Tag Archive for: vetrarferð

Sigurður Greipsson

Í Skinnfaxa 1931 segir Sigurður Greipsson frá „Vetraferð“ hans og félaga hans frá Biskupstungum til Reykjavíkur.
„Það hefði varla talizt frásagnarvert fyrir tveimur áratugum, að ungir, frískir menn færu gangandi austan úr Biskupstungum, um Mosfellsheiði til Reykjavikur, þótt um hávetur væri. Þá var það venja, að flestir karlmenn, sem gátu komizt að heiman um lengri tíma, færu til sjóróðra. Það var kallað að fara í verið.
Sigurður GreipssonÍ þessum verferðum hrepptu menn oft vond veður og þunga færð. Þeir urðu að bera þungar byrðar: nesti og fatnað. Að líkindum hefir þetta oft verið helzt til mikið álag fyrir lítt harðnaða unglinga, en það hefir kennt þeim að treysta að nokkuru á mátt sinn og megin og stælt vilja þeirra og harðfengi. Stundum leiddu þessi ferðalög til hörmuleguslu tíðinda. Það var mjög á annan veg að ferðast um landið þá en nú. Þegar sótt var suður um Mosfellsheiði, var fátt um kennileiti í hriðarveðrum. Nú er síminn ágætur vegvísir og hægt að kallast á millum Kárastaða og Laxness.
Eg fór aldrei þessar ferðir; eg var svo ungur þá, að eg taldist ekki hlutgengur. En það man eg, að mér þótti, sem litlum dreng, mikið um vermanninn, er hann var ferðbúinn. Mig minnir, að gamla fólkið teldi þann bezt búinn i verið, sem klæddist heima – unnum fötum, yzt sem innst. Eg trúði þessu þá, og eg trúi því enn, að íslenzku nærfötin séu bezt í hríðarveðrum á heiðum uppi. Það voru meðal annars minningarnar um vermanninn, sem bentu mér á leiðina, sem eg fór til Reykjavíkur í vetur. Það var og, að margir af félögum mínum höfðu ekki farið þessa leið fyr. Á þessum slóðum er margt að skoða og íhuga, þótt um vetur sé. Landslagið er að sjálfsögðu dauflegra, þegar það er sveipað hvítavoðum vetrar, en vegfarandinn getur þó, sér til lítillar tafar, lyft blæjuhorninu og skyggnzt inn í vorlendurnar.

Geysir

Frá Geysisskólanum.

[Þann] 15. febr. fórum við 23 saman frá Haukadal. Það voru nemendur mínir og kennari, Jón Kristgeirsson. Námsskeiðinu var lokið. Ferðinni var fyrst heitið að Laugarvatni. Það var glaða sólskin, er við lögðum af stað, en eftir stuttan tíma var komið versta veður, norðanrok og skafbylur. Þó héldum við áfram án tafar og náðum greiðlega að Laugarvatnsskóla.
Á Laugarvatni var okkur fagnað á bezta hátt. Kveldvakan leið fljótt við skemmtiföng Laugvetninga, ræðuhöld, söng og dans. Næsta dag urðum við hríðartepptir. Skemmtu menn sér þá við allskonar íþróttir, svo sem fimleika, sund og glímur. Sund er mjög iðkað á Laugarvatni. Þar er líka Þjálfi og Röskva í þeirri mennt, að ógleymdri prinsessunni. Svo eru tignarnöfn þeirra, sem fremst standa í sundinu við skólann.

Kárastaðir

Kárastaðir.

Í Laugarvatnsskóla dvelja í vetur 120 nemendur. Er þetta því stærsti lýðskóli Íslands. Húsakynni eru þar mikil og hin vönduðustu. Virðast nemendur njóta þar hinnar beztu aðbúðar í hvívetna. Flestir þeir, sem barizt hafa fyrir málum skólans, hafa gert það vegna öruggrar trúar á vaxandi kynslóð. Vonandi skilur æskan, að hér er mikið gert hennar vegna og endurgreiðir það með auknu manngildi.

Laugarvatn

Laugarvatn.

Þá var ákveðið að halda ferðinni áfram að Kárastöðum, um Gjábakkahraun og Þingvöll. Við lögðum af stað kl. 10 árdegis. Bjarni skólastjóri bauð öllum nemendum sínum að fylgja okkur á leið. „Út! út! í hreina fjallaloftið.“ Svo mælti hann. Við þessi orð varð ys og þys um allan skólann, því að nú átti að búa sig til ferðar. Bjarni skólastjóri er íþróttavinur og maður heill að hugsun og háttum. Nú stóð allur hópurinn ferðbúinn á skólahlaðinu.
Leiðin lá vestur Laugarvatnshálsa, sem nú voru þaktir harðfenni. Það markaði því hvergi spor. Ekkert fast skipulag var á fylkingunni og gengu tveir eða fleiri saman, eftir því sem verkast vildi.
Ánægjulegt var að horfa yfir hópinn, 150 manns, allt ungt fólk, konur og karlar. Það bar við, að ekki var ærslum stillt betur í hóf en svo, að mönnum var brugðið til glímu, ef þeir virtust liggja vel við bragði. Þegar kom upp á hálsana, var numið staðar og notið útsýnis, sem er hið tignarlegasta.
Litlu seinna kvöddum við Laugvetninga og árnuðu hvorir öðrum langra lífdaga. Hygg eg, að aldrei hafi farið stærri hópur ungra mann á þessa slóð um þetta leyti árs.
Þá vorum við að eins orðnir 16 í förinni; hinir félagarnir höfðu skilizt við okkur á Laugarvatni og héldu þaðan heim til sín.

Þingvellir

Þingvellir.

Ferðin gekk greiðlega til Þingvalla. Hittum við þar Guðm. Davíðsson. Er hann, sem kunnugt er, umsjónarmaður Þingvalla. Hjá honum dvöldum við um stund og þágum kaffi.
Guðmundur fylgdi okkur á leið og fræddi hann okkur um marga merkilega hluti, er snertu sögu Þingvalla. Hugurinn hvarflaði ósjálfrátt til liðins sumars:
„Nú er þrotin þyrping tjalda,
þögult og dapurt hraunið kalda.“
Veturinn hafði tjaldað sínu milda tjaldi. Almannagjá var sem tröllslegur kastali, en í gegnum snjóklamhrið og ísströnglana grisjaði í biksvartan hamravegginn. Efst á múrnum risu ótal varðlurnar og virtust risar standa í hverjum þeirra með kylfur eða önnur vopn í höndum. Okkur fannst tvísýnt um leiðina og horfðum við með ótta til þessara varðmanna. Við vorum þó að mestu öruggir, meðan Guðmundur var í förinni; hann virtist kunna skil á þeim flestum og vera kunningi þeirra. Við komumst klaklaust áfram, sjálfsagt fyrir góðar bænir Guðmundar, einnig virtust varðrisarnir líta með aumkvun til þessara þumalinga, sem veltust í snjónum fram hjá kastala þeirra.

Sigurjón Péturson

Sigurjón Pétursson.

Að Kárastöðum náðum við um kveldið. Gerðum við þar mikið ónæði, en það virtist ekki eftir talið, þvi að hjónin gerðu allt til þess að veita okkur sem hezta aðbúð.
Einar á Kárastöðum er einn hinna atorkusömustu bænda í Árnesþingi. Honum þótti gott að tala um íþróttir. Gat hann sagt sem Grettir: „Lagt hefi eg niður að rjá, en gaman þótti mér að því um skeið.“

Næsta dag var frekar dimmt til loftsins. Þó var ákveðið að fara suður yfir heiði til Reykjavíkur; eru það fullir 50 km., þegar farinn er Mosfellsdalur.
Þegar kom út að heiðinni gerði skafrenning. Færðin var fremur stirð, hraut snjóinn á kálfa. Fylgdum við símanum að mestu og stefndum til Mosfellsdals.
Eftir 6 klst. göngu komum við að Laxnesi; er það bær ofarlega í Mosfellsdal. Þaðan er Halldór skáld, sem allir kannast við. Í Laxnesi hvíldum við okkur nokkura stund og þágum góða hressingu.
Þá var næsti áfangi að Álafossi. Þangað eiga allir ungir menn erindi, þó að ekki væri nema til þess eins, að sjá húshóndann þar. Sigurjón hafði frétt af komu okkar. Hafði hann dregið íslenzka fánann á stöng.
Svo fagnar Sigurjón jafnan flokki ungra manna, sem koma í heimsókn til hans. Sigurjón virtist gjörla skilja hvað okkur myndi þarfast eftir svo langa göngu, sem við höfðum að baki. Bjó hann okkur því laug. Eftir að við komum úr lauginni, var okkur vísað til stofu; var þar íslenzkur matur framreiddur.
Hvatti Sigurjón okkur að taka rösklega til fæðunnar; gerðist þess þó sízt þörf. Að máltíð lokinni sýndi Sigurjón okkur ullverksmiðjuna, sem hann starfrækir. Var það okkur bæði til skemmtunar og fróðleiks. „Styðjið íslenzkan iðnað. “ Svo hefir Sigurjón auglýst. Margir lesa þetta sem hvert annað auglýsingaskrum. En vert er að taka það alvarlega. Fjötrar fjárkreppunnar eru nú sem óðast að læsast um þjóðina; þá mun öllum ljóst, að „hollt er heima hvat.“

Varmá

Sundaðstaðan í Varmá.

Frá Álafossi fórum við seint um kveldið til Reykjavíkur; fórum við það í bifreiðum. Á leiðinni sáum við fólksbifreið á hliðinni utan við veginn. Er það ekki sjaldgæft, að sjá slíkt í grennd Reykjavíkur. Eru það oftast merki Bakkusar, sem þar eru reist. Markar þar fyrir stórum sporum megnustu ógæfu einstakra manna, sem leitt getur og til ófarsældar heillar þjóðar.

Hnitbjörg

Hnitbjörg á Skólavörðuholti.

Sigurjón var í för með okkur til Reykjavíkur. Þar kvöddum við hann og þökkuðum honum fyrir mikla risnu, er hann hafði sýnt.
Í Reykjavík dvaldi eg vikutíma með félögum mínum. Skoðuðum við helztu byggingar og söfn bæjarins. Þennan tíma hafði eg daglega leikfimi með nemöndum mínum.
Að síðustu bauð eg nokkrum kunningjum mínum að horfa á fimleika okkar. Bjóst eg við, að þeir mundu hafa af því skemmtun nokkra, og að þeir gerðu ekki hærri kröfur en efni stóðu til.
„Ármenningar “ voru mér hjálplegir með hús til æfinga, og kann eg þeim beztu þakkir fyrir, svo og öðrum þeim, er sýndu okkur hlýleika og góðar móttökur, útilegumönnunum frá Langjökli.“ – Sigurður Greipsson.

Heimild:
-Skinnfaxi, 4. tbl. 01.04.1931, Sigurður Greipsson, Vetraferð, bls. 73-78.

Sigurður Greipsson

Sigurður Greipsson – 22.08.1897-19.07.1985.