Krýsuvíkurvegur – Árni Óla

krýsuvíkurvegur

„Hinn nýi vegur til Krýsuvíkur, sem nú er í smíðum, hefur vakið mikið umtal, og hefur fyrirtæki þetta að mestu sætt áfellisdómum. Er því einkum borið við, að vegagerð þessi verði vitleysislega dýr, en gagnið af henni óvíst.

Krýsuvík

Hellan við Kleifarvatn.

Hér á Íslandi er vegagerð svo dýr, að nauðsyn er á að hver vegarspotti komi sem flestum að notum. En með þessu vegi virðist sú stefna þverbortin, því að þessi dýri vegur liggur um óbyggðir einar. Á allri leiðinni frá Hafnarfirði og austur í Selvog – um 50 km. – er engin byggð nema Herdísarvík. Frá Selvogi og inn í Ölfus er svo 20 km. Alls verður þá þessi nýa Suðurlandsbraut rúmir 70 km, eða snöggum mun lengri heldur en leiðin yfir Hellisheiði. En þetta á að verða vetrarvegur þegar Hellisheiði er ófær. Sumir hafa ekki mikla trú á því, að það sé miklum mun snjóléttara þarna suður í fjöllunum heldur en á Hellisheiði, og verður reynslan að skera úr því hvort réttara reynist.

Kleifarvatn

Kleifarvatn – vegurinn undir Hellunni.

En hitt er öllum ljóst, að þetta verður dýrasta vegargerð hér á landi, þar sem ekki eru brýr á leiðinni. Í Vatnsskarðinu verður vegurinn að Keifarvatni lang dýrastur og örðugast að leggja hann. En þó voru örðuleikarnir ekkert á móts við það, sem tekur við, þegar farið er að leggja veginn meðfram vatninu að vestan.
Í fljótu bragði virðist svo sem vegurinn hefði átt að liggja fram með vatninu að austanverðu og þar hefði verið miklu auðveldara að gera hann. En fróðir menn sögðu, að þeim megin væri miklu meiri snjóþyngsli. Kyngdi þarna aðallega niður snjó í austan og norðaustan veðrum, þótt varla festi snjó vestan megin vatnsins. Þetta mun hafa ráið um það, að kosið var að leggja veginn vestan megin vatnsins.

Kleifarvatn

Hellan við Kleifarvatn.

Rétt innan við norðurlónið hefur verið reistur veitingaskáli, og það er fyrsta framkvæmdin í sambandi við Krýsuvíkurveginn. Þangað sækir fólk skemmtanir um helgar á sumrin, eða safnast þar saman til að skemmta sér. Þar við vatnsbotninn þrýtur hinn lagða veg. En þar eru tjöld í brekkunum, og hafast þar við vegavinnumenn þeir, sem vinna að því að halda veginum áfram suður með vatninu. Taka þarna þegar við klettar við vatnið og gangur ekki á öðru en sprengingum. Er klettunum rutt niður í vatnið og hafðir fyrir undirstöðu vegarins. Þetta er erfitt verk og seinlegt, því að það er svo sem ekki að það sé almennilegt grjót þarna. Ónei, það er öðru nær. Það er samryskja, sem hvorki er hægt að kljúfa né sprengja, höggva né handleika. Og svona er það alla leið suður fyrir Stapann syðri, hraun, móberg, móhella og sandsteinn hvað innan um annað.

Kleifarvatn

Kleifarvatn um Stapana.

Vegurinn á fyrst að liggja undir klettunum suður í vikið fyrir norðan Stapann innri. Þarf hann að vera hár yfir vatnsborð það, sem nú er, ef duga skal. Bæði er að vatnið getur hækkað mikið frá því sem nú er, og svo er öldugangur mikill þarna í sunnanveðrum og gengur brimlöðrið langt upp í kletta. En fallegt vegarstæði er þetta, og væri óneitanlega skemmtilegast ef vegurinn lægi alls staðar meðfram vatninu, undir klettunum, enda þótt hann yrði nokkuð krókóttur fyrir það, þar sem fara yrði kringum báða Stapana.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Og alveg óvíst að þær beygjumar hefði orðið mikið lengri heldur en samanlagðar allar þær beygjur og krókar, sem verða á honum þegar kemur upp í brattan norðan við innri Stapann og þar áfram yfir mjög mishæðótt land fyrir ofan báða Stapana og suður á sand. Er það að vísu ekki nema 3 km. leið, en þarna er eitthvert hið argvítugasta vegarstæði, sem hugsast getur.

Víðast hvar er hliðhalli og verður að höggva veginn niður í móberg og móhellur, annars staðar verður að hlaða hann upp margra mannhæða háan, svo að hann verður tilsýndar þegar búið er að hlaða grjóti utan að honum, líkastur brimbrjóti eða hafnargarði. Efni í þessa miklu upphleðslu er vandfengið og mikið haft fyrir því. Sums staðar verður að brjóta niður klettaborgir sem verða fyrir, og á öðrum stöðum verður að lækka vegarstæðið með því að höggva hlið í gegn um móberg og móhelluhóla.

Krýsuvík

Krýsuvíkurhver.

Móhellan er ekki lambið að leika sér við. Hún virðist í fljótu bragði ósköp auðunnin þar sem hægt er að tálga hana með hníf og mylja hana undir fæti. En hún er ekki öll þar sem hún er séð. Þegar hún blotnar má hún heita óvinnandi. Það er svo sem sama hvaða verkfæri er þá beitt á hana. Það er eins og hún verði ólseig. Og þess vegna stendur móhellan í vegavinnumönnunum, þar sem grágrýti hefði ekki staðið þeim snúning.
Þannig er þá skilyrðin til vegarlagningar þarna, og er ekki að furða þótt hver meterinn verði dýr. Reynslan verður svo að skera úr um hvort þessi nýi vegur dugir, eða hvort vatnsflaumurinn, sem hlíðin kastar af sér stundum, verður þess eigi megnugur að sópa honum burt. Og hættulegur getur vegurinn orðið þegar svellbungu leggur yfir hann, eins og við má búast að verði á vetrum. En þá á þetta einmitt að vera aðalleiðin frá Reykjavík til Suðurlandsundirlendisins.

Kleifarvatn

Kleifarvatn.

Það er von að mörgum ofbjóði þessi dýra vegarlagning. Og það er hreint ekki von að mönnum geti skilist það, að samgönguerfiðleikar yfir “fjallið” á vetrum geti réttlætt það, að ráðist er í svo dýrt og tvísýnt fyrirtæki, sem þetta, allra helst þegar góður vetrarvegur er kominn yfir Mosfellsheiði og frá Þingvöllum niður í Grímsnes.
Með lögum var Krýsuvík tekin eignarnámi handa sýslunni og Hafnarfjarðarbæ. Hefur það verið á prjónunum að Hafnarfjörður kæmi sér þar upp kúabúi. En ekki mundi nú þetta nægja, að Hafnfirðingar kæmi sér þarna upp kúabúi. Það myndi seint geta borgað hinn dýra veg. Hvað gæti þá réttlætt það?
Þessi staður hefur ýmis skilyrði fram yfir flesta eða alla staði á landinu til þess að geta orðið merkilvægur í framtíðarsögu þjóðarinnar.

Krýsuvíkurvegur

Krýsuvíkurvegur – Arnarfell framundan.

Þarna er jarðhiti mikill og á allstóru svæði. Og þarna eru brennisteinsnámur. Syðst í Kleifarvatni eru hverir, og hita upp vatnið, en sandströnd á löngum kafla, og því tilvalinn baðstaður. Geisikraftur í stórum hver er ónotaður.

Að öllu athuguðu virðist þarna vera framúrskarandi baðstaður, og ekki ólíklegt aðmeð tíð og tíma verði þarna reist stórt gistihús fyrir baðgesti. Og enn fremur að þarna rísi upp heilsuhæli, sem keppt gæti við frægustu heilsuhæli á meginlandi álfunnar. Heilsuhæli með brennisteinsgufuböðum, og hveraleðjuböðum, þar sem þúsundir manna gæti fengið heilsubót.

Seltún

Krýsuvík – Seltún.

Og engin goðgá er það, að vera svo bjartsýnn, að spá því, að hróður þess berist um víða veröld og að þangað sæki fólk úr öllum álfum og öllum löndum hins menntaða heims. Þegar svo er komið, þá hefur Krýsuvíkurvegurinn ekki orðið of dýr, og hann þarf þá ekki að ná lengra heldur en til Krýsuvíkur. Og þá gleymist það sennilega brátt að hann átti upphaflega að vera vetrarvegur milli höfðuborgarinnar og Suðurlands.

Krýsuvík

Krýsuvíkurvegur 1961.

Þá sér maður koma þarna stórkostlega ræktun við jarðhita. Umhverfis hagana, þar sem kýr Hafnfirðinganna eru á beit, og framleiða mjólk á sama hátt og formæður þeirra gerðu fyrir þúsundum ára, standa raðir af gróðurhúsum þar sem framleiddir eru suðrænir ávextir. Og í görðum, sem hitaðir er með jarðhita, vaxa óteljandi nytjajurtir bæði til manneldis og annarra þarfa. Verksmiðjur rísa þar upp til að vinna brennistein og máske ýmsu efni úr skauti jarðar (t.d. helium) og aðrar, sem vinna áburð úr loftinu og nota til þess gufukraft úr jörðinni. Öll byggðin er upphituð með gufu og við hvert hús standa fagrir trjálundir, sem veita skjól í hretveðrum og stormum.
Þá verður fagurt og búsældarlegt um að litast í Krýsuvík.“

Úr Landið mitt er fagurt og frítt – Árni Óla – 1944.

Krysuvik-607

Austurengjahver.