Tag Archive for: Vitavarsla

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanesið í Grindavík er áhugaverður staður. Minjarnar, sem þar eru ofan við Nesvörina, eiga sér merka sögu mannlífs, atvinnuhátta; útgerðar og búskapar. Þar eru m.a. gamlir þurrkgarðar, þurrkbyrgi, fjárskjól, gerði og tóttir frá fyrri tíð, auk fiskhúsa, ískofa, lifrabræðslu, saltþróa, varar, bryggju, grunna og veggi íbúðarhúsa, beitningaskúra og innsiglingamerkja frá fyrri hluta síðustu aldar.
Innsiglingavörður ofan við vörina á Þórkötlustaðanesi
Fróðlegt og friðsælt er að ganga um svæðið á góðum degi, anda að sér sjávaranganinni og skoða og rifja upp söguna. Fyrir skömmu var gengið um Nesið á milli Kónga og Strýthóla í fylgd Grindvíkingsins Péturs Guðjónssonar, en hann fæddist í einu húsanna, sem þar voru.
Pétur skýrði svo frá:

Þórkötlustaðir

Þórkötlustaðahverfi.

“Jú, það er rétt. Ég fæddist í Höfn árið 1931 og er alinn upp á Þórkötlustaðanesinu fram yfir fermingu. Foreldrar mínir voru Guðjón Jónsson og Guðbjörg Pétursdóttir, bæði úr Þórkötlustaðahverfinu. Hann var frá Einlandi og hún frá Valhöll. Þau höfðu flutt út á Nesið árið 1928. Húsið, sem þau nefndu Höfn, höfðu þau byggt árið áður. Systkini mín voru fimm; fjórir strákar og ein stelpa. Haukur var elstur, en hann er látinn, síðan Guðmundur sem býr nú í Höfn við Túngötuna, þá ég og Jón Elli. Sjálfur bý ég við Hvassahraun, en Elli býr í Grafarvogi. Systir okkar heitir Guðjörg, kölluð Stella. Hún býr við Litluvelli í Grindavík.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Arnarhvol 2020.

Á Þórkötlustaðanesinu voru auk Hafnar, húsin Arnarhvol og Þórshamar. Í Arnarhvoli, sem var vestan við Höfn, bjuggu Engelbert Jónsson og Jóhanna Einarsdóttir. Hafliði Jónsson og Gíslína Guðmundsdóttir bjuggu í Þórshamri, en húsið stendur að hluta til enn sunnan við Flæðitjörnina.

Þórkötlustaðanes

Pétur Guðjónsson við Höfn í Þórkötlustaðanesi.

Fólkið mitt á Höfn hélt skepnur; 2-3 beljur, 50-60 kindur, 5-6 hesta og 12-15 hænur, líkt og á öðrum bæjum á Nesinu og úti í hverfi. Engar skepnur voru þó Arnarhvoli, en fé var í Þórshamri. Alltaf var eitthvert stúss í kringum dýrin. Við krakkanir sáum aðallega um gjöfina. Fjárhúsið okkar var sunnan við Arnarhvol. Síðan var byggður skúr, hestús og fjárhús fyrir gemlinga heima við húsið. Við þurftum að bera hey og vatn í þetta daglega. Vatninu var safnað af húsþökunum, en í þurrkatíð var dæmi þess að vatn væri sótt alla leið upp í Seltjörn. Kom þó sjaldan fyrir, sem betur fer. Hvergi var vatn að fá í hrauninu, en á veturnar og þegar mikið rigndi var vatn stundum sótt í polla handa fénu.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Höfn 2020.

Ekkert rafmagn var í Nesinu. Það kom ekki til Grindavíkur fyrr en 1947. Þangað til voru gasluktirnar mest notaðar, bæði við beitningu og annað sem til þurfti. Bölvað stúss í kringum það.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Höfn; kjallari. Hæðin var flutt yfir í Járngerðarstaðahverfi.

Umstangið gat verið erfitt hjá okkur eins og öðrum. En þrátt fyrir barninginn var alltaf nóg að bíta og brenna. Eðlilega var mest um fiskmeti yfir vertíðina. Þá var rauðmagi bæði sóttur í Bótina og hirtur upp í fjörunni. Ég er ekki frá því að rekni rauðmaginn hafi bara bragðast betur eftir að hafa veltst þarna um í þanginu. Fugl var skotinn, bæði mávur og skarfur. Einkum var mávarunginn hirtur. Allt var þó nýtt til hins ýtrasta. Oft var soðið úr þessu hin fínasta kjötsúpa. Hún fæst ekki betri í dag, en það væri varla hægt að bjóða pizzufólkinu slíkt í dag. Það komu alltaf einhverjir utan úr hverfi á skytterí í Nesinu. Þeir röðuðu sér suður kambinn út undir vita og skutu á allt sem hreyfðist. Sjálfur fór ég á skytterí 13 ára gamall.
ÞórshamarÁ meðan við bjuggum í Nesinu var hér mikil útgerð. Nesvörin þar sem bryggjan er nú var vel nýtt. Hér var líka alltaf landað þegar ekki var hægt að landa í Buðlunguvör. Útgerðaruppgangurinn byrjaði á árunum 1927-28. Byggð voru fiskhús ofan við vörina. Að staðaldri voru gerðir út 12-14 bátar þegar mest var. Þeir voru m.a. Hrauni, Þórkötlustöðum, Klöpp, Buðlungu, Einlandi og öðrum Þórkötlustaðahverfisbæjum. Aðalútgerðin stóð yfir frá miðjum febrúar og mars og síðan var vorvertíðin í maí. Sumir réru líka héðan svo til allt árið, s.s. frá Hrauni, og þá á færi.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Þórshöfn.

Á sumrum var venjulega róið á minni bátum. Aflinn var bæði þurrkaður og saltaður. Stundum var seldur slægður og jafnvel óhausaður fiskur til Reykjavíkur. Það fór bara eftir aðstæðum á hverjum tíma. Sími var í Höfn, en símstöðin í Sólbakka uppi í hverfi. Öll verslunin fór í gegnum símann, einkum eftir að vörubílar fóru að fara á milli staða. Þá var hringt í Höfn og krakkarnir síðan látnir hlaupa eftir formönnunum og sækja þá í símann. Það voru þegar fiskkaupmennirnir sem voru að panta. Þessi hlaup lentu yfirleitt á Stella systur minni. Einar Þorgilsson í Hafnarfirði keypti t.d. talsverðan fisk af þeim.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – Þórshamar 2020.

Fólk kom víða að á vertíð, jafnvel frá Vestjörðum. Þetta fólk bjó á viðkomandi bæjum. Í Höfn var t.a.m.um 25 manns þegar mest var. Hér var því mannmargt í litlu húsi.
Fornar minjar í StrýthólahrauniÁður lentu bátanir í Nessvörinni og var fiskurinn þá áður seilaður út á Bótinni, aflinn síðan dreginn í land og honum síðan skipt á skiptivellinum ofan við vörina. Hver varð síðan að bera sinn afla upp að skúrunum. Fyrsti skúrinn var byggður um 1928, sennilega af fólki frá Einaldi. Mörg handtökin voru við fiskinn eftir að honum hafði verið komið í land. Á meðan ég átti heima í Nesi var mest um að fiskurinn væri saltaður, enda bera saltþrærnar þess glögg merki. Allur þorskur og ufsi var t.d. flattur og saltaður. Einnig var eitthvað um að fiskur væri þurrkaður þegar vel veiddist. Miklir þurrkgarðar voru sem dæmi beint upp af bryggjunni, svonefndir Hraunsgarðar.

Þórkötlustaðanes

Lending á Þórkötlustaðanesi – bryggjan.

Bryggjan, um 70 metra löng og 10 metra breið steinbryggja, var síðan byggð um 1933 enda vélar þá komnar í flesta báta. Fiskinum var eftir það kastað upp á bryggjuna og af henni upp á bíla. Gamall Fordbíll var til í Höfn um tíma, en hann grotnaði síðar niður undir húsgaflinum. Þá var keyptur bíll í félagi útgerðarmannanna, nefndur “félagsbíllinn”. Á honum var fiskinum ekið upp í fiskhúsin.
Þegar snjóaði á vetrum hlupu menn út og veltu snjóboltum og rúlluðu inn í ískofana. Snjórinn var notaður í kæligeymslurnar, en þær voru tvöfaldir hólfaðir kassar. Hólfin, sem voru ca. 20 cm breið, voru fyllt af snjó og salti stráð í. Með því var hægt að halda bjóðum og beitu frosinni. Bætt var á snjó og salti eftir því sem bráðnaði.
Spilið á NesinuÁður en bryggjan var byggð voru bátanir drengir á land upp á kambinn norðan hennar. Síðan, þegar stokkarnir voru byggðir um 1938-1939, skömmu áður en bryggjan var lengd, voru bátanir dregnir upp á þeim og raðað á kambinn ofan við þá. Spilið, sem enn sést, sá um það. Það var bensinvélarknúið með Ford-vél. Vélarhúsið við það er horfið. Járnkengir framan við spilið voru til að stýra uppsetninguni. Þá var blökk hengd í hvern kenginn á eftir öðrum og bátanir dregnir upp eftir því sem þeir komu að landi.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – lifrabræðslan.

Þegar bryggjan var lengd voru ker forsteypt uppi á kambinum og þeim rennt niður stokkana og síðan sökkt ofan á sandpokahleðslur, sem búið var að raða undir þau af kaförum.
En eftir að grafið hafði verið inn í Hópið úti í hverfi árið 1939 og alvöru hafnargerð hófst þar innan við eftir 1944, voru flestir hættir að gera út hérna. Segja má að útgerðin hafi verið aflögð árið 1946. Höfn var flutt út í Járngerðarstaðahverfi árið eftir. Arnarhvol var svo flutt þangað árið eftir, en húsið hafði verið byggt í Nesinu um 1930. Það stendur nú að Arnarhrauni 2.
Bára á BótinniJóhann vitavörður Péturssson bjó um tíma í Þórshamri, en húsið var byggt laust eftir 1930. Eftir að flutt var úr hinum húsunum í Nesinu var Jóhann eitthvað að breyta veggjum hjá sér. Varð það til þess að einn þeirra féll á hann og slasaði hann talsvert.
Fiskbyrgin og garðarnir fjölmörgu í Strýthólahrauni voru notaðir löngu áður en ég fæddist. Ekkert var þurrkað þar í minni tíð í Nesinu. Strýthólaranir eru syðst í hrauninu, en Leiftrunarhóll austast, suðaustan við Þórshamar.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Helsti hlífðarfantaður sjómanna voru stakkar, sjóhattar og klofstígvél. Ullavettlingar voru á höndum. Alltaf þurfti að eiga slatta af þeim því þeir þófnuðu og urðu fljótt of litlir, auk þess þeir áttu það til að harðna. Konurnar sátu við og prjónuðu á karlana.

Strýthóll

Efri Strýthóll.

Sums staðar þurftu húsbændurnir að skaffa sjómönnunum vettlinga og jafnvel annan fatnað sem og kost. Útgerðarmennir uppi í hverfi og á Hrauni komu gangandi suður í Nes snemma á morgana þegar gaf og fóru síðan fótgangandi heim aftur á kvöldin.
Flestar minjar í Nesinu eru gömlu hlöðnu ískofarnir, fiskhúsin, lifrabræðslan og grunnar beitningaskúranna. Lifrabræðslan var að mig minnir byggð um 1934-35. Öll lifrin var brædd. Guðmann Guðmundsson í lifrabræðslunni keypti alla gotu. Hann bjó í bræðslunni, í skúr nyrst í bræðslunni, kölluð kompan. Þar svaf karlinn á einum bedda. Seldi malt og appelsín.

Grútartjörnin eða Grútarskotti var norðan við lifrabræðsluna. Hún þornaði á sumrum þegar ekkert var verið að vinna þar. Þá kom fyrir að grúturinn væri skorinn upp og hann notaður í eldinn. Hann var reyndar ekki notaður af fólkinu í Nesinu, en fólk kom utan úr hverfi og sótti grút í eldinn. Ég man sérstaklega eftir einum karli, sem það gerði.

Þórkötlustaðanes

Athafnasvæðið í Nesinu – uppdráttur ÓSÁ gerður eftir Pétri Guðjónssyni í Höfn.

Aðvitað man maður eftir nokkrum minnistæðum einstaklingum í útgerðinni. Sumir þóttu gamansamir. Gísli á Hrauni var einn þeirra. Hann sagði í seinni tíð um hvað gera ætti við fiskinn. Eitt sinn þegar hann kom inn skúr Sveinbjörns nokkurs, svipti hann upp hurðinni og fylgdi því eftir með eftirfarandi orðum: “Það á að hausa hann Sveinbjörn”. Margar sögur eru til sem gaman væri að rifja upp síðar.
Vegurinn náði að húsunum, en hestvagnsvegur var þá út að vita og síðan út að vörðunni Siggu á vestanverðu Hópsnesi.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – örnefni.

Vitinn hafði verið byggður á fyrstu árum aldarinnar. Ruddur slóði var út að honum, en hann var síðar lagaður. Nú er kominn hringvegur um Nesið.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – minjar á Kóngum. Höfn fjær t.h.

Innsiglingavörðurnar voru fyrir framan við Buðlungu, þar sem steypti veggurinn er nú, og önnur upp í heiðinni. Eftir þeim var siglt inn í djúpsundið. Síðan var vent til vesturs þegar komið var á móts við innsiglingavörðurnar ofan við Nesbryggjuna. Á þeirri siglingu braut yfirleitt á hlið á bátnunum, sem gat stundum verið slæmt. Að jafnaði var ekki mikið um brim inni á Bótinni. Hins vegar braut oft talsvert sitt hvoru megin, einkum ef eittvað var að veðri. Auðvitað komu hér líka mjög slæm veður. Ég man þó ekki eftir að bátur hafi brotnað á siglingu inn, en í miklum veðrum gekk sjórinn upp á og inn yfir kambinn. Og það kom fyrir að skip, sem þar stóðu, brotnuðu. Ég man eftir því er sjórinn braut hliðar í skúrum næst sjónum í afar vondu veðri, t.d. á skúr afa þíns, hans Árna í Teigi.
Minjar á NesinuHeilmikil útgerð var líka við Flæðitjörnina norðan við Þórshamar. Aðalleiksvæði barnanna var við tjörnina og þar var verið öllum stundum, ýmist við róðra, veiðar og aðgerð. Bóklærdómurinn fór því oft fyrir lítið. Ef ekki var verið við tjörnina var farið niður á bryggju eða út með ströndinni.
Mikil hleðsla var ofan við uppsátrið. Hún var hirt upp á vörubíl, líkt og aðrar hleðslur og garðar í og við Grindavík þegar þegar verið var að gera bryggjuna í Hópinu. Við vegginn var hlaðinn djúpur brunnur, sem sjór var sóttur í fyrir fiskþvott. Við hann var dæla, sem notuð var til að dæla sjónum upp upp úr. Nú er búið að sturta yfir brunninn.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes – leifar lifrabræðslunnar.

Þetta voru ágætis ár þrátt fyrir erfiða tíma á stundum. Allir urðu að hafa eitthvað fyrir stafni. Erfitt gat verið að sækja sjóinn, en þau voru líka mörg handtökin í landi.
Þegar grafið hafði verið inn í Hópið breyttist allt. Þá lagðist allt af í Þórkötlustaðanesinu og atvinnulífið færðist út í Járngerðarstaðahverfið.

Þórkötlustaðanes

Þórkötlustaðanes/Hópsnes – uppdráttur ÓSÁ.

Nú standa minjarnar hér eftir sem tákn hins liðna – en eftirminnilega.

-Ómar Smári Ármannsson skráði. (Birtist í Sjómannadagsblaði Grindavíkur 2003).

Vitinn á Þórkötlustaðanesi

Vitinn á Þórkötlustaðanesi. Vitinn hefur einnig verið nefndur „Hópsviti“. Nesið skiptist í tvennt; annars vegar Hópsnes að vestanverðu og Þórkötlustaðanes að austanverðu. Mörkin liggja um Markalón við Markastein í fjörunni u.þ.b. 60 m vestan við vitann og þaðan í Hagafell. Vitinn er því allur í Þórkötlustaðanesi.

Óskar Aðalsteinsson

Gísli Sigurðsson ræðir við hjónin Hönnu Jóhannsdóttur vitavörð og Óskar Aðalstein fyrrum vitavörð á Horni og í Galtarvita um ýmis fyrir bæri þessa heims og annars. Viðtalið átti sér stað þegar Hanna var vitavörður í Reykjanesvita. Hér birtist hluti þess:

Hanna Johannsdottir-1„Ætlar ekki telpan að koma með ykkur inn?“
„Hvaða telpa“, spurði ég forviða.
„Telpan, sem er með ykkur í bílnum“, og Óskar Aðalsteinn bendir á mannlausan bílinn.
„Það er engin telpa með okkur“, áréttaði ég; „hún er að minnsta kosti ekki þessa heims. Hvernig lítur hún út?“
„Hún er með kastaníubrúnt hár og klædd í röndótt pils. Látum það vera; maður sér svo margt og hér við Reykjanesvitann ber ýmislegt fyrir augu. Þetta er eins á torgi lífsins. Stundum allt fullt af fólki. Og fegurðin, — allir þessir hreinu litir. Já, eins og á torgi lífsins. Æjá, ég var að vakna, þegar þú bankaðir. Var að skrifa einn kafla í bókina og lagði mig á eftir. Verst að Hanna er ekki heima. Hún rétt skrapp til Grindavíkur og hlýtur að fara að koma. Hún á að taka veðrið eftir smástund og verður hér á mínútunni. Nú skreppur hún í kaupstað, þegar með þarf. Það er einhver munur eða í Galtarvita. Annars kunnum við alltaf vel við okkur þar, enda búin að vera þar í 24 ár“.
Reykjanesviti-221„Og eftir öll þessi ár ertu orðinn vitavörður á Reykjanesi?“
„Nei, konan mín er tekin við. Hanna er vitavörður í Reykjanesvita og ég er bara goskarl hjá henni, enda tími til kominn. Hún er fyrsta konan á Íslandi, sem skipuð er í embætti vitavarðar. Áður var hún búin að vera aðstoðarvitavörður í Galtarvita og þekkti þetta allt vel. Ég er bara að skrifa og held, að ég sé með efni í ágæta bók. Hún kemur út í haust ef guð lofar og Guðmundur Jakobsson. Það er gott að skrifa hérna. Og gott að rölta um hlaðið og sjá útsýnið. Ég tek menn tali og segi þeim frá kríunni. Hún verður eins og voldugt herlið, þegar líða tekur að hausti, — mikill fjaðraþytur, enda langt flug framundan. Já, þetta er eins og leiksvið, — þannig verkar það á mig: Þessi vin hér í auðninni, hóllinn með tígulegum vitanum og heitir víst Bæjarhóll… bíddu annars; við skulum hafa allt á hreinu og fletta þessu upp í bók. Það er allt um þennan stað í Ferðafélagsárbókinni frá 1936.“
Í þeim svifum kom Hanna vitavörður á Skódanum austan úr Grindavík og með henni ungur drengur, sem er til heimilis í vitavarðarhúsinu ásamt með þeim hjónum. Hann kallar þau afa og ömmu, en er raunar kjörsonur eiginkonu sonar þeirra. Hanna tilkynnir um veðrið, ber gestunum kaffi. Allt hennar fas vitnar um festu og örugg tök á hverju verkefni.
Óskar Aðalsteinn: „Nei, hér sé ég, að hann heitir Húshóll. Og vitinn verður 100 ára nú í desember. Kannski verður þá haldin veizla. Reykjanesvitinn var fyrst reistur á Valahnjúk, sem skagar út í sjóinn og sést hér út um gluggann.

Reykjanesviti-223

En eftir snarpar jarðhræringar þótti ekki ráðlegt að hafa hann þar lengur og þá var hann endurreistur á Húshól.“
Hanna er dóttir Jóhanns Loftssonar á Háeyri á Eyrarbakka og áður í Sölkutótt á sama stað. Jóhann var formaður framanaf og átti fyrsta bílinn, sem komst upp Kamba. Óskar Aðalsteinn er aftur á móti frá Ísafirði og hefur þar til nú átt heima á Vestfjörðum. Hann hefur sinnt ritstörfum jafnframt vitavörzlu og hafa alls komið út eftir hann 15 bækur: sú fyrsta 1939.
Óskar Aðalsteinn: „Aðal vitaævintýrið hófst þegar ég gerðist vitavörður í Galtarvita við Súgandafjörð. Sú varðstaða stóð í 24 ár. Við vorum orðin mjög rótgróin þar eins og nærri má geta. Galtarvitinn stendur á allháum sjávarbakka í Keflavík; sá víkurkriki skerst inní hálendið norðan Súgandafjarðar.
Yfir vitann gnæfa fjöllin Göltur og Öskubakur; hamraborgir, þar sem hvert klettabeltið tekur við af öðru frá sjávarmáli Galtarvititil efstu brúna. Líkt og á Horni er Galtarviti með afskekktustu byggðu bólum á landinu. Þar ríkir sú þögn, sem aldrei verður fundin í fjölmenni. En það er í henni hreyfing, ljúf og góð, sem líkja má við bylgjuhreyfingu túngresis á lognkyrrum sumardegi. Og útnesjaþeyrinn á vorin; enginn lýsir honum svo viðhlýtandi sé.
Við Galtarvita er mjög magnað og dulrænt umhverfi; hafi maður þá gáfu að sjá það sem oft er kallað einu nafni huldufólk, er maður aldrei einn. Í nánd við vitann er ein af meiriháttar álfabyggðum á landinu; þar eru Hulduhvammar, Álfhólar, Tröllaborgir og Dvergasteinar. Og álagablettir eru þar um allt. Sögur af samskiptum manna og huldufólks á þessum stað eru flestar fallnar í gleymsku, en sumar lifa enn; til dæmis sagan um litlu telpuna, sem týndist og var síðan skilað og ekki hægt að sjá á þriðja degi, að neitt hefði fyrir hana komið. Talið var að álfkona hefði lagt ofurást á barnið og hnuplað því, en skilað aftur þegar hún sá hræðsluna og sorgina á bænum. Mér fannst huldufólkið við Galtarvita bæði gott og listrænt. í Keflavíkurhól var heil sinfóníuhljómsveit.

Hornbjargsviti

Slíka tóna hef ég aldrei heyrt og þeir voru ekki frá venjulegum hljóðfærum. En þar var líka vera af öðrum toga, sem átti eftir að halda tryggð við okkur æði lengi. Á Horni var slangur af verum á sveimi, þar á meðal Breti, sem gekk þar ljósum logum og vildi helzt vera í fjósinu. Ég talaði oft við hann, sem var erfitt, því hann talaði ensku og ég ekki nógu harður af mér í því máli. Ég var alltaf að hvetja hann til að koma sér áfram til æðri heimkynna, en hann var svo jarðbundinn. Hann hefur líklega ekki kunnað sem verst við félagsskapinn við okkur, því hann fluttist með okkur til Galtarvita og einnig þar hélt hann sig í fjósinu. Ég kallaði hann alltaf Gumma og hann var eins og einn af heimilisfólkinu. Stundum stóð hann við bæjardyrnar og þá sagði ég: „Farðu nú frá Gummi minn, — mér leiðist að ganga í gegnum þig. Ég verð alltaf svo þungur af því. Þú ert svo baneitraður“. Gummi var bezta grey. Lengi vel talaði hann bara ensku.

Reykjanesviti-330

En eftir rúm tuttugu ár var hann töluvert farinn að tala íslenzku og tók framförum. Einu sinni var ég að koma einsamall á báti frá Súgandafirði, þegar vélin bilaði og ég utanvið mig eins og vant er og hafði gleymt að taka árar með. En þá er Gummi allt í einu kominn um borð og knýr bátinn áfram á fullum hraða með fótunum. Hann virtist vita á undan okkur, þegar það skref var tekið að flytja frá Galtarvita og var mjög óánægður, þegar við fórum. Ennþá hefur hann ekki sést hér við Reykjanesvita.
„En eru ekki huldubyggðir hér við Reykjanesvita?“
„Ég hef séð huldufólk hér nærri, en lítið náð sambandi við það, nema einn ungan mann.
Það er truflandi hér, einkum austur undir Grindavík, hvað mikið er um svipi látinna manna. Nokkru áður en við fluttumst að Reykjanesvita, átti ég Reykjanes-brim-2leið hingað frá Grindavík. Veður var vont; rigning og dimmviðri. Þá sá ég einhverja furðulegustu sýn, sem fyrir mín augu hefur borið: Öldur bárust á land, brimöldur og í þeim fjöldi manns, sem barst uppí sjávarlokin. Þessir menn engdust og fórnuðu höndum, — þó var sem þeir væru gagnsæir. Þeir gáfu frá sér lág, en gífurlega sterk hljóð. Ég er ýmsu vanur af þessu tagi, en þarna fylltist ég óhugnaði og varð smeykur. Síðar hef ég oft farið í allskonar veðri til Grindavíkur og alltaf orðið var við eitthvað.
Hér í íbúðarhúsinu hef ég orðið var við karl og konu, sem ganga í gegn annað slagið, en tala ekki við mig. Helzt vildi ég að þau hyrfu og að við gætum fengið að vera hér útaf fyrir okkur. Um það vil ég ekki segja annað í bili.
En hér í kring er allt kvikt og fullt af ljósum, þegar rökkva tekur og það er bara til ánægju. Það eru lituð ljós, oft blá eða ljósgræn og öðruvísi en okkar ljós„.
„En álfar?“
„Ég veit ekki, hvort maður á að kalla það álfa. Líklega hef ég ekki komizt í kynni við þessa blómálfa, sem sumir hafa séð. Aftur á móti sé ég smáfólk, mjög elskulegt og óvíða meira um það en einmitt hér við Reykjanesvitann. Ég veit ekki hvort það er huldufólk. Maður sér það í nánd við uppsprettulindir og eftir að rökkva tekur eru oft heilir skarar að leikjum í nánd við hverina, — það dansar og skemmtir sér. Það er fyrst og fremst þetta, sem er sérstakt við umhverfi Reykjanesvitans.

Reykjanesviti-332

Ég fer varla svo út í ljósaskiptunum, að ég sjái ekki heilu hringdansana: Karlmenn í grænum, rauðum og bláum kirtlum, en kvenfólkið hvítklætt og með slæður. Þetta er mjög fallegt fólk; aðeins smærra en við. Stundum koma hingað heilar fylkingar, sem virðast ná allt upp til fjallanna innar á skaganum. Einn og einn hefur komið til mín án þess að tala til mín. En þeir vita af mér og þeir vita, að ég sé til þeirra. Smáfólkið aftur á móti; það er öðruvísi og við suma þar hef ég talað. Það er tvennskonar, sumt saklaust og elskulegt og virðist lifa áhyggjutaust frá degi til dags. En svo eru þeir, sem sitja löngum hjá villtum blómum og lifa mikið í hugsuninni. Þeir hafa hvatt mig til að skrifa bókina þá arna, sem nú er í smíðum. Þetta er gott fólk og enginn ótugtarskapur er þar á ferðinni. Og það vil ég segja þeim, sem ekki sjá og efast eðlilega, að þeir hefðu gott af návistum
við þetta fólk aungvu síður. Það gerir maður með því að hverfa til svona staða úti í náttúrunni og setjast niður. Fyrst kemur smáfólkið og kannar stemmninguna, en svo koma aðrir stærri og gefa manni styrk.
Sumt huldufólk hefur þá gáfu til að bera, að það skapar eitthvað úr engu og lætur það eyðast jafnóðum. Sumir skrifa til að mynda með fingrinum út í loftið og þá verða til myndir í litum, en eru við lýði í skamma stund og leysast þá upp. Á sama hátt virðast þeir geta skapað sér hús, sem aðeins standa um stundarsakir.

Reykjanesviti-334

Einstaka sinnum hef ég upplifað það fyrirbæri að fara sálförum, sem kallað er og þó nokkrir hafa reynt og skýrt frá. Það er afar einkennileg reynsla. Hjá mér hafa þetta verið minni háttar sálfarir að ég held, utan einu sinni, að ég brá mér á kreik svo um munaði. Þá fann ég vel eins og fleiri hafa lýst, hvernig ég losnaði við líkamann og gat horft á hann úr fjarlægð. Síðan hvarf ég á brott og kom í borg, sem ég þekkti ekki og var heldur ekki þessa heims. Hún var alveg ólík þeim borgum, sem við þekkjum, bæði að gerð og efni. Mér þótti sem þar ætti að fara fram ráðstefna og allt í einu var ég kominn á þessa ráðstefnu, sem vann að því að magna upp straum til að bjarga einhverju á jörðinni að ég held. Þarna myndaðist einn vilji; ég hafði vitund þeirra hinna og þeir mína. Á eftir tóku allir í hendina á mér, leifturhratt en þægilega og á eftir leystist borgin upp án þess að hljóð heyrðist. Alltaf hafði ég á tilfinningunni samband við líkamann, en ég varð ekki var við neinn þráð eins og sumir hafa talað um. Um tíma var ég staddur í tómarúmi og var skelkaður og ég minnist þess greinilega, þegar ég fann líkamann aö nýju og smaug inn í hann.“
Hanna: „Þetta átti sér nokkuð oft stað, meðan við bjuggum í Galtarvita, en það ber minna á því hér. Það er næstum því óhugnanlegt að horfa á hann í þessu ástandi. Hann virðist í fyrstu falla í trans eða djúpan svefn, en eftir dálitla stund opnast augun. og þá er hann mjög uppljómaður á svipinn.
Það er þá eins og hann vakni til annars heims og talar þá eitthvað, sReykjanesviti-336em ég skil alls ekki. Þetta ástand varir í fimm til tuttugu mínútur og það er eins og hann haldi í hendina á einhverjum á meðan. Hann virtist alltaf tala við sama fólkið og af lýsingum hans þóttist ég vera farin að þekkja, við hverja hann var að tala. Svo dró allt í einu af honum; hann slappaðist allur og lá eins og dauður maður, ýmist með augun opin eða lokuð. Fyrir kom, að ég hélt hreinlega, að hann væri látinn og fór þá að reyna lífgunartilraunir“.
Óskar Aðalsteinn: „Á eftir man ég yfirleitt vel, hvað hefur gerst. Það er rétt, að ég hitti og ræði við sama fólkið; það er á sjöunda sviði frá jörðu. Sjálfsagt finnst einhverjum það hljóma undarlega. En þarna er unnið að jákvæðum áhrifum og þar er kona, sem mestu ræður. Sjálfur hef ég þegið hjálp, sem þaðan kemur. Á tímabili var ég oft með verk og óþægindi fyrir hjarta, en það var lagað og ég tel mig vita, hvaðan sú hjálp kom.“
Hanna: „Eftir að við fluttum á Reykjanes, hef ég minna orðið vör við þetta fyrirbæri, en þaö átti sér oft stað á árunum, sem við vorum í Galtarvita. Ég skal játa, að ég var talsvert smeyk fyrst, ekki sízt vegna þess að það er ekkert auðhlaupið til læknis úr Galtarvita. Það gegnir öðru máli hér. Sjálf er ég annars eins gersneydd dulrænum hæfileikum og hugsast getur. Ég verð aldrei vör við neitt og er öll í þessu jarðneska. Og satt að segja líkar mér það bezt þannig“.
„Þú hefur haft æfingu í vitavarðarstörfum að vestan og ekki þurft að læra neitt nýtt, þegar hingað kom?“
Gunnuhver-222Hanna: „Frá 1967 var ég aðstoðarvitavörður í Galtarvita og hafði því góða reynslu, þegar hingað kom. Erfiðast er í skammdeginu; maður veit aldrei, hvað fyrir getur komið, ef eitthvað bilar. Vitinn sér að verulegu leyti um sig sjálfur. Í dagsbirtu gefur hann engin merki, en fótósella setur ljósið í gang um leið og skyggir. Bregðist rafmagnið, er dísilstöð til vara.“
„En þarftu að fara ofan að nóttunni til að gá, hvort allt sé með felldu?“
Hanna: „Það er að miinnsta kosti ekki skylda. En ég vakna tvisvar eða þrisvar á nóttu og fylgist þá með ljósinu. Það venst og maður sofnar fljótt aftur. Í Galtarvita vorum við alveg háð vélum. Ljósið í vitanum þar var framleitt með rafmagni frá dísilstöð og lítilli vantsaflsstöð yfir sumarið“.
„Vandistu alveg þessari miklu afskekkt þarna við Galtarvita?“
Hanna: „Þegar illviðri geysuðu þótti mér það dálítið öryggislaust, en reyndin varð sú, að það kom ekki að sök. Við höfum aö verulegu leyti unnið þetta verk saman og allt hefur gengið vel. Stundum er spurt, hvort ekki sé hætta á, að hjón verði leið hvort á öðru í svo mikilli einangrun. En ég tel að svo sé ekki. Sambandið verður mjög náið. Óskar gerði mikið af því aö lesa upphátt fyrir okkur úr bókum. Það var þá skemmtun, sem við upplifðum sameiginlega og svo gátum við rætt efni bókarinnar og gerðum mikið af því.“
Oskar Adalsteinn„Hverjar eru annars daglegar skyldur vitavarðarins?“
Hanna: „Til dæmis það að taka veðrið sex sinnum á sólarhring. Í vitanum verð ég að hreinsa ryk og seltu af gluggum og sjálfri krónunni. Hér er líka radíóviti, sem sendir frá sér mors-merki og ég þarf að fylgjast með honum. Við getum ekki brugðið okkur frá bæði; það er viðleguskylda. Þetta er bindandi ekki síður en að búa með kýr og í rauninni miklu meir.“
Við gengum upp snarbrattan hólinn og síðan upp hringstigann, sem liggur eins og snigill unz komið er að ljósaverkinu. Þar var allt vel málað og hreint og útsýnið fagurt á þessum lognkyrra júlídegi. En þarna er veðravíti eins og gróðurinn sýnir bezt og ólíkt umhorfs í illviðrum og myrkri skammdegisins.
Ég spurði vitavörðinn á leiðinni niður, hvort hún væri ekki smeyk að fara ein upp í vitann í svartamyrkri.
Hanna: „Sem betur fer kemur ekki oft til þess að ég þurfi að fara þangað ein í myrkri. Ég skal játa, að ég mundi ekki fá mér kvöldgöngu þangað að gamni mínu. Tilhugsunin um það þætti mér ekki þægileg, en þegar á ætti að herða, mundi ég fara þangað eins og ekkert væri og ég býst við að reyndin yrði ekki nærri eins vond og tilhugsunin“.
Óskar Aðalsteinn beið eftir okkur á tröppum íbúðarhússins. Það var tekið að kvölda. Ég spurði: „Er dansinn byrjaður við hverina?“ Skáldið strauk augun og gekk austur yfir hlaðið og skyggndi með höndunum, líkt og menn gera þegar þeir horfa á móti sólu. „Það er í það bjartasta ennþá,“ sagði hann. „en dansinn fer að hefjast. Ég finn hreyfinguna. Er þetta ekki stórkostlegt? Og litirnir, svo hreinir, svo bjartir.
Eins og á torgi lífsins“.

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins, Gísli Sigurðsson, 3. sept. 1978, bls. 8-12.

Vetrarsólhvörf

Vetrarsólhvörf á Reykjanesi.

Þórshamar

Jóhann Pétursson bjó um tíma í Þórshamri á Þórkötlustaðanesi. Að sögn heimamanna, sem muna þá tíma, virtist hann rammur að afli, en undarlegur í háttum. Orðrómur gekk m.a. um að hann hafi sést standa ofan sjávarkambsins mót strekkingsvindi og hvitfyssandi ölduróti, baðandi formælandi út öllum öngum. Í bók Pjeturs Hafsteins Lárussonar „Frá liðnum tímum og líðandi“ er áhugavert viðtal við Jóhann þar sem hann minnist m.a. veru sinnar á Nesinu.

Jóhann Pétursson

Jóhann var bókasafnari og lengi vitavörður í Hornbjargsvita. Hann hafði óslökkvandi ást á bókum, enda ber viðtalið yfirskriftina „Ég vil að góðar bækur séu vel klæddar, eins og konur, sem ég elska“. Jóhann fæddist í Stykkishólmi árið sem Katla gaus, frostaveturinn mikla árið 1918, og ólst upp í Öxney á Breiðafirði. Hann hélt suður 1946 eða 1947, að eigin sögn, til að höndla með bækur. Þá skrifaði hann og bækur, auk þess sem hann keypti fornbókaverslun og hafði það fyrir atvinnu fram til 1960. Þá hélt hann sem vitavörður norður á Hornbjarg, þó með viðkomu í Grindavík, þar sem hann var næstu 25 árin. Hér verður gripið niður í viðtalið þar sem segir frá sögufrægu viðstaldri hans í Grindavík.
„En áður en leið þín lá vestur, varstu um tíma í Grindavík. Varð þá ekki skipsskaði á Reykjanesi, sá hinn sami og Hannes Sigfússon skrifaði síðar um skáldsöguna „Strandið“. Og varst þú ekki þar?
-Jú, það er rétt, þá var ég í Grindavík. Strandið varð á Reykjanestá, mig minnir að þetta hafi gest árið 1949. Ég fór þangað ásamt fleirum, til að taka þátt í björguninni. Skipið sem strandaði, var u.þ.b. 10.000 olíuskip. Það hét Clam. Vélin í því hafði bilað og dráttarbátur sótti það til Reyjavíkur, því ætlunin var, að sögn, að draga það til útlanda. En þegar skipið og dráttarbáturinn voru út af Reykjanei, þá slitnaði dráttartaugin. Það var ekki hvassviðri, þannig að hugsanlega hafa menn verið ákveðnir í því að láta skipið stranda. Hvað um það, skipið rak upp að klettum, þar sem var svo aðdjúpt, að maður gat gengið út á skipið á planka. Ég var fyrstur til að fara út í skipið.
Það var merkileg reynsla á margan hátt. Ég man eftir því, að fjandi margir hásetar fórust þarna. Það var ekki veðrinu að kenna. Skipstjórinn lét Clam á strandsstað utan við Reykjanessetja út bátana, en þeir brotnuðu meira og minna, ýmist uppi við skipssíðuna eða í brimgarðinum. Við vorum að reyna að draga mennina upp, einn og einn, sem komst lifandi að klettunum. Hannes vinur minn skáld, Sigfússon, náði í hárið á einum, en var svo hræddu um, að hann drægi sig niður í sjóinn, að hann sleppti honum. Þar með var sá dauður, en Hannes hljóp burt. Ég man ekki hverrar þjóðar yfirmennirnir á þessu skipi voru, en Evrópumenn voru þeir alla vega ekki, sennilega Bretar. Hásetarnir voru hins vegar Kínverjar.
Það rak mikil verðmæti úr skipsflakinu. Júlli Dan. í Grindavík var fenginn frá tryggingarfélaginu, til að hirða allt og keyra það suður. Meðal annars rak frystiklefa, fullan af dýrmætum matvælum fyrir sextíu manna áhöfn. Þessu var öllu stolið og flestu öðru, sem bjargað varð. Þetta atvik var sambland af harmleik og skepnuskap.
ÞórshamarSumir vilja meina, að þú hafir bjargað líkamsleifum drukknaðra sjómanna og að eitthvað hafi dregist að koma þeim til greftrunar. Hvað er hæft í því?
-Já, það er nokkuð til í þessu. Það rak þó nokkuð af líkum Kínverja fyrir höfðann, þar sem þau höfnuðu í vík, að sunnanverðu við nesið. Víkin er svolítið klettótt og því var erfitt að draga líkin á land. Ég man eftir því, að Hannes hafði náð taki á einu líki en missti það. Þegar það skall í sjóinn, snerist það við og andlitið blasti við mér. Þetta var dálítið óhugnanlegt, allt saman. Ég fór með líkin niður í Grindavík og vildi láta grafa þau. En því var eiginlega neitað að koma þessum dýrum í gröfina. Þó var nú endanleg útkoma sú, að þarna voru mennirnir grafnir.
Varðst þú þá að geyma líkin, meðan stóð í stappi að fá þá grafna?
-Nei, ég fór með þau í frystihúsið og þar voru þau látin vera á borðum í ákveðnu herbergi. Nú, en þarna í frystihúsinu var frystiklefi, þar sem mikið var fryst af matvælum fyrir þorpsbúa.
Sú saga komst á kreik, að ég hefði geymt líkin í Þórshamar í dagþessum klefa, innan um matvælin. Og þær voru fleiri, sögurnar, sem gengu af þessu tilefni. Ein var sú, að draugagangur hefði verið í húsinu hjá mér. Samkvæmt þessari kjaftasögu átti ég að trúa því, að draugar fældust lík. Þess vegna hefði ég tekið hauslausan Kinverja og komið honum fyrir heima hjá mér, sem draugafælu. Nei, það vatnar ekki skáldagáfuna í fólk, þegar Gróa á Leiti gengur lausum hala.
En hvað varst þú að gera í Grindavík, þegar þessir atburðir urðu?
-Það var þannig, að ég hafði keypt hús þarna í Grindavík, Þórshamar hét það. Sannleikurinn er sá, að ég fór þangað til að gera upp áhrif móður minnar á mig, en þau voru mikil. Hún var mikil trúkona, en ég efaðist í þeim efnum. Að minnsta kosti var mín trú ekki jafnstaðföst og hennar. Þettavar því ekki aðeins uppgjör við móður mína, heldur einnig við sjálft almættið. Og það gekk svo mikið á í þessu uppgjöri, að stundum æddi ég um gólf, steytti hnefa til himins og bókstaflega öskraði á Guð.
Svona haga sér nú varla aðrir en trúmenn, eða hvað?
Þórkötlustaðahverfi og Bótinn og Þórkötlustaðanes fjær-Þetta er fjandi lúmsk spurning, segir Jóhann og verður nokkuð hugsi, áður en hann heldur áfram. – Trúmaður og trúmaður. Trúa á hvern andskotann? Já, eins og ég sagði, móðir mín var ákaflega mikil trúmanneskja og hafði eflaust mikil áhrif á mig sem barn. Og einhvern veginn mótaði þetta mig. En svo mikið er víst, að þegar ég keypti húsið þarna í Grindavík og bjó þar um tíma, þá háði ég baráttu um þetta upp á líf og dauða. Eiginlega kom ég mikið heilli maður út úr þessu. En þetta var mikil tilfinningaleg og sálræn barátta.
Lendir nokkur maður í slíkri baráttu, nema trú hans sé nokkuð sterk?
-Nei, nei, svarar Jóhann. – Það er einfalt mál. Samt er þetta, að trúa sterkt, nokkuð tvírætt. Móðir mín mótaði mína trú og þessi trú varð dálítið mögnuð fyrir áhrif frá henni. En hvort trú mín var sterk út frá þeirri forsendu einni eða hinu, að hún væri algjörlega meðfædd sannfæring, það er ég ekki viss um.
Varð ekki nokkuð sögulegur endir á búsetu þinni í Grindavík?Innsiglingamerki við Þórshamar - skammt frá reykhúsinu (mynd af því mun birtast hér innan skamms)
-Jú, það er víst alveg óhætt að segja það. Þetta hús, sem ég keypti þarna, Þórshamar, var steinhús. Það var þannig, að eitt haustið ætlaði ég að breyta því. Það var veggur á milli stofunnar og eldhússins. Og á miðjum þessum vegg var skorsteinn. Ég ætlaði að stækka stofuna, með því að brjóta niður þennan vegg. En þegar ég hafði brotið hann öðrum megin við skorsteininn og var rétt byrjaður hinum megin, þá sá ég, að veggurinn féll. Í einhverju ofboði gat ég kastað mér áfram, í átt að útvegg. Í stökkinu skall veggurinn á mér, en það sem bjargaði mér, var það, að á miðju gólfinu var stór steinhrúga. Veggurinn brotnaði á þessari hlrúgu, og það mildaði höggið á mig. Engu að síður hryggbrotnaði ég og fótbrotnaði.
Þarna lá ég eins og djöfulsins aumingi. Þó gat ég skriðið út að holu, sem var uppi við reykhús, sem fylgdi húsinu. Það er nú svona útúrdúr, en ég var stundum að reykja fyrir kerlingar þarna, bæði kjöt og fisk. En ég kunni ekkert með þetta að fara og eyðilagði allan mat fyrir þeim. Nú, nú, en hvað með það, þarna í holunni lá ég í hálfan annan sólarhring í snjókomu og frosti. Ástandið var meira að segja svo bölvað, að í holunni var pollur með ófrosinni vatnsdrullu. Og ofan í þessum polli lá ég með mölbrotna ristina, sem fossblæddi úr.
Sá, sem fann mig, var hundur. Ég var næstum meðvitundarlaus, þegar ég raknaði úr rotinu við það, að hann sleikti á mér andlitið. Ég heyrði, að karl einn var að kalla í hundinn. Mér tókst að gefa frá mér hljóð, þannig að karlinn kom. Ég man bara, að hann ákallaði Guð. Síðan man ég ekki annað en það, að ég var borinn inn á spítala. Ég átti lengi í þessu og enn þann dag í dag er hryggurinn á mér eins og hálfgert S í laginu. Já, það er margt, sem maður hefur orðið að skríða upp úr um dagana, segir Jóhann Pétursson.
Nú er Grindavík ekki ýkja langt frá Reykjavík, vildi það ekki brenna við, að ungskáld þess tíma litu við hjá þér?
-Jú, heldur betur. En það er ástæðulaust að fjalla sérstaklega um það. Þó sakar ekki að geta þess, að Stefán Hörður, sá öðlingsmaður, dvaldi hjá mér. Og fyrstu nútímaljóðabók sína, „Svartálfadans“, skrifaði hann nær alveg þarna suður frá hjá mér.“ Þórkötlustaðanesviti
Síðar, þar sem sagt er frá samveru þeirra við að gæta fornbókaverslunarinnar Bókavörðunnar fyrir Braga Kristjónsson við Vesturgötu, berst samtalið aftur að dvölinni í Grindavík: „Ég hafði orð á því við Jóhann, að mér hafi þótt lýsingar hans á uppgjörinu við Guð almáttugan, suður í Grindavík, heldur í stórbrotnara lagi. Hann skilur það.
-En svona er nú lífið, segir hann. – Ég veit svei mér þá ekki, hvort mér var alveg sjálfrátt, þarna suður í Grindavík.
Það er þá ef til vill eitthvað til í því, sem sumir segja, að þú sér ekki með öllu mjalla? spyr ég hreint út, enda þætti víst sumum tilefni til, vegna soddan lýsingar á samskiptum við æðri máttarvöld.
-Ég hef aldrei verið það, svarar Jóhann að bragði. – Það er ósköp einfalt mál. Og ég er orðinn svo gamall, að það breytist ekkert úr því sem komið er. Ég lifi og starfa við sama fábjánaháttinn og ég hef alltaf gert.
Heldurðu að þetta sé þér áskapað, eða hefurðu stuðlað að þessu sjálfur?
-Það er hvort tveggja í senn. Mér er að vissu leyti áskapað þetta, en svo hef ég stuðlað að því sjálfur, að svo miklu leyti, sem mér hefur verið það kleift. Enda vill svo til, að þetta mannlega líf er bjánaskapur frá upphafi til enda, 98% er vitleysa og afgangurinn bull.
Þú ert sem sagt ekki hrifinn af því, sem fínt þykir í dag og sumir kalla „normalitet“?
-Svarið lætur ekki á sér standa. – Nei, en ég hef svo sem hvergi rekist á það. Ég rekst aðallega á menn, sem virðast yfirmáta gáfaðir en reynast svo algjörir fábjánar. Og mér líkar það vel, enda er ég hvort tveggja sjálfur.“
Í minni fólks hefur Jóhann jafnan verið tengdur Þórkötlustaðanesvitanum (Hópsnesvitanum) þar sem hann á að hafa verið vitavörður. Ekki er ólíklegt að ætla að svo hafi verið um skeið því sá v
iti var byggður árið 1928 og þarfnaðist umsjónar. Í framangreindu viðtali við Jóhann er ekki að sjá að hann hafi þjónustað vitann, en einmitt af þeirri sjálfsögu ástæðu gæti hafa gleymst að geta þess!

Við framangreinda frásögn vildi Loftur Lónsson í Grindavík bæta eftirfarandi: „Í bókinni  er ekki farið alveg rétt með staðreyndir, Þarna er sagt, að olíuskipið Clam hafi strandað 1949. Hið rétta er að það strandaði 28. febr. 1950 samkv. Morgunblaðinu 1. mars sama ár.  Ennfremur er rétt að geta þess að Jóhann Pétursson var aldrei vitavörður við Hópsnesvita. Á þeim tíma, sem hann var í Þórshamri, er líklegt að vitavörður hafi verið Guðmundur Benónýsson, Þórkötlustöðum.  Allavega var hann fyrsti vitavörður við vitann og Árni Magnússon, Túni (Víkurbraut 32) tók við af honum. Ég efast um að rétt sé, að lík þeirra sem drukknuðu hafi verið geymd í Hraðfr.húsi Grindavíkur. Þau voru örugglega flutt beint inn í Fossvogskapellu. Jón Guðlaugsson frá Skálholti var þá vörubílsstjóri hjá Verslun Einars í Garðhúsum. Hann hefur sagt mér, að eitt sinn þegar hann fór með lík á pallinum inn í Fossvog, að þá stoppaði hann við bensínsölu, sem var efst á Kópavogshálsinum til að taka bensín. Þá kom þar að fullorðinn Kópavogsbúi. Hann ávarpaði Jón og spurði hvaða ferðalag væri á honum. Jón sagðist koma frá Grindavík. „Jæja, eru þeir ekki að fiska vel í Grindavík eins og venjulega“. Hann steig því næst upp á dekk bílsins og kíkti undir seglið, sem var kyrfilega bundið yfir pallinn. Aumingja manninum varð svo mikið um, þegar hann sá hvað var undir seglinu að hann hröklaðist öfugur frá bílnum, spurði einskis frekar og fór þegjandi í burtu.
Þess má geta í lokin, að talið er að flestir þeirra sem dóu við strandið hafi kafnað við það, að svartolía, sem dráttarbáturinn dældi í sjóinn, hafi fyllt vit þeirra sem lentu í sjónum. Það var þykkur, stór flekkur af svartolíu við skipið.“

Heimild:
-Pjetur Hafstein Lárusson – Frá liðnum tímum og líðandi – 2002, bls. 55-82.

Öldurót utar á Bótinni utan við Þórshamar - Ísólfsskáli fjær