Ísland hefur enga forsögu – Kristján Eldjárn
Í Tímariti Máls og menningar árið 1966 er viðtal við Kristján Eldjárn, þáverandi þjóðminjavörð, undir fyrirsögninni „Ísland hefur enga forsögu„:
„Kristján Eldjárn er löngu þjóðkunnur. Hann fæddist 6. des. 1916 að Tjöm í Svarfaðardal, lauk stúdentsprófi á Akureyri 1936, stundaði nám í fornleifafræði við Háskólann í Kaupmannahöfn 1936—39, kenndi við Menntaskólann á Akureyri 1939—41, lauk meistaraprófi í íslenzkum fræðum frá Háskóla Íslands 1944 og doktorsprófi við sama skóla 1956. Gerðist safnvörður í Þjóðminjasafni 1945, skipaður þjóðminjavörður 1947. Hefur gert allmarga uppgrefti hér á landi og tekið þátt í fornleifarannsóknum á Grænlandi og víðar erlendis. Gaf út bókina Gengið á reka 1948, Kuml og haugfé 1956, Staka steina 1958 og Hundrað ár í Þjóðminjasajni 1962. Hefur auk þess skrifað margar greinar í Árbók hins íslenzka fornleifafélags og nokkuð í erlend tímarit.
Hin síðari ár hefur margt verið ritað um forsögu og uppruna Íslendinga og komið fram nýstárlegar kenningar sem vakið hafa ágreining, en jafnframt aukinn áhuga almennings. Hér í tímaritinu hafa m.a. birzt greinar um þetta efni að undanförnu. Það hefur nú snúið sér til Kristjáns Eldjárns og leitað í spurningaformi álits hans sem fornleifafræðings á elztu sögu Íslendinga.
Hvað er fornleifafrœði? Er hún vísindi eða skáldskapur?
Fornleifafræði er vísindi, og má segja að hún sé á mörkum þess sem nú er kallað hugvísindi og raunvísindi. Sumir hafa reyndar illan bifur á þessum orðum og vilja láta hugvísindin kallast frœði og raunvísindin aðeins vísindi. En fornleifafræðin er þá bæði fræði og vísindi. Fráleitt væri að kalla fornleifafræðina skáldskap, þótt niðurstöður hennar hafi oft orðið tilefni skáldskapar, og þá á ég við raunverulegan skáldskap eins og hjá Johannes V. Jensen, til dæmis að taka, en ekki heilaspuna, sem ýmist kallar sig skáldskap eða
vísindi, en er hvorugt. Og sjálfsagður hlutur er það, að fornleifafræðingi er nauðsynlegt að hafa auðuga innlifunargáfu, geta séð sýnir, en fari hann að sjá ofsjónir hættir hann að vera fræðimaður og verður þó ekki skáld að heldur. Það eru til fornleifafræðingar sem líkt og aldrei koma aftur upp úr holunni sem þeir hafa grafið sig niður í, aðrir sem aldrei virðast geta tyllt tá á fast land. Hvorirtveggju eru jafnómögulegir.
Það er ekki áhlaupaverk að skapa heild, samhangandi menningarsögu úr þeim einhæfu brotabrotum, sem varðveitzt hafa. En húsið er þó að verða fokhelt, svo verður það tilbúið undir tréverk og einhvern tíma verður hægt að mála og dúkleggja. Ég þarf varla að taka fram, að ég er hér að tala um fornleifafræði almennt, ekki íslenzka fornleifafræði.
Nokkrir hafa leitt hugann að forsögu Íslands. Ég minnist skrifa Einars Benediktssonar. Hann kynnti sér hella á Suðurlandi og sagðist geta sannað með rökum að margir þeirra vœru eldri en hin norrœna landssaga. Hefur sú fullyrðing verið hrakin?
Það er einkennilegt og eiginlega sálfræðilegt rannsóknarefni, hvernig þessi hellarómantík Brynjúlfs frá Minna-Núpi (blessuð sé og verði hans minning hér í Þjóðminjasafni) og Einars Benediktssonar hefur runnið inn í Íslendinga. Menn halda dauðahaldi í þessar getgátur og hafa þær fyrir helgar kýr.
Einar taldi sig hafa fundið í einum hellinum, í Hellnatúni í Asahreppi, rómverskt letur frá 4. öld. Hefur það verið tekið til frekari athugunar?
Já, vissulega. Matthías Þórðarson rannsakaði fjölmarga manngerða hella í Árnessýslu og Rangárvallasýslu og skrifaði um þá framúrskarandi skýra greinargerð í Árbók fornleifafélagsins 1930—31. Það sem Einar Benediktsson sá í Hellnatúnshelli og las S J G IV og þýddi Saeculo Jesu Generationis Quarto, er í rauninni fangamark S J S, Sigurðar Jónssonar eða þvíumlíkt, vafalítið frá 17. eða 18. öld.
Þú komst einu sinni svo að orði um Jón Sigfússon á Bragðavöllum, þann er fann fyrsta rómverska peninginn, að hann hafi lengt sögu Íslands um 500 ár aftur í tímann. Hafa rannsóknir leitt eitthvað í ljós síðan er gefi vitneskju um þetta tímabil eða fylli þar í eyðurnar?
Það er langt síðan ég skildi, hvílík gífuryrði ég hafði látið mér um munn fara um þessa lengingu íslenzkrar sögu aftur í tímann. Ekkert hefur heldur komið í ljós síðan, sem réttlætt gæti svo glannaleg orð.

Rómverskur peningur. Rómverskur koparpeningur fundinn á Bragðavöllum í Hamarsfirði í Suður-Múlasýslu. Peningurinn er sleginn í borginni Cyzicus í Litlu-Asíu í tíð Aurelians keisara er ríkti í Rómaveldi á árunum 270-275 eftir Krist. Peningurinn fannst árið 1933 í uppblásnum og eyddum fornbæjarrústum hjá Bragðavöllum og þar hafði fundist annar rómverskur peningur árið 1905. Aðrir hlutir, sem fundist hafa á þessum stað, eru hins vegar dæmigerðir norrænir gripir, sem algengt er að finna í fornbæjarústum hérlendis, perlur úr steinasörvi, klébergsbrot úr pottum og einfaldir smáhlutir. Þessir peningar hafa orðið kveikjan að þeirri hugmynd, að Rómverjar hinir fornu hafi komið til Íslands á 3. eða 4. öld eftir Krist og haft hér einhverja viðdvöl. Það verður þó vart ráðið af þessum peningum né öðrum rómverskum, sem hér hafa fundist. Engar aðrar rómverskar minjar hafa fundist hér og peningar eru vafasamir til tímasetningar nema aftur í tímann. Þriðji rómverski peningurinn fannst einn sér fyrir mynni Hvaldals austanvert við Lón í Austur-Skaftafellssýslu og hinn fjórði fannst árið 1966 við rannsóknir á byggðarleifum frá söguöld í Hvítárholti í Hrunamannahreppi.
Þú taldir allar líkur benda til um rómversku peningana sem fundust á Austfjörðum, að þeir hefðu borizt með brezk-rómversku skipi er þangað hefði hrakizt um 290 þegar mynt þessi var algeng. Nú hefur fundizt nýr rómverskur peningur á allt öðrum stað, Hvítárholti í Hreppum, ekki við strendur heldur inni í landi. Getur þá lengur gilt sama skýring og áður, eða hafa Rómverjar verið hér víðar á ferð kringum 300, og hví þá ekki höggvið letur í hella eins og Einar Benediktsson þóttist sjá?
Ég held enn að það sé engan veginn fráleitt, að skip frá rómverska skattlandinu Britanníu hafi hrakizt hingað til lands um 300 e. Kr. og rómversku peningarnir þrír frá Austfjörðum hafi þá orðið hér eftir, og þá sennilega miklu fleiri, og landnámsmenn hafi svo fundið þá, þegar þeir komu til landsins mörg hundruð árum seinna. Satt að segja finnst mér þetta eðlileg skýring. Peningurinn frá Hvítárholti er eins og hann væri úr sömu pyngju og hinir, og það held ég víst að hann sé. Allir þessir peningar hafa að líkindum komið hingað til landsins í sama sinn. Hitt er svo annað mál, að þeir hafa vel getað borizt hingað á annan hátt en þann, sem ég nefndi. Einhver Íslendingur eða landnámsmaður á leið til Íslands hefur getað verið í Englandi og komizt yfir hrúgu af þessum gömlu peningum þar og haft þá með sér hingað út. Önnur hvor þessara skýringa mun vera sú rétta.
Þegar við héldum víkingafundinn hér í Reykjavík 1956, vorum við svo heppnir að hafa með okkur hinn heimsfræga og stórsérkennilega fomleifafræðing, prófessor Gordon Childe. Í blaðaviðtali var hann að því spurður, hvernig á því stæði, að aldrei hefðu fundizt minjar eftir steinaldarmenn á Íslandi. Gordon Childe svaraði stutt og laggott: „Lélegir fornleifafræðingar“.
Þú vilt ekki teygja fornfrœðina of langt út í skáldskap. Víkjum þá að þeim tímum sem nœr liggja. Fram á okkar daga treystu menn á Ara fróða og Landnámu og á sanngildi Íslendingasagna. Nú eru ýmsir farnir að vefengja þessi sögulegu frœði, gera sér nýjar hugmyndir um uppruna Íslendinga og halda því fram að hér hafi verið mannabyggð fyrir landnámstíð, jafnvel heil þjóð legið í felum. Geta ekki fornleifarannsóknir gefið hér gildandi úrskurð? En áður en kemur að beinu svari við því, viltu kannski segja mér eitthvað almennt um fornleifarannsóknir hér á landi?
Fornleifarannsóknir á Íslandi hófust með Sigurði Vigfússyni, þótt í smáum stíl væri, síðan gerði Daníel Bruun höfuðsmaður og Finnur Jónsson prófessor nokkra uppgrefti, sem voru á miklu fullkomnara stigi faglega séð en rannsóknir Sigurðar, sem von var til.

Matthías Þórðarson (1877-1961).
Þá komu svo rannsóknir Matthíasar Þórðarsonar, en þær urðu aldrei eins miklar og hann hefði viljað, því að varla er von að önnum kafinn embættismaður, eins og hann var, komi miklu slíku til leiðar. Stærsta átakið í íslenzkum fornleifarannsóknum varð þó einmitt á hans dögum, rannsóknirnar í Þjórsárdal 1939, en í þeim tóku þátt fornleifafræðingar frá Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð auk Íslendinga; Matthías Þórðarson hafði yfirumsjón með verki allra þessara manna. Á síðustu tveimur áratugum hefur verið unnið nokkuð að uppgröftum eftir því sem tími okkar fáu safnmanna hefur leyft, og þótt ekki sé meira, hafa þó þessar rannsóknir leitt margt í ljós, sem á ýmsan hátt varpar ljósi á menningarsögu Íslendinga.
Þið hafið grafið upp marga fornmenn og fundið ýmsa muni eftir þá. Hvaða fundi telur þú merkasta?
Jú, grafir frá heiðni eru einmitt drýgsta uppsprettan. Það finnst venjulega eitthvað af slíkum gröfum á hverju ári, og þá reynum við að komast sem fyrst á staðinn til þess að rannsaka þær. En það er hér eins og í flestum löndum öðrum nú orðið, að það eru jarðýtur, sem finna grafirnar, og það eru ekki mjúkar á þeim krumlurnar.
Mér telst nú til, að fundarstaðir þekktra heiðinna kumla hér á landi sé 147, en einstakar grafir nær 290, því að oft eru fleiri grafir á sama fundarstaðnum, það köllum við kumlateiga. Hvað merkilegast sé af þessu öllu veit ég ekki. Til að nefna eitthvað skal ég telja fram kumlið, sem ég rannsakaði í litlum hólma í Úlfljótsvatni, rétt hjá Kaldárhöfða sumarið 1946, og bátkuml, sem Þór Magnússon safnvörður rannsakaði í Vatnsdal í Patreksfirði 1964. Íslenzkar fornmannagrafir upp og ofan eru heldur fátæklega úr garði gerðar, þegar borið er saman við önnur lönd á norrænu menningarsvæði á svonefndri víkingaöld.
Hvaða bendingar gefa þessar rannsóknir, í fyrsta lagi um uppruna Íslendinga?
Við skulum reyna að setja okkur í þau spor, að alls engar ritaðar heimildir væru til um það, hvenær og hvaðan Ísland byggðist, og yrðum að reyna að gera okkur grein fyrir þessu af fornleifum einum saman. Við mundum þá hiklaust komast að þeirri niðurstöðu, að landið hefði verið óbyggt allnokkuð fram á víkingaöld Norðurlanda, en síðan byggzt skyndilega frá Norðurlöndum nær miðju því tímabili eða ekki allfjarri 900. Síðan hefði hér heiðni haldizt um sinn, en þjóðin verið orðin kristin um einni öld síðar. Ég sé ekki betur en þetta fallist í faðma við okkar fornu sögur í stórum dráttum.
Barði Guðmundsson véfengdi ekki að Íslendingar hefðu að meginstofni komið frá Noregi, en fœrði rök að því að verið hefði annar þjóðflokkur en sá sem nú byggir Noreg, með aðra siði og kominn austan eða sunnan að, frá baltnesku löndunum. Hvaða bendingar gefa fornleifafundir hér í þessa átt?
Greftrunarsiðir voru svipaðir um öll Norðurlönd á víkingaöld og verkfærakostur og skartgripir og vopnabúnaður líka. Þó er nokkur munur á, einkum í tízkubundnum smáatriðum í skartgripagerð. Flestar íslenzkar grafir eru með þeim ummerkjum, að þær hefðu getað eins vel fundizt í Noregi eða jafnvel í Svíþjóð eða Danmörku. Þó held ég, að sterkastur sameiginlegur svipur sé með íslenzkum og norskum legstöðum heiðinna manna. En svo kemur hitt, að hér hafa fundizt fáeinir forngripir, sem eiga sér lítt eða ekki samsvörun í Noregi, þótt allur þorrinn sé alveg eins og þar. Ekki er ólíklegt, að íslenzkir kaupmenn hafi siglt skipum sínum til verzlunarstaða við Eystrasalt, t.d. til Birka í Leginum, ellegar kaupmenn þaðan hafi komið hingað. Verzlun Íslendinga hefur áreiðanlega ekki verið einskorðuð við Noreg á söguöld. En það er reyndar eitt atriði í íslenzkum greftrunarsiðum, sem er sérkennilegt. Hér virðist áreiðanlega aldrei hafa verið viðhöfð líkbrennsla, en á Norðurlöndum var hún eins algeng á víkingaöld og jarðsetning, þó fátíðust í Danmörku.
Aðrir halda fram stœrri hlut Íra í landnámi íslands. Hvaða minjar hafa fundizt hér eftir Kelta?
Líklega hafa margir Írar flutzt hingað á landnámsöld, eins og ævinlega hefur verið almennt talið. En minjar um þá hafa engar fundizt né heldur neina aðra Kelta.
Og hvað er þá að segja um mannlíf hér fyrir landnámsöld? Reynist kannski svo að Íslendingabók og Landnáma hafi rétt fyrir sér, að landnámsmenn hafi komið hér að óbyggðu landi?
Ég er ekki reiðubúinn til að véfengja okkar fornu heimildir, að hér hafi verið írskir munkar, þegar norrænir menn komu hingað, sennilega þó aðeins fáeinir menn á Suðausturlandi. Þetta má kannski kalla mannlíf, en annað mannlíf hefur ekkert verið hér á landi fyrir landnámsöld. Landnámsmennirnir komu hér að óbyggðu landi, eins og sögurnar segja. Einmitt þess vegna nefndust þeir landnámsmenn. Ísland hefur enga forsögu.
Gerðist ekki fornleifafundur hér í sjálfri Reykjavík sem bendir til byggðar alllöngu fyrir landnámstíð?
Fornleifarannsóknir hafa litlar verið hér í Reykjavík.
Hvað um þá röksemd Benedikts frá Hofteigi að landnámsmenn hafi ekki getað flutt með sér allan þann bústofn sem snemma er talinn í eigu Íslendinga?
Benedikt frá Hofteigi er mikill áhugamaður um frumsögu Íslands eins og aðra sögu. Hann hefur stundum sneitt að íslenzkum fornleifafræðingum, að þeir séu athafnalitlir, en alltaf hefur hann gert það mannúðlega, og sá tími er nú sem betur fer liðinn, að menn leggi fæð hver á annan eða rífist eins og rakkar, þótt þeir séu ekki sammála um fræðileg efni. Menn eru hættir að hatast ævilangt út af stafsetningu.
Góðkunningi minn Benedikt mun því áreiðanlega ekki þykkjast við mig, þótt ég segi frá einu tilsvari, sem ég ætla að hafa eftir honum. Ég spurði hann einu sinni hvaða skýringu hann gæti gefið á því, að aldrei fyndist neitt, alls ekki sú minnsta agnarögn, af minjum eftir hina miklu og menntuðu þjóð, sem hann telur hafa búið hér á landi áður en landnámsmenn komu til landsins, kannski hundrað þúsund manna þjóð. Af hverju finnast aldrei neinar minjar eftir hana? Benedikt svaraði hiklaust:
„Það er af því að þið leitið ekkert að þeim.“
Björn Þorsteinsson grefur upp forna heimild um að Ísland sé nefnt Íraland, telur þá hafa búið í Fœreyjum á 8. öld, en síðan þokað sér hingað norður með búsmala og tekið að nema hér land. Bendir ekkert til að fyrir landnámstíð hafi hér verið aðrir Írar en þeir einsetumenn sem Ari nefnir?
Nei, ég segi það aftur, engar slíkar minjar hafa fundizt, ekki tangur né tetur. Ég hef leyft mér að kalla þessa trú á þjóð hér á landi fyrir landnámsöld andatrú hina nýju. Þetta er eiginlega spíritismi.
Og ef við víkjum nú lítilsháttar að sögutímanum. Er ekki svo að ýmsar rannsóknir sem þið hafið gert staðfesti sannleiksgildi fornsagnanna, t.a.m. Njálu?
Sigurður Vigfússon vildi nota fornleifarannsóknir fyrst og fremst til þess að sanna Íslendingasögumar. Nú teljum við hlutverk hennar vera að safna heimildum að menningarsögu. En þá er vitanlega vel, ef hún getur stöku sinnum varpað ljósi á almenna sögu eða bókmenntasögu. Stundum getur hún fyllt upp í einhverja sögulega eyðu, og einstöku sinnum, ef til vill, sannað eða afsannað eitthvað, sem stendur í fornsögum. Það var til dæmis skemmtilegt að koma niður á brunarústir frá söguöld á Bergþórshvoli, ekki sízt þar sem þær voru jafngreinilegar og þær voru, þótt ekki væru þær nema af fjósi.
Hvaða vísindagreinar standa fornleifafrœðinni nœst, eða eru henni helzt til stuðnings?
Fornleifafræði er menningarsaga og hlýtur vitanlega að haldast í hendur við almenna sögu, svo langt sem ritaðar heimildir ná. Ég hef þegar nefnt sem dæmi, hvernig fornleifafræði getur lagt veigamikið orð í belg um upphaf Íslandsbyggðar. Auk þess styðst fornleifafræði við þjóðfræði, sem svo er kölluð, etnografi, en að því er tekur til sjálfra fornleifarannsóknanna verður að styðjast við náttúruvísindi almennt, einkum þó jarðfræði. Þetta á við alls staðar, um alla fornleifafræði, einnig hér á landi, þótt við séum í þessari einkennilegu sérstöðu að hér er engin forsaga og allar okkar fornleifarannsóknir snúast um efni frá sögulega þekktum tíma. En stefnumark fornleifafræðinnar er fyrst og fremst menningarsaga.

Sverð úr fornmannagröf á Kaldárhöfða við Úlfljóstvatn. Þrátt fyrir merkilegheitin er nákvæmlega ekkert á vettvangi sem bendir nútímafólki á fundarstaðinn.
Svona er fornleifafræðin vaxin enn í dag…
Þeir sem véfengt hafa norskt œtterni Íslendinga, hafa ekki sízt vitnað til bókmenntanna, viljað frekar rekja einkenni þeirra til Íra eða Herúla, eins og Barði. Menn hafa engan sambœrilegan skáldskap fundið í Noregi, en hvað er þá að segja um allar hinar nýju rúnarislur í Bergen?
Við erum nú orðnir svo langorðir, að ég verð að hliðra mér hjá að fjölyrða um þetta efni. Þó skal ég segja, að fornleifafundirnir í Björgvin, sem fram hafa komið á síðustu árum, ekki sízt hinar fjölmörgu og margvíslegu rúnaristur, eru einhver merkilegustu tíðindi þessarar fræðigreinar hér á Norðurlöndum á síðustu árum.
Nú langar mig til að víkja að starfi þínu við Þjóðminjasafnið. Hvenœr varðstu þjóðminjavörður?
Ég varð þjóðminjavörður 1. des. 1947, en hafði þá áður verið safnvörður hjá Matthíasi Þórðarsyni um tveggja ára skeið.
Hvernig hefur þér fallið við nýju bygginguna?
Nýja byggingin olli tímamótum í sögu safnsins, eins og að líkum lætur. Það er ómetanlegt að safnið hefur sitt eigið hús, og nú orðið er það orðin eins og hver önnur fjarstæða að Þjóðminjasafninu væri holað niður einhvers staðar eða einhvers staðar. Húsið hefur sína kosti og galla, eins og gefur að skilja, það hafa öll hús. Mannkynið hefur verið að byggja hús alla sína tíð, en samt er alltaf sama vandamálið að búa til gott hús. Aðalvandamálið með okkar hús er að það er of lítið. Ég mundi segja, að það væri nógu stórt fyrir Þjóðminjasafnið, ef Listasafn ríkisins þyrfti ekki að vera hér. Nauðsynlegt er að byggja sérstakt Listasafnshús.
Hver eru helztu verkefni safnsins? Hvað eru starfsmenn margir?
Verkefni safnsins eru mörg, en safnmennirnir fáir. Auk mín eru fjórir safnverðir með fullu starfi og einn með hálfu starfi og bókari, sem í raun og veru er allt í senn bókari, gjaldkeri og skrifstofustúlka. Þeim embættum, sem við safnmennirnir gegnum, fylgir alls engin lagaleg skylda til að gera neinar fornleifarannsóknir, þótt við teljum það siðferðilega skyldu og sjálfsagðan hlut að gera það sem efni og ástæður leyfa á því sviði. Það er stundum öskrað á okkur með frekju og jafnvel ásökunum um að við gröfum ekki þetta og gröfum ekki hitt, eins og við værum að svíkja okkar starf. Þetta er hreinn misskilningur. Ekkert rannsóknarembætti í fornleifafræði er til. Við erum safnverðir og minjaverðir, og því fylgir meira veraldarvafstur en margur hyggur.
Árbók fornleifafélagsins? Á hvern hátt er hún á vegum safnsins?
Það er von þú spyrjir, eins og ég hagaði orðum mínum. Hið íslenzka fornleifafélag var stofnað árið 1879, æruverðugt félag að aldri. Markmið þess var að stuðla að fornleifarannsóknum á Íslandi og gefa síðan út ársrit um þau efni. Árbók fornleifafélagsins hefur komið út síðan, þótt rannsóknirnar hafi færzt yfir á hendur Þjóðminjasafnsins. Þú fyrirgefur þótt ég smygli hér inn þessari litlu auglýsingu, en þetta rit er sem sagt eina málgagnið fyrir íslenzka fornleifafræði og er á vissan hátt árbók Þjóðminjasafnsins ekki síður en félagsins.
Hvernig er háttað stuðningi hins opinbera? Hafið þið nœgilegt fé til rannsóknarstarfa?
Allt okkar fé kemur frá því opinbera. Erfitt er að svara því, hvort við höfum nóg fé til rannsóknarstarfa. Vitanlega höfum við lítið fé, en fornleifafræðingar, sem gætu stjórnað uppgröftum, eru líka fáir. Ég hef ekki ástæðu til annars en halda, að hægt væri að fá meira fé hjá því opinbera til fornleifarannsókna, en þær gera sig ekki sjálfar, þó að peningar séu fyrir hendi. Við komumst ekki yfir öllu meira en við gerum eins og sakir standa.
Safnið hefur stœkkað mikið? Ef þú lítur yfir þessi ár, hvað finnst þér hafa áunnizt? Hvernig er framtíðarviðhorfið?

„Hallgrímshellan“ í geymslum Þjóðminjasafnsins. Dæmi um geymd til varðveislu, hvorki til nokkurs tilgangs né varðveislugildis!
Þjóðminjasafnið er geymslustaður minja og sýningarstaður en auk þess rannsóknarstaður að nokkru leyti. Það heldur jafnt og þétt áfram að vaxa og færa út kvíarnar á ýmsum sviðum, og svo mun verða í framtíðinni. Hér er nú orðið svo miklu meira umleikis á öllum sviðum heldur en þegar ég kom að stofnuninni fyrir rúmum tuttugu árum, að það er varla hægt að þekkja þetta fyrir sömu stofnun. Líklega heldur þessi vöxtur áfram, ég vona það, eins og ég vona að það verði æ meiri menningarstofnun eftir því sem tímar líöa. En líklega þarf fljótlega nýja og fullkomnari sundurgreiningu starfa og að skipta þeim niður á fleiri hendur.

Kristján Eldjárn varð síðar forseti landsins (Kristján Þórarinsson Eldjárn (fæddur á Tjörn í Svarfaðardal 6. desember 1916 – dáinn 14. september 1982).
Þú býst við að verkefnin greinist í stjórnarstörf og frœðistörf. Hvort mundirðu kjósa þér fremur?
Ég get búizt við því, að sú skipting verði í framtíðinni. Sú stefna er alls staðar ríkjandi. Hvernig eiga menn, sem allan liðlangan daginn og allan ársins hring eru á kafi í ys og erli dagsins, eru með leyfi að segja eins og útspýtt hundsskinn, að stunda rannsóknarstörf og skriftir? Hvort ég mundi sjálfur kjósa af þessu, sem þú nefndir? Hvað skal segja? Ég er nú orðinn svo vanur því að vera eins konar þjóðareign, að líklega fer að verða vonlítið fyrir mig að prótestera og vilja fara að rannsaka og skrifa eða jafnvel flytja háskólafyrirlestra.“
Heimild
-Tímarit Máls og menningar, 4. tbl. 01.02.1966, „Ísland hefur enga forsögu“ – Viðtal við dr. Kristján Eldjárn þjóðminjavörð, bls. 352-365.