Tag Archive for: Vitastígur

Hafnarfjörður

Á skilti milli húsanna Hverfisgötu 43 og 45 í Hafnarfirði er upplýsingaskilti um „Vitann við Vitastíg„. Vitinn sést reyndar ekki frá skiltinu, en á því er eftirfarandi texti:

Hafnarfjörður

Vitinn við Vitastíg – að vestanverðu.

„Þrátt fyrir að Hafnarfjörður hafi verið ein helsta höfn landsins á Suður- og Vesturlandi í gegnum aldirnar var lengi vel ekku um nein öryggistæki að ræða þar utan þess að á helgaskeri úti fyrir höfninni voru varúðarmerki í einhverri mynd allt frá aldamótunum 1800. Árið 1900 brugðust stjórnvöd við þessu og létu reisa tvo vita í Hafnarfirði, annan niðri við höfnina en hinn hér efst uppi á háhrauninu ofan við bæinn. Árið 1910 sendi stjórnarráðið bæjarstjórn Hafnarfjarðar erindi og fór þess á leit að kaupstaðurinn tæki að sér resktur vitanna, að öðrum kosti yrðu þeir fjarlægðir. Varð það úr og frá ársbyrjun 1911 tók kaupstaðurinn við rekstri beggja vitanna. Hafnarfjarðarbær fékk vitana afhenta án endurgjalds gegn skilyrðum um viðhald og rekstur þeirra og að á þeim logaði ljós frá hálfri stundu fyrir sólarlag til hálfrar stundar eftir sólaruppkomu frá 1. ágúst til 15. maí ár hvert. Tveimur árum síðar, árið 1913, var ákveðið að færa neðri vitann að Fiskakletti og etta sama ár var efri vitinn hækkaður allnokkuð þar sem hin nýreista Fríkirkja við Linnetsstíg skyggði á hann.

Hafnarfjörður

Vitinn við Vitastíg – að austanverðu.

Olíugeymsla beggja vitanna var við Fiskaklettsvitann og þurfti að bera olíu þaðan, í brúsum, upp að efri vitanum á hverjum degi. Í vitunum voru olíulampar og á bak við logann var silfurhúðaður kúptur spegill sem kastaði ljósgeislunum frá sér en framan við lampann var dregin rauð rúða, því vitaljósin áttu að vera rauð. Þar sem ljósunum bar saman úr vitunum tveimur var innsiglingarleiðin inn í Hafnarfjarðarhöfn.

Árið 1931 voru gerðar miklar breytingar á rekstri vitanna sem fólust meðal annars í því að neðri vitinn, sá sem staðið hafði við Fiskaklett, var rifinn og í efri vitann var settur svokallaður blossviti sem var gasljós með mislitum hornum. Þetta varð til þess að ekki var lengur þörf á daglegri umsjón með vitunum og var þá Gísla Jónssyni vitaverði sagt upp störfum en han hafði gegnt því starfi frá árinu 1900, í rúm 30 ár. Eftir það var það hlutverk hafnsögumanna að þjónusta vitann, allt til ársins 1979 þegar vitinn var lagður niður og leiðarmerki tekin í notkun í hans stað. Í dag er vitinn í eigu Hafnarsjóðs Hafnarfjarðar og nýtur hann verndar samkvæmt lögum um menningarminjar.“

Hafnarfjörður

Hafnarfjörður – hús við Hverfisgötu og vitinn á háahrauninu ofar.