Mikilvægi áreiðanlegra fornleifaskráninga
Til er áhugasamt fólk sem hefur gaman að skoða útgefnar fornleifaskráningar á Reykjanesskaganum, þ.e. þær skráningar sem yfirleitt eru gerðar opinberar.
Vetrarblóm – fyrstu ummerki vorsins.
Fæstar skráninganna þykja ágætar, en margar eru vægast sagt hjákátlegar – þegar betur er að gáð. Sumar eru og beinlínis rangar, annars vegar að teknu tilliti til opinberra gagna og hins vegar með hliðsjón af ummerkjum á vettvangi að dæma.
Dæmi um ágæta skráningu er fornleifaskráning um Eldvörpin á vegum stjórnenda HS-Orku annars vegar og hins vegar hjá hinum þröngsýnu ráðamönnum Keflavíkurflugvallar.
Hvassahraunsstekkur II – uppdráttur ÓSÁ.
Þetta sama fólk hefur stundum verið að velta fyrir sér hvert hlutverk Fornleifarstofnunar Íslands er í að ákvarða áreiðanleika slíkra skráninga? Dæmi er um að stofnunin hafi hunsað framkvæmd mikilvægra fornleifaskráninga þrátt fyrir lögformleg tilmæli þess efnis. Auk þess hefur stofnunin látið hjá líðast að taka á misbrestum á ákvæðum gildandi laga í einstökum tilvikum. Sveitarfélög hafa jafnvel komist upp með að eyðileggja í óleyfi skráðar fornleifar, án áminningar. Þrátt fyrir allt framangreint hefur stofnunin tekið að sér að skrá fornleifar utanaðkominna í sérstaka opna „Minjavefsjá„. Inn í skrána hafa bæði slæðst alls kyns villur og mjög erfitt er fyrir áhugasamt fólk að nálgast og staðsetja einstakar minjar út frá „sjánni“.
Eldvörp – fornleifaskráning.
Þegar skráningin fyrir Hvassahraun var t.d. skoðuð kom í ljós að á skráningarsvæðinu ættu t.d. að vera (skv. örnefnalýsingum) tveir heimastekkir, annar í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi) og annar í Stekkjardal. Skv. fornleifaskráningu svæðisins fannst sá síðarnefndi ekki. Stekkurinn í Stekkjarnesi (Stekkjarnefi) er augljós ef örnefnalýsingar eru skoðaðar. Og þegar betur er að gáð, þrátt fyrir allt, má vel greina minjar stekksins neðst í Stekkjardal, fast ofan við sjávarkampinn.
Framangreint er einungis eitt tilgreint tilvik af fjölmörgum. Ef tíunda ætti þau öll myndi vefsíðan ein ekki duga til. Þess ber að gæta að sá er þetta skrifar fékk einkunnina 10.0 í fornleifaskráningu við nám í fornleifafræði við Háskóla Íslands á sínum tíma.
Framangreind umfjöllun er fyrst og fremst vinsamleg áminning um mikilvægi þess að vanda þarf vinnubrögð við fornleifaskráningar í hvívetna. Þær virðast kannski ekki skipta miklu máli þá og þegar þær eru gerðar, að teknu tilliti til kostnaðar hverju sinni, en þær munu vissulega gera það sem um munar er fram líða stundir…
Flekkuvíkurstekkur I – uppdráttur ÓSÁ.