17. júni

Á RÚV þjóðhátíðardaginn 17. júní 2024 mátti lesa eftirfarandi um fyrsta þjóðhátíðardaginn 1874, eða fyrir um 150 árum. Hér er og bætt um betur. Hlustið sérstaklega eftir duldu ljóði Magnúsar Þórs Sigmarssonar!:

150 ár frá fyrstu þjóðhátíð á Íslandi

Þingvellir

Þjóðhátíðin á Þingvöllum 5.-7. ágúst 1874. Skreyttur ræðustóll með fánum og mannfjöldi í kring.
Úr “Illustrated London News” 1874. Birtist í bókinni “Þjóðhátíðin 1874” eftir Brynleif Tobíasson. – Ókunnur höfundur.

Á þessu ári eru 150 ár frá þjóðhátíðinni 1874, fyrstu þjóðhátíð á Íslandi, sem haldin var í tilefni af 1000 ára afmæli Íslands byggðar. Kristján IX Danakonungur heimsótti Ísland og þjóðsöngurinn „Ó, Guð vors lands“ var saminn fyrir þessa hátíð.

Íslands þúsund ár
Ákveðið var að sérstök hátíðaguðsþjónusta skyldi fara fram í öllum aðalkirkjum landsins 2. ágúst 1874, en þann dag átti þjóðhátíðin að hefjast. Pétur Pétursson biskup valdi sjálfur messutextann og tók hann úr Davíðssálmi nr.90.

Pétur Pétursson

Pétur Pétursson, biskup.

Drottinn, þú varst vort athvarf frá kyni til kyns. Áður en fjöllin fæddust og þú tilbjóst jörðina og heiminn, já, frá eilífð til eilífðar ertu guð. Þú gjörðir manninn að dufti og segir: “Komið aftur, þér mannanna börn!” því þúsund ár eru fyrir þínum augum sem dagurinn í gær, þá hann er liðinn, og eins og næturvaka.

Textinn var reyndar nokkuð lengri, en það var þetta upphaf hans sem hafði þau áhrif á Matthías Jochumsson að hann orti ljóðið „Ó, Guð vors lands“ í nóvember 1873 þegar hann dvaldist í Edinborg í Skotlandi hjá tónlistarmanninum Sveinbirni Sveinbjörnssyni sem þar var búsettur. Í viðkvæði ljóðsins koma einmitt fyrir orðin „Íslands þúsund ár“. Sveinbjörn samdi svo lag við ljóðið vorið 1874.

Ekkert íslenskt lag til?

Kristján IX

Kristján IX. Danakonungur.

Kristján IX var fyrstur Danakonunga til þess að sækja Íslands heim. Freigáta hans, Jylland, sigldi inn á Reykjavíkurhöfn 30. júlí 1874. Fagurskreyttur heiðursbogi hafði verið reistur á bryggjunni og fjöldi fólks flykktist niður í fjöru og safnaðist í kringum bryggjuna, nokkrar þúsundir manna samkvæmt blaðinu Víkverja. Kór undir stjórn Jónasar Helgasonar söng kvæðið „Velkominn yfir Íslands sæ“ sem Matthías Jochumsson hafði ort af þessu tilefni. Einnig var sungið „Eldgamla Ísafold“, en bæði kvæðin voru sungin við erlend lög. Konungur spurði þá hvort kórinn gæti ekki sungið fyrir sig íslenskt kvæði við íslenskt lag. Jónas svaraði vandræðalega að ekkert slíkt lag væri til, en landshöfðingi benti honum á að hann sjálfur, Jónas, hefði fyrir skömmu samið lag við ljóðið „Minni Ingólfs“ sem Matthías Jochumsson hafði einnig ort í Edinborg árið áður. Var það þá sungið fyrir konunginn, enda átti kvæðið vel við hátíðina þar sem það lýsir landnámi Ingólfs Arnarsonar.

Með frelsiskrá í föðurhendi

Kristján IX

Kristján IX – stytta framan við Stjórnarráðið.

Í tilefni af 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar hafði Kristján níundi gefið út sérstaka stjórnarskrá fyrir Ísland í febrúar 1874. Íslendingar voru misánægðir með þessa afmælisgjöf. Sumum þóttu réttarbæturnar í henni vera alltof litlar. Aðrir, eins og sjálfstæðisbaráttumaðurinn Jón Sigurðsson, létu í ljós þá skoðun að stjórnarskráin væri að vísu gölluð, en eigi að síður spor í rétta átt. Matthías Jochumsson orti um stjórnarskrána: „Með frelsisskrá í föðurhendi/ þig fyrstan konung Guð oss sendi.“ Styttan af Kristjáni IX sem stendur fyrir framan stjórnarráðshúsið í Reykjavík sýnir konung rétta fram stjórnarskrána á táknrænan hátt. Dagana sem Kristján konungur dvaldist hér á landi mátti stundum sjá hann á gangi í Reykjavík. Hann þótti alþýðlegur og blátt áfram í framgöngu, spjallaði meðal annars við konu sem var að sækja vatn, og gaf henni tveggja króna pening.

Sungin í verbúðum og á smalaþúfum

Ísland

Hversdagsleikinn á Íslandi í kringum aldamótin 1900.

Söngurinn „Ó, Guð vors lands“ var frumfluttur að konungi viðstöddum við hátíðamessuna í Dómkirkjunni 2. ágúst 1874. Amerískur fréttaritari, Bayard Taylor, lýsti í fréttapistli sínum hrifningu sinni af söngnum og sagði að augu margra í Dómkirkjunni hefðu fyllst tárum. Seinna um daginn var haldin útihátíð á Öskjuhlíð og 5.-7. ágúst var þjóðhátíð haldin á Þingvöllum. Skáldin Matthías Jochumsson og Steingrímur Thorsteinsson höfðu ort mörg kvæði sem sungin voru við hátíðahöldin. Á þessum tíma var Kristleifur Þorsteinsson 13 ára gamall unglingur í Borgarfirði, en hann segir:

Matthías Jockumsson

Matthías Jockumsson.

Það var eins og áður óþekktur fögnuður og samúð bærist frá manni til manns þetta þjóðhátíðarsumar. Kvæði Matthíasar og Steingríms voru sérprentuð og bárust út um byggðir landsins. Urðu þau á hvers manns vörum, og lögin við þau lærðu allir sönghæfir menn. Mátti segja að ómur þessara kvæða bærist frá hafi til heiða. Þau voru sungin á heimilum, í veislum, í verbúðum, ferðamannatjöldum, leitarmannaskálum og á smalaþúfum.

Þjóðhátíðin á þingvöllum 1874 var haldin á Þingvöllum til að fagna 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar.

Þjóðhátíðarinnar var minnst á Suðurnesjum eins og víðast annars staðar á landinu.
Í tilefni þessa var reistur minnisvarði við kirkjuna í Innri-Njarðvík árið 1974, en á þeim stað héldu fjórir innstu hreppar Gullbringusýslu þjóðhátíð sína dagana 15.-16. ágúst 1874.

Alþingi

Frá því að Alþingi var lagt niður á Þingvöllum 1798 hafa Íslendingar haldið sex miklar hátíðir á Þingvöllum. Árið 1874 var þjóðhátíð haldin á Þingvöllum til að fagna 1000 ára afmælis Íslandsbyggðar. Af því tilefni afhenti Kristján IX. Íslendingum fyrstu stjórnarskrána en samkvæmt henni fékk Alþingi takmarkað löggjafararvald og fjárforræði. Íslendingar fjölmenntu til Þingvalla til að verða vitni að atburði sem markaði þáttaskil í sjálfstæðisbaráttunni. Prentmynd af Illustrated London News 29. ágúst 1874. Frá Þjóðhátiðinni á Þingvöllum 1874. Danakonungi flutt ávarp.

Áki Gränz og Ingvar Jóhannsson sáu um framkvæmdina að tilhlutan Byggðasafnsnefndar og hreppsnefndar Njarðvíkur.

Meðal gesta á þjóðhátíð okkar Íslendinga á Þingvöllum 1874 var bandarískur blaðamaður, Hays að nafni, frá blaðinu New York Herald. Hann hitti Kristján konung IX. sem dvaldi í landshöfðingjabústaðnum (nú Stjórnarráðshúsinu) í Reykjavík. Óskaði hann eftir því að fá að hafa nokkur orð eftir konungi um þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar og hátíðarhöldin.

Konungur svaraði: „Það er mjer kunnugt, að blað yðar er víðfrægt mjög sakir framtakssemi þess og skörungskapar, enda þykir mjer, sem þjer sýnið mjer of mikla kurteisi, með því þjer ætlið að heimurinn hirði um að heyra mína skoðun í svo víðlendu blaði.“

Frá þessu greindi fréttablaðið Þjóðólfur 2. nóv. 1874. Svona gátu kóngar verið hógværir i gamla daga. En síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar …

Þjóðsöngur Íslendinga

Þjóðsöngur Íslendinga, lofsöngurinn Ó, guð vors lands, er upphaflega ortur sem sálmur og saminn í tilefni af þjóðhátíð sem haldin var á Íslandi árið 1874 til að minnast þúsund ára byggðar í landinu. Messur voru þá sungnar um allt land og í prédikun lagt út af 90. sálmi Davíðs, 1.-4. og 12.-17. versi, samkvæmt ákvörðun biskups. Varð sá texti kveikjan að lofsöngnum sem þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson (1835-1920) orti í Bretlandi veturinn 1873-74. Hann er eitt af ástsælustu ljóðskáldum Íslendinga. Höfundur lagsins var Sveinbjörn Sveinbjörnsson tónskáld (1847-1926) sem fyrstur Íslendinga gerði tónlistariðkun að ævistarfi sínu. Hann var lengst af búsettur í Edinborg og samdi þar lagið við lofsöng Matthíasar.

Reykjavík 1874

Eldra fólk hélt að Ragnarök væru runnin upp þegar skotið var úr fallbyssum skipanna 1874.

Meðan fullveldið átti enn langt í land var enginn þjóðsöngur til í venjulegum skilningi. Ó, guð vors lands var þó oft sungið opinberlega á síðasta fjórðungi 19. aldar og á tímabilinu frá heimastjórn til fullveldis, 1904-1918, ávann það sér hefð sem þjóðsöngur. Á fullveldisdaginn var það leikið sem þjóðsöngur Íslendinga og hefur verið það ætíð síðan. Kvæðið er þó fremur sálmur en ættjarðarljóð og lagið nær yfir svo vítt tónsvið að ekki er á færi alls þorra manna að syngja það. Íslendingar setja það þó lítt fyrir sig og ekkert ættjarðarljóð, þótt auðveldara sé í flutningi, hefur þokað Ó, guð vors lands úr sessi þjóðsöngs. Það hefur jafnvel hlotið þeim mun meiri helgi sem því hefur síður verið slitið út hversdagslega. Þjóðin ber lotningu fyrir háleitum skáldskap Matthíasar og hið hátíðlega og hrífandi lag er Íslendingum hjartfólgið.

Þjóðkirkjan 1874

Þjóðkirkjan 1874 – mbls. 02.08.1924. Lofsöngurinn var frumfluttur við hátíðarguðsþjónustu í Dómkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 2. ágúst 1874 að viðstöddum Kristjáni IX. sem kom til landsins á þjóðhátíðina og varð þar með fyrstur ríkjandi konunga til að sækja landið heim. Hann færði þjóðinni stjórnarskrá. Var sá áfangi einn af hinum merkustu í endurheimt sjálfstæðis sem glataðist 1262-64, undanfari heimastjórnar 1904, fullveldis 1918 og loks stofnunar lýðveldis 17. júní 1944. 

Íslenska ríkið eignaðist höfundarrétt að laginu árið 1948 og að ljóðinu árið 1949. Forsætisráðuneytið fer með umráð hans. Árið 1983 voru sett lög um þjóðsöng Íslendinga, nr. 7/1983. Samkvæmt þeim má ekki flytja eða birta þjóðsönginn í annarri mynd en hinni upprunalegu. Auk þess leggja þau bann við því að hann sé á nokkurn hátt nýttur í viðskipta- eða auglýsingaskyni.

Saga þjóðsöngsins

Þjóðsöngur Íslendinga, lofsöngurinn Ó, guð vors lands, er upphaflega sálmur, ortur við sérstakt tækifæri, og mun hvorki höfundi ljóðs né lags hafa hugkvæmzt, að úr yrði þjóðsöngur, enda leið meira en mannsaldur, áður en svo varð.

Árið 1874 voru talin 1000 ár liðin frá því, er Norðmaðurinn Ingólfur Arnarson nam fyrstur manna land á Íslandi. Voru það sumar hátíðahöld um gjörvallt land af þessu tilefni, en aðal-þjóðhátíðin fór fram á Þingvöllum og í Reykjavík. Fyrir þessa hátíð var lofsöngurinn ortur, sbr. orðin „Íslands þúsund ár“, sem fyrir koma í öllum þremur erindum, og heitið á frumútgáfu kvæðis og lags (Rvík 1874) er: Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára.

Skv. konungsúrskurði frá 8. sept. 1873 skyldi haldin opinber guðsþjónusta í öllum íslenzkum kirkjum til að minnast þúsund ára byggðar Íslands sumarið 1874, og átti biskupinn yfir Íslandi að kveða nánar á um messudag og ræðutexta.

Þjóðsöngur

Skjöldur utan 15 London Street, Edinburgh, Scotland. Árið 1974 lét Menntamálaráðuneytið koma fyrir minningartöflum að London Street 15 í Edinborg, sú fyrri er á íslensku og á henni stendur: „Íslenski þjóðsöngurinn, “Ó, Guð vors lands” lagið og hluti ljóðsins var saminn í þessu húsi árið 1874 af Sveinbirni Sveinbjörnssyni og Matthíasi Jochumssyni“ .“ Frumkvæðið að því að koma fyrir töflunum átti dr. Símon Jóhannes Ágústsson, sem ritaði ráðuneytinu um málið, en sendiráð Íslands í Lundúnum og aðalræðismaðurinn í Edinborg aðstoðuðu við framkvæmd þess. Tvennt er athugavert við textann á töflunum, í fyrsta lagi er á þeim báðum staðhæft að lag og ljóð hafi verið samið 1874 en í æviminningum Matthíasar kemur fram að það hafi verið veturinn 1873-1874, í öðru lagi er misræmi á milli þeirra eftir tungumálum, á íslensku útgáfunni er staðhæft að ljóðið hafi að hluta til verið samið í húsinu sem er rétt en á þeirri ensku er staðhæft að það hafi verið samið þar sem er rangt, en síðari versin voru samin í Lundúnum.

Sama haust lét biskupinn, dr. Pétur Pétursson, boð út ganga þess efnis, að messudagurinn yrði 2. ágúst og ræðutextinn 90. sálmur Davíðs, l.-4. og 12.-17. vers. Þessi ákvörðun um hátíðarmessu olli því, að þjóðsöngurinn íslenzki varð til, og textavalið réð kveikju hans.

Um sama leyti og biskupsbréfið var birt, hélt í þriðju utanför sína (af ellefu alls) séra Matthías Jochumsson (1835-1920). Hann var sonur fátækra, barnmargra bóndahjóna og hafði því farið gamall í skóla, kostaður af fólki, sem hrifizt hafði af gáfum hans. Hann hafði lokið guðfræðiprófi í Reykjavík og gerzt klerkur í rýru brauði þar í grennd (í Móum á Kjalarnesi 1867), en sagt af sér prestskap þetta haust, 1873, er hann átti enn í hugarstríði eftir að hafa misst nýlega aðra konu sína, auk þess sem hann háði þá sem oft endranær framan af ævi innri trúarbaráttu. Á næstu árum gerðist hann ritstjóri Þjóðólfs (1874-80), tók síðan aftur við prestsþjónustu í mikils háttar prestaköllum (í Odda á Rangárvöllum til 1887, síðan á Akureyri) og gegndi þeim til aldamóta, er hann hlaut fyrstur Íslendinga skáldalaun frá Alþingi, sem hann naut tvo síðustu áratugi ævinnar.

Kvæðið er ort í Bretlandi veturinn 1873-74, fyrsta erindið í Edinborg, en tvö síðari erindin í Lundúnum, og fannst Matthíasi sjálfum aldrei mikið til þeirra koma. Á þeim tíma var aðeins áratugur liðinn frá því, er hann hafði vakið athygli þjóðarinnar á skáldskap sínum, og enn leið áratugur, þar til út kom sérstök ljóðabók eftir hann.

Höfundur lagsins, Sveinbjörn Sveinbjörnsson (1847-1926), átti ólík örlög Matthíasi, var sonur eins af æðstu embættismönnum þjóðarinnar, Þórðar Sveinbjörnssonar dómstjóra við landsyfirréttinn, og ól mestan aldur sinn erlendis. Hann var guðfræðingur, en gerði síðan fyrstur Íslendinga tónlistariðkan að ævistarfi sínu. Hann hafði lokið 5 ára tónlistarnámi í Kaupmannahöfn, Edinborg og Leipzig og var rétt setztur að sem hljómlistarkennari og píanóleikari í Edinborg, þegar Matthías kom þangað haustið 1873 og bjó þar hjá honum, því að þeir voru skólabræður, þótt aldursmunur væri 12 ár. Þegar Matthías hafði ort þarna upphafserindi lofsöngsins, sýndi hann það Sveinbirni og segir svo frá þessu í Söguköflum af sjálfum sér: „Sveinbjörn athugaði vandlega textann, en kvaðst ekki treysta sér að búa til lag við; fór svo, að ég um veturinn sendi honum aftur og aftur eggjan og áskorun að reyna sig á sálminum. Og loks kom lagið um vorið og náði nauðlega heim fyrir þjóðhátíðina.“ –

Þjóðsöngur

Skjöldurinn við inngang 15 London Street, Edenburg, Scotland.

Sveinbjörn var síðan búsettur í Edinborg, nema hvað hann átti heima 8 síðustu æviárin í Winnipeg, Reykjavík og Kaupmannahöfn, þar sem hann lézt, sitjandi við píanó sitt. En allt frá því, er hann samdi lagið við „Ó, guð vors lands“, 27 ára gamall, hélt hann áfram margs háttar tónsmíðum alla ævi, og eru þeirra á meðal ýmis ágæt lög við íslenzk ljóð, þótt lengstum væri hann í litlum tengslum við þjóð sína og yrði öllu fyrr kunnur sem tónskáld í dvalarlandi sínu en föðurlandi. Samt eru tónverk hans fremur samin í norrænum anda en engilsaxneskum. Og í fámennum flokki íslenzkra tónskálda er hann bæði meðal brautryðjenda og meðal þeirra, sem hæst ber.

Lofsöngurinn virðist þó ekki hafa vakið sérstaka athygli, hvorki ljóð né lag, er hann var fluttur í fyrsta sinn af blönduðum kór við þrjár hátíðaguðsþjónustur í dómkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 2. ágúst 1874. Þann dag voru og sungin í Reykjavík 7 minni, sem Matthías hafði ort að beiðni hátíðarnefndar, flest á einum degi – svo hraðkvæður gat hann verið. En lofsöngurinn er meðal þess fáa, sem hann orti fyrir þjóðhátíðina af eigin hvötum.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson

Sveinbjörn Sveinbjörnsson.

Meðan fullveldið átti enn langt í land, var ekki um að ræða neinn þjóðsöng í venjulegum skilningi. En þegar Íslendingar sungu fyrir minni ættjarðarinnar, skipaði þar öndvegis-sessinn á 18. öld og fram yfir aldamót „Eldgamla Ísafold“ eftir Bjarna Thorarensen (1786-1841; ort í Kaupmannahöfn, sennil. 1808-09). En tvennt olli því, að það gat ekki orðið þjóðsöngur, þrátt fyrir almennar vinsældir. Annað var, að heimþrá fær þar útrás í snuprum í garð dvalarlandsins, nema í fyrsta og síðasta erindi, sem voru og oftast sungin. En einkum var hitt, að það var sungið undir lagi enska þjóðsöngsins (þótt upphaflega muni það samið við lag eftir Du Puy).

Á síðasta fjórðungi 19. aldar var Ó, guð vors lands oft sungið opinberlega af söngfélögum. En það var ekki fyrr en á tímabilinu frá heimastjórn til fullveldis, milli 1904 og 1918, sem það ávann sér hefð sem þjóðsöngur. Við fullveldistökuna var það leikið sem þjóðsöngur Íslendinga og hefur verið það ætíð síðan. – Íslenzka ríkið varð eigandi höfundarréttar að laginu – sem áður hafði verið í eigu dansks útgáfufyrirtækis – árið 1948 og að ljóðinu 1949.

Sveinbjörn Sveinbjörnsson

Sveinbjörn Sveinbjörnsson. Heyra Þjóðsönginn.

Óneitanlega er samt annmarka á þessu að finna sem þjóðsöng. Íslendingar setja það að vísu lítt fyrir sig, að kvæðið er fremur sálmur en ættjarðarljóð. En lagið nær yfir svo vítt tónsvið, að ekki er á færi alls þorra manna að syngja það. Almenningur grípur því oft til annarra ættjarðarljóða til að minnast lands síns, og er þar á síðustu áratugum einkum að nefna „Íslandsvísur“ („Ég vil elska mitt land“) eftir Jón Trausta (skáldheiti Guðmundar Magnússonar, 1873-1918) undir lagi eftir séra Bjarna Þorsteinsson (1861-1938) og „Ísland ögrum skorið“, erindi úr kvæði eftir Eggert Ólafsson (1726-68), lagið eftir Sigvalda Kaldalóns (1881-1946). En hvorki hafa þessi lög né önnur þokað „Ó, guð vors lands“ úr þjóðsöngs-sessi.

Það hefur jafnvel hlotið þeim mun meiri helgi sem því hefur síður verið slitið út hversdagslega. Menn bera lotningu fyrir háleitum skáldskap kvæðisins – einkum fyrsta erindis, sem oftast er sungið eitt saman – og hið hátíðlega og hrífandi lag er Íslendingum hjartfólgið.

Eftir Steingrím J. Þorsteinsson. Áður birt í Ó, guð vors lands – þjóðsöngur Íslendinga útg. af forsætisráðuneyti 1957.

Bjarni Thorarensen

Bjarni Thorarensen.

Lofsöngur er sálmur eftir Matthías Jochumsson við lag Sveinbjörns Sveinbjörnssonar samið fyrir þjóðhátíð í tilefni af þúsund ára afmæli Íslandsbyggðar árið 1874. Lag og ljóð voru frumflutt af blönduðum kór við hátíðarguðsþjónustu sem hófst klukkan 10:30 í Dómkirkjunni í Reykjavík sunnudaginn 2. ágúst 1874 sem Lofsöngur í minningu Íslands þúsund ára og var konungur Danmerkur (og þar með konungur Íslands), Kristján IX, viðstaddur þá athöfn.

Ljóðið öðlaðist í kjölfar þess vinsældir meðal almennings sem þjóðsöngur og var flutt sem slíkt við fullveldistökuna 1918, sú staða ljóðs og lags var svo fest í „lög um þjóðsöng Íslendinga“, sem voru samþykkt á Alþingi 8. mars 1983 og tóku gildi 25. mars sama ár.

Lýðveldisstofnun

Við fullveldistökuna árið 1918 var kvæði Matthíasar í fyrsta sinn flutt sem eiginlegur þjóðsöngur Íslands.

Áður var vísan Eldgamla Ísafold eftir Bjarna Thorarensen við lagið God Save the Queen oft sungin sem einhvers konar þjóðsöngur, en það þótti ekki hæfa að notast við sama lag og aðrar þjóðir nota við þjóðsöng sinn.

Lofsöngurinn gengur oftast undir heitinu Ó, Guð vors lands, sem er fyrsta ljóðlína hans og er það meðal annars notað sem heiti ljóðsins í lögum um þjóðsönginn, en er þó skrifað þar án kommu á eftir ó-inu.

Saga

Jón Trausti

Jón Trausti.

Gefinn var út konungsúrskurður þann 8. september 1873 þess efnis að opinber guðsþjónusta skyldi haldin í öllum kirkjum landsins í tilefni 1000 ára afmæli Íslandsbyggðar sumarið 1874, og átti biskup Íslands samkvæmt honum að ákveða messudag og ræðutexta, Pétur Pétursson sem þá þjónaði sem biskup ákvað að messudagurinn skyldi vera 2. ágúst 1874 og að sálmurinn sem flytja skyldi væri 90. Davíðssálmur, 1.-4. og 12.-17. vers, og urðu þau vers innblástur Matthíasar Jochumssonar að Lofsöngnum:urðu þau vers innblástur Matthíasar Jochumssonar að lofsöngum [heimild vantar].

Drottinn, þú hefir verið oss athvarf
frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust
og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: “Hverfið aftur, þér mannanna börn!”
Því að þúsund ár eru í þínum augum
sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn,
já, eins og næturvaka.

Steingrímur J. Þorstei nsson

Steingrímur J. Þorsteinsson.

Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.
Snú þú aftur, Drottinn. Hversu lengi er þess að bíða,
að þú aumkist yfir þjóna þína?
Metta oss að morgni með miskunn þinni,
að vér megum fagna og gleðjast alla daga vora.
Veit oss gleði í stað daga þeirra, er þú hefir lægt oss,
ára þeirra, er vér höfum illt reynt.
Lát dáðir þínar birtast þjónum þínum
og dýrð þína börnum þeirra.
Hylli Drottins, Guðs vors, sé yfir oss,
styrk þú verk handa vorra.

Ljóðið var ort á Bretlandseyjum veturinn 1873-1874, fyrsta erindið á heimili Sveinbjörns Sveinbjörnssonar að London Street 15 í Edinborg árið 1873, þar sem Matthías dvaldi um hríð en annað og þriðja erindið í Lundúnum og segir Matthías svo frá yrkingu þess í sjálfsævisögu sinni, Sögukaflar af sjálfum mér, í kaflanum „Þriðja útförin mín“, undirkaflanum „Hjá kunningjum á Bretlandi“:

Gæsalappir

Brynjófur Tóbísarson

Brynjólfur Tóbísuarson.

“Ég bjó hjá Svb. Sveinbjörnsson tónskáldi, og vorum við skólabræður. Þá orti ég nokkur smákvæði, þar á meðal „Lýsti sól“, „Minni Ingólfs“ og þar bjó ég til byrjun lofsöngsins, „Ó, guð vors lands“. Sveinbjörn athugaði vandlega textann, en kvaðst ekki treysta sér til að búa til lag við; fór svo, að ég um veturinn sendi honum aftur og aftur eggjan og áskorun að reyna sig á sálminum. Og loks kom lagið um vorið og náði nauðlega heim um Þjóðhátíðina. Síðari versin tvö orti ég í Lundúnum, og hefur mér aldrei þótt mikið til þeirra koma.”
Brynjólfur Tóbíasson segir í bók sinni, Þjóðhátíðin 1874, þannig frá fyrsta flutningi Lofsöngsins: “Söngurinn í kirkjunni undir stjórn Péturs Guðjohnsen organleikara þótti áhrifamikill. Sálmar sem Helgi Hálfdánarson, síðar lektor, hafði ort við þetta tækifæri, voru sungnir. Og nú var í fyrsta sinn sunginn sálmur sr. Matthíasar Jochumssonar, er síðar var þjóðsöngur vor: Ó guð vors lands, undir hinu fagra lagi Sveinbjarnar Sveinbjörnssonar, tónskálds. Hafði lofsöngur þessi djúp áhrif á marga þá, er hlýddu.”

Umræður um að skipta um þjóðsöng

Reglulega hefur sú hugmynd komið upp í þjóðfélagsumræðunni að skipta um þjóðsöng og hafa þá oft verið nefnd lögin Ísland er land þitt eftir Magnús Þór Sigmundsson við texta Margrétar Jónsdóttur og ljóð Eggerts Ólafssonar Ísland ögrum skorið við lag Sigvalda Kaldalóns og Öxar við ána, lag Helga Helgasonar við ljóð Steingríms Thorsteinssonar. Þjóðsöngurinn hefur einkum verið gagnrýndur fyrir að þykja torsunginn; að vera of langur, en iðulega þarf að auka spilunarhraða lagsins eða stytta það, oftast niður í fyrsta erindið, við alþjóðlega kappleiki og aðrar þjóðlegar samkomur; fyrir að vera torskilinn og að lokum fyrir að fjalla aðallega um Guð kristinna manna.

Kristján IX

Skjaldarmerki Kristáns IX, á Alþingishúsinu.

Árið 1996 (121. löggjafarþing, 35. mál) var lögð fram þingsályktunartillaga um „endurskoðun á lögum um þjóðsöng Íslendinga“ og m.a. lagt til að taka upp annan þjóðsöng ásamt lofsöngnum og hafa þá tvo þjóðsöngva (líkt og t.d. Nýja Sjáland hefur gert), tillagan var felld.

Þann 8. nóvember 2004 (131. löggjafarþing, 279. mál) lögðu tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins úr Norðausturkjördæmi, Sigríður Ingvarsdóttir og Hilmar Gunnlaugsson fram þingsályktunartillögu þess efnis að kannað yrði hvort rétt væri að skipta um þjóðsöng, „með það fyrir augum að taka upp nýjan þjóðsöng sem væri auðveldari í flutningi og hentaði betur til almennrar notkunar, svo sem í skólum, á íþróttakappleikjum og við önnur svipuð tækifæri.“ Þau mæltu einkum með tveimur staðgenglum: ljóðinu Ísland ögrum skorið og laginu Ísland er land þitt. Fyrri umræða var haldin 16. nóvember 2004 og var ákveðið skv. atkvæðagreiðslu að halda henni áfram í síðari umræðu.

Lagaleg staða

Þjóðfáninn

Þjóðfáninn 17. júní.

„Lög um þjóðsöng Íslendinga“, þar sem söngurinn er nefndur „Ó Guð vors lands“, voru samþykkt á Alþingi 8. mars 1983 og tóku gildi 25. mars sama ár. Þar er m.a. staðhæft að hann sé eign íslensku þjóðarinnar, að hann skuli ekki flytja eða birta í annarri mynd en hinni upprunalegu, að eigi sé heimilt að nota hann í viðskipta- eða auglýsingaskyni, að forsætisráðherra skuli skera úr um allan ágreining um rétta notkun hans og að forsætisráðuneytið fari með umráð yfir útgáfurétti hans. Forsetinn hefur svo vald til að setja nánari ákvæði um notkun hans með forsetaúrskurði ef þörf þykir.

Brot á lögunum vörðuðu upprunalega varðhaldi allt að 2 árum, en því var breytt með lögum nr. 82, 16. júní 1998. Eftir að þau tóku gildi varðaði brot á lögum um þjóðsöng Íslendinga fangelsisvist allt að 2 árum.

Ljóðið
Lofsöngurinn samanstendur af þremur erindum og er yfirleitt látið nægja að syngja það fyrsta við opinberar samkomur.

1. erindi
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn!
Úr sólkerfum himnanna hnýta þér krans
þínir herskarar, tímanna safn.
Fyrir þér er einn dagur sem þúsund ár
og þúsund ár dagur, ei meir:
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.
Íslands þúsund ár,
Íslands þúsund ár,
eitt eilífðar smáblóm með titrandi tár,
sem tilbiður guð sinn og deyr.

2. erindi
Ó, guð, ó, guð! Vér föllum fram
og fórnum þér brennandi, brennandi sál,
guð faðir, vor drottinn frá kyni til kyns,
og vér kvökum vort helgasta mál.
Vér kvökum og þökkum í þúsund ár,
því þú ert vort einasta skjól.
Vér kvökum og þökkum með titrandi tár,
því þú tilbjóst vort forlagahjól.
Íslands þúsund ár
Íslands þúsund ár
voru morgunsins húmköldu, hrynjandi tár,
sem hitna við skínandi sól.

3. erindi
Ó, guð vors lands! Ó, lands vors guð!
Vér lifum sem blaktandi, blaktandi strá.
Vér deyjum, ef þú ert ei ljós það og líf,
sem að lyftir oss duftinu frá.
Ó, vert þú hvern morgun vort ljúfasta líf,
vor leiðtogi í daganna þraut
og á kvöldin vor himneska hvíld og vor hlíf
og vor hertogi á þjóðlífsins braut.
Íslands þúsund ár
Íslands þúsund ár
verði gróandi þjóðlíf með þverrandi tár,
sem þroskast á guðsríkis braut.

Heimildir:
-https://www.ruv.is/frettir/menning-og-daegurmal/2024-06-17-150-ar-fra-fyrstu-thjodhatid-a-islandi-415076
-Þjóðsöngurinn – https://www.internet.is/aegiroh/island.htm
-https://is.wikipedia.org/wiki/Lofs%C3%B6ngur

17. júní

17. júní 2024.