Vegur undir veg – Siglubergsháls

Siglubergsháls

Þegar unnið var að undirbúningi Suðurstrandarvegar var framkvæmd fornleifaskráning á og við fyrirhugað vegstæði. Þetta var árið 1998. Árið 2000 var hlutaðeigandi skrásetjari sendur til baka um svæðið með skottið milli lappanna og gert að framkvæma aðra og betri fornleifaskráningu. Við það bættust ótal minjar, sem ekki virtust hafa verið til áður skv. fyrri skráningu.

Skálavegur

Gamli vegurinn að Skála um Siglubergsháls – nú horfinn vegna framkvæmda.

Gerð var fyrirspurn um nokkrar fornminjar til viðbótar og kom þá í ljós að þær höfðu missést í yfirferðinni. Enn var spurt um tilteknar fornminjar, t.a.m. gamla vagnveginn yfir Siglubergsháls, en hans var ekki getið í hinum nýjustu skrám. Hann sást reyndar mjög greinilega á þremur stöðum í Siglubergshálsi, en fallegasti hluti vegarins var skammt ofan við Skökugil. Loks, svona til að friða áhyggjufulla, var kveðið úr um að menn þyftu ekki að hafa áhyggjur af þeim kafla vegarins – „hann væri utan við fyrirhugað vegstæði Suðurstrandarvegar“.
Í dag er búið að leggja þennan hluta Suðurstandarvegar – og þessi kafli gömlu þjóðleiðarinnar er jafnframt með öllu horfinn, ekki undir veginn heldur vegavinnuvélar þær er notaðar voru við vegargerðina. Þeim stjórnuðu menn, sem eflaust hefur aldrei verið sagt að gæta varúðar vegna hugsanlegra minja á þessu svæði. Þessi fallega gamla þjóðleið er ágætt (eða vont) dæmi um orð og efndir þegar að minjum og verndun þeirra kemur. En þannig hefur þessu líka verið varið – um allt of langt skeið.

Siglubergsháls

Vegur um Siglubergsháls.

Fyrrum voru ekki til launuð ráð og ábyrgar nefndir, sérstakar umsagnarstofnanir og aðhaldmiklir eftirlitsaðilar er gæta áttu að því að allt gengi eftir leyfum samkvæmt, líkt og nú á að vera raunin. Þrátt fyrir slíkar ráðstafanir var engu framangreindu til að heilsa á Siglubergshálsi árið 2006 – ekkert ráð, engin nefnd, engin stofnun og enginn eftirlitsaðili gætti að gömlu götunni, sem sést á meðfylgandi mynd. Öllum virtist svo nákvæmlega sama – enda var hún kannski ekki gatan þeirra. Þarna brugðust allir sem brugðist gátu – og enginn er ábyrgur.
Hvað um aðrar minjar á Skaganum? Eiga þær von á að verða fórnað vegna andvaraleysis, afskiptaleysis og jafnvel áhugaleysis þeirra er að eiga að gæta skv. lögum. reglum starfslýsingum, stofnanasamþykktum, árangursstjórnunarsammingum og öðru sem nafn hefur verið gefið í seinni tíð, en enginn veit hver tilgangurinn er með?
SVONA ER ÍSLAND í DAG. Þrátt fyrir allar ákvarðanir, ráð, nefndir, eftirlitsaðila og annað má reikna með að fleiri merkar minjar, hin áþreifanlegu tengsl landsmanna við fortíðina, fari forgörðum í framtíðinni, ein af annarri, ef vinnubrögðin eiga að vera eins og að framan greinir.

Siglubergsháls

Festarfjall.