Leiran – Gísli Brynjólfsson
Gengið var um Leiruna og Stóra-Hólm.
„Leiran liggur við sjávarsíðuna, miðja vegu milli Keflavíkur og Útskála. Hún var eitthvert það besta fiskiver því þar mátti sækja sjó á báðar hendur, eins og segir í sóknarlýsingu frá árinu 1839. Nú mun hins vegar langt síðan nokkurri fleytu hafi verið róið til fiskjar úr Leirunni, enda hefur hún sannarlega fengið öðru hlutverki að gegna en sjósókn hina síðari áratugi.
Árið 1816 bjuggu 54 menn á 6 heimilum í Leiru, en 39 menn á 3 heimilum í Keflavík. Árið 1880 voru nákvæmlega jafn margir íbúar í Keflavík og Leiru, eða 154. Nú býr engin í Leirunni, en íbúar í Keflavík eru nú nálægt 10.000 (Íbúar í Reykjanesbæ, sem Keflavík er nú hluti af, eru um 11 þúsund talsins en bæjarfélagið er meðal þeirra fimm stærstu á landinu).
Þótt Leiran væri ein minnsta sveit Suðurnesja var þar hæst metna jörðin í Rosmhvalaneshreppi árið 1861.
Það var Stóri-Hólmur með 7 hjáleigum, metin á 51,9 hundruð. Bæði var að jörðin var landmikil, en hitt hafði þó mest að segja, að þar var ein sú besta lending, rudd vör með miklum tilkostnaði og skipaleiðin eða sundið svo gott að sagt var, að þá mundi útsjór ófær ef það tæki af.
Þess vegna var mikil sjósókn úr Leirunni. Og þó enn meiri í Garð- og Leirusjó úr öðrum plássum. T.d. var sagt að eitt sinn í vetrarvertíðinni 1879 hefðu verið talin 400 skip, sem sáust sigla inn fyrir Hólmsberg og inn á Vatnsleysuströnd. En háan skatt varð Leiran að gjalda Ægi og ekki síður en önnur byggðarlög við sjóinn. Í annálum Suðurnesja eru talin 6 skip með 27 mönnum, sem fórust úr Leiru á árunum 1830-1879. Vestan við núverandi (fyrrverandi) íbúðarhús í Hólmi er bátslaga fornmannaleiði og hlaðinn brunnur, auk fleiri minja um fyrrum bústetu á þessu forna höfuðbýli. Slíkum minjum er einnig fyrir að fara á Leiru þótt sumar þeirra hafi nú verið „sléttaðar“ út.
En lífið í Leirunni var ekki bara sjósókn og saltfiskur heldur líka fræðsla og félagsmál. Þar var stofnað til barnaskóla fyrir aldamót (1900) og þar starfaði stúka í eigin húsnæði. Golfklúbbur Suðurnesja hefur nú lagt Leiruna undir starfsemi sína, ræktað þar golfvöll og byggt tilheyrandi skála. Sú ræktun hefur gengið fljótar fyrir sig en í gamla daga þegar sjómennirnir báru slorskrínur á öxl sér neðan úr vör til að drýgja áburðinn og fjölga þar með grasstráunum handa skepnunum.
Þótt Leira sé búin að fá annað hlutverk í lífi Suðurnesja en hún áður hafði er enn ástæða fyrir fólk að staldra þar við og skoða sig um niðri við sjóinn í þessari fornu útgerðarstöð, virða fyrir sér Hrúðurinn og Leiruhólmann og virða fyrir sér það sem enn minnir á liðinn tíma. Og þá er ekki heldur úr vegi að leita uppi Sigurðarvörðuna (Prestsvörðuna), sem er fyrir ofan Leiruna.
Það var laugardaginn 22. janúar 1876 að séra Sigurður Sívertsen á Útskálum var að koma frá barnsskírn í Keflavík. Stórrigning datt á upp úr útsynnings éljagangi og síðan frysti. Sigurður skýrði svo frá: “Varð ég viðskila við samferðarmann minn við Bergsenda, en af því að ég sá ekki lengur til vegar, fór ég áleiðis suður fyrir veginn fyrir ofan Leiru… Var og hesturinn hlaupinn frá mér. Lagðist ég þá niður og ætlaði að láta fyrirberast, en um nóttina var gjörð leit að mér… leið svo hin óttalega nótt, að enginn gat mig hitt, þar til um morguninn, að tveir heimamenn mínir hittu mig, og var ég enn með rænu og nokkru fjöri, en mér leið vel og mér fannst eins og yfir mér hefði verið tjaldað, og vissulega var ég undir hlífðartjaldi með föðurlegri varðveislu. Guði sé lof fyrir þessa lífgjöf. Þetta tilfelli í lífi mínu vil ég ekki gleyma að minnast á og gefa guði dýrðina.”
Í þakklátri minningu um björgun þessa lét séra Sigurður hlaða vörðu á þeim stað sem hann fannst og fella í hana hraunhellu með Biblíuáletrun.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.
Heimild;
-Árbók FÍ 1984 – séra Gísli Brynjólfsson.