Færslur

Hraunsnes

Gengið var niður hraunið frá Gamla Keflavíkurveginum skammt austan við Hvassahraun, að Stóra Grænhól, yfir Skógarhól og að Vondaskúta skammt ofan við suðvestanvert Hraunsnes. Ætlunin var að skoða skútann og halda síðan áfram yfir að Lónakoti þar sem Vatnagarðahellir er fyrir, gamalt fjárskjól og brugghellir. Fjárgata liggur niður hraunið vestan við skútann.

Vatnagarðahellir

Vatnagarðahellir.

Elsti hluti Keflavíkurvegarins, Suðurvegurinn, var lagður um 1900. Hluti af efninu var þá tekið úr Litla-Rauðamel. Einnig var efni tekið þar nokkru fyrr þegar unnið var við lagfæringar á gamla Sýsluveginum (JG).
Vondiskúti er undir margklofnum kletti upp af austanverði Hvassahraunsbót. Opið snýr í norður. Fjárgata liggur niður hraunið vestan við hraunhólinn. Skútinn ber nafn með rentu því þar endaði sauður ævi sína fyrir löngu. Skútinn var þyrnir í augum fjármanna sem þurftu sífellt að vera á varðbergi og gæta að fjársafni sínu. Víða má sjá hlaðið fyrir skúta í hraununum til að varna fé inngöngu. Þá eru einnig hleðslur við veggi jarðfalla til að auðvelda fénu uppgöngu ef það á annað borð leitaði þar skjóls. Líf bænda og búanda fyrrum snérist meira og minna við að eltast við og gæta að sérhverjum sauð og sérhverri skjátu því án þeirra var vandlifað í og við Hraunin.
Í Hraunsnesi er einnig fjárskjól undir bakka í grunnu jarðfalli, Hraunsnessfjárskjólið. Hleðslur eru fyrir því. Ofan við Hraunsnesið eru fallegar tjarnir og er ferskvatn í sumum þeirra.

Vondiskúti

Vondiskúti.

Gengið var niður að Markakletti, mörkum Hvassahrauns og Lónakots ofan við ströndina, áfram til austurs með ströndinni, Dulaklettum, framhjá minjunum við Réttarkletta og yfir að Lónakoti. Sunnan þeirra er Grænhólsskjól. Sumir telja að þarna hafi Lónakot verið fyrrum, en aðrir að selstaðan hafi verið flutt þangað úr heiðinni. Aðrir telja að þarna hafi svonefnt Svínakot, sem minnst er á í annálum. Í leiðinni var litið á fjárskjólið í skeifulaga hraunskál skammt sunnan við klettana. Troðningur liggur með ströndinni svo leiðin er nokkuð greið.
Ofan lónanna við Lónakot er Vatnagarðahellir í sunnanverðu jarðfalli. Myndarlagar hleðslur eru þar fyrir.

Vatnagarðahellir

Í Vatnagarðahelli.

Vatnagarðahellir var vetrarhellir Lónakotsbænda, skammt undan bænum, en samt utangarðs. Þar rúmaðist góður tugur fjár sem leitaði sjálft skjóls í óveðrum. Þar sem hellirinn er á mörkum Óttarsstaða og Lónakots gerðu báðir tilkalla til hans. Munnmæli herma að göróttur drykkur hafi verið bruggaður í hellinum á bannárunum. Orðrómur var um allnokkra slíka á Reykjanesskaganum. Einn þeirra er í Hvassahrauni, skammt sunnan við Reykjanesbrautina, en yfirvaldið, Björn Blöndal, mun hafa leitað árangurslaust að honum, enda erfitt að koma auga á opið.
Lónakot var einn Hraunbæjanna.
Haldið var inn á Lónakotsselsstíg og honum fylgt upp á þjóðveginn. Gróðurangan fyllti loftið eftir rigningar undanfarna daga.

Lónakot

Grænhólsskjól.