Þjóðleiðir – gamlar og nýjar
Hér áður fyrr voru þjóðleiðirnar “einbreiðar”, þ.e. sama gatan var notuð í báðar áttir. Á einstaka stað má sjá för, hlið við hlið, en einungis á stuttum köflum. Tímabil þessara gömlu þjóðleiða náði allt frá upphafi landnáms hér á landi og fram eftir fyrstu áratugum sjálfrennireiðarinnar. Leiðirnar tóku breytingum á þessu langa tímabili, en þó einkum undir það síðasta. Þannig má sjá leifar af elstu þjóðleiðunum markaðar víðast hvar í harða hraunhellu eða varðaðar með reglulegu millibili.
Væntanlega þarf talsverða umferð járnaða hrossa til að mynda slík för en þó má geta þess að skeifur hafa aldrei fundist í kumlum hér á landi, aðeins stöku ísbroddar. Því er talið að íslensk hross hafi verið járnalaus fyrstu aldirnar. Eftir að hjólvagninn og skömmu síðar hin vélknúna sjálfrennireið kom til sögunnar í byrjun 20. aldar má víða sjá leifar af reglulega hlöðnum köntum mjórra gatna og vandvirknislega gerðum ræsum. Þessar götur hafa nú lagst af og eru flestum gleymdar (nema einstaka áhugasömu göngu- og hestafólki). Frostverkunin hefur smám saman breytt götunum í jeppaslóða. Aðrar “nútímalegri” hafa tekið við almennri umferð.
Hið nútímalega þjóðvegakerfi miðaðist í fyrstu víðast hvar við að ökutæki gætu mæst án þess að annað þurfi að stöðva á meðan hinu er ekið framhjá. Þó má enn þann dag í dag sjá vegspotta þar sem hið eldra lögmál gildir.
Í dag, á tiltölulega skömmum tíma, eru hinu leyfðu ökutæki orðin fjölbreyttari og jafnframt breiðari en núverandi vegakerfi gerði ráð fyrir. Það skapar ekki bara hættur, heldur óskaplega margar og mikla hættur.
Þróun núverandi vegakerfis hefur engan veginn haldist í hendur við þróun leyfðra öku- og fylgitækja. Ökumaður venjulegrar fólksbifreiðar, sem ekur t.a.m. á þjóðvegi nr. 1, þarf að leysa hinar ólíklegustu þrautir á ferð sinni milli staða til að verða ekki “úr leik”. Það verður að segjast eins og er að það er einungis fyrir hina snjöllustu tölvuleikjaspilara að komast klakklaust eftir vegakerfinu eins og það er í dag. Við sérhver hin minnstu mistök verða ökumenn “out of play”. Í tölvuleikjunum fá þeir a.m.k. þrjá möguleika til að “lifa af”, en á þjóðvegum Íslands fá þeir einungis einn möguleika. Áhættan er því margföld á við tölvuleikina, sem þó eru taldir einum um of raunveruleikatengdir.
Sá, sem þetta skrifar, ferðaðist nýlega á venjulegri fólksbifreið milli Reykjanesskagans og Norðausturskagans, þ.e. Borgarfjarðar eystri. Ekið var um norðurleiðina á þjóðvegi nr. 1. Það verður að segjast eins og er að varla leið nema spölkorn að hann væri ekki í einhverri hættu á sínum eigin vegarhelmingi. Framundan var löng röð minni fólksbifreiða á eftir stórri bifreið, sem ekki var leyft að aka hraðar en 80 km á klst. Gífurleg umferð stórra flutningabifreiða var um mótakreinina, stórra hjólhýsa aftan í tiltölulega litlum bifreiðum, breiðra fellihýsa og tjaldvagna aftan í breyttumbreiðum jeppabifreiðum og jafnvel ökumönnum venjulegra bifreiða, sem virtust hafa gleymt sér um stund í farsímanum eða yfir landakorti landhlutans, sem ekið var um. Oftar en ekki þurfti undirritaður að aka út fyrir vegöxlina (í sjálfsbjargarviðleitni) svo umferðin á móti kæmist nú örugglega framhjá með sjálft sig og/eða hafurtaskið aftan í sér.
Yfirleitt er ökumanninum kennt um “mistökin” þegar þau verða. Undirritaður var einn af þeim er aðhylltst hefur þá kenningu. Af fenginni reynslu verður hins vegar að segjast eins og er að samgönguyfirvöld landins verða (nauðsynlega) að gjöra svo vel að líta sér nær. Miklum fjármunum hefur verið varið til vegagerðar og umbóta á vegum landsins. Þeir fjármunir hafa komið frá bifreiðaeigendum í gegnum skatta, gjöld og álögur. Ef flestum eða jafnvel öllum þeim fjármunum hefi svikalaust verið varið í þarfar og nauðsynlegar úrbætur á vegakerfinu væri ástandið á þjóðvegum landsins allt annað og betra en það er í dag. Ríkið hefur einfaldlega í allt of langan tíma ráðstafað fjármagninu á rangan hátt miðað við þá þróun, sem það hefur þegar heimilað. Þar liggur rótin.
Ef bæta á um betur þarf að skoða rótina, meta þróunina og taka ákvörðun um úrbætur miðað við nútíð og meðvitaða framtíð. Á meðan það er ekki gert heldur slysunum á hinum “nútímalegu” þjóðvegum landsins áfram að fjölga.
Hinar gömlu þjóðleiðir eru því enn sem fyrr miklu mun öruggari vegfarendum.