Leiran – Garður
Gengið var um Sveitarfélagið Garð í tilefni af Sólestursdögum dagana 13. og 14 ágúst.
Rosmhvalaneshreppur var væntanlega til frá upphafi hreppaskipunar við lögtöku
tíundarlaga 1097, þar til farið var að breyta skipun og mörkum þessara sveitarfélaga á ofanverðir 19. öld. Rosmhvalaneshreppur átti Njarðvíkurjarðirnar, en missti þær úr sínu umdæmi 1596. Hreppurinn náði yfir allan ytri hluta Reykjanesskagans og átti land að Hafnarhreppi og Grindvíkurhreppi að austan og Vatnsleysustrandarhreppi að norðan.
Árið 1886 breyttist hreppaskipanin á Reykjanesskaga með þeim hætti, að hinum forna Rosmhvalaneshreppi var skipt í tvennt og nýr hreppur stofnaður. Hann hlaut nafnið Miðneshreppur og náði yfir ysta hluta skagans vestan Hafnarhrepps. Innri hlutinn náði yfir Keflavík, Leiru og Garðinn, að mörkum Útskála og Kirkjubólshverfis og hélt sínu forna nafni. Þegar Miðneshreppur hlaut kaupstaðaréttindi 3. desember 1990 var hann nefndur Sandgerði.
Keflavíkurkauptún komst fljótt í landþröng, enda Keflavíkurjörðin afar smá og var þá brugðið á það ráð árið 1891 að löggilda hluta af landi Njarðvíkurhrepps sem verslunarlóð Keflavíkurkauptúns og eftir það var kauptúnið í raun í tveimur hreppum.
Þann 15. júní 1908 var sýslumanninum í Gullbringu- og Kjósarsýslu sent bréf frá stjórnarráði Íslands um breytingu á takmörkum Rosmhvalaneshrepps og Njarðvíkurhrepps. Í því kom m.a.. fram, að Njarðvíkurhreppur ásamt landi jarðarinnar Keflavíkur skuli vera hreppur útaf fyrir sig, er nefnast ætti Keflavíkurhreppur og Rosmhvalaneshreppur að fráskilinni jörðinni og kauptúninu Keflavík skuli vera sjálfstæður hreppur og heita Gerðahreppur.
Takmörk hins nýja Keflavíkurhrepps voru þáverandi takmörk Njarðvíkurhrepps og gagnvart Gerðahreppi, landamerki jarðarinnar Keflavíkur. Hélst friður um þau mörk í nærfellt 6 áratugi eða þar til 14. maí 1966, að samþykkt voru lög frá Alþingi, þar sem hreppamörk Gerðahrepps og Keflavíkur voru færð til norðurs og dregin frá Hólmbergsvita í háspennulínu ofan þjóðvegar. Nafni Gerðahrepps var breytt í Sveitarfélagið Garð þann 27. janúar 2004.
Þegar jarðabókin var tekin saman árið 1703 voru alls sextán jarðir í byggð í Garði og Leiru auk Útskála. Jarðirnar voru þessar: Hrúðurnes, Stórihólmur, Litlihólmur, Gufuskálar, Meiðastaðir, Ívarshús, Kothús, Varir, Brekka, Skeggjastaðir, Gauksstaðir, Gerðar, Miðhús, Lambastaðir, Rafnkelsstaðir og Krókur og að auki er getið hinna fornu Heiðarhúsa, sem stóð á heiðinni upp af Meiðastöðum og Rafnkelsstöðum, og enn má sjá leifar af. Heiðarhús varð klausturseign og síðar konungs, líkt og flestar jarðirnar á svæðinu. Síðar fór hún í eyði, en var nýtt frá nærliggjandi jörðum.
Mörk Sveitafélagsins Garður liggja frá Garðskagatá um Skálareyki og um fríhöfn flugstöðvarbyggingarinnar á Keflavíkurflugvelli. Eystri mörk liggja frá flugstöðvarbyggingunni að mörkum heiðinnar fyrir ofan Sandgerði og þaðan í vitann á Hellisgnípu. Margt norðan við þessa línu er í rauninni stórmerkilegt, ef vel er gaumgæft. Táknrænt er að kirkjugarður Keflvíkinga skuli vera á mörkunum – og rúmlega það. Hluti hans teigir sig inn fyrir mörk Garðs, en það er í raun lýsandi dæmi um mikinn og jafnan áhuga sunnanmanna á landssvæðinu þar fyrir norðan. Má nefna golfvöllinn nýjastan í því sambandi, en áður útræðið. Haga fyrir hross sín sækja Keflvíkingar og til Garðs.
Töluverðar breytingar hafa síðustu áratugi átt sér stað í Garðinum. Leiran er komin í eyði og á landi landnámsjarðarinnar Stóra-Hólms er nú með betri golfvöllum landsins. Golfararnir mættu af og til staldra við af og til milli högga og íhuga um stund hina merkilegu sögu svæðisins fyrrum.
Leiran mun hafa dregið nafn sitt af leirunni með lágri ströndinni milli Hólmsbergs og Rafnkelsstaðabergs. Í dag er hún að mestu horfin, en hærri bakkar komnir í hennar stað. Bæði hefur gróið land sumstaðar náð lengra út (sbr. Leiruhólma, sem eitt sinn var útgerðarstaður), en sjór brotið það smám saman líkt og annars staðar á Suðurnesjum, og auk þess hefur bökkum, sem draga nöfn sín af einstökum bæjum næst ströndinni, verið hlaðið upp ofan hennar og tún ræktuð efra. Það er samdóma álit eldri manna að sandstrandir og leirur hafa verið á undanhaldi með ströndum Faxaflóa á síðastliðnum áratugum, enda mikill sandur verið tekinn víða til húsbygginga í langa tíð.
Í Leiru og Garði, ystu byggð Reykjanesskagans, hafa minjar, sem voru svo algengar hér áður fyrr, og þóttu bæði svo sjálfsagðar og eðlilegar, að ekki tók að minnast á þær í annálum eða sérstökum lýsingum, fengið að vera óáreittar. Einkum er þær að finna í Út-Leirunni, ofan og innan við Réttarholt sem og vestan við íþóttahúsið í Garði. Þessar minjar eru og verða dýrmætari eftir því sem tíminn líður. Líta má á þær sem verðmæti komandi kynslóða.
Áttir í Leiru og Garði voru jafnan einungis tvær; Inn og Út. Þannig var Leirunni jafnan skipt upp í Innleiru (Hólmshverfið) og Útleiru (Gufuskálahverfið) og Garði var skipt upp í Inn-Garð (Rafnkelsstaðir og Meiðastaðir) og Út-Garð (Útskálar, Miðhús og Lambastaðir með Mið-Garð eða Gerðahverfið á milli. Hefur þetta sennilega verið gert til einföldunar því ströndin liggur milli átta; norðvestur og suðaustur. Líklega hefur fólki fundist lítt ágreiningslaust að ákveða mörk áttanna (vestur og norður annars vegar og austur og suður hins vegar) hverju sinni, og því einfaldað þau til ágreiningsléttingar. Víða má sjá á letri hvernig íbúar á tilteknum svæðum hafa komið sér saman um viðurkennd viðmið á meðan aðkomufólk virtist hafa notað sín eigin. Þannig hefur á stundum komið upp misskilningur um leiðir og staðsetningar, allt eftir því hver um fjallar.
Þótt byggðin hafi hörfað úr Leirunni hefur byggðin í Gerðalandi á hinn bóginn vaxið ört og þar er nú myndarlegt þéttbýli. Fyrr á tímum var oft mikið fjölmenni í Garðinum þó landrými væri ekki mikið og hjáleigur margar sem fylgdu aðalbýlum. Gegnum aldirnar hefur verið mikil sjósókn frá Garðinum enda stutt á fengsæl fiskimið. Árið 1780 voru taldir 120 manns í Garði en þá voru 288 heimilisfastir í Útskálasókn.
Um aldamótin 1900 voru eftirfarandi bæir syðst í Leirunni, auk hjáleiga og tómthúsa. Innsta húsið í Inn-Leiru hét Bergvík. Bergvík var samheiti á bæjum þeim, er mynduðu hálfhring eða skeifu umhverfis geysimikinn mel innst undir Ritunýpu, sem er vestasta nýpan af fjórum á leiðinni til Keflavíkur. Býlin í Bergvík voru nefnd eftir eigendum sínum eða ábúendum, s.s. Einarskot, Brandskot eða Margrétarkot, Guðrúnarkot, Pálsbær og Bakki.
Framan af var ekkert hugsað um ræktun í Bergvík, nema ef vera skyldi hjá einum bónda. Hann hafði töluvert af kindum og ræktaði stóran túnblett fyrir framan hjá sér. Setti þessi ræktun hans vinanlegan svip á umhverfið. Tóku aðrir upp eftir honum að rækta bletti hjá sér, einkum kálgarða og smá túnskákir framan við húsin. Grjótmelurinn við Bergvík hefur á seinni árum verið hagnýttur sem steypuefni í Garðinum og Keflavík. Þangað var t.d. sótt byggingarefni í Garðskagavita.
Hólmsberg endar til norðurs í Berghólum. Hóllinn næstur Bergvíkurtúninu, beint upp af svonefndum Gónhól, var nefndur Gapastokkur. Talið er að strákar hafi farið djarflega framan í honum og sýnt það gapaskap þegar þeir voru að klifra. Huldufólkstrú lá á þessum hól. Hann er hár og klettóttur sjávarmegin og illfær. Þóttust menn oft heyra mannamál og áraglamur niðurundan hólnum, einkum að kvöld- og næturlagi. A.m.k. þrjár tóftir eru á og utan í Gapastokk. Austsuðaustur af Gapastokk er stór ílangur klettur, sem er eins og hús í laginu. Svolítill hnúður er á norðvesturenda hans. Steinn þessi var nefndur Álfakirkja. Gamalt fjárskjól er norðvestast á Berghólum, fast við gömlu götuna til Keflavíkur. Stóravör var beint niðurundan Gónhól.
Norður af Bergvík var Grænigarður eystri og vestari og þá Lindarbær. Vatnsbrunnurinn, fallega hlaðinn, er í Dalnum. Í leysingum fór Línlækur þar niður um. Í Dalnum var stundum þveginn þvottur. Af því dregur Línlækur nafn sitt og eftir vatnsbólinu heitir Lindarbær. Norðar með sjónum var Melbæjarbakki og norðar Melbær, steinsnar frá Bakka.
Upp úr torfbænum að Melbæ var byggt timburhús, portbyggt með íbúðarlofti. Í þetta nýja hús var sett eldavél, niðurmúruð eins og þær tíðkuðust fyrst eftir að þær tóku að flytjast hingað til lands. Þóttu þær all nýstárlegar og hinir mestu kjörgripir, enda var þá strax farið að baka í þeim brauð og „bakkelsi“. Mun þetta hafa verið fyrsta „Maskínan“, sem kom í Leiruna, að sögn Þorbjargar Sigmundsdóttur, sem ólst upp frá fjögurra aldri að Efra-Hrúðurnesi í Leiru (fædd 15. okt. 1878). „Myndi þetta þó þykja þröngur kostur nú til dags og ófýsileg lífskjör, en samt er gagnlegt og lærdómsríkt fyrir nútímafólk, sem flestir hlutir eru lagðir upp í hendurnar á, að hyggja að þeim stórstígu breytingum til bættra lífskjara, sem orðið hafa á síðar aldarhelmingi (20. aldar).“
Það mikla og raunalega atvik skeði milli jóla og nýárs aldamótaárið, að eldur kom upp í Melbæ að í ofsaroki að næturlagi og brann þar allt sem brunnið gat og þar á meðal 2 kýr í fjósinu. Mannskaði varð þó ekki og bjargðist fólkið allt, fyrst og fremst fyrir dugnað húsbóndans og áræði, en við björgunarstarfið skaðbrenndist hann bæði á höndum og andliti. Dóttir hjónanna brenndist einnig mjög mikið.
Utan og suðvestan við Melbæ var Efra- og Neðra-Hrúðurnes, sem drógu nöfn sín af hólmanum þar utan við; Hrúðurhólma. Hann var hinum megin við svokallað Hólmasund, sem var þrautalending í Leiru og mátti lenda þar í öllum áttum, nema norðanátt. Í þeirri átt gat sundið verið stórhættulegt. Á seinni huta 19. aldar fórst þar skip af Seltjarnarnesi. Formaðurinn hét Loftur frá Bollagörðum og var nýkvæntur dóttur Guðmundar frá Nesi þegar þetta gerðist. Skammt frá var Efra-Hrúðurnes. Norðvestar var Garðhús. Fyrir neðan Garðhús stóð Ráðagerði, stórt timburhús með háu risi. Það stóð næst Hrúðurnesjabæjunum. Vestar var býlið Kötluhóll. Þá kom Stóri-Hólmur.
Á göngu frá Leiru með ströndinni að Garðskagavita var tækifærið notað til að rifja upp sögu og sjósókn í Garði.
Guðmundur A. Finnbogason segir frá Leirunni í Lesbók Morgunblaðsins; „Leiran slagaði eitt sinn upp í Keflavík. Hún var þyrping fátæklegra býla með ofurlitlar grasnytjar, en lífsbjörgin kom umfram allt upp úr sjónum. Nú býr þar enginn, bærinn á Stórhólmi stendur einn eftir, en þotur koma í lágflug inn yfir þessa grænu vin, þar sem Suðurnesjamenn koma nú saman í frístundum og leika golf. Leiran var á landnámsöld einn þeirra staða við sunnanverðan Faxaflóa sem Ingólfur landnámsmaður Arnarson skenkti Steinunni gömlu frænku sinni. Hún hafði átt Herlaug bróður Skalla-Gríms, sem nam land á Mýrum og hún bjó í Leiru eða sem hét Hólmur og síðar Stóri-Hólmur eða Stokkhólmur.
Síðan fer engum sögum af búskap í Leiru þar til 1703, að manntal fór fram, en þá voru 4 býli í Leiru og íbúar um 51. Á Stóra-Hólmi töldust 26 til heimilis, 6 á Litla-Hólmi, 7 í Hrúðurnesi og 15 á Gufuskálum. Þrettán býli voru orðin í Leirunni árið 1801 og íbúarnir 74. Þeim hafði fækkað niður í 6 árið 1836. Eftir það færðist nýtt líf yfir plássið og býlin urðu 12 og íbúarnir 82. Árið 1870 eru Leirumenn orðnir 138 og býlin orðin 16. Árið 1950 voru aðeins 5 býli eftir í Leirunni og árið 1960 stóð Stóri-Hólmur þar einn eftir.
Leiran var á sínu blómaskeiði eitt af allra bestu fiskiþorpum við sunnanverðan Faxaflóa. Þar var róið sem víða annars staðar svo til árið um kring. Vetrarvertíðir voru þó almesti sjósóknatíminn og oftast allra besti fiskitíminn. Úr Leirunni var oft hægt að sækja til fiskar á bæði borð, þegar frá landi var komið.
Á árabilinu 1631 til 1910 hafa svo vitað sé 14 skip og bátar farist er gengu úr Leirunni. Af þessum fleytum fórust 68 menn, þar af tvær konur. 23 menn fórust á þessu tímabili af Gufusskálaskipunum, 15 af Litla-Hólmsskipunum og 8 af Stóra-Hólmsskipunum, en færri af öðrum.
Innnesingar voru þeir nefndir er komu suður í Leiru í byrjun vetrarvertíðar með skipshafnir sínar til að róa þaðan.“ Ofan við Hólm eru rústir Steina, en þar vilja sumir meina að Steinunn gamla hafi búið.
Í Hauksbók Landnámu og Sturlubók Landnámu er kveðið á um að Steinunn gamla hafi fengið Rosmhvalanesið í kaup við Ingólf frænda sinn. Hún bjó í Hólmi. Herjólfur Bárðason fékk land hjá Ingólfi milli Vogs og Reykjaness og er talið að hann hafi haft bú í Gamla-Kirkjuvogi við Ósabotna utanverða. Lönd Steinunnar og Herjólfs lágu því saman við Ósabotna. Land Steinunnar náði að Hvassahrauni, en hún gaf frænda sínum Eyvindi land á milli þess og Kvíguvogsbjarga þar sem líklega hefur verið miðað við Innri-Skoru.
Fyrir norðan Kötluhól stóð Stór-Hólmsbaðstofan. Neðar er Stóra-Hólmshúsið. Vestan við Stóra-Hólm er bátslaga óræktarsvæði. Hleðsla hefur verið og er umhverfis og lengi vel var bletturinn girtur af. Sú sögn var um blett þennan að þar væri fornmaður grafinn og honum mætti ekki raska. Sumir segja að þar hafi Hólmkell, fornmaður, verið grafinn með haugfé sínu, en ekki er vitað til þess að gengið hafi verið úr skugga um það. Sigurður B. Sívertsen, prestur á Útskálum segir frá þessu í lýsingu Útskálaprestakalls árið 1839 að svo hafi verið mælt að á Stóra-Hólmi „hafi byggt fornmaður nokkur, sem Hólmkell hafi heitið og skal vera heygður þar í túninu.“ Ofar var annar hóll, nú sléttaður. Þar vilja kunnugir meina að hafi verið dys Steinunnar landnámskonu.
Lásarif er þarna fyrir utan. Rauf er nokkurn veginn á miðju rifinu og er hægt að róa í gegnum það um smástraumsfjöru. Raufin dregur nafn sitt af þeim, sem ruddi grjótinu, en sá hét Nikulás Björnsson og bjó þá í Nýlendu. Miklum björgum hefur Lási þurft að bylta til, er hann ruddi raufina, en það gerði hann einn, nema hvað dóttir hans mun hafa hjálpað honum.
Á Hólmi gerðist frásögn af smala nokkrum er hlaut mein í látum. Meðan smalinn lá veikur mælti hann svo fyrir um að hann skyldi grafinn við götuna heim að bænum. Það var gert þegar að honum látnum; skammt fyrir innan hliðið á garðinum og letursteinn settur yfir. Sást steinn þessi til skamms tíma, en FERLIR hefur leitað að honum um alllangt skeið, en ekki fundið.
Norðar var bærinn Nýlenda. Fyrir ofan hann stóð bærinn Rófa. Utar var Nýlenda og Steinar. Tóftir sjást enn. Austar og nær sjónum stóð Bakkakot, stórt timburhús á tveimur hæðum. Fyrir utan Stóra-Hólm og ofan við Bakkakot voru býlin Traðarkot og Steinar, hið síðarnefnda litlu ofar. Litlu ofar við þessa bæi var Hábær. Næst Bakkakoti var Litli-Hólmur. Litla-Hólmskotin voru talin þrjú um aldamótin 1900.
Leiran var góð veiðistöð og lá vel við til sjósóknar. Það var því algengt, að formenn af Innnesjum lægju þar við með skip sín fram til sumarmála, er fiskur fór að veiðast inni í bugtinni. Það voru formenn af Álftanesi, Seltjarnarnesi og Reykjavík.
Tvær stórar verbúðir voru í Leirunni. Önnur var í Bergvík. hana átti Brynjólfur í Engey. Hin verbúðin var rétt fyrir vestan Melbæ, á grandanum milli Neðri-Hrúðurness og Melbæjar. Var það geysimikil bygging, í daglegu tali kölluð „Skökk“. Mun nafnið hafa stafað af því, að þegar nýbúið var að reisa verbúðina, gerði afspyrnu rok, svo hún skekktist á grunninum og varð aldrei lagfærð aftur. Þetta var timburkofi, ein hæð og dálítið ris. Þar voru oft 3-4 skipshafnir og jafnvel fleiri. Vertíðina 1910 voru þar 4 skipshafnir með 28 manns, en á tímabilinu 1901-1905 höfðust við í „Skökk“ 7 skipshafnir. Skökk stóð innan við og á bakka Línlækjar.
Í Leirunni var reist dágott samkomuhús þar sem allir fundir stúkunnar Vonarstjörnunnar voru haldnir svo og þær skemmtanir er til féllu. Áramótafagnaðir voru haldnir í húsinu og álfadans á Hólstjörn, sem lá utan við Hrúðurnestúnið í Hólslandi, en á þessari tjörn var oft ágætt svell.
Til að komast til Keflavíkur voru gengnar „eggjarnar“, það er þrædd bergbrúnin, en þar var yfirleitt þurrast yfirferðar. Gatan þótti oft aurug fyrir fótgangandi.
Svo virðist sem lífsviðurværi fólksins í Leirunni hafi að langmestu leyti verið sótt til sjávar, en fátt verið af skepnum. Sel frá bæjunum voru engin, enda kannski heiðarlandinu ekki fyrir að fara. Skepnuhaldið fór því nær eingöngu fram við bæina, fjöruna og næsta nágrenni. Á Leirunni mátti hafa sauðfé með nákvæmri aðgæslu fyrir sjó. Misstu bændu oft fé sitt í sjóinn, því fyrir utan Hólm og innan Gufuskála er bás, sem Sjálfkvíar heita, er fé vildi oft flæða, en ómögulegt að bjarga, því þverhnýptir klettar eru fyrir ofan.
Í Rauðskinnu segir frá Prestsvörðunni: „Í heiðinni skammt fyrir ofan Leiru er mannhæðar há grjótvarða sem alltaf var nefnd Prestsvarða. Sagt var, að síra Sigurður Sívertsen (1808-1887), sem prestur var á Útskálum fyrrum, hafi einhverju sinni verið þarna á ferð að vetrarlagi. Kom hann úr Keflavík og ætlaði heim til sín að Útskálum. Talið var að leiðin væri tveggja tíma gangur eða meira eftir þeim vegi sem þá var farinn. En við lestagang voru allar vegalengdir miðaðar á þeim tímum. Þegar prestur kom út á móts við miðja Leiru villtist hann af leið. Fannst honum líðan sín þannig að hann treystist ekki til þess að halda áfram ferðinni. Prestur tók það ráð að leggjast fyrir og vera kyrr alla nóttina. Nokkru síðar lét síra Sigurður hlaða upp vörðu á þessum stað. Var hún ferstrend eins og margar grjótvörður. En eitt var það, sem gerði hana frábrugðna öðrum vörðum. Á hlið þeirri sem að austri snéri var allstór flöt hella sem á var
höggvið sálmavers.“
Sálmaversið á hellunni er 4. Davíðs Sálmur 8. vers. („Í friði leggst ég til hvíldar og sofna, því að þú, Drottinn, lætur mig búa óhultan í náðum“).
Íbúðarhúsið að Litla-Hólmi stendur enn. Á Litla-Hólmi var búin til eða rudd vör um 1790 „með ærna uppákostnaði; hafði sá, að sögn, sem það gerði, þegið 100 dala verðlaun af kóngi,“ að sögn Sigurðar B. Sívertsen. Litla-Hólmsvör var langmest mannvirki af öllum vörum í Leiru. Aðrir segja hana endurbyggða af Páli bónda Jónssyni, er þar bjó á seinni hluta 19. aldar. Vörin er 50 m löng, 10 m breið og vegghæð um 2 m. Margir steina í vegghleðslunni munu vega yfir eitt tonn, sumir allt að 2 1/2 tonn. „Er hleðslan gerð af meistarahöndum og raunar hið mesta þrekvirki, svo gengur undrum næst, hvernig verkfæralaus maður hefur getað framkvæmt þetta,“ segir Ari Gíslason í örnefnalýsingu sinni um Innleiruna.
Utar er Leiruhólmi. Á klettakoll í honum er klappað LM, merki um landamörk. Sunnar er annar hólmi, Hrúðurinn. Hrúðurnes var þar fyrir ofan í Leirunni. Sagnir herma að Þjóðverjar hafi verslað í Leiruhólma, að líkindum í lok miðalda. Þaðan var mikið útræði, enda fjölmennt.
Steinsteypt, hálfhrunið hús, stendur milli Hólmsbæjannna. Að sögn Ásgeirs Jóelssonar var skólahúsið í landi Nýlendu í Leiru byggt 1910. Húsið var einskólastofa og anddyri. Fyrir utan skólahald fóru þar fram ýmisskonar mannamót: þingfundir, leikritaflutningur og dansleikir. Húsið var 13 x 9 álnir eða rúmir 43 fermetrar að utan máli. Það varsteypt úr 1 hluta af sementi á móti 12 af möl, sem var sótt niður ífjöru. Mikið grjót var sett í steypuna sem var ójárnbent. Fyrir miðju og eftir endilöngum grunninum er veggur sem átta burðarbitargólfsins hvíldu á og eru úrtök fyrir þá í hliðarveggjunum. Skólinn var hvítkalkaður að utan með rauðmáluðu þaki, vængjahurð og gluggum. Sjávarmöl var í stétt meðfram efri gafli og aðalhliðhússins. Í norðurhlið rústanna, sem enn stendur uppi, eru festingar fyrir kamar sem þar stóð.
Í Út-Leirunni, eða Gufuskálahverfinu, stundum nefnd Útleira. Voru nokkrir bæir um aldamótin 1900. Höfuðbólið var Gufuskálar. Næst Gufuskálum var Vesturkot, Hausthús og síðan Kónsgerði efst (nyrst) í túninu. Í Landnámu segir að á Gufuskálum hafi tekið land Ketill gufa Örlygsson ásamt þrælum sínum írskum og setið þar einn vetur, en síðan haldið í leit að jarðnæði.
Land Gufuskála byrjar við Sjálfkvíar. Í rifi, beint fram undan Sjálfkvíum, eru nokkrir stórir steinar, Þyrsklingasteinar, og einn þeirra stærstur. Steinar þessir eru alltaf upp úr á fjöru. Oft réru menn fram fyrir þyrsklingasteina og drógu þaraþyrskling. Var það kallað að róa á þarann. Innan við rifið er stórt lón, Sjálfkvíalón. Um 100 m norðar er skarð inn í klettana, kallað Kista. Vatnagarðar, tvo lítil dalverpi, voru skammt norðan við Kistu.
Gamli bærinn stóð aðeins austar, en í miðju túni – á sama stað og bærinn stendur nú. Bæjarhóllinn var ýmist nefndur Hóllinn eða Gufuskálahóll. Hóllinn mun að mestu leyti vera forn öskuhaugur. Háar klappir í túninu ofan við bæinn heita Kastali. Kastalahliðið var á túngarðinum ofan þeirra.
Tómthúsið Kóngsgerði hefur um sig dálítið gerði. Þaðan var konungsútgerð á tímabili. Mun gerðið af því hafa fengið nafn sitt. Kóngsgerði fór í eyði 1915.
Ofan þjóðvegarins eru löng holt; Ytra-Langholt og Innra-Langholt. Innra-Langholt tilheyrir allt Innleiru. Syðst á því er mikil varða; Ranglát. Ásgeir M. Hjálmarsson í Garði sagði vörðuna hafa verið reista af opinberum aðilum, en ekki er vitað hvenær það var. Hún átti að þjóna þeim tilgangi að það var dregin lína úr henni yfir flóann í eitthvað kennileiti upp í Hvalfirði. Þetta var einskonar landhelgislína þannig að bátar úr byggðalögum fyrir sunnan hana máttu ekki fara norður fyrir hana, sama gilti fyrir báta sem voru gerðir út frá Garði, þeir máttu ekki fara suður fyrir línuna. Menn voru mjög ósáttir við þetta, því var varðan jafnan nefnd Ranglát.
Á holtunum eru vörður; Langholtsvörður. Það er gömul trú, að einhverjir vættir væru í Langholtum: Illvættur í Ytra-Langholti, en hollvættur í Innra-Langholti. Þrívörðurnar sjást vel í suðvestur frá Ytra-Langholti. Hríshólavarða er í stefnu vestsuðvestur frá Ellustekk (Elínarstekk). Hún stendur á Hríshólum. Gamlar götur út úr Garði lágu við Langholt og Hríshólavörðu. Þær nefndust Efrivegur. Neðrivegur lá ofan við Leirubæina. Enn sést móta fyrir götum þessum.
Uppsprettulind er þar sem bærinn Nýlenda stóð, rétt hjá gamla barnaskólahúsinu. Önnur lind er ofan við Gufuskála, við Huldufólkshamar. Einnig á klöppunum ofan við Litla-Hólm. Hún er fallega hlaðin úr steini og er hún það eina em stendur eftir af bænum Vesturkoti í landi Gufuskála.
Þegar komið er að Garði er fyrst komið að Rafnkelsstaðabergi. Bergið er ekki hátt, en af ofviðum þess ber Ellustekkur við sjónarrönd í vestri. Áður fyrr var byggðin svo dreifð um allan Garð að hún var hæfileg blanda af þorpi og dreifbýli – og hafði kosti hvors tveggja. Við Rafnkelsstæði er Kistugerði þar sem þjóðsagan segir að fjársjóður Rafnkels hafi verið grafinn. Reyni einhver að grafa hann upp mun þeim hinum sama sýnast bærinn standa í ljósum logum. Sagan er svipuð sögunni um fjársjóðinn í Silfru við Járngerðarstaði í Grindavík.
Skúli Magnússon segir í Faxa, október 1999, frá Elínarstekk (Ellustekk) utan við Garð.
„Skammt ofan við þjóðveginn í gegnum Leiruna er lítill grasi gróinn hóll eða þúfa, sem kölluð er Elínarstekkur (Ellustekkur). Það var að sögn heygð Elín, niðursetningur frá Gufuskálum, sem dó á dularfullan hátt á 18. öld.
Sögu þessa og staðsetningu stekksins hef ég eftir ábendingum Ólafs Sigurjónssonar frá Litla-Hólmi.
Þegar bílvegur var lagður um Leiruna, um og eftir 1920, var honum valið stæði ofan við byggðina, skammt austan við Elínarstekk. Þessi vegur var síðan breikkaður, eins og fleiri þjóðvegir á árum seinni heimstyrjaldarinnar, og náði þá uppundir stekkinn.
Það var sumarið 1787 að Elín Stefánsdóttir, blásnauður niðursetningur á Gufuskálum, fannst örend í snærisspotta í hjalli þar skammt frá bænum. Vegna deilna hennar og vinnumanns, þar á bænum, þótti dauði hennar ekki einleikinn.
Haldgóðar vísbendingar fengust þó ekki um að Elín hafi verið myrt, þrátt fyrir réttarhöld. Þess vegna var talið að hún hefði tekið líf sitt í skyndilegu æði, sem að hefði borið um nótt.
Elín var því, samkvæmt kirkju- og landslögum, heygð utan vígðrar moldar og var holað niður utan túngarðs í Leirunni, í sauðfjárstekk frá bænum á Gufuskálum.
Láti Elínar og aðdraganda þess, svo og hulun líks hennar og frágangi þess, er lýst í Dóma- og þingbókum Gullbringusýslu. Óttuðust grafarnir að Elín gengi aftur og skáru höfuð hennar af um hálsinn, lögði líkið á grúfu, en lögðu höfuðið við þjóhnappana. Átti það að tryggja að hún lægi kyrr.
Fyrir meðferðina á líkinu hlutu mennirnir dóma og ákúrur yfirvalda. En aldrei fórum neinum sögum af ókyrrleika sem eignaður var þessari ólánsömu konu.
Heimildarmaður minn, Ólafur Sigurjónsson, kallaði stekkinn aldrei annað en Elínarstekk, en í heimildum Jóns Helgasonar í Sunnudagsblaði Tímans 9. febr. 1969, bls. 108-112, virðist hann nefndur Gufuskálastekkur og hefur það að öllum líkindum verið upprunalegt nafn hans. Eftir greftrun Elínar hefur nafn stekksins breyst en hið eldra heiti líklega fallið úr daglegu máli og gleymst.“
Í Þjóðsögum Jóns Árnasonar segir m.a. frá Bergþóri er bjó á Rafnkelsstöðum. „Hann var maður fjáður einkum að sjávarútvegi og átti mörg skip. Það var þá siður að gjalda sjómönnum skiplag sitt í mjöli, hverjum tvo fjórðunga eða þá annan í mjöli en hinn í hörðum fiski og færið skyldu þeir fá að vertíðarlokum; flestir létu þá fá stykki úr gömlu færi.
Þar var með sjómönnum Bergþórs unglingspiltur úr Norðurlandi ósjóvanur. En er hann vó skiplagið í þetta skipti vildi hann ekki gjalda drengnum nema helminginn og lét hann gjalda þess er hann var ekki sjóvanur.“ Sagan er lengi en óþörf ílengdar hér.
Innsti bærinn í Garði er Rafnkelsstaðir, þá koma Meiðastaðir, síðan Kothús niðri við sjóinn og Varir þar skammt fyrir utan. Í landi þessara jarða standa nú íbúðarhús, sem reist hafa verið á seinni árum eftir að fólki fór mikið að fjölga í Garðinum. Í vörunum var mikið útræði, enda lending þar góð um sund sem Varaós var. Ósvarða er ofarlega í heiðinni. Frá Rafnkelsstöðum að Garðskaga teljast 14 nafngreindar varir er segja nokkuð til um fjölda uppsátra þarna við ströndina fyrrum.
Neðan við fiskhúsin er ós, sem nefnist Kópa. Inn úr henni eru Meiðastaðavör og Rafnkelsstaðavör, erfiðar varir. Fyrir ofan veg, uppi í heiði, er Árnarétt, skilarétt. Hana byggði Árni Þorvaldsson, sem hér var stórbóndi. Réttin er skemmtilega hringhlaðin, víðast hvar mannhæðar há.
Hér er einungis helstu býlanna getið, enda of langt mál að telja upp öll kot og smábýli líkt gert var í Leirunni.
Í Inn-Garðinum utan við Leiruna tók hver bærinn við af öðrum. Fyrst Rafnkelsstaðir, síðan Meiðastaðir, Ívarshús og Kothús, sem áður hétu Straglastaðir og Darrastaðir. Því næst komu Varir þar sem fyrir var ágæt lending eða sund, sem Vararós hét. Kóngsmenn, sem voru í Leirunni á 17. öld og réru frá Kóngsgerði, sáu að betra var að róa úr Garði þegar fiskur var í Garðsjó, og búið til vör í Varós, sem síðan var kölluð Kóngsvör.
Þegar segl- og áraskip voru notuð í Garði, var ávallt sett kjölfesta í skipin, sem kölluð var ballest, til að skipin væru hæfari undir seglum. Þetta var grjót, misstórt, sem tekið var í skipið, eftir að það var komið á flot. Það fór eftir sjávarföllum, hvar ballest var tekin. Norðan megin að innanverðu við sundið Varós var grjótkampur, sem oft var tekin ballest úr. Þegar skipin komu að landi, var balllest hent ú þeim í rfið, því það var ekki lent fyrr en það var gert. Þetta rif var kallað Ballest.
Brekka og Skeggjastaðir heita næstu jarðir og Gauksstaðir nær sjónum. Sjávarmegin við Brekku er forn brunnur. Heimildir kveða á um að gengið hafi verið niður í brunn þennan. Vel sést móta fyrir honum norðaustan við húsið.
Vestan við Gauksstaði er ós inn úr sjó er heitir Skólatjörn. Eiðið ofan við tjörnina er nefnt Steinbogi. Þar er kringlótt byrgi til að þurrka fisk. Gauksstaðaurðin er utan við tjörnina. Þar var fyrsti skólinn.
Þá er komið að Gerðum, “sem er falleg jörð; þar er útræði mikið og fiskisælt”, segir í sóknarlýsingu. Í Gerðum myndaðist fyrst vísir að þéttbýli Garðsins með tilkomu Milljónafélagsins, sem stofnaði útibú í Gerðum árið 1907. Gekk hús það er félagið reisti lengi undir nafninu Milljón. Félagið rak bæði útgerð og verslun og dró það fólk að plássinu svo að um tíma var Garður fjölmennesta byggð Suðurnesja, enda gengu þaðan allt upp í 70 áraskip til fiskveiða á vertíðum.
Fram af Gerðum var hólmi; Gerðarhólmi. Hann er nú sker, en álitið er að hann hafi áður fyrr verið gróið land. Gerðasíkin, tvö vötn, voru nefnd Innrasíki og Ytrasíki. Gerðabakka eru sjávarbakkinn fyrir neðan Síkin. Þar var áður bær, sem líklega hefur heitið Bakki. Aðeins utar var Vatnagarður og stendur bærinn enn. Ofan við þjóðveginn, að sjá í Ósvörðuna frá bæ, heitir Gerðastekkur.
Með hnignun félagsins varð afturför í atvinnu Garðbúa og fólki fækkaði og tók ekki að fjölga aftur fyrr en nýir tímar komu með önnur tækifæri í útgerðarmálum. Þá var sökum hafnleysis í Garðinum, farið að flytja þangað fisk til verkunar, sem skapað hefur mikla atvinnu. Auk þess hafa allmargir byggt sér hús í Garði, en stunda atvinnu annars staðar.
Gerðaskóli er nú ofan við Gerðar. Gamla skólahúsið, sem var við Skólatjörnina vestan við Gauksstaði, var einn elsti barnaskóli landsins (reyndar þriðji elsti), tók til starfa 1872 með 20 börnum. Var hann reistur fyrir frjáls samskot með forgöngu séra Sigurðar Sívertssen á Útskálum. Seinna var skólinn fluttur að Útskálum. Þá keyptu góðtemlarar skólahúsið í Gerðum og var það jafnan nefnt „Gamli templarinn“. Nú stendur stór bautarsteinn með áletrun á þeim stað, sem skólinn stóð, en húsið var rifið fyrir skömmu.
Miðhús og Krókur voru ofan við Miðhúsatjörnina. Nú stendur húsið Sólbakki á og norðan við bæjarhól Króks. Austan undir honum var Króksbrunnurinn; annar tveggja í Garði er ósaltir voru. Útskálar áttu vatnstökurétt í brunninum.
Fyrir utan (vestan) Gerðahverfið tekur við Út-Garðurinn. Þar gerðist byggðin strjálli. Þar eru Útskálar og Vatnagarðar, hús austan við nyrsta síkið, Garðhús, Prestshús, Móakot, Nýibær, Akurhús og Lónshús. Tvær lendingar tilheyrðu staðnum; Króksós og Lónsós. Fyrrnefnda lendingin var stundum nefnd Útskálaós og jafnvel Biskupós, hættuleg og vandmeðfarin þegar brimasamt var.
Gerðavörin var utan við núverandi hafnargarð, en inni í höfninni móta enn fyrir hlöðunum hleðslum og bökkum. Steyptur þvergarður, sem þar er efst, eru leifar frá Milljónafélaginu.
Eitt er það hús, sem þarna er, lítið, en tvílyft; Unuhús. Þar bjó Una í Garði Guðmundsdóttir, en húsið hét áður Neðri-Sjólist, en Una var jafnan sögð búa í Skúlhúsi. Um tíma var bókasafn Gerðargrepps í húsinu, þótt ótrúlegt megi virðast.
Mór var eingöngu tekinn í flæðamáli (fjörumór). bestur þótti hann á Nýjabæjarfjörum. Þar var mór tekinn á stríðsárunum fyrri.
Rétt við gamla bæinn á Lambastöðum er ysta uppsátrið á skagagnum, Lambastaðavör. Þarna var brimasamt og ekki hægt að lenda nema boðarnir, þ.e. Ljóssveinar og Þórðarflös, lægju niðri. Farið var inn í lendinguna um rennu er hét Lækur.
Utar er Lambastaðarétt eða Helgarétt því hún var stundum kennd við bónda sem bjó á Lambastöðum. Sennilega hefur hún áður verið skilarétt fyrir hreppinn, en seinna aðeins heimarétt Lambastaða.
Neðar eru Síkin; nyrst Útskálasíki, þá Miðhúsasíki og syðst Gerðasíki, milli byggðarinnar og grandans við sjóinn. Hér áður fyrr virðast síkin einungis hafa verið tvö því sr. Sigurður B. Sívertssen kallar þau árið 1939 Innra-Síki og Ytra-Síki. Þar gengu kýr á sumrum. Í örnefnaskrá greinast þau í Gerðasíki, sem skiptist í Innrasíki og Ytrasíki, Krókasíki og Útskálasíki.
Krókvöllur og Bræðraborg heita hús nær veginum við vegamótin suður í Sandgerði. Bræðraborg er heiti á fallegum skrúðgarði, sem rækt hefur verið lögð við hin síðari ár. Skammt austar er fornmannaleiði og rúnasteinn. Hvorutveggja er norðan við íþróttahúsið. Þar eru og tóftir nokkurra heillegra kota, en ástæða væri til að varðveita og jafnvel endurgera að hluta.
Þegar skoðað er landslag í Garði má víða sjá hóla. Þeir voru svo til allir manngerðir og munu vera gamlir bæjarhólar. Í þeim öllum eru mannvistarleifar frá fyrri tíð. Miðhús stendur nú á sléttlendi, en útihúsin norðar eru utan í gamla bæjarhólnum.
Norðan við íþróttahúsið var Smærnavöllur, en neðst í því landi hétu Vegamót og ofar Bali. Í þessu fyrrum landi Smærnavalla, er haugur fornmannsins og letursteinn, sem fyrr nú verður sagt frá.
Í sögunni af þessum steini haugbúans segir að „Í Lykkju í Garði suður hefir búið maður sem Þorsteinn hét. Hann byggði bæ sinn og aflaði víða grjóts til hans. Þar allnærri var steinn mikill og fagur og voru á hann ristar fornar rúnir. Hugðu menn hann þar settan á dys fornmanns einhvers, mundu rúnirnar segja hver hann var en þær gátu menn eigi lesið en hitt þóttust menn sjá að vel var um búið undir honum. Þennan stein vildi bóndi færa heim en aðrir sögðu illt af hljótast ef það væri gert og úrtöldu það. En bóndi réði og var steinninn heim færður af mann söfnuði og hló bóndi að hjátrú manna að óttast slíkt.
Næstu nótt dreymir bónda það að til hans kemur jötunvaxinn maður all-fornlegur að ásýnd og búnaði; hann er þýðlegur á svip. Biður hann bónda góðlátlega að færa steininn þangað sem hann var. Skilur bóndi að hann muni vera fornmaður og vera heygður undir steininum. Bóndi þykist færast undan því, það kosti svo mikla fyrirhöfn. Þótti manninum auðsjáanlega fyrir þessu og hvarf burtu.
Aðra nótt kom hann aftur og var nú hægur og alvarlegur og talar enn með alvörugefni um hið sama en er nú allt þyngri í orðum og hálf-ógnandi en allt fer sem fyrr.
Þriðju nóttina kemur hann og er nú svo grimmilegur að bónda stóð stuggur af honum. Býður hann bónda nú með harðri hendi að flytja steininn sinn í sinn stað og segir hann skuli annars verra af fá. Bóndi svarar því lítt. Sýnist honum nú eigi betur en hann muni ráða á sig og við það hrekkur hann upp og finnst þá að hann sjá svip þann er hann hvarf frá honum burt. En annaðhvort hafði hann þá komið steininum fyrir í vegg eða hann ætlaði þetta draumskrök orsökuð af hræðslu annarra því eigi færði hann steininn á dysina.
Nú kom það fyrir rétt um þetta bil að hafólgu gerði og brim mikið, tók sjórinn þá 10 skippund af saltfiski er Þorsteinn bóndi átti. Vitraðist honum þá enn haugbúinn og spurði hvort hann vildi enn eigi undan láta. En eigi er þess getið að Þorsteinn bilaði. Þá missti hann stórgrip. Og enn kom haugbúinn reiður. En Þorsteinn sat við sama keip. Síðan kom haugbúinn hverja nótt af annarri, verri og verri, svo Þorsteinn fór að ugga um líf sitt. Lét hann þá loks undan og lét færa steininn á sinn stað og ganga frá honum eins og hann var áður. Segir sagan að helmingi færri menn hafi þurft til að færa steininn til baka. Sá hann aldrei haugbúann síðan.“
Steinninn stóð áður á þremur öðrum, en þegar honum var skilað varð frágangurinn ekki sá hinn sami og áður var. Ofan við steininn er manngerður haugur. Þar er fornmaðurinn, haugbúinn, talinn hvíla.
Í Garðinum var löngum mikið um manninn en árið 1703 voru alls 185 heimilisfastir í Garðinum.
Gegnum aldirnar hefur óefað verið mikið útræði í Garði enda stutt á fengsæl fiskimið. Þaðan munu venjulega hafa gengið 50-60 skip á vetrartíð en yfir 100 skip úr allri Útskálasókn þegar best lét. Margt aðkomumanna stundaði sjó úr Garðinum og komu þeir úr öllum landshlutum. Árið 1780 voru taldir 120 manns í Garði en þá voru 288 manns heimilisfastir í Útskálasókn. Á vertíðinni þetta ár voru gerðir út í skókninni 9 sexæringar, 25 fjögurra manna för og 21 tveggja manna far, alls 55 skip auk þess tveir aðkomubátar. Hafnarskilyrði voru slæm rétt eins og í dag. Það fórust 76 manns úr Garðinum á árunum 1664-1695 í sjólslysum.
Á 19. öldinni fór vegur Gerða vaxandi og eftir aldamótin 1900 með tilkomu Milljónafélagsins, sem fyrr sagði, varð þar mikil útgerð. Þar er nú bryggja bæjarins og helstu fiskvinnslufyrirtækin. Um verstöðina Garð má lesa í bókinni Gerðarhreppur 90 ára eftir Jón Þ. Þór. Þar lýsir hann m.a. fiskverkunni og þróun atvinnuhátta í byggðalaginu.
Á fyrri hluta þessarar aldar tóku opnir vélbátar að ryðja áraskipunum úr vegi. Fyrsti trillubáturinn kom í Garðinn 1922. Þegar þilfarsbátarnir komu til sögunnar minnkaði atvinnan í Garðinum því Garðmenn áttu ekki nógu stóra og góða bryggju fyrir slíka báta. Árið 1910 var Gerðahreppur fjölmennasta sveitafélgið á Suðurnesjum með 647 íbúa en minnkaði niður í 396 á fjórum áratugum.
Með bættum samgöngum tóku Garðmenn að flytja fisk af bátum sínum, sem gerðir voru út í öðrum byggðarlögum, til verkunar heima fyrir. Á kreppuárunum eftir 1930 jukust fiskflutningar í Garðinn og var hann verkaður þar til útflutnings. Alls var þurrkað á um 30 reitum þegar best lét og á árunum 1938-1939 var þurrkuð um 9 þúsund skippund af fiski í hreppum.
Þrátt fyrir þetta fækkaði fólki í Garðinum á þessu tímabili, en það var ekki fyrr en árið 1943 að fólksflóttinn stöðvaðist þegar Hraðfrystihús Gerðabátanna tók til starfa og eftir það kom hvert frystihúsið af öðru til starfa og á árunum 1950-1960 voru yfir 20 fiskverkunarstöðvar.
Víða má sjá steypta stöpla við hús í Garðinum. Þarna er um að ræða vindmyllustanda, en þeír voru undirstöður vindmyllana, sem voru undanfari rafvæðingarinnar. Rafvæðing hófs í Garðinum 1933 og var orka fyrst frá ljósavélum. Vindstöðvar urðu mjög algengar um tíma en rafmagn frá Sogsvirkjunum var leitt um Garðinn 1946. Holræsi var leitt um byggðina á árunum 1950-1960.
Nú eru 1322 (1.des. 2004) íbúar í Garðinum.
„Utan við Leiruna tekur við Inn-Garðurinn,“ segir sr. Sigurður Sívertssen í lýsingu sinni á Útskálaprestakalli 1839. „Fyrst eru Rafnkelsstaðir (sem byggð skyldi hafa verið af Rafnkeli nokkrum, sem heygður skyldi hafa álandareigninni með kistu sinni, í svokölluðu Kistugerði; er þar steinn með rúnaletursstöfum nokkurm, sem menn þó ekki vita nema seinna hafi verið klappaðir). Milli Leirunnar og Inn-Garðsins er strandberg fram við skó, sem heitir Rafnkelsstaðaberg, og ekki nema bæjarleið á milli.“
Frá Rafnkelsstöðum syðst voru helstu jarðirnar Meiðastaðir, Kothús, Varir, Gerðar, Miðhús, Útskálar og Lambastaðir svo einhverjar séu nefndar. Heimamenn skiptu Garðinum oft í tvennt; Inn- og Út-Garð, og síðan í þrennt; Inn-Garður, syðst, Mið-Garður, Miðskála-Garður eða Gerðahverfi og Út-Garð nyrst. Er sjávarútvegur tók að eflast til muna á 14. og 15. öld, jókst mjög ásókn kirkju og klaustra í góðar sjávarjarðir. Þá komust margar jarðir á þessum slóðum í eigu Viðeyjarklausturs og urðu síðan konungseign, er konungur lagði undir sig eigur klaustranna eftir siðaskiptin. Þá varð Garðurinn ein helsta miðstöð konungsútgerðarinnar hér á landi.
Á Útskálatorfunni er rúmt um kirkju og prestsetur þar sem þau standa á lágum hól í stóru sléttu túni. Þetta eru gamla og virðulegar byggingar. Kirkjan stendur lægra, innan kirkjugarðs, byggð 1861 og kostaði 1725 ríkisdali. Hún er í góðri hirðu og viðhaldi, enda hefur söfðnuður Útskálasóknar alltaf látið sér einkar annt um hana eins og vel kom fram á aldarafmælinu 1961.
Kirkjan að Útskálum var reist að frumkvæði sóknarprestsins síra Sigurðar B. Sívertsen (1808-1887). Grafsteinn hans er aftan við kirkjuna og minningarskildir um hann og konu hans, Helgu, hanga uppi í anddyrinu.
Árið 1907 heyrðu Hvalsnes-, Njarðvíkur- og Kirkjuvogssóknir til Útskálaprestakalls og hélst sú skipan fram til ársins 1952.
Útskálakirkja er byggð úr timbri og járnvarin. Árið 1975 var forkirkjan stækkuð og komið þar fyrir snyrtiherbergjum, geymslu og skrúðhúsi. Að innan er kirkjan máluð og skreytt af Áka Granz, málarameistara, hann skýrði jafnframt upp gamla skrautmálningu sem nær var horfin. Prédikunarstóll kirkjunnar var keyptur úr Dómkirkjunni í Reykjavík árið 1886. Altaristaflan sýnir boðun Maríu, stór mynd, gefin kirkjunni árið 1878.
Í kirkjugarðinum vekur athygli hvítmálað konulíkneski, sunnan undir kirkjunni. Hún heldur á barni og leiðir annað með sér við hönd. Þetta er Gytta Jakobine Fridrika Lever, sem árið 1832 giftist Thomsen faktor Flensborgarverslunar í Keflavík. Þau eignuðust 3 börn, misstu 2 þeirra nýfædd og sjálf andaðist Gytta “af brjóstveiki og tæringu” haustið 1835 og var jarðsungin að Útskálum 6. nóvember. Þrem árum síðar fluttist Thomsen faktor til Reykjavíkur þar sem þeir feðgar gerðust umsvifamiklir kaupmenn. En sinnar ungu konu minntist hann með því að reisa henni þennan eftirminnilega bautastein.
Árið 1946 fannst sjórekið lík í Lambastaðavör. Það var með öllu óþekkjanlegt. Það var jarðsett í Útskálakirkjugarði og á gröfinni reistur fallegur en látlaus minnisvarði um óþekkta sjómanninn. Er þessa jafnan minnst við sjómannadagsguðsþónustur í Útskálakirkju.
Í sögu Sigfúsar af „Börnunum að Útskálum“ er sagt frá Brynjólfi prestur Sívertsen á Útskálum 1826-37. Grafsteinn hans er við hlið grafsteins sr. Sigurðar í Útskálakirkjugarði. Hélt hann tvö fósturbörn, afkvæmi fátækra foreldra. Voru þau heitin í höfuð þeim hjónum og hétu Brynjólfur og Ragnheiður. Þau voru bæði efnileg.
Þegar þau voru 12 og 13 ára tók Ragnheiði litlu að dreyma það að til hennar kom í þrjár nætur eina eftir aðra kona nokkur allmikilúðleg og ferleg að sjá og bað hana fara með sér.
Ragnheiður spurði hvaðan og hver hún væri. „Ég á heima í Steinbítsklettum,“ svaraði hún.
Svo hvarf hún og liðu nú tímar fram og allt þar til á sauðburði. Þá voru börnin einn dag að mala korn í handkvörn. Kom þar þá nágranni þeirra og sagði þeim frá því að ein af ám fóstra þeirra væri borin úti á Skaga svo sem venjulega stekkjarleið frá bænum og kvað hann þurfa að huga að henni. Börnin fóru þá bæði að vitja ærinnar. En hvorugt þeirra hefir sést síðan og ekkert er þeim viðkom nema hálsklútur Brynjólfs, hann var vafinn utan um stein í flæðarmáli.
Grynningar eru þar með landi fram. Veður var bjart og kyrrt um daginn. Engin torfæra segja menn að væri þar til á leið barnanna. Og með því að öllum mönnum var óskiljanlegt hvarf þeirra þá leiddust ýmsir menn til að setja það í samband við draum Ragnheiðar litlu og trúðu einstakir menn því að sækona og þá einkum margýgur hefði numið til sín þau fóstursystkinin.
Í Grímu hinni nýrri segir frá séra Þorsteini á Útskálum á 17. öld. Hann var allvel viti borinn og vel að sér en þótti stærilátur og hjátrúarfullur og fór með fjölkynngi. Almælt var að hann hafi fyrstur manna gert mynd af Hallgrími Péturssyni þegar hann var nágrannaprestur hans á Hvalsnesi. Þegar séra Þorsteinn tók að eldast varð hann líkþrár og blindur; samt sem áður gat hann barn í hórdómi og missti fyrir það kallið. Það var honum þvernauðugt og gerði hann allt hvað hann gat til að halda kallinu, fór til alþingis, þótt veikur væri orðinn og talaði máli sínu við höfðingja. En það kom fyrir ekki og var séra Þorleifi veitt kallið. Þó varð nokkurt þóf um mál þetta, því að séra Þorsteinn vildi ekki standa upp af staðnum góðviljuglega og séra Þorleifur hikaði við að ganga að staðnum á meðan séra Þorsteinn væri þar kyrr; hefur hann ef til vill haft beyg af fjölkynngi prests.
Prestur var fluttur að Setbergi í Garðahverfi og átti hann þá jörð sjálfur. Þar lifði hann nær fjórtán ár eftir þennan atburð. Ekki lagði hann niður hjátrú sína og hindurvitni og lét jafnvel á banasænginni lesa þesskonar fræði fyrir sig. Finnbogi sá, er fyrr var nefndur, varð eigi gamall; sætti hann vélráðum af Magnúsi félaga sínum, sem öfundaði hann af gáfum hans og kunnáttu. Eiríkur varð prestur og bjó að Vogsósum og var nafnkunnur fyrir þekkingu sína í töfrafræðum, og eigi síður hitt, hvað hann var góðgjarn og hjálpfús og fór vel með kunnáttu sín.
Prestsetrið að Útskálum var byggt árið 1890 og hefur í gegnumtíðina veriðmikið stolt Garðmanna. Þarna var Sparisjóðurinn í Keflavík stofnaður, einnig sveitarfélagið Gerðahreppur og þar var lengi myndarlegt skólastarf. Það þarf þú að ganga í gegnum endurnýjun lífdaga.
Harðindin birtust fólki í sjávarplássunum í köldu verði og fáfiski, en ekki síður fyrirvaralaust. Fyrir kom að hann brast á með ofasveðri upp úr þurru, jafnvel um miðjan dag, þótt veðurítlit væri bærilegt þegar ýtt var úr vör að morgni. Veturinn 1685 var að sögn Jóns Espólín nefndur „mannskaðavetur“, en það ár er talið að milli 180 og 190 mann hafi farist í sjó hér við land. Flestir fórust á einum degi, 8. mars, en þá drukknuðu alls 136 menn, langflestir af Suðurnesjum. Úr Garði fórust þrjú skip þennan örlagaríka dag og með þeim 13 menn. Nóttina eftir rak alls 47 lík á land í Garði og á Miðnesi. Í eina gröf voru lagðir 42 menn í Útskálakirkjugarði.
Allt um kring eru hinar gömlu hjáleigur, sem eru orðnar sjálfstæðar jarðir fyrir löngu: Vatnagarður niðri við sjávarkambi (var jafnan tómthús, nú í eyði), Garðhús, Presthús. Móakot, Nýibær, Akurhús I og II, Lónshús á sjávarkambinum utan við Akurhðúsatúnið. Í gamla daga voru Útskálar með öllum sínum fylgijörðum metnir á 41,8 hundruð. (Eitt hundruð var jafngildi einnar kúar og 6 áa með lömbum). Það gaf prestinum talsvert í aðra hönd í eftirgjöldum. Aðalkostur brauðsins var samt útræðið úr tveimur lendingum staðarins (Króksós og Lóninu) því að “í Út-Garðinum er fiskisælt, og ber sjaldan við, að fiskilaust sé, og aldrei til lengdar,” segir Sigurður B. Sívertsen í sóknarlýsingu sinni 1839. Nafn séra Sigurðrar minnir á að hann var einn hinn kunnasti í langri röð Útskálapresta, ekki síst fyrir annál sinn og aðra fræðimennsku. Honum eigum við að þakka mikla vitneskju um menn og málefni á Suðurnesjum á fyrri öldum.
Í sóknarlýsingu sinni nefnir séra Sigurður m.a. eina jörð í Út-Garðinum – Lambastaði. Það höfðu Kirkjubólshverfingar á Miðnesi lendingu þegar þeir stunduðu róðra inn á Garðsjó vegna langræðis á vertíðarslóðir Miðnesinga. Lambastaðavörin er „myndræn“ eins og hún er í dag, með gömlu lúnu tréspili ofan til, gömlum fúnum trébát á hvolfi efra og vel gróið í kring.
Rúmum 40 árum síðar, þ.e. í lok fyrra stríðs 1916-1918, var öðruvísu um að litast á Skaganum. Þá var hann orðinn að risastórum kálgarði. Hafði ríkið stofnað til þessarar ræktunar í kartöfluleysi Norðurálfuófriðarins og allir Garðbúar sem vildu fengu vinnu við að tína jarðepli upp úr sendinni moldinni. Þessi ríkisræktun á kartöflum á Garðskaga stóð í þrjú ár. Plægðir voru 4 ferhyrndir reitir, 100 m á kant, þara ekið á flögin úr hrönnum í fjörum Skagans og það látið nægja sem áburður. Útsæði var sent úr Reykjavík og skipað upp í Lambastaðavör. Undirvöxtur varð ekki eins mikill og menn væntu. Var kennt um of einhæfum áburði. Næsta sumar gekk betur. Svipuð ræktun var reynd á Eyrabakka, en þar segja fróðir menn að ræktunin hafi gengið afar illa, enda hafi heimamenn jafnan etið útsæðið áður en það komst í jörðina.
Kartöfluræktunin á Skaganum stóð í 3 ár. Eftir það var Skaginn fljótur að gróa sára sinna og varð aftur hið besta tún og gott beitiland fyrir gripi Útskálaprests.
Garður dregur nafn sitt af Skagagarðinum og því er því mannvirki gerð nokkuð góð skil hér á eftir. Sumir gætu haldið að Garður tæki nafn af hinum mörgu og miklu grjótgörðum, túngörðum, sjóvarnargörðum, landamerkjagörðum, fiskigörðum, matjurtargörðum, görðum í kringum staka túnbletti og fleiri, sem þar eru, en sú er ekki raunin því þá héti staðurinn Garðar. Gísli Sighvatsson á Sólbakka sagði Gunnari M. Magnúss að garðarnir í Garðinum væru um 60 km samanlagt. Njáll Benediktsson segir þó öndvert í örnefnalýsingu sinni árið 1979 að „Innnesjamenn, sem fóru út á Skaga, sögðu, að þeir færu „út í Garð“ eða „út í Garða“. Af þesssu held ég að nafnið „Garður“ hafi komið.“
Stefán Pálsson, sagnfræðingur, hefur sagt frá Skagagarðinum mikla, sem Garður dregur nafn sitt af og prýðir einkennismerki bæjarfélagsins. „Fáum mun kunnugt um Skagagarðinn sem forðum lá frá túngarðinum á Kirkjubóli norður í túngarðinn á Útskálum. Engu að síður er hér um að ræða einhverjar merkustu fornminjar landsins og gefa okkur vísbendingar um löngu horfna starfshætti.
Skagagarðurinn mun hafa verið um 1500 metra langur og var fyrr á öldum um einn og hálfur metri á hæð og afar þykkur. Í tímans rás hefur hann hins vegar flast út og fengið ávalan svip.
Lengi ver var talið að garðurinn væri frá 13. og 14. öld, en fyrstu ritheimildir um hann eru frá árinu 1528. Rannsóknir jarðfræðinga hafa þó leitt í ljós að garðurinn hefur varla verið hlaðinn síðar en á 10. öld.
Garðinum hefur sennilega verið ætlað að halda sauðfé frá kornökrum á norðanverðum skaganum, en örnefni og fornar akurreinar benda til umfangsmikillar akuryrkju á Suðurnesjum fyrr á öldum.
Ljóst er að garðurinn hefur girt með öllu fyrir skagann. Því við báða enda hans tóku við miklir túngarðar, en samkvæmt lögum íslenska þjóðveldisins var hver maður skyldugur til að verja vikum á ári til garðhleðslu.“
Eftirfarandi frásögn Magnúsar Gíslasonar í Garðinum um Skagagarðinn er í félagsriti Landssambands eldri borgara, 9. árg. 2004:
„Menn hafa lengi velt fyrir sér hvaðan Garðurinn dregur nafn sitt. Margir telja hann draga nafn sitt af því, þegar jarðeigendur voru að ryðja grýtta jörðina til ræktunar fyrir bústofn sinn og nýttu grjótið í garðhleðslu bæði til skjóls og varnar ágangi dýra. Talið er að garðarnir í hreppnum hafi náð 60 km að lengd og af þeim sé nafn byggðarlagsins dregið.
Aðrir telja að það fái ekki staðist. Samkvæmt íslenskum málvenjum ætti það þá að heita Garðar. Þeir sem hafa rannsakað nafnið ofan í kjölinn fyllyrða að Garðurinn dragi nafn sitt af Skagagarðinum mikla sem var 1500 metra langur, hlaðinn úr hnausum og grjóti og náði meðalmanni í öxl. Var hæð hans í samræmi við ákvæði um garða í landbrigðaþætti Grágásar, lögbók þjóðveldisaldar. Þar segir að taka skuli menn tvo mánuði ár hvert til hleðslu. Augljóst virðist að garða hafa landnámsmenn byrjað að hlaða næst því að velja sér bæjarstæði, af þeirri gildu ástæðu að kvikfé var grunnur undir tilveru þeirra og vörslugarðar því nauðsynlegir.“