Þorbjarnarfell – Jón Tómason
Jón Tómasson skrifar um Grindavík í Faxa árið 1945 undir fyrirsögninni „Hvað er að gerast þar?“. Í upphafi greinarinnar er m.a. fjallað um einkennisfjall Grindvíkinga; Þorbjörn (Þorbjarnarfell):
„Hvað bíður manns bak við þetta gráa og úfna apalhraun? hugsar sjálfsagt margur, sem rennur fyrsta sinni inn í hið háa og hrikalega Grindavíkurhraun fyrir sunnan Seltjörn. Og ef það væri ekki þessi mjói mjúki vegur, sem brotinn var gegnum torfærurnar fyrir um 30 árum, og sem telja má allgóðan, þá væri vegfarandi ekki miklu betur settur heldur en þótt hann stæði í Ódáðahrauni. Þess má geta, að á meðan umferð var hófleg um þennan veg, var hann talinn með allra beztu vegum landsins.
Þegar komið er suður á Selháls, er meirihluti hraunsins að baki, Svartsengi og Hagafell ávöl og mild að frádregnum Gálgaklettum til vinstri — þar sem útilegumenn voru hegndir áður fyrr — og Þorbjörn með björtum og djörfum línum til hægri. Þó að Þorbjörn sé hvorki stór né hrikalegur, er hann elskaður og virtur af Grindvíkingum. Hann er fagur og heillandi. Hann býr yfir einhverju duldu og hann hefur laðað til sín frá því að hann var fyrst augum litinn. Útsýni af honum er ágætt, enda hefur hann hjálpað mörgu Grindvísku ungmenni til að víkka sjóndeildarhring sinn, og sýnt þeim fyrsta sinni Eyjafjallajökul, Vestamannaeyjar, Eldey og allt Reykjanes, Esjuna og Reykjavík, Snæfellsjökul og svo allt þarna á milli.
Og saga Þorbjörns er án efa einhver sú merkilegasta, sem nokkurt fjall á. En því miður kann ég ekki mikið af henni. Jarðfræðingarnir eiga sjálfsagt eftir að segja okkur eitthvað af henni. Öllum eru þó kunnug tröllin, sem til voru í gamla daga. Eitthvert þeirra hefur orðið ógurlega reitt við Þorbjörn litla og ætlað að sökkva honum í sjó eða kljúfa bann í herðar niður, og hann ber þess menjar ennþá.
Þjófagjá er glöggt merki þess, en hún gengur frá toppi og langt inn í iður fjallsins. Þegar maður er þar niðri, finnst manni maður vera svo nærri þessu óþekkta og furðulega, sem inni fyrir býr, að maður stendur á öndinni og væntir þess að heyra búktal jarðarinnar eða einhverjar annarlegar raddir, sem fræði menn um undur jarðarinnar. Og þó að maður standi þar á snjófönn, — en snjór er þar stundum langt fram eftir sumri, jafnvel allt árið, — þá finnst manni allt í einu sem hiti eða jafnvel sterkur straumur þjóti um mann, er maður hugsar til þess að sennilega hafi skorpa jarðarinnar opnast þarna endur fyrir löngu ag út hafi runnið glóandi grjót, sem eytt hefur gróðurlöndum Reykjanesskagans og orðið síðan að þessu erfiða hrauni.
Útilegumenn og þjófar héldu til í Þjófagjá og gerðu bændUm í nágrenninu búsifjar miklar. Þetta var, — en nú er ÞorbjÖrn ekki lengur þjófabæli og í margar aldir hefur verið hljótt um tröllin, ísöld og Gos, sem á’tt hafa sinn þátt í því, að Þorþjörn er einmitt svona. Sennilega á Þorbjörn vinsældir sínar að einhverju leyti því að þakka, að hann skýlir Grindvíkingum fyrir norðangjóstinum og dregur til sín hitageisla sólarinnar, og veldur því að Grindavíkin er hlýjasta og vinalegasta byggðarlag Suðurnesja.“
Heimild:
-Faxi, 5. árg. 1945, 8. tbl., bls. 1.