Fóelluvatn – Guðrúnartóft

Lyklafell

Gengið var norður Mosa frá Vesturlandsvegi áleiðis að Fóelluvatni (Fóelluvötnum-Efri) ofan við Neðrivötn vestan Vatnaáss neðri í Elliðakotsheiði. Ætlunin var að skoða svonefnda Guðrúnartóft utan í Vatnaási efra sunnan Lyklafells, nokkurn veginn á milli vatnanna.

Guðrúnartóft

Guðrúnartóft.

Haldið var upp með Vatnahlíð vestan Vatnaáss neðri með stefnu á Lyklafellið. Ofan við ásinn var beygt til austurs og síðan haldið niður á neðri

Vatnásinn milli vatnanna. Þar syðst í ásnum, mót vestri kom tóftin í ljós.
Vötnin heita fullu og réttu nafni Fóelluvötn og eru kennd við andartegund, er fóella nefnist. Vötnin eru ein stærsta breiðan, er myndast hefur í Leitarhrauni á leið þess til sjávar.
Vötn takmarkast að austan af svokölluðum Öldum, sem eru einar þrjár eða fjórar og liggja frá suðvestri til norðausturs. Eru öldur þessar augsýniega misgengi. Að sunnan takmarkast Vötnin af Sandskeiði og Sleðaási og Lakheiði, þegar vestar dregur. Sandskeið er orðið til við framburð sands og leirs úr hlíðum Vífilsfells eða úr giljum í fjallshlíðinni þar nærri. Að norðan markast Vötnin af móbergsmyndunum. Ber hæst Lyklafell. Tryggvi Einrasson í Miðdal (1901-1985) kallar einungis Fóelluvatn það sem sjá má norðan Vatnaáss neðri. Þar hefur áður verið blautara og meira vatn en annars staðar á svæðinu.

Guðrúnartóft

Guðrúnartóft – uppdráttur.

Lyklafell er 281 m.y.s. Syðsti hluti þess er stundum nefnt Litla-Lyklafell. Fellið hefur orðið til í gosi undir jökli á sprungum sem legið hefur norðaustur og suðvestur, en jafnframt verið nokkuð snúin. Þetta gefur fellinu sérkennilega lögun, sem minnir á fornan lykil með stóran skúf, stilk og stórt skegg.

Nyrsti hluti Lyklafells er skúfurinn, en syðsti hluti þess skeggið, og hálsinn á milli er lykilsstilkurinnn. Blasir þetta við sjónum hvers og eins, sem fer ofan Öldur (t.d. eftir línuveginum). Auk þess tengist nafnið við ferðir bryta frá Skálholti er mun hafa tapað lyklum sínum við fellið, a.m.k. skv. þjóðsögunni þess efnis. (Sjá HÉR).
Tóftin á Vatnaási efri, sem nefnd hefur verið Guðrúnartóft, á sér meiri sögu en fljótt á litið virðist líklegt. Þarna hefur verið gerð ein síðasta tilraun til selstöðu hér á landi, ef skilja má heimildir rétt. Hjónin Guðmundur Guðmundsson og Guðrún Hákonardóttir frá Lága felli í Mosfellssveit reyndu að koma sér upp aðstöðu í Vötnunum og reistu hús þar, sem tóftin er nú. Var þetta að öllum líkindum árið 1823. Stóð svo ein þrjú ár, en þá var þeim stökkt burt af yfirvöldum. Guðmundur, maður Guðrúnar, varð ekki langlífur, en Guðrún lifði mun lengur. Hún var ljósmóðir í sinni sveit og þekkt kona. Því hefur verið talið við hæfi að kenna tóftina við hana.

Fóelluvötn

Guðrúnartóft við Fóelluvötn.

Athyglisvert er að jarðfastur steinn hefur verið hafður að gaflhlaði í húsinu, sem staðið hefur á tóftinni. Skúli Helgason, fræðimaður, hefur ritað skilmerkilega grein um tóftina, er nefnist: „Gamla rústin við Fóelluvötn og fólkið sem kom þar við sögu“, í Árbók fornleifafélagsins 1981, bls. 118-128.
Fjölfarið hefur verið um Vötn áður fyrr af gangandi mönnum, lestarmönnum eða mönnum lausríðandi. Mjög er nú tekið að fyrnast, hvernig alfaraleiðir hafa legið um Vötn. Þar eru nú engar glöggar slóðir lengur með vissu. Elstu og sennilega bestu heimildir um fornar leiðir um Vötn er að finna í lýsingu Ölfushrepps 1703 eftir Hálfdán Jónsson á Reykjum. Þar nefnir hann veg úr Hellisskarði um Fóelluvötn Helluskarðsveg.
Gengið var til baka milli ásanna og niður á Vesturlandsveg.
Frábært veður.

Heimildir m.a.:
-Hesturinn okkar 1989, 2.-3.tbl. – Riðið í Lækjarbotna og Vötn…

Fóelluvötn

Fóelluvötn – tóft.