Magnús Már Lárusson skrifar um Hafnarfjörð í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar 1957 undir fyrirsögninni „Sitthvað um Fjörðinn„.:
Fyrstur manna, sem notað hafa höfnina í Hafnarfirði, er Flóki Vilgerðarson, sem öllum er kunnur undir heitinu Hrafna-Flóki. Segir Landnáma frá því, eins og textinn er í Hauksbók og Þórðarbók, en Hauksbók, sem eldri er, var rituð fyrir Hauk Erlendsson, er dó 1334. Jafnframt er frá því skýrt, að þeir Hrafna-Flóki og félagar hans fundu hval á eyri út frá firðinum og kölluðu Hvaleyri. Hvaleyri er því eitt með elztu örnefnum á þessu landi. Ekki er unnt að nefna Hafnarfjörð mikinn fjörð. Miklu fremur er um vog að ræða eða vík. Þetta er samt svo til komið, að skorningurinn er nokkuð þröngur, þótt eigi sé hann langur, en í honum myndazt að sunnanverðu hið ákjósanlegasta afdrep fyrir smærri skip, eða hafskip landnámsmanna. Það getur vart leikið vafi á, að heitið sé upprunalegt og fornt mjög, m. a. má benda á, að það kemur fyrir í Kirknatali Páls biskups Jónssonar í Skálholti, og var það tekið saman um 1200. Að vísu þekkist það ekki í svo gömlu handriti, heldur eingöngu frá því um 1500 og nokkru yngra. Í Íslendingasögum getur heitisins aldrei, né heldur í Biskupasögum og Sturlungu, en í fjarðatali einu frá því um 1312. Það virðist sem svo, að hin ákjósanlega höfn hafi ekki verið notuð, enda voru ef til vill aðrir staðir hentugri, þegar á stærð skipa og samgöngur innanlands er litið. Það þurfti ekki svo stóra smugu til þess að geyma skip 10.—13. aldar.
Nokkuð var Hafnarfjörður úrleiðis miðað við flutningaþörf almennt. Að vísu var stórbýli í grennd, þar sem Garðar á Álftanesi voru, auk annarra mikilla bújarða, en fiskverzlun var reyndar ekki orðinn enn eins snar þáttur í verzlunarmálum Íslendinga og seinna varð. Þótt stórbýlin væru í grennd, þá voru einnig góðar smáhafnir mýmargar við Faxaflóa aðrar en Hafnarfjörður. Eins og samgöngumálum var háttað innanlands, gat Hafnarfjörður ekki fengið neina verulega þýðingu í bili. Hin mikla útgerð, sem var á 10.—13. öld, var ekki staðsett á Hvaleyri eða Álftanesi. Hún var suður á Reykjanesi og yzt á Snæfellsnesi, að ótöldum Vestfjörðum. Að vísu má leiða allgóð rök að því, að Garðar, hin týnda landnámsjörð Skúlastaðir, hafi snemma klofnað upp í fleiri smærri einingar og ekki sízt vegna afstöðunnar til útvegs, en veitt er fyrir heimamarkaðinn, og þegar um 1200 eignaðist Skálholtskirkja þó nokkrar minni jarðanna. Fiskur af þessum slóðum hefur sennilega farið mikið til austur fyrir fjall, sá sem ekki var neyttur heima.
Það er og eftirtektarvert, að ekkert býli fær nafnið Höfn eða Hafnarfjörður eða bara Fjörður. Þar eru önnur nöfn, svo sem Hvaleyri og Ófriðarstaðir. Þetta bendir til þess, að á þeim tíma, sem nafngiftin er áköfust, viðurkenna menn að vísu ágæti hafnarinnar, en hins vegar hefur hún ekki það mikla þýðingu, að hún hafi áhrif á nafngjöfina.
Fram á seinni hluta 13. aldar voru hafskipin ekki svo ýkjastór, og lesi menn Grágás eða Jónsbók, hinar fornu lögbækur, þá munu menn finna ýtarleg ákvæði um skipadrátt og annað, sem lýtur að því að setja skipin upp í naust yfir vetrartímann. Það er þá eðlilegt, að gullaldarritin skulu ekki geta Hafnarfjarðar að Kirknatali og Landnámu slepptum. Eins þegja og annálarnir lengi framan af. Það styður og ofangreinda skoðun. Samgöngur voru ekki svo litlar milli landa, að það eitt var nægilegt til þess að skapa þögnina um Hafnarfjörð.
En í lok 13. aldar er áhrifa krossferðanna verulega farið að gæta í Norður-Evrópu. Krossferðirnar höfðu aukið þekkingu Evrópumanna á margan hátt; menn kynntust aftur verzlunarleiðum og verzlunaraðferðum, sem voru hálfgleymdar síðan á velgengnisdögum Rómaveldis. Í Evrópu rísa aftur upp borgir, sem legið höfðu niðri um skeið. Borgirnar framleiddu ekki nóg handa sjálfum sér, heldur varð að afla bjarga með verzlun. Iðnaður borganna og viðskipti gerðu borgarbúanum kleift að afla sér matar á annan hátt en að framleiða hann. Jafnframt varð dirfskan meiri við að búa stór skip, mun stærri en eldri skipin í Norður-Evrópu og á Norðurlöndum. Að vísu voru þau varla betur sjóhæf, en þau báru meira og það fór smám saman að tíðkast að setja á þau þilför. Er skipin stækkuðu, urðu kröfurnar til hafnanna aðrar og meiri en áður. Jafnframt því fóru Englendingar og Þjóðverjar að stunda eigin siglingar í ríkara mæli en áður. Þeir sóttu til Noregs ýmsar mikilvægar afurðir, meðal annars skreið. Og samfara þessum breyttu verzlunarháttum, virðist allmikil veðurfarsbreyting hafa átt sér stað. Hér á landi þvingaði hún fram nokkra breytingu á atvinnuháttum. Í stað þess að leggja aðaláherzlu á landbúnaðinn og hafa mikinn nautpening og stunda einhverja kornrækt, eru menn tilneyddir að stunda sjóinn meir en áður. Ennfremur rak á eftir fýki útlendra í skreið, vöru, sem var auðgeymd og flytja mátti um langar leiðir. Hér héldust í hendur innlendir og erlendir hagsmunir.
Þessi breyting er um það bil fullgengin um garð um 1330—1340. Þá sjá menn, hvernig munkarnir á Helgafelli hafa notað aðstöðu og tækifæri til þess að leggja undir klaustrið allar helztu útvegsjarðirnar á Snæfellsnesi á örfáum áratugum. En skipin eiga enn eftir að stækka. Þegar komið er fram á þennan tíma um miðja 14. öld, getum vér átt von á því að finna Hafnarfjarðar getið í heimildum. Enda fer að vonum, því í annálum er þess getið, að 1391 kom skip af Noregi til Hafnarfjarðar, og 1394 er þess getið, að skip hafi lagt í haf frá Hafnarfirði. Og nú er skammt að vænta þess, að Fjarðarins sé getið, svo að sjá megi, hversu þýðingarmikil höfn hann er.
Árið 1412 er merkisár í sögu landsins. Það er samt ekki innlend saga eða innlendir viðburðir, er gera árið svo merkilegt, heldur hitt, að þá getur fyrst Englendinga hér við land samkvæmt heimildum, er nú eru til. Þá skýrir Nýi annáll frá því, að skip af Englandi hafi komið austur fyrir Dyrhólmaey. Var róið til þeirra úr landi og í ljós kom, að á voru fiskimenn. Og sama haust urðu fimm Englendingar viðskila við lögunauta sína; gengu á land austur við Horn og sögðust hafa soltið í bátnum marga daga og vildu kaupa sér vistir. Voru þeir svo staddir hér um veturinn, því báturinn hvarf á meðan þeir voru burtu og mennirnir, er þar voru í. Vistuðust þessir fimm fyrir austan um veturinn. Jafnframt er þess getið, eins og reyndar áður, að engin frétt hafi komið af Noregi til Íslands, sem bendir til, að samgöngur við það land hafi verið stopular, enda utanríkisverzlun Norðmanna þá að mestu komin í hendur erlendra manna.
Næsta ár eða 1413 kom kaupskip af Englandi til Íslands. Fyrirliðinn hét Ríkarður. Segir Nýi annáll glöggt frá athöfnum hans hér á landi. Hann gekk á land austur við Horn, reið þaðan til Skálholts og þaðan aftur austur undir Eyjafjöll og sté þar á skip sitt og sigldi því til Hafnarfjarðar. Svo segir annállinn, að árinu áður hafi honum verið skipuð höfn á Eyrarbakka, en þar vildi hann ekki lenda. Allt hátterni hans bendir til, að honum hafi fyrirfram verið kunnugt um ástæður hér heima. Og nokkur von virðist, að honum hafi litizt miður vel á Eyrarbakka sem höfn. Hér syðra er sagt, að hann hafi haft kaupskap við Sundin og hafi margir af honum keypt; öðrum leizt miður vel á þetta og tekið fram um þá, að þeir hafi verið „vitrir“. Sigldi hann svo burt litlu síðar og þeir fimmmenningarnir, er höfðu verið hér um veturinn. En áður en í burt fór, tók hirðstjórinn, æðsti maður landsins, Vigfús Ívarsson Hólmur, af honum trúnaðareiða, að hann skyldi hollur og trúr landinu. Ennfremur var tekið fram, að Ríkarður þessi hafi haft „Noregskonungsbréf til þess að sigla í hans ríki með sinn kaupsskap frjálsliga.“ Að vísu munu sumir hafa efazt um, að það fái staðizt, en heimildin í Nýja annál er afdráttarlaus. Enda kom fyrir, að veitt voru afbrigði frá gildandi reglum, ef svo þótti henta.
Meginreglan átti að vera sú, að engir nema norskir kaupmenn máttu sigla með kaupskap norður fyrir Björgvin eða til norskra skattlanda, eyjanna. Hins vegar sést á mýmörgum heimildum, að siglingu Norðmanna sjálfra stórhrakaði á 14. öld, og kann vel að vera, að hinn mikli mannfellir í svartadauðanum þar um miðja öldina eigi sinn þátt í því. Í íslenzkum heimildum eru tveir athyglisverðir dómar frá 1409, þar sem í ljós kemur glögglega, að konungsvaldinu veitist miður auðvelt að fá sinn varning fluttan af landinu til Noregs og jafnvel öfugt, erfiðlega hefur á þeim árum gengið að fullnægja Gamla sáttmála. Við báða dómana er nafngreindra norskra kaupmanna getið og eru tveir af þeim ráðamenn í Björgvin. Svo eitthvað hefur verið til af þeim enn; þó er vitað, að þýzkir kaupmenn voru þá í þann veginn að taka Björgvinjarverzlunina í sínar hendur. En allt þetta mál og vandræði stuðla að uppgangi Hafnarfjarðar sem verzlunarhöfn. Englendingar voru búnir að koma auga á hin ágætu hafnarskilyrði og heimildirnar sýna, að þeir halda siglingum áfram til Hafnarfjarðar. Og fiskveiðar þeirra hér við land stóraukast.
Nýi annáll segir frá því, að árið 1413 hafi komið hingað við land 30 enskar fiskiduggur eða meir, og fyrir norðan og austan land eiga Englendingar að hafa farið með rán og yfirgang. Þó er skýrt frá því, að fyrir norðan hafi þeir lagt peninga í staðinn fyrir naut, er þeir tóku. Sennilega hafa menn verið hálfhræddir um að hrjóta lög og settar reglur og Englendingar því neyðst til að taka sér réttinn sjálfir. Fimm ensk skip komu til Vestmannaeyja og fluttu bréf Englandskonungs, að kaupskapur væri leyfður við hans menn, sérlega í það skip, sem honum tilheyrði. Og keypti svo hver sem orkaði eftir efnum. Hins vegar kom einnig til bréf Eiríks konungs, er bannaði öll kaup við útlenda menn, þá sem eigi var vanalegt að kaupslaga með. En sama árið dó og Jón biskup í Skálholti, er Ríkarður hinn enski heimsótti. Hann hafði áður verið ábóti í Múnklífi,klaustrinu við Björgvin.
Nú getur næst Hafnarfjarðar, er eftirmaður hans, Árni Ólafsson hinn mildi, kom út á knerri þeint, sem hanri sjálfur lét gera. Hann var þá voldugasti maður á Íslandi: Skálholtsbiskup, hirðstjóri konungs, umboðsmaður Hólabiskups og tilsjónarmaður erkibiskups í Þrándheimi. Ennfremur hafði hann umboð Múnklífisklausturs yfir Vestmannaeyjum og skuldheimtu fyrir marga kaupmenn í Björgvin. Sjálfur gekk hann á land við Þvottá í Austfjörðum, en knerrinum var siglt til Hafnarfjarðar. En auk knarrarins lágu það sumar sex skip ensk í Hafnarfirði, og er eitt þeirra sagt hafa rænt skreið á Reykjanesi og í Vestmannaeyjum.
Hinu er einnig frá skýrt, að fráfarandi hirðstjóri Vigfús Ívarsson hafi tekið sér far með einu þeirra til Englands og haft með sér eigi minna en sextíu lestir skreiðar og mikið brennt silfur. Ein afleiðingin af þeirri ferð er sú, að hinn 7. okt. þetta samt ár 1445 gefur dómkirkjukapítulinn í Kantaraborg út bréf, þar sem lýst er yfir því, að Vigfús Ívarsson, móðir hans, kona og börn eru tekin undir bænahald heilags Tómasar biskups og píslarvotts. Hins vegar eru og önnur bréf gefin út í Englandi nokkru síðar, þar sem fram kemur, að Jakob Oslóarbiskup og Andrés riddari frá Losnu hafi kvartað undan yfirgangi og óskunda, er nokkrir enskir þegnar hafa gert á nokkrum eyjum Noregskonungs, einkum Íslandi. Því bannar hertoginn af Bedford, bróðir Englandskonnngs, í fjarveru bróður síns, að enskir þegnar fari um eins árs bil til fiskveiða við Ísland, og ítrekar Hinrik konungur V. bannið stuttu síðar, er hann ritar forráðamönnum ýmsra borga og verzlunarstaða og bannar þegnum sínum að fara hingað til lands til fiskveiða eða annarra erindagerða öðruvísi en áður hafði verið forn vani.
1419 er frá því skýrt, að gerði hríð á „skírdag svo hörð með snjó, að víða kringum landið hafði brotið ensk skip, eigi færri en hálfur þriðji tugur. Fórust menn allir, en gózið og skipsflökin keyrði upp hvarvetna.“ Og frá sama tíma er enn merkari heimild, þar sem er hyllingarbréf Íslendinga til Eiríks konungs af Pommern. Að vísu gæti manni virzt sem það væri nokkuð seint, þar sem Margrét drottning andaðist 1412.
Þetta hyllingarbréf er árétting til konungsvaldsins, þar sem vitnað er glöggt til Gamla sáttmála og landsréttinda. Segir þar: „Kom yðart bréf hingað í landið til vor, í hverju þér bannið oss að kaupslaga með nokkra útlenzka menn. En vorar réttarbætur gera svo ráð fyrir, að oss skyldi koma sex skip af Noregi árlega, hvað sem ei hefur komið í langan tíma; hvar af yðar náð og þetta fátæka land hefur tekið grófan skaða. Því — upp á Guðs náð og yðart traust — höfum vér orðið að kaupslaga með útlenzka menn, sem með frið hafa farið og réttum kaupningsskap og til hafa siglt. En þeir duggarar og fiskarar, sem reyfað hafa og ófrið gert, höfum vér refsa látið“. Það virðist óneitanlega sem svo, að Íslendingar reki sína eigin utnríkispólitík um þessar mundir. Og Arnfinnur Þorsteinsson á Urðum, sem þá er orðinn hirðstjóri og undirritar hyllingarbréfið — Arnfinnur Þorsteinsson, yðra foreldra hirðmann, veitir þrettán dögum síðar tveim kaupmönnum verzlunarleyfi um allt land og leyfi til útgerðar úr landi. Er bréfið gefið út í Hafnarfirði og þar liggur skip þeirra, Kristaforus að nafni og er enskt. Báðir hirðstjóranir, Vigfús Hólmur yngri og Arnfinnur á Urðum, ganga í berhögg við konungsvaldið, landinu til góða. För Vigfúsar til Englands sýnir glöggt að annað og meira hefur búið undir en það eitt að vera tekinn í bænahald klerka í Kantaraborgardómkirkju, og var þó norskrar ættar. Hins vegar er Eiríkur af Pommern á margan hátt betri maður en ágripin gera hann, þótt hagsmunir hans rækjust á hagsmuni Íslendinga. Hann vildi markvisst efla innanlandsverzlunina í sínu víðlenda ríki, þar sem hann var konungur Norðurlanda allra, en skorti mýkt sinnar miklu fósturmóður til þess að fá menn á sitt band. Það er reyndar ekki svo óskennntilegt að hugsa til þess, að Hafnarfjörður hafi þegar komið við sögu á þenna hátt í sjálfstæðisviðleitninni á liðnum öldum.
Englendingar voru orðnir þess vísir fyrir löngu, að fiskimiðin hér voru hið þýðingarmesta forðabúr, og létu ekki hrekja sig í burtu. Nú fengu þeir að auki nokkrum árum síðar voldugan stuðningsmann, þar sem var biskupinn á Hólum, Jón Vilhjámsson Craxton, og Englendingur sjálfur. Að vísu hafa sumir haldið, að hann hafi verið norsk—enskur eða jafnvel sænskur og hafa sem rök, að Ragna nokkur Gautadóttir er nefnd frændkona hans í bréfi einu. Hún kann hins vegar að hafa verið systir Eiríks nokkurs Gautasonar Upplendings, er getur og í bréfum Jóns biskups. Frændkona merkir hér ekki annað en friðla, skv. málvenju almennri um alla Evrópu á þeim tíma. Í okkar heimildum kemur jafnvel fram, að laundóttir er nefnd frændkona og sonur frændi. Þessi nýi Hólabiskup kom út með enskum í Hafnarfirði.
Hér á landi virtist hann reynast vel. Af bréfabók hans, sem er sú elzta, er varðveitzt hefur, verður ekki annað séð en að hann hafi verið hinn dugmesti og gegnt embætti sínu með alúð. Hins vegar sést svo og, að hann hafi dregið taum landa sinna, þegar við mátti koma. Nokkru síðar kom út annar biskup, Jón Gerreksson til Skálholts, og er frægur að endemum. Hann er sagður hafa komið hingað með Englendingum í Hafnarfjörð, en hafði veturinn áður setið í Englandi. Milli Englendinga og Þjóðverja er svo hörð samkeppni um verzlunina og fiskinn við Ísland, og kom til átaka milli þeirra á sjó og landi, meðal annars hér í Hafnarfirði, og kann að vera, að heitið Ófriðarstaðir stafi frá því, er róstusamt var í Hafnarfirði undir lok 15. aldar. Svo fór, að Englendingar voru hraktir burt af Þjóðverjum nálægt 1518 að sögn síra Jóns Egilssonar í Biskupaannálum.
Bækistöð sína í Hafnarfirði höfðu Englendingar við Fornubúðir svonefndu, en eigi verður vísað nákvæmlega á þann stað. Þjóðverjar settust að sunnan fjarðar vestan við Óseyri, sennilega á sama stað og Englendingar höfðu setið á áður, enda sá hentugasti staður. Voru það Hamborgarmenn, sem tóku sér bólfestu þar. Brátt virðist komið þar hverfi nokkurt, hafi það ekki verið áður. Þar getur timburhúsa og jafnvel kirkju þýzkrar; og eru þrír prestanna nafngreindir og hafa vafalaust verið mótmælendur, þar eð þess elzta getur fyrst 1538. Fyrir siðaskiptin hafa þessir ekki verið með öllu þýðingarlausir.
Eigi er vitað, hvar kirkja sú stóð, en komi upp mannabein við húsbyggingar nútímans sunnan fjarðar, mun sennilega vera fundinn kirkjugarður sá, sem ugglaust hefur fylgt þeirri kirkju. Hún hefur sennilega verið öll úr timbri og af einni heimild má sjá, að hún hefur verið með koparþaki. Í Hafnarfirði hafa Hamborgarar haft sína aðalbækistöð hér við land, rétt eins og Englendingar. Hér var í rauninni höfuðstaður landsins. En hitt er ekki einkennilegt, að ekki skuli vera til lýsing á kirkjunni, svo að dæmi sé tekið. Hún var íslenzkum kirkjuyfirvöldhm óviðkomandi. Hitt sést, að safnað er til viðhalds hennar í Hamborg allt til ársins 1603, en þá eru þeir Hamborgarar þegar úr sögunni. Og 1608 skipar Kristján IV. konungur svo fyrir að rífa skyldi allar byggingar þýzkra í Firðinum. Konungsvaldinu var nokkur vorkun. Í þeim byggingum höfðu ýmsir þeir hlutir gerzt, sem vel gat sviðið undan að minnast, hvernig umboðsmaður konungs var tekinn til fanga og hafður í haldi og svo framvegis. Það er líka yfirlýsing konungs, að nú skuli í staðinn koma verzlun, sem eigi að lyfta undir aðalverzlunarborgir Dana og þá einkum Kaupmannahöfn.
Faðir konungs, Friðrik II., hafði að vísu riðið á vaðið með því að veita hinum duglegasta og athafnasamasta danska kaupmanni, Markúsi Hess, borgarstjóra Kaupmannahafnar, verzlunarleyfi í Hafnarfirði 1576, en verzlunarhættir hans virðast hafa fallið Íslendingum svo illa í geð, að þegar eftir vorsiglinguna það ár senda þeir bænarskrá til konungs og kvarta. Samkeppnin, sem ríkti á 16. öld milli enskra og þýzkra leiddi af sér vöruvöndun og hagstætt verð, en Dönum lá á að græða sem mest á stuttum tíma, enda nauðulega staddir sjálfir. Þessi leigumáli féll niður 1579, og fékk þá höfuðsmaður, Jóhann Bockholt, leyfið og hélt um tíma í samkeppni við Hamborgara.
Sitt af hverju kom fyrir í Hafnarfirði, bæði á tímum Englendinga og eins á tímum Hamborgara og Dana. Stúlkurnar lentu í ástandi þá eins og nú. Að minnsta kosti er ekki annað að sjá af kvæðum síðmiðalda, menn stálu, drukku og slógust, rétt eins og nú. Og menn vorkenna manninum, sem stelur vegna neyðar sinnar kvinnu og fátækra barna, og lögréttumenn ganga í ábyrgð fyrir hann. Svo má lengi tína til.
Hin eiginlegu umskipti verða, er verzlunin er einokuð 1602. Þá fá borgararnir í Kaupmannahöfn, Helsingjaeyri og Málmey einkarétt á verzlunarstöðum hér á landi og er þeim skipt milli þeirra gegn 16 gamalla dala gjaldi af hverjum! Þá eru nafngreindir hinir nýju kaupmenn í Hafnarfirði. Fyrstur er Mikkel Vibe, hinn mikilhæfasti maður, er verður borgarstjóri í Kaupmannahöfn. Annar er Hermann Wöst, sem og var merkur og stórauðugur maður. Þriðii er nafngreindur Böill Sören Islænders, sem gefur tilefni til margskonar hugarbrota. Er hann íslenzkrar ættar, sonur Sörens Íslendings? Og gæti heitið verið afbakað fyrir Egill? Fjórði aðilinn er kona, er heitir Kristen, líklegast ekkja beykis nokkurs, Sören að nafni, þar sem hún er skilgreind Sören Böckerss. Það er auðséð, að Hafnarfjörður er álitinn vera einn aðalstaður landsins, þar sem auðugustu og valdamestu dönsku kaupmennirnir taka staðinn á leigu, menn, sem leggja fram rúmlega 1/3 hluta rekstrarfjár kompaníisins, sællar minningar, 1620.
Af þeim kaupmönnum, sem svo síðar á öldinni er getið í sambandi við Hafnarfjörð, skal aðeins nefna hér Hans Nansen, einhvers mikilhæfasta Danann, sem uppi var á 17. öld. Hann gerðist borgarstjóri í Kaupmannahöfn 1644 og hægri hönd Friðriks III. í vörn Kaupmannahafnar móti Svíum, er Karl X. Gustav var búin að hertaka alla Danmörku, að slepptum smáskika þeim, er hin gamla Kaupmannahöfn nam. Hann var forsvarsmaður borgarastéttarinnar á móti aðlinum og veitti Friðriki ómetanlegan stuðning í því að koma aðlinum á kné með stofnun einveldisins. Hafnarfjörður hefur því enn á hans dögum verið talinn álitlegur athafnastaður, sem og sést á því, að sonur hans tók við verzluninni í Firðinum að föður sínum látnum. Á hans dögum var gerð ein mikilvæg breyting. Verzlunarstaðurinn hafði verið sunnan fjarðar frá fornu fari, á 17. öld á Hvaleyrargranda, en Hans Nansen yngri nær eignarhaldi á Akurgerði, og þá flyzt staðurinn norður fyrir fjörð, líklega skömmu eftir 1677. Margt sögulegt gerðist enn. Nú var mönnum bannað að leita út fyrir tiltekin verzlunarumdæmi, og er alkunnugt, hver meðferðin varð á Hólmfasti Guðmundssyni 1699 fyrir að selja nokkra fiska í Keflavík og fékk 16 vandarhögg fyrir. Þótt eymdin væri orðin mikil og ríki kaupmanna svo mikið, að jafnvel sjálfur Garðaprestur hafði ekki lengur í fullu tré við þá, þá var Hafnarfjörður samt aðalmiðstöð landsins. Þangað komu dönsku herskipin, þar söfnuðust kaupskipin saman til þess að hafa samflot heim til Danmerkur, þangað var rekið sláturfé af öllu Suðurlandi, því þar var eina brúklega og örugga höfnin. Það er því undarleg tilviljun örlaganna, sem réð því, að Hafnarfjörður skyldi ekki verða höfuðstaður landsins, Hafnarfjörður, sem átti svo ríkan þátt í að byggja upp borg hinna fögru turna við Sundið, sjálfa Kaupmannahöfn.
Viðleitni Skúla Magnússonar til þess að skapa iðnað innanlands með stofnun innréttinganna var hin lofsamlegasta. Og Hvaleyri var lögð til innréttinganna og Fjörðurinn gerður að höfn fyrir fiskiduggurnar, sem áttu að rétta fiskíríið við, en það stóð skamman aldur. Fjörðurinn var of fjærri innréttingunum sjálfum og þá líka Skúla fógeta í Viðey. Og árið 1757 lagði hann til, að Hafnarfjörður yrði lagður niður sem verzlunarstaður og þá til þess að lyfta undir Reykjavík. Síðan hefur óneitanlega staðið nokkur togstreita unt það, hvort Hafnarfjörður fái að lifa. En er Bjarni riddari Sívertsen réðst í hinar miklu framkvæmdir sínar, sem voru fullt eins traustar og Skúla fógeta, og keypti Ófriðarstaði og Hvaleyri, auk verzlunarhúsanna í Akurgerði, og stofnsetti jafn þarflegt fyrirtæki og skipasmíðastöð, þá sýndi hann í verki, að Hafnarfjörður væri hinn ákjósanlegasti staður til athafna. Er hann því með réttu talinn höfundur kaupstaðarins. En staður þessi byggir enn á hinu sama og Englendingar ráku augun í um 1400.
Undirstaðan er höfnin. Það er hún, sem skapar aðstöðuna, hin ágæta höfn, sem er hin bezta við Faxaflóa enn, sem komið er. Og það er undarlegt, að hún skuli ekki vera meira notuð nú á síðustu árum til þess að létta á Reykjavíkurhöfn, sem hefur alls ekki samboðið athafnasvæði í landi miðað við þýðingu og stærð, þar sem geymslupláss er sáralítið og umferðarskilyrði ein hin lökustu, sem sjá má í borg af svipaðri stærð. Hvað sem því líður, hefur Hafnarfjörður hin ákjósanlegustu skilyrði fyrir framtíðina, og þá ekki síst með kaupum sínum á Krýsuvík, þar sem finna má hin verðmætustu auðæfi náttúrunnar hér nærsveitis og verða munu til Þess að margfalda möguleika Hafnfirðinga framtíðarinnar til afkastamikils athafnalífs og aukinna nota hinnar ágætu hafnar.“ – Magnús Már Lárusson.
Framhald er undir fyrirsögninni „Enn úr firðinum„.
Heimild:
-Alþýðublað Hafnarfjarðar, jólablað 17.12.1957, „Sitthvað um Fjörðinn“ – Magnús Már Lárusson, bls. 4-6.