Garðahraun

Nú (apríl 2009) eru síðustu forvöð að líta á fornminjar og kletta sem Kjarval málaði margsinnis um miðja síðustu öld. Ástæðan er fyrirhuguð lagning nýs Álftanesvegar um hraunin. Að öllu óbreyttu munu framkvæmdir hefjast við veginn innan fárra daga.

Ófeigskirkja

Jónatan Garðarson hefur fjallað um þennan hluta hraunsins. “Árið 1996 komu fram fyrstu hugmyndir um færslu Álftanesvegar norður í Garðahraun á rúmlega 1 km kafla. Margt hefur verið skrifað og skrafað um þessa hugmynd og ýmsar leiðir verið skoðaðar. Nú virðist stefna í að framkvæmdir muni hefjast þar innan skamms og hefur veginum verið valin leið í gegnum hraunið á stað sem margir eru mjög ósáttir við. Veginum er ætlað að liggja frá Engidal um Flatahraun mjög nærri nýju húsunum,  rétt norðan við klettana þar sem Kjarval málaði margar af merkustu myndum sínum, og um Klettahraun nærri Gálgahrauni á milli Fógetagötu og Garðastekks. Vegurinn mun koma niður af hrauninu mjög nærri Garðastekk og liggja í áttina að núverandi vegstæði í Selskarðslandi.

Minjar

Fornleifakönnun var gerð á svæðinu mili Selskarðs og Engidals árið 1999. Þessi könnun ber með sér að minjar í námunda við Engidal hafa annaðhvort farið framhjá þeim sem könnina gerðu eða ekki talist nógu merkilegar. Það stendur beinum orðum í könnuninn að ekki sé vitað um neinar fornleifar í Engidal. Merkasti minjastaðurinn nærri Engidal er Grænhóll sem er með greinilegri tóft og þar er einnig Engidalsstígurinn sem sést ágætlega á köflum.

Allt hraunsvæðið sem vegurinn mun liggja um tilheyrir Búrfellshrauni sem rann fyrir um 7-8000 árum úr eldgígnum Búrfelli. Búrfellshraun er samheiti sem jarðfræðingar hafa gefið öllum hraunmassanum sem þekur í dag um 18 ferkílómetra, en var mun víðfeðmari á sínum tíma. Búrfellshraun skiptist í fjölmarga minni hraunfláka sem hver og einn hefur borið sitt eigið nafn frá fornu fari. 

vörðubrot

Hraunið er víða gróið fjölbreyttum plöntum úr íslenska jurtaríkinu og áhugavert að fara um það á sumrin þegar allt er í blóma. Hraunið sjálft er margbreytilegt og skiptist í nokkuð flata hraunvelli og grasgefnar lautir, úfna og ógreiðfæra fláka og klettótt belti með hrikalegum hraundröngum, djúpum gjótum og sprungreinum. Það er leitun að eins fjölbreyttu hraunlandslagi svo nærri mesta þéttbýli landsins enda hefur hraunið orðið skáldum að yrkisefni og listmálurum uppspretta myndsköpunar. Áður fyrr gegndi hraunið hlutverki beitilands búsmalans, þar var kjarrviður sem bændur sóttu í til kolagerðar, lyngrif var stundað í hraunin og mosinn nýttur til upphitunar.

Skjól

Berjalandið hefur jafnan verið gjöfult á haustin og á víð og dreif mátti finna ágæta slægjuteiga þegar öll grös voru nýtt til hins ítrasta. Fjölmargir slóðar og götutroðningar lágu um hraunið sem voru sumir fjölfarnir en aðrir næsta fáfarnir. Ein merkasta gatan var Fógetagata eða Álftanesgata sem var meginleiðin til og frá kóngsgarðinum á Bessastöðum.

Grænhóll og Engidalsstígur sem verður fórnað ef nýr Álftanesvegur verður lagður. Á Grænhól er tóft sem ekki hefur verið rannsökuð. Aðrar leiðir eru líka kunnar eins og  Sakamannastígur sem var líka nefndur Gálgastígur, Móslóði, Álftanesstígur, Engidalsstígur, Flatahraunsgata og Alfaraleið eða Fjarðargata sem var helsta leiðin í kaupstaðinn við Hafnarfjörð. Á þessum leiðum voru ýmis kennileiti sem vert er að hafa í huga og jafnvel manngerð hús eða skjól eins og á Grænhól.
NátthagiTóftin á Grænhól hefur verið svipuð að ummáli og Kapellan í Kapelluhrauni en engar sagnir eru þekktar um það til hvers Grænhólstóftin var notuð. Það má vel vera að þar hafi verið reist lítið skýli til að veita ferðamönnum í slæmum veðrum. Það getur líka verið að þar hafi upphaflega verið bænhús sem fékk annað hlutverk við siðaskiptin. Tóftin hefur ekki verið rannsökuð og þar af leiðandi ekki hægt að segja með neinni vissu hverslags mannvirki þetta var. Verði af lagningu Álftanesvegar er algjörlega nauðsynlegt að rannsaka hólinn áður en framkvæmdir hefjast því hann mun að öllum líkindum lenda í miðju vegstæðinu. Það er því ekki seinna vænna að rannsaka hann, áður en hann hverfur með öllu.

Grænhólstóft

Ófeigskirkju er getið í gömlum sögnum en ekki er alveg á hreinu hverskonar klettur þetta er að öðru leyti en því að hann er sagður klapparhyrna á Flatahrauni. Samkvæmt orðanna hljóðan trúði fólk að um hulda kirkju væri að ræða og álagablett sem ekki mátti raska. Þegar örnefnalýsing var gerð fyrir þetta svæði á sínum tíma áttuðu menn sig ekki á umfangi Flatahrauns og gerðu þar af leiðandi ráð fyrir að Ófeigskirkja væri horfin. Sagt er í örnefnalýsingum að kletturinn hafi verið brotinn niður þegar Álftanesvegurinn var lagður og örnefnið færst til yfir á gervigíg við Álftanesveg. Þar hefur nýlega verið sett upp spennistöð fyrir nýjan hverfið í Garðahrauni.

Engidalsvegur

Þrátt fyrir það sem stendur í örnefnalýsingunni hefur Ófeigskirkju ekki enn verið raskað, enda hefði engum heilvita manni dottið í hug að leggja til atlögu við hana þegar Álftanesvegur var lagður 1908. Örnefnalýsingin greinir einnig frá því að Grænhóll hafi verið hraunhóll neðan við Ófeigskirkju og þegar betur er að gáð stendur Grænhóll enn á sínum stað og Ófeigskirkja sömuleiðis. Það er engu líkara en þeir sem tóku að sér örnefnaskráninguna hafi blandað saman tveimur nöfnum og talið að Grenishóll og Grænhóll væru einn og sami hóllinn. Ófeigskirkja er álagaklettur sem ekki má raska. Grenishóll er hæðarhryggur til norðurs sem er norðan Álftanesvegar þar sem Flatahraunið endar í norðvestri. Þar var síðast unninn refur 1870 af Magnúsi Brynjólfssyni, hreppstjóra á Dysjum. Grænhóll er hinsvegar skammt frá Ófeigskirkju í suðausturjaðri Flatahrauns, langt frá Grenishól. Ruglingurinn er skiljanlegur því í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar stendur: ,,Þessi hóll er á austanverðu Flatahrauni. Framan við Flatahraun var klettur, sem hét Ófeigskirkja, en hann fór í veginn. Hann var þar sem gjóturnar byrjuðu. Vestan við Flatahraun er Engidalur, sem er skemmtistaður Hafnfirðinga við Hafnarfjarðarveg”.

Garðastekkur

Gamla Engidalsgatan mun eyðileggjast ef Álftanesvegur verður lagður. Engidalsstígur og Flatahraunsstígur voru mjög nærri Ófeigskirkju og við þann stíg stendur Grænhóllinn sem ekki er tilgreindur í rannsókn þeirri sem unnin var af fornleifafræðingum fyrir Vegagerðina 1999. Þessi stígar voru hluti af stíganetinu sem lá til Bessastaða og eru þeir enn mjög greinilegur í landinu þó þeir séu fyrir löngu orðnir vel grónir. Enn er tími til að þyrma þessum fornu minjum sem njóta verndar samkvæmt þjóðminjalögum og láta söguna og náttúruna njóta sannmælis.”

Fjárborg

Við þetta má bæta að hraunmyndanir í Garðahrauni eru einstakar þegar horft er á nálægð þeirra við þéttbýlið. Óvíða má nálgast slíkar kynjamyndir eins auðveldlega – og ekki spillir litadýrðin fyrir.
Í matsskýrslu um vegaframkvæmdina segir þó m.a.: “Verndargildi hraunsins og fagurfræðilegt gildi þess aukist eftir því sem hraunið sé úfnara og jarðmyndanir stórkostlegri. Ljóst sé að lagning nýs Álftanesvegar, ásamt hringtorgi, muni hafa í för með sér töluvert rask á hrauninu og rof á vestanverðum hraunkantinum.

Myndanir

Fyrirhuguð  vegarstæði muni þó ekki fara yfir jarðmyndanir sem eiga engan sinn líka annars staðar í hrauninu eða öðrum hraunum á Íslandi. Fram kemur að skv. lögum um náttúruvernd séu eldhraun runnin á nútíma á borð við Garðahraun-/Gálgahraun skilgreind sem landslagsgerðir sem skuli njóta sérstakrar verndar.”
Hér kemur fram að vegna þess að hraunmyndanir eru ekki sérstæðari og stórkostlegri en í öðrum sambærilegum hraunum væri ekki ástæða til að vernda þær, þrátt fyrir að þær njóti sérstakrar verndar skv. náttúruvernd. Skondinn rökstuðningur þetta!
GarðahraunÍ raun er Garðahraun ein samfelld kynjamynd eins og sjá má á meðfylgjandi ljósmyndum.
Eins og fram kemur hér að framan eiga ekki, skv. fornleifaskráningu, að vera fornminjar í eða við fyrirhugað vegstæði. Sú fornleifaskráning hlýtur í besta falli að vera lélegur brandari því ekki þarf annað en að ganga svæði tið að sjá margar minjar við fyrstu sýn. Til að mynda er Grænhólstóftin fornleif. Neðan við hana er hlaðið skjó undir klettavegg. Skammt norðar má sjá leifar af ferhyrndu mannvirki, uppgróið. Enn norðar eru hleðslur í nátthaga. Fallin varða er við það. Og þá liggur Engidalsgatan eftir hrauninu endilöngu. Ef þetta eru “engar” fornleifar þá er himininn líka grænn.
ÓfeigskirkjaÞað verður því miður að segja frá hverjum hlut eins og hann er. Reynslan af útgefnum fornleifaskýrslum af einstökum svæðum Reykjanesskagans er vægara sagt mjög slæm. Samt sem áður hafa hlutaðeigandi yfirvöld tekið þær góðar og gildar þegar ákvarðanir eru teknar um einstakar framkvæmdir sem Álftanesveg. Ofar en ekki eru staðsetningar fornleifa rangar, þeim er lýst á ófullnægjandi hátt, komist er hjá að leggja mat á þær og það sem vert er; nær alltaf vantar margar fornleifar í skrárnar, stundum nálægt 2/3 hluta þeirra, sem auðveldlega mæti greina eða heimildir segja til um.

Tóftin

Einhver gæti sagt að þetta væru stór orð, en því miður – þetta er reynsla þeirra, sem gerst þekkja, hafa skoðað svæðin og skráð minjar. Eitt dæmi um algera handvömm er skýrsla um fornleifar á tilteknu afmörkuðu svæði, en þegar innihaldið var skoðað nánar reyndist skrásetjarinn hafa verið á öðru svæði, en hann í raun og veru átti að skrá. Þegar gerðar eru athugasemdir við slíkar skráðar skýrslur virðast fulltrúar yfirvalda bara leggjast í fúlheit. Geta má þess að sá, sem þetta skrifar, fékk t.a.m. einkunnuna 10.0 fyrir fornleifaskráningu í fornleifafræði við Háskóla Íslands (svo hann telur sig hafa a.m.k. svolítgið vit á efninu, auk þess sem hann hefur leitað og skoðar minjar á svæðinu um áratuga skeið).
Við skoðun á tóftinni á Grænhól er ljóst að um fornleif er að ræða, en hún virðist hafa verið smalaskjól (um einn fermeter að innanmáli) eða búr fyrir smalann, en tóftin er ekki ómerkilegri fyrir það.
Eins og fram hefur komið hefur engin fornleifarannsókn verið Hraunstandurframkvæmd á henni. Það, hversu sjaldan fornleifarannsókn er framkvæmd á viðkvæmum svæðum, er svo efni í aðra umfjöllun. Með viðkvæmum svæðum er ekki átt við sögustaði, s.s. Þingvöll, Hóla eða Skálholt, heldur staði sem jafnan eru hluti af heilstæðri búsetumynd um langt skeið eða svo sérstök að ástæða væri að nota tækifærið og rannsaka hið óþekkta. Frumkvæði á slíkum rannsóknum hefur jafnan komið frá áhugafólki um einstakar minjar, en ekki minjayfirvöldum þessa lands þótt svo að lokum hafi þau þurft að hafa fyrir framkvæmdinni.
Í raun er löngu kominn tími til að leggja mat á fyrirkomulag minjaverndar í landinu, frumkvæði hennar og áhuga á viðfangsefninu. Hafa ber í huga að áhugasviðið þarf að vera víðtækara og snúast um annað og meira en bara innihaldið. Umgjörðin og tengslin við fólkið skiptir ekki minna máli, eigin rannsóknarvinnu og frumkvæði á áhugaverðum viðfangsefnum. Ef takmarkað fjármagn hamlar mögulegum árangri mætti virkja áhugafólk með áhrifaríkari hætti.
Undir Grænhól er mikið graslendi í hraunlægðum og bollum. Í þeim má m.a. sjá fyrrnefndan nátthaga, garðbrot á tveimur stöðum, annað skjól undir hraunvegg, vörðubrot o.fl. Þarna virðist því hafa verið setið yfir fé fyrrum. Ekki er ólíklegt að þarna megi finna leifar af stekk ef nánar er skoðað. Götur sjást á milli staðanna og frá þeim upp á meginleiðirnar, s.s. Fógetastíg og Engidalsveg. Þá eru greinileg tengsl millum þessa svæðis og fjárhaldsminjanna við Garðastekk.
Tilgangurinn með vettvangsferðinni var ekki að fornleifaskrá svæðið, það geta þeir gert sem það eiga að gera lögum samkvæmt.
Njótið á meðan er. Sjá umfjöllun RUV.

Heimild m.a.:
-Jónatan Garðason.
Litadýrð