Á haustmánuðum árið 2002 var ákveðið af Byggðasafni Reykjanesbæjar og Umhverfis- og skipulagssviði bæjarins að ráðast í fornleifaskráningu fyrir bæjarfélagið. En skylt er samkvæmt skipulagslögum að vinna slíkt verkefni.
Í október var hafist handa og dr. Bjarni F. Einarsson fornleifafræðingur sem rekur Fornleifafræðistofuna ráðinn til þess að stýra verkefninu og Sandra Sif Einarsdóttir þjóðfræðingur til að sinna skráningunni. Við fornleifaskráningu er mikið notast við loftmyndir. Þegar ein slík var skoðuð í nóvember 2002 sá Bjarni form landnámsskála í túninu fyrir aftan Kirkjuvogskirkju í Höfnum og styrktist sá grunur þegar hann fór og kannaði svæðið. Í lok nóvember gerði Bjarni prufuholur í miðju hins meinta skála. Það var gert í von um að finna langeld til þess að staðfesta að hér væri um skála að ræða (langeldar finnast einungis í skálum). Gerðar voru tvær holur og í þeirri seinni fannst langeldurinn á tæplega 1 m dýpi. Bjarni tók viðarkolasýni sem send voru í C-14 aldursgreiningu. Niðurstaðan úr þeirri greiningu var sú að það er hægt að segja með 95% vissu að skálinn sé frá árunum 690-900 e. Kr. Með öðrum orðum skálinn var við lýði á því tímabili.
Í Landnámu segir að Herjólfur Bárðarson, frændi og fóstbróðir Ingólfs Arnarssonar hafi fengið land á milli „Vágs ok Reykjaness“, sem þýðir líklegast að Herjólfur hafi átt land frá Ósum í Höfnum og alveg að Reykjanestá. Vegna þessara tengsla við orðið „vágr“ og nálægðar skálans við Kirkjuvogskirkju, Kirkjuvog og Kotvog var ákveðið að kalla bæjarstæðið Vog. Í skýrslu sem Bjarni skrifaði svo um niðurstöður sínar segir hann frá þeim gruni sínum að fleiri rústir séu í kringum skálann, bæði vegna hóla á svæðinu sem gætu verið merki um rústir og vegna þess að í kringum skála frá þessum tíma eru gjarnan fleiri byggingar og aðrar mannvistarleifar, t.d. fjós, jarðhýsi og öskuhaugar.
Til þess að fá þetta staðfest var ákveðið að jarðsjámæla svæðið. Þær aðferðir á jarðsjámælingum sem í boði eru á Íslandi henta fornleifafræðirannsóknum ekki alltaf nógu vel og eru viðnáms- og segulmælingar venjulega notaðar við slíkt erlendis. Tim Horsley doktorsnemi í jarðeðlisfræði á fornleifafræðisviði háskólans í Bradford, Englandi var því fenginn til þess að framkvæma viðnáms- og segulmælingar á svæðinu. Rannsókn Tim á svæðinu í Höfnum ásamt öðrum sem hann hefur framkvæmt á Íslandi verða hluti af doktorsritgerð hans. Ritgerð hans fjallar um hvort hægt sé að framkvæma slíkar mælingar á Íslandi, en það hefur lengst af ekki verið talið hægt vegna sérstakrar jarðfræði landsins. Rannsóknir Tim hafa hins vegar leitt annað í ljós, þó verða svona mælingar líklega alla tíð mjög erfiðar sökum jarðfræði landsins. Þar sem að frekar djúpt er á fornleifarnar í Höfnum, eða tæpur 1 m þá var ákveðið að fara tvær umferðir með mælitækjunum og eftir þá fyrri taka u.þ.b. 0.5 m ofan af svæðinu til þess að nákvæmari niðurstöður gætu fengist úr rannsókninni og hægt yrði að bera saman niðurstöðurnar úr báðum mælingunum.
Tim viðnáms- og segulmældi 60 x 60 m stórt svæði í kringum landnámsskálann. Niðurstöðurnar sem Tim fékk úr mælingunum voru að auk skálans eru trúlega fimm rústir á svæðinu sem mælt var. Þrjú lítil „hús“ austan við skálann og tvær ógreinanlegar rústir vestan og norðvestan við skálann Eftir að mælingum Tims var lokið var hafist handa við að tyrfa yfir svæðið sem opnað var. Þar sem skálinn liggur var hlaðið upp nokkrum lögum af torfi til þess að líkja eftir útlínum hans. Hraunhellur voru settar nálægt miðju skálans til þess að tákna langeldinn og ein hraunhella sem táknar bæjarhelluna sett við hugsanlegan inngang. Þannig geta gestir og gangandi virt fyrir sér hvernig skálinn getur hafa litið út.
Á skilti við minjarnar stendur: „Árið 2003 fundust á þessum stað tóftir langhúss sem er 18m að lengd og 8 m að breidd. Þá eru greinilegar tóftir fleiri smáhýsa á svæðinu. Við C14 aldursgreiningu fornleifasýna kom fram sterk vísbending um að bærinn hafi verið reistur fyrir árið 900. Frekari rannsóknir eiga eftir að fara fram á svæðinu. Mögulega er hér kominn bústaður Herjólfs Bárðarsonar.
Svo segir í Landnámu: „Herjólfr… var frændi Ingólfs ok fóstbróðir. Af því haf Ingólfs honum land millum Reykjaness og Vágs. Hann sonr var Bárðr, faðir Herjólfs, þess er fór til Grænlands ok kom í hafgreningar.“. Herjólfur, landnámsmaður í Vogi, hefur því verið langafi Bjarna Herjólfssonar sem fyrstur Evrópumanna sá meginland Ameríku.
Reykjanesskaginn allur fellur undir Landnám Ingólfs Arnarssonar. Síðar gaf hann þeim sem hann vildi úr landnámi sínu. Þannig hefur landið sem Herjólfur fékk náð yfir allan Hafnahrepp.
Örnefnið „Vogur“ er væntanlega eldri mynd af „Kirkjuvogi“. Einnig er þekkt örnefnið „Lögrétta“ úr nágrenninu sem talið er að sé undir norðaustur horni kirkjugarðsins.“
Við Kirkjuvogskirkju er annað ankerið af Jamestown, sem náðst hefur upp af strandstaðnum við Ósa. Austan þess var Lögréttan.
Heimild:
-Sigrún Ásta Jónsdóttir forstöðumaður Byggðasafns Reykjanesbæjar.
-Upplýsingaskilti við „landnámsbæinn“ í Vogi (Höfnum).