Tag Archive for: Víghólar

Víghóll

Á Víghóll/Víghólum í Kópavogi er upplýsingaskilti. Þar segir m.a.:

„Víghóll var friðlýstur sem náttúrvætti 1983 skv. náttúruverndarlögum nr. 47/1971. Stærð friðlýsts svæðis er um 1 hektari en útivistarsvæðið er rúmir 3 hektarar.

Víghóll

Víghóll.

Um tíma stóð til að byggja Digraneskirkju á svæðinu og voru framkvæmdir við grunn kirkjunnar hafnar þegar horfið var frá því skipulagi. Digraneskirkja stendur nú á fallegum stað í Digraneshlíðum.
Þar sem kirkjan átti að standa er nú hvammur í landinu þar sem grágrýtisklappir grunnbergsins eru sýnilegar. Form hvammsins hefur verið undirstrikað með fallegum og vel gerðum grjóthleðslum.
Að sögn Erlu Stefánsdóttur má sjá ljósstrengi frá Víghól milli huldubyggða á stóru svæði í nálægum bæjum. En í sjálfum hólnum má finna einskonar musteri hulduvera á háu tíðnissviði og í stökum húsum á hólnum búa rólyndislegir dvergar með ljúfar árur.

Víghóll

Víghóll.

Víghóll er í 74.7 metrum yfir sjávarmáli og stendur hæst í byggðu landi Kópavogs. Bergið í Víghól er grágrýti og virðist vera hluti af víðáttumiklum berggrunni (hraunlagasyrpu) á höfðuborgarsvæðinu sem gengur undir samheitinu Reykjavíkurgrágrýti.
Reykjavíkurgrágrýtið tilheyrir yngri grágrýtismyndun Íslands, til aðgreiningar frá eldri grágrýtismynduninni, og er einkum um dyngjuhraun að ræða sem runnu á hlýskeiðum seinni hluta ísaldar fyrir 100.000-700.000 árum.
Upptök Reykjavíkurgrágrýtsins í Kópavogi eru óþekkt, en aldurinn er líklega 300.000-400.000 ár.

Kópavogur

Kópavogur – Víghólar.

Hvalbök nefnast jökulsorfnir klapparhólar og þekkjast á því að hlið klapparinnar sem vissi á móti skriðstefnu jökulsins, þar sem jökulþunginn mæddi mest á, er fremur slett og aflíðandi. Hin hliðin sem vissi undan skriðstefnunni er hins vegar oft brött og stöllótt, enda náði jökullinn að rífa flyksur úr berginu þeim megin. Jökulrákir á Víghól urðu til fyrir um 10.000 árum þegar jökullinn skreið fram og rispaði undirlagið með urð og grjóti. Af stefnu hvalbaka og jökulráka má ráða skriðstefnu jökla. Jökulrispurnar á Víghól liggja frá suðaustri til norðvesturs.
Á Víghóli, Álfhóli og víðar á höfuðborgarsvæðinu hefur jökullinn sem síðast gekk yfir svæðið fyrir um 10.000 árum, haft stefnuna norðvestur til suðausturs. Líklega hafa ísaskil þessa jökuls legið austan Bláfjalla og skriðjöklar gengið frá honum bæði út á Faxaflóða og niður í Ölfus.“

Kópavogur

Víghóll.