Tag Archive for: vistheimili

Jaðar

Í Skýrslu nefndar um „Könnun á starfsemi vistheimilisins Silungapolls 1950-1969, vistheimilisins Reykjahlíðar 1956-1972, og heimavistarskólans að Jaðri 1946-1973″, þann 31. ágúst 2010 má lesa eftirfarandi um heimavistaskólann að Jaðri:

Jónas B. Jónsson

Jónas B. Jónsson.

„Reykjavíkurbær hóf starfsemi heimavistarskóla að Jaðri í Elliðavatnslandi hinn 5. febrúar 1946. Þingstúka Reykjavíkur hafði þá nýlega lokið við byggingu sumardvalar- og félagsheimilis að Jaðri og leigði Reykjavíkurbær húsnæðið yfir vetrarmánuðina. Á tíu ára starfsafmæli skólans árið 1956 hélt fræðslufulltrúi Reykjavíkur, Jónas B. Jónsson, ræðu þar sem hann lýsti aðdraganda stofnunarinnar og hver aðkoma fræðslufulltrúaembættisins hefði verið: „Haustið 1943 er ég tók við núverandi starfi mínu, var eitt fyrsta verk mitt að gera spjaldskrá yfir alla skólaskylda nemendur í barnaskólum bæjarins. Mér þótti sýnt, að þá fyrst væri hægt að sjá hvað væri af nemendum, sem þyrftu sérstakrar umönnunar við, hverjir sæktu illa skóla og hverjir kæmu alls ekki í skóla. Þegar þessi spjaldskrá var fullgerð og skólasókn barna var könnuð, kom í ljós, að allmargir drengir sóttu ekki skóla og aðrir mjög illa. Nánari eftirgrennslan hjá skólunum svo og hjá lögreglunni og barnaverndarnefnd sýndi að þeir drengir sem iðkuðu útigang og lausung á kvöldin komu ekki í skóla, þeir voru hnuplsamir, þeir reyktu og höfðu oftsinnis komist í kast við lögregluna. Um þetta gerði ég allítarlega skýrslu og sendi bæjarráði.“
Skýrsla fræðslufulltrúa sem minnst var á hér að ofan var send bæjarráði í janúar 1944 og þar var bent á að fyrir afbrotadrengi þyrfti að setja á stofn „nokkurs konar heimavistarskóla, helzt á einangruðum stað […] sem hafi sterk uppeldisleg áhrif, sem kenni drengjunum til munns og handa, skapi þeim verkefni, góða aðbúð og vellíðan […]“.

Jaðar

Jaðar á frumbýlisárinu.

Bæjarráð vísaði málinu til bæjarstjórnar og á fundi í febrúar 1944 samþykkti bæjarstjórn að stofna heimavistarskóla í nágrenni bæjarins fyrir þau börn á skólaskyldualdri, sem heimilin hafa ekki hemil á að dómi fræðslufulltrúa og barnaverndarnefndar.“ Fræðslufulltrúa var falið að vinna að athugun málsins og vorið 1944 kom hann með tillögu um að finna skólanum stað í Öxney á Breiðafirði. Tekið var vel í tillöguna í bæjarstjórn en ekkert varð þó úr því að heimavistarskólinn yrði stofnaður þar eða á annarri jörð í sveit.

Jaðar

Jaðar.

Í lok maí 1945 barst bæjarráði Reykjavíkur bréf frá formanni og ritara Landnáms Templara að Jaðri en svo nefndist stjórnin í Þingstúku Reykjavíkur sem fór með málefni Jaðars. Í bréfinu sagði: „Á síðastliðnu ári skoðaði Barnaverndarnefnd og fræðslufulltrúi Reykjavíkur, byggingu þá er við höfðum í smíðum að Jaðri, með tilliti til þess að bærinn tæki hana á leigu í sína þágu, þann tíma árs er við rekum ekki þar okkar eigin starfsemi. Mæltist Barnaverndarnefnd til þess að fá að sitja fyrir, ef húsið yrði leigt til afnota yfir vetrarmánuðina. Með tilvísun til þessa og með því að sýnt er að húsið verður fullgert innan skamms, leyfum við okkur að bjóða bæjarráði húsið til leigu. […] Við erum reiðubúnir til að leigja húsið 8-9 mánuði ársins fyrir sanngjarnt verð“.

Jaðar

Jaðar.

Bæjarráð óskaði eftir áliti barnaverndarnefndar Reykjavíkur og á fundi nefndarinnar hinn 1. júní 1945 var samþykkt að mæla með því að Reykjavíkurbær tæki tilboði Þingstúku Reykjavíkur um að leigja húsið að Jaðri fyrir heimavistarskóla. Á fundi bæjarstjórnar hinn 16. ágúst 1945 samþykkti bæjarstjórnin að heimila bæjarráði að leigja húsið að Jaðri og var fræðslufulltrúa falið, „í samráði við skólanefndir og borgarstjóra að annast rekstur skólans.“ Í janúar 1946 ritaði fræðslufulltrúi Reykjavíkur bréf til fræðslumálastjóra og tilkynnti um fyrirhugaða starfsemi á Jaðri: „Heimavistarskólinn á að vera fyrir skólaskyld börn, sem eiga ekki samleið með öðrum börnum í barnaskólum bæjarins. Tekin verða í fyrstu 10-16 börn, en síðan 24. Skólinn er aðallega ætlaður fyrir drengi.“

Jaðar

Jaðar.

Fyrstu önnina sem skólinn starfaði, vorið 1946, voru 14 nemendur og veturinn 1946-1947 voru nemendur 20. Næstu þrjá veturna voru 22-23 nemendur í skólanum og á sjötta og sjöunda áratuginum voru oftast á bilinu 25-30 nemendur sem dvöldu á Jaðri hvern vetur en nánar er fjallað um aldursskiptingu og námstíma nemenda á Jaðri í kafla 3.2 hér síðar. Fræðsluskrifstofa Reykjavíkur hafði umsjón með því að ákveða hvaða drengir færu á Jaðar en þó í samráði við nokkra aðila, svo sem skólastjóra í viðkomandi barnaskólum, skólastjóra Jaðars og í sumum tilvikum barnaverndarnefnd Reykjavíkur. Frá og með hausti 1961 fór Sálfræðideild skóla með það hlutverk að rannsaka þá drengi sem sótt var um vist fyrir á Jaðri og mæla síðan með því við skólastjóra Jaðars hverjir fengju vist.

Jaðar

Jaðar.

Fyrstu veturna starfaði heimavistarskólinn að Jaðri frá október og fram í maí en starfstíminn var lengdur skólaárið 1951-1952. Eftir það hófst kennsla um miðjan september og henni var lokið um miðjan maí. Stundaskráin var þétt skipuð alla daga með kennslu, útivist, heimanámi og kvöldvökum. Í skýrslu til fræðslufulltrúa Reykjavíkur vorið 1946 lýsti þáverandi skólastjóri, Loftur Guðmundsson, fyrirkomulaginu á eftirfarandi hátt: „Í skólastofu fór venjulega fram kennsla í 4-5 stundir á degi hverjum, en auk þess fylgdist skólastjóri með námsstarfi nemenda, er þeir voru komnir til herbergja sinna á kvöldin, og veitti þeim þá aðstoð eftir föngum. […] Hvað kennslu viðvíkur, var aðaláhersla lögð á lestrar-, reiknings- og skriftarnám. […] Ef til vill má þó segja, að mest áhersla hafi verið lögð á að bæta framferði barnanna og hegðun, og venja þau við að hlýta [sic] sanngjörnum aga“.

Jaðar

Jaðar.

Þegar Björgvin Magnússon tók við skólastjórn árið 1955 var nemendum skipt upp í tvær deildir, yngri og eldri deild. Í yngri deildinni voru ólæsir nemendur en í eldri deildinni hinir læsu. Björgvin gerði grein fyrir skiptingunni og daglegum störfum í skólaskýrslu fyrir veturinn 1959-1960: „Námið í vetur gekk annars vel, og varð árangur sæmilegur, í sumum tilfellum ágætur, þótt við erfiðar aðstæður sé við að etja, sem aðallega stafa af mismunandi aldri drengjanna. Aðeins er hægt að skipta í tvær deildir. Eru þeir læsu í annarri, en þeir ólæsu í hinni. – Áður en haldið er lengra vildi ég með fáum orðum lýsa dagskránni hjá okkur, hvernig dagurinn skiptist milli náms, leikja o.fl. Kl. 8 er vakið. Drengirnir klæða sig, þvo og snyrta, síðan er tekið til í herbergjunum. Að því búnu er farið í morgunverð. Þrisvar í viku er morgunleikfimi. Kl. 9-12 er kennsla. Kl. 12 miðdegisverður. Kl. 1-3 er útivist, þá eru drengjunum kenndir leikir ýmiss konar o.s.frv. Kl. 3:30 er drykkja. Kl. 4-6 er svo nám. Kl. 6:30 kvöldverður, kl. 7-8 nám aðallega lesið undir næsta dag. Kl. 8-9:30 eru svo leikir, framhaldssögulestur, kvikmyndasýningar og skátakvöldvökur. Kl. 10 kyrrð“.

Jaðar

Jaðar.

Á starfstíma Jaðars voru lagðar fram nokkrar tillögur um breyttar áherslur í starfsemi skólans. Fyrstu hugmyndirnar í þá veru komu frá Jónasi B. Jónssyni fræðslufulltrúa Reykjavíkur þegar árið 1950. Það ár rann út leigusamningur Reykjavíkurbæjar við Þingstúku Reykjavíkur og af því tilefni ritaði Jónas bréf til borgarstjóra og lagði til að starfsemin yrði færð að Laugarási í Biskupstungum: „Húsakynni þar [að Jaðri] hafa verið hin prýðilegustu, en aðstaða til starfa slæm. Það hefur því vart verið hægt að beina orku drengjanna til jákvæðra starfa, heldur hefur starf kennara mest megnis orðið kennsla og gæzla. Hefur því oftsinnis komið óyndi í drengina og þeir strokið í bæinn, enda hægt um vik sökum nálægðar og góðra samgangna. […] Segja má, að skilyrðifyrir heimavistarskóla [að Laugarási í Biskupstungum] fyrir þá drengi, sem áður hefur verið minnst á, séu þarna góð. Þarna má hafa fjölþætt starf, alls konar ræktun, alifuglarækt o.fl. Fjarlægðin frá bænum stuðlar að því, að umsjón með drengjunum verður minni og þeir því eðlilega óþvingaðri. Drengirnir geta fengið útrás fyrir orku sína við eðlileg og gagnleg störf“.

Jaðar.

Jaðar.

Hér enduróma upprunalegu hugmyndir fræðslufulltrúans um að best færi á því að heimavistarskóli á borð við Jaðar væri staðsettur í sveit þar sem drengjunum væri bæði kennt „til munns og handa […]“. Bæjarráð samþykkti á fundi í maí 1950 að fela fræðslufulltrúa að „leita samninga um framlengingu á leigumála um Jaðar, eða leigu á öðrum stað fyrir skólastarfið, sem til þessa hefir verið á Jaðri.“ Ekkert varð þó af fyrirhuguðum flutningi starfseminnar og leigusamningur um Jaðar var framlengdur síðar á árinu 1950.241 Vorið 1951 sendi Bragi Magnússon þáverandi skólastjóri á Jaðri skýrslu til fræðslufulltrúa um þá drengi sem verið höfðu í skólanum undangenginn vetur. Í niðurlagi skýrslunnar lét skólastjórinn það álit sitt í ljós að skóli sem Jaðar ætti ekki aðeins að starfa veturlangt heldur allt árið um kring þar sem margir nemendur hefðu ekki í góð hús að venda þegar skólastarfi lyki að vori. Mæltist hann því til þess að tilraun yrði gerð með sumardvöl fyrir drengi af Jaðri í heimavist Laugarnesskólans. Fræðslufulltrúi tók vel í tilmæli skólastjóra og kannaði möguleikana á því að hafa sumardvöl í heimavist Laugarnesskóla en þetta komst þó aldrei í framkvæmd.

Jaðar

Jaðar.

Fræðslufulltrúi Reykjavíkur ítrekaði þörfina fyrir heilsársstarfsemi á Jaðri í greinargerð um barnaheimili á vegum Reykjavíkurbæjar árið 1956. Þar sem skilyrði á Jaðri „til atvinnu og starfa [voru] nálega engin […]“ lagði fræðslufulltrúinn til að nýbyggingar fyrir barnaheimili og heimavistarskóla yrðu reistar „á kyrrlátum stað utan bæjar, þar sem landrými er nóg og staðhættir góðir.“ Barnaheimilanefnd tók undir þetta sjónarmið í tillögum sínum til borgarstjóra árið 1957 og þar var gert ráð fyrir tveimur heimavistarskólum fyrir 25 drengi hvor og einum fyrir 25 stúlkur sem starfa skyldu allt árið.

Jaðar

Á Jaðri.

Sumarið 1961 skrifuðu Jónas Pálsson forstöðumaður Sálfræðideildar skóla og Símon Jóh. Ágústsson prófessor álitsgerð um vistheimili og barnaverndarmál í Reykjavík. Gerðu þeir athugasemd við það að í stað þess að á Jaðri „dveldust drengir, sem vanrækja nám og skólasókn […]“, eins og upphaflega var ætlast til, væri reyndin sú að „aðalástæðan til vistunar allmargra drengja þar [væru] vondar heimilisástæður, sem jafnframt hafa þá truflað nám þeirra.“ Töldu þeir æskilegt að Jaðri yrði ætlað skýrar afmarkað hlutverk og þar vistaðir drengir sem vanræktu nám og skóla og væru haldnir áberandi hegðunarvandkvæðum í skóla. Einnig var gagnrýnt í álitsgerðinni að allmargir nemendur dveldu þar í 3-4 vetur og var lagt til að dvalartíminn yrði yfirleitt eitt skólaár og að enginn dveldi þar lengur en tvö skólaár. Að lokum var lagt til að nemendur yrðu ekki teknir í skólann „nema á undan hafi farið athugun sérfræðinga á þeim, og sálfræðingur sé til ráðuneytis um rekstur skólans, sitji t.d. fundi með skólastjóra og starfsfólki tvisvar í mánuði“.

Jaðar

Jaðar.

Sálfræðideild skóla tók við síðastnefnda hlutverkinu en hún hafði verið sett á laggirnar árið 1960. Björgvin Magnússon skólastjóri á Jaðri gat þessa í skólaskýrslu fyrir skólaárið 1961-1962: „Í vetur varð sú breyting á hér í sambandi við skólann, að allir drengir, sem hingað koma, eru rannsakaðir og prófaðir af Sálfræðideild skóla, og hefur nú deildin ásamt fræðsluskrifstofunni ákvörðun um, hverjir eru sendir hingað í skólann. Forstöðumaður deildarinnar, Jónas Pálsson, sálfræðingur, kom svo hingað einu sinni í viku og hélt fund með kennurum og húsmóður skólans“.
Í nóvember 1962 settu Jónas B. Jónsson fræðslustjóri Reykjavíkur og Jónas Pálsson forstöðumaður Sálfræðideildar skóla fram tillögur varðandi vistheimili og ráðstafanir vegna barna sem gátu ekki dvalist á heimilum sínum. Þar áréttuðu þeir að afmarka þyrfti hlutverk Jaðars skýrar: „Að því er stefnt, að heimavistarskólinn á Jaðri gegni því aðalhlutverki enn frekar en nú er, að vera heimili til enduruppeldis og sérstakrar meðferðar (milieu-behandling) á börnum, sem eru taugaveikluð; sýna hegðunarvandkvæði eða eru afbrigðileg að öðru leyti, en þó innan „normal“ marka að greindarþroska. Skróp, uppeldisvandræði og taugaveiklun eiga sér afar oft sameiginlegar rætur í lélegri heimilisaðstöðu barnsins, enda þótt um mörg þessara afbrigðilegu barna verði ekki sagt, að heimili þeirra í efnahagslegu né félagslegu tilliti séu léleg“.

Jaðar

Jaðar.

Af minnisblaði sem Jónas Pálsson forstöðumaður Sálfræðideildar skóla ritaði árið 1967 má ráða að ekki hafi fyllilega gengið eftir að afmarka hlutverk Jaðars skýrar eins og lagt var til í álitsgerðinni árið 1961 og tillögunum frá árinu 1962. Í minnisblaðinu kom fram að ákvörðun um ráðstöfun drengja á Jaðar byggðist að „langmestu leyti á félagslegri og uppeldislegri aðstöðu barnanna, þ.e. hve þörf þeirra [væri] brýn fyrir bætta heimilis- og uppeldisaðstöðu.“ Af þessu leiddi að heimavistarskólinn að Jaðri gegndi fyrst og fremst hlutverki vistheimilis en ekki „hlutverki meðferðastofnana (milieubehandling hjem eða observationskole) nema að takmörkuðu leyti, enda [væru] engar beinar heimildir í lögum eða reglugerðum um rekstur slíkra sérkennslustofnana.“

Jaðar

Jaðar.

Árið 1970 tilnefndi Jónas B. Jónsson fræðslustjóri Reykjavíkur nefnd sem fjalla skyldi um starfrækslu heimavistarskólanna að Jaðri og Hlaðgerðarkoti og tengd verkefni. Í nefndinni sátu Þorsteinn Sigurðsson sérkennslufulltrúi, Ragnar Georgsson skólafulltrúi og Jónas Pálsson forstöðumaður Sálfræðideildar skóla sem var formaður nefndarinnar. Í júní 1971 kynnti nefndin tillögur sínar ásamt greinargerð. Lagði nefndin m.a. til að innan skólanna á skyldustiginu í Reykjavík yrði komið á fót stuðningskennslu og meðferð í smáum hópum þar sem nemendur yrðu áfram kyrrir í almennum bekkjum en fengju hjálp sérmenntaðra kennara en einnig að þar yrðu sérbekkir, svokallaðir „observationsbekkir“.

Jaðar

Jaðar – stytta.

Þá var lagt til að utan skólanna yrðu á vegum fræðsluráðs og félagsmálaráðs sett á laggirnar skólaheimili, heimavistir fyrir vanrækt börn og unglinga og meðferðarheimili fyrir taugaveikluð börn og unglinga undir stjórn Sálfræðideildar skóla. Tillaga nefndarinnar varðandi Jaðar var á þá leið að skólaárið 1971-1972 yrði starfsemi skólans með svipuðu sniði og verið hefði en stefnt skyldi að því að flytja kennslu- og meðferðarþátt starfseminnar til borgarinnar jafnóðum og aðstaðan og úrræðin í framkomnum tillögum nefndarinnar væru komin í gagnið.

Jaðar

Jaðar 2020 (mynd; Hafsteinn Björgvinsson).

Tillögur nefndarinnar voru í anda svokallaðrar blöndunarstefnu sem ruddi sér til rúms á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar en með henni var leitast við að finna stöðugt fleiri börnum stað í almenna skólakerfinu og færa sérkennslu frá stofnunum og inn í skólana. Veturna 1971-1972 og 1972-1973 var starfsemi á Jaðri óbreytt nema að því leyti að nemendur voru færri en áður eða 18 og 17 hvorn vetur. Skólahald hófst með venjubundnum hætti haustið 1973 en skömmu síðar var ákveðið að hætta starfseminni frá og með 1. desember 1973 og var öllum starfsmönnum sagt upp.

Jaðar

Jaðar 2020 (mynd; Hafsteinn Björgvinsson).

Veturinn 1973-1974 var komið á fót sérdeild við Réttarholtsskóla fyrir nemendur með geðræna erfiðleika og hegðunarvandkvæði og tók hún við því hlutverki sem Jaðar hafði gegnt. Á árunum 1974-1979 voru samskonar sérdeildir stofnaðar við sex aðra skóla í Reykjavík, svonefnd skólaathvörf.“

Með framangreindum þrætum var starfseminni á Jaðri sjálfhætt.

Heimild:
-Skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007, Áfangaskýrsla nr. 2 – Könnun á starfsemi vistheimilisins Silungapolls 1950-1969, vistheimilisins Reykjahlíðar 1956-1972, og heimavistarskólans að Jaðri 1946-1973, Reykjavík, 31. ágúst 2010.

Jaðar

Jaðar – framtíðarhugmyndir; líkan á Þjóðminjasafninu.

Silungapollur

Í Skýrslu nefndar um „Könnun á starfsemi vistheimilisins Silungapolls 1950-1969, vistheimilisins Reykjahlíðar 1956-1972, og heimavistarskólans að Jaðri 1946-1973„, þann 31. ágúst 2010 má lesa eftirfarandi:

Gunnar Thoroddsen

Gunnar Thoroddsen, borgarstjóri 1949.

„Hinn 1. júlí 1950 hóf Reykjavíkurbær starfsemi vistheimilis á Silungapolli sem staðsett var skammt frá Suðurlandsvegi í nágrenni Reykjavíkur. Þar átti Barnasumardvalarfélag Oddfellow húsnæði sem það hafði reist árið 1930 og þar sem það starfrækti sumardvalarheimili fyrir börn. Á hverju sumri dvöldu á vegum Oddfellow 40-60 börn á Silungapolli í 8-10 vikur en árið 1943 fékk Rauði kross Íslands afnot af húsnæðinu og rak þar sumardvalarheimili fram til ársins 1949. Borgarstjóri ritaði bréf til Barnasumardvalarfélags Oddfellow í september 1949 og spurðist fyrir hvort hægt væri að fá húsnæði þeirra að Silungapolli til afnota og þá með hvaða skilmálum enda hefði Reykjavíkurbær „sífellt aukna þörf fyrir húsnæði handa börnum sem ráðstafa [þyrfti] af hálfu hins opinbera.“ Stjórn félagsins tók vel þeirri málaleitan og bauðst til að semja um afnot hússins fyrir vistheimili fyrir börn en félagið áskildi sér rétt til að „geta haft allt að 60 veikluð börn í sumardvöl að barnaheimilinu, hvort sem sú starfsemi [yrði] rekin á vegum Barnasumardvalarfélags Oddfellowa eða á vegum R.K.Í. [Rauða kross Íslands].“ Þegar í kjölfarið ritaði borgarstjóri barnaverndarnefnd Reykjavíkur og óskaði eftir áliti nefndarinnar á málinu. Á fundi hennar hinn 5. október 1949 var bréf borgarstjóra Reykjavíkur lagt fram og af því tilefni gerði nefndin hlé á fundi sínum og fór og skoðaði húsakynni og aðra aðstöðu á Silungapolli. Að því loknu var fundi framhaldið og eftirfarandi samþykkt gerð: „Nefndin mælir eindregið með því, að húsið verði tekið á leigu með það fyrir augum, að þar verði rekin ársstarfsemi fyrir 25-30 börn, einnig telur nefndin mögulegt, að þar sé rekin sumardvalarstarfsemi fyrir allt að 60 börn.“

Silungapollur

Silungapollur.

Samningur milli Reykjavíkurbæjar og Oddfellow var undirritaður hinn 24. mars 1950 og var hann til 15 ára. Reykjavíkurbæ var látin í té afnot af húseign félagsins við Silungapoll í þeim tilgangi að bærinn ræki þar vistheimili allt árið um kring fyrir börn til allt að sjö ára aldurs. Félagið gat krafist þess að bærinn tæki til sumardvalar allt að 60 börn til viðbótar, þriggja til sjö ára gömul, eftir ákvörðun félagsins eða annarra aðila í umboði þess. Afnot fasteignanna voru veitt án endurgjalds en á hinn bóginn skyldi bæjarsjóður láta gera allar þær breytingar og endurbætur er nauðsyn krefði vegna heimilishaldsins á sinn kostnað, m.a. að tengja fasteignirnar við rafveitukerfi bæjarins, leggja fullnægjandi hitunarkerfi og endurbæta vatns- og skolpleiðslur. Allar endurbætur, viðbætur og breytingar á eignum og innanstokksmunum voru kvaðalaus eign Barnasumardvalarfélags Oddfellow að samningstíma loknum. Þá var bæjarsjóði skylt að kosta allt nauðsynlegt viðhald eignanna, greiða af þeim öll opinber gjöld og vátryggja hús og innanstokksmuni gegn eldsvoða.

Silungapollur

Silungapollur.

Silungapollur var þriðja vistheimilið sem Reykjavíkurbær stofnsetti á skömmum tíma. Árið 1945 hófst starfsemi á Kumbaravogi við Stokkseyri sem var vistheimili fyrir munaðarlaus börn og börn sem bjuggu við erfiðar heimilisaðstæður. Heimilið var ætlað 20 börnum af báðum kynjum á aldrinum 7-14 ára. Starfsemin á Kumbaravogi fluttist að Reykjahlíð í Mosfellsdal árið 1956 eins og nánar er rakið í kafla 1 í VI. hluta skýrslunnar. Í október 1949 tók vöggustofan að Hlíðarenda til starfa. Þar var rúm fyrir 22 börn á aldrinum 0-18 mánaða og Silungapollur var ætlaður fyrir allt að 30 börn á aldrinum 3-7 ára. Um þessi tímamót segir í ársskýrslu barnaverndarnefndar Reykjavíkur fyrir árið 1950: „Hefur því nefndin getað fullnægt að mestu þörfum þeirra, sem erfitt hafa átt, ef um góð börn hefur verið að ræða, en afbrotabörnin hafa mátt eiga sig og sýkja út frá sér, en samkvæmt lögum um vernd barna og ungmenna, ber ríkissjóði skylda til að láta reisa hæli fyrir slík börn, þegar fé er veitt til þess í fjárlögum, en það hefur ekki verið gert enn“.

Silungapollur

Silungapollur.

Eins og kveðið var á um í samningi Reykjavíkurbæjar og Barnasumardvalarfélags Oddfellow komu börn til sumardvalar á Silungapoll hvert ár. Sumardvölin var á vegum Reykjavíkurdeildar Rauða kross Íslands og að jafnaði komu um 60 börn til tveggja mánaðadvalar. Fyrir á Silungapolli voru börn sem barnaverndarnefnd Reykjavíkur ráðstafaði á heimilið og yfir hásumarið var heildarfjöldi barna því oft um 90-100 börn. Til að mæta þessu var starfsmönnum fjölgað tímabundið og voru 10-12 starfsstúlkur ráðnar yfir sumarið til viðbótar við þær sem fyrir voru en fastir starfsmenn voru að jafnaði 13 talsins. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafði á sínum tíma lýst sig samþykka þessu skipulagi en á fundi nefndarinnar hinn 4. maí 1960 var á hinn bóginn eftirfarandi bókað: „Af gefnu tilefni vill barnaverndarnefnd Reykjavíkur lýsa því yfir að hún telur mjög óheppilegt að á Silungapolli séu samtímis sumardvalarbörn og börn þau er þar dvelja yfir árið.“ Skömmu síðar ritaði Þorkell Kristjánsson fulltrúi nefndarinnar svohljóðandi minnisblað: „Á Silungapolli dvelja 30 börn allt árið á vegum Reykjavíkurbæjar. Þar eru aðeins vistuð börn, sem brýna þörf hafa fyrir vist og vegna þess að heimilin geta ekki látið börnunum í té næga aðhlynningu einhverra hluta vegna.
Helstu ástæður fyrir ráðstöfun barna á barnaheimilið eru: Vanhirða, heilsuspillandi húsnæði, fátækt, veikindi, drykkjuskapur, hrottaskapur, munaðarleysi og önnur óholl uppeldisskilyrði. Barnaverndarnefnd hefur mestu ráðið um val barna á heimilið“.

Silungapollur

Silungapollur.

Mánuðina júlí og ágúst hefur Reykjavíkurdeild R.K.Í. 60 börn á Silungapolli. Ráðstöfun þessa tel ég mjög óheppilega, naumast mannlega gagnvart umkomulausum börnum og mun ég hér á eftir gera grein fyrir þessari skoðun minni.
1. Leik og föndurpláss langdvalarbarna er tekið fyrir svefnstofur handa sumardvalarbörnum.
2. Útiskáli, sem annars er ætlaður fyrir leiki barna í slæmum veðrum, er notaður til að geyma í 60 rúmstæði, dýnur og annað, er þarf til afnota fyrir sumardvalarbörnin. Skáli þessi er því notaður til geymslu 10 mánuði ársins.
3. Sumarbörnin eru þess valdandi, að ekki er hægt að sýna ársbörnunum eins góða umhyggju þessa tvo mánuði sem aðra og er það allmikið áfall fyrir börn, sem ekki eiga kost á því, að njóta móðurhlýju svo mánuðum eða árum skiptir.
4. Heimsóknir falla niður meðan sumardvalir standa, en heimsóknir umhyggjusamra skyldmenna er þeim andleg nauðsyn.
5. Venjulega er óyndi í sumardvalarbörnum fyrstu kvöldin eftir að þau koma, en þau lagast fljótt vegna þess að þau vita, að aðeins er um stuttan dvalartíma að ræða. Þetta er ekki langdvalarbörnunum sársaukalaust, þegar nýkomnu börnin eru að æpa á mömmu og pabba, sem hin eiga annaðhvort ekki til eða eru dæmd til að vera fjarvistum við. Þegar fer að líða á dvalartíma sumarbarna fara þau að tala um, að nú séu þau að fara heim til mömmu og pabba. Hvernig er þá líðan þeirra barna, sem eftir verða þarna, sem engar mæður eiga, eða veikar mæður og verða að dvelja á barnaheimilinu ófyrirsjáanlegan tíma? Margt fleira mætti telja, sem mælir á móti því að reka á Silungapolli árs- og sumarheimili og hæpið er að slíkt geti staðist ef hugsað er um velferð barnanna.

Silungapollur

Silungapollur.

Í febrúar 1961 afhenti Þorkell Kristjánsson borgarstjóra afrit af ofangreindu minnisblaði og lýsti borgarstjóri sig „mjög sammála þeim umræðum, sem þar [komu] fram […]“. Í kjölfarið fól hann Guðmundi Vigni Jósefssyni formanni barnaverndarnefndar Reykjavíkur og Jónasi B. Jónssyni fræðslustjóra að athuga hvort hægt væri að koma sumardvalarbörnum fyrir á öðrum stað. Leiddi þetta til þess að vistheimilamál borgarinnar voru tekin til endurskoðunar en um vorið 1961 fékk Jónas B. Jónsson þá Símon Jóh. Ágústsson prófessor og Jónas Pálsson forstöðumann Sálfræðideildar skóla til að taka til nýrrar athugunar tillögu barnaheimilanefndar frá árinu 1957 og hélt Jónas nokkra fundi með þeim ásamt formanni barnaverndarnefndar Reykjavíkur um málið á meðan álitsgerðin var í vinnslu.

Silungapollur

Silungapollur.

Álitsgerð Símonar Jóh. Ágústssonar og Jónasar Pálssonar um vistheimili og barnaverndarmál í Reykjavík var fullgerð í júní 1961. Um Silungapoll segir í álitsgerðinni: „Forstöðukona Silungapolls og barnaverndarnefnd Reykjavíkur eru sammála um, að ekki sé fært að reka barnaheimilið þar áfram öllu lengur með sama fyrirkomulagi og verið hefur undanfarin ár, þ.e. að hælið sé jafnframt rekið sem sumardvalarheimili á sumrin. Kemur þá tvennt til greina: a) að leggja niður sumardvalarstarfsemina og ársheimilið verði rekið áfram með sama sniði og áður, eða b) að ársstarfseminni verði fengið annað húsnæði. Allir virðast vera sammála um, að húsið á Silungapolli sé af ýmsum ástæðum (eldhætta, kuldi, herbergjaskipun) óhentugt til ársstarfsemi og ekki til frambúðar“.

Silungapollur

Silungapollur 1934.

Ennfremur bentu þeir á að ef leggja ætti niður starfsemina á Silungapolli þá þyrftu tvö vistheimili sem þeir höfðu gert tillögur um að vera til staðar, þ.e. annars vegar nýbygging á lóð vöggustofunnar á Hlíðarenda fyrir börn á aldrinum 1½-3 ára og hins vegar upptökuheimili fyrir 20-30 börn á aldrinum 3-7 ára. Lögðu þeir því til að framkvæmdir við þessi heimili skyldu hafa forgang og þeim yrði lokið innan tveggja ára. Á grundvelli álitsgerðarinnar gerði Jónas B. Jónsson tillögur að byggingu barnaheimila í Reykjavík næstu árin og sendi borgarstjóra. Lagði Jónas til að á árinu 1962 yrði veitt 2 milljónum króna til byggingar uppeldisheimilis fyrir 30-40 börn á aldrinum 3-7 ára. Bygging skyldi hafin árið 1962 og henni lokið vorið 1963 og vistheimilið að Silungapolli þá lagt niður og „aðeins höfð þar sumardvalarstarfsemi á vegum R.K.Í. eða annarra aðila.“ Sumarið 1963 kom enn fram á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur andstaða við sumardvalir barna á Silungapolli. Þá lét Gyða Sigvaldadóttir, fyrrverandi forstöðukona á Silungapolli og þáverandi nefndarmaður í barnaverndarnefnd Reykjavíkur, færa til bókar að hún áteldi að börn væru enn látin á Silungapoll til sumardvalar „þrátt fyrir að dvöl þeirra þar verði að teljast á allan hátt neikvæð fyrir þau börn, sem þar eru að alast upp.“

Jónas B. Jónsson

Jónas B. Jónsson.

Í nóvember 1962 voru að nýju settar fram tillögur um vistheimilamál í Reykjavík, að þessu sinni af þeim Jónasi B. Jónssyni og Jónasi Pálssyni. Þeir settu m.a. fram tillögur um að byggt yrði upptöku- og vistheimili fyrir 30 börn á aldrinum 3-16 ára, vistheimili fyrir 12-16 börn á aldrinum 2-7 ára og að keypt yrði íbúð fyrir fjölskylduheimili fyrir fimm börn, fjögurra ára og eldri. Barnaverndarnefnd Reykjavíkur tók tillögurnar til umræðu á fundum nefndarinnar í febrúar 1963 og sendi borgarstjóra álitsgerð í mars 1963. Taldi barnaverndarnefnd að brýnust væri þörfin fyrir upptöku- og vistheimili fyrir börn á aldrinum 3-16 ára og jafnframt að gerð yrði tilraun með að starfrækja fjölskylduheimili. Í næsta áfanga taldi nefndin að nauðsyn væri á að reisa heimili fyrir 2-7 ára börn í stað þess sem þá var rekið að Silungapolli „við lélegan og óhagstæðan húsakost.“ Til nánari skýringar við ályktun nefndarinnar sagði: „Í þriðja lið ályktunarinnar er talið, að brýnust þörf sé fyrir vistheimili eða upptökuheimili. Er þá gert ráð fyrir að þetta heimili verði fyrst um sinn rekið jöfnum höndum sem vistheimili og upptökuheimili. Er slíkt heimili nú mjög aðkallandi, þar sem þau heimili, sem nú eru rekin, eru oftast yfir setin, en jafnvel á einni viku getur þurft að ráðstafa mörgum börnum, sem í rauninni er ekkert pláss fyrir. Rétt þykir að taka fram, að ekki er talið, að þetta heimili geti leyst af hólmi barnaheimilið að Silungapolli, sem þó er mikil þörf á að byggja upp. Er ekki talið fært að leggja það heimili niður, nema annað heimili komi í staðinn, fyrir þau börn, sem þar dvelja, og er lagt til, að það verði reist í næsta áfanga“.
Samkvæmt áætlun um byggingu vistheimila árin 1963-1968 sem fylgdi tillögunum og umsögn barnaverndarnefndar Reykjavíkur var gert ráð fyrir að byrjað yrði á upptökuheimili við Dalbraut árið 1963 og því lokið árið 1964, því næst að fjölskylduheimili yrði byggt eða keypt árið 1965 og að árið 1966 hæfist bygging vistheimilis fyrir 12-16 börn á aldrinum 2-7 ára. Því ætti að vera lokið árið 1967 og kæmi þá í staðinn fyrir Silungapoll.

Silungapollur

Á Silungapolli.

Í samningi Reykjavíkurborgar og Barnasumardvalarfélags Oddfellow um afnot borgarinnar af Silungapolli var tiltekið að hann rynni út 1. nóvember 1964. Í nóvember 1962 ritaði stjórn félagsins bréf til fræðslustjóra Reykjavíkur og bauð eignina til kaups.
Fræðslustjóri mælti með því við borgarstjóra að eignin yrði keypt en lagði einnig áherslu á að húsnæðið væri óhentugt sem is og því væri réttast að flytja starfsemi vistheimilisins annað en nota Silungapoll áfram sem sumardvalarheimili á vegum borgarinnar. Á fundi barnaverndarnefndar Reykjavíkur hinn 8. apríl 1965 var eftirfarandi tillaga Gyðu Sigvaldadóttur samþykkt: „Þar sem Reykjavíkurborg hefur keypt barnaheimilið Silungapoll og þar með létt af þeirri kvöð, að taka til sumardvalar börn á vegum R.K.Í., vill barnaverndarnefnd fara þess á leit við hlutaðeigandi aðila, að hún fái til ráðstöfunar öll þau pláss, sem þar er um að ræða enda ber til þess brýna þörf.“ Nokkuð dró úr fjölda sumardvalarbarna á Silungapolli á fyrri hluta sjöunda áratugarins, t.d. voru sumardvalarbörn á vegum Rauða krossins 35 árið 1962 og 20 árið 1964. Frá og með sumrinu 1965 lögðust sumardvalir á vegum félagsins á Silungapolli af. Eftir það ráðstafaði barnaverndarnefnd Reykjavíkur alfarið börnum á Silungapoll.

Silungapollur

Á Silungapolli.

Ekkert varð af því að hafist yrði handa við framkvæmdir við vistheimili sem leysa myndi Silungapoll af hólmi, líkt og gert hafði verið ráð fyrir í áætlun um byggingu vistheimila árið 1963. Á hinn bóginn tók til starfa árið 1965 á vegum borgarinnar fjölskylduheimili að Skála við Kaplaskjólsveg sem ætlað var fyrir allt að átta börn sem ráðstafa þyrfti til lengri tíma. Þá hófust framkvæmdir við upptökuheimili Reykjavíkurborgar við Dalbraut árið 1963 og snemma árs 1966 tók það að nokkru til starfa í þeim hluta byggingarinnar sem þá var tilbúinn. Fullbúið skyldi heimilið á Dalbraut rúma 45 börn og átti þar að vera athugunarstöð fyrir börn og unglinga, áður en þeim var ráðstafað annað auk þess sem þar skyldu vistuð börn sem koma þyrfti fyrir um stundarsakir. Árið 1967 hófst undirbúningur að byggingu nýrrar álmu við Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins.

Silungapollur

Silungapollur.

Viðbótarálman átti að rúma 14 börn og var einkum ætluð þeim börnum sem orðin voru of gömul til að dveljast á þeim hluta Vöggustofunnar sem þá var í rekstri. Þá var einu fóstrunarheimili komið á fót árið 1967 og var það hið fyrsta sinnar tegundar. Í ársskýrslu barnaverndarnefndar Reykjavíkur fyrir árið 1967 var fyrirkomulagi fóstrunarheimila lýst nánar og í framhaldinu hver stefnan væri í vistheimilamálum: „Samið er við einkaaðila, venjuleg hjón, að þau, gegn ákveðinni þóknun, taki að sér fáein börn í einu til skemmri dvalar. Kostir fóstrunarheimila eru einkum þeir, að vegna smæðar þeirra er hægt að búa börnum persónulegra og heimilislegra umhverfi en á stærri barnaheimilum. Þá er og dvalarkostnaður venjulega nokkru minni. Fyrirhugað er að koma upp fleiri fóstrunarheimilum á næsta ári“.

Silungapollur

Silungapollur.

Með stækkun upptökuheimilisins við Dalbraut, vöggustofunnar á Hlíðarenda og með fleiri fóstrunarheimilum ætti, í fyrirsjáanlegri framtíð, að vera unnt að fullnægja þörf vegna barna, sem vista þarf vegna tímabundinna heimilisástæðna.
Vistunarúrræði barnaverndarnefndar Reykjavíkur urðu fleiri og fjölbreyttari við þessar breytingar. Árið 1969 var ákveðið að leggja starfsemi Silungapolls af í þeirri mynd sem verið hafði. Fram kom í máli Sveins Ragnarssonar þáverandi félagsmálastjóra Reykjavíkur við skýrslutöku hjá vistheimilanefnd að það hefði verið meðal fyrstu verka Félagsmálastofnunar Reykjavíkur, sem tók til starfa í ársbyrjun 1968 og hafði m.a. alla umsjón með rekstri vistheimila borgarinnar, að taka ákvörðun um að loka skyldi Silungapolli. Í árslok 1969 var rekstri Silungapolls hætt þar sem húsakynni voru ekki lengur talin til þess fallin að halda uppi rekstri þar allt árið. Í tilefni af því gerði barnaverndarnefnd Reykjavíkur félagsmálaráði kunnugt að hún teldi „brýna nauðsyn [vera] á að reka áfram sumardvalarheimili að Silungapolli, nema því aðeins að samskonar aðstaða fyrir sumardvöl barna [yrði] tryggð með öðrum hætti.“ Félagsmálaráð Reykjavíkur ákvað að reka í tilraunaskyni sumardvalarheimili á vegum borgarinnar fyrir 30 börn sumarið 1970. Þrátt fyrir góða reynslu af heimilinu þótti ekki rétt, með tilliti til mikils rekstrarkostnaðar, að halda uppi rekstri sumardvalarheimilis að Silungapolli sumarið 1971.

Silungapollur

Silungapollur.

Við gildistöku laga um vernd barna og ungmenna nr. 29/1947 var í fyrsta skipti með beinum hætti kveðið á um skyldu ríkisvaldsins að setja á stofn og reka vist- eða meðferðarheimili fyrir börn sem ratað höfðu á siðferðilega glapstigu eða framið höfðu lögbrot. Á hinn bóginn voru lög nr. 29/1947 fáorð um skyldu ríkisins, sveitarfélaga eða annarra varðandi stofnun og rekstur vistheimila fyrir börn sem bjuggu við bágar heimilisaðstæður. Þrátt fyrir að lög nr. 29/1947 hafi ekki með beinum hætti kveðið á um skyldu tiltekins aðila til að setja á stofn og reka vistheimili fyrir börn sem bjuggu við bágar heimilisaðstæður hefur vistheimilanefnd áður lagt til grundvallar að ráða megi af ákvæðum laganna að gert hafi verið ráð fyrir tilvist slíkra stofnana. Mælt var fyrir um skyldu sveitarfélaga til að hafa tiltæk úrræði fyrir þau börn og ungmenni sem vista varð utan heimilis ef orsakir voru annars eðlis en lögbrot eða ungmenni væru á siðferðilegum glapstigum, svo vísað sé til hugtakanotkunar laga nr. 29/1947.

Silungapollur

Á Silungapolli.

Með lögum um vernd barna og ungmenna nr. 53/1966 var í fyrsta skipti beinlínis kveðið á um verkaskiptingu ríkisins annars vegar og sveitarfélaga hins vegar varðandi skyldur þeirra til að setja á stofn og reka vistheimili eða stofnanir fyrir börn. Ríkisvaldinu var samkvæmt 1. mgr. 39. gr. skylt að setja á stofn og reka vist- eða meðferðarheimili fyrir börn sem ratað höfðu á siðferðilega glapstigu eða framið höfðu lögbrot. Í 3. mgr. 39. gr. var kveðið á um skyldu sveitarfélaga til að setja á stofn og starfrækja stofnanir fyrir börn sem bjuggu við bágar heimilisaðstæður. Þá var sérstaklega mælt fyrir um í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 29/1947 og 1. mgr. 37. gr. laga nr. 53/1966 um heimild menntamálaráðherra til að veita leyfi til reksturs vistheimilis eða annarrar slíkrar uppeldisstofnunar að uppfylltum tilteknum skilyrðum.
Hér að framan er rakinn aðdragandi að stofnun vistheimilisins Silungapolls og þær forsendur sem lágu til grundvallar starfseminni, en ljóst er að um var að ræða stofnun sem starfrækt var af Reykjavíkurborg, en ekki af ríkinu. Þá var stofnunin á tímabilinu 1950-1965 samhliða rekin sem sumardvalarheimili fyrir börn en eins og rakið er í kafla 1 hafði Rauði kross Íslands afnot af heimilinu á sumrin og vistaði að jafnaði um 60 börn hvert sumar á fyrrgreindu tímabili. Það er því afstaða vistheimilanefndar með vísan til fyrirliggjandi frumgagna að telja verði að vistheimilið Silungapollur hafi í merkingu laga nr. 29/1947 og laga nr. 53/1966 haft það hlutverk að vera stofnun þar sem vistuð skyldu börn sem bjuggu við bágar heimilisaðstæður, einkum vegna háttsemi, veikinda og vanrækslu foreldra. Á heimilið átti því ekki að vista börn vegna atvika er vörðuðu háttsemi þeirra sjálfra. Þá hafi heimilið einnig verið starfrækt sem sumardvalarheimili. Þær efnisreglur sem fram komu í reglum nr. 31/1963 um sumardvalarheimili hafi því gilt um starfsemi heimilisins frá árinu 1963 er reglur um starfsemi sumardvalarheimila voru fyrst settar hér á landi, þ.m.t. reglur um aðbúnað, fjölda barna, heilbrigðiseftirlit.

Silungapollur

Silungapollur.

Samkvæmt 1. gr. fyrrgreindra reglna um sumardvalarheimili nr. 31/1963 taldist hvert það heimili sumardvalarheimili sem tæki fimm börn eða fleiri til sumardvaldar.
Menntamálaráðherra veitti heimild til stofnunar eða reksturs slíks heimilis að fengnum meðmælum hlutaðeigandi barnaverndarnefndar og héraðslæknis og með samþykki Barnaverndarráðs Íslands. Umsóknum um heimild til að reka sumardvalarheimili skyldu fylgja nánar tiltekin gögn, þ.m.t. umsögn barnaverndarnefndar, heilbrigðisvottorð heimilisfólks, umsögn héraðslæknis um húsakynni, brunahættu o.fl. Samkvæmt því sem að framan er rakið telur vistheimilanefnd að atvik að baki stofnun Silungapolls og starfsemi stofnunarinnar leiði í fyrsta lagi til þeirrar ályktunar að heimilið hafi haft það hlutverk að vera úrræði fyrir barnaverndarnefndir þar sem vistuð skyldu börn sem bjuggu við bágar heimilisaðstæður, einkum vegna háttsemi, veikinda og vanrækslu foreldra. Á heimilinu átti því ekki að vista börn vegna atvika sem vörðuðu hátterni þeirra sjálfra, s.s. vegna lögbrota. Vistun slíkra barna var á hendi ríkisins og var gert ráð fyrir því að sérstakar stofnanir hefðu það hlutverk.

Silungapollur

Silungapollur – loftmynd 1957.

Samkvæmt 3. gr. reglna nr. 31/1963 voru gerðar lágmarkskröfur um húsakynni sumardvalarheimila, þar sem m.a. var kveðið á um að drengir og stúlkur skyldu vera í sérherbergi, hvert barn skyldi sofa í sér rúmi, o.fl. Áður en starfræksla heimilisins hæfist skyldi fara fram læknisskoðun á heimilisfólki og starfsfólki og fylgja skyldi heilbrigðisvottorð hverju barni sem tekið yrði til sumardvalar. Ef slíkt vottorð fylgdi ekki bar forstöðumanni umsvifalaust að fá héraðslækni til að kanna heilbrigði þess. Þá var í 5. gr. sérstaklega kveðið á um eftirlitshlutverk barnaverndarnefnda. Bar þeim að fylgjast rækilega með rekstri barnaheimila í umdæmi sínu og heimsækja þau minnst tvisvar á sumri og oftar, ef þörf væri á, til þess að kynna sér sem best aðbúð og líðan barnanna og beita sér fyrir því að bætt yrði þegar úr ágöllum, ef í ljós kynnu að koma. Þá bar viðkomandi barnaverndarnefnd að tilkynna Barnaverndarráði ef hún yrði vör við alvarlegar misfellur í starfi barnaheimilis. Þá var í 7. gr. sérstaklega kveðið á um eftirlitsskyldu Barnaverndarráðs. Skyldi fulltrúi ráðsins a.m.k. einu sinni á sumri koma á sumardvalarheimili sem löggilt hefðu verið, til leiðbeiningar og eftirlits. Skyldi hann kynna sér allan aðbúnað barna á heimilum og gæta þess að fylgt væri í öllu lögum og reglum um barnaheimili.“

Með framangreindum þrætum var starfseminni á Jaðri sjálfhætt.

Heimild:
-Skýrsla nefndar samkvæmt lögum nr. 26/2007, Áfangaskýrsla nr. 2 – Könnun á starfsemi vistheimilisins Silungapolls 1950-1969, vistheimilisins Reykjahlíðar 1956-1972, og heimavistarskólans að Jaðri 1946-1973, Reykjavík, 31. ágúst 2010.

Silungapollur

Silungapollur 2020 – loftmynd.