Fyrrum var réttað í Brunnastaðarétt á Vatnsleysuströnd. Réttin sést vel á loftmynd frá árinu 1954, en í dag (2021) er hún horfin af yfirborði jarðar.
Í Úrskurði Óbyggðanefndar árið 2004 var lögð fram lýsing Sæmundar Þórðarsonar á Stóru – Vatnsleysu á smalamennskum á Vatnsleysuströnd og Vogum sem stjórnað var af hreppsnefnd. Þar lýsir Sæmundur bæði Brunnastaðaréttinni og réttinni á Vigdísarvöllum:
„Lýsingin er dagsett 27. október en án ártals. Segir hann bændur hafa smalað sjálfir heimalönd í Vatnsleysustrandarhreppi í sex einingum:
1. Hvassahraun (Hvassahraunsmenn smöluðu að Markhellu).
2. Vatnsleysubæir og Flekkuvík (í fyrstu rétt smalaðir Höskuldarvellir, farið upp Sog og vestur með Spákonuvatni og sigin norðan í Grænavatnseggjum og niður austan við Driffell og niður með Hrafnafelli, um Kolhól, Einiberjahól og Austari-Hrafnhól. Senda varð tvo menn til að smala tór sem liggja upp eftir Afstapahrauni, allt til Sóleyjarkrika. Með Flekkuvíkurmönnum var farið upp í Flekkuvíkursel og smalaður þríhyrningur, sem myndaðist milli Vatnsleysumanna og Kálfatjarnar- og Þórustaðamanna, milli Hafnhóla og Prestsborgar (Staðarborgar) og Keilisness. Þess hafi verið gætt að vera samsíða Kálfatjarnar-, Þórustaða-, Landakots og Auðnamönnum við smölun).
3. Kálfatjörn, Þórustaðir, Landakot og Auðnar (Sæmundur nefnir það Þórustaðaleit en ekki hve langt þeir hafi smalað).
4. Knarrarnes.
5. Hlöðunes og Brunnastaðahverfi.
6. Vogar. (Sæmundur nefnir ekki hvert menn á svæðum 4 – 6 hafi smalað). Eftir að bílfært varð á Höskuldarvelli og upp í Eldborg og Sog hafi smalar verið fluttir á bílum upp eftir, og hafi allir nýtt sér það nema Brunnastaða- og Vogamenn. Á síðari árum hafi Brunnastaðamenn farið á bílum frá Ísólfsskála að Litlahrút og smalað þaðan til Brunnastaðaréttar. Smalamennskur í Krýsuvík hafi verið samstarfsverkefni Vatnsleysustrandarmanna og Grindvíkinga, réttað á Vigdísarvöllum á sumrum en rekið til Grindavíkur á haustum.
Höskuldarvellir og Sóleyjarkriki hafi verið lífæð beitar yfir sumartímann, jafnvel þótt stór hluti hafi verið í rækt og þar heyjað. Þar hafi alltaf verið rennandi vatn.“
Heimild m.a.:
-Úrskurður Óbyggðanefndar – mál nr. 1/2004; Grindavík og Vatnsleysuströnd.