Tag Archive for: viðtal

Skálafell

Eftirfarandi viðtal var tekið við einn FERLIRsfélaga og birtist í hinu virta dagblaði Morgunblaðinu fyrir nokkrum árum:

Hvað er FERLIR?

Stóra-Vatnsleysa

Letursteinninn við Stóru-Vatnsleysu – á hvolfi.

FERLIR er FErðahópur Rannsóknardeildar Lögreglunnar Í Reykjavík. Í hópnum eru auk starfsmanna deildarinnar fleira fólk, s.s. úr sektardeild embættisins, almennu deild, útlendingaeftirliti og fleiri deildum, allt eftir áhuga hvers og eins sem og á hollri og nauðsynlegri hreyfingu og vilja til að skoða áhugaverða staði eða minjar, sem virðast leynast víða. Þá hafa allir aðrir, áhugasamir, jafnan verið boðnir velkomnir í hópinn. Morgunblaðið ræddi á dögunum við einn forkólfa FERLIRs, Ómar smára Ármannsson, aðstoðaryfirlögregluþjón í Reykjavík.

Hvar og hvað hafðið þið verið að skoða að undanförnu?

Almannavegur

Gengið um Almannaveg.

“Við höfum einbeitt okkur að Reykjanesinu. Ætlum okkur að klára það áður en við snúum okkur að öðrum svæðum. Á þessu svæði átti norrænt elsti hluti norræns landsnáms sér stað. Það eru elstu minjarnar – ef vel er að gáð. Það er svo til öll atvinnusaga landans – í landinu. Minjar eru svo til við hvert fótmál. Það eina sem þarft til er að fara út og skoða. Stundum þarf að leggja svolítið á sig og að leita, en það er allt þarna við fætur fólks, sem hefur áhuga. Þarna eru t.d. gömlu tóttir bæjanna, sem fólkið, er lagði drög að nútíðinni, húkti í öld fram af öld. Þarna eru sjóbúðirnar, naustin, varirnar, siglingamerkin, sundvörðurnar, brunnarnir, selin, selstígarnir, vatnsstæðin, stekkirnir, kvíarnar, fjárhellarnir, vatnsstæðin og vörðurnar.

Borgarhraunsrétt

Borgarhraunsrétt.

Jafnvel réttirnar, útilegumannahellarnir, aftökustaðirnir, dómhringirnir og lögrétturnar eða hvaðanaæva er tengdist lifnaði eða lifnaðarháttum fólks liðins tíma. Það er allt þarna úti – ef einhver hefur áhuga.
Refabyrgin, refagildurnar eða grenin – bara nefndu það. Eða hinir fjölmörgu hellar og skútar, sem tengjast einstökum sögum, s.s. Arngrímshellir, og Sængukonuhelli.
Eða drykkjasteinarnir, eða letursteinarnir eða…. Að ekki sé minnst á náttúruna sjálfa og allt sem hún hefur upp á að bjóða. Bara nefndu það. Það er engin afsökun til að skoða þetta ekki. Lítið sem ekkert af þessu hefur verið haldið að fólki”.

Hvað er verið að skoða?

Bálkahellir

Í Bálkahelli.

“Allt, sem kann að vera áhugavert frá liðinni tíð. Leitað er í bókum, ritum, sögnum, lýsingum, minningarbrotum og örnefnaskrám og höfð viðtöl við eldra fólk, sem kann frá einhverju merkilegu að segja. Svo virðist sem þjóðsögurnar, sem gerast reyndar hlutfallslega fáar á Reykjanesi, eigi sér svo til allar tilvísun í staði eða staðhætti. Þannig má sannanlega sjá merki þeirra á Selatöngum, í Ögmundarhrauni, í Draughelli í Valahnjúk, í Arngrímshelli (Gvendarhelli) og í Bálkahelli í Krýsuvíkurhrauni, í Kerlingadal austan við Eldborg eða á Vörðufelli ofan við Selvog.

Selvogsgata

Gengið um Selvogsgötu.

Á þessu landsvæði m.a. sjá ein elstu mannvirki landsins, s.s. Skagagarðinn mikla, Fornagarð Í Selvogi, skálann og tóttirnar í Húshólma og Óbrennishólma, minjarnar fyrir ofan Stórubót í Grindavík, kapelluna í Kapellulág við Hraun, dysjarnar við Hraun og víðar, grafirnar við Hafurbjarnastaði eða á Draughól við Garðskaga og svona mætti lengi telja. Þá eru ekki upptaldir letursteinar, sem víða má sjá og hafa skýrskoutun til gamalla heimilda, s.s. letursteinninn við Prestsvörðuna er sr. Sigurður Sívertssen lét höggva í eftir að hafa lifað að harðviðri, rúnasteininn í Kistugerði, áletranir í Másbúðarhóla, leturstein neðan við Kálfatjörn frá 1674, skósteininn í brúnni vestan kirkjunnar, vörðuáletranir, s.s. í Stúlknavörðunni (1777) ofan við Stapann, letur- og ártalssteinana á Vatnselysuströnd, t.d. við Knarrarnes og svona mætti lengi telja.

Þá er ekki talað um allar þær fornu leiðir, sem farnar voru og enn má merkja ef ve er að gáð”.

Hafið þið skráð eitthvað af þessu?

Lambafellsklofi

Lambafellsklofi.

“Við höfum fram að þessu notað upplýsingarnar sem ákveðið tilefni til útivsitar. Stundum höfðum við þurft að fara nokkrum sinnum á sama stað til að finna það sem lýst var. Stundum finnum við annað en það sem lýst var og merkilegt kann að þykja. En við höfum fram að þessu ekki skráð það sérstaklega. Teljum það hlutverk annarra, einkum þeirra sem fram að þessu hafa einungis fengið tækifæri til að skrá og varðveita minjar, sem sögulegar kunna að teljast. Annars er það okkar mat að minjar eigi að varðveitast á staðnum Þær á ekki að færa í eitthvert miðlægt munsteri – víðs fjarri – jafnvel þótt fjöldinn kunni að vera þar. Enginn hefur gott að því – síst sagan eða munirnir. Þeir halda einungis gildi sínu á þeim stað er sagan skóp þeim tilvist – eða öfugt. Aðalatriðið fyrir okkur er hreyfingin. Allt annað bætir um betur. Við þolum hins vegar enga linkennd. Annað hvort er fólk tilbúið til að takast á við það sem bíður þess eða ekki. Ekki er hlustað á kvartanir. Ef einhver gefst upp er leitað að því sem kann að nýtast öðrum til framtíðar, t.d. göngustafnum”.

Hversu margir hafa ílengst frá upphafi og ekki gefist upp?
“A.m.k. tveir”.

Er ætlunin að halda áfram?

Ferlir

Ferlir á ferð um Húshólma.

“Já, svo lengi sem eitthvað er eftir óskoðað. Við höfum þegar farið 317 ferðir á Reykjanesið, en sýnt er að við höfum einungis skoðað það að hluta. Við eigum eftir að skoða selin norðan og austan Búfells og sandana ofan Selvogs svo eitthvað sé nefnt. Og margir hellar eru enn óskoðaðir. Þetta svæði er geysilega víðfeðmt og hefur upp á ótrúlega margt og mikið að bjóða. Jarðfræði landsins er t.d hvergi eins opin og áberandi og þar. Lesa má svo til alla landsmótunina frá vitsmunalegu upphafi á svæðinu og mörg hraunanna hafa runnið eftir að norrænt landnám hófst. Líklega þarf hver og einn að þekkja a.m.k. svolítið til um fortíðina til að geta skilið betur framtíðina. Nútíðin, þ.e. dagurinn í dag, var framtíðin í gær, en verður fortíðin á morgun. Með því má sjá hversu fortíðin getur verið, ekki bara okkur, heldur og öðrum, sem á eftir koma, dýrmæt. Sá veldur, sem á heldur. Þeir sem ekkert gera, vanrækja framtíðina. Viljum við það”.

Hvað er framundan?

Sveifluháls

Gengið um Sveifluháls.

“Meiri hreyfing – í fallegu mhverfi innan um minjar forfeðra og –mæðra og sögu þeirra, sögu liðins tíma – okkar tíma í fortíð, nútíð og framtíð”.

Ljóst má vera að framangreint er einungis svör við framkomnum spurningum, en ef spurt hefði verið nánar um eigindlega möguleika fyrirliggjandi upplýsinga, hugsanlega greiningu eða túlkun þeirra, aðferðir eða aðferðafræðileg hugtök, mögulegra kenninga eða væntanlegar niðurstöður hefðu svörin án efa orðið önnur. Þannig mótast svörin jafnan af spurningunum.

Túlkun niðurstaðna út frá fyrirliggjandi upplýsingum er jafnan talin gild – þá og þegar hún er lögð fram – en hún er líka fljót að breytast þegar til lengri tíma er litið. Svo virðist sem jafnvægi aukist með fjarlægðum – því lengra sem líður frá túlkun gagna því líklegra er að hún nálgist áreiðanleikann fyrrum.

Arngrímshellir (gvendarhellir)

Í Arngrímshelli (Gvendarhelli).