Árbær

Í Lesbók Morgunblaðsins 1948 má lesa; “Árbær fer í eyði”:

Árbær

Árbær 1948.

“Seinasti ábúandinn á Árbæ í Mosfellssveit, Kristjana Eyleifsdóttir fluttist þaðan í vor og nú er jörðin í eyði.
Sennilega verður hún ekki bygð aftur.
Húsin munu verða rifin og þar með hverfur úr sögunni seinasti bærinn bygður í íslenskum stíl, hjer í nágrenni Reykjavíkur. — Eigi er kunnugt hvenær Árbær bygðist fyrst, en hann var ein af jörðum Viðeyjarklausturs og komst undir konung við siðaskiftin og talin meðal konungsjarða í fógetareikningum 1547—1552. Ditlev Thomsen eldri keypti jörðina af konungi (ásamt veiðrjetti í Elliðaánum), seldi hana aftur Mr. Payne, en af honum keypti Reykjavíkurbær jörðina 1906.

Árbær 2020.

Bæjarhúsin að Árbæ eru einu hús safnsins sem eru á sínum upprunalega stað. Hluti bæjarhúsanna er hlaðinn úr torfi og grjóti en yngri hluti þeirra er úr timbri. Búseta að Árbæ lagðist af árið 1948, þegar síðasti ábúandinn flutti í burtu. Nýlegar fornleifarannsóknir gefa vísbendingu um að búseta, annað hvort föst eða tímabundin, hafi verið á þessum stað síðan á 10. öld. Síðustu ábúendur Árbæjar voru hjónin Eyleifur Einarsson og Margrét Pétursdóttir en þau fluttu þangað árið 1881, ásamt þremur dætrum Kristjönu, Elínu og Guðrúnu. Elín lést af slysförum 19 ára gömul en Kristjana flutti frá Árbæ 1948. Árbæjarsafn var að formi til stofnað 1957.

— Ólafur Lárusson prófessor hefur dregið líkur að því, að jörðin hafi upphaflega heitið Á, eða Á hin efri og Ártún þá Á hin neðri. En um nafnbreytinguna segir hann: „Neðri jörðin hefur farið í eyði um tíma. Þar hefur um hríð ekki verið nein bygð, en túnið var eftir, og það kann að hafa verið nytjað, ef til vill frá efri jörðinni. Á efra býlinu var áfram bygð. Fólk hætti þá að tala um Á efri og Á neðri. Það talaði um BÆINN á Á, og Árbæ, efra býlið þar sem bærinn stóð og búið var. Það talaði um TÚNIÐ á Á, Ártún, neðri jörðina, þar sem ekki var lengur bær, en túnið eitt var eftir. Árbæjarnafnið festist við efra býlið, og þegar neðra býlið bygðist aftur, þá helt það tún-nafninu og var kallað Ártún.“ —
Um skeið var Árbær gistingarstaður austanmanna þegar þeir voru í kaupstaðarferðum, og var þar þá seldur greiði. Um þær mundir var það alvanalegt að Reykvíkingar færi þangað skemtiferðir á sunnudögum. Og einu sinni hélt Verslunarmannafjel. Reykjavíkur þar hátíð sína 2. ágúst. En eftir að bílarnir komu var Árbær alt of nærri Reykjavík til þess að vera gististaður og nú um mörg ár hafa menn þeyst þar framhjá án þess að koma við. En margir eldri menn, bæði í Reykjavík og austanfjalls, eiga góðar minningar þaðan. Nú er þar aðeins einn maður, sem lítur eftir húsum og túninu.”
Bærinn Árbær var síðar gerður að minjasafni Reykjavíkur.

Aðalstræti

Sagan segir að Ingólfur Arnarson hafi verið fyrstur manna til að setjast að í Reykjavík. Augljóst er að Reykjavík var gjöfult land en það var ekki sjálfgefið að hér yrði höfuðstaður landsins. Hér eru hins vegar góð fiskimið og góðar náttúrulegar hafnir. Skúli fógeti Magnússon fékk svo land frá konungi undir Innréttingarnar til að, meðal annars, vinna klæði úr ull. Upp frá því jókst byggð smátt og smátt og þegar Reykjavík fékk kaupstaðarréttindi, 18. ágúst 1786, eftir lok einokunarverslunarinnar, var í raun ekki aftur snúið. Með þessum réttindum fékk bærinn byggingalóðir og leyfi til að opna verslanir og verkstæði. Stjórnarstofnanir fóru einnig að safnast til Reykjavíkur, biskupsstóll og Latínuskólinn voru einnig fluttir til Reykjavíkur. Það var svo ekki fyrr en 1962 sem Reykjavík varð opinberlega að borg, þó að borgarstjóratitillinn hafi verið notaður frá 1907.