu.
Venjulega voru 3 stúlkur í selinu, selráðskonan og 2 mjaltakonur. Selráðskonan annaðist matseld og mjólkina, renndi trogum og sá um smjörgerðina, en undanrennan var daglega flutt heim að Holti í tveimur 80 marka (40 lítra) kútum og þar var skyrið búið til. Dallur með dagssmjörinu var reiddur ofan á milli á hestunum.
Selkonurnar fóru oft heim að Holti á daginn til þess að þurrka og raka þegar svo stóð á, en voru alltaf í selinu yfir nóttina.
Í sláttarlok flutti svo fólkið úr selinu heim að Holti og tók ærnar með sér. Eftir þann tíma munu þær ekki hafa verið mjólkaðar nema einu sinni á dag. Kýr voru aldrei hafðar í selinu á æskuárum Þorkels”.
Sigurlína lýsir Hvassafellsseli og segir “mislangt í hinum ýmsu byggðarlögum síðan búsmali í seljum lagðist af. Hann hafi varað einna lengst í Eyjafirði. Fyrsta verk í selinu var að sópa og hreinsa hátt og lágt og þvo og sjóða öll ílát. Hvassafellssel var hlaðið að mestu úr grjóti. Var það baðstofa, búr og eldhús, mjólkurbúr og skyrbúr… Voru um 120-140 ær í kvíum. Í selinu voru líka 4-5 kýr. Lágu þær úti, en voru mjólkaðar á kvíabóli. Tvær stúlkur mjólkuðu kvíærnar og kýrnar og gerðu skyr og smjör úr mjólkinni. Var flutt heim úr selinu þrisvar í viku á þremur hestum í hvert sinn. Sóttu vinnumennirnir í Hvassafelli fram í selið og komu með þurrt sauðatað á hestunum til eldiviðar.
Venjulega stóð seltíminn yfir í mánuð til fimm vikur. Var oft glatt á hjalla í seljunum, þó mikið væri að gera. Var oft um helgar, þegar gestkvæmt var, slegið í leiki úti á sléttum velli og jafnvel glímt af konum sem körlum, því að á þeim tímum voru sumar stúlkur svo leiknar í glímum, að piltarnir máttu vara sig. Þegar komið var heim með mjólkurföngin úr selinu, var skyrið látið í stór keröld eða sái, en smjörinu drepið í hálftunnur og hvort tveggja geymt til vetrar, það sem gekk af daglegri notkun.
Mjög þótti það áríðandi að hafa trúa og ötula selsmala. Ærnar máttu helst ekki missa máls, en svo var það kallað, er vantaði af ánum til að mjalta. En nú eru kvíarnar og selin hrunin og fólkið horfið þaðan. Flest ungt fólk elst nú upp við léttari og betri lífsskilyrði, sem betur fer, en áður þekktist”.