Gufuskálar

Í Egils sögu Skallagrímssonar má lesa eftirfarandi um búsetu Ketils gufu á Gufuskálum og í Gufunesi:
gufuskalar-221„Þá er þetta var tíðenda, at Egill var vt kominn ór þessi ferð, þá var heraðit albygt. Voro þá andaðer aller landnámamenn, en synir þeira lifðu eða sonarsyner, ok bjuggu þeir þá í heraðe. Ketill gufa kom til Íslandz, þá er land var mjog bygt. Hann var hinn fyrsta vetr at Gufuskálum á Rosmhualanesi. Ketill hafði komit vestan vm haf af Írlandi. Hann hafði með sér þræla marga írska. Lond voro oll bygð á Rosmhualanesi þann tíma. Réz Ketill þuí þaðan í brott ok inn á nes, ok sat annan vetr á Gufunesi ok feck þar engan ráðstafa. Síðan fór hann inn í Borgarfjorð, ok sat þar hinn þriðja vetr, er síðan er kallat at Gufuskálum, en áin Gufá, er þar fellr í ofan, er hann hafði skip sitt í vm vetrinn.“

Heimild:
-Egils saga Skallagrímssonar, 1886, bls. 280.

Gufuskálar

Gufuskálar – Kóngsgarður.

Herdísarvík

Strax á haustin var farið að búa út “færur” þeirra, er róa áttu í verunum, en færur var nefnt einu nafni allt það, sem vermaður þurfti að hafa að heiman, svo sem föt, gerðir skór, skinnklæði, ýmsir smámunir, sem búast mátti við, að ekki fengjust í verinu, eða væru dýrari þar, og verskrínan með smjöri, sem drepið var í annan enda, en “smálka” eða kæfu rennt í hinn. Færurnar voru svo sendar í verið, annaðhvort á haustin, eða um það bil að menn fóru til vers. Duglegir menn tóku þá að sér að flytja þær fyrir marga, voru það oft slæmar ferðir um hávetur, allt veglaust og býr engar. Ráku þeir hestana lausa til baka og voru þá kallaðir “heimrekstrarmenn”.

Herdísarvík

Herdísarvík – sjóbúðir.

Vermenn áttu að vera komnir í verin sunnudaginn fyrstan í góu. Var brottfarardagur vermanna allmikill alvörudagur á heimilunum. Öllum var ljóst, hve mikil hætta fylgir sjóróðrunum, en tilfinnanlegast var það vinum og vandamönnum. Þar að auki neyddust sumir til róðranna frá misjöfnum ástæðum heima fyrir.
Verbúðir, stundum nefndar sjóbúðir, voru útihús, stundum eitt sér, eða fleiri saman, veggir hlaðnir að innan úr grjóti og torfi eða grjóti eingöngu, en að utan úr grjóti og torfi eða sniddu. Veggjaþykkt við undirstöðu var um 2 ½ alin, en dróst að sér að utan, svo að veggir urðu að ofan 1 ½ alin á þykkt. Dyr voru jafnan á öðrum gafli, og kampur nokkru þykkri en veggir. Hæð veggja var um 2 ½ alin. Breidd búðanna var 5 álnir, en lengd þriggja eða fjögra rúma. Hæð frá gólfi til mæniáss var um 5 ½ alin, gólfbreidd 1 ½ alin. Oft voru gólfin flóruð með flötum steinum. Venjulega var haft ofurlítið niðurgengt í búðirnar, til að verjast gólfkulda.

Vermaður

Vermaður í sjóklæðum.

Í bilið milli hliðarveggja og stoða var hlaðinn grjótbálkur, um 18 þuml. á hæð, sem tók jafnlangt fram og stoðirnar. Dálítil hola var látin vera framan í bálkinn um miðju hvers rúmsstæðis. Bálkur þessi var botn rúmanna. Framan á allar stoðirnar við efri brún bálkans var slegið borðum, sem mynduðu rúmstokkana, svo langt sem venjuleg rúmbrík myndi hafa náð. Frá stoðunum og út í vegginn gengu fjalir, sem mynduðu rúmgaflana. Hurð á hjörum með lás og og loku var fyrir búðum að utanverðu. Dyraumbúningurinn var einungis þröskuldur og dyrastafir, sem greyptir voru í digurt þvertré að ofan, sem gekk út á kampana. Þverreft var yfir dyrnar.
Öllum verbúðum fylgdi smiðjukofi. Stóð hann við búðarhliðina eða ystu búðina, ef fleiri stóðu saman.
Um þetta bil voru skipin flest tírónir áttæringar, með 14 mönnum auk hálfdrættings, nokkrir sexæringar áttrónir með 10 mönnum, og örfáir teinæringar tólfrónir, með 16 mönnum.
Þegar vermenn komu til búa, lá fyrst fyrir að búa um sig. Hey, hálmur, hefilspænir eða marhálmur var látð í rúmstæðin, og lagði útgerðarmaður það til. Tveir og tveir skipverjar gerðust lagsmenn, bjuggu um sig og sváfu í sama rúmi, og ef hálfdrættingur var, þá var hann sá þriðji í einu rúminu. Létu þeir skrínur sínar efst við vegg í rúmin. Hver maður hafði eina rekkjuvoð og eitt brekán, flestir kodda og einstaka yfirsæng. Ígangsföt voru höfð að höfðalagi, og þar með var rúmið tilbúið.

Seil

Sjómenn með seilaðan fisk – Bjarni Jónsson.

Allir lágu andfætis og tóku sér rúm annaðhvort eftir samkomulagi eða fyrirsögn formanns. Þó svaf formaður jafan í ysta rúmi til vinstri handar, þá er í búðina var gengið, eða í þverrúmi,sem í sumum búðum var fyrir gaflinum, og kallað var “kórrúm”. Úr þessum stöðum mátti best sjá yfir alla búðina.
Skinnklæðin voru hengd á stoðirnar við höfðalögin, en skór og vettlingar um bríkurrimlana. Matvæli, sem eigi komust í skrínuna, svo sem hangikjöt, brauð og harðfiskur, voru hengd upp í rjáfrið.
Matvæli þau, sem vermenn áttu að hafa um vertíðina, voru nokkurnveginn fastákveðin, að minnsta kosti hvað þá snerti, er gerðir voru út af öðrum, svo sem vinnumanna og þeirra, er einstakir menn gerðu út.
Í verstöðvunum átti verðmaðurinn að hafa útgerð, ef vel átti að vera; í skrínu 3 fjórðunga af smjöri og 1 sauð, soðinn niður í smálka eða kæfu. Þetta var kölluð “mata”. Þar að aiki eitt sauðafall reykt, 5 fjórðunga af rúgi og 4 fjórðunga af harðfiski, auk skipulagsins, sem var 1 fjórðungur af harðfiski og 1 fjórðungur af rúgi. Ennfremur 2 pd. af kaffi, 2 pd. af kandíssykri og 1 pd. af kaffirót. Entist þetta ekki til loka, varð hlutaðeigandi að bæta við frá sjálfum sér.

Verbúð

Verbúð – málverk Bjarna Jónssonar.

Einstöku maður lauk mikils til of fljótt úr skrínu sinni, og var hann þá kallaður “mötustuttur”. Þar á móti voru aðrir, sem spörðuðu helst til mikið við sig, til þess að geta selt af mötunni, og þótti hvorutveggja heldur niðrandi.
Þjónustu og brauðgerð fengu vermenn ánæstu bæjum og guldur fyrir eftir samkomulagi.
Þegar ekki var róið, var máltíðum hagað eins og tíðkaðist heima fyrir, en daglegu lífi manna var þá þannig háttað, að hver sýslaði það, er hann vildi, ef ekki þurfti að starfa að skipi eða veiðarfærum. Sumir saumuðu skinnklæði, aðrir unnu úr hrosshári, sem haft var með að heiman, nokkrir fléttuðu reiptögl, hnappheldur eða brugðu gjarðir, hagir menn smíðuðu búsáhöld ýmislegt, klyfbera, lampa, kyrnur, hornspæni o.fl., sem lítið fór fyrir, því að þrengsli voru mikil.
Skemmtanir inni við voru helst sögusagnir, sögulestur og rímna kveðskapur, einnig gátur og “skanderingar” (að kveðast á) ennfremur spil, tafl, skák, “kotra”, “mylla”, og að “elta stelpu”.
Úti skemmtu menn sér við glímur, aflraunir og ýmsa leiki svo sem “höfrungahlaup”, “að ríða til páfans”, “járna pertu”, “sækja smér í strokk” o.fl. Var oft glatt á hjalla í landlegum í þá daga. Á hverju kvöldi var lesinn húslestur og sálmar sungnir hvernig sem á stóð, áður menn legðust til svefns.

Slok

Slokahraun – fiskigarðar.

Formaður leit til veðurs að morgni dags og ákvað hvort róið væri. Síðan var gengið til skips, stundum langan veg og þess gætt að formaður færi fyrstur. Hindraðist hann af einhverju á leiðinni, stönsuðu allir á meðan. Væri þess ekki gætt var það talið óhappamerki, en enn verra var, ef kvenmaður var á vegi skipshafnar. Þá var síst við góðu að búast þann róður; sjálfasagt “fýla”, bullandi barningur eða brotalág.
Þegar komið var á flot var farið með sjóferðabæn.
Í lendingu hlupu framámenn, sem voru skiphaldsmenn, útbyrðis og urðu að vera búnir að fóta sig áður en skipið tók niður af framan. Héldu þeir svo við svo skipinu á “kollubandinu”, sem fest var í mitt stefnið, svo að skipið gat hvorki farið upp eða út, var það oft hið mesta þrekvirki, því fyrir gata komið, að sjór gengi þeim um axlir og skipið tók ákaflega á. Formaðurinn einn, eða með örðum, hélt skipinu með stjaka í horfinu, eða að því slægi ekki til hliðar, á meðan aðrir seiluðu fiskinn, og þurfti það að gerast svo fljótt sem unnt var.
Ef ekki var róið aftur, var skipið sett upp fyrir flæðamál eða dregið upp á hlunnum. Hásetar báru fiskinn upp á skiptivöllinn. Formaður skipti í köst og voru tveir hásetar um eitt kast, hétu það hlutalagsmenn.

Grindavík

Grindavík – verbúð við Járngerðarstaði; uppdráttur.

Þar sem færi voru notuð, var næstum ekki öðru skipt en þorski, hitt voru “happadrættir”, eign þeirra, er þá drógu, t.d. keila, steinbítur, ufsi, karfi og jafnvel ýsa, ennfremur sporður, hryggur, haus og rafabelti af flakandi lúðu, sköturassar og hrognið úr löngunni (lönguskjaldið). Þetta dró drjúgum góða fiskimenn, enda var það kölluð “hlutabótin”. Ennfremur tók skipeigandi 1 besta fiskinn úr hverjum róðri af óskiptu, ef segl voru notuð í róðrinum. Hét það seglfiskur. Drykkjarfisk var þá hætt að taka á sama hátt fyrir að fá sér færðan drykk að skipi, er komið var að.
Útgerðarmaður tók 3 hluti, 2 fyrir skipið með áhöldum, búðar- og byrkisleigu, uppsátur og færi, – öngul og sökku lögðu hásetar sér til – og 1 fyrir “tilögurnar”, en það voru skipulag, sýra lifurílát, seilar- og byrðarólar, sjóskóþvengir, skinnstakksvindingur, bróklindi og baggaband, auk þess var glaðning á sumardaginn fyrsta nokkurskonar skylduskattur á útgerðarmann.
Ef einhver skipverji veiktist, var honum gefinn hlutur og jafnvel þótt hann lægi alla vertíðina.

Verbúðir

Verbúðir – Bjarni Jónsson.

Þegar búið var að “gera að” fiskinum, var hann þakinn grjótbyrgi, eða lagður í “kös”, ef gera átti hann að harðfiski. Þorskhausar voru þvegnir, helst upp úr sjó, þóttu þá “renna” fremur, síðan ýmist raðað hverjum við annan með munnana upp, “skrúfað”, eða hver látinn sér “trantað” á steina. Þegar þeir höfðu þornað nokkuð, voru þeir klofnir upp og lagðir í hlaða.
Í “kös” gat fiskur haldist mjög lengi óskemmdur, hvernig sem viðraði, ef vel var kasað, svo að vatn gæti hvergi staðið á fiskinum. Flattur fiskurinn var lagður saman þannig í lítinn hring, að sporðar komu saman, og utanyfir var lögð önnur röð og tóku sporðar hennar upp á hina miðja og svo koll af kolli eftir rúmi og þörfum, kösin þurfti helst að vera í sléttum halla.

Sloki

Fiskgarðar í Slokahrauni.

Þegar fiskurinn var tekinn úr kösinni og breiddur upp, venjulega á lága grjótgarða (vergögnin) reið mjög á því, að frostlaus þerrir héldist næstu daga, svo að fiskurinn næði að þorna að utan (skelja). Ef það heppnaðist, var fiskurinn venjulega úr allri hættu, varð hlaðatækur, og með góðri hirðu bestan vara, hvort sem vildi til kaupstaðar eða matar.
Ef illa vildi til og fiskurinn fékk ekki þurrk strax eftir uppbreiðslu, slepjaði hann og varð “maltur”, en meltingur sá þótti fáum góður matur og var öldungis óhæf verslunarvara. Ef fiskurinn fraus í herslunni, varð hann að vísu ágæt matvara, en gekk ekki í kaupstað. Væri hann breiddur upp nýr og þornaði án þess að frjósa, varð hann “ólseigur” og illur til átu, en ágæt kaupstaðavara.

Selatangar

Selatangar – þurrkbyrgi.

Að hirða vel um afla sinn og “bösl” – svo voru sjóklæðin í heild sinni kölluð – tók allmikinn tíma í landlegum, og ef róið var alla vikuna, varð að nota sunnudaginn til þess. Þá tíðkuðust ekki helgidagaróðrar.
Lífið í verbúðunum var furðulega skemmtilegt, þegar þess er gætt, að svo að segja öll þægindi, sem menn voru vanir heima, skorti, enginn stóll, ekkrt borð, ekkert matarílát nema vasahnífurinn og eitt bollapar eða krukka til að drekka kaffið úr, þrengsli mikil, þegar 2 menn og stundum 3, með hálfdrætting, urðu að sofa og vinna allt, sem unnið var, innan búðar á sama rúminu, blaut og grútug skinnklæðiin hangandi á hverri stoð við höfðalögin, skór og vettlingar á bríkarrimlum og rottur hlaupandi út og inn um veggjarholurnar. En í verinu var ofurlítið meira frjálsræði en heima, og því hafa Íslendingar unnað frá öndverðu.

Stóra-Vatnsleysa.

Sjómenn frá Stóru-Vatnsleysu.

Á lokadaginn 11. maí á hádegi, voru menn lausir úr skipsrúmi og bjuggust til heimferðar. Sammældu sig oft margir, er samleið áttu, og voru þá kallaðir “heimgöngumenn”.
Heimkoman var sannalega fagnaðarfundur, er allt hafði gengið slysalaust, og afli sæmilegur, en ástvinir og vandamenn svo sem úr helju heimtir. Öðru máli var að gegna á þeim heimilum, þar sem unnustinn, sonurinn, faðirinn eða eiginmaðurinn var ekki í flokki heimgöngumanna – sem því miður bar oft við – þá skerandi sorg, sem á þeim heimilum ríkti, getur enginn þekkt nema guð einn og þeir, sem hana reyndu.

Heimildir:
-Oddur Oddsson – Sagnir og þjóðhættir – 1941.
-Málverk eftir Bjarna Jónsson.

Selatangar

Sjóbúð á Selatöngum.

Mosfell

Í bókinni Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, er m.a. fjallað um landnám í Mosfellsveit. Þar segir um landnámsmennina: „Landnámabók (Landnáma) greinir frá því að liðlega 400 nafngreindar fjölskyldur, ásamt vinnufólki, þrælum og búpeningi, hafi numið land á Íslandi á árunum eftir 870.

Landnám

Landnám Ingólfs Arnarssonar náði frá Hvalfjarðarbotni, suður um Þingvallavatn og austur að Ölfusi og öll nes út. Hann byggði bæ sinn í Reykjavík.
Í Sturlubók Landnámu er landnámi í Mosfellssveit lýst þannig: „Þórðr skeggi hét maðr. Hann var sonr Hrapps Bjarnarsonar bunu. Þórðr átti Vilborgu Ósvaldsdóttur. Helga hét dóttir þeirra. Hann átti Ketilbjörn hinn gamli.
Þórðr fór til Íslands ok nam land með ráði Ingólfs í hans landnámi á milli Úlfarsár ok Leiruvágs. Hann bjó á Skeggjastöðum. Frá Þórði er margt stórmenni komit á Íslandi.“ Þórður og Vilborg gætu hafa komið frá Englandi eða víkingabyggðum á Íralandi en Vilborg er sögð dóttir Úlfrúnar hinnar óbornu sem var dóttir Játvarðar Englakonungs.
Áður en Þórður og Vilborg settust að í FjölskyldanMosfellssveit bjuggu þau á Bæ í Lóni, skammt austan Hornafjarðar [líkt og landnámsmaður Grindavíkur 60 árum áður, Molda-Gnúpur Hrólfsson].
Í Hauksbók Landnámu segir af þeim hjónum: „Þórðr byggði fyrst í Lóni austr tíu vetr eða fimmtán; en er hann frá til öndvegissúlna sinna í Leirvági, þá seldi hann lönd sín Úlfljóti; … En hann fór vestr með allt sitt ok nam land  at ráði Ingólfs millum Úlfarsár og Leirvágsár ok bjó síðan á Skeggjastöðum. Hans dóttir var Helga, er átti Ketilbjörn hinn gamla at Mosfelli.“
[Í ljósi sögunnar um Helgufoss, Helgusel og Helgustein er ekki óraunhæft að ætla að nafngiftin tengist dóttur landnámsmannsins, enda selstaðan landfræðilega eðlileg frá Skeggjastöðum þótt hún hafði síðar tilheyrt Mosfelli.]
Talið er að þau Þórður og Vilborg hafi komið í Lón um 890 og gætu því hafa verið í Mosfellssveit um 900 eða laust eftir það.
Ættingjar Þórðar skeggja bjuggu í næsta nágrenni Á Mosfellsheiðivið hann. Helgi bjóla nam land á Kjalarnesi frá Mógilsá og var kvæntur Þórnýju, dóttur Ingólfs Arnarsonar, en Helgi og Þórður voru bræðrasynir. Örlygur gamli Hrappsson, bróðir Þórðar, fékk hluta af landnámi Helga bjólu og settist að á Esjubergi á Kjalarnesi þar sem hann byggði fyrstu kirkju á Íslandi eftir því sem Landnáma hermir. Þriðji frændi Þórðar var Hallur goðlausi sem fékk land frá Leirvogsá og að Mógilsá í Kollafirði, Ásbjörn Össurarson, bróðursonur Ingólfs Arnarsonar og þar með frændi Þórðar skeggja, fékk landið þar sem síðar varð Bessastaðahreppur, Garðbær og Hafnarfjörður.
Vestan við landnám Þórðar skeggja er Gufunes sem var hluti af Mosfellssveit fram á 20. öld. Í einni gerð Landnámabókar er getið um Gufu Ketilsson sem vildi reisa þar bæ en Ingólfur Arnarson rak hann þaðan á brott. Ljóst er að bæjarnafnið Gufunes er ævafornt.
SkeggjastaðirRitheimildir greina ekki frá því hvernig Mosfellssveit byggðist, utan þess sem sagt er um landnámsfólkið á Skeggjastöðum.
Við landnám var Ísland viði vaxið frá fjöru til fjalls. Af þeim sökum var auðveldara að nýta landið til beitar við efri skógarmörk en nær sjó og upphaf byggðar í landinu [er því] að jafnaði frekar til fjalla en við sjávarsíðuna: „Sumir þeir, er fyrstir kómu út, byggðu næstir fjöllum ok merktu at því landskostina, at kvikfét fýstisk frá sjónum til fjallanna.“
Bær Þórðar og Vilborgar, Skeggjastaðir, stóð í norðausturjaðri landnámsins, skammt sunnan Leirvogsár þar sem bæði var lax- og silungsveiði. Bærinn komst fljótt í þjóðbraut því reiðleiðin yfir Svínaskarð liggur framhjá Skeggjastöðum og svonefndur Stardalsvegur yfir Mosfellsheiði lá um bæjarhlaðið.

Helgusel

Landnáma greinir frá fjölmörgum dæmum um landnámsmenn sem reistu bæi sem urðu engin stórbýli, jafnvel þvert á móti. Þannig var því farið með Skeggjastaði, lítið fer fyrir landnámsjörð Mosfellinga í heimildum frá miðöldum, hennar er þó getið í skrá yfir jarðir sem komust undir Viðeyjarklaustur árið 1395 og þá sögð vera 12 hundruð. Hins vegar er ekki minst á Skeggjastaði í upptakningu konungsjarða í Mosfellssveit í svonefndum Fógetareikningum frá miðri 16. öld. Getið eru um Skeggjastaði í Jarðabók 1704 þar sem lýst er Minna-Mosfelli. Þar segir að „selstaða var áður brúkuð frí þar sem nú eru Skeggjastaðir.“
Þórður skeggi og Vilborg eignuðust þrjár dætur, Helgu, Þuríði og Arndísi. Helgu og Þuríðar er getið í Landnámu og Arndísar í Kjalnesinga sögu. Þessar landnámsdætur settust ekki að í Mosfellssveit, þær fluttu með  mönnum sínum í aðrar sveitir, á Kjalarnes, í Biskupstungur og Goðdali. Arndís giftist t.a.m. Þorgrími Helgasyni bjólu frá Brautarholti og bjuggu þau í Hofi á Kjalaranesi. Þau eignuðust soninn Búa og er hann ein aðalpersónan í Kjalnesinga sögu.“

Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 13-15.

Mosfellssveit

Ísólfsskáli

 Gengið var frá Ísólfsskála inn á Skollahraun, litið á hlaðnar refagildrur á tveimur stöðum í hrauninu sem og byrgi refaskyttu og ströndinni síðan fylgt um Tranta og Hattvík inn í Kvennagöngubása þar sem kvenfólk baðaði sig fyrrum. Þar átti að vera „brimketill“, sem fáir hafa augum litið. Hið formfagra Hraunsnes var skammt utar. Ætlunin var að skoða það sem og Veiðibjöllunefið (Vondanef), samhangandi, vestan Mölvíkur.

Refagildra í Skollahrauni

Í örnefnalýsingu af Ísólfsskála (einni af fjórum) segir Guðmundur Guðmundsson, bóndi þar, m.a. frá þessu landssvæði að austanverðu: „Mölvík er vík þessi er með möl í botni. Þá tekur við berg með sjó, sem heitir ekki sérstakt, það er 1-2 mannhæðir, en svo ganga inn í það vik, básar og víkur. Þar vestar er svo Vondanef, og vestur og fram af því er Veiðibjöllunef. Þar hækkar hraunið og breytir um svip. Austar er það lágt og nokkuð sandborið. Þar vestar er bás, sem heitir Heimastibás. Hraun er þar vestur með, þar til kemur nafnlaus bás, svo er Rangagjögur. Austur og upp af honum er hóll, sem heitir Hattur. Enn vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er hraun fram á kamb. Þar vestar er vík, sem heitir Hattvík. Vestan við Hattvík tekur við skerjagarður, sem brýtur á um flóð, og heitir hann Trantar. Þar vestur af er sker, sem heitir Gvendarsker. Milli Tranta og Gvendarskers er mjó vör, sem breikkar þegar inn kemur, og heitir hún Gvendarvör. Upp af Gvendarvör er hóll, sem heitir Nótarhóll.“
Brimketill í KvennagöngubásÍsólfur Guðmundsson, sonur hans, upplýsti nánar um einstök örnefndi, s.s.: „
Veiðibjöllunef: Þegar mikið var um loðnu í Mölvík, sat veiðibjallan mikið á nefinu. Rangagjögur er dálítíð fyrir austan Ísólfsskála. Þetta er sprunga, sem liggur frá suðri til norðurs og frá austri til vesturs, liggur í kross. Þetta er stór og mikil gjá, sem sjórinn gengur í. Hattur er klettur uppí á hraunínu, og er gras á honum. Trantar eru austan við Gvendarvör. Hraun hefur runnið fram í sjó, en klettadrangar standa upp úr.“
Loftur Jónsson skráði sömu örnefni skv. eftirfarandi: „Austan Tranta er Hattvík, smámalarvík. Rangagjögur er lón inn í landið og fellur sjórinn um rifna klöpp. Þar austur af er klettur upp á kampinum með grastó í toppinn sem heitir Hattur. Þar austur af er smábás sem heitir Skálabás. Þar austur af er hraunnef í sjó fram og austur af því eru Kvennagöngubásar. Heimastibás er vestasti básinn. Hraunsnes skagar í sjó fram þar fyrir austan. Þar er talið hálfnuð leið frá Ísólfsskála að Selatöngum en þessi leið er talin um það bil klukkustundar gangur. Veiðibjöllunef, öðru nafni Vondanef , er þar fyrir austan og er það í vesturmörkum á Mölvík.“
Hraundrangur í HraunsnesiÍsólfur Guðmundsson svaraði svo spurningu um Kvennagöngubásana með eftirfarandi hætti. „Er nokkuð vitað um tilefni nafnsins Kvennagöngubásar? Sv.: Þar var kvenfólk sagt baða sig.“
Um vestanvert svæðið segir m.a. í  örnefnalýsingum um Nótarhól; „Á Nótarhól var byrgi. Fram af Nótarhól var annar hóll með sama nafni. En hann er nú horfinn í sjó.“ Jafnframt; „Nótarhóll er hóll upp af Gvendarvör, vestan við hraunið. Nótarhóll dregur nafn af því að dregið var fyrir sel í Gvendarvör og nótin síðan geymd á hólnum.
Norðvestur af Nótarhól er smágerði sem kallað er Hestagerði. Í fjörinni austur af Nótarhól eru tveir svartir klettar sem heita Svörtuklettar. Niður undan túninu er legan og ströndin kölluð Bót.“
Staðreyndin er hins vegar sú að innan við Nótarhól eru einar mestu verminjar á Reykjanesskaganum.

Ísólfsskáli

Nótarhóll – fiskbyrgi og þurrkgarðar.

Sem fyrr segir voru refagildrurnar í vestanverðu Skollahrauni fyrst barðar augum. Sú syðri er öllu heillegri. Fallhellan er þar enn og skammt suðvestar er byrgi refaskyttu. Mikið var um spor eftir refi í þunnföllnum snjónum. Sporin voru nánast öll frá því kvöldið áður svo líklegt má telja að þar hafi nokkrir refir verið á ferð í leit að æti. Í holu skammt ofan við ströndina hafði dauð æðarkolla verið dregin og verkhafi þegar búinn að éta af henni hausinn og öll bitastæðustu innyfli.
Hattur er áberandi kennileiti í sunnanverðu hrauninu, „skammt ofan strandar“. Neðan undir honum er Hattvíkin. Skammt ofan hennar er mosavaxinn hraunhóll. í honum norðanverðum er hlaðið hús, sem nú eru leifar þess. Líklega er hér um að ræða hluta af Nótarhólsminjunum, sem síðar verður vikið að.
Utar bar merkileg sjávarásýnd auga. Þegar létt alda barst að landi lyfti hún sér skyndlega á tilteknum stað utan við Fiskbyrgi við Nótarhólströndina, líkt og hún vildi rísa hátt úr sæ, en tókst það aldrei alveg. Líklega eru þarna drangar í sjónum er lyfta öldunni með þessum áhrifaríka hætti. Jón Guðmundsson frá Skála, lýsti einmitt svæðinu sem slíku í viðtali við FERLIR fyrir nokkrum árum. Sagði hann fiskinn laðast að dröngum þessum og þar hefði lóðningar jafnan bæði verið bestar og vísastar.
Ströndinni var fylgt til austurs með það að markmiði að leita brimketilsins við Kvennagöngubása. Fljótlega kom „Rásin“ í ljós og utar á básunum mátti berja brimketilinn auga. Um er að ræða merkilegt náttúrufyrirbæri. Hann er mun stærri en nafni hans á vestar á Reykjanesskaganum, en bæði dýpri og tilkomumeiri. Í góðu veðri, eftir nokkra sólskinsdaga, hefur þar verið hinn ákjósanlegasti baðstaður. Dýpið er mest um 2 metrar og botninn bæði sléttur og þægilegur. Óvíða er betra útsýni yfir Ægisásýndina í allri sinni dýrð.
Haldið var yfir að Hraunsnesi, þeim einstaka stað frá náttúrunnar hendi. Á tiltölulega litlu svæði í hrauninu hafa Nótarhóllmyndast sérstæðar hraunstrýtur, líkt og í Katlahrauni vestan við Selatanga. Hraun hefur runnið þarna í sjó og náð að mynda þak á hraunelfuna, sem síðan hefur fallið niður, en skilið strýturnar eftir sem augnayndi.
Gengið var yfir að Veiðibjöllunefi með útsýni yfir Mölvíkina. Handan hennar mátti sjá heim að Selatöngum. Eftir að hafa dást að hinu tilkomumikla útsýni austur með ströndinni var hún fetuð sléttfeld til vesturs. Komið var m.a. að sjávarhelli og einstakri ásýnd á Hraunsnesdrangana inn til landsins. Gengið var á millum þeirra og slóði síðan rakinn framhjá Hatti og yfir að Nótarhól.
Austan og norðaustan við Nótarhól er eitt margflóknasta „hraungarðakerfi“ er um getur hér á landi. Garðarnir voru að sjálfsögðu notaðir sem þurrkgarðar á tímum fiskhersluvinnslunnar. Skálholt hafði þarna útræði um tíma, líkt og á Selatöngum og á Þórkötlustaðanesi (Strýthólahrauni), en eftir að það lagðist af á 18. öld tóku heimamenn við mannvirkjunum og nýttu þau fram til loka 19. aldar.
Komið var við í Bótinni, sem Jón Guðmundsson nefndi gjarnan Börubót. Ástæðan var sú að ef ekki var hægt að lenda í Gvendarvör skammt austar, var lent í Bótinni. Þá þurfti að bera fiskinn á börum yfir að Nótarhól og gera að honum þar. Gvendarvör er sunnan af og á millum Nótarhóls og Bótarinnar.
Í óveðrinu s.l. vetur hefur Bótin gengið a.m.k. 10 metra inn á kampinn og sent grjót langt inn á túnsléttur Skálans. Það mun því verða eitt af verkefnum eigendanna n.k. vor að „túnhreinsa“ líkt og gert hefur verið á sjárvarjörðum Grindvíkinga um aldir.
Fr
ábært veður. Gangan tók 5 klst og 5 mín.
Bótin neðan við Ísólfsskála
Heimildir m.a.:
-Örnefnalýsingar fyrir Ísólfsskála – GG, LJ og ÍG

Leirvogsvatn

Í Sögu Mosfellsbæjar er m.a. fjallað um útilegumenn í Mosfellssveit. Þar segir m.a. frá Guðnahelli í Illaklifi.
„Þess voru dæmi að fólk yfirgaf mannlegt samfélag og varð útilegumenn sem héldu sig gjarnan nærri mannbyggð. Árið 1677 segir í Hestaannál frá ókyrrleika af stuldi og ráni víða um land. „Urðu menn þá Guðnahellirvarir og vísir, að þjófar lágu á fjöllum uppi, og drápu naut og sauði sér til matar.“ Ári síðar fundust Eyvindur Jónsson og Margrét Símonardóttir „við helli í Mosfellsheiði fyrir ofan Mosfellssveit og lifðu við Kvikfjárstuld, “ segir í Setbergsannál. Í Alþingisbókum segir að þau hafi fundist í einum helli suður undir Örfiriseyjarseli í Kjalarnesþingi og tekin þar með þýfi af nautakjöti og öðrum hlutum. Ekki er vitað hvar bólstaður þeirra var nákvæmlega en lítið er um hella í Mosfellsheiði sem nýta mátti sem mannabústaði. Helst hafa menn getið sér þess til að útlagaranir hafi búið í hellisskúta undir Illaklifi sunnan við Leirvogsvatn. Hellirinn er um sjö metrar að lengd, fimm á breidd og lofthæð er víða um tveir metrar. Hann hefur í seinni tíð verið nefndur Guðnahellir eftir Guðna Bjarnasyni refaskyttu á Harðastöðum sem hefur legið þar á greni.

Heimild:
-Bjarki Bjarnason og Magnús Guðmundsson, Mosfellsbær, Saga byggðar í 1100 ár, Pjaxi 2005, bls. 98.

Guðnahellir

Guðnahellir.

Sjóbúð

Nafngiftir í veri á Reykjanesskaganum, bæði til forna og allt fram á 20. öld, eru áhugaverðar. Gömul nöfn í verinu hafa nú fengið nýjar merkingar, en fróðlegt er að skoða uppruna þeirra og tengsl við verið og vermennskuna. Verstöðvarnar voru með ströndinni, bæði að sunnanverðu og norðanverðu. Voru það ýmist útver eða heimaver.

Verbúð

Verbúð.

A. -Flutningsmenn – duglegir menn er tóku að sér að flytja færur (föt, gerðir skór, skinnklæði, ýmsir smámunir, verskrínan með smjéri og smálka (kæfu).
B. -Heimarekstrarmenn – þeir sem ráku hestana heim eftir að hafa fært færur í verið.
C. -Þjónusta – sú er sá vermönnum fyrir brauði eða annarri þjónustu – oftast á nálægum bæjum.
D. -Liðléttingur – sá um ýmsa útréttinga og létta vinnu í landi.

Skipin voru oftast tírónir áttæringar með 14 mönnum, auk hálfdrættings. Stundum voru þau þó bæði sexæringar áttrónir, með 10 mönnum, og jafnvel teinæringar, tólfrónir með 16 mönnum.

Hér verða til fróðleiks nefnd 20 störf er tengdust vermennskunni með einum eða öðrum hætti. Eflaust kannast sumir við nöfnin, en í annarri merkingu, s.s. formaður nefndar, lagsmaður konu, leiðsögumaður ferðamann, andþófsmaður (andófsmaður), leimaður íþróttafélags og trúnaðarmaður stéttarfélags eða á vinnustað.

1. -Formaður – sá er stýrði bæði búð og báti – til orðs og æðis.
2. -Vermaður – maður í veri, venjulega útveri, hafði í skrínu 3 fjórðunga af smjöri, 1 sauð, soðinn niður í smálka eða kæfu – kölluð mata, einnig sauðafall reykt, 1 fjórðung af harðfiski og 1 fjórðung af rúgi. Ennfremur 2 pund af kaffi, 2 pund af kandíssykri og 1 pund af kaffirót. Dugði matan ekki varð vermaður mötustuttur.
3. -Háseti – hver við sinn keip (á kyndilmessu – 2. febrúar) – ræðari og vermaður á bát.
4. -Lagsmaður – lá með öðrum í bálki.
5. -Þóttulagsmaður – samsetungur á þóftu.
6. -Hlutalagsmaður – tveir hásetar voru um eitt kast er skipt var. Formaður skipti, tók besta fiskinn af óskiptu sem skipsfisk, en deildi öðrum öðrum þorskafla í köst, nema ef tekið var frá fyrir segli, önglum eða skipi.

Þorlákshöfn

Þorlákshöfn – verbúðir.

7. -Hálfdrættingur – íhlaupamaður, oftast unglingur. Margur vermaðurinn byrjaði sem hálfdrættingur.
8. -Kaffihaldari – ráðsettur skipverji er hélt utan um kaffiforðann, sauð og skekknti kaffi, ábyrgðarstarf.
9. -Sögumaður – sá er flutti sögu, las sögur, hafði uppi kveðskap, lagði gátur og „skanderingar“ (spil, tafl, skák, kotru, myllu, goða eða að „elta stelpur“.
10. -Leiðsögumaður – sá er sagði til um dýpið hverju sinni.
11. -Miðskipsmaður – besta sætið, minnst velta og létt að draga – oft yngstu mennirnir.
12. -Barkamaður – miðskipa – andæft við miðkipsmann.
13. -Fyrirrúmsmaður – miðskipsmaður mót barkamanni.
14. -Framámaður – sá er stökk fram við lendingu hvoru megin og hélt skipinu kyrru meðan seilað var, mikið vandaverk og eingungis heljarmönnum ætlað.
15. -Afturámaður – sá sem var í slógrýminu þar sem útgerðin fór fram.
17. -Andþófsmaður – hélt skipinu upp í vindinn á veiðum og gætti þess að það ræki ekki, yfirleitt tveir.
16. -Landverkamaður – vann og verkaði fiskinn í landi – oft unglingur.
18. -Leikmaður – þátttakandi í leikjum, s.s. glímu, aflraunum, höfrungahlaup, ríða til páfans, járna pertu, sækja smér í strokk o.fl. Inni voru sagðar sögusagnir, sögulestur, kveðnar rímur, lagðar gátur og skanderingar (kveðast á), ennfremur spil, tafl, skák, kotra, mylla, goði og að elta stelpu.
19. -Trúnaðarmaður – sá er tók að sér að skrifa bréf fyrir óskrifandi, t.d. til kærustu.
20. -Heimgöngumenn – menn er sammældu sig til farar heim úr veri 11. maí.

Verbúð

Verbúð á sunnanverðum Reykjanesskaga.

Happadrætti fengu menn er veiddu annað en þorsk á öngul sinn. Eign þess er dró.

Samheiti fyrir sjóklæði var bösl.

Fiskur verkaður og flattur. Flattur fiskur var hlaðinn í kös og síðan lagður á lága grjótgarða (vergögnin). Fiskurinn þurfti að skelja í frostlausu. Þá var hann góð vara í kaupstað. Fékk fiskurinn ekki þurrk vildi hann slepja og varð maltur. Þá varð hann óhæf verslunarvara. Ef fiskurinn fraus í herslunni var hann ágæt matvara, en gekk illa í kaupstaðabúa. Væri hann breiddur upp nýr og þornaði án þess að frjósa, varð hann ólseigur og illur til átu, en ágæt kaupstaðavara. Það gat því verið vandlifað í veri.

Ef einhver skipverji veiktist , var honum gefinn hlutur og jafnvel þótt hann lægi alla vertíðina.

Í róðri gátu einhverjir farið að “gifta sig” og “kalla á Eyjólf”, en svo var kallað í spaugi, er menn gubbuðu af sjósótt; hið fyrra nafnið var dregið af veislunni, sem fugl og fiskur fékk af upplátinu, en hið síðara af hljóðinu við uppköstin.

Heimildir m.a.:
-Oddur Oddsson – Sagnir og þjóðhættir – 1941.

Verleiðir

Búri

Hraunhellir er skilgreindur sem „almyrkt holrúm í hrauni

Hellar

Hraunhellar á Reykjanesskaga – yfirlit.

Hraunhellar geta verið hellar af náttúrulegum uppruna eins og hraunrásir (t.d. Búri), hellir í hraundrýlum (finnnst t.d. í Hnúkum ofan Selvogs, hraunbólur, sprunguhellar (sjá Hundraðmetrahellir í Helgadal), gervigígahellar og gígahellar líkt og Þríhnúkagígur í Bláfjöllum. „Hraunhellar geta einnig myndast við svokallaða troðhól, þá treðst kvikan úr eldfjalli undir heitt hraunyfirborðið sem þegar er farið að storkna og leitar niður í óstorknaðan hluta hraunsins. Við þetta lyftist yfirborð þess og getur þykknað mikið á afmörkuðum svæðum.“ Sjávarróf getur líka búið til hraunhella þegar hraunið er á sjávarsíðum, t.d. í Herdísarvíkurbergi og Krýsuvíkurbergi. En þeir geta líka verið manngerðir.

Til þess að teljast vera hellir er gjarnan við það miðað að holrýmið nái a.m.k. 20 metrum að lengd en annars talað um skúta eða hraunskúta. En í flestum tilfellum er talað um hraunrásir í þessum samhengjum.

Aðallega finnast hraunrásir í helluhraunum þar sem efsta lag þunnfljótandi basaltkviku hefur storknað en bráðið hraunið haldið áfram að streyma í afmörkuðum farvegum undir yfirborðinu. „Rásirnar eru ýmist í gígveggjum eða í efri hluta hins nýrunnað hrauns sem þegar hefur storknað að hluta. Einnig geta slíkar rásir eða hraungöng myndast mun framar í helluhraunum.“ Þegar eldgosið rénar sjatnar í þessum farvegum og eftir standa langir hellar. Stundum þó eru þeir ennþá hálffylltir af hrauni. Svo þarf líka hallinn í göngunum vera nægilegur, til að kvikan gætti runnið niður göngin eftir að ný hættir að berast.

Litadýrð í mörgum hraunhellum er til vegna efnasambanda sem leka úr veggjunum, sbr. hellirinn FERLIR í Brennisteinsfjöllum.

Margs konar myndir finnst í hraunhellum, þar á meðan dropasteina, dropsteina, kleprasteina, hraunfossar og -strá, stundum líka mannvistarleifar.

Efnið má flokkast í 3 hópa: 1) myndun í samhengi við rennsli hraunarinnar í hellinum, t.d. storkuborð; 2) myndun í samhengi við afgangsbráð sem lekur inn í hellinn, t.d. dropsteinar; 3) myndanir sem eru ekki úr hrauni eins og ísmyndanir, sandkastalar, dropasteinar (úr kálki) o.s.fv.

Mest áberandi eru dropsteinarnir og hraunstrá úr hraunbráð.  Þeir myndast þegar hraun er hálf-storknuð og „svokölluð afgangsbráð er á hreyfingu í æðum inni í hrauninu og þrýstist út í holrúm í hrauninu og þar með inn um veggi og loft hellanna. Afgangsbráð sem lekur niður úr hellisloftinu myndar hraunstrá“ og spenar „en á gólfinu hlaða droparnir upp dropsteina.“ Dæmi um slíka hella á Íslandi eru Bálkahellir, Snorri, Búri, Raufarhólshellir og margir fleiri.

Dropsteinn

Dropsteinn í Snorra.

Þekktir hraunhellar og -skútar á Reykjanesskagnum eru í dag, árið 2022, a.m.k. 650 talsins. Árið 1975 var fjallað um fjölda hraunhella á Skaganum í Tímanum þar sem nokkrir slíkir voru nefndir til sögunnar. Þess var jafnframt getið að „eflaust ættu fleiri sambærilegir eftir að finnast á næstu árum“. Sú varð raunin. Með tilkomu áhugafólks um hellana fundust allnokkrir áður óþekktir, en finnendur voru oftar en ekki uppteknir við að nefna þá í höfuðið á sjálfum sér, sbr. Stefánshellir. Hellarannsóknarfélag Íslands (HERFÍ) var stofnað, skipað hugsjónarfólki í fyrstu, en breyttist síðar í hóp sérvitringa.

Ferlir

Í hellinum FERLIR í Brennisteinshellum.

FERLIRsfélagar hafa á undanförnum áratugum fundið fjölda nýrra hella á Reykjanesskaga. Fram til 2010 upplýstu þeir HERFÍ um fundina, en eftir að einstrengisleg stefna HERFÍS um lokun hella á svæðinu fyrir öðrum en félagsmönnum varð ofan á, hafa FERLIRsfélagar ekki upplýst félagsmenn um hellafundi. Þeir hafa haldið þeim út af fyrir sig. Í millitíðinni var stofnaður hópur áhugafólks um hellarannsóknir (ÍSHERF), sem er miklu mun áhugaverðari samstarfskostur.

Bjargarhellir

Hraunrós í Bjargarhelli.

Í allnokkrum hraunhellum á Reykjanesskagnum er að finna mannvistarleifar, sem fornleifafræðingar hafa virt af vettugi. Án efa eiga fleiri slíkir eftir að finnast á svæðinu, enda má telja augljóst að fólk á því hafi nýtt sér hin náttúrulegu skilyrði á ýmsan máta við búsetu þess í gegnum árhundruðin.

Eftir að Holuhraun myndaðist norðan Vatnajökuls komu í ljós nýir hraunhellar. Reikna má með enn nokkrum slíkum eftir að áhugafólk fer að skoða hið nýja Geldingadalahraun í Fagradalsfjalli.

Heimild:
-https://is.wikipedia.org/wiki/Hraunhellir

Maístjarnan

Nýfundnir dropsteinar í helli á Reykjanesskaga.

Festisfjall

Í „Þjóðsögur og munnmæli“ skráðum af Jóni Þorkelssyni segir m.a. um forna sögn af Írum á Íslandi:
Irar-1„I. Forn sögn er það ein, að í gamalli kálfskinnsbók frá anno 400 post Cristum natum standi, að Ísland hafi verið bygt af Írum, er hafi hingað út farið á 8 skipum og verið hér um 200 ár: Eptir það er mælt, að niðjar þeirra hafi hingað komið, er bygð áttu á Írlandi, og séð hér yfir 50 elda, og var þá útdautt hið gamla fólk, qvi delirabant dix. hinc ven. Tröll. Þar segir og um Siglubergsháls, sem skuli hafa verið í Grindavík. Þar skyldu Írskir hafa fest skipum sínum, þá hingað komu, og segja gamlir menn, að um stórfjörur megi þar sjá járnhringa fasta í sjávarklöppunum.
(Eptir handriti sjéra Friðriks Eggertz 1852).“

Heimild:
-Þjóðsögur og munnmæli, Jón Þorkelsson skráði, 1899, bls. 1.

Papahellir

Papahellir? á Suðurlandi.

Prestastígur

Nafnið Prestastígur er nýlegt heiti á fornri og fyrrum fjölfarinni þjóðleið á Reykjanesi. Sú skýring á nafninu er þó líkleg að með prestakallalögum frá 1907 var Kirkjuvogssókn í Höfnum lögð til Staðarprestakalls í Grindavík og hefur því Staðarprestur oft átt erindi um þessa fornu leið.

Prestastígur Þegar þessi forna þjóðleið er farin frá Höfnum liggur leiðin frá Kalmanstjörn um Hafnarsand fyrir norðan Presthól og um Kinn, þar sem farið er ofan í sigdalinn upp af Stóru Sandvík, þaðan hjá Haug og yfir Haugsvörðugjá og síðan með rótum Sandfellshæðar. Þar fylgir gatan hraunjaðri Eldvarpahrauns. Á vegi okkar verður þá nýlegur vegaslóði sem er tilkominn vegna lagningar ljósleiðara. Þegar kemur á móts við Rauðhól er farið yfir hraunhaft að hólnum og síðan hjá Eldvörpum og yfir Hrafnagjá og þaðan að Húsatóftum í Staðarhverfi.
Öll þessi leið [15 km] er vel vörðuð og ber þess merki að þar hefur verið fjölfarið um aldir. Víða sést hvar umferðin hefur markað alldjúpar götur í hraunið og lausagrjót hefur verið tínt úr götunni og lagt til hliðar. Þetta var aðalleið vermanna af Suðurlandi, sem sóttu sjó frá Höfnum og af Rosmhvalanesi og þar hafa skreiðarlestir verið á ferð. Eins hafa Grindvíkingar lagt leið sína þarna um á þeim tíma sem þeir þurftu að sækja verslun til Básenda, þótt þeir hafi einnig farið sjóleiðina, en á 17. og 18. öld urðu þeir að sæta því í nokkra áratugi að sækja verslun þangað sökum þess að kaupmenn treystu sér ekki til að sigla til Grindavíkur vegna skipskaða sem urðu þar á fyrri hluta 17. aldar. Þá hefur Sigvaldi Sæmundsson póstur verið þarna á ferð á leið sinni milli Básenda og Grindavíkur en hann var fyrsti póstur sem ráðinn var með skriflegum samningi til póstferða árið 1785.

Hafnir voru fyrr á öldum blómlegur útgerðarstaður og var þar stundaður umfangsmikill búskapur bæði til lands og sjávar. Vermenn fjölmenntu þangað á vertíðum og eru sagnir til um stórfellda útgerð Ketils VarðaKetilssonar í Kotvogi, en hann gerði út þrjú skip á árunum 1870 – 1880 og voru þá um 50 sjómenn á hans vegum auk 22 annarra heimilismanna. Ketill var meðal auðugustu manna landsins á sínum tíma. Hann byggði steinkirkju þá sem enn stendur á Hvalsnesi, en Ketill átti m.a. alla Hvalsnestorfuna og Járngerðarstaði í Grindavík.
Landkostum hefur á síðari árum hrakað mjög í Höfnum vegna sandágangs og margir bæir farið í eyði af þeim sökum, þar á meðal Haugsendar, sem fóru snemma í eyði. Haugsendar voru milli Kirkjuvogs og Merkisness, tún þar voru mikil, húsaskipan vegleg og myndarlega búið. Sagnir um mannlíf þar lifa í gömlum húsgangi:

Á Haugsendum er húsavist
sem höldar lofa.
Þar hefur margur glaður gist,
og gleymt að sofa.

Í seinni tíð er farið að nefna þessa fornu þjóðleið Prestastíg en hvergi finnast þess merki í gömlum heimildum. Geir Bachmann lýsir þeim þjóðleiðum sem frá Grindavík liggja í sóknarlýsingu frá 1840. Hann nefnir með nafni fyrstu þrjá aðalvegi yfir hraunin en segir svo: „Sá fjórði og síðasti vegur sem úr sókninni liggur og alþjóðarvegur má kallast, liggur upp frá Húsatóftum í útnorður ofan í Hafnirnar og er hann sá einni sem héðan farinn verður þangað“. Þetta er eini vegurinn frá Grindavík sem Geir nefnir ekki með nafni.
Jarðfræði (Haukur Jóhannesson)

PrestastígurPrestastígur liggur milli tveggja heimsálfa þar sem hann liggur yfir flekaskilin milli Evrópu- og Norðurameríkuflekanna, sem svo eru nefndir. Því má segja, að þegar Prestastígur er genginn, þá fari ferðalangar frá Ameríku og til Evrópu. Reykjanes er að vissu leyti einstakt í sinni röð þar sem þar er eini staðurinn á jarðríki þar sem sést greinilega hvernig úthafshryggur gengur á þurrt land. Best er að skoða sprungukerfið í Stóru-Sandvík eða sunnan við Valahnúk.
Þegar farið er frá Kalmanstjörn er gengið yfir nokkuð slétt, uppblásið helluhraun. Helluhraun þetta er hluti af stórri dyngju sem jarðfræðingar nefna Sandfellshæð. Í Sandfellshæð er stór gígskál, Sandfellsdalur, og þar á hraunið upptök sín. Hraunið er talið hafa runnið fyrir um 12 þúsund árum. Þegar norrænir menn komu til Íslands, síðla á níundu öld, var svæði þetta allt vel gróið en eftir mikil eldsumbrot og öskufall á Reykjanesi á öðrum fjórðungi þrettándu aldar hófst uppblástur á svæðinu. Ef grafið er niður í sandbollana í hrauninu þá er komið niður í jarðveg. Í hrauninu ber mikið á hraunhólum sem eru sprungnir í kollinn.

Þar sem Prestastígur liggur hæst er komið fram á gjábrún. Þar heitir Haugsvörðugjá. Uppi á bakkanum vestan megin eru gjallgígahrúgöld og nefnist þar Haugur. Í kringum gígana er þunnt gjallkennt hraun og er það eldra en 8000 ára.
Ef veður er gott er þess virði að taka stuttan útúrdúr og ganga á Einiberjahól sem er ævagamall, stakur gígur skammt sunnan við Prestastíg, suðvestur af Sandfellshæð.
HúsatóftirSunnan undir Sandfellshæð er stakur gíghóll, Rauðhóll og frá honum hefur runnið hraun til suðurs og suðvesturs og er Prestastígur milli hrauns og hlíðar, þ.e. liggur um slakkann þar sem Rauðhólshraunið rennur upp að Sandfellshæð. Rauðhólshraun er 2000-3000 ára.

Gengið er framhjá Rauðhól og austan við hann tekur við mosagróið apalhraun. Það er yngsta hraunið á svæðinu og rann árið 1226. Þá opnaðist liðlega 10 km löng gossprunga og nefnist hún Eldvörp. Meðal jarðfræðinga er hraunið nefnt einu nafni Eldvarpahraun en í tali heimamanna hétu einstök svæði þess ýmsum nöfnum, m.a. Sundvörðuhraun. Gígarnir í Eldvörpum eru fjölmargir og margir þeirra fallegir. Flestir eru gjall- eða klepragígar og eru nær allir óskertir og er gígaröðin ein af fáum á Reykjanesskaganum sem hefur [að mestur] verið hlíft við efnistöku. Um tveimur kílómetrum norðar en þar sem Prestastígur Prestastígurfer yfir gígaröðina er allnokkur jarðhiti og þar hefur verið borað á vegum Hitaveitu Suðurnesja. Eldsumbrotin á þrettándu öld yst á Reykjanesskaganum stóðu með hléum frá um 1210 til 1240. Mest gekk á árið 1226. Þessi hrina er nefnd Reykjaneseldar af fræðimönnum.

Þar sem Prestastígur fer yfir þetta sögulega hraun er það um 1,5 km á breidd. Þá er komið ofan í kima upp í hraunið og fyrst ber þar við stór og mikil gjá er nefnist Hrafnagjá og er hún í svonefndum Tóttarkrókum. Hraunið sem tekur við er blásið helluhraun og úr Sandfellshæð eins og vestar. Í Tóttarkrókum eru forn hlaðin byrgi sem menn vita nú ekki til hvers voru notuð. Austan við Eldvarpahraunið og niður að Húsatóftum ber mikið á stórum opnum gjám. Fyrr er nefnd Hrafnagjá og næst er Miðgjá og næst Húsatóftum er Baðstofa.

Heimild um jarðfræði: Kristján Sæmundsson. Jarðfræðikort af Svartsengi, Eldvörpum og Reykjanesi, blað 2. Unnið af Orkustofnun fyrir Hitaveitu Suðurnesja.

Ólafur Sigurgeirsson, var verslunarmaður í Reykjavík og um árabil einn af fararstjórum Ferðaf. Íslands.

Prestastígur

Rauðhóll

Eldvarpahraunið (það yngsta) kemur frá syðsta hluta Eldvarpanna og niður til sjávar á Staðarbergi á milli Klofningahrauns að vestanverðu og Sundvörðuhrauns að austanverðu. Neðst, austan þess að austanverðu, er Lynghólshraun, nokkuð gróið. Í örnefnalýsingu fyrir Stað segir að „Lynghólahraun er breitt og víðáttumikið. Dregur það nafn af Lynghólum, sem eru ávalar, líttgrónar hraunbungur, rétt ofan við gamla veginn – en hann liggur spölkorn fyrir neðan bílveginn“. Enn eitt hraunið, „Básahraun er á hægri hönd, ofan við Hróabása.“ Í Básum, skammt ofan við bergið, má m.a. finna eina af fallegri hlöðnu refagildrum á Reykjanesskaganum sem og aðra skammt ofar, í vörðu.

Eldvörp

Áður en lagt var af stað hafði verið haft samband við Kristján Sæmundsson, jarðfræðing, sem gengið hefur mikið um þetta hraunssvæði sem og önnur á Reykjanesskaganum. Kristján sagði m.a.: „Klofningahraunið er rúmlega 2000 ára.
Aðalgígurinn í því (og raunar sá eini) er Rauðhóll. Tvö stór jarðföll eru suðvestan við hann. Eldvarpagígaröðin (frá 13. öld) er 400-500 m austan við Rauðhól. Hraun úr henni nær að hólnum austan og norðan megin. Það er hleðsla í gígnum (í Rauðhól) þegar kemur dálítið inn í hann sunnan frá. Gat ekki séð til hvers hún hefði verið, sennilega þó skýli.
Sunnar eru gígar sem tilheyra Eldvarpagosinu (frá 13. öld) og austan við þá er stakur eldri gígur, nokkuð gróinn, sem stendur upp úr Eldvarpahrauninu. Annar álíka stór er norðaustar, með gróðurtorfu innanvert, í hávestur frá borholum Íslandslax, svo sem 500 m frá. Sá þriðji, er langminnstur suðvestan við þann fyrrnefnda (suðvestastur í röðinni).
Eldvörp Milli hans og þeirra eru 200-300 m. Ég er ekki alveg viss um aldur þessara gíga, fannst þeir myndu vera eldri en Rauðhóll. Það þarf samt að athuga betur. Þarna við gígana heitir einhvers staðar Mönguketill. Klofningar munu vera allhá brún, mjög sundurklofin, í Klofningahrauni. Þar heitir einhvers staðar Dringull. Gott væri ef hægt væri að staðsetja þessi örnefni og þá líka Bíldarholt sem á að vera 0,8-1 km suðvestur frá Rauðhól. Þessi örnefni fékk ég hjá Ólafi Gamalíelssyni skömmu áður en hann lést.“
Þarna kemur fyrir örnefnið Mönguketill og að hann geti verið suðvestan við neðstu gígana. Möngusel og Mönguselsgjá eru til efst í Hafnasandi, nálægt svonefndum Nauthólum. Selið er í hraunskál, opinni til norðurs. Ofan hennar er Mönguselsgjá. Spurningin er hvort þarna kunni að vera einhver tengsl?
Gengið var inni í Óbrennishóla. Ofarlega í þeim austasta virtist vera hlaðið aðhald. Stígur liggur upp úr hólnum efst með stefnu í sunnanverða Eldvarpagígaröðina suðaustan við Rauðhól.
Áður en lagt var af stað var rætt við Helga Gamalíelsson. Hann sagði Mönguketil auðfundinn. Vegslóði lægi upp í hann. Um km frá honum til austurs væru Klifsgrenin svonefndi, Efra- og Neðra. Hinum megin í Eldvarpahrauninu, að vestanverðu, væru á annan tug grena. Neðar í hrauninu væru örnefni sem hétu Einbúi og Kerling, en hann væri ekki viss um hvort væri hvað.
Klofningar eru löng læna upp úr Klofningahrauni og í gegnum Eldvarpahraun sunnan Rauðhóls. Í örnefnalýsingu fyrir Stað er heitið Klofningar samheiti fyrir hraunið, sbr. „Upp af hraunlægðinni (í Moldarlág austan við Reykjanesklif, en klifin eru tvö á sitt hvorum hábrúnum Berghrauns, Staðarklif að vestanverðu og Reykjanesklif að austanverðu) eru Klofningar eða Klofningshraun, sem ná austur að Lambagjá, en sú gjá er upp af Moldarláginni.“
Eldvörp Í Eldborgarhrauni liggur önnur hrauntunga til suðausturs. Í henni er m.a. Óbrennishólar. Sunnan þessarar hrauntungu er hraun er nefnist Berghraun.
Ætlunin var að ganga áfram upp úr hólunum í Eldvarpahrauni og síðan upp í Rauðhól. Rauðhóll er eini gígurinn í Klofningahrauni. Tekið átti hús á hann. Suðvestan hans eru tvö stór jarðföll. Þar eru sagðar hafa sést hleðslur, sem ætlunin var að kanna. Þá var ætlunin að skoða gígana sunnar í Eldvarpahrauni sem og hin miklu hrauntröð sunnan þeirra. Á leiðinni var ætlunin að finna fyrrnefnd örnefni Mönguketill, Klofningar og Dringull á þessu svæði. Ekki var ætlunin að líta á svonefnt Vatnstæði í Klofningahrauni ofan við Hróabás að þessu sinni.
Yfirleitt voru nöfnin á básum undir Staðarbergi (Sölvabásar eru þar einnig, en austar) þessum höfð í fleirtölu, þótt í rauninni sé hvor um sig bara einn bás. Hróabásar eru við vestari bergsendann. Í þeim var flóruð vör og sjást hennar enn nokkur merki. Bendir það til þess að þarna hafi eitt sinn verið útræði, en um það eru engar skráðar heimildir – aðeins munnmæli. Í Sölvabásum áttu Húsatóftir sölvatekju þó svo að vestari mörg Staðar hafi verið í „austanverðan Valagnúp“.
Í örnefnalýsingu fyrir Stað segir að „Dringull heitir stakur klettur, u.þ.b. 2-3 km norðvestur af Mölvík. Var hann alkunnugt kennileiti í smalamennskum hér áður. (Austur af honum er Stampahraun)“.
Eldvörp Samkvæmt þessu átti Dringull að vera á vesturmörkum Klofningahrauns og áberandi kennileiti þar. Vestan við Hróarbása er Mölvík og enn vestar Sandvík. Þetta, niður við ströndina, er nefnt hér til að auðveldara er að átta sig á kennileitum uppi í landinu. Beint upp af Hrófabásum, ofan þjóðvegarins er Vatnsstæðið. „Rétt við veginn ofan við Mölvík er smátjörn, nefnt Vatnsstæði eða Mölvíkurvatnsstæði til aðgreiningar frá samnefndum tjörnum við Húsatóftir og Járngerðarstaði.“ Jafnframt segir í örnefnalýsingunni að „norðaustur af Vatnsstæðinu er Mönguketill, einstakt eldvarp. Tófugreni er í Möngukatli.“
Ferðin upp í Rauðhól gekk vel, enda að mestu um slétta hraunlænu að fara milli úfnari hrauna. Á leiðinni var gengið framhjá Svinx þeirra Grindvíkinga, en hann gefur hinum egypska frænda sínum lítið eftir í reisn. Suðaustan við Rauðhól er stór kvikuþró og önnur mun stærri suðvestan við hann. Á milli hennar og Rauðhóls er mikil hrauntröð. Allt svæðið var gaumgæft með það fyrir augum að finna framangreindar hleðslur, en án árangurs að þessu sinni. Snjór þakti jörð að mestu og gerði það leitina erfiðari en ella. Fljótlega er ætlunin að fara með Kristjáni Sæmundssyni í Rauðhól og njóta leiðsagnar hans um svæðið.
Gengið var niður um Klofið, en síðan vent til austurs inn í Eldborgahraunið og síðan fljótlega til suðurs, að gígaröð þar niðri í hrauninu. Kristján hafði sagt þessa gíga vera hluta af nýrra Eldvarpagosi, frá 13. öld, en syðstu gígarnir að ofanverðu, austan Rauðhóls, tilheyra því einnig. Sjá mátti göt niður í annars slétt hraunið og smágígaröð. Þá var komið að stærsta gígnum í neðstu röðinni, fallegur gjall- og klepragígur. Sunnan hans er enn einn gígurinn, Mönguketill. Úr honum liggur falleg hrauntröð til suðurs.
Eldvörp Að þessu sinni var gengið til austurs frá stóra gígnum. Austan hans eru nokkrar smávörður við greni. Ljóst er að sum þeirra eiga íbúa því sumsstaðar sáust spor eftir skolla, ýmist tvo og tvo saman eða einn sér, og þá móóttan.
Reynt var að skoða klapparhæðir á leiðinni, en sagan segir að á tilteknu svæði hafi nokkrir Grindvíkngar haft bruggaðstöðu í myndarlegri hraunbólu. Gat hafi verið á þakinu, en undir vatn. Enn ætti að sjást móta fyrir tunnustöfum í bólunni. Hins vegar hafi henni verið lokað með hraunhellum og því torfundin, enda gekk það eftir – að þessu sinni.
Svæðið í heild er einstaklega fallegt og bíður upp á ýmsa möguleika til útivistar. Það eru ekki mörg svæðin við þröskuld Stór-Grindavíkursvæðisins sem og annarra hluta höfuðborgarsvæðisins er bjóða upp á slíka jarðfræðibirtingu sem þarna er; gígaröð á sprungurein, hraun frá sögulegum tíma, mannvistarleifar frá óskilgreindum tíma (sumir segja frá því fyrir norrænt landnám), óteljandi hraunmyndanir og gerðir hrauna, undirheima og allt annað það sem áhugavert gæti talist á ekki stærra svæði.
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín.

Heimildir m.a.:
-Kristján Sæmundsson, jarðfræðingur.
-Örnefnalýsing fyrir Stað í Grindavík.

Eldvörp

Eldvörp.