Í „Íslandssögu til okkar daga“ eftir þá Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson er m.a. fjallað um landnám Íslands.
Landnám og menjar
Ísland var nær ósnortið af mönnum og grasbítum, þegar víkinga bar þar að strönd, svo að landnámssaga þess er skráð mannvistarleifum út um holt og hæðir. Jarðvegsmyndun hefur verið ör sökum veðrunar og öskufalls í eldgosum, en á síðustu öldum hefur gosið um fimmta hvert ár einhvers staðar á landinu. Eldsumbrot hafa skilið eftir sig greinanleg lög í jarðveginum. Gjóskulögin skipta jarðveginum þannig eftir aldri og tímasetja fróðleik um lífríkið á liðnum öldum.
Íslandskort frá því um 1000.
Allmikið eldgos hefur orðið við Vatnaöldur um 900 og skilið eftir sig í jarðvegi svonefnt landnámslag. (Eftir sama gos má sjá ummerki í ísnum á Grænlandsjökli, sem færa má með nokkurri vissu til ársins 898.) Þegar landnámslagið féll, hefur landið verið lítt byggt og frumgróður þess ríkjandi, en hann breyttist mjög við búsetu manna; birkiskógur hvarf, en bygg, bruggjurtir, arfi og ýmsar aðrar plöntur námu land; og gróður eyddist á jaðarsvæðum, þar sem hann átti erfitt uppdráttar.
Fornmannagrafir og rústir mannvirkja benda einnig til þess að fáir hafi siglt til Islands fyrr en um 900, enda urðu skip í Norðvestur-Evrópu ekki almennilega hæf til slíkra ferða fyrr en á 9. öld, og fáir áttu erindi til Íslands fyrr en á síðasta fjórðungi aldarinnar, þegar víkingar fóru hrakfarir á Bretlandseyjum. Þá urðu ýmsir víkingar að sætta sig við það að hlaupa eftir sauðum og strita við búskap, og landnámsöld hófst á Íslandi.
Hin langa sigling út til Íslands skolaði ránsandann úr víkingunum. Þeir komu fámennir, 20-30 manns á hverju skipi, og héldu sjaldan samfloti á langri siglingu. Þegar þeir náðu höfn á Íslandi, urðu þeir að vera sæmilega prúðir í framgöngu, ef þeim átti að verða líft í landinu.
Landnámið var friðsamlegt; landið er stórt og skiptist í héruð af fljótum og fjallgörðum, svo að menn þurftu ekki að troða hver öðrum um tær fyrstu áratugina. Hvergi er vitað um nein hernaðarmannvirki, hvorki við hafnir, ferjustaði né einstaka bæi, fyrr en löngu síðar.
Heiðnar grafir, um 300 talsins, hafa fornleifafræðingar kannað hér á landi, og teljast þær frá 10. öld, nema gripir úr einni gætu verið frá því um 850 og úr annarri frá upphafi 11. aldar.
Hinir framliðnu hafa verið heldur lágvaxið fólk, meðalhæð karla um 170 sentimetrar (169 eða 171 eftir því hvaða stöðlum er beitt) og kvenna 155 sm eða rúmlega það. Engar stórhöfðingjagrafir og engir kristnir grafreitir hafa fundist á Íslandi frá 10. öld. Grafirnar benda til þess að á fyrsta stigi byggðarinnar hafi íburðarlítill efnahagsjöfnuður ríkt í landinu eins og jafnan í nýbyggðum. Heiðnar grafir á Íslandi eru sem heild líkastar norskum gröfum af fátæklegri gerð frá sama tíma og mundu ekki þykja framandlegar, þótt þær hefðu fundist þar í landi.
Í Eyjafirði og Rangárvallasýslu hafa fundist flestar heiðnar grafir, en mjög fáar í sumum héruðum öðrum. í Skaftafellssýslum og víðar hafa eldgos, stórflóð, sandfok og aðrar hamfarir eytt gröfum eins og öðrum mannanna verkum. Það á þó ekki sérstaklega við um Borgarfjörð eða Breiðafjörð, einhver bestu héruð landsins, þar sem heiðin kuml hafa bæði fundist fá og fátækleg. Heiðnin virðist ekki hafa staðið djúpum rótum víða vestan lands, og þar hafa menn líklega keppst við að smala forfeðrum sínum í kristinna manna reiti eftir kristnitöku, eða gert forna kumlateiga að kirkjugörðum þar sem þeir voru nálægt bæjum. Slíkt kann að hafa verið algengt hér, þar sem svo lítil átök urðu milli kristni og heiðni.
Byggð og nöfn
Skáli frá því um 1000.
Örnefni um gjörvallt Ísland vitna um norrænan uppruna þjóðarinnar. Nokkur kenna staði við heiðin goð, flest við Þór: Þórs-höfn, -mörk og -nes. Njarðvíkur eru heiti á fengsælum útgerðarstöðum, og Freysnes bendir til þess að frjósemisguðinn Freyr hafi í árdaga byggðar átt sér vini á Íslandi.
Allmörg örnefni benda þó til Bretlandseyja. Af keltneskum stofni eru bæjarnöfn kennd við Beccan, Ciaran, Nial og Patric: Bekansstaðir, Kjaransvík, Njálsstaðir; en Patreksfjörður á að bera nafn af því að landnámsmaður frá Suðureyjum hét á heilagan Patrek í hafvillu. Valþjófsstaður ber heiti af engilsaxnesku mannsnafni, Walþeow; en Trostansfjörður vísar á mannsnafnið Dorstan (sbr. Tristan), sem er komið úr tungu Pikta, frumbyggja Skotlands. Dímon er heiti á nokkrum fellum og telst dregið af Dímun (tvífell). Írafell, Katanes, Kumbaravogur og Bretavatn eru staðir kenndir við fólk frá Írlandi, Katanesi á Skotlandi (Caithness), Kumbaralandi (Cumberland) og Bretlandi. En fróðlegt væri að vita hvort Breta- og Kumbaranöfnin festust við staði á Íslandi á 10. eða 15. öld.
Fólk af ýmsu þjóðerni hefur sest að hér á landi í árdaga, en þess ber að gæta að norrænir menn á Bretlandseyjum mægðust þar við heimafólk. Þannig komust írskar nafngiftir inn í norrænar ættir, og sú blóðblöndun, sem mannerfðafræðin vitnar um, gat bæði gerst fyrir og eftir landnám.
Í íslenskum bæjarnöfnum felst ýmis fróðleikur um sögu bæjanna. Þau skiptast m.a. í náttúrunöfn og stöðunöfn. Náttúrunöfnin eru dregin af einkennum landslagsins umhverfis bæinn eins og Hólar og Skálholt; Reykjavík var nafn á bæ, sem stóð við vík sem rauk úr. Skarð var heiti á stórbýlum undir fjalli, bæði við Breiðafjörð, í Landsveit og víðar, en -vellir eru aðsópsmiklar jarðir víða um land, svo sem Möðruvellir í Eyjafirði og Stóruvellir á Landi. Þessi nöfn, og fjölmörg önnur sem vísa til landslags (Ás, Múli) eða annarra staðhátta (Ferja, Höfn), bera ekkert aldursmark, enda merking þeirra óbreytt allt frá landnámsöld; af þeim, eða samsetningum þeirra, verður fátt ráðið um aldur jarðanna.
Stöðunöfnin lúta að stöðu bæjarins í sveitinni. Allt til 1800 var hér að störfum frumstætt bændasamfélag, sem baslaði einkum við kvikfjárrækt og barðist við þrotlitla efnahagskreppu eða stóð í návígi við matvælaskort og hungurdauða. Seint á 10. öld tóku landþrengsli að hrjá það og leiddu til Grænlandsferða, en engra breytinga. A 12. öld óx fiskmarkaðurinn innanlands sökum kröfu kirkjunnar um fiskát á föstum. Þá óx byggð við góðar hafnir, sem lágu að fengsælum miðum; þar fjölgaði kotum og smábýlum, sem enduðu mörg nafn sitt á -kot, -gerði, -sel, -búð. Þau eru frá yngra skeiði byggðarsögunnar en náttúrunöfnin, sem geta verið allt frá landnámsöld. Kot er smábýli, sem ýmist er reist í landi eyðijarðar eða byggt úr landi stórbýlis og dregur nafn af því eða landslagi: Akrakot, Klettakot, Urriðakot. Gerði merkir girðingu eða umgirt svæði. Innan þess hafa risið kofar, og þar hafa sest að menn, sem gættu akra og húsdýra; víða urðu þar til hjáleigur og sjálfstæð heimili, og jafnvel höfuðból eins og Hraungerði í Flóa í Árnessýslu, en þar í sveit er hraun náttúrunafn.
Sagnir um upphaf byggðar
Rúnasteinn frá Gotlandi.
Fornleifafræðin, íslenskan, örnefni og jarðvegsrannsóknir eru samkvæða um það að framtakssamt fólk hafi flutt búferlum frá Noregi og Bretlandseyjum til Íslands seint á 9. öld og fyrri hluta 10. aldar, en áður var það eyðieyja. Þar varð til ríkisvaldslaust bændasamfélag, sem sýslaði einkum við kýr, hross og sauði og ræktaði með erfiði bygg til bjórgerðar í veðursælustu sveitunum sunnanlands og vestan. Húsakynni þessa afreksfólks, sem tengdi Atlantshafið við sögusvið Evrópu, eru dável kunn, áhöld þess og farartæki, en einstaklingar birtast á vettvangi í rituðum heimildum.
Nafnið Ísland birtist á rúnaristu frá Timans á Gotlandi sem telst frá fyrri hluta 11. aldar. Ristan segir að félagarnir Ormiga og Úlfar hafi komið til Grikklands, Jórsala, Íslands og Serklands (en svo nefndust lönd Araba). Menn voru orðnir víðförulir í þann tíð. Á engilsaxnesku landabréfi frá svipuðum tíma er dregin aflöng eyja norður af Noregi og nefnd Ísland. Þá er Íslendinga getið í páfabréfum allt frá 1022 og riti Adams af Brimum um sögu Hamborgarbiskupa, sem lokið var skömmu eftir 1070.
Íslendingar komust á atburðaskrár í Evrópu á 11. öld, en 9. og 10. öldin er forsögulegur tími íslenskrar sögu. Í Íslendingabók leitast fyrsti íslenski sagnaritarinn, Ari fróði Þorgilsson (1068-1148), við að setja íslenskri og norrænni sögu kristið tímatal. Honum veittist það auðvelt um sína daga, en málið varð þjóðsagnakennt, þegar kom aftur á 10. öld. Hann segir: Ísland byggðist fyrst úr Noregi . . . í þann tíð . . . er Ívar Ragnarssonur loðbrókar lét drepa Eadmund hinn helga Englakonung. En það var sjö tigum vetra hins níunda hundraðs eftir burð Krists, að því er ritið er í sögu hans. Ingólfur hét maður norrænn, er sannliga er sagt að færi fyrst þaðan til Íslands, þá er Haraldur hinn hárfagri var sextán vetra gamall, en í annað sinn fáum vetrum síðar. Hann byggði suður í Reykjarvík. Íslendingabók (íslenzk fornrit I, 1968), bls. 4-5. Þetta var þjóðsaga, en við vitum ekki betur. Ari fullyrðir, „að á sex tigum vetra yrði Ísland albyggt, svo að eigi væri meir síðan“. Þessi 60 ár (870-930) hafa verið nefnd landnámstíð í íslenskri sögu, en menn hafa eflaust flust til landsins eftir þann tíma.
Ingólfur í Landnámabók.
Landnáma
Landnáma, safnrit um 430 landnámsmenn, forfeður þeirra og afkomendur, hefur orðið til að stofni fyrir 1100. Seint á 11. öld var mikið skipulagsstarf unnið í landinu, eignakönnun gerð og menn skyldaðir til að tíunda eignir sínar; þá hefur verið skráður í ýmsum héruðum fróðleikur um landnám og ættir, sem síðar var safnað á bækur. Landnámsmannatalið hvílir á arfsögnum, lærdómi og skáldskap. Þar bregður m.a. fyrir þekkingu á Gamla testamentinu. Landnámssagnir voru hagnýt fræði, því að í landnáminu fólst upphaf eignarréttarins, en söfnun þeirra á bók var einnig metnaðarmál, og allt fram um 1300 voru samdar nýjar gerðir Landnámu til styrktar hefðar- og valdsmönnum. Í einni gerðinni (Melabók) segir í eftirmála, að „vér þykjumst heldur svara kunna útlendum mönnum, þá er þeir bregða oss því að vér séim komnir af þrælum eða illlmennum, ef vér vitum víst vorar kynferðir sannar“.
Þegar Landnáma var upphaflega skráð, vissu menn fátt með sannindum um atburði á 9. og 10. öld og urðu ósammála um margt og þurftu að skrifa því meira sem þekkingin var brotakenndari. Í tvær aldir sýsluðu helstu höfðingjaættirnar við það að eignast Landnámu, en þá urðu skjöl og ríkisvald öruggari bakhjarl í valdabaráttunni en vafasamar sagnir um landnám.
Ættvísi var mikil hagsmunafræði í ríkisvaldslausu landi. Hver ættborinn maður varð að þekkja sem gerst ætt sína og geta svarið af sér þræla og illmenni eða sakafólk, en skyldur og réttindi gátu erfst allt í 5. lið. Allt frá upphafi byggðar hafa íslendingar þekkt grundvallarhugmyndir óðalsréttar, enda lögfestu þeir snemma að aðalbólin eða stærstu jarðirnar skyldu ganga óskiptar beinum erfðum í karllegg ættarinnar.
Hafvillusögn hefur gengið í minni manna á 12. öld, en samkvæmt henni voru ónafngreindir farmenn á leið frá Noregi til Færeyja, þegar þá hrakti útnorður í haf, uns þeir tóku land við Austfirði. Þetta gerðist fyrir för Ingólfs. í annarri gerð sögunnar var þarna á ferð færeyskur maður, Naddodur víkingur. Einhverra hluta vegna átti Naddodur síðar andstreymt í hópi landkönnuða, og sænskur víkingur búsettur á Sjálandi, Garðar Svavarsson, tróð sér fram fyrir hann í heimildum. Garðar á að hafa siglt í kringum landið og haft vetursetu norður á Húsavík við Skjálfanda. Eftir för hans nefndist landið Garðarshólmur að austnorrænum hætti, sbr. Borgundarhólmur. Þrír förunautar Garðars eiga að hafa orðið eftir, þegar hann sigldi burt, og verið fyrsta norræna fólkið, sem settist að á landinu. Af þeim er Náttfari nafngreindur, en með honum þræll og ambátt. Síðar sigldi Uni, sonur Garðars, til Íslands og fór þar erindum Haralds hárfagra að sögn. Hann var drepinn vegna kvennamála, sem urðu efni í Íslendingasögu, sem er glötuð, en hefur í eina tíð stuðlað að sögnum um landkönnuðinn Garðar Svavarsson.
Flóki Vilgerðarson, Hrafna-Flóki, nefndist norskur víkingur. Hann notaði hrafna sem siglingatæki eins og Nói gamli dúfur. Flóki telst hafa siglt til landsins með búfé og skyldulið og ætlaði að setjast þar að. Honum láðist að afla vetrarforða, svo að búsmalinn horféll vorið eftir. Þá flýði Flóki til Noregs og gaf landinu hið kaldranalega nafn Ísland. Flóki á síðar að hafa sest að norður í Fljótum.
Forsendur landnámsins
Heiðin gröf.
Á síðasta fjórðungi 9. aldar vegnaði víkingum báglega á Bretlandseyjum og í Noregi. Þá minntust margir þess að hafa heyrt getið um eyju norðvestur í hafi lítt byggða. Óbyggt land norður í Dumbshafi skorti aðdráttarafl hjá fólki, sem átti sér einhverra úrkosta völ. Hér var engu að ræna, engir bændur til að skattleggja og engin verðmæti að finna til útflutnings, hvorki grávöru, tannvöru né dýra málma. Hver sem settist hér að varð að lifa á veiðum, sölvum og fjallagrösum fyrstu árin, meðan búfénu, sem menn urðu að flytja með sér, fjölgaði svo, að einhverja nyt væri af því að hafa. Haffært skip hefur verið milljóna virði á landnámsöld, á við nokkrar bújarðir. Á Íslandi var þá ekki annað að hafa en kjarri vaxið land, gott til beitar, og nokkur hlunnindi í veiðum og viðarreka. Ef skipið dýra átti ekki að fúna í naustum, hafa menn orðið að sigla austur um haf með grjót í kjölfestu fyrstu áratugi landsbyggðarinnar. Landnám á Íslandi var fjárfesting, sem ekki var á færi annarra en milljónunga, en þeir hafa hikað lengi við leiðangurinn, af því að þeir eygðu litla von til þess að hann borgaði sig.
Líklega hefur einhverjum norskum farmönnum hugkvæmst, þegar þrengja tók að þeim á Bretlandseyjum seint á 9. öld, að gera út á Ísland, sigla þangað með fólk og fénað til þess að koma þar upp byggð og markaði. Auðvitað hafa þeir tekið talsvert fyrir snúð sinn, svo að öreigar og þrælar hafa ekki fengið far, nema þrælahaldarar hafi fylgt.
Ungir bændasynir og vonsviknir víkingar hafa verið stofninn í landnámsliðinu. Landnámuhöfundar um 1100 hafa ekki talið, að það hafi þótt nein hetjudáð á víkingaöld að sigla til íslands og hlaupa þar eftir búsmala. Rögnvaldur Mærajarl er látinn segja við Hrollaug son sinn, landnámsmann í Hornafirði: „Hefir þú það skap, er engin styrjöld fylgir. Munu vegir þínir liggja til Íslands.“ Svo kom að vegir margra lágu til íslands, en þar urðu menn lengi að sætta sig við að strita í sveita síns andlits. Höfðingjar uxu fyrst úr grasi á Íslandi á 10. öld, og seint á þeirri 11. urðu til á vegum kirkjunnar fyrstu stórhöfðingjarnir, menn sem höfðu milljónatekjur og fundu fremur til sín sem aðalsmenn en bændur.
Landnemarnir sigldu til Íslands í dálitlum hópum, nokkrir tugir manna, ein eða tvær skipshafnir undir forystu karls eða konu, og reyndu að hafa samflot og samstarf um landnám og helguðu sér til eignar landsvæði, sem skiptist í jarðir, þegar búsmalinn óx. Landnemahóparnir voru stéttskiptir, greindust í forystusveit, fylgdarlið og þræla. Forystusveitin hlaut jarðnæðið, varð bændastétt, og á hennar ábyrgð var búskapurinn rekinn. Frumbyggjarnir þurftu að reisa allt frá grunni og lifa nær eingöngu á veiðum, fjörugróðri og grösum, meðan búféð var fátt, en það gekk ört fram, eins og sagnir Landnámu herma. Kýrin Brynja „gekk þar úti með fjóra tigu nauta, og voru öll frá henni kominn,“ þegar hún fannst í Brynjudal í Hvalfjarðarbotni. Um Hafur-Björn, landnámsmann í Grindavík, segir, að fé hans „tímgaðist svo skjótt . . . að hann varð skjótt vellauðigur“. Landnámið í Grindavík varð ekki fyrr en undir 940, því að Hafur-Björn og bræður hans höfðu flúið þangað undan gosi í Eldgjá 934.
Íslendingar hafa snemma orðið ríkir af ull og fundið góðan markað fyrir ullarvörur erlendis, því að klæði virðast hafa verið dýr á 10. öld. Um 1100 var eyrir silfurs (um 27 g) jafnmikils virði og 48 álnir (alin = 49 sm) vaðmáls af einfaldri gerð. En sex álnir vaðmáls hétu samt „eyrir“, og hafa menn skilið það svo, að á 10. öld hafi vaðmálseyririnn verið jafnmikils virði og eyrir silfurs. Silfur hefur verið ódýrt á Norðurlöndum á víkingaöld sökum framboðs, en vaðmál dýrt; íslenskt klæði hefur þá verið vel þegin vara og íslendingar orðið iðnaðarþjóð þegar á 10. öld. Pá hafa konur verið settar við tóvinnuna, sem var mikið ánauðarverk.
Skáli.
Bændabyggð
Þegar landi var náð urðu landnemarnir að reisa sér skýli yfir fólk og fénað, og skýlin urðu að bæjum ef búsetan varð varanleg. Sumir landnemar eiga að hafa varpað öndvegissúlum sínum fyrir borð, þegar þeir sáu landið rísa úr sæ, og numið þar land sem þær rak á fjöru. Þetta er þjóðsaga. A fjörum lágu víðast hrannir af rekaviði, svo að óhugsandi hefur verið að finna þar einstaka rekabúta.
Byggðin á Íslandi hefur hvergi verið mjög þétt. Hvergi er neitt yfirburðahérað, sem skákar öllum öðrum að landkostum. Við skástu landbúnaðarhéruðin hafa náttúruöflin lítt lagt sig fram að hlaða upp sæmilegar hafnir. Landkostir á Islandi buðu höfðingjum hvergi einveldi í heilum landshluta sem hefði hernaðarlega yfirburði yfir aðra. Menn gátu farið í snöggar árásarferðir hvert á land sem var, en til að hersitja héruð skorti matföng. Með tímanum varð hvert hérað yfirleitt háð einum höfðingja, heimamanni að uppruna, en lítið um landvinninga utanheimahéraðs.
Á fyrstu öldum byggðarinnar teygði hún sig miklu lengra inn í landið og hærra en síðar varð. Á Mývatnsöræfum suður af Sellandafjalli var búið á 10. öld í um 460 m hæð yfir sjávarmál, og einnig á Hraunþúfuklaustri í 410 m hæð og 20 km norður af Hofsjökli. Á Hrunamannaafrétti (350 m y.s.) og í Þjórsárdal tók af byggð í Heklugosi 1104, en í Hrafnkelsdal á Austurlandi (420 m y.s.) hafði hana eytt nokkru áður.
Margt bendir til þess að fólksfjölgun hafi verið mjög ör á fyrstu áratugum byggðarinnar og landið verið numið á tiltölulega skömmum tíma um 900. Það liggur á mörkum hins byggilega heims, svo að hálendisbyggðin hefur oft orðið skammæ, gróður ekki þolað ágang búfjár og breyst víða í auðn. Sagt er að búsmali hafi snemma leitað til fjalla og fólk fylgt á eftir, en ull hélst betur á fé ofan skógarmarka. Undan vetrarríkinu hörfuðu menn víða aftur niður fyrir láglendismörkin, og meginhluti byggðarinnar hefur ávallt staðið neðan 200 m hæðarlínu.
Á landnámstíð er talið að um 40% landsins hafi verið þakin gróðri, en í dag um 20%. Lætur þá nærri, að á hverjum degi í „íslands þúsund ár“ hafi fimm til sex hektarar gróðurlendis breyst í auðn. Skógar eyddust þó örar en graslendið. Meðan ísland var „viði vaxið á milli fjalls og fjöru“, ætla menn að um 20% landsins hafi verið skógur og kjarrlendi en nú aðeins 1%, og hefur mikið af skóglendinu eyðst á fyrstu öldum byggðar. Margt gat orðið gróðrinum að tjóni: uppblástur (t.d. á Rangárvöllum og víðar), flóð bæði í sjó og vötnum (m.a. á Markarfljótsaurum og undir Eyjafjöllum, Stóraborg), eldgos (Hekla, Skaftáreldar, hraun á Reykjanesskaga o.v.), framhlaup jökla (í Öræfum og norður á Ströndum), skriðuföll (Skriða í Hörgárdal 1390, Skíðastaðaskriða 1545 o.fl.), og jarðskjálftar hafa hrist gróðurþekjuna af bröttum fjöllum. Frumorsök gróðureyðingarinnar hefur þó oftast verið ofbeit og harðindi, sem hafa fylgt miklum hafís við strendur landsins.
Veðráttan hefur ávallt verið dálitlum breytingum háð, og lítils háttar lækkun á meðalhita ársins hefur oft skipt sköpum fyrir afkomu fólks. Margs konar heimildir veita nokkra hugmynd um árferði á liðnum öldum. Vitneskja um hafískomur og hallæri bendir t.d. til kalds loftslags, og frjókorn í jörðu veita upplýsingar um gróðurbreytingar. Þá má styðjast við erlendar rannsóknir, einkum á ískjörnum úr Grænlandsjökli. Allt ber að sama brunni um það að loftslag hafi verið milt fyrstu aldir Íslandsbyggðar, e.t.v. ámóta og það hefur best orðið á 20. öld, en á 12. og 13. öld hafi kólnað tilfinnanlega.
Uppdráttur af Þingvöllum frá 18. öld.
Harðæri hafa jafnan verið tímabundin, og menn hafa keppt að því í búskap sínum að sigrast á þeim, koma sér í góðærum upp birgðum til mögru áranna. Bændur á vildarjörðum björguðust jafnan bærilega, en harðærin fóru í manngreinarálit og léku kotunga hart, og á jaðarsvæðum byggðarinnar var hættast við að fólk félli úr harðrétti.
Bærinn, heimili bóndans, var neyslueining samfélagsins á Íslandi, og mannfjöldi á heimilinu ákvarðaðist að verulegu leyti af stærð jarðarinnar og kostum til kvikfjárræktar, hve stórum bústofni hún gat framfleytt, aðallega af sauðfé og nautgripum. Öll meginhéruð landsins voru svipuðum kostum búin, svo að þar risu alls staðar stórbýli með tilheyrandi leigujörðum. Korn var ræktað með erfiði sunnan lands og vestan og kostaði þyngd sína í smjöri, en kornyrkja hefur þó verið allmikilvæg búgrein í einstökum sveitum og kornið einkum notað til ölgerðar.
Landnámshöfðingjar
Sagnir herma að höfðingjar, sem réðu fyrir traustu liði frænda og bandamanna, hafi staðið fyrir landnáminu. Margir þeirra voru mótaðir af stórbúskap í Noregi, en fóru þaðan af því að tvísýnt var orðið um höfðingsskapinn. Hagsæld þeirra á Íslandi hvíldi á mannafla og landnýtingu. Leigubúskapur hefur að líkindum hafist strax og kvikfé og mannfjöldi leyfði.
Suðvestanvert Ísland hefur jafnan verið kjarnasvæði til búskapar og stjórnsýslu. Þar fann Ingólfur allsnægtaborð á íslenskan mælikvarða og tók sér búfestu í Reykjavík. Þar var góð höfn og skipaleið með landi fram sem tengdi byggðina við grannsveitir. Undirlendi var nóg á nesinu, laxár og veiðivötn skammt undan, selalátur og gnægð fiskjar uppi í landsteinum. Eyjar voru fyrir landi til margra hluta nytsamlegar: Viðey og Engey, varpeyjarnar Lundey og Þerney, og Akurey, sjálfvarin fyrir ágangi búfjár, þar sem hægt var að rækta bygg til ölgerðar.
Hvaðan sem landnemarnir voru kynjaðir, voru þeir allir mótaðir af háttum manna á víkingaöld: metnaðarsýki, þrælahaldi og hetjudýrkun, eins og lýst er í Íslendingasögum.
Heimild:
-Íslandssaga til okkar daga, Björn Þorsteinsson og Bergsteinn Jónsson, Sögufélag, Reykjavík 1991, bls. 17-29.
Þingvellir 1866.