Skarfur

Fræðiheiti skarfs er Phalacrocoracidae. Hann er af ætt pelíkanfugla sem telur um 40 tegundir um allan heim nema á eyjum í miðju Kyrrahafi. Skarfar eru sjófuglar sem halda sig við ströndina eða á vötnum nálægt sjó. Flestir skarfar eru dökkleitir eða svartir, með langan mjóan gogg með krók á endanum. Skarfar lifa á fiski og kafa eftir æti. Þeir verpa í varpnýlendum á skerjum og í klettum.
Skarfar eru stórir dökkir sjófuglar. Hérlendis eru tvær skarfategundir, dílaskarfur (Phalacrocorax carbo) og toppskarfur ( P.aristotelis). Þeir eru báðir staðfuglar og er varpútbreiðsla beggja að mestu bundin við Faxaflóa og Breiðafjörð.

Dílaskarfur

Skarfur

Dílaskarfur.

Dílaskarfurinn er stóri bróðir toppskarfsins. Fullorðinn dílaskarfur í varpbúningi, frá janúar til júní, er með hvíta kverk og vanga. Hann er oft með hvíta fjaðrajaðra annars staðar á hausnum og ýfðar hnakkafjaðrir, þannig að höfuðið virðist kantað að aftan. Dílaskarfur fær nafnið af stórum, hvítum díl, sem hann ber á lærunum í varpskrúðanum. Aðrir hlutar fuglsins eru blásvartir og glansandi. Í vetrarbúningi, frá júlí fram í desember, er hann allur litdaufari og tapar hvíta litnum, nema á kverk. Ungfugl á fyrsta ári er brúnn að ofan og ljós að neðan, frá höfði og niður á kvið, dökknar síðan smátt og smátt og fær fullorðinsbúning á þriðja ári. Goggurinn er dökkur, en gulur við ræturnar, krókboginn í oddinn, gulur fiðurlaus blettur er við goggrót. Fætur eru svartir, augu blágræn.
Dílaskarfur flýgur nokkuð hratt og er háfleygari en toppskarfur. Torvelt getur reynst að greina skarfana að á færi. Dílaskarfur teygir hálsinn fram á flugi og veit höfuðið lítið eitt upp á við. Þegar hann syndir eða situr veit goggurinn upp. Situr oft með þanda vængi eftir ætisleit og blakar þeim í sífellu til að þurrka þá, „messar“. Dílaskarfur styggur og var um sig á varpstöðvum og er hann alger andstæða „litla bróður“, toppskarfsins.

Hópar fljúga venjulega oddaflug. Oft má sjá skarfa á leið til eða frá náttstað í eyjunum í Kollafirði og fæðuslóða í Hafnarfirði og á Álftanesi fljúga yfir Seltjarnarnes eða Vesturbæ Reykjavíkur kvölds og morgna á veturna.

Skarfar tilheyra ættbálki árfætla eða pelíkanfugla og eru skyldir súlum, pelíkönum, spírum, skutlum og freigátufuglum.

Skarfur

Skarfur á kolaveiðum.

Dílaskarfur lifir á fiski og er slyngur kafari, fangar helst botnfisk líkt og kola og marhnút, einnig smáufsa, smáþorsk, hrognkelsi o.fl. Kafar með því að nota fæturna, etur stærri fisk á yfirborði en smærri fisk í kafi.

Dílaskarfur verpur í byggðum, aðallega á flötum, gróðursnauðum skerjum, stundum á stöpum. Hreiðrið er hraukur úr þangi, fóðrað með fjöðrum og grasi. Dvelur á veturna með ströndum fram en leitar stundum upp á ferskvatn, ár og vötn og skarfar sjást jafnvel á vötnum á hálendinu. Nokkrir tugir halda oft til á Þingvallavatni. Toppskarfurinn er aftur á megin eindreginn sjófugl.

Aðalvarpstöðvar dílaskarfs er norðanverður Faxaflói og Breiðafjörður. Áður varp hann allvíða á Norðurlandi og jafnvel víðar. Varpútbreiðslan dróst saman snemma á síðustu öld, hann hvarf þá frá Norðurlandi og öðrum landshlutum nema Vesturlandi. Lágmark var í stofninum 1993, en eftir það hefur honum fjölgað jafnt og þétt. Hann er nú farinn að verpa á Ströndum og fyrir skömmu fannst varp í eyju í Djúpavogshreppi. Eftir varptímann dreifast skarfarnir um land allt.

Dílaskarfur er algengur varpfugl víða um heim, bæði á norður- og suðurhveli jarðar. Erlendis verpur hann gjarnan í trjám og jafnvel gömlum háspennumöstrum, nærri fiskiríkum vötnum inntil landsins.

Lítil þjóðtrú fylgir dílaskarfinum, þó þótti fuglinn gefa mönnum vísbendingu um fisk í sjó. Hann var líka veðurviti og réðu menn í veður af flugi hans eða hátterni.

Á flæðiskeri (lokaerindi)
Yfir skerið skella bárur, skrokkur titrar.
Hátt mót vindi kría kallar:
“Krí nú skolast bjargir allar”

Dílaskarfur skeri framhjá skríður öldu.
Kallar: “vinur komdu fljótur
köfum saman – gamli þrjótur”.

Nú syndir hjá hin sæmilega síldartorfa
Sælt er líf og fengsæll flóinn.
Ég flaksa vængjum – stekk í sjóinn. – HBJ.

Skarfur

Toppskarfur.

Dílaskarfur er stór, dökkur og hálslangur sjófugl. Fullorðnir fuglar eru svartir, í varpbúningi (síðla vetrar og á vorin) er hann með hvíta kverk og vanga, oft hvíta fjaðrajaðra annars staðar á hausnum og ýfðar hnakkafjaðrir, minna á pönkara. Stór hvítur díll er á hvoru læri og bera þeir nafn sitt af honum. Ungfugl á fyrsta ári er brúnn að ofan og ljós að neðan, frá höfði og niður á kvið, dökknar síðan smátt og smátt og fær fullorðinsbúning á þriðja ári. Kynin eru eins.

Dílaskarfur flýgur nokkuð hratt og er háfleygari en toppskarfur. Torvelt er að greina skarfana að á færi, en dílaskarfurinn er miklu stærri, með þykkari gogg og flatara enni . Dílaskarfur teygir hálsinn fram á flugi og veit höfuðið lítið eitt upp á við. Þegar hann syndir eða situr veit goggurinn upp.

Situr oft með þanda vængi eftir ætisleit og blakar þeim í sífellu til að þurrka þá, „messar“. Er styggur og var um sig á varpstöðvum. Félagslyndur.

Dílaskarfur er fiskiæta, fangar helst botnfisk líkt og kola og marhnút, einnig smáufsa, smáþorsk, hrognkelsi o.fl. Hann kafar með því að nota fæturna, etur stærri fisk á yfirborði en smærri fisk í kafi.

Verpir í byggðum, aðallega á flötum, gróðursnauðum skerjum, stundum á stöpum. Hreiðrið er hraukur úr þangi, fóðrað með fjöðrum og grasi.

Dvelur á veturna með ströndum fram. Hann leitar stundum upp á ferskvatn, ár og vötn, aðallega á veturna, jafnvel inn á hálendið á sumrin. Toppskarfur gerir það aldrei.

Toppskarfur

Skarfur

Toppskarfur.

Hann verpir á sjávarklettum í Vestur- og Suður-Evrópu, Suðvestur-Asíu og Norður-Afríku. Hann hefur oftast vetursetu á svipuðum slóðum og hann verpir, nema þeir fuglar sem verpa allra nyrst. Við Ísland er ein mesta skarfabyggðin við Breiðafjörð en þar voru talin árið 1975 um 6.600 hreiður og er það einnig aðal varpsvæði hans. Á veturna er hann aftur á móti við ströndina um allt vesturland, frá Vestmannaeyjum og Faxaflóa og allt norður fyrir Vestfirði, á Ströndum inn á Húnaflóa.

Toppskarfurinn er meðalstór svartur, grannur og langur sjófugl, um 68 – 78 sentimetra langur með 95 – 110 sentimetra vænghaf. Honum er oft ruglað saman við Dílaskarf en þótt hann sé líkur honum er hann nokkru minni en Dílaskarfurinn.

Á varptímanum er hann alsvartur með grænleitri slikju en hún er tilkomin vegna dökkra fjaðrajaðra og virðist hann fyrir vikið vera hálf hreistraður að ofan. Fullorðnir fuglar hafa einkennandi uppsveigðar fjaðrir á höfðinu frá því eftir áramótin og fram á vor. Ungfuglarnir eru aftur á móti dökkbrúnir með ljósan framháls.

Toppskarfar halda hópinn og verpa í byggðum og þá helst á lágum eyjum og hólmum en einnig stundum á lágum klettum og í fuglabjörgum. Hreiðrið er einfaldur hraukur úr þangi og fóðrað með fjöðrum og grasi. Eggin eru frá einu til sex og liggur hann á í 30 til 31 dag.

Skarfur

Toppskarfur.

Toppskarfur heldur sig við ströndina og sést sjaldan inn í landi. Hann er einn besti kafari meðal skarfa og getur kafað 45 metra eða meira. Fæða hans kemur frá sjávarbotni og aðalfæða þeirra er sandsíli. Toppskarfurinn rennblotnar svo við köfunina að hann þarf að þurrka sig og sjást þeir oft með útbreidda vængina í sólbaði eða að blaka þeim. Er oft sagt að þá sé hann að „messa“. Eins og með marga fugla sem sérhæfa sig í köfun er hann er frekar klaufskur við að taka sig á loft. Hann er nokkuð veiddur og hefur því fækkað aðeins fyrir vikið.

Toppskarfur er nokkru minni og grennri en dílaskarfur. Hálsinn er styttri og grennri og höfuðið minna, en annars getur verið erfitt að greina þessa fugla sundur eftir stærð og vexti nema sjá þá saman. Höfuð toppskarfs er hnöttóttara, enni brattara og goggur áberandi grennri en á dílaskarfi. Í varpbúningi er toppskarfur alsvartur með grænleitri slikju. Virðist hreistraður að ofan vegna dökkra fjaðrajaðra. Uppsveigður fjaðratoppur á höfði er einkenni fullorðinna fugla frá því í janúar fram á vor. Ungfugl er dökkbrúnn, með ljósan framháls, en ekki ljósleitur á bringu og kviði eins og ungir dílaskarfar. Kynin eru eins.

Toppskarfur er djúpsyndur og ber höfuðið hátt á sundi eins og dílaskarfur. Eftir köfun þarf toppskarfur að þurrka vængina og situr þá oft og blakar þeim, ,,messar“ eins og dílaskarfur, en breiðir ekki jafn mikið úr vængjunum. Hann er fremur klaufalegur þegar hann hefur sig á loft, flýgur með hraðari vængjatökum en dílaskarfur og teygir hálsinn og gogginn ekki upp eins og hann, flýgur fremur lágt. Er venjulega félagslyndur.

Toppskarfur er fiskiæta, kafar eftir bráðinni, fangar m.a. sandsíli, síld, marhnút, þorsk, ufsa og sprettfisk. Stingur sér á sundi og kafar með fótunum.

Heldur sig við strendur og sést nær aldrei inn til landsins eins og dílaskarfurinn. Verpur í byggðum, er algengastur á lágum eyjum eða hólmum í Breiðafirði og Faxaflóa. Er einnig í lágum klettum, stundum í fuglabjörgum eða í stórgrýtisurðum. Hreiðrinu svipar til dílaskarfshreiðurs.

Toppskarfur er staðfugl, sem sést víða um vestanvert landið á veturna. Hann hefur breiðst út um Strandir á undanförnum árum og er nú farinn að verpa í Papey. Hann verpir við strendur Evrópu, frá Kólaskaga suður í Miðjarðarhaf og til Marokkó.

Heimildir:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Skarfur
-https://nmsi.is/molar/fugl_manadarins/dilaskarfur/
-https://fuglavefur.is/birdinfo.php?val=4&id=42
-https://is.wikipedia.org/wiki/Toppskarfur
-https://fuglavefur.is/birdinfo.php?val=1&id=60

Skarfur

Dílaskarfur.

Jarðskjálfti

Stærsti jarðskjálfti á sögulegum tíma á Íslandi er gjarnan talinn vera skjálftinn á Suðurlandi 14. ágúst 1784. Stærð hans hefur verið metin 7,1. Þessi stærð er að sjálfsögðu ekki fengin með mælingum enda komu skjálftamælar ekki til sögunnar fyrr en rúmri öld síðar. Stærðin er fengin með því að bera áhrif skjálftans saman við áhrif annarra skjálfta á sama svæði sem mælingar eru til á. Það er einkum jarðskjálftinn á Rangárvöllum árið 1912 sem hefur verið notaður í þessum tilgangi. Hann mældist 7 stig að stærð og áhrifasvæði hans var nokkru minna en skjálftans 1784. Ætla má að byggingar hafi verið sambærilegar á Suðurlandi í báðum skjálftunum.

Jarðskjálftar

Margir bæir hafa hrunið í jarðskjálftum hér á landi.

Skjálftinn 1784 átti upptök í Holtum. Þar varð tjónið mest og í nágrenni Eystra-Gíslholtsvatns má finna sprungur sem telja má að hafi orðið til í upptökum skjálftans. Finna má vísbendingar um þetta upptakamisgengi til norðurs og teygir það sig í átt til Skálholts. Þar varð einmitt tilfinnanlegt tjón í skjálftanum. Varð það mönnum tilefni til vangnavelta um að flytja biskupsstólinn og Skálholtsskóla til Reykjavíkur.

Stærstu skjálftar á Íslandi sem mælst hafa eru skjálfti undan norðurströndinni 1910, fyrrnefndur skjálfti á Rangárvöllum 1912, og skjálfti sem varð fyrir mynni Skagafjarðar árið 1963. Allir mældust þeir 7 stig að stærð. Nýlegri skjálftar hafa mælst nokkru minni, til dæmis voru skjálftarnir 17. og 21. júní 2000 af stærðinni 6,5, sömuleiðis Kópaskersskjálftinn 1976.

Jarðskjálftar á Reykjanesskaga

Jarðskjálftar

Jarðskálftabelti landsins.

Í kjölfar atburða á Reykjanesskaga hefur Páll Einarsson, prófessor emeritus við Jarðvísindadeild, tekið saman yfirlit yfir jarðskjálftavirkni á svæðinu og byggir þar á nýlegri grein Sveinbjörns Björnssonar o.fl. höfunda.

Að sögn Páls byggja gögn fyrir árið 1900 á samantekt Þorvaldar Thoroddsen, meðan skýrsla Kjartans Ottóssonar er helsta heimildin fyrir tímabilið 1900-1930 og skýrslur Eysteins Tryggvasonar fyrir áratugina 1930-1960. „Frá 1960 er stuðst við lista frá International Seismological Centre, Veðurstofu Íslands og Sveinbirni Björnssyni o.fl. Eftir að mælitæki koma til sögunnar eru skjálftar á listanum einungis tilgreindir ef stærðin er 5 eða meira, eða ef þeir ollu tjóni, tengdust sprunguhreyfingum eða breytingum á hveravirkni.“

Sögulegt yfirlit

Jarðskjálftar

Jarðskálftasvæði Reykjanesskagans.

1151: „Eldur uppi í Trölladyngjum, húsrið og manndauði“.

1211: „Eldur kom upp úr sjó fyrir utan Reykjanes. Sörli Kolsson fann Eldeyjar hina nýju, en hinar horfnar er alla æfi höfðu staðið. Þá varð landskjálfti mikill hinn næsta dag fyrir Seljumannamessu og létu margir menn líf sitt. … og féllu ofan alhýsi á fjölda bæjum og gjörðu hina stærstu skaða.“

1240: „Landskjálftar miklir fyrir sunnan land. Sól rauð. Eldur fyrir Reykjanesi.“ Þetta er talið vera síðasta eldgosið í hviðu slíkra atburða á Reykjanesskaga. Hviðan er talin hafa byrjað stuttu eftir 870 AD og voru flest gosin hraungos (Kristján Sæmundsson og Magnús Sigurgeirsson, 2013).

1724: Jarðskjálfti í ágústmánuði. Hrapaði bærinn í Herdísarvík og maður fórst við sölvatekju undir Krýsuvíkurbjargi.

1754: Jarðskjálfti í Krýsuvík, og kom þar upp hver, 6 faðma víður og 3 faðma djúpur.

1785-1886: Jarðskjálftar fundust mörgum sinnum í Reykjavík og nágrenni, en ekki er getið um tjón. Sterkustu skjálftarnir voru 1868.

1879: „Allharðir landskjálftakippir á Reykjanesskaga um lok maímánaðar, harðastir voru þeir í nánd við Krýsuvík, sterk baðstofa á Vigdísarvöllum féll og í Nýjabæ við Krýsuvík flýði fólk úr húsum. Um sama leyti hófst eldgos á mararbotni fyrir utan Reykjanes nærri Geirfuglaskeri.“

Jarðskjálftar

Nýleg jarðskálftahrina á Reykjanesskaga.

1887: Jarðskjálftahrina gekk yfir Reykjanes og fundust margir kippir um Suðvesturland. Valahnúkur, sem Reykjanesviti stóð á, klofnaði og féllu úr honum stykki. Leirhverinn Gunna nærri Reykjanesvita breyttist töluvert.

1889: Sterkur jarðskjálfti olli minni háttar tjóni í Reykjavík og nærliggjandi byggðum. Nokkur hús hrundu á Vigdísarvöllum og í Krýsuvík.

1899: Skjálftahrina gekk yfir Reykjanes og varð tjón á vitanum. Við Gunnuhver opnaðist sprunga og breytingar urðu á hvernum.

1900-1910: Vægir skjálftar fundust oft við Reykjanesvita á þessum árum. Umtalsvert tjón varð í janúar 1905 á Litla Nýjabæ, Vigdísarvöllum og Ísólfsskála.

1919: Reykjanesviti skemmdist í jarðskjálfta sem fannst víða á Reykjanesskaga. Nýr hver myndaðist á Reykjanesi.

1920: Skjálfti varð 14. maí sem líklega átti upptök í Krýsuvík, fannst í Reykjavík. Mældist 5,2 að stærð.

1924: Sterkur jarðskjálfti varð 4. september í Krýsuvík, fannst víða. Nýr hver, Austurengjahver, myndaðist, sprungur opnuðust og grjót hrundi úr fjöllum. Stærðin mældist 5,1.

1924: Í desember varð áköf hrina á Reykjanesi sem olli minni háttar tjóni á vitanum. Stærsti skjálftinn metinn 4,7 stig.

1925-1928: Tíðir jarðskjálftar fundust á Reykjanesi. Vitinn skemmdist 25. október 1926. Sprungur mynduðust í jörð og breytingar urðu á hverum.

1929: Hinn 23. júlí varð stærsti skjálfti sem vitað er að hafi orðið á Reykjanesskaga. Upptök hans voru nálægt Brennisteinsfjöllum, líklega á hinu svokallaða Hvalhnúksmisgengi. Stærðin var 6, 3 og skjálftinn fannst víða um land og olli umtalsverðu tjóni í Reykjavík og nágrenni.

Jarðskjálftar

Vegsummerki eftir jarðskálfta.

1933: Skjálfti sem varð 10. júní fannst víða á Suðvesturlandi. Upptökin voru líklega suður af Keili og vestan Núpshlíðarháls. Rétt við Vigdísarvelli hrundi og mikið rót varð á yfirborði jarðar, sprungur og viðsnúnir steinar. Mælingar erlendis gáfu stærð skjálftans tæplega 6 stig.

1935: Skjálfti 9. október átti upptök á Hellisheiði. Minni háttar tjón varð, en grjót hrundi úr fjöllum og vörður á Hellisheiði féllu á nokkru svæði. Mælingar gefa stærð um 6 stig.

1952: Skjálfti að stærð 5,2 átti upptök nærri Kleifarvatni. Hann fannst víða en olli engu tjóni.

Jarðskálfti

Ummerki jarðskálfta.

1955: Skjálfti ad stærð 5,5, sem varð 1. apríl, átti upptök austarlega á Hellisheiði. Hann fannst víða en olli litlu tjóni.

1967: Kröftug skjálftahrina átti upptök á Reykjanesi 28.-30. september. Miklar breytingar urðu á jarðhitasvæðinu þar og sprungur mynduðust. Stærsti skjálftinn var af stærðinni 4,9 en alls urðu 14 skjálftar af stærðinni 4,0 og stærri. Skjálftarnir fundust víða en tjón var óverulegt.

1968: Jarðskjálfti af stærðinni 6,0 varð 5. desember og átti hann upptök í Brennisteinsfjöllum, líklega á Hvalhnúksmisgenginu, líkt og skjálftinn 1929. Brotlausn hans sýnir að hann varð vegna hægri handar sniðgengishreyfinga á misgengi með N-S stefnu. Skjálftinn fannst víða og olli minniháttar tjóni í Reykjavík.

Jarðskálfti

Afleiðingar jarðskálfta innanhúss.

1973: Skjálftahrina gekk yfir Reykjanesskaga 15.-17. september. Fimm skjálftar voru stærri en 4, þar af þrír stærri en 5, sá stærsti 5,6. Virknin byrjaði í Móhálsadal, austan Djúpavatns og færðist síðan til vesturs, allt vestur að Eldvörpum. Stærsti skjálftinn varð vegna hægri handar sniðgengishreyfinga á misgengi með N-S stefnu.

1974: Jarðskjálftahrina varð 8. desember skammt undan ströndinni á Reykjanesi. Fjórir kippir voru á stærðarbilinu 4,0-4,5.

2000: Jarðskjálftinn 17. júní á Suðurlandi hleypti af stað röð skjálfta á flekaskilunum sem liggja um Reykjanesskagann, allt vestur að Núpshlíðarhálsi. Þrír skjálftanna voru stærri en 5. Sá stærsti (5,9) átti upptök undir Kleifarvatni. Vatnsborð Kleifarvatns féll um 4 metra á næstu vikum. Þá voru FERLIRsfélagar á göngu í Sveifluhálsi, en sakaði ekki.

Grindavík

Grindavík – jarðskjálftar í nóv. 2023.

2003: Jarðskjálfti að stærð 5,0 varð 23. ágúst og átti upptök nálægt Krýsuvík. Honum fylgdu margir smærri eftirskjálftar sem röðuðu sér á N-S línu.

2013: Skjálfti að stærð 5,2 með upptök skammt austan Reykjaness varð 13. október. Ekkert tjón varð en sprungur sem hreyfðust á svæði austan jarðhitasvæðisins gáfu til kynna færslur á vensluðum sniðgengjum með stefnur í norður og aust-norð-austur.

Sjá meira um jarðskjálfta á Íslandi fyrrum.

Heimildir:

-https://is.wikipedia.org/wiki/Jar%C3%B0skj%C3%A1lftar_%C3%A1_%C3%8Dslandi
-Eysteinn Tryggvason, 1978a. Jarðskjálftar á Íslandi 1930 – 1939. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-78-21, 92 pp.
-Eysteinn Tryggvason, 1978b. Jarðskjálftar á Íslandi 1940 – 1949. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-78-22, 51 pp.
-Eysteinn Tryggvason, 1979. Earthquakes in Iceland 1950 – 1959. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-79-06, 90 pp.
-International Seismological Centre, 2014.
-Kjartan Ottósson, 1980. Jarðskjálftar á Íslandi 1900 – 1929. Raunvísindastofnun Háskólans, Skýrsla RH-80-05, 84 pp .
-Sveinbjörn Björnsson, Páll Einarsson, Helga Tulinius, Ásta Rut Hjartardóttir, 2018. Seismicity of the Reykjanes Peninsula 1971-1976. J. Volcanol. Geothermal Res., https://doi.org/10.1016/j.jvolgeores.2018.04.026.
-Þorvaldur Thoroddsen, 1899. Jarðskjálftar á Suðurlandi. Hið íslenska bókmenntafélag, Kaupmannahöfn, 197 bls.
-Þorvaldur Thoroddsen, 1905. Landskjálftar á Íslandi, II. Jarðskjálftar við Faxaflóa. Hið íslenska bókmenntafélag. Kaupmannahöfn. bls. 201-269.-
Þorvaldur Thoroddsen,1925. Die Geschichte der isländischen Vulkane, Det Kongelige Danske Videnskabernes Selskab, Köbenhavn 1925, 18+458 p.
-https://jardvis.hi.is/sogulegt_yfirlit_um_jardskjalftavirkni_reykjanesskaga

Jarðskálftar

Yfirlit yfir styrk jarðskjálfta á Íslandi aftur til 1734.

Þjóðminjasafnið

Samkvæmt fyrirliggjandi opinberum heimildum er Þjóðminjasafn Íslands miðstöð þjóðminjavörslu og rannsókna á menningarsögulegum minjum á Íslandi. Á vegum safnsins eru sýning í safnhúsinu við Suðurgötu á menningarsögu Íslendinga frá landnámi til vorra daga og þar eru sýndir allir merkustu gripir safnsins.

Þjóðminjasafn

Í Þjóðminjasafninu.

Þjóðminjasafnið var stofnað með með stofnun Forngripasafnsins árið 1863 en þá var stiftsyfirvöldum í umboði íslensku þjóðarinnar fært nokkurt safn forngripa að gjöf með því skilyrði að stofnað yrði íslenskt forngripasafn. Margir fornmunir höfðu þá verið fluttir frá Íslandi og voru í erlendum söfnum eða í eigu einstaklinga. Sigurður Guðmundsson málari var einn aðalhvatamaður að stofnun safnsins. Þjóðminjavörður er Margrét Hallgrímsdóttir, fornleifafræðingur.

Dómirkja

Dómkirkjan.

Fyrstu árin var Forngripasafnið á lofti Dómkirkjunnar, síðan var það í tukthúsinu við Skólavörðustíg, svo í Landsbankahúsinu við Austurstræti og síðan í Alþingishúsinu. Árið 1908 var safnið flutt í sérbyggt safnahús á efstu hæð Safnahússins við Hverfisgötu og var þar til 1950 en þá var Þjóðminjasafnið opnað í eigin húsakynnum við Suðurgötu.

Þjóðminjasafnið

Frá Þjóðminjasafninu.

Nú 70 árum síðar hefur margt gott verið gert, en því miður hefur einnig margt farið úrskeiðis í starfi Þjóðminjasafnsins. Frumkvöðlar safnsins voru áhugasamir um eflingu þess, en núverandi stjórnendur virðast næsta áhugalausir um starfsemina, einkum þjónustuna. Það er a.m.k. reynsla þeirra er til þess hafa þurft að leita. Beiðnum er jafnan svarað með vísan í útfyllingu rafrænna spurnarforma, síðan eru síðan ekki virtar viðlits. Ef eftir svarleysunum er leitað að ærnum tíma liðnum fær beiðandi alls kyns útúrsnúninga og óskiljanlegar afsakanir.

Að mati fulltrúa FERLIRs ætti ríkisvaldið með gildum rökum að skilgreina Þjóðminjasafnið upp á nýtt með áherslu þess sem safngrips í vörslu ríkisins fremur en nútíma þjónustustofnun – sem hún er bara alls ekki.

Dæmi: FERLIR leitaði til Þjóðminjavarðar fyrir nokkrum misserum að gefnu tilefni og óskaði eftir möguleika þess að fá „Hallgrímshelluna“, sem er í geymslum safnsins, aftur í vörðuna þaðan sem hún var fjarlægð á sínum tíma.  Eðlilegra væri að minjar, s.s. letursteinar, væru fremur varðveittir á upprunastað en í geymslum, sem nánasta engir hefðu aðgang að. Vörðurinn vísaði erindinu til starfsmanns. Hann upplýsti að það væri meginmarkmið stofnunarinnar að innkomnir hlutir færu þaðan aldrei aftur út.

Hallgrímshellan

Hallgrímshellan“ í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Í  upphafi árs 2020 leitaði fulltrúi FERLIRs eftir því að fá að ljósmynda letursteininn í safninu með það fyrir augum að láta gera afsteypu af honum og koma henni síðan fyrir í framangreindri vörðu. Var bent á að fylla út formlega beiðini þessa efnis, sem og var gert. Fram kom að viðbrögð við slíkum beiðnum gæti tekið allt að þrjá mánuði, auk þess sem þrjá mánuði til viðbótar gæti tekið að afgreiða erindin. Þegar engin viðleytni til svara var að sjá eftir sex mánuði leitaði fulltrúinn viðbragða hjá stofnuninni. Svör starfsmannsins verða ekki birt hér, enda honum ekki til framdráttar. Ábending kom m.a. fram að ítreka þyrfti beiðnina því sú fyrri gæti hafa misfarist þar sem margir þyrftu að koma að afgreiðslunni.

Hallgrímshellan

Hallgrímshellan í geymslum Þjóðminjasafnsins.

Að tíu mánuðum liðum var enn og aftur spurðist fulltrúi FERLIRs fyrir um þann möguleika um að fá að koma í geymslurnar og taka myndirnar án aðkomu starfsfólks. Því var svarað að enginn mætti koma þangað inn vegna Covid-19. Spurði þá hvort starfsmaður safnsins gæti tekið myndirnar og sent beiðanda. Myndir bárust í framhaldinu með þeim orðum að „um svokallaðar vinnumyndir að ræða. Þær eru ekki ætlaðar til birtingar af nokkru tagi. Ef óskað er eftir einhvers konar birtingu af gripum í vörslu safnsins eru myndir teknar af ljósmyndara safnsins og kostnaður þá í samræmi við gjaldskrá myndasafnsins“. Þvílíkt rugl; áhugasamt fólk á sem sagt ekki, undantekningarlaust, möguleika á að fá myndir af gripum safnsins án milligöngu hirðljósmyndara þess með tilheyrandi kostnaði.
Fulltrúi FERLIRs sendi myndirnar til steinsmiðs í Keflavík með það fyrir augum að gera eftirmynd af hellunni og í framhaldinu verður henni vonandi komið fyrir í gömlu vörðunni við Kaupstaðagötuna milli Þórshafnar og Stafness norðan Ósa, áhugasömum vegfarendum til uppfræðslu og ánægju.

Sjá meira um „Hallgrímshelluna“ HÉR, HÉR og HÉR.

Hallgrímshella

„Hallgrímshellan“ skoðuð í geymslu Þjóðminjasafnsins fyrir nokkrum árum. Mynd mbl.is. Í framhaldinu fékk FERLIR breiðsíðu skamma frá fulltrúa þjóðminjasafnsins vegna þess að dirfst hafði að taka ljósmyndir á staðnum með „mögulegum skemmdum á minjunum“; slíkt væri einungis á „færi sérstaks ljósmyndara safnsins, gegn gjaldi“.