Tag Archive for: vísindarannsóknir

Fornleifar

Fornleifafræði er fræðigrein, sem fjallar um manninn út frá margvíslegum hliðum, t.a.m. út frá beinum (dýra- og manna), gripum (þ.m.t. byggingum), landslagi, ljósmyndum, kortum og öðrum skjölum. Helstu aðferðir fornleifafræðinga er fornleifaskráning og fornleifauppgröftur. Fornleifafræðingar fást við rannsóknir á ólíkum tímum, t.d. forsögulegum, miðöldum, og á minjum nútímasamfélaga.

Saga fornleifafræði á Íslandi fram til 1850

Ólafía Einarsdóttir

Ólafía Einarsdóttir (1924-2017). Margir hafa verið á þeirri skoðun, að dr. Ólafía Einarsdóttir hafi verið fyrsti íslenski fornleifafræðingurinn. Þess vegna er eitt af tímaritum fornleifafræðinga á Íslandi kallað Ólafía. Ólafía lauk gjaldgengu prófi í greininni. Hún stundaði nám í Lundúnum og í Lundi. Ekki gróf Ólafía þó mikið á Íslandi, og hvort það var karlremba í Kristjáni Eldjárn eða kvenremba í Ólafíu, þá var Ólafíu ekki stætt á Þjóðminjasafni Íslands, þar sem Kristján réði ríkjum. Ólafía meistraði í staðinn sagnfræðina og tímatal í fornbókmenntum og er ekki síðri fornleifafræðingur fyrir það. Ólafía er með vissu fyrsta íslenska konan sem varð fornleifafræðingur.

Á meginlandi Evrópu fór áhugi á fornminjum vaxandi samhliða hugmyndum um ríkisvald á 16. og 17. öld. Nýstofnuð ríki þurftu að geta sýnt fram á að ríkisbúar sínir ættu sameiginlega fortíð og upprunasögu; vegna þess beindist áhugi fólks að slíkum gripum og minjastöðum. Álíka var að gerast á Íslandi þar sem fornfræðingar heimsóttu merkilega sögustaði sem nefndir voru í Íslendingasögum.
Fyrsta heildarskráning fornleifa á Íslandi var á vegum dönsku fornleifanefndarinnar á árunum milli 1817 og 1823. Konungur Danmerkur sendi skipunarbréf árið 1807 um að skrá fornleifar í Danmörku og áttu skrásetjarar að vera sóknarprestur sem mundu skrifa ritgerð um fornleifar í sinni sókn. Prestar áttu að líta sérstaklega til staðbunda minja um fornsögur og elstu leifar stjórnvalds, t.d. dómhringi og þingstaði.

Fornleifaskráning

Litla-Botnssel

Litla-Botnssel við Hvalfjörð. Selsins er getið í örnefnalýsingu, en í fornleifaskráningu er staðsetningin óviss.

Fornleifaskráning er það að leita að minjum á afmörkuðu svæði, hvort sem það er á landi eða í sjó, til skráningar.

Bæði í jörðu og á sjó eru minjar sem hver kynslóð skilur eftir sig og eru þær heimildir um líf fólks. Í tímanna rás hefur það tekið breytingum hvað telst sem fornleifar. Framan af voru aðeins skráðar byggingar og gripir frá víkingaöld en færst hefur í vöxt að skrá minjastaði hvað sem líður aldri þeirra og fremur horft til rannsóknar eða táknrænt gildi þeirra, enda lýkur sögu ekki við ákveðið ártal, eins og 1900 e. Kr.

Skráning minjastaða

Brynjudalur

Brynjudalur – Þórunnarsel.

Fornleifaskráning felur í sér að leita að upplýsingum í rituðum heimildum, taka viðtöl við staðkunnuga og mæla upp minjar á vettvangi. Skipta má verklagi fornleifaskráningar í þrennt í samræmi við þrjú stig skipulagsvinnu:
Svæðisskráning: Í svæðisskráningu er upplýsingum safnað saman um staðsetningu og gerð minja úr rituðum heimildum. Skjöl eru til að mynda lesin og túnakort skoðuð. Úr þessu fæst grunnur að fjölda og dreifingu minja á tilteknu svæði. Það gefur möguleika á að finna staði sem þykja sérstaklega athyglisverðir til kynninga eða rannsókna og svæði sem eru í hættu. Þessu til viðbótar er svæðisskráning undirbúningur fyrir aðalskráningu.

Dyljáarsel

Í Dyljáarseli.

Aðalskráning: Á þessu stigi er farið út í mörkina og rætt við ábúendur eða aðrar manneskjur sem eru staðfróðar. Að svo búnu er farið af stað og leitað á svæðum sem sennilegt er að minjar leynist á. Þegar minjastaður er fundinn er hann skráður á staðlaðan hátt og lagt mat á ástand hans, hnattstaða fundin, staðurinn ljósmyndaður svo og uppdráttur teiknaður eftir því sem tilefni er til. Einnig er reynt að meta hvort staðurinn sé í hættu og þá af hvaða völdum.

Fiskaklettur

Fiskaklettur 2022 – fyrrum hluti af sögu Hafnarfjarðar; nú einangraður millum húsa.

Deiliskráning: Tilgangur deiliskráningar er að fá upplýsingar um minjastaði á (litlum) afmörkuðum svæðum. Verklag við deiliskráningu er álík og við aðalskráningu nema í deiliskráningu er gengið skipulega yfir allt svæðið og minjar mældar upp á nákvæmari hátt. Öðru hverju gæti verið nauðsynlegt að grafa könnunarskurð til þess að kanna aldur og hvort að um mannvirki sé ræða.

Minjavarsla

Dalurinn

Fjárskjólið í Dalnum – nú horfið vegna framkvæmda og áhugaleysis yfirvalda á varðveislu minja.

Fornleifaskráning er eitt mikilvægasta – ef ekki það mikilvægasta – verkefni fyrir minjavörslu hvers lands. Talið er að á Íslandi séu að minnsta kosti 130 þúsund fornleifastaðir en á ári hverju verður fjöldi þeirra fyrir eyðileggingu, til dæmis vegna byggingaframkvæmda, túnasléttunar eða sjávarrofs. Slík eyðilegging getur afmáð sögu sem aðrar heimildir eru fáorðaðar um. Fyrir þá sök er nauðsynlegt að vita hvar staðirnir séu og hvert ástand þeirra svo að hægt sé leggja mat á hvaða sögu samfélagið vill varðveita fyrir framtíðina.

Vísindarannsóknir

Krýsuvík

Krýsuvík neðan Baðstofu – fornleifar, nú horfnar vegna framkvæmda.

Fornleifaskráningar eru iðulega gerðar í tengslum við framkvæmdir, en skráning minjastaða getur að auki verið gerð í vísindalegum tilgangi (eða gögn framkvæmdaskráninga séu nýttar í rannsóknir). Markmið fornleifaskráninga í rannsóknarskyni er t.d. að finna minjastaði, kanna ævisögu landslags eða greina ákveðið mynstur minja. Allt er þetta gert í því skyni að svara ákveðnum spurningum. Þess konar rannsóknar geta verið allt frá því að rannsaka skipulagningu einstakra grafreita upp í feiknastór landsvæði. Með því að skrá form garðsins, staðsetningu minja innan hans og vísun þeirra í klassíska fornöld, þá sýndi rannsóknin fram á hvernig garðurinn var efnislegur vitnisburður sem voldugt tákn um samfélagslegt vald húsráðandans og hafði garðurinn mótandi áhrif á gesti og gangandi.

Viðey

Fornleifarannsóknir sýna að byggð var hafin í Viðey á 10. öld en árið 1225 var stofnað þar klaustur af reglu heilags Ágústínusar. Í meira en 300 ár var Viðeyjarklaustur mesta helgisetur í Sunnlendingafjórðungi af Skálholti frátöldu. Alþjóðleg hefð er fyrir því að klausturbyggingar myndi umgerð um klausturgarð. Túlka má rannsóknir á svæðinu á þann veg. Byggingar merktar A, B og C hafa verið grafnar upp og sýna langhús (stofu, skála og búr). Þar austur af er sennilega smiðjukofi (D). Aftur af langhúsinu eru lítið rannsökuð bakhús. Kirkjan (E) er tilgátuhús en fyrir myndir eru sóttar í kirkjur á Þingeyrum og á biskupsstólunum. Jarðsjármælingar sýna að fyrir framan Viðeyjarstofu og kirkju hafi verið byggingar, trúlega sjálf klausturhúsin (F), þau eru einnig tilgátuhús.

Í fornleifaskráningu í vísindaskyni eru samskonar verklagi beitt og í hefðbundinni fornleifaskráningu, einkum deiliskráningu. Tilgangurinn er að fá nákvæmar upplýsingar um minjastaðinn. Af þeim sökun er í fáeinum tilvikum notuð ýmis jarðsjátæki, til dæmis viðnámsmælir, til að skima eftir minjum undir jarðvegi. Í sumum tilvikum eru teknir könnunarskurði til þess að athuga hvort um mannvirki sé að ræða, vita aldur þess eða ná í sýni til efnagreiningar.

Hvað eru fornleifar?
Fornleifar eru það sem hefur orðið eftir frá gamalli tíð. Flest af því sem við höfum með höndum eyðist í tímans rás. Sumu er alls ekki ætlað að endast; við neytum matar og brennum kerti, föt endast sjaldan meira en í nokkur ár en aðrir hlutir geta enst í áratugi og jafnvel aldir, til dæmis hús og bækur.
Hlutir sem við notum mikið slitna, brotna og skemmast, sumt er hægt að endurnýta og gera við en fyrr eða síðar endar langflest af því sem við höfum í kringum okkur (oft með langri viðdvöl í kompu eða á háalofti) á öskuhaugum, þar sem því er annað hvort brennt eða það rotnar og eyðist smátt og smátt.

Öskuhaugur

Öskuhaugur í rannsókn.

Öskuhaugarnir sjálfir verða svo eyðingu að bráð; fyrir utan niðurbrot efnanna í jarðveginum geta þeir horfið vegna vind- og vatnsrofs, landbrots og framkvæmda og þess vegna getur verið mjög erfitt að finna nokkur einustu ummerki eftir fólk að nokkrum öldum eða árþúsundum liðnum.
Það sem varðveitist, annað hvort af því að því hefur verið haldið til haga, til dæmis handrit og listaverk, eða vegna þess að skilyrði í jarðvegi hafa verið góð, er því aðeins brot af því sem upphaflega var, en það brot getur gefið mikilvægar vísbendingar um þá tíma sem leifarnar eru frá. Það er vegna þess sem fornleifar eru rannsóknarefni sérstakrar fræðigreinar, fornleifafræði, en hún fæst við að finna fornleifar og túlka þær sem heimildir um liðna tíð.

Bárujárn

Fyrrum hús Brennisteinsfélagsins í Seltúni, elsta hús klætt bárujárni hér á landi, nú við Suðurgötu 10, Hafnarfirði.

Misjafnt er hvað hlutir þurfa að vera gamlir til að teljast fornleifar. Í íslenskum lögum er miðað við að allt sem er eldra en 100 ára teljist fornleifar en einnig þekkist að miðað sé við 500 ár eða allt sem er eldra en miðaldir (það er eldra en 1500 ára). Það er hins vegar ekki einber aldurinn sem gerir gamla hluti að fornleifum heldur fremur hvort þeir geta talist í einhverjum skilningi úreltir og hversu sjaldgæfir þeir eru. Við getum tekið sem dæmi að fáir myndi telja klaufhamar úr ryðfríu stáli sem framleiddur var árið 1927 til fornleifa. Slíkur hamar er eins og hamrar sem framleiddir eru í dag og hefur sama notagildi. 5 ¼ tommu tölvudiskur frá 1986 er hins vegar úrelt fyrirbæri sem erfitt er eða ómögulegt að nota lengur og við myndum því, í hálfkæringi að minnsta kosti, geta talað um sem fornleifar. Notagildið veldur því líka að hamrar geta auðveldlega orðið langlífir og sennilega leynast býsna gamlir hamrar víða í verkfærakistum en úreltir tölvudiskar eru hinsvegar orðnir mjög sjaldgæfir og þegar komnir á dagskrá hjá söfnum og áhugafólki um varðveislu gamalla hluta.

Kuml

Kuml.

Oft er gerður greinarmunur á hlutum sem hafa varðveist af því að passað hefur verið upp á þá, til dæmis kirkjuskrúð, handrit og gömul málverk, og hlutum sem varðveist hafa í jörðu. Jarðfundnum fornleifum má svo aftur skipta í tvennt eftir því hvort hlutirnir hafa verið skildir vísvitandi eftir undir mold, (einkum legstaðir manna og dýra, sumir með haugfé, og faldir fjársjóðir), eða hvort þeir eru úrgangur eða annað sem hefur verið hent eða skilið eftir (stundum óvart).
Þróunin innan fornleifafræðinnar hefur verið frá upphaflegri áherslu á að finna fagra gripi í átt að sífellt nákvæmari rannsóknum á úrgangi í víðasta skilningi. Þær rannsóknir beinast ekki eingöngu að rústum bygginga og gripum sem finnast í þeim og gömlum öskuhaugum, heldur einnig að dýrabeinum og öðrum matarleifum; ösku, gjalli og öðrum leifum eftir eldamennsku og iðnað; skordýra- og jurtaleifum og efnasamböndum sem geta gefið vísbendingar um lífshætti fólks til forna.

Fornleifar

Fornleifauppgröftur á bæjarstæði.

Fornleifafræðingar hafa þróað aðferðir til að setja saman mynd af horfnum samfélögum byggða á slíkum brotakenndum heimildum. Aðeins örlítill hluti af því sem var hefur varðveist og margt af því hefur varðveist fyrir eintóma tilviljun. Það er flókið mál draga skýrar ályktanir af slíkum efnivið en aðferðirnar sem hafa verið þróaðar til þess hafa einnig reynst vel til að rannsaka samtímann – það er ruslið sem við framleiðum og hvað það segir um okkur.
Allt rusl, gamalt og nýtt, er því viðfangsefni fornleifafræðinnar, en fornleifar má telja allt sem er nógu gamalt til að vera orðið úrelt og/eða sjaldgæft.

Hvaða aðferðir nota fornleifafræðingar við að tímasetja fornleifar?

Rúnasteinn

Rúnasteinn – sænskur.

Aðeins er hægt að tímasetja hluti sem bera læsilegar áletranir, nema eitthvað annað sé vitað um þá. Fyrir iðnbyltingu eru það einkum legsteinar og mynt sem bera áletranir. Tímasetningar slíkra áletrana eru sjaldnast ákveðin ártöl heldur til dæmis veldistími konunga eða annars konar tilvísanir í fólk eða atburði sem ritheimildir eru til um.
Áletranir eru mikilvægar en þær finnast aðeins á örlitlu brotabroti allra fornleifa og því hefur þurft að þróa sérstakar aðferðir til að aldursgreina fornleifar. Engin ein aðferð er til sem hægt er að beita á öll efni eða hluti undir öllum kringumstæðum heldur nota fornleifafræðingar yfirleitt margar aðferðir saman til að komast að niðurstöðu um aldur minjanna sem þeir rannsaka.
Þessar aðferðir má flokka í tvennt: annars vegar eru afstæðar tímasetningaraðferðir sem geta greint hvort tilteknar fornleifar eru eldri eða yngri en aðrar en ekki endilega hversu gamlar, og hins vegar algildar aðferðir sem gefa raunaldur hlutanna. Í fljótu bragði mætti ætla að síðarnefndu aðferðirnar væru augljóslega betri en þær eru ýmsum takmörkunum háðar og því liggja afstæðu aðferðirnar að mörgu leyti til grundvallar.
Afstæðar tímasetningaraðferðir

Christian Jörgensen

 Christian Thomsen (1788-1865).

Það var danski fornleifafræðingurinn Christian Thomsen (1788-1865) sem lagði grundvöllinn að flokkun fornleifa eftir aldri á fyrri hluta 19. aldar. Þá setti hann fram svokallaða þriggja alda kenningu. Hann hafði tekið eftir því að úr elstu jarðlögum komu eingöngu áhöld og gripir úr steini, en úr yngri lögum kæmu líka hlutir úr bronsi og úr enn yngri lögum gripir úr steini, bronsi og járni. Kenning hans var því sú að fyrst hefði verið steinöld, síðan bronsöld og síðast járnöld.
Þessi kenning liggur enn til grundvallar tímabilaskiptingu forsögunnar í Evrópu og Vestur Asíu en hún er fyrst og fremst mikilvæg fyrir það að með henni er hægt að raða hlutum í aldursröð eftir efni þeirra og fundarsamhengi. Elstu leirker finnast til dæmis iðulega í sömu lögum og pússuð steináhöld sem eru ólík slegnum steináhöldum í enn eldri lögum. Á þessari athugun byggir skipting steinaldarinnar í fornsteinöld og nýsteinöld og frá dögum Thomsens hafa fornleifafræðingar unnið sleitulaust að því að greina slík samhengi og skipta “öldunum” niður í æ styttri tímabil.

Leirker

Leirker eru afar sjaldgæfur fundur við fornleifarannsóknir frá landnámi og fram á 11 öld, tvö brot fundust í Vogum á Höfnum á Reykjanesi og þrjú brot við höfnina á Kolkuósi í Skagafirði.
Í öskuhaugnum í Firði hafa nú fundist yfir 20 brot sennilega öll af sama kerinu. Öskuhaugurinn er aldursgreindur frá 940-1100.

Þó að grófa flokkunin haldi fyrir heilar heimsálfur geta styttri tímabilin verið ólík frá einu landi eða svæði til annars en það helgast af því að skilgreining þeirra byggir á atriðum eins og tísku sem er oft staðbundin. Því má segja að efnin (steinn, kopar, brons, járn, en líka gler, stál, silki og gúmmí) gefi grófa rammann en tæknin (bæði aðferðir við að búa til hluti, til dæmis málmsteypa og postulínsgerð, og við að nýta þá, til dæmis plæging og tedrykkja) og tískan hjálpa til við að tímasetja með meiri nákvæmni. Tíska er lykilatriði í þessu, því að margir hlutir (einkum skartgripir og allskonar skreyti og munstur) geta breyst hratt og því meiri sem breytileikinn er þeim mun styttri eru tímabilin og þeim mun nákvæmar hægt að tímasetja. Það eru ekki bara manngerðir gripir sem fornleifafræðingar líta til í þessu samhengi heldur líka atriði eins og villt dýr í umhverfi bólstaða, hvaða jurtir eru ræktaðar, húsdýrahald og margskonar aðrar vísbendingar um líf og störf mannanna sem taka breytingum með tímanum.

Gjóskusnið

Unnið við að sniðgreina gjóskulög í jarðvegssniði.

Allt þetta byggir á því einfalda en mikilvæga lögmáli að afstaða jarðlaga og mannvistarlaga segir til um aldur þeirra: lagið sem er undir er eldra en það sem er ofan á. Ef gripasafn úr eldra lagi er til dæmis með ákveðna tegund af leirkerjum en það yngra ekki þá getur verið að sú tegund hafi fallið úr tísku, og ef sú breyting sést á mörgum stöðum má hafa þá breytingu sem aldursviðmiðun. Hún segir okkur hinsvegar ekki hvenær þessi leirker hættu að vera í tísku.
Fram um miðja 20. öld áttu fornleifafræðingar í erfiðleikum með að tengja tímabilin sín við rauntíma. Eina aðferðin var að nota gripi með áletrunum sem hægt var að tengja við sögulega atburði og einstaklinga en sú aðferð kemur aðeins að gagni eftir að ritmál var fundið upp, fyrir um 5000 árum síðan í gamla heiminum, en allt sem var eldra en það var erfitt eða ómögulegt að tengja við rauntíma. Þetta breyttist eftir 1950 með tilkomu aldursgreiningar með geislakoli en hún hefur valdið byltingu í tímasetningum í fornleifafræði.

Algildar tímasetningaraðferðir

C-14

C-14.

Áletrun getur gefið algilda tímasetningu, til dæmis má yfirleitt treysta því að mynt með nafni kalífa eða konungs sé frá veldistíma hans, en sú tímasetning segir bara til um aldur myntarinnar. Aðrir gripir sem finnast í sama lagi geta ekki hafa lent þar fyrr en eftir að myntin var slegin, en þeir geta annaðhvort verið eldri en hún (það er þeir voru gamlir þegar þeir lentu í laginu) eða miklu yngri (myntin var gömul þegar hún lenti í laginu).
Sú algilda tímasetningaraðferð sem mest áhrif hefur haft og mestu máli skiptir í fornleifafræði nútímans er hins vegar geislakolsaldursgreining, líka þekkt sem kolefnisaldursgreining eða C14. Þessi aðferð byggist á því að þrjár samsætur kolefnis (C) eru í andrúmsloftinu og hlutfallið á milli þeirra er stöðugt. Sama hlutfall er svo í öllum lífverum. Ein af þessum samsætum, C14, er geislavirk sem þýðir að hún er óstöðug og breytist í stöðugu samsætuna N14. Það sem skiptir máli fyrir tímasetningar er að geislavirk efni eyðast með stöðugum og ákveðnum helmingunartíma sem er hægt að ákvarða með mælingum í rannsóknastofu.

C-14

C-14.

Helmingunartími C14 er 5730 ár og með þessu má aldursgreina allar lífrænar leifar aftur til um 40.000 ára. Fara má nærri um raunaldur jarðlags með því að tímasetja hluti eins og fræ og dýrabein sem sjaldnast eru meira en nokkurra ára þegar þau lenda undir torfu, en aðalkosturinn við þessa aðferð er að hún er sjálfstæð, óháð bæði ritheimildum og flokkunarkerfum forngripa; og að henni má beita á öll lífræn efni, meðal annars þau sem lent hafa í eldi og kolast en kolaðar leifar geta varðveist þar sem varðveisluskilyrði eru að öðru leyti slæm fyrir lífrænar leifar.
Með þessu er ekki allur vandi leystur; ýmis vandamál eru við meðferð og túlkun geislakolsaldursgreininga, og aðferðin nær ekki til eldra skeiðs fornsteinaldar, langlengsta tímabils mannkynssögunnar (nærri 2 milljónir ára). Aðrar aðferðir sem einnig byggjast á stöðugri eyðingu geislavirkra efna (til dæmis úrans og kalín-argons) eru þó til og má nota þær á eldri hluti, fyrst og fremst berg.
Margar aðrar aðferðir eru til en þær eiga allar sammerkt að vera annað hvort staðbundnar (eins og gjóskulagatímatalið sem íslenskir fornleifafræðingar styðjast mikið við) eða að aðeins er hægt að beita þeim á sérstök efni. Þar á meðal er trjáhringaaldursgreining sem er nákvæmasta tímasetningaraðferð sem til er en henni er aðeins hægt að beita á sæmilega stóra búta úr tilteknum trjátegundum (til dæmis eik en ekki birki, enn sem komið er að minnsta kosti).

Kléberg

Kléberg í Glúfurgili í Esju.

Þegar fornleifafræðingur stendur frammi fyrir því að tímasetja fornleifar byrjar hann yfirleitt á því að reyna að staðsetja sig gróflega í tíma út frá efnum og gerð gripanna. Hér á Íslandi myndum við til dæmis næsta hiklaust telja að safn sem innihéldi svínabein, glerperlur og kléberg væri frá víkingaöld en að safn með leirkerjum og glerbrotum væri frá 17. öld eða yngra, og það þó að söfnin væru að uppistöðu hlutir úr járni og steini sem væru í aðalatriðum eins í báðum. Til þess að fá nákvæmari tímasetningu myndum við svo líta til gjóskulaga, en það getur verið háð aðstæðum hvort til staðar eru gjóskulög sem hægt er að nota sem tímatalsviðmið. Jafnframt myndum við láta gera geislakolsaldursgreiningar á völdum hlutum. Í öðrum löndum er samsetning aðferðanna oftast önnur en alls staðar á það við að efni og gerð hlutanna gefa rammann, en síðan beita menn öðrum aðferðum eftir efnum og aðstæðum, og oftast er geislakolsaldursgreining þar á meðal.

Hvar hafa leifar um víkinga varðveist?

Víkingar

Víkingur.

Þegar fjallað er um leifar eftir víkinga þarf fyrst að ákveða hvað við er átt með hugtakinu víkingur. Í íslenskum miðaldaritum hefur orðið alltaf þrönga merkingu, það þýðir „sæfari, sjóræningi“ og er fyrst og fremst notað um norræna menn þó að merkingin virðist ekki endilega bundin þjóðerni. „Víkingur“ er með öðrum orðum starfsheiti en fyrir löngu hefur skapast sú hefð að nota það sérstaklega um þá norrænu menn sem tóku að ræna, rupla, versla og berjast til landa í Norður-Evrópu á níundu og tíundu öld e. Kr.

Þetta tímabil er oft nefnt víkingaöldin og látið ná frá 793/800 til 1050/1066/1100 e. Kr. Það einkenndist í fyrstu af ránsferðum og strandhöggi norrænna manna við Eystrasalt, á Bretlandseyjum og í strandhéruðum Norður-Evrópu, en fljótlega einnig skipulegum hernaði og landvinningum sem leiddu til þess að þeir settust að í norðurhluta Englands, í borgum eins og Dublin (Dyflinni) á Írlandi, í Normandí í Frakklandi og á svæðinu í kringum Starja Ladoga (Aldeigjuvatn) í Rússlandi.

Víkingar

Víkingar.

Lítið er vitað um hversu stórar byggðir norrænna manna voru á þessum stöðum og víst að þeir samlöguðust fljótt þeim þjóðum sem þar voru fyrir.
Á sama tíma fundu norrænir menn áður óbyggð lönd í Norður-Atlantshafi – Færeyjar, Ísland og seinna Grænland – þar sem þeir settust að. Þeir settust líka að á svæðum sem lengi höfðu verið byggð í Skotlandi: á Hjaltlandi, Orkneyjum, Suðureyjum, Katanesi og einnig á eynni Mön í Írlandshafi. Öfugt við hinar norrænu byggðir í Englandi, Frakklandi og Rússlandi náðu norrænir menn algerum menningarlegum og pólitískum undirtökum á þessum svæðum og var til dæmis talað norrænt mál á Hjaltlandi og Orkneyjum fram yfir siðaskipti.
Vegna þess hve víkingaöldin er litríkt tímabil í sögunni og hve ránsferðir og hernaður norrænna manna skipti miklu fyrir þróun efnahags og stjórnkerfis í Norður Evrópu á þessu tímabili hefur hugtakið „víkingar“ fengið merkinguna „allir norrænir menn á víkingaöld“ í hugum margra.

Víkingur

Íslenskur víkingur á alþingishátíðinni 1930.

Þetta á einkum við um enskumælandi þjóðir en frá sjónarmiði íbúa Bretlandseyja voru sjóræningjar frá Norðurlöndum og norrænir menn almennt einn og sami hópurinn. Af þeim sökum er hugtakið „Viking“ á ensku mjög oft notað sem samheiti fyrir Norðurlandabúa á víkingaöld, friðsamt fólk jafnt sem atvinnusjóræningja. Á Norðurlöndum hefur hinsvegar tíðkast að gera greinarmun á þeim tiltölulega litla hópi sem lagðist í víking og hinum sem heima sátu eða námu óbyggð lönd í úthöfum til að búa þar í friði og spekt. Landnemar á Hjaltlandi og Íslandi voru því ekki víkingar – í mesta lagi fyrrverandi víkingar – samkvæmt íslenskum málskilningi.
Annað starfsheiti frá sama tíma sem einnig hefur fengið merkingu þjóðernis er „væringjar“ en það hugtak var upphaflega notað eingöngu um Norður-Evrópumenn sem mynduðu lífvarðasveit keisarans í Miklagarði (nú Istanbúl). Í henni voru alls ekki bara norrænir menn, heldur líka Engilsaxar og Þjóðverjar, en hugtakið er samt oft notað almennt um norræna menn sem versluðu, rændu og settust að í austurvegi, það er við austanvert Eystrasalt og í Rússlandi.
Leifar sem varðveist hafa eftir víkinga og væringja, það er norræna sjóræningja, kaupmenn og hermenn á 9.-11. öld e. Kr., eru ekki miklar. Það sem vitað er um þetta fólk er mest úr írskum, enskum, þýskum, frönskum og grískum annálum og sagnaritum frá þessu tímabili. Nokkrir rúnasteinar, flestir frá 11. öld og í Svíþjóð, geta einnig um ferðir nafngreindra manna í austur- og vesturvíking. Yngri heimildir, til dæmis íslenskar fornsögur, eru miklu meiri að vöxtum en ekki að sama skapi áreiðanlegar.

Þórshamar

Þórshamar eftir uppgröft.

Á sumum svæðum þar sem norrænir menn settust að, til dæmis í Englandi og Normandí, eru örnefni helstu heimildirnar um þá. Það eru bæði nöfn sem norrænir menn hafa gefið bólstöðum sínum og nöfn sem innfæddir hafa gefið stöðum sem tengdust norrænum mönnum með einhverjum hætti. Í Englandi og í Rússlandi hafa einnig fundist nokkur kuml, heiðnar grafir með haugfé, sem greinilega eru norræn. Mun erfiðara hefur verið að bera kennsl á byggingar norrænna manna á þessum svæðum og virðast þeir hafa samið sig mjög fljótt að siðum innfæddra.
Í Englandi og á Írlandi hafa verið gerðir umfangsmiklir uppgreftir í bæjum sem norrænir menn réðu á víkingaöld. Stærstu og frægustu uppgreftirnir eru í York (Jórvík) á Englandi og Dublin á Írlandi. Leifarnar sem hafa fundist á þessum stöðum eru ekkert sérstaklega norrænar – þær skera sig lítið sem ekkert frá leifum úr öðrum bæjum í Norður-Evrópu á sama tíma sem tengjast norrænum mönnum minna (til dæmis Dorestad í Hollandi, Hamwic á Englandi og Novgorod í Rússlandi). Hins vegar er vitað að York og Dublin voru undir stjórn norrænna manna, einkum á 10. öld, og að uppgangur þeirra tengist verslun á vegum víkinga.

Fornleifar

Munir uppgötvaðir eftir fornleifagröft.

Það á líka við um bæi sem urðu til á Norðurlöndum á víkingaöld, til dæmis Ribe og Hedeby í Danmörku, Birka í Svíþjóð og Kaupang í Noregi, en við uppgrefti á þessum stöðum hefur fundist ýmiskonar varningur sem ber verslunarsamböndum víkinga vitni. Norðurevrópskir og arabískir peningar frá víkingaöld hafa fundist í þúsundatali á Norðurlöndum, ekki síst á Gotlandi, og eru þeir mjög mikilvæg heimild um verslunarsambönd á þessum tíma.
Á Norðurlöndum hafa menn einnig talið sig geta bent á gripi, yfirleitt úr kumlum, sem gætu verið afrakstur ránsferða utan Norðurlandanna. Það eru til dæmis kirkjugripir og skraut af bókum sem ætla má að hafi verið rænt úr kirkjum eða klaustrum. Slíkir fundir eru þó fáir.

Fornleifar

Gripur endurheimtur eftir fornleifauppgröft. Hér verður vitleysunni í kringum klaustursrannsóknir ekki gerð séstök skil.

Miklu sjaldgæfara er að menn hafi talið sig finna ummerki um víkinga utan Norðurlanda (það er önnur en örnefni og ótvíræð kuml). Gripir sem eru klárlega norrænir, eins og til dæmis kúptar nælur sem voru hluti kvenbúnings og norræn mynt, hafa mjög litla útbreiðslu utan Norðurlanda. Sérstæðar leifar eftir norræna menn eru til dæmis rúnarista á styttu af ljóni sem nú er í Feneyjum en var upphaflega í Aþenu, og önnur sem Hálfdan nokkur risti í Hagiu Sofiu, kirkju í Istanbúl.

Mjög mikilvægar leifar sem tengjast víkingum eru skip sem fundist hafa, bæði í grafhaugum (til dæmis Ásubergs- og Gauksstaðaskipin í Noregi) og á hafsbotni (til dæmis fjölmörg í Hróarskeldufirði í Danmörku). Skipin voru tæknileg forsenda fyrir víkingaferðunum og landnámi norrænna manna í Norður-Atlantshafi.

Ásubergsskipið

Ásubergsskipið.

Þau eru flest geymd og mörg höfð til sýnis í víkingaskipasöfnunum í Osló og Hróarskeldu (Roskilde).
Leifar eftir norræna menn á víkingaöld er því fyrst og fremst að finna á Norðurlöndum, og eru gripirnir yfirleitt varðveittir á söfnum, bæði þjóðminjasöfnum viðkomandi lands og hérðassöfnum. Í Noregi er hægt að skoða aðfangaskrár forngripasafnanna á dokpro.uio.no.
Sama gildir um gripi sem hafa fundist utan Norðurlanda. Þeir eru flestir varðveittir á þjóðminjasöfnum (til dæmis Skotlands, Bretlands og Írlands) eða á héraðsminjasöfnum. Á svæðum þar sem norrænir menn settust að má víða skoða uppgrafnar byggingar (til dæmis á Jarlshof á Hjaltlandi), tilgátuhús (til dæmis á Borg í Lófóten) og sýningar (til dæmis í York).

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Fornleifafr%C3%A6%C3%B0i
-https://is.wikipedia.org/wiki/Fornleifaskr%C3%A1ning
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=28898
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=50983
-https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4377

Þjóðminjasafnið

Þjóðminjasafnið.