Vigdísarvellir – Bali  og Fell

Krýsuvík

Í „Fornleifaskráningu fyrir Krýsuvík – Trölladyngju“ árið 2008 er m.a. fjallað um bæina Vigdísarvelli, Bala og Fell:

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir.

„Samkvæmt Jarðabók Árna og Páls frá 1703 var á Vigdísarvöllum selstaða frá Þórkötlustöðum í Grindavík. Henni var lýst sem góðri en langt og erfitt að fara. Selstaðan var í landi Krýsuvíkur en Þórkötlustaðabændur fengu að nýta hana í skiptum fyrir skipsstöðu í Þórkötlustaðalandi.

Þórkötlustaðasel

Þórkötlustaðasel við Vigdísarvelli – uppdráttur ÓSÁ.

Á Vigdísarvöllum var og er eitt besta gróðurlendi í Grindavíkurhreppi en staðurinn var hins vegar afskekktur. Árið 1830 var þar reist nýbýlið Vigdísarvellir og skömmu síðar nýbýlið Bali. Ekki er alveg ljóst hvaða ár Bali byggðist, það er ekki nefnt í heimildum fyrir 1840 þegar fyrst er getið búsetu þar, en árið 1846 bjó þar sex manna fjölskylda. Síðasta heimild um búsetu á Bala er frá árinu 1850.

Vigdísarvellir

Vigdísarvellir – uppdráttur ÓSÁ.

Á Vigdísavöllum var búið allavega til ársins 1901, mögulega með einhverju hléi milli 1870 og 1890. Þriðja nýbýlið á svæðinu sem heimildir eru um er býlið Fell. Þar er getið búsetu í manntalinu 1855 en hvorki fyrr né síðar. Í lok janúar árið 1905 hrundu eða stórskemmdust öll hús á Vigdísarvöllum og fór bærinn eftir það í eyði.“

Krýsuvík

Fell í Krýsuvík.

Leifar tveggja býla eru á norðanverðum Völlunum; Bali að austanverðu og Vigdísavellir vestar (síðar rétt). Skammt sunnar eru minjar selstöðunnar frá Þórkötlustöðum. Engar minjar eru eftir býlið Fell, enda var það kotbýli ekki á eða við Vigdísarvelli heldur sunnan við Stampa milli Grænavatns og Stóra-Nýjabæjar í Krýsuvík. Þar í gróinni kvos má sjá leifar bæjarins, sem mun einungis hafa verið í byggð um skamman tíma. Á botni Litla-Stamps má enn sjá leifar óskráðs stekks frá bænum.

Heimildir:
-Árni Magnússon og Páll Vídalin: Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns III, 14.
-Jón Þ. Þór: Saga Grindavíkur frá landnámi til 1800, 166.
-Jón Þ. Þór og Guðfinna M. Hreiðarsdóttir: Saga Grindavíkur frá 1800 til 1974, 86-87.
-Árni Óla: Strönd og Vogar, 252.

Bali

Bali.