Forsaga Íslandsbyggðar
Í „Heima er bezt“ árið 1980 er fjallað um „Forsögu Íslandsbyggðar„:
„Hver fann Ísland? Þeirri spurningu svara víst flestir á þann veg að það hafi verið norskir víkingar og þeirra fyrstur hafi verið Garðar Svavarsson. Þrátt fyrir það að svo sé kennt í skólum er nær öruggt að sú hafi ekki verið reyndin, heldur hafi verið búið að finna Ísland löngu áður. Elstu heimildir um landafundi í Atlantshafi segja, að grískur landkönnuður að nafni Pytheas hafi siglt norður til lands sem nefnt er Thule (eða Týli) og nú heitir Ísland. Komu þeir fyrst við í Skotlandi og var þar tjáð að sex daga siglingu norður í hafi væri land, þannig að þeir hafa vitað um Ísland áður og því ljóst að þangað hafa menn farið áður en Pytheas fór sína ferð.
Pytheas var virtur maður, góður stærðfræðingur og stjörnuspekingur. Að dómi grískra vísindamanna á hans dögum var sá hluti þar sem Grikkland og nærliggjandi lönd lágu á hnettinum sá besti, en þar sunnan við væri svo heitt að klettar væru rauðglóandi en norðan við svo kalt að hafið væri botnfrosið og land og sjór þakið snjó svo þar væri ekkert líf. Sögðu þeir þessa íshellu taka við norðan Skotlands.

Thyle – Kort af Íslandi úr útgáfu á bókum þeirra Pompionusar Mela, De orbis situ, og Gajusar Juliusar Solinus, Polyhistor, á vegum Henri Petri árið 1576.
Þegar Pytheas kom heim úr för sinni og hafði skrifað ferðasögu sína, þótti hún svo ótrúleg að menn lögðu engan trúnað á hana, þar sem hún kollvarpaði öllum fyrri hugmyndum manna um staðhætti í norðri. Ferðabók Pytheasar er ekki lengur til, en til eru bækur sem voru skrifaðar um hana til að sýna fram á staðleysur hennar. Þótti þeim höfundum sorglegt að svo nafnfrægur vísindamaður sem Pytheas skyldi láta frá sér slíkar lygasögur, en það hefur sjálfsagt ekki hvarflað að þeim sem þetta skrifuðu að umsagnir þeirra yrðu dæmdar vitlausar en hugmyndir Pytheasar réttar.
Pytheas hafði sagt að þegar hann sigldi norður um sumarið, þá hafi dagarnir stöðugt lengst og loftið ekki kólnað að ráði. Sagðist hann einnig hafa séð um miðnætti þegar sólin nálgaðist ládautt hafið og síðan hækkað aftur á lofti. Þetta þoldu ekki samvísindamenn hans sem heima höfðu setið, þetta stóðst ekki útreikninga þeirra. Eftir að hafa komið við á Thule sigldi Pytheas enn norðar í 100 mílur og varð aldrei var við þann heljarkulda sem þar átti að vera samkvæmt kenningunum, þó kaldara væri þar vissulega. Lýsingar Pytheasar lifðu því í gegnum rit þeirra sem ætluðu að rífa niður hugmyndir hans.
Dr. Vilhjálmur Stefánsson hefur ritað mikið um ferðalag Pytheasar og segir hann, að á athugunum hans megi sjá, að hann hafi siglt inn á einhvem fjörð á Norðurlandi, líklega Eyjafjörð og allt inn í botn hans.
Öll er frásögnin um ferðalag Pytheasar merkileg, en þó finnst mér merkilegasti þáttur hennar þar sem fram kemur að sjómenn á Hjaltlandi fræddu hann um að langt norður í hafi væri landið Thule. Þeir hafa því sennilega siglt þangað eða vitað umeinhverja sdm það gerðu. Hverjir voru það?
Þessi gríski landkönnuður kom til Íslands 1200 árum áður en Ingólfur Arnarson nam land hér og settist að í Reykjavík, en síðan eru liðin rúm 1100 ár. Það eru því um 2300 ár síðan Pytheas kom hér á land.
Enn fleiri heimsóttu Ísland áður en norsku víkingarnir námu hér land. Um árið 300 eftir Krist kom hingað rómverskt herskip. Hefur dr. Kristján Eldjárn ritað grein um merkan fornleifafund á Austfjörðum, þar sem fundust þrír rómverskir koparpeningar sem slegnir hafa verið á árunum 270-305, hinn yngsti frá dögum Diocletians keisara.

Stórkostleg ævintýri voru gerð eftir að Brendan og munkar hans höfðu lokið ferð sinni um hið ókannaða Atlantshaf. Þessi síða er úr myndskreyttri útgáfu frá því um 1400.
Leiðir Kristján rök að því að mynt þessi hafi ekki borist með norsku landnemunum og ekki heldur með landnemum frá Írlandi og bresku eyjunum.
Engin veit nú um örlög þessa rómverska skips, né skipverja, um það veitir myntin engar upplýsingar. Við vitum aðeins að hingað kom rómverskt skip um árið 300 e.Kr. Þeirri spurningu er því ósvarað hvort fleiri skip hafa komið hingað frá Rómverjum, eða hvort þeir dvöldu eitthvað í landinu.
Við munum víst flest eftir írska húðbátnum Brendan sem til Íslands kom árið 1970, en það var bátur sem nokkrir írar sigldu til Nýfundnalands til að sanna að slíkt ferðalag hefði verið mögulegt. Var bátur þeirra gerður á svipaðan hátt og álitið er að bátar hafi verið gerðir á Írlandi í kring um 548. Brendan er nafn á írskum dýrlingi sem var mikill siglingakappi og eru til margar þjóðsögur um ferðir hans, bæði í bundnu og óbundnu máli.
Brendan lagði af stað í ferð sína frá Kerry árið 545 og fór m.a. til Íslands. Ætlaði hann að þar væri einsetumaður sem Pól hét og sigldu þeir inn krókóttan fjörð og tóku land. Fór Brendan í land til að leita að Pól og fann hann. Átti þessi einsetumaður að hafa verið á Íslandi um 60 ára skeið, og ræddi hann mikið við Brendan um siglingar og langa reynslu sína. Dvöldust Brendan og félagar um hríð á Íslandi.
Margt af því sem Brendan sá í kringum Ísland virtist ævintýralegt fyrir þá sem síðar heyrðu um það og spunnust því upp margar þjóðsögur um ferðalag þetta. Þeir munu t.d. hafa komið að borgarisjaka og lýsir Brendan honum þannig að hann væri eins og gerður úr kristal.
Almenningur var ekki lengi að spinna sögu um kristalshöll fljótandi út á reginhafi.
Þá er í sögu Brendans lýsing á eldgosi sem líkist lýsingu á gosi svipuðu Surtseyjargosinu: „Á áttunda degi komu þeir að ey nokkurri, sem var hrjóstrug og grýtt og öll þakin gjalli. Þar sást hvergi nokkurt tré og engan gróður var þar að sjá, en þar var hver eldsmiðjan við aðra. Þangað var að heyra drunur, miklar sem þrumur, og höggin þegar sleggjurnar skullu á steðjunum..“.
Litlu seinna sáu þeir einn af íbúunum. Hann var loðinn og hræðilegur og kolsvartur af eldi og reyk. Þegar hann sá þá Brendan, æpti hann hátt og hljóp þegar aftur inn í smiðjuna.
St. Brendan signdi sig þá og sagði við förunauta sína: „Aukið seglin og róið kappsamlegar, svo að við getum komist burt frá þessari eyju.“ Þetta heyrði villti maðurinn og kom nú þjótandi niður í fjöru. Var hann með töng mikla og hafði í henni gríðarlegan glóandi kökk og kastaði honum á eftir þeim Brendan. Kökkurinn fór fram hjá þeim og féll þar í sjóinn, en þar sem hann kom niður, laust upp miklum reykjar- og gufumekki, eins og af brennandi eldi.

Húðbáturinn Brendan undir stjórn Thors Hayerdahls sigldi í kjölfar írsku
munkanna, frá Írlandi til Nýfundnalands
um Ísland árið 1977. Árituð mynd af Thor Heyerdahl.
Þegar þeir voru komnir svo sem mílu vegar frá þessum stað, flykktust allir eyjarskeggjar niður í fjöru, og voru allir með fangið fullt af glóandi gjalli og köstuðu því hver af öðrum á eftir skipinu. Síðan hurfu þeir inn í smiðjur sínar og juku þá eldana svo óskaplega, að öll eyjan sýndist standa í báli, en sjórinn allt um kring bullaði og sauð og var gufan eins og upp úr katli, sem ákaft er kynt undir.
Allan daginn heyrðu þeir Brendan óhljóðin í eyjarskeggjum, jafnvel eftir að eyjan var horfin þeim sýnum, en viðbjóðslegur fnykur fylgdi þeim langar leiðir.“
Það þarf víst ekki að segja þeim, sem eldgos hafa séð, að margar kynjamyndir má sjá i gosmekkinum. Á tíma Brendan var það trú manna að helvíti væri í iðrum jarðar og þaðan kæmu eldgos og jarðskjálftar. Það er því skiljanlegt að munkarnir hafi þóst sjá í mekkinum djöfla.
Af þessari stuttu upprifjun á „landafundum“ Islands má sjá að hingað komu allmargir og búast má við að fleiri hafi þeir verið en hér eru upp taldir. Hér er t.d. ekki sagt frá byggð papa hér á landi, sem telja má fullvissu fyrir að verið hafi. Ekki voru allar ferðir til Íslands fyrr á öldum færðar í letur, og þó svo hefði verið, þá eru þær frásagnir glataðar.“ — GM
Heimildir:
-Heima er bezt, nr. 10 (01.10.1980), Forsaga Íslandsbyggðar, Guðbrandur Magnússon, bls. 356-357.
-Lemúrinn, 13. árg. 3.11.2013, Hið dularfulla Frísland: Var stór eyja við hlið Íslands, Helgi Rafn Guðmundsson.

Ítalskt kort Abrahams Ortelíusar frá sextándu öld sýnir Thule og stærðar eyju skammt fyrir sunnan Ísland, sem merkt var Frísland. Það var upphafið að löngum misskilningi kortagerðarmanna víða um Evrópu. Nær öll landakort frá 1560-1660 sýna eyjuna, sem var auðvitað ekki til.
Eyjan ber ólíkar myndir heitisins Frísland eftir tungumálum, stað og tíma og má þar nefna Frischlant, Friesland, Freezeland, Frislandia og Fixland. Talið er að menn hafi gjarnan ruglað Íslandi saman við Frísland og þaðan sé enska myndin Freezeland komin.