Tag Archive for: víkingar

Afstapahraun

Forfeður okkar Íslendinga voru víkingar. Víkingaöldin var tímabilið frá 793/800 til 1050/1066/1100 e. Kr. skv. upplýsingum Orra Vésteinssonar, fornleifafræðings og kennara við Háskóla Íslands. Lengd tímabilsins var mismunandi eftir svæðum.

Víkingur

Víkingur.

Víkingaöldin einkenndist fyrst og fremst af ránsferðum og strandhöggi norrænna manna við Eystrasalt, á Bretlandseyjum og í strandhéruðum Norður-Evrópu, en fljótlega einnig skipulegum hernaði og landvinningum sem leiddu til þess að þeir settust að í norðurhluta Englands, í borgum eins og Dublin (Dyflinni) á Írlandi, í Normandí í Frakklandi og á svæðinu í kringum Starja Ladoga (Aldeigjuvatn) í Rússlandi. Þessir norrænu menn er fóru í víking voru nefndir víkingar. Þeir voru ekki sérstök þjóð, ekki fremur en bifhjólamenn eða fjallgöngumenn nú. Það að fara í víking var bara spurning um lífsstíl. Þess á milli voru þetta friðsemdarinnar menn, bændur og fiskimenn, líkt og t.d. bankamenn eru í dag.
Í forníslensku merkir hugtakið víkingur „sjóræningi, maður sem stundar sjóhernað“, en einnig er til kvenkynsorðið viking „herferð á sjó“ (sbr. „að fara í víking“). Orðið er algengt í vestnorrænum mállýskum (íslensku, norsku) en sjaldgæfara í austnorrænum (dönsku, sænsku). Hugtakið komst inn í Evrópumál úr norrænu, en hélt merkingu sinni. Adam frá Brimum, þýskur klerkur sem skrifar á latínu um 1075, segir til dæmis: „ipsi vero pyratae, quos illi wichingos appellant“ (þeir voru sannlega sjóræningjar, sem þeir nefna víkinga) sem bendir til þess að norrænir menn hafi notað orðið sem samheiti við pirata, „sjóræningi“. Enski sagnaritarinn Ælfric þýðir orðið með svipuðum hætti.

Vikingur

Víkingur.

Fornmenn lögðu þann skilning í íþróttir að þær væru margvíslegir og aðdáunarverðir hæfileikar sem hægt væri að rækta með sér, svo sem handverk, listir, leikir, lögspeki og bókvísi. Hægt er að greina tilhneigingu til að eigna yfirstéttinni íþróttaiðkun því ekki kemur fram að verslun og bústörf teljist til íþrótta.
Í heimsókn Þórs til Útgarða-Loka í Snorra Eddu er talað um íþróttir þegar sagt er frá átkeppni, kapphlaupi, kappdrykkju og glímu. Rögnvaldur kali Orkneyjajarl og Haraldur konungur Sigurðarson yrkja um hestamennsku, sund, skáldskap, tafl, rúnir, bókvísi, smíðar, skíðamennsku, róðra og hörpuleik sem íþróttir sínar, og frægur er mannjafnaður Noregskonunganna Eysteins og Sigurðar í Magnússona sögu Heimskringlu þar sem þeir miklast af glímu, sundi, skautahlaupi, bogfimi, skíðakunnáttu, lögprettum og mælsku – sem íþróttum.
Knattleikir koma víða fyrir í Íslendingasögum og hafa verið leiknir á ís eða sléttum velli með knatttré og knetti, líkt og enn er gert meðal gelískra þjóða og kallað hurling. Þekktar eru frásagnir Gísla sögu og Eglu af slíkum leikjum þar sem kappið verður svo mikið að leiðir til mannvíga. Oft er stutt á milli íþrótta og leikja í Íslendingasögum því þar er talað almennt um leika hvort sem átt er við íþróttir eða jafnvel einhvers konar leiklistariðkun. Hornskinnaleikur og hnútuköst hafa þótt til skemmtunar fallin, sem og tafl og glímur.

Víkingar

Víkingar.

Um viðhorf til líkamans almennt er ekki gott að segja því að hinar rituðu sögur eru mjög gegnsýrðar af nýplatónskum hugmyndum um mannslíkamann sem taka að ryðja sér til rúms á 12. og 13. öld. Þó virðist ljóst að menn hafa dáðst að líkamsfegurð, þá ekki síður en nú, og má hafa þessa vísu úr Helgakviðu Hundingsbana II til marks:

Svo bar Helgi
af hildingum
sem íturskapaður
askur af þyrni
eða sá dýrkálfur
döggu slunginn
er öfri fer
öllum dýrum
og horn glóa
við himin sjálfan.

Víkingar

Víkingar.

Um íþróttir fornmanna má lesa í bók Dr. Björns Bjarnasonar frá Viðfirði, Íþróttir fornmanna á Norðurlöndum. Þá skrifaði Þorsteinn Einarsson margt um sögu íþrótta á Íslandi, sérstaklega um vetraríþróttir og glímu sem hann tengdi við sams konar fangbrögð meðal gelískra þjóða.
Á seinni öldum hefur hugtakið fengið útbreiðslu í öðrum tungumálum (svo sem ensku) sem samheiti yfir norræna menn á tilteknum tíma sem kallaður hefur verið víkingatími eða víkingaöld, um 800-1050. Sú merking er líklega komin frá Engilsöxum, en fornt enskt kvæði, Wiðsið, notar hugtakið wicing þannig að um almennt orð yfir norræna menn virðist vera að ræða. Þá finnst hugtakið wicinga cynn í engilsaxneskum heimildum, sem bendir til þess að litið hafi verið á víkinga sem tiltekna þjóð fremur en stétt manna sem stundaði vissa iðju (það er sjórán). Hinum megin við Norðursjóinn má sjá svipaða notkun hugtaksins í frísneskum lagahandritum frá 13. öld.

Víkingar

Víkingar.

Hugtakið víkingaferð er tengt orðinu víkingur og er raunar samheiti við það í einni merkingu þess („herferð á sjó“). Oft er sagt frá víkingaferðum í Íslendingasögum og öðrum norrænum miðaldaheimildum og virðast þær hafa verið eins konar blanda af verslunar- og ránsferðum. Slíkar heimildir fjalla hins vegar ekki um samtímann heldur fyrri tíma og þegar þær eru festar á blað er víkingaferðum að mestu lokið. Í erlendum heimildum er fyrst getið um víkingaferð þegar norrænir sjóræningar réðust á klaustrið í Lindisfarne 793, en ránsferðir af þessu tagi hófust eflaust nokkru fyrr. Varðveittar heimildir frá þessum tíma voru hins vegar gjarnan skrifaðar í grennd við klaustur og veittu klausturránum meiri athygli en árásum á venjulega bændur.

Víkingar

Víkingar.

Á svipuðum tíma hófst innflutningur norrænna manna til Orkneyja, Hjaltlands, Suðureyja og Manar, en líta má á hann sem undanfara þess að Færeyjar, og síðar Ísland, uppgötvuðust og þar hófst byggð norrænna manna. Á þessum eyjum var naumast um ránsferðir að ræða, heldur markvisst landnám sem líklega tengist landþrengslum heima fyrir.
Samkv. rannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar á uppruna Íslendinga voru 61.5% kvenna frá Bretlandi, en 80.5% karla frá Skandinavíu. Það segir okkur að hinir norrænu „víkingar“ hafi komið við á Bretlandseyjum, áður en þeir héldu til Íslands, og valið fallegustu konurnar úr kvennastóðinu þar, en skilið þær óásjálegri eftir, a.m.k. kosti miðað við þá ásýnd, sem nú er á kvenfólki þessara landa hvað útlit varðar.

Víkingar

Víkingar.

Víkingar frá Danmörku og Noregi réðust reglulega á England, Frísland og Niðurlönd á fyrri hluta 9. aldar, en þar er erfitt að greina á milli ránsferða og herferða sem farnar voru í pólitískum tilgangi. Víst er að víkingar frá Danmörku og Noregi settust að bæði á Írlandi (í Dyflinni), Norður-Englandi (í Jórvík) og á austurströnd Englands (Danalög). Ýmsir víkingaforingjar fengu lén í Fríslandi á 9. öld og í upphafi 10. aldar fékk norrænn víkingaforingi, Rollo, erfðalén á norðurströnd Frakklands, sem síðan nefnist Normandie.
Víkingaöldin er kennd við víkinga, norræna sæfara, sem bundust margs konar samtökum og sigldu þúsundum saman til framandi landa, rændu og rupluðu, versluðu, háðu styrjaldir, fundu ný lönd, náðu sér í kvenfólk, settust að og ræktuðu jörðina, allt eftir aðstæðum.

Víkingar

Víkingar.

Tíðarfarið á víkingaöld var nokkuð gott og fólksfjölgun talsverð á Norðurlöndum sem leiddi af sér landþröng og því átti ungt fólk erfitt með að stofna heimili. Landþröngin var mest einkum vestan fjalls um Sogn og Harðangur í Noregi. Það varð svokallað innra landnám í Austur Noregi vegna breyttra samfélagshátta (breytt skipun þjóðfélagsins meðal annars vegna þess að vald héraðshöfðingja þvarr) og hlýinda, sums staðar fjölgaði íbúum um helming.
Landþröngin í Noregi varð kveikjan að ránsferðum Norðmanna suður á Bretlandseyjar um 800.
Það höfðu orðið miklar tækniframfarir í siglingalist og hernaði sem gerði það kleift að Norðmenn gátu farið í víking. Víkingar sóttust eftir alls kyns auðæfum í landi og lausum aurum. Danir fylgdu fljótt í fótspor Norðmanna og fóru í víking en það hafði átt sér nokkurn aðdraganda.

Víkingar

Víkingar.

Kveikjan að vopnvæðingu Dana var sú að keisarinn Karlamagnús hafði stofnað í stríðum við Mára á Suður-Spáni franskt-þýskt stórveldi seint á 8. öld og Danir urðu að stöðva sókn Karlungaríkisins norður á bóginn, þannig að Danir voru vel til þess búnir að fara í víking.

Sagnfræðingum hefur reynst afar erfitt að útskýra þær miklu framfarir í verkkunnáttu sem urðu forsendur landnáms í Vesturvegi. Um 400 e.K. áttu norðmenn ekki annan skipakost en litla róðrabáta, lítt fallna til úthafssiglinga. Afar lítið er vitað um það hvernig tækniþekkingin breyttist á árunum 400-800 e.K. Líklegasta ástæðan er sú að norðmenn hættu sér alltaf lengra og lengra út á sjó og stækkuðu báta sína hægt og bítandi.

Víkingar

Víkingar.

Talið var áður að jörðin væri eins og pönnukaka í laginu og sigla mætti út af heimsenda. Þeir Norðmenn sem sigldu út á sjó hlutu að taka eftir því að jörðin væri hnöttótt því það kemur bunga á hafið þegar maður fjarlægist land. Þeir gætu hafa ályktað svo að jörðin væri hnöttótt og því hafi þeir þorað að sigla lengra og lengra frá landi.
En ekkert er vitað um það svo þetta er bara kenning. Um 800 óx þekking norrænna manna mikið í landafræði, siglingalist og hernaði, þeir smíðuðu bæði stærri skip og einnig góð skip til hernaðar svokallaða knerri sem voru mjóir, liprir og léttir svo það væri auðvelt að flýja á þeim og leggja að ströndum. Skip urðu aðalsamgöngutæki Norðurlandamanna og verslun þeirra og samgöngur efldust til muna. Skipin voru mikil tæknibylting á víkingatímanum en útfrá kröfum nútímans eru þau ansi ófullkomnir farkostir. Siglingin á skipunum gekk misjafnlega og til vöruflutninga á úthöfunum voru þau lítt hæf. Það var erfitt að stýra þeim til réttrar hafnar.

Víkingar

Víkingar.

Í upphafi 10. aldar dró úr víkingaferðum og fljótlega upp úr því misstu víkingakonungar fótfestu sína á Bretlandseyjum. Seinasti víkingakonungurinn, Eiríkur Haraldsson konungur í Jórvík, féll árið 954. Á Írlandi hélst ríki víkinga í Dyflinni hins vegar fram til um 1170.
Sumir vilja líta á herleiðangra danskra og norskra kónga gegn Englandi á árunum 991-1085 sem hluta af víkingaferðum, en þeir voru þó annars eðlis þar sem á ferð voru konungar sem leituðust við að leggja undir sig annað ríki, sem þeim tókst öðru hvoru.
Vitað er að norrænir menn fóru einnig í ránsferðir í austurveg, allt til Rússlands þar sem fundist hafa grafreitir og aðrar minjar um norræna menn. Þar voru þeir hins vegar ekki nefndir víkingar heldur varjagi (væringjar) í slavneskum heimildum og rus í grískum, slavneskum og arabískum heimildum. Líkt og í vesturvegi er erfitt að greina milli ránsferða, markvissra herferða eða innflutnings, en víst er að mest verður vart við víkinga í austurvegi á 9. og 10. öld, en eftir það fóru áhrif þeirra að minnka.

Víkingar

Víkingar.

Norrænir menn mynduðu sérstaka lífvarðasveit við hirð keisarans í Konstantínópel og nefndust þeir væringjar. Eftir að Normannar lögðu undir sig England 1066 fjölgaði hins vegar Engilsöxum í þessum lífverði, en hlutur norrænna manna fór minnkandi.
Benda má á að í Rómverja sögu, sem er íslensk miðaldaþýðing á verkum sagnaritarans Sallustiusar og stórskáldsins Lucanusar, er orðið víkingur notað sem þýðing á rómverska hugtakinu tyrannus, „harðstjóri, einvaldur“.
Víkingar voru ekki góðhjartaðir. Í forníslensku merkir hugtakið víkingur „sjóræningi, maður sem stundar sjóhernað“, en einnig er til kvenkynsorðið viking „herferð á sjó“ (sbr. „að fara í víking“). […] Á seinni öldum hefur orðið fengið útbreiðslu í öðrum tungumálum (svo sem ensku) sem samheiti yfir norræna menn á tilteknum tíma sem kallaður hefur verið víkingatími eða víkingaöld, um 800-1050.

Víkingar

Víkingar.

Íslenskir sagnfræðingar nota orðið „víkingur“ í fornri merkingu orðsins en hún er einnig aðalmerking hugtaksins í nútíma íslensku. Íslensk orðabók segir um orðið „víkingur“: „norrænn sæfari sem stundaði kaupskap, sjórán og strandhögg á víkingaöld“. Eins og eðlilegt er í íslenskum texta byggist stutta svarið hér á undan á þessum skilningi á orðinu.
Erlendir fræðimenn nýta sér gjarnan víkingahugtakið í titlum á bókum sínum, kannski til að vekja athygli kaupandans, en gera síðan á hinn bóginn skýran greinarmun á sjóræningjunum og hinum friðsamari Norðurlandabúum í skrifum sínum.

Víkingaskáli

Víkingaskáli.

Víkingar í íslensku merkingunni voru ekki þjóð í venjulegum skilningi eða afmarkað samfélag heldur fremur sérstök stétt norrænna manna. Þeir vöktu ótta vegna ránsferða sem óneitanlega voru margar grimmilegar – oft ýktu þó kristnir sagnaritarar grimmd hinna heiðnu ræningja. Sjófærni víkinga, vopn og vopnaburður vöktu líka aðdáun. Víkingar voru fyrst og fremst ræningjar og fórnarlömb þeirra bjuggust ekki við neinum góðverkum af þeirra hálfu frekar en frá öðrum ræningjum í sögunni (hinn þjóðsagnakenndi Hrói höttur að sjálfsögðu undanskilinn og sennilega Fjalla-Eyvindur líka).

Vikingar

Víkingar.

Auk þess að stela öllum verðmætum, námu þeir oft fólk á brott í þrældóm.
Árabilið 800-1050 er oft nefnt „víkingaöld“ eða „víkingatími“. Sumir teygja þó tímamörkin lengra fram í söguna og samfélagshættir víkingaaldar lifðu lengur á afmörkuðum stöðum, til dæmis á Orkneyjum samkvæmt Orkneyingasögu. Á þessum rúmum tveimur öldum stunduðu norrænir menn þó margt fleira en rán og rupl. Þeir námu lönd þar sem lítil eða engin byggð var fyrir og reyndu að koma á fót sjálfbærum samfélögum þar sem landbúnaður, veiðar og verslun voru undirstöðurnar. Það tókst ekki alls staðar, svo sem í Norður-Ameríku, og á Grænlandi stóð norræn byggð aðeins í nokkrar aldir. Þetta heppnaðist hins vegar dável í Færeyjum, á Íslandi og víðar. Á svæðum sem norrænir menn lögðu tímabundið undir sig, til dæmis á Bretlandseyjum og í Normandíhéraði í Frakklandi, höfðu þeir mikil áhrif á menningu, tungumál og samfélagsgerð. Sjófærnin, sem gjarnan er kennd við víkinga, nýttist vel við landnám, veiðar og verslun.

Vikingar

Víkingar.

Hollusta norrænna manna var ekki við þjóð eða föðurland, enda slík hugtök vart til þá á Norðurlöndum, samfélögin stéttskipt mjög og meðal annars mótuð af þrælahaldi. En verslun blómgaðist og norrænir menn höfðu viðskiptatengsl allt frá Grænlandi til Rússlands og Miklagarðs (Istanbúl). Landbúnaður stóð með miklum blóma en það leiddi meðal annars til útrásar og landnáms norrænna manna vegna landskorts. Friðsamleg samskipti voru því reglan en ekki undantekningin þótt Íslendingasögurnar beini athyglinni yfirleitt að meira krassandi hlutum. Engin ástæða er því til að ætla annað en að norrænir menn hafi verið góðhjartaðir á við aðra menn, meðan þeir voru látnir í friði.
Ritmál víkingaaldar var rúnaletur.

Vikingar

Víkingar.

Athyglisvert er að velta fyrir sér hvernig við Íslendingar höfum litið á víkingana, ekki síst út frá Íslendingasögunum. Þær hefjast oft á atburðum fyrir landnám Íslands og segja frá víkingaferðum þangað til aðalsöguhetjurnar nema hér land. Í Egils sögu halda þeir bræðu Kveld Úlfur og Þórólfur iðulega í víking frá Noregi áður en sagan berst til Íslands með Skalla-Grími, syni Kveld-Úlfs. Þegar sögurnar segja frá afkomendum landnámsmanna, er tónninn oftast annar. Af frægustu köppum Íslendingasagnanna er Egill Skalla-Grímsson sá eini sem fer í raunverulega víkingu. Aðrar hetjur fara að sjálfsögðu til annarra landa í eins konar manndómsvígsluför, en berjast yfirleitt gegn ræningjum. Ólafur pá Höskuldsson í Laxdælu, Gunnar Hámundarson í Brennu-Njáls sögu, Grettir Ásmundarson í eigin sögu og Þorgeir Hávarsson í Fóstbræðra sögu berja allir á víkingum, sumir í liði með konungum eða höfðingjum sem eru að verjast yfirgangi þeirra. Ekki er minnst á víkinga í Gísla sögu Súrssonar og Leifur heppni, eitt helsta stolt okkar út á við, var friðsamur kristniboði.

Vikingar

Víkingar.

Upphaf Hallfreðar sögu vandræðaskálds segir frá grimmdarverkum víkingsins Sokka, fjöldamorðum og ránum flokks hans. Sokki hlýtur að lokum makleg málagjöld. Eru þar að verki faðir og föðurbróðir Hallfreðar og nema þeir síðan land á Íslandi.
Af ofangreindu má sjá að höfundar Íslendingasagna hneigjast til að greina Íslendinga frá víkingum. Svipað viðhorf til víkinga má finna í Landnámabók, eins og lesa má í 98. kafla (Sturlubókar) um undantekninguna sem sannar regluna, „góðhjartaðan“ víking:

Víkingar

Víkingar.

Ölvir barnakarl hét maður ágætur í Noregi; hann var víkingur mikill. Hann lét eigi henda börn á spjótaoddum, sem þá var víkingum títt; því var hann barnakarl kallaður.
Einn versti atburður sem hent hefur þjóðina er Tyrkjaránið svonefnda, þegar alsírskir sjóræningjar námu á brott yfir 300 manns og drápu rúmlega 40 árið 1627. Þjóðsaga af prestinum og galdramanninum Eiríki Magnússyni (1638-1716), segir frá því þegar Eiríkur kemur sjóræningjum fyrir kattarnef:
Einu sinni kom ræningjaskip að landi fyrir ofan fjall. Ræntu víkingar fólki og fé, bæði um Grindavík og annarstaðar. Komu fimmtán víkingar vopnaðir í Selvog. Gjörðist fólk mjög felmtsfullt.
Séra Eiríkur kvað bezt að ganga til kirkju, hvað sem svo ætti yfir að ganga. Hlýddu allir ráðum hans því þetta var á helgum degi.

Vikingar

Víkingar.

Þegar prestur hafði lokið embætti undraði alla að víkingar voru ekki komnir, og fóru að litast um. Fundust þá víkingar á hól nokkrum skammt frá og voru þeir allir dauðir. Höfðu þeir orðið ósáttir og drepizt á sjálfir. Heitir hóllinn síðan Ræningjahóll.
Um kvöldið gjörði ofviðri svo skip víkinga rak til hafs og kom þar síðan aldrei að landi.

Á þessum tíma hefur víkingur verið samheiti fyrir ógnvænlega ræningja en nú til dags virðist sem hugtakið sé notað í allt annarri merkingu. Hér á landi eru reglulega haldnar víkingahátíðir og lengi vel stóð til að byggja „landnámsþorp“ í Njarðvík þar sem „víkingaskipið“ Íslendingur á að vera aðal sýningargripurinn, þrátt fyrir þá staðreynd að ekki hafi myndast nokkurt þéttbýli að ráði á Íslandi fyrr en á 17. öld, eins og lesa má í svari Gunnars Karlssonar við spurningunni. Nú hefur hugmyndinni um „landnámsþorp“ verið breytt og í staðinn á að rísa „víkingaheimur“ í Njarðvík.

Víkingar

Víkingar.

Hér liggja fjárhagslegir hagsmunir að baki, hin markaðssinnaða heimsvæðing hefur komið víkingum í tísku. Þeir eru nokkurs konar ímynd nútíma kaupsýslumanna, víðförlir, fljótir í förum og kappsamir. Auðvitað vekja hátíðir og söfn athygli á fleiri og friðsamlegri hliðum á samfélagi norrænna manna á víkingaöld og orðið „víkingur“ hefur líka jákvæða merkingu í íslensku máli: „dugnaðarmaður, maður sem afkastar miklu“ (Íslensk orðabók) – svo ekki sé minnst á íþróttafélögin tvö. En ber okkur Íslendingum ekki að varast að samsama okkur um of ræningjum og ofbeldismönnum með því kenna hátíðir, söfn og kraftakarla við víkinga? Kannski málar höfundur hér skrattann á vegginn en sennilega mundum við ekki kunna því vel að Alsírsbúar hreyktu sér af Tyrkjaráninu? Það voru ekki víkingar sem sigldu til Norður-Ameríku heldur fólk í leit að landi til að hefja búskap og stofna siðað samfélag.

Rúnasteinar

Rúnasteinar frá víkingatímanum.

Í húsagerð notuðu víkingar þann efnivið sem var í boði á hverjum stað. Á Íslandi voru hús byggð úr mold, torfi, grjóti og rekaviði. Sá viður sem þurfti í burðargrind húsa var innfluttur. Annars staðar þar sem skógar voru miklir, eins og í Noregi, voru húsin úr timbri en einnig voru byggð steinhús.
Elstu híbýli víkinga eru kölluð langhús. Það var eitt stórt rými sem síðan var oft hólfað niður í tvö eða fleiri herbergi. Á Norðurlöndunum og víðar voru sums staðar byggð önnur minni hús umhverfis aðalbygginuna sem voru þó aðskilin, þ.e. ekki tengd öðrum húsum. Á Íslandi þróaðist húsagerðin þannig að á 11. öld urðu húsin stærri og samsett úr nokkrum smærri húsum, svosem eldhúsi eða skála, stofu, salerni og búri, sem tengd voru saman gegnum skálann. Slíkir bæir hafa einnig fundist í Noregi.

Stöng

Stöng í Þjórsárdal.

Dæmi um slíkan bæ er Stöng í Þjórsárdal. Árið 1974, á 1100 ára afmæli byggðar á Íslandi, var reistur þjóðveldisbær í Þjórsárdal, með Stöng sem fyrirmynd, rétt hjá þeim stað þar sem upphaflegi bærinn stóð. Þar er hægt að sjá hvernig var umhorfs á heimilum víkinga.
Sú húsagerð sem landnámsmenn fluttu með sér til Íslands var óðum að víkja fyrir nýrri í þeirra gömlu heimabyggðum. Í Svíþjóð og Noregi voru svo kölluð stokkhús og bindingsverkshús óðum að ryðja sér til rúms en á Skotlandseyjum vann steinninn á. Þannig áttu Íslendingar eftir að skapa sér sína eigin húsagerð, torfbæinn, sem í raun átti sér ekki sinn líka í nágrannalöndunum en torfbærinn var í notkun hér á landi fram á 20. öld.

Stöng

Stöng endurgerð.

Elsta gerð híbýla hér á landi er svo kallað langhús, sem hafði einar eða tvennar dyr nærri gafli á framhlið. Á 11. öld stækkuðu húsin og urðu aðalhúsin þá þrjú; skáli eða eldhús, stofa og búr og var aðeins gengt úr skálanum í önnur hús. Gott dæmi um þennan stíl er Stöng í Þjórsárdal sem lagðist í eyði í Heklugosi árið 1104. Stöng var grafin upp árið 1939 en í tilefni 1100 ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1974 var reistur þjóðveldisbær í Þjórsárdal, með Stöng sem fyrirmynd.
Talið er að á 14. öld hafi skálabæir farið að víkja fyrir gangabæjum en sú breyting mun hafa orðið til þess að skapa hlýindi. Einkenni gangabæja voru göngin sem lágu frá bæjardyrunum, venjulega á miðjum langvegg og gegnum húsin og voru göngin nokkurs konar aðalgangvegur. Gröf í Öræfum, sem fór í eyði í Öræfagosi árið 1362, er elsta heimildin um gangabæ. Gangabæir héldust að mestu óbreyttir til um 1900. Á síðari hluta 18. aldar varð til nýr stíll torfbæja, burstabærinn, sem hafði það einkenni að gaflar bæjarhúsanna sneru fram að hlaði.
Torfbæirnir voru misjafnlega stórir en eins og í nú, fór stærð bæjanna eftir efnahag íbúanna. Þannig var torfbærinn að Skálholti í Biskupstungum um 1271 m² árið 1784 en í Litlagerði í Grýtubakkahreppi í S-Þingeyjarsýslu aðeins um 51 m² árið 1828. Hægt er að hugsa sér að bæirnir á ríkustu jörðunum hafi verið sannkallaðar hallir á íslenskan mælikvarða.

Víkingar

Víkingar.

Óvíða eru aðstæður til rannsókna á byggingasögu verri en á Íslandi. Ástæðuna má rekja til þess að hið íslenska byggingaefni hefur staðist tímans tönn mun verr en í mörgum öðrum löndum. Aðalbyggingarefni torfbæjanna frá upphafi og fram á 20. öld var mold, torf og grjót að utan en timbur til innansmíðar.
Fyrsta stigið við byggingu torfbæja var að hlaða veggi eða gera tóft. Grafa þurfti fyrir tóftinni en misjafnt virðist hafa verið hve djúpt var grafið. Þó segir í sumum heimildum að grafa eigi niður fyrir frost. Grjótið, sem notað var við að hlaða tóftina, var ótilhöggvið en efni þess og lag fór eftir nánasta umhverfi.
Stöng
Grjótið gat verið stórt eða smátt, grágrýti, blágrýti, hraungrýti eða sandsteinn, það gat verið slétt eða hrjúft, ólögulegt eða vel kanntað. Gott hleðslugrjót var góð eign enda var það notað aftur og aftur en torfbæirnir voru í raun í stöðugri enduruppbyggingu þar sem hver bær stóð ekki í lengi. Grjóthleðslan var undirstaða torfveggjanna sem hlaðnir voru ofan á. Torfveggjahleðsla var mun flóknari heldur en grjóthleðslan en bæði stein- og torfveggjahleðsla hefur lengi verið sérstakt fag hér á landi og var það falið mönnum sem kunnu til verka, einkum þó þegar byggja átti vönduð hús. Þó er líklegt að flestir laghentir karlmenn hafi kunnað veggjahleðslu.
Moldin var í raun aðalbyggingarefnið, hvort heldur um var að ræða torf- eða steinveggi. Moldinni var troðið þétt milli steins og torfs og gegndi því bæði hlutverki sem burðarás og einangrunarefni.

Víkingar

Skáli.

Torfið, sem notað var við bygginguna, var venjulega rist á vorin áður en grasið byrjaði að gróa á ný. Grasið var þá venjulega blautt í sér og því þurfti að þurrka torfið. Verkfærin, sem notuð voru við torfristuna, voru svokallaður torfljár og páll sem var eins konar skófla.
Þegar búið var að hlaða tóftina var hafist handa við að smíða grindina, sem m.a. hélt uppi þakinu. Í raun má segja að íslensk torfhús, einkum þau sem heldra fólk bjó í, hafi verið timburhús að innan en torfhús að utan. Líklegt er að meginhluti efnisins í innansmíðina hafi framan af öldum verið rekaviður.

Vikingar

Skáli.

Þó eru til heimildir um að menn hafi snemma keypt timbur frá Noregi og er líklegt að viður hafi verið fluttur inn til Íslands í einhverju mæli allar miðaldir og á einokunartímanum 1602-1787. Þrátt fyrir þennan timburinnflutning til landsins hefur skortur á viði til húsagerðar sett varanlegan svip á íslenska torfbæinn. Væntanlega hefur verið notað mismikið timbur í húsbyggingar eftir efnahag húsbyggjenda og eftir tímum. Þannig hafa menn stundum séð þjóðveldisöldina (930-1264) sem eins konar gullöld Íslendinga. Gott dæmi um það er Þjóðveldisbærinn í Þjórsárdal, sem áður er getið, en þar er vel viðað og hátt til lofts en bent hefur verið á að ólíklegt sé að í Þjórsárdal, sem liggur 70 km frá sjó, hafi verið kleift að byggja svo vel viðaðan bæ á 11. öld.

Vikingar

Skáli.

Á eftir grindarsmíðinni var hafist handa við þakgerðina. Yst var grastorf, því næst mold, þá þurrtorf og að lokum hella eða hrís sem var innsta lagið. Helluþökin voru að vonum mjög þung og því þurfti meira timbur en ella í grindina en þau höfðu þann kost að þau láku ekki. Í mörgum tóftum hafa fundist leifar helluþaka en lítið hefur fundist af leifum hrísþaka enda eyðast þau með tímanum. Gluggar voru á þekjunni til þess að hleypa inn birtu en gluggar voru m.a. gerðir úr líknarbelgjum húsdýra, eða fósturhimnum. Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar frá um 1750 segir að þær séu „svo tærar og gegnsæjar, að menn fá ekki séð úr nokkurri fjarlægð mun á þeim og loftinu.“
Gólfin í torfbæjunum voru moldargólf blönduð kolasalla en hellur voru þó yfirleitt lagðar í anddyri og á hlaði.

Víkingar

Víkingar á nýrri strönd.

Helstu vistarverur fólks voru þiljaðar en þegar líða tók á aldirnar virðist sem það hafi dottið upp fyrir, kannski vegna timburskorts. Líklegt er að á fyrstu öldum Íslandsbyggðar hafi veggir verið þiljaðir og á síðustu árum baðstofunnar á 19. og 20. öld.
Torfhúsin voru ekki endingargóð og voru því í stöðugri enduruppbyggingu. Svo virðist sem menn hafi verið misjafnlega færir í húsasmíðinni eftir landshlutum ef marka má Ferðabók Eggerts og Bjarna en þar segir m.a. að þó svo að Strandamenn séu góðir trésmiðir „þá eru þeir harla lélegir húsasmiðir, því að naumlega munu nokkurs staðar jafnilla hýstir bæir og á Ströndum, einkum norðan Trékyllisvíkur“.
Um verkfæri íslenskra smiða fram á 19. öld er lítið vitað en líklegt er að þau hafi verið svipuð og frænda okkar Norðmanna. Algengasta verkfæri smiða hefur verið öxin sem notuð var við frumvinnslu timbursins. Þá hafa svo kallaðar sköfur og skeflar verið algegnir en þeir voru e

ins konar undanfarar hefilsins. Smiðirnir notuðu bora sem þeir kölluðu nafra. Borinn hefur verið mikilvægt áhald hér á landi þar sem trénaglar voru notaðir fram á 17. öld en járnnaglar urðu ekki algengir fyrr en á 18. öld. Elsta heimild um notkun sagar hér á landi er frá 1470 en ekki er vitað hvenær hún kom til landsins. Þannig eru til heimildir um að þegar Brynjólfskirkja var reist um 1650 hafi stórviðarsög verið notuð við að saga viðinn í hana.
Norrænir menn á tímum víkinga borðuðu mikið lamba- og nautakjöt, einnig hrossakjöt, og voru þá langflestir hlutar dýrsins nýttir einsog menn þekkja sem borðað hafa þorramat.
Þeir neyttu einnig fisks, kornvara, mjólkurvara og eggja villifugla. Lítið var um grænmeti en sums staðar borðuðu menn ber og epli þar sem þau uxu. Bökuð voru brauð, menn borðuðu skyr og ósaltað smjör.

Hvalreki

Hvalreki fyrrum.

Matvæli eins og kjöt og fiskur voru gjarnan þurrkuð eða reykt. Ýmsar matvörur voru geymdar í mysu og var hún einnig drukkin sem svaladrykkur, þá oft þynnt með vatni.
Sjá má minjar víkinganna hér á landi. Þeir rændu t.d. fallegu kvenfólki og fluttu það til sinna heimahaga. Í dag ber íslenskt kvenfólk þess glöggt vitni. Þá eiga Norðurlandaþjóðirnar það sameiginlegt að spila í Víkingaóttói – „alltaf á miðvikudögum“.

Upplýsingar m.a. af Vísindavef Háskóla Íslands.

Víkingar

Víkingaskip í legu.