Það er kominn tími á eldgos – Magnús Á. Sigurgeirsson

Eldgos

Það er kominn tími á eldgos„, sagði Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfæðingur hjá ISOR í viðtali Guðna Einarssonar blaðamanns mbl.is, þann 5. mars árið 2021. “ Haldist sami taktur í eldvirkni Reykjanesskagans og verið hefur síðustu árþúsundin er ljóst að það styttist í að til tíðinda dragi, að mati Magnúsar Á. Sigurgeirssonar, jarðfræðings hjá ÍSOR – Íslenskum orkurannsóknum.“

Magnús Á. Sigurgeirsson

Magnús Á. Sigurgeirsson, jarðfræðingur.

Eldgos hófst síðan í Geldingadölum á Fagardalsfjalli þann 19. sama mánaðar. Gosið var upphaf hrinu eldgosa, fyrst í fjallinu og nágrenni og síðan ofan Grindavíkur, á svonefndri Sundhnúksgígaröð. Þegar þetta er skrifað í lok sept 2025 hafa hrinurnar orðið tólf talsins, þar af níu á Sundhnúksgígaröðinni.
Hér verða af þessu tilefni rifjað upp nefnt viðtal sem og tvö önnur sambærileg við sérfræðinga á sviði jarðfræðirannsókna í aðdraganda eldgosahrinunnar.

Eldgos við Fagradalsfjall hófst, sem fyrr segir, þann 19. mars 2021 kl. 20:45 í kjölfar jarðskjálftahrinu sem stóð í meira en 3 vikur. Öflugasti skjálftinn var 5.8 stig. Gosið kom úr kvikugangi sem náði frá Keili að Fagradalsfjalli. Kvikan fann sér fyrst leið til yfirborðs í Geldingadölum við austanvert Fagradalsfjall nærri Stóra-Hrúti. Eldgosið hefur einnig verið kallað Geldingadalagos eða Geldingadalsgos (þó í raun sé örnefnið Geldingadalir).

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall 2022.

Þann 3. ágúst árið 2022, rúmum tíu mánuðum eftir að eldgosinu við Fagradalsfjall lauk opnaðist um 300 metra löng sprunga við norðanverða Meradali, við norðurenda hrauns sem rann 2021, og nálægt Meradalahnjúkum. Jarðskjálftahrina var vikurnar áður og 3 dögum áður var skjálfti upp á 5,5 nálægt Grindavík. Sprungan sem opnaðist var lengri og gosið öflugra en í síðasta gosi þegar það hófst. Hún þéttist í nokkur gosop og einn aðalgíg fyrstu vikuna. Gosið stóð í um 18 daga.

Sundhnúkseldar eru eldgosahrina sem hófst í desember 2023 við Sundhnúksgíga norðan Grindavíkur og austan Svartsengis. Kvikusöfnun hófst undir Svartsengi í lok október 2023 og stór kvikugangur myndaðist í nóvember.

Sundhnúkar

Sundhnúkagígaröðin 2020.

Nú hafa orðið níu sprungugos á kvikuganginum þar sem hraunrennsli er mest fyrstu klukkustundirnar þegar gýs á langri sprungu en gosin hafa svo dregist saman á fáein gosop sem hafa sum verið virk í margar vikur.

Eldgosahrinan og jarðhræringar í aðdraganda hennar eru á meðal stærstu náttúruhamfara sem gengið hafa yfir á Íslandi. Grindavíkurbær var rýmdur þegar kvikugangurinn myndaðist 10. nóvember 2023 og þar hefur orðið verulegt eignatjón á fasteignum og innviðum, aðallega vegna sprunguhreyfinga. Hraun frá eldgosunum hefur runnið yfir vegi og lagnir og ráðist hefur verið í gerð mikilla varnargarða til að verja Grindavíkurbæ, Svartsengisvirkjun og aðra innviði.

Eldgos

Yfirlit Sundhnúkagígagosanna fram til 16.07.2025.

Í visir.is þann 5. október 2018 hafði Kristín Ólafsdóttir skrifað; „Reykjanesskagi „kominn á tíma“ og búast má við eldgosi hvenær sem er“ eftir viðtal við Þorvald Þórðarson, eldfjallafræðing.

„Eldgos gæti orðið hvað úr hverju á Reykjanesskaga, að sögn Þorvalds Þórðarsonar, eldfjallafræðings, sem rannsakað hefur náttúruvá á svæðinu undanfarin þrjú ár ásamt samstarfsfólki sínu. Þorvaldur segir mikilvægt að hægt sé að bregðast við og meta hættuna sem fylgir yfirvofandi gosi. Viðbragðsaðilar munu aðeins hafa nokkra klukkutíma til stefnu eftir að eldgos hefst en byggðalög á Reykjanesskaga eru nær öll í grennd við „heit svæði“.

Eldgos

Eldgosa- og náttúruvárhópur jarðvísindastofnunar Háskóla Íslands hefur unnið að reiknilíkani vegna jarðvár á Reykjanesi undanfarin þrjú ár og fékk hópurinn nýlega viðbótarstyrk frá Evrópusambandinu til áframhaldandi starfa. Þorvaldur hefur unnið að verkefninu frá upphafi, ásamt Ármanni Höskuldssyni, Ingibjörgu Jónsdóttur og hópi meistaranema. Ármann Höskuldsson og Þorvaldur Þórðarson eldfjallafræðingar rýna í gögn. Taldar eru verulegar líkur á því að eldgos verði á Reykjanesskaga í náinni framtíð.

Þorvaldur segir í samtali við Vísi að verkefnið felist fyrst og fremst í því að setja saman svokallaða „verkfærakistu“ fyrir eldgosavá. Þannig verði jarðfræðileg gögn notuð til að leggja mat á vána á ákveðnum svæðum. Hópurinn hefur einblínt á Reykjanesskagann og vinnur að því að meta hvar á svæðinu er líklegast að gjósi.

„Þó svo það geti orðið eldgos á Reykjanesskaga þá er ekki þar með sagt að það muni endilega gjósa hvar sem er. Það eru meiri líkur á að það gjósi á ákveðnum stöðum sem tengjast jarðfræðilegu uppbyggingu svæðisins, eldstöðvakerfum og þar sem síðast kom upp gos,“ segir Þórarinn. Úrvinnslu gagnanna er svo hægt að nota á marga vegu, til að mynda við skipulag á byggð.

„Og að sjálfsögðu getur þetta líka hjálpað okkur við að undirbúa okkur betur undir það hvernig á að bregðast við eldgosum.“

Reykjanesskagi

Kort af vesturhluta Reykjanesskaga sem sýnir heit svæði (rauð) þar sem mestar líkur eru taldar á eldsuppkomu í náinni framtíð. Einnig eru sýndir helstu byggðarkjarnar svæðisins (Heimild: MS-ritgerð Þóru B. Andrésdóttur, 2018).

Þá hefur verið unnið að gerð svokallaðra hermilíkana sem hægt er að nota til að spá fyrir um hvert hraun flæðir í tilteknu gosi, hvert gjóska dreifist og hvernig gas breiðist út. Þannig verði hægt að búa til viðbragðsáætlun í samræmi við þessar upplýsingar. Þorvaldur segir hópinn vilja koma á fót vefsíðu, þar sem upplýsingarnar og gögnin yrðu aðgengileg opinberum aðilum á borð við Almannavarnir, Veðurstofuna og fulltrúa sveitarfélaga.

Vinna hópsins á Reykjanesskaga er að nokkru leyti almenns eðlis en ýmislegt hefur þó komið í ljós um eldvirkni og jarðhræringar á svæðinu. Þorvaldur segir til dæmis að verulegar líkur séu á því að hraungos verði á Reykjanesskaga í náinni framtíð. Ákveðnir staðir á Reykjanesi eru þó líklegri í því samhengi en aðrir.
„Þeir staðir sem við teljum vera heitasta, miðað við þau gögn sem við höfum notað, eru staðir þar sem hafa orðið gos nýlega. Við höfum skoðað tvö tímabil. Annars vegar sögulega tímann og svo förum við þrjú þúsund ár aftur í tímann,“ segir Þorvaldur.
Heitu svæðin á sögulegum tíma eru að sögn Þorvaldar alveg úti á Reykjanesi, þ.e. „hælnum“ á Reykjanesskaga, en þar voru til dæmis gos á 9. og 13. öld. Þá eru heit svæði við Svartsengi, í Krýsuvík, nánar tiltekið í Ögmundarhrauni og Kapelluhrauni, og í Bláfjöllum.

Eldgos

Gos á Reykjaneshrygg á sögulegum tíma. Kort frá Þorvaldi sem sýnir eldsupptök á Reykjaneshrygg á sögulegum tíma. Tölurnar gefa til kynna gosárið. Eldar í sjó undan Reykjanesi eru líklegir til þess að mynda sprengigos sem getur dreift gjósku og eldfjallagösum yfir stóran hluta Reykjanesskagans.

„Jarðhræringar á svæðinu allra síðustu ár hafa verið mest úti í sjó, út af Reykjanesi. Þá getum við fengið sprengigos, eða öskumyndandi gos. Slíkt gos gerði líka á þrettándu öld og bjó til gjóskulag sem heitir Miðaldalag og nær frá Reykjanesi og upp í Hvalfjörð, og ríflega það, og fór yfir Reykjavík.“

Nokkur eldstöðvakerfi eru á Reykjanesskaga og hefur töluverð eldvirkni verið á svæðinu á nútíma. Virknin er lotubundin og gengur yfir á átta hundruð til þúsund ára fresti. Það gæti byrjað að gjósa eftir 50 ár – eða á morgun.

„Í flestum tilfellum eru þetta hraungos og þau virðast koma í ákveðnum hrinum sem við köllum elda. Þessir eldar standa yfir í um tíu til þrjátíu ár og í þeim eru nokkur gos.

Þorvaldur Þórðarson

Þorvaldur Þórðarson, eldfjallafræðingur.

Þetta er ekki samfelld virkni heldur er kannski pása í hundrað ár og svo byrjar aftur að gjósa. Þessar syrpur, þ.e. hrinur af eldum, þær virðast ganga yfir í bylgjum og koma á sirka átta hundruð til þúsund ára fresti og standa þá yfir í um fjögur hundruð ár,“ segir Þorvaldur.

Langt er síðan síðasta eldahrina varð á Reykjanesskaga og því er gert ráð fyrir að von sé á gosi á svæðinu í náinni framtíð, hugtak sem þó ber að fara gætilega með í jarðvísindum.

„Besta leiðin til að útskýra það, og svo geta menn dregið sínar ályktanir, er að það eru um átta hundruð ár síðan síðustu eldar voru á Reykjanesskaga.

Eldgos

Reykjanesbraut – Skaginn er þakinn hrauni (Brunntjörn/Urtartjörn við Straum).

Og svona hrinur koma á átta hundruð til þúsund ára fresti. Það má því alveg búast við eldgosi. Við vitum ekki nákvæmlega tímann en það virðist vera, miðað við það sem við þekkjum, að þá er Reykjanesskaginn „kominn á tíma“, eins og sagt er. Það geta náttúrulega liðið 50 ár þangað til næsta gos kemur en það gæti líka orðið á morgun.“

„Við yrðum sennilega vör við óróa á svæðinu, skjálfta og annað, kannski vikum eða mánuðum áður en eitthvað skeður. En þegar kemur að gosi þá er nú sennilega ekki meiri viðvörun en upp í sólarhring, og hugsanlega styttra. Þegar við vitum að það er að koma gos, og að það verður á tilteknum stað, þá eru það einhverjir klukkutímar sem við höfum til að vinna með. Þá þurfum við að geta okkur til um hvernig gos það verður og nota hermilíkanið til að segja fyrir um hvert hraunið eða askan fer, og bregðast þá við samkvæmt því.“

Eldgos

Hraunflæði á Sundhnúkagígaröðinni 2024.

„Þegar hraungos byrjar þá er oft mestur gangur á þeim í byrjun, þá flæða hraunin hraðast og þau geta farið nokkra kílómetra á klukkustund og eyðileggja allt sem fyrir þeim verður. Ef þetta kemur mjög nálægt byggð eða mannvirkjum þar sem fólk er þá þarf að koma því burtu einn tveir og þrír, þú hleypur ekkert undan þessu,“ segir Þorvaldur.

„Ef verður öskufall, hvort sem það afmarkast við ysta hluta Reykjanesskagans eða nær alla leið til Reykjavíkur, þá myndi það loka flugvöllum í einhvern tíma. Gjóskufall getur valdið skaða og óþægindum, bæði skaða á innviðum og svo er óþægilegt fyrir fólk að anda því að sér. Verulegt gjóskufall er yfirleitt fyrstu klukkutímana eða dagana, en svo kemur brennisteinsmengunin og hún getur verið viðvarandi. Það fer eftir lengd gossins og hún getur þess vegna verið til staðar í vikur og mánuði ef gosið stendur það lengi.“

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – jarðfræðikort ISOR.

Byggð á Reykjanesskaga er nær öll nálægt eldstöðvakerfum á svæðinu, og það er einkum þess vegna sem gos á umræddum slóðum gætu reynst hættuleg. Þorvaldur segir þó ákveðin byggðalög berskjaldaðri en önnur í þessu samhengi.
„Þau eru öll náttúrulega mjög nálægt en þau sem eru berskjölduðust fyrir þessu eru kannski Grindavík og Þorlákshöfn. Svo eru Vogarnir, Keflavík og Reykjanesbær. Það fer líka eftir því hvort við erum að tala um hraun, ösku eða brennisteinsmengun en þessir bæir eru allir í þessari línu, svo og Reykjavíkursvæðið.“

Reykjanesskagi

Reykjanesskagi – rauðlituð nútímahraun. Þorvaldur útskýrir jarðfræðina fyrir áhorfendum í sjónvarpi.

Þorvaldur ítrekar jafnframt að höfuðborgarsvæðið sé ekki undanskilið í umræðu um hættu í tengslum við jarðhræringar á Reykjanesskaga.
„Mín skilaboð eru að það er miklu betra að læra að lifa með þessu og vera undirbúinn heldur en að vera að velta því fyrir sér hvar er öruggast að búa. Því við þurfum alltaf að bregðast við þessu hvort eð er.“

Úlla Árdal ræddi við Pál Einarsson, jarðeðilsfræðing, í RÚV þann 27. janúar 2020 undir yfirskriftinni „Tími kominn á eldgos á Reykjanesskaga„.

Páll Einarsson

Páll Einarsson, jarðeldisfræðingur.

„Jarðeðlisfræðingur segir kominn tíma á eldgos á Reykjanesskaga. Staðurinn sem beri merki um kvikusöfnun núna sé sennilega einn versti staðurinn á Reykjanesskaga til þess að hafa gos.

Páll Einarsson, jarðeðlisfræðingur, segir kominn tíma á eldgos á Reykjanesskaga. Skaginn liggi á flekamótum og síðasta eldgos þar hafi verið árið 1240. Frá þeim tíma hafi flekarnir færst í sundur sem útskýrir hvers vegna Reykjavík og svæðið í kring hafi sigið: „Vegna þess að flekarnir eru að færast í sundur, þá þarf náttúrulega að fylla í gatið og það er það sem eldgosin gera. Ef ekki er fyllt í gatið þá síga flekaskilin. Þess vegna sígur landið í Reykjavík og þess vegna verðum við fyrir æ verri sjávarflóðum eftir því sem tíminn líður.

Grindavík

Grindavík – eldgos 1. apríl 2025.

Fólk hugsar misjafnlega til eldgosa, í aðra röndina sé þetta skelfilegt en í hina sé eldgos vinsæl alþýðuskemmtun. Eldgos hafi ákveðið skemmtanagildi en á móti séum við minnt á það annað slagið að þetta er ekkert grín.“

Páll segir tvo staði á landinu þar sem mögulegt sé að gjósi í þéttbýli. Í Vestmannaeyjum og í Grindavík. Reykjavík sé í sjálfu sér ekki innan hættumarka en gjósi á flekaskilunum séu byggðarlög í næsta nágrenni í hættu. Staðurinn sem beri merki um kvikusöfnun núna sé sennilega einn versti staðurinn á skaganum til þess að hafa gos.“

Eldgos

Gosvirkni á Reykjanesskaga 800-1240 (M.ÁS.).

Í fyrstnefnda viðtali Guðna Einarssonar á mbl.is við Magnús Á Sigurgeirsson undir fyrirsögninni „Það er kominn tími á eldgos„, fjórtán dögum áður en fyrsta eldgosahrinan hófst í Geldingadölum í Fagradalsfjalli, segir: „Haldist sami taktur í eldvirkni Reykjanesskagans og verið hefur síðustu árþúsundin er ljóst að það styttist í að til tíðinda dragi. Ef það fer að gjósa þá er líklegt að það verði byrjun á löngu eldgosaskeiði,“ sagði Magnús. Kvikugangurinn sem nú er fylgst með við Fagradalsfjall tilheyrir eldstöðvakerfi sem kennt er við fjallið. Magnús segir að á því svæði hafi ekki verið mikil eldvirkni en samt séu merki um eldgamlar gossprungur frá því snemma á nútíma utan í fjallinu.
Hann skrifaði yfirlitsgrein um síðasta gosskeið á Reykjanesskaga, 800-1240 e.Kr. sem birtist á heimasíðu ÍSOR (sem því miður virðist hafa horfið við endurnýjun vefsíðunnar). Með henni birtist kortið sem sýnir hvar hraun runnu á þessu gosskeiði.

Reykjanesskagi

Eldstöðvakerfi á Reykjanesskaga (bleik). Jarðskjálftabelti liggur eftir skaganum og markar flekaskilin (rauð). Jarðhitasvæði eru einnig sýnd (gul). Sprungusveimar Hengils til norðausturs og Reykjaness til suðvesturs eru svartir.

Magnús segir að á Reykjanesskaga séu sex eldstöðvakerfi sem raðast í stefnu frá norðaustri til suðvesturs. Vestast er Reykjaneskerfið, svo eru til austurs Svartsengi, Fagradalsfjall, Krýsuvík, Brennisteinsfjöll og loks Hengill. Hann segir að þessi kerfi séu nokkuð sjálfstæð en eldvirknin færist á milli þeirra. Hvert gosskeið getur náð yfir nokkrar aldir með áratuga löngum hléum á milli eldgosa. „Það er kominn rétti tíminn fyrir eldgos. Það hafa liðið um eitt þúsund ár á milli gosskeiða og það er nánast nákvæmlega sá tími núna frá því síðasta,“ sagði Magnús. Hann hefði giskað á að ný eldgosavirknin hæfist í Brennisteinsfjallakerfinu eða í Krýsuvíkurkerfinu. Það hafi gerst á síðustu gosskeiðum. Síðan færðist hún vestur eftir Reykjanesskaganum.
„Það er ekki byrjað eldgos,“ sagði Magnús um miðjan dag í gær. „Gosvirknin gæti byrjað í Krýsuvíkursveimnum eða hann farið af stað stuttu eftir að þetta byrjar við Fagradalsfjall, ef það gerist. Það er ekki langt þarna á milli,“ sagði Magnús.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

Mögulega geta eldgos á Reykjanesi valdið tjóni á mannvirkjum eins og t.d. í Grindavík, í Svartsengi eða á Reykjanesi. Eldgos í sjó hafa fylgt eldvirkni á Reykjanesi og frá þeim komið aska sem hefur borist yfir land. Hún gæti haft áhrif á flugumferð en Magnús telur ólíklegt að hraungos muni gera það.
„Allgóð þekking er til staðar um þrjú síðustu gosskeiðin á Reykjanesskaga sem stóðu yfir fyrir 3000-3500 árum, 1900-2400 árum og svo 800-1240 e.Kr. Hvert gosskeið virðist standa yfir í um 500 ár en á þeim tíma verða flest eldstöðvakerfin virk, en þó yfirleitt ekki á sama tíma. Einkennist gosvirknin af eldum sem standa í nokkra áratugi hver. Hraunin renna frá gossprungum sem geta orðið allt að 12 km langar. Stök hraun eru innan við 25 km2 að stærð, flest mun minni,“ skrifar Magnús í greininni á isor.is.
ReykjanesskagiSíðasta gosskeið hófst um 800 e.Kr. í Brennisteinsfjöllum og Krýsuvíkurkerfinu. Aftur gaus í Brennisteinsfjallakerfinu á 10. öld. Svo gaus í Krýsuvíkurkerfinu líklega 1151. Reykjaneseldar sem stóðu yfir 1210-1240 marka lok um 450 ára langs eldsumbrotaskeiðs, skrifar Magnús. Yngra-Stampahraun rann frá 4 km langri gígaröð líklega 1211. Sprungugos hófst í Svartsengiskerfinu um 20 árum eftir Yngra-Stampagosið og á árunum 1230-1240 runnu Eldvarpahraun, Illahraun og Arnarseturshraun. Ekki hafa orðið hraungos á Reykjanesskaga síðan.“

Heimildir:
-Morgunblaðið, 54. tbl. 05.03.2021, Það er kominn tími á eldgos, Guðni Einarsson, bls. 6.
-https://www.visir.is/g/20181327521d/reykjanesskagi-kominn-a-tima-og-buast-ma-vid-eldgosi-hvenaer-sem-er
-https://www.ruv.is/frettir/innlent/timi-kominn-a-eldgos-a-reykjanesskaga

Fgaradalsfjall

Fagradalsfjall og nágrenni – örnefni skv. herforingjaráðskorti 1906.