Vogastapi – Kolbeinsvarða
Lengi hefur verið leitað að Kolbeinsvörðu á Vogastapa. Hún var sögð vera við Innri-Skoru, á landamerkjum Voga og Njarðvíkur. Hið rétta er að við Innri-Skoru, vestanverða, eru landamerkin í sjó. Ofan hennar er Brúnavarðan og í sjónhendingu frá henni er Kolbeinsvarða, en úr Kolbeinsvörðu áttu landamerkin að liggja í Arnarklett sunnan Snorrastaðatjarna.
Eftir vísbendingu Ólafs frá Stóra-Knarrarnesi, sem hafði séð Kolbeinsvörðu er hann var ungur, var haldið inn á gamla Grindavíkurveginn frá nýja Keflavíkurveginum og honum fylgt u.þ.b. 50 metra. Þá var stöðvað og haldið til vesturs í u.þ.b. 100 metra. Þar upp á hól stendur Kolbeinsvarða. Fótur hennar stendur enn og einnig svolítið af vörðunni. Hún hefur greinilega verið sver um sig, u.þ.b. 3 metrar að ummáli og sést neðsti hringurinn nokkuð vel. Fokið hefur yfir hluta vörðunnar að vestanverðu og gróið yfir.
Á steini í vörðunni á að vera ártalssteinn (1724). Gera þarf talsvert rask við vörðuna ef finna á steininn (ef hann er þá þarna enn). Frá vörðunni sér í Brúnavörðu í norðri og Arnarklett í austri. Að sögn Ólafs mun hafa verið tekið úr vörðunni, líkt og úr svo mörgum öðrum vörðum og görðum, er verið var að ná í grjót í hafnargarðinn í Vogum. Hann myndi vel eftir því þegar hún stóð þarna, fallega hlaðin upp.
Grindavíkurveginum var fylgt upp Stapann. Víða má sjá fallega handavinnu vegagerðarmanna á veginum, s.s. ræsi og kanthleðslur, einkum þegar stutt er eftir yfir á gamla Keflavíkurveginn.
Skammt vestan við veginn áður en komið er að gatnamótunum eru allmikil gróin börð. Ef vel er að gáð má sjá mótaða hleðslu er myndar gerði á milli barðanna. Á einum stað sést vel hvernig gerður hefur verið garður úr mold og grjóti umhverfis gerðið. Innan þess er nokkuð gróðið svæði, hornlaga. Ekki er ósennilegt að þarna hafi vegagerðarmennirnir, er tóku til við að byggja Grindarvíkurveginn árið 1913 á Vogastapa, hafi haft sínar fyrstu búðir. Frá Seltjörn (Selvatni) hafa búðir þeirra eða aðstaða verið með u.þ.b. 500 metra millibili. Sjá má móta fyrir þeim á a.m.k. 12 stöðum við Grindavíkurveginn, en svo mikið hefur verið nýtt af hrauninu við gerð nýja vegarins að telja má fullvíst að margar aðrar hafi þá farið forgörðum.
Mikil landeyðing hefur orðið þarna á heiðinni og því erfitt að greina fleiri mannvirki. Þó á eftir að skoða þetta svæði betur með tilliti til fleiri ummerkja.
Nú væri tilvalið að skella þarna svo sem einu steintrölli til að vekja athygli á minjunum, sem nú eru að verða aldargamlar, en það mun jú vera einn yfirlýstur tilgangur tröllasmíðanna á heiðinni.
Frábært veður.