Baðsvellir
Frá því á fyrri hluta 20. aldar hefur áhugasamt fólk og félagasamtök reynt að rækta smáskóga á Reykjanesskaganum. Það hefur gengið þokkalega, sbr. skógana í Undirhlíðum, við Hvaleyrarvatn, Í Gráhelluhrauni, undir Háabjalla, á Baðsvöllum og í Sólbrekkum.

Skógur

Skógur.

Ísland meðal yngstu landa jarðar og það land Evrópu sem seinast byggðist. Önnur lönd voru numin löngu áður. Þetta eyland í Norður-Atlantshafi hafði að mestu einangrast með þeim tegundum plantna og dýra sem komust þangað í lok síðustu ísaldar. Engir stórir grasbítar lifðu í landinu og í meira en 13.000 ár fékk gróður að vaxa og dafna óáreittur af öðru en kaldtempraðri úthafsveðráttunni. Á seinni hluta tertíertímabilsins í jarðsögunni, fyrir 10-15 milljónum ára, ríkti heittemprað loftslag á þeim eyjum í Norður-Atlantshafi sem mynduðu landgrunn Íslands. Hér óx skógur í líkingu við þann sem nú er í suðausturhluta Bandaríkjanna. Fundist hafa steingervingar af um 50 ættkvíslum plantna frá þessum tíma, einkum trjáa. Af lauftrjám hafa hér verið magnolíutré, túlípantré, lárviður, valhnota, álmur, eik, hlynur, beyki, hesli, ölur og birki.

Barrtré

Barrtré.

Einnig hafa barrtré eins og stórviður, fenjatré, lerki, þinur, greni og fura vaxið hér á míósentímabilinu, sem lauk fyrir rúmum fimm milljónum ára. Á síðari hluti tertíertímabilsins fór loftslag kólnandi. Veðurfar hér hefur á þeim tíma verið temprað og flóran lík því sem nú er um vestanverða Mið-Evrópu. Kaldasti mánuður ársins hefur haft meðalhita um eða yfir 0°C. Á því tímabili höfðu barrskógar yfirhöndina.
Fyrir um þremur milljónum ára varð gagnger breyting á loftslagi og sjávarhita á norðurhveli jarðar. Ísöld tók við með sín jökulskeið og hlýskeið. Þá mynduðust í fyrsta sinn víðáttumiklir jöklar á Íslandi. Fæst tré þoldu loftslag jökulskeiðanna og skógarnir náðu ekki að rétta sig af á hlýskeiðum á einangraðri eyju eins og þeir gerðu á meginlöndunum. Steingervingar benda þó til þess að frá upphafi ísaldar og þar til fyrir rúmri einni milljón ára hafi fura, ölur, birki og víðir vaxið hér. En þá dó furan út og ölurinn fór sömu leið fyrir um 500.000 árum, á síðasta og kaldasta jökulskeiði ísaldarinnar.

Skógur

Skógur.

Á síðustu tveimur hlýskeiðum ísaldar hefur gróður hér verið orðinn svipaður og nú er, með birki og víði sem eina trjágróðurinn. Þó er líklegt að bæði einir og reynir hafi lifað af ísöldina. Loftslag á Íslandi virðist hafa verið fremur þurrt og hlýtt fyrir 9.000 árum. Vaxtarskilyrði birkis voru hin ákjósanlegustu og breiddist það út um landið. Þetta hlýviðrisskeið stóð í rúm 2.000. Þegar því lauk tók við svalara tímabil sem leiddi til stækkunar mýrlendis og votlendisplöntur sóttu á í flórunni. Kuldinn hélst í 2.000. Hið síðara birkiskeið hófst fyrir um 5.000 árum og stóð í 2.500 ár. Á því tímabili var veðurfar hér á landi afar gott og hefur aldrei verið betra síðan fyrir síðasta jökulskeið. Þá breiddist birkiskógur og kjarr út um allt land.

Birki

Birki.

Talið er að mestallt hálendi Íslands hafi þá einnig verið gróið. Þeir birkilurkar sem finnast víða í mýrum eru frá þessu tímabili. Einnig er talið að leifar birkiskóga, sem nú liggja hæst í rúmlega 600 metra hæð yfir sjávarmáli, séu menjar af skógum þessa tíma.
Fimmhundruð árum fyrir Kristsburð kólnaði aftur. Birkiskógurinn hopaði aftur úr mýrlendinu og skógarmörk færðust neðar í fjallshlíðum. Þegar landnám hófst var skógurinn því farinn að hopa. Samt má merkja af frjókornarannsóknum og ýmsu öðru að þá fyrst fór að síga verulega á ógæfuhliðina.
Fyrstu landnemar Íslands hafa án efa heillast af ósnortinni náttúrunni sem tók á móti þeim. Írskir munkar, sem allt bendir til að hér hafi fyrst tekið land, áttu ekki að venjast slíku náttúrufari. Á Bretlandseyjum hafði kvikfjárrækt verið stunduð um aldir og skógar hopað fyrir graslendi. Munurinn var sjálfsagt ekki eins mikill fyrir víkingana frá Noregi, sem sögur herma að numið hafi hér land á 9. öld. Miðað við hve landið byggðist hratt hafa fréttir af þessari búsældarlegu eyju þó vakið mikla athygli. Auðæfi til lands og sjávar virtust óþrjótandi og auðvelt að draga björg í bú.

Skógur

Skógur.

Skógurinn sem tók á móti landnámsmönnum náði milli fjalls og fjöru þar sem jarðvegur var þurr. Þó að þetta hafi ekki verið hávaxinn skógur má leiða getum að því að víða hafi vaxið há og bein birkitré eins og enn finnast. Örnefni benda til þess að skógur hafi verið mestur á Suðurlandi, Vesturlandi, við Eyjafjörð, í Suður-Þingeyjarsýslu og á Austurlandi, en minnstur á Vestfjörðum, við Húnaflóa og á Norðausturhorninu. Við búsetu manna tók allt vistkerfi landsins miklum breytingum. Rannsóknir á frjókornum í jarðvegi hafa leitt í ljós, að fljótlega eftir landnám fækkar birki- og víðifrjóum en grasfrjóum fjölgar hlutfallslega. Sömu rannsóknir sýna, að birkiskógur hefur náð hámarki sínu á Íslandi fyrir 4.000-2.800 árum en verið á niðurleið síðan með stórum afföllum á landnámsöld og 17. öld. Lengi hafa glöggir menn reynt að reikna út hversu stór hluti landsins hafi verið skógi vaxinn við landnám.
Rannsóknir og heimildir benda til þess að meira en 40.000 ferkílómetrar hafi verið huldir gróðri á 9. öld, eða um tvöfalt stærra svæði en nú er. Leiddar eru líkur að því að meira en helmingur þess lands hafi verið viði vaxinn. Mestur hefur skógur verið á láglendi, neðan 200 metra hæðar yfir sjávarmáli, en lágvaxið kjarr hefur teygt sig inn á hálendið upp í yfir 400 metra hæð. Þar sem vaxtarskilyrði hafa verið best, í botnum dala og skjólgóðum hlíðum, hafa birkitré náð góðum vexti og gefið af sér smíðavið. Víðar hefur þó verið lágvaxinn skógur og kjarr. Norrænir landnámsmenn voru vanir kvikfjárrækt og akuryrkju. Þeir ruddu skóg fyrir bæi sína og akra.

Skógur

Skógur.

Fornleifarannsóknir sýna að menn brenndu gjarnan skóginn þar sem bærinn átti að standa og umhverfis hann. Búfénaðurinn, sauðfé, nautgripir, svín og geitur, var látinn ganga sjálfala allt árið um kring í skjólgóðum skóginum en kjarr var sviðið til þess að rýma fyrir beitilandi og ökrum til kornræktar. Einnig munu landnemarnir hafa notað svonefnda sviðningsræktun sem tíðkaðist á Norðurlöndum, en þá var skóglendi brennt undir akra og síðan sáð í volga öskuna. Rauðablástur og járnsmíði var iðnaður sem víkingarnir þekktu vel til. Slíkt höfðu þeir stundað um aldir í Skandinavíu. Þeir komust fljótt að því að íslenski mýrarrauðinn var járnríkur og héldu því uppteknum hætti í nýja landinu. Til þess þurftu þeir mikið eldsneyti. Skógur var einnig höggvinn í byggingarefni fyrir skála og langeldar kyntir í þeim. Búfjárbeitin hefur þó átt drýgstan þátt í skógareyðingunni. Grasbítarnir sáu til þess að nýgræðingur ásamt öðrum botngróðri komst hvergi upp og vetrarbeitin gerði illt verra. Ari fróði Þorgilsson ritar Landnámu og Íslendingabók snemma á 12. öld, eða um 250 árum eftir landnám. Frásagnir beggja greina frá því, að í þá tíð sem land var numið hafi það verið viði vaxið milli fjalls og fjöru. Þessi orð gefa til kynna að ekki sé lengur skógur í landinu svo nokkru nemi þegar þau eru rituð. Að skógurinn hafi eyðst að mestu á 250 árum er ekki ólíklegt. Íslenska birkið verður yfirleitt ekki meira en 200 ára gamalt og skógur sem er mikið beittur endurnýjar sig lítið. Því er ekki fráleitt að á fyrstu 250 árum Íslandsbyggðar hafi mönnum og búfénaði tekist að uppræta helming þess skóglendis sem var við landnám. Frjólínurit sýna að birkiskógurinn hefur látið á sjá fljótlega eftir að landnám hófst og sum héruð, eins og Húnaþing og Skagafjörður, snemma orðið skóglaus.

Skógur

Skógur.

Eyðing náttúruskógar á Íslandi er ekkert einsdæmi. Hið sama hefur átt sér stað um gjörvallan heim þar sem vestrænir menn hafa numið land. Slíkt gerðist á meginlandi Evrópu fyrir nokkrum þúsundum ára og endurtók sig bæði í N-Ameríku og á Nýja Sjálandi þegar Evrópubúar fluttust þangað með húsdýr sín. Við landnám höfðu skógar náð hvað mestum þroska við forn sjávarmörk og ofan þeirra. Jarðvegurinn á þeim svæðum var laus í sér, samsettur úr aðfluttri bergmylsnu blandaðri ösku- og vikurlögum. Um leið og skógurinn hvarf opnaðist svörðurinn og þar með átti vindurinn greiða leið að fokgjörnum jarðveginum.

Krýsuvík

Gróðureyðing á Krýsuvíkurheiði.

Þegar lauf trjánna hlífði ekki lengur jörðinni fyrir regni og trjáræturnar bundu ekki lengur jarðveginn fór vatnið að rjúfa gróðurþekjuna og undirlag hennar. Í stórrigningum og hlákum braut vatnið smátt og smátt niður þau frjósömu lög sem alið höfðu tré og annan gróður. Moldin skolaðist burt með leysingarvatninu. Skriður í hlíðum, grjóthálsar og berir melar tóku við af gróðursæld óspilltrar náttúru. Þrátt fyrir að meðferð manna hafi ráðið mestu um afdrif skóga á fyrstu öldum Íslandsbyggðar, áttu náttúruöflin einnig sinn þátt í þeim. Náttúruöflin sem skópu landið voru enn að. Kunnar eldstöðvar skipta tugum og frá landnámsöld hafa 150 eldgos breytt ásýnd landsins með öskufalli og hraunrennsli. Jöklar og ár brjóta niður og hafið sverfur strendur. Þá hafa rannsóknir sýnt að veðurfar var fremur gott á landnámsöld og lofthiti svipaður og á tímabilinu 1920-1950. Á fyrri hluta 13. aldar tók hitastigið hins vegar að lækka og köld veðrátta hélst allt fram undir lok 19. aldar. Kaldast varð á 17. öld.Heimild m.a.:
-www.skogur.is

Fossárrétt

Fossárrétt eldri – þakin skógi.