Sjóklæði

„Skinnklæði voru notuð hér á landi allt frá landnámsöld og þá sérstaklega á sjó.
Vanalega var um að ræða stakk og brók auk höfuðfats og vettlinga. Þrjár gerðir voru af stökkum og fólst munurinn sjoklaedieinkum á ermunum. Þeir voru úr sauðskinni, missíðir, og náðu flestir undir mið læri. Ærskinn þótti best í brækur en kálfskinn var oftast laft í bakið og rassinn. Brækurnar voru þrenns konar og var mismunurinn einkum fólginn í gerð fótabúnaðar. Við skálmarnar á einni gerðinni voru áfastir leðurskór en við hinar voru hafðir sérstakir sjóskór. Nauðsynlegt var að binda snæri þétt utan um skinnklæðin, um mitti og klof, til þess að brækurnar fylltust ekki af sjó þegar þannig stóð á. Einnig var bundið ofan við úlnliði. Af sjóvettlingum, sem voru úr ull, þurfti þrjú til sex pör yfir vertíðina. Höfuðfat var fyrrum hetta en hattur í einni tíð. Um 1870 voru sjóhattar mestmegnis innfluttir úr ferniseruðu lérefti og oftast gulir. Notkun skinnklæða var víðast hætt á tímabilinu 1870-1935.
Samkvæmt alþýðutrúnni var sjómaður í skinnklæðum friðhelgur svo að ekki mátti leggja hendur á hann þótt hann hefði unnið óbótaverk.“

„Sjóklæði höfðu allir vermenn, þótt þau væru allmisjöfn að gæðum, og jafnvel lítt held hjá sumum. Öll voru sjóklæði í þann tíma gjörð úr skinni. Sterk sauðskinn voru oftast notuð í hvorttveggja, brók og stakk, nema í setskautann á brókinni var ætíð haft kálfskinn. Skinn þau, sem notuð voru í sjóklæði, voru oftast brákelt, áður þau skyldu sniðin og saumuð. Aðferðin við að brákelta skinn var á þann veg: Stórt hrútshorn var tekið og borað gat á það í báða enda. Síðan var sterkum spotta bundið í hornið, svo að við myndaðist lykkja. Var hornið síðan hengt upp á bæjarþilið, eða einhvern annan hentugan stað. Fyrst voru skinnin sett í dall með vatni í, og bleytt vel og síðan tekin upp úr og slegin með tréspaða. Loks byrjar brákunin. Hvert skinn var tekið og dregið, upp og niður í hrútshornið, þar til það þótti nægilega elt. Hélzt þessi brákunaraðferð á Snæfellsnesi nokkuð fram yfir miðja 19. öld. Líklegt þykir mér, að orðið brákun, sem haft er um verknað þann, er áður er greindur, stafi hér af því, að sumstaðar var sagt jöfnum höndum, að bráka og keipa færi. Skinnið var dregið upp og niður í hrútshorninu, líkt og færið í vaðbeygjunni á borðstokknum. Stakkur niður á mið lafri og brók, gyrt um mitti, með þykkum nautsskinnsskóm, bundnum á rist, utan yfir á fótum, voru öll sjóklæðin. Snæri var dregið í hálsmál stakksins, með tréstubb á hvorum enda, hálsmálið dregið saman og bundið við. Einnig voru snæri aftan á ermum stakksins á hvorum niðurhandlegg, og þeim vafið um hann. Voru bönd þessi nefnd hálsbjargartígull og handtíglar. Vermenn báru nýtt lýsi á sjóklæði sín, þegar þau slitnuðu, svo þau mætti betur verjast leka. Er þess getið, að eigi hafi það aukið á ilmandi þef sjóklæðanna.

Veiðarfærin, sem vermenn notuðu, voru lítiltæk og fábrotin. Enginn vermaður mátti þó koma svo til skips, að hann hefði eigi með sér góðan öngul, línur, ásamt vaðsteini, byrðaról og fiskihníf. Byrðarólin var gjörð úr sterkri línu með tréklossa á öðrum enda, en alllanga nál úr eik eða hvalbeini á hinum.“

Heimild:
-Sjómannablaðið Víkingur, 60. árg. 1998, bls. 46-47.
-Blanda, 6. bindi 1936-1939, 19-20. hefti, bls. 136-137.

Sjóklæði

Sjómenn í vör.

Leiran

Gengið var um Leiruna og Stóra-Hólm.
„Leiran liggur við sjávarsíðuna, miðja vegu milli Keflavíkur og Útskála. Hún var eitthvert það besta fiskiver því þar mátti sækja sjó á báðar hendur, eins og segir í sóknarlýsingu frá árinu 1839. Nú mun hins vegar langt síðan nokkurri fleytu hafi verið róið til fiskjar úr Leirunni, enda hefur hún sannarlega fengið öðru hlutverki að gegna en sjósókn hina síðari áratugi.

Prestsvarða

Prestsvarða.

Árið 1816 bjuggu 54 menn á 6 heimilum í Leiru, en 39 menn á 3 heimilum í Keflavík. Árið 1880 voru nákvæmlega jafn margir íbúar í Keflavík og Leiru, eða 154. Nú býr engin í Leirunni, en íbúar í Keflavík eru nú nálægt 10.000 (Íbúar í Reykjanesbæ, sem Keflavík er nú hluti af, eru um 11 þúsund talsins en bæjarfélagið er meðal þeirra fimm stærstu á landinu).
Þótt Leiran væri ein minnsta sveit Suðurnesja var þar hæst metna jörðin í Rosmhvalaneshreppi árið 1861.

Það var Stóri-Hólmur með 7 hjáleigum, metin á 51,9 hundruð. Bæði var að jörðin var landmikil, en hitt hafði þó mest að segja, að þar var ein sú besta lending, rudd vör með miklum tilkostnaði og skipaleiðin eða sundið svo gott að sagt var, að þá mundi útsjór ófær ef það tæki af.

Stóri-Hólmur

Stóri-Hólmur.

Þess vegna var mikil sjósókn úr Leirunni. Og þó enn meiri í Garð- og Leirusjó úr öðrum plássum. T.d. var sagt að eitt sinn í vetrarvertíðinni 1879 hefðu verið talin 400 skip, sem sáust sigla inn fyrir Hólmsberg og inn á Vatnsleysuströnd. En háan skatt varð Leiran að gjalda Ægi og ekki síður en önnur byggðarlög við sjóinn. Í annálum Suðurnesja eru talin 6 skip með 27 mönnum, sem fórust úr Leiru á árunum 1830-1879. Vestan við núverandi (fyrrverandi) íbúðarhús í Hólmi er bátslaga fornmannaleiði og hlaðinn brunnur, auk fleiri minja um fyrrum bústetu á þessu forna höfuðbýli. Slíkum minjum er einnig fyrir að fara á Leiru þótt sumar þeirra hafi nú verið „sléttaðar“ út.

Leiran

Leiran – Gamli barnaskólinn.

En lífið í Leirunni var ekki bara sjósókn og saltfiskur heldur líka fræðsla og félagsmál. Þar var stofnað til barnaskóla fyrir aldamót (1900) og þar starfaði stúka í eigin húsnæði. Golfklúbbur Suðurnesja hefur nú lagt Leiruna undir starfsemi sína, ræktað þar golfvöll og byggt tilheyrandi skála. Sú ræktun hefur gengið fljótar fyrir sig en í gamla daga þegar sjómennirnir báru slorskrínur á öxl sér neðan úr vör til að drýgja áburðinn og fjölga þar með grasstráunum handa skepnunum.
Þótt Leira sé búin að fá annað hlutverk í lífi Suðurnesja en hún áður hafði er enn ástæða fyrir fólk að staldra þar við og skoða sig um niðri við sjóinn í þessari fornu útgerðarstöð, virða fyrir sér Hrúðurinn og Leiruhólmann og virða fyrir sér það sem enn minnir á liðinn tíma. Og þá er ekki heldur úr vegi að leita uppi Sigurðarvörðuna (Prestsvörðuna), sem er fyrir ofan Leiruna.

Litla-Hólmsvör

Litla-Hólmsvör.

Það var laugardaginn 22. janúar 1876 að séra Sigurður Sívertsen á Útskálum var að koma frá barnsskírn í Keflavík. Stórrigning datt á upp úr útsynnings éljagangi og síðan frysti. Sigurður skýrði svo frá: “Varð ég viðskila við samferðarmann minn við Bergsenda, en af því að ég sá ekki lengur til vegar, fór ég áleiðis suður fyrir veginn fyrir ofan Leiru… Var og hesturinn hlaupinn frá mér. Lagðist ég þá niður og ætlaði að láta fyrirberast, en um nóttina var gjörð leit að mér… leið svo hin óttalega nótt, að enginn gat mig hitt, þar til um morguninn, að tveir heimamenn mínir hittu mig, og var ég enn með rænu og nokkru fjöri, en mér leið vel og mér fannst eins og yfir mér hefði verið tjaldað, og vissulega var ég undir hlífðartjaldi með föðurlegri varðveislu. Guði sé lof fyrir þessa lífgjöf. Þetta tilfelli í lífi mínu vil ég ekki gleyma að minnast á og gefa guði dýrðina.”

Í þakklátri minningu um björgun þessa lét séra Sigurður hlaða vörðu á þeim stað sem hann fannst og fella í hana hraunhellu með Biblíuáletrun.
Frábært veður. Gangan tók 1 klst og 1 mín.

Heimild;
-Árbók FÍ 1984 – séra Gísli Brynjólfsson.

Keflavík

Keflavík.

Hvaleyrarvatn

Í sumar (2022) standa yfir framkvæmdir í kringum Hvaleyrarvatn. Skv. upplýsingum á skilti, sem sett hefur verið upp á vesturbílastæðinu er ætlunin að betrumbæta bílastæðið og bæði lagfæra og fjölga göngustígum umhverfis vatnið.

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – minjar (ÓSÁ).

Við upphaf framkvæmdanna spurðist fulltrúi FERLIRs fyrir um það hjá verktakanum hvort starfsmennirnir væru meðvitaðir um staðsetningu fornminja við vatnið. Hann hafði ekkert heyrt um neina fornminjar á svæðinu og virtist kæra sig kollóttan um hugsanlega tilvist þeirra. Nokkrum dögum síðar var búið að reka niður rauða hæla í tóftir Hvaleyrarsels og Ássels, en öðrum nálægum fornleifum hafði verið sleppt.

Hvaleyrarsel

Hvaleyrarsel.

Síðar vakti athygli að plastborði hafði verið strengdur umhverfis þrjár tóftir í seljunum tveimur. Þegar FERLIRsfulltrúinn spurðist fyrir um ástæðu þess að ekki væri búið að merkja aðrar nálægar fornleifar, s.s. stekkina neðan við bæði selin var svarið. „Hönnuðurinn virðist ekki hafa haft hugmynd um fornleifar við vatnið. Það kom honum a.m.k. mjög á óvart að spurst hafði verið um þær“.
Hafa ber í huga að upplýsingar um allar fornleifar við og nálægt Hvaleyravatns hafa verið aðgengilegar á vefsíðu FERLIRs í a.m.k. 20 ár. Ef hönnuðurinn kynni að „gúggla“ hefði hann ekki komist hjá því að fá nauðsynlegar upplýsingar um minjar við vatnið.
Nú þegar vitund hefur kviknað hjá a.m.k. einhverjum væri ekki úr vegi og taka upp þráðinn og merkja þær minjar, sem fyrir hendir eru, gangandi og hjólandi til fróðleiks…

Hvaleyrarvatn

Hvaleyrarvatn – upplýsingaskilti um framkvæmdirnar.

Reykjanesviti

Gengið var frá vitanum á Vatnsfelli á Reykjanesi, með ströndinni og yfir að Litlavita á Skarfasetri, austar á bjarginu, nokkru austan Valahnúks. Vitinn á Vatnsfelli, sem margir telja að heiti Bæjarfell, var tekinn í notkun árið 1908. Nafnið á fellinu er tilkomið vegna lítilla tjarna norðan við hæðina. Vitavarðahúsið stóð hins vegar upp af Bæjarfelli, utan í Vatnsfellinu, þar sem það stendur enn.

Reykjanesviti

Reykjanesviti – gata að gamla Reykjanesvita á Valahnúk.

Genginn var gamall flóraður stígur, sem er nokkuð greinilegur og liggur frá Bæjarfelli að Valahnúk. Þessi stígur var notaður af vitaverðinum þegar vitja þurfti gamla vitans. Gamli vitinn á Valahnúk var fyrsti ljósvitinn á Íslandi og reistur árið 1878. Hann var ekki mjög lengi í notkun því árið 1887 urðu miklir jarðskjálftar á þessu svæði og hrundi þá mikið úr fjallinu og óttaðist fólk að vitinn hyrfi í hafið. Því var hætt að nota hann og vitinn á Vatnsfelli byggður.

Uppi á Valahnúk má enn sjá hleðslu úr grunninum af gamla vitanum (undir fjallinu liggja brotin úr gamla vitanum og bíða þess að verða raðað upp á ný). Fara þarf varlega þegar upp er komið, því brúnirnar eru mjög sprungnar og lausar undir fæti. Þaðan er víðsýnt til allra átta.
Í fjarska trjónir Eldey, 77 metra hár þverhníptur klettastapi. Þar er ein stærsta súlubyggð sem þekkist í heiminum (talning 1949) og þar er talið að geirfuglar hafi verpt fyrrum. Eldey var friðlýst árið 1974. Nú er hún sennilega önnur eða þriðja stærsta súlubyggð í heimi.
Karlinn, virðulegur klettadrangur, stendur rétt utan við ströndina, hann er hluti af gömlum gígbarmi, líkt og Eldey, en Kerlingin, sem var þarna skammt vestar, er nú komin undir sjó. Bæði Karlinn og Kerlingin eru leifar gíga úr sitt hvorri Stampagosgígaröðinni, en þær eru fjórar talsins frá mismunandi tímum. Raðirnar eru dæmigerðar fyrir gígaraðirnar á Reykjaneshryggnum (blunda í 1000 ár en eru jafnan virkar í Önnur 300).
Þegar gengið er niður af Valahnúk er gengið með ströndinni til suðurs meðfram Valahnúkamöl sem er mjög sérstakur sjávarkambur með stóru sæbörðu grjóti. Árið 1950 strandaði breska olíuskipið Clam við Reykjanes og rak upp í Valahnúkamöl, þá drukknuðu 27 menn en 23 var bjargað með fluglínu.

Draugshellir

Draugshellir í Valahnúk.

Uppi á austanverðum Valahnúk er Draugsskúti, en tvennar frásagnir eru til af draugagangi þar er menn ætluðu að gista í honum. Kvað svo rammt af draugagangnum að lá við sturlun þeim er hlut áttu að máli. Um þetta eru skráðar sagnir í Rauðskinnu.
Nafnið má ætla að sé dregið af valabjörgum, en það var áður haft um Valahnúka. Valahnúkamöl lokar dalnum að vestan en Valabjargargjá að austan. Stórgrýttur sjávarkamburinn hindrar að úthafsaldan nái inn í dalinn, en sjór egngur þó langt á land eftri sprungum í hraununum. Þar kemur hann inn á jarðhitasvæði og hitnar. Það gerði möguleika laugarinnar, sem síðar verður minnst á, að veruleika.
Frá Valahnúkamöl er gengið með ströndinni til suðurs, á þeirri leið er gaman að virða fyrir sér þær hraunmyndanir sem ber fyrir augu og gera sér í hugarlund hvers konar ógnaröfl hafa verið þar að verki. Gengið er fram hjá fjölbreyttum básum þar sem brimið ólgar og svellur, sérstaklega er það tilkomumikið í þröngum bás, Blásíðubás, rétt áður en komið er að vitanum. Inn í hann eru nokkur dæmi um að sjófarendur hafi ratað lífsróður í sjávarháska.
Stefnan er tekin á litla vitann á Skarfasetri, hann var byggður sem aukaviti árið 1909 og endurgerður árið 1914 og síðast endurgerður árið 1947. Ástæðan fyrir byggingu hans var að nýji vitinn á Bæjarfelli hvarf á bak við Skálafell þegar siglt var frá suðaustri. Hann kom því ekki að notum fyrir skip sem komu að austan. Einnig liggur oft þoka yfir Bæjarfelli þannig að Reykjanesviti sést ekki. Fyrsti vitinn á Skarfasetri gekk fyrir gasi og var einn fyrsti sjálfvirki vitinn við Íslandsstrendur.

ReykjanesvitiUndir berginu skammt austan við vitann er fallegur gatklettur.
Þegar gengið er til baka er gott að ganga upp með Skálafelli og líta ofan í Skálabarnshelli eða bara ganga sömu leið til baka.

Reykjanes

Reykjanes – sundlaug.

Þegar komið er að Valahnúkamöl er gott að taka stefnuna yfir túnið að Bæjarfelli. Á þeirri leið má finna litla tjörn/gjá, sem er að mestu náttúrusmíð, og er örlítið hlýrri en sjórinn. Sést móta fyrir hleðslum bæði við gjána og einnig ofan í henni líkt og hlaðnir hafi verið veggir og tröppur niður í hana. Í þessari tjörn fengu börn úr Grindavík tilsögn í sundi um og eftir 1930. Þaðan er stutt upp á veg og þar með hringnum lokað.
Undir Bæjarfelli eru tóftir útihúsa frá bæ gamla vitavarðarins sem og hlaðinn brunnur, er gerður var á sama tíma og vitinn á Valahnúk 1878. Umhverfis eru hlaðnir garðar frá búskap vitavarða, en vestan við Valahnúk má enn sjá hlaðinn veg upp úr fjörunni, en eftir honum var grjóti í elsta vitann og íbúðarhúsið ekið úr hraunhellunni, sem þar er.
Meira um nágrenni Reykjanesvita HÉR.
Frábært veður. Gangan tók 2 klst og 22 mín.

Heimild m.a.:
-Árbók FÍ 1984 – séra Gísli Brynjólfsson.

Reykjanes

Reykjanesviti – hliðarstólpar.

 

Eiríksvegur

Í örnefnaskrá og öðrum heimildum úr Vatnsleysustrandarhreppi er Almenningsvegurinn nefndur og er þá átt við þjóðleiðina sem lá úr Vogum (sem og öðrum byggðum sunnar) og inn í Hafnarfjörð. Hér er vegurinn rakinn frá Vogum í Kúagerði, þ.e. þann hluta var nefndur Almenningsvegur eða Menningsvegur, en vegurinn var vestari hluti Alfaraleiðarinnar gömlu millum Innnesja og Útnesja. Alfaraleiðin var sá hluti vegarins jafnan nefndur er lá milli Kúagerðis og Hvaleyrar í Hafnarfirði.
ArnarbælisstekkurVið fylgjum Almenningsveginum eftir endilöngum Vatnsleysustrandarhreppi frá Hæðinni við Voga og eins langt inn úr og hægt er. Ferðin hefst við vegamótin Vogar-Vatnsleysuströnd og  þaðan er stefna götunnar til norðausturs á Presthóla, tvo ílanga hóla sem ber við himin og liggur hún á milli þeirra. Vegna þess hve gatan er óljós að Presthólunum er best að staðsetja hólana frá Hæðinni áður en lagt er upp. Stekkjarholt er rétt neðan Neðra-Presthóls en Brunnastaðalangholt suðaustan við þá.
Vegurinn var í eina tíð vel varðaður og enn má sjá vörðubrot á þessum fyrsta hluta leiðarinnar með tiltölulega stuttu millibili ef vel er að gáð. Fólk ætti að huga að því ef það er óvisst um götuna, en veit nokkurn veginn stefnuna að undantekningalítið má finna hana aftur við hóla þar sem eitthvert graslendi er og á það sama við um flestar gamlar götur sem liggja að hluta um grjótmela og moldarflög.
Á milli Presthólanna er gatan djúp og augljós og skammt austan þeirra sjást hófför í klöppum. Frá hólunum liggur Gamli vegurleiðin svo í stefnu á Arnarbælið sem er að margra mati stærsti og fallegasti hóllinn í heiðinni. Gatan liggur fast við hólinn að ofanverðu og er mjög greinileg þar. Arnarbælið er grasi vaxið og ágætur áningarstaður fyrir göngufólk en vatn er þar ekkert frekar en annars staðar á þessum slóðum. Undir Arnarbæli er „Arnarbælisstekkur“. Frá Arnarbæli til Breiðagerðis er vegurinn mjög óljós og að mestu óvarðaður svo erfitt getur verið að rekja hann síðasta spölinn niður í Breiðagerði.
Ofan Breiðagerðis þar sem Gamlivegur og núverandi Strandarvegur koma saman má sjá vísi að vegagerð fyrri tíma, þ.e. flórlagða götu sem stundum var nefnd Hestaslóðin og gæti verið að sú slóð hafi verið lögð ofan á Almenningsveginn. Gott er að fylgja Hestaslóðinni inn á móts við Kálfatjarnarafleggjarann.
Á köflum allt inn að Prestsvörðu sem stendur rétt ofan og austan afleggjarans er gatan grjótfyllt milli klappa, þ.e. flórlögð svæði sem nú eru mosagróin að mestu.
Austan vörðunnar hækkar landið dálítið og þar heitir Hæðin. Frá götunni á þessum slóðum sjáum við annað veifið í Staðarborgina, stóra  grjóthlaðna fjárborg í StaðarborgKálfartjarnarheiði. Á leiðinni upp hæðina er hætta á að tapa götunni endrum og sinnum enda engar vörður sjáanlegar sem gætu vísað veginn. Neðan við Strandarveginn innst á Hæðinni er Stefánsvarða, falleg og reisuleg, kennd við Stefán Pálsson útgerðarmannn á Stóru-Vatnsleysu (f.1838). Varðan var endurhlaðin árið 1970 af Jóni Helgasyni frá Litlabæ og syni hans Magnúsi. Á stein í vörðunni er klappað nafnið Stefánsvarða. Varðan stendur við gamla götu sem virðist vera frá svipuðum tíma og Almenningsvegurinn og liggur hún neðar og nær bæjum allt frá Vatnsleysu og að Kálfatjörn og hefur  líklega verið meira notuð af heimafólki en hinum almenna vegfarenda. Hólarnir tveir neðan við vörðuna heita Stefánsvörðuhólar, norðan undir nyrðri hólnum er Borgarkotsstekkur.

Almenningsvegur

Almenningsvegur


Þegar komið er upp á Hæðina er auðvelt að rekja sig eftir götunni sem liðast á milli hóla skammt ofan Strandarvegarins. Innri hæðin á þessum slóðum heitir Tvívörðuhæð og gengur Strandarvegurinn í gegn um hana en dálítill slakki skilur á milli hæðanna tveggja.
Haldið er áfram eftir Almenningsveginum og rétt austan Tvívörðuhæðar er Arnarvarða. Varðan sjálf er nú grjóthrúga en hóllinn sker sig nokkuð úr umhverfinu og liggur djúp gatan fast við hann að norðanverðu.  Nær bílveginum er Tvívörðuhóll og lítill stekkur vestan undir honum.

Almenningavegur

Almenningsvegur genginn.

Frá Arnarvörðu er vítt útsýni yfir heiðina og niður til Strandarinnar. Upp undir Reykjanesbraut sjást Hafnhólarnir tveir, Litli- og Stóri-, er sá síðarnefndi í stefnu á Keili séður frá Arnarvörðu. Nær er svo nokkur hæð sem heitir Þorsteinsskáli, er hún í stefnu á Þorbjarnarfell við Grindavík. Suðvestan Þorsteinsskála sést Staðarborgin á sléttlendi. Rétt sunnan við Arnarvörðu er langur klapparhryggur sem heitir Löngubrekkur.
Nú hallar undan fæti og gatan er augljós austur af Arnarvörðu. Á móts við gamla Flekkuvíkurafleggjarann liggur Almenningsvegurinn um 50 m fyrir ofan Strandarveginn, þar er lítið grjótbyrgi sem hlaðið hefur verið við veginn. Á þessum slóðum, rétt ofan hans, er gömul vegagerð sem heitir Eiríksvegur og liggur hann frá Kúagerði og endar í Flekkurvíkurheiðinni. Við breikkun Reykjanesbrautar færðist Strandarvegurinn ofar í heiðina með tilheyrandi hringtorgi að brautinni en þessi lýsing miðar við Strandarveginn eins og hann lá fyrir breytingarnar.
Stuttu innan grjótbyrgisins er farið yfir Hrafnagjá, þrönga misgengissprungu sem gengur niður um tún Stóru VatnsleysustekkurVatnsleysu og í sjó fram. Rétt vestan gjárinnar og neðan Eiríksvegar er komið að Vatnsleysustekk. Á þessum slóðum er erfitt að fylgja götunni og virðist sem Eiríksvegur liggi yfir hana á köflum. Ofan vegar við Stóru Vatnsleysu er túnblettur og ofan hans liggur Eiríksvegur og Almenningsvegurinn hlið við hlið.
Nú hallar aðeins undan fæti og slóðinn nálgast Strandveginn aftur og þar hverfur hann og Eiríksvegur undir afleggjarann að rafstöð fiskeldisstöðvarinnar við Vatnsleysu. Innar, á móts við Steinkeravík (Stekkjarvík), sem er austan stöðvarinnar liggja vegirnir þrír þétt hlið við hlið og er Almenningsvegurinn í miðjunni.
Fagurhóll heitir hóll niður við sjóinn innan víkurinnar og á móts við hann liggja vegirnir tveir undir Strandarveginn, Almenningsvegurinn þó aðeins innar. Áfram er haldið veginn um Akurgerðisbakka en sjórinn hefur sýnt bökkunum töluverðan ágang og næst Afstapahrauninu hverfur hann undir malarkamb en kemur svo aftur í ljós í Kúagerði. Kúagerði var frægur áningarstaður áður, gott vatn í tjörninni og nógir hagar um kring. Þarna liggur Almenningsvegurinn fast við fjörukambinn og myndar nokkuð grasi gróna rönd, kögraða hraungrýti, en þegar komið er að tjörninni hverfur gatan undir umrótið sem varð við byggingu Reykjanesbrautar. Sjá framhaldið HÉR.

Heimild m.a:
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – 2007

Kort

Vegir á Vatnsleysuströnd – G. Ben ’93

 

Alfaraleiðin

Hér er Alfaraleiðin rakin frá Kúagerði að Þorbjarnarstöðum í Hraunum við Hafnarfjörð. Þetta er austari hluti Almenningsvegarins frá Vogum, gamla þjóðleiðin millum Innnesja og Útnesja.
UpphafNæst er haldið frá Kúagerði upp fyrir Reykjanesbrautina og að austurjaðri Afstapahraunsins en þar mátti rekja götuna áfram en líklega er hún nú horfin undir nýbreikkaða brautina. Rétt við gamla Keflavíkurveginn á móts við Hvassahraun er Hvassahraunsrétt og þar finnst gatan aftur ofan vegarins. Hún liðast upp hólaklasann á milli Gamla-Keflavíkurvegarins og Reykjanesbrautarinnar. Innan við hólana hverfur hún síðan undir brautina rétt áður en vegirnir fara að liggja alveg samhliða austan Hvassahraunsbæjarr. Há uppfylling er þar sem Almenningsvegurinn kemur undan brautinni og þar er gatan mjög greinileg en vörður eru engar við hana á þessu svæði.
Handan Reykjanesbrautar kemur gatan í ljós skammt norðvestan við bifreiðaplan austan mislægra gatnamóta. Þar er hún vel greinileg, en vanrækt hefur verið að merkja „upphaf“ hennar þar. Þarna er kjörinn upphafsstaður ef fólk vill ganga leiðina áleiðis til Hafnarfjarðar, enda um þægilega göngu að ræða, ca. 1 1/2 – 3 klst.
Framundan er nokkuð hæðótt og gróið hraun þar sem vörður sjást  á stangli við götuna. Áberandi varða á hæð hægra megin götunnar er framundan. Þegar innar dregur liggur hún um nokkuð slétta, vörðulausa hraunfláka sem nefnast Sprengilendi. Í fyrstu er leiðin óljós en þegar komið er hálfa leið yfir „sléttuna“ skýrist hún verulega og hófför fara að sjást í klöppunum. Gatan liggur ofarlega á þessu svæði en þó aldrei meira en 3-400 m frá Reykjanesbrautinni. Varða er úleiðis hægra megin. Um er að ræða gamla hlaðna refagildru.

AlfaraleiðinInnan við Sprengilendið liggur slóðinn ofan við mjög klofinn og sérkennilegan hraunhól en ofan götunnar og hólsins er hæð sem heitir Taglhæð og á henni er merktur jarðsímastrengur. Þarna sveigir Almenningsvegurinn til austurs, hækkar dálítið og fjarlægist Reykjanesbrautina til muna. Næst er haldið yfir kennileitalítið svæði um nokkurn veg. Framundan til hægri við götuna og aðeins ofar er mjög sérkennilegur, stakur klettahóll sem er eins og hetta í laginu. Þessi hóll er mjög áberandi séður frá Reykjanesbrautinni þó hann sé ekki stór. Hér sjást lítil og fá vörðubrot við götuna. Nú fer útsýnið að víkka til muna og fljótlega sést í stóra sprungna klapparhæð í austurátt sem nefnist Smalaskálahæð[ir] og klapparhól í framhaldi af henni til suðurs. Stefna götunnar er fast hægra megin við hólinn í stefnu sem næst á Vífilfellið. Neðar sést í Kristrúnarborg, fallega heillega fjárborg frá Óttarsstöðum sem sögð er hlaðin um 1870 af Kristrúnu Sveinsdóttur húsfreyju á Óttarsstöðum og vinnumanni hennar. Handan borgarinnar er svo Smalaskálhæðir með fallegum jarðföllum sem gaman er að skoða. Í suðaustri sést varða í allnokkurri fjarlægð. Þar er selsvarðan ofan Lónakotssels. Selstígurinn liggur þarna yfir Alfaraleiðina þar sem tvær vörður eru við veginn.
Gvendarbrunnshæð heitir næsta hæð en sveigt er upp fyrir hana og farið um Löngubrekkur sem liggja utan í hæðinni ofanverðri. Nú sést í fjárskjól, Gvendarbrunnshæðarskjól, með hleðslum við op og er hellirinn í hæðinni við götuna. Fast austan við fjárskjólið er svo Gvendarbrunnurinn, gott vatnsból í klöpp en um brunninn þveran liggur gömul fjárgirðing á mörkum Straums og Óttarsstaða. Austar er komið að hárri og uppmjórri vörðu en hún er sú fyrsta af nokkrum fallegum vörðum sem standa við götuna frá Gvendarbrunnshæð að Kapelluhrauni. Nú taka Þrengslin við en þar liggur hún þröngt á milli hárra hraunhóla. Næsta kennileiti er hár og brattur klapparhóll með rismikilli vörðu sem sést víða að. Þar skammt frá liggur Rauðamelsstígur (Skógargatan/Óttarsstaðaselsstígurinn) yfir veginn. Norðar liggur svo vestari Straumsselsstígur yfir götuna, skammt vestan Miðmundarhæðar. Á hæðinni er há varða, Miðmundarvarða, eyktarmark frá Þorbjarnarstöðum. Neðan við Alfaraleidin-37hæðina er gatan mjög greinileg en frá hólnum uns hún hverfur loks undir háan hraunkantinn spöl fyrir ofan Gerði (starfsmannahús á vegum álversins). Þar  sem gatan lá upp á hraunið hét Brunaskarð syðra en það er nú með öllu horfið vegna rasks.
Framundan eru svo brunaruðningarnir á móts við álverið og að sjálfsögðu sést engin gata þar fyrr en komið er að Kapellunni sem stendur á hraunhól í miðju umrótinu rétt ofan við Reykjanesbrautina beint á móti álverinu. Kapellan er friðlýst lítið grjótbyrgi úr hraunhellum og snúa dyrnar í suðvestur en veggirnir eru tæplega mannhæðar háir. Kapellan er tileinkuð heilagri Barböru, dýrðlingi úr kaþólskum sið. Fyrir innan Kapelluna og allt til Hafnarfjarðar er gatan óljós eða með öllu horfin, en norðan Reykjanesbrautar, austan álversins, sést hún liðast um Hellnahraunið áleiðis að Hvaleyri. Þar er nú golfvöllur og stendur ein varðan innan um flatirnar. Skammt innan og norðan við hana stendur há og reisuleg markavarða.
Sjá MYNDIR.

Heimild m.a:
-Sesselja Guðmundsdóttir – Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi.

Ferðalangar

Grjóti

Hjalti Harðarsson sendi FERLIR eftirfarandi:

„Ég hef haft gagn og gaman af samantekt ykkar um Garðahverfi.

Hausastaðakot

Hausastaðakot.

Móðurforeldrar mínir, Lovísa Guðmundsdóttir og Tryggvi Gunnarsson, bjuggu í Grjóta í Garðahverfi alla sína búskapartíð frá 1925 (skv. byggingarbréfi). Afi og amma (Tryggvi og Lovísa) tóku töluvert af myndum fram eftir tuttugustu öld. Afi framkallaði og stækkaði myndirnar sjálfur. Ég á í fórum mínum nokkrar myndir sem þau tóku; þær elstu frá árinu 1924. Etv. er áhugi fyrir hendi á einhverjum af þessum myndum.
Ég læt hér fylgja í viðhengi pdf-skjal sem ég tók saman s.l. haust með myndum frá Grjóta og nágrenni. Nú í sumar er verið að gera upp íbúðarhúsið í Grjóta í samráði við Minjastofnun.“

Garðahverfi

Garðahverfi – bæir 1907.Í skýrslu um „Verndarsvæði í byggð – Garðahverfi á Álftanesi; tillaga og greiðnargerð„, frá árinu 2017 segir m.a. um sögu hverfisins: „Garðar voru kirkjujörð og höfðu í kringum sig umfangsmikla hjáleigubyggð á 15. – 18. öld. Um 1800 var því sem næst allt land Garðasóknar í eigu kirkjunnar eða krúnunnar. Garðar voru svokallað gæðabrauð sem nutu góðs af nálægð sinni við Bessastaði og var Garðasókn ellefta tekjuhæsta sóknin á landinu af 179 sóknum árið 1737. Þrátt fyrir þá miklu fækkun fólks sem varð á Íslandi á 18. öld þá fjölgaði í Garðahverfi um þriðjung á öldinni. Það endurspeglar þá búsetuþróun sem þá átti sér stað á Íslandi almennt, þar sem fólk flykktist úr sveitunum til sjávarsíðunnar. Þannig hélst fjöldi lögbýla og hjáleigna stöðugur en tómthúsum fjölgaði mikið.

Garðahverfi

Garðahverfi.

Hjáleigubæir við Garða voru flestir smáir og jafnvel mörg heimili á hverjum þeirra. Fjöldi býla hefur tekið litlum breytingum í gegnum tíðina og bæjarstæðin lítið breyst. Hins vegar tók fjöldi bústaða miklum breytingum því ábúendur jarða leyfðu stundum byggingu þurrabúða í landi sínu en þessir íbúar urðu að treysta algjörlega á sjávarfang eða vinnu fyrir aðra.
Á Álftanesi, þ.m.t. Garðahverfi, voru karlar fleiri en konur en annars staðar á Íslandi voru konur um fimmtungi fleiri. Ástæðan gæti legið í mikilli sjósókn en hún var aðallega stunduð af karlmönnum. Sérstaða Álftaness var ennfremur fólgin í yngri aldurssamsetningu íbúa en annars staðar á landinu. Hlutfall barna 10 ára og yngri var mun hærra en landsmeðaltalið. Það bendir til þess að sjávaraflinn hafi ef til vill dregið úr sulti og harðindum og lífslíkur ungbarna því verið meiri en ella.

Garðahverfi

Garðahverfi.

Segja má að blómatími Álftaness hafi verið á 19. öld. Íbúum fjölgaði þar meira en annars staðar á landinu og útgerð og verslun blómstraði. Þar sem möguleikar voru á útræði byggðust upp litlir byggðarkjarnar og voru t.d. sex býli í kringum Dysjar og 32 manns skráðir þar til heimilis. Í manntalinu 1845 eru flestir heimilisbændur skráðir bændur með grasnytjar eða fiskarar og ljóst að allmargir stunduðu hvoru tveggja. Íbúum fækkaði svo aftur eftir aldamótin 1900 í kjölfar sóknar breskra togara á miðin og hruns í fiskveiðum. Þilskipaútgerðin og síðar togaraútgerðin leiddi síðan til fólksflutninga til aðalútgerðarstaðanna og á skömmum tíma fjölgaði íbúum Hafnarfjarðar úr 374 í 1351. Margt af því fólki sem þangað flutti var þurrabúðafólk úr Garðahverfi og Bessastaðahreppi.

Garðar

Garðar í Garðahverfi.

Að Görðum var róið úr heimavör árið um kring en það kallast heimræði. Vegna þessa kann að hafa verið auðveldara að manna báta en á verstöðvum. Garðahverfi var ekki sjávarpláss í hefðbundnum skilningi heldur fremur viðleguver. Sjómenn fengu inni á lögbýlum og hjáleigum og greiddu fyrir vissa þjónustu. Þó virðist sem þar hafi eitt útver eða verstöð verið á 17. öld við svokallaða Óskarbúð en þaðan réri rösklega tugur báta þegar mest var. Að auki virðist sem íbúar hafi lifað jöfnum höndum af sjósókn og landbúnaði, því einungis 2 bæir af 31 lifðu þá eingöngu af búskap. Við sjósóknina var einkum notast við tvíæringa og hefur lítil notkun stærri báta verið útskýrð með því að útvegsmenn hafi viljað dreifa áhætt-unni og forðast að fá tóman feræring heim. Skúli Magnússon landfógeti skýrir þetta þó fremur þannig að menn hafi viljað vera eigin húsbændur og engum öðrum háðir. Þá er fátækt einnig nefnd sem orsakavaldur og getuleysi til að smíða og halda við stærri bátum.

Grjóti

Grjóti.

Vertíðir mótuðust af fiskgengd á slóðir. Vetrarvertíðin var mikilvægust og aflabrögðin mest. Hún hófst um 14. mars og stóð til 11. maí. Vorvertíðin tók þá strax við til hádegis á Jónsmessu. Yfir sumarið var jafnan lítið róið enda oftast lítinn afla að hafa og næg störf við búskapinn. Haustvertíðin byrjaði á Mikjálsmessu hinn 29. september, stóð fram á Þorláksmessu og var eingöngu stunduð af heimamönnum. Lokadagar vertíðanna voru hátíðardagar þar sem boðið var upp á kaffi, lummur, pönnukökur, brennivín og kjötsúpu. Sagt er að Garðhverfingar hafi þótt harðir í sjósókn sinni og síður látið veður hamla sér og róið fyrr en margir aðrir.

Grjóti

Grjóti.

Hrognkelsaveiðar voru stundaðar frá Garðahverfi en svæðið var eitt fengsælasta á Íslandi til slíkra veiða. Hrognkelsi voru mikilvæg til beita og fundust í nýtanlegu magni frá mars og fram í júlí. Grásleppuhrogn voru tínd í höndunum á stórstraumsfjöru þar sem þau voru fest við stóra steina en hrognkelsi voru einnig veidd með höndum eða sting. Sölvatekja voru mikilvæg hlunnindi en það fékkst næstum jafnhátt verði fyrir vætt (40kg) af sölvum eins og einum hlut af fullfermdu tveggja manna fari. Söl voru tínd og þurrkuð til sölu, en voru einnig notuð til að drýgja hey og komu jafnvel í staðinn fyrir hey. Vísbending um mikilvægi þessara hlunninda eru svokallaðir Péturssteinar við Hausastaðagranda, en þeir eru taldir vera jarðamerki milli prestssetursins og nágrannajarða til afmörkunar á réttindum til sölva sem vaxa í fjörunni. Sölvatekja var mikil á Hausastaðagranda, en hann náði um kílómetra út í fjörð og kom aðeins upp úr á fjöru.

Grjóti

Grjóti.

Elstu byggingar á svæðinu eru Garðakirkja og Garðaholt og þær eru jafnamt stærstar og íburðarmestar. Flest íbúðarhús á svæðinu eru fulltrúar húsakynna alþýðufólks; fremur látlaus, lítil og lágreist timburhús, klædd bárujárni. Þökin eru einföld hallandi mænisþök og húsin eru oft reyst á steyptum grunni sem einnig er kjallari. Byggðin er smágerð og húsin yfirleitt stakstæð og mynda litlar þyrpingar. Stíll flestra húsanna endurspeglar upprunalegt útlit. Þó er nokkuð algengt að byggt hafa verið við húsin eða þau bætt með einhverjum hætti, oft í samræmi við upprunalegan stíl.
Yngri húsin eru flest úr steinsteypu, í ýmsum stílum og yfir það heila nokkuð látlaus. Þrátt fyrir að þau séu ekki endilega í sama stíl og eldri húsinu eru þau lítið áberandi innan svæðisins. Söguleg gæði byggðarinnar hafa því haldið sér vel og menningarlandslag byggðarinnar sem hér hefur verið lýst er nokkuð heilsteypt. Garðahverfið hefur því haldist merkilega óspillt og upprunalegt í gegnum tíðina.

Grjóti

Grjóti – byggt árið 19019 og því aldursfriðað.

Hjáleigubyggð líkt og Garðahverfi státar af hefur mikið menningarsögulegt gildi sem hefur sterkar vísanir í sögu þjóðarinnar og lifnaðarhætti fyrri tíma. Samkvæmt fornleifaskráningu eru mjög margar og merkilegar minjar um búsetu að finna í Garðahverfi. Þær tengjast atvinnuháttum, s.s. sjósókn og búskap, samgöngum og menningarlegum þáttum á borð við trúarlíf, skólahald og jafnvel réttarsögu.

Garðakirkja

Garðakirkja.

Garðakirkja er merkilegur kirkjustaður með langa sögu, sem teygir anga sína víða, s.s. með frumkvöðlastarfi í kartöflurækt. Kirkjustaðurinn hefur jafnframt verið miðstöð mannlífs og menntunar. Saga skólastarfs er einnig merkileg á svæðinu með minjum um Hausastaðaskóla, fyrsta heimavistarskólann.
Eins og áður hefur komið fram er sjaldséð að hjáleigubyggð hafi varðveist jafn vel og í Garðahverfi og ekkert dæmi um slíkt á suðvesturhorninu. Einnig hafa hvergi minjar varðveist í jafn ríku mæli, því víðast hvar hafa bæir byggst upp við verstöðvar og uppbygging þeirra og hafnarmannvirkja meðfram ströndinni hafa orðið þess valdandi að fáar minjar eru enn varðveittar.
Auk alls þessa hefur byggðin verið girt af með görðum, bæði túngörðum og varnargörðum meðfram sjónum. Í fornleifaskrá kemur fram að mannvirki af þessu tagi hafi tíðkast frá fornu fari. Elstu minjar á svæðinu eru frá landnámi og líklegt er talið að hér hafi staðið vísir af þorpi á síðmiðöldum. Óhætt sé að segja að menningarsögulegt landslag af þessu tagi sé fátítt „ef ekki einstakt”. Menningarlandslagið í Garðahverfi, þar sem saman koma innbyrðis tengsl manngerðra minja, náttúrufars og sögu, myndar verðmæta heild. Slík heild hefur áhrif á varðveislugildi húsa á svæðinu og segir sögu byggðar á svæðinu. Því hefur menningarsögulegt gildi Garðahverfisins hátt varðveislugildi.“

Grjóti
Í „Húsakönnun – Garðahverfi á Álftanesi“ frá því í desember 2016 segir m.a.: „Byggðin í Garðahverfi hefur lítið breyst um langt skeið. Garðar voru kirkjujörð sem hafði í kring um sig umfangsmikla hjáleigubyggð á 15.-18. öld. Um 1800 var því sem næst allt land Garðasóknar í eigu kirkjunnar eða krúnunnar. Garðar voru svokallað gæðabrauð sem nutu góðs af nálægð sinni við Bessastaði og var Garðasókn ellefta tekjuhæsta sóknin á landinu af 179 sóknum árið 1737. Á Álftanesi voru þá tvö megin höfuðból, Garðar og Bessastaðir. Höfuðbólin töldust bæði til Álftaneshrepps allt til 1878 þegar þeim var skipt í Garðahrepp og Bessastaðahrepp. Önnur lögbýli árið 1703 voru Hausastaðir, Bakki og Dysjar en auk þess var búið á Pálshúsum, Nýabæ, Miðengi, Ráðagerði, Móakoti, Hlíð, Koti og Hausastöðum.
Grjóti
Þrátt fyrir þá miklu fækkun fólks sem varð á Íslandi á 18. öld þá fjölgaði í Garðahverfi um þriðjung á öldinni. Það endurspeglar þá búsetuþróun sem þá átti sér stað á Íslandi þar sem fólk flykktist úr sveitunum til sjávarsíðunnar. Þannig hélst fjöldi lögbýla og hjáleiga stöðugur en tómthúsum fjölgaði mikið.
Hjáleigubæir við Garða voru flestir smáir og jafnvel mörg heimili á hverjum þeirra. Fjöldi býla hefur tekið litlum breytingum í gegnum tíðina og bæjarstæðin lítið breyst. Hins vegar tók fjöldi bústaða miklum breytingum því ábúendur jarða leyfðu stundum byggingu þurrabúða í landi sínu en þessir íbúar urðu að treysta algjörlega á sjávarfang eða vinnu fyrir aðra.
Byggðin var nokkuð þétt og vel tengd saman því götur voru á milli allra bæja og allir vegir lágu til Garðalindar þangað sem íbúar sóttu vatn til fjóss og bæjar. Garðalindin var eina lindin sem aldrei þraut. Íbúar vörðust sífellt ágangi sjávar og voru meðal annars byggðir sjávarvarnargarðar, en sums staðar, til dæmis að Bakka hefur þurft að færa bæinn þrisvar sinnum frá sjónum svo vitað sé.
Á Álftanesi, þ.m.t. Garðahverfi, voru karlar fleiri en konur en annars staðar á Íslandi voru konur um fimmtungi fleiri. Ástæðan gæti legið í mikilli sjósókn en hún var aðallega stunduð af karlmönnum.
Grjóti
Sérstaða Álftaness var ennfremur fólgin í yngri aldurssamsetningu íbúa en annars staðar á landinu. Hlutfall barna 10 ára og yngri var mun hærra en landsmeðaltalið. Það bendir til þess að sjávaraflinn hafi ef til vill dregið úr sulti og harðindum og lífslíkur ungbarna því verið meiri.
Segja má að blómatími Álftaness hafi verið á 19. öld. Íbúum fjölgaði þar meira en annars staðar á landinu og útgerð og verslun blómgaðist. Þar sem möguleikar voru á útræði byggðust upp litlir byggðarkjarnar og voru t.d. sex býli í kringum Dysjar og 32 manns skráðir þar til heimilis. Í manntalinu 1845 eru flestir heimilisbændur skráðir bændur með grasnytjar eða fiskarar og ljóst að allmargir stunduðu hvoru tveggja. Íbúum fækkaði svo aftur eftir aldamótin 1900 í kjölfar sóknar breskra togara á miðin og hruns í fiskveiðum.
Þilskipaútgerðin og síðar togaraútgerðin leiddi síðan til fólksflutninga til aðalútgerðarstaðanna og á skömmum tíma fjölgaði íbúum Hafnarfjarðar úr 374 í 1351. Margt af því fólki sem þangað flutti var þurrabúðafólk úr Garðahverfi og Bessastaðahreppi.
Grjóti.
Minjar í Garðahverfi á Álftanesi eru einstakar og menningarlandslagið sem þar hefur varðveist er fáséð. Hægt er að rekja rætur byggðarinnar aftur á miðaldir hið minnsta og þar er að finna margt merkilegra minja m.a. um sjósókn, samgöngur, búskap, skólahald, trúarlíf og jafnvel réttarsögu. Byggðin var girt af með hlöðnum görðum en mikið grjót er á holtinu sem hægt var að nýta í bæði byggingar og garðagerð.
Grjóti
Varnargarður var gerður meðfram sjónum og hinn mikli Garðatúngarður teygði sig frá Balatjörn í suðaustri, um Desjamýri og Garðaholt, til Skógtjarnar í norðvestri. Fleiri dæmi má taka um minjar sem þarna má finna, bæjarhóla, varir, brunna, útihús, garða, stekki, fjárrétt, fjárborg, gerði, kirkjugarð, aftökustað, steina með áletrunum og fornar leiðir. Auðveldlega má sjá rústir Hausastaðaskóla sem reistur var árið 1759 og var sérstaklega ætlaður almúgabörnum.
Í Garðahverfi hefur bæði verið stundaður landbúnaður og útræði en flest býlin eru landlítil. Byggðin, sem var orðin svo þétt, að vísir var kominn að litlu þorpi, var girt af með görðum og varnargarðar lágu með sjónum. Hér má sjá túnakort frá 1918 sem sýnir byggðina eins og hún er í upphafi 20 aldar.“

Um Hausastaðakot segir:

Hausastaðir

Hausastaðir.

„Hausastaðakot var hjáleiga sem lá undir Hausastöðum fram um 1640 en í eigu Garðakirkju eins og aðrar jarðir í Garðahverfi. Við gerð Jarðabókar árið 1703 var ábúandi Nikulás Jónsson og hjá honum sex menn í heimili. Skv. Manntali bjó þar árið 1801 nafni hans sem var jarðnæðislaus húsmaður og fiskari með konu og tvö börn en annar ábúandi var Árni Jónsson bóndi og fiskari með konu og eitt barn. Í Manntali 1816 var ábúandi einn, Gísli Sigurðsson, með þrjá í heimili en 1845 hafði aftur fjölgað í Koti eins og jörðin var einnig kölluð. Þar voru Ólafur Erlendsson hreppstjóri og fiskari og Helga Gamalíelsdóttir, fyrrverandi vinnukona í Miðengi, börn þeirra tvö, tvær vinnukonur og niðurseta. Tómthúsmennirnir voru tveir, báðir með konur og má ætla að önnur hjónin hafi átt heimili í þurrabúðinni Grjóta (188-9). Í Jarðatali 1847 er tilgreindur einn ábúandi og jörðin enn sögð kirkjueign. Hún er nefnd í Jarðabók 1861 og hélst skv. Fasteignabókum undir kirkjunni 1932 og 1942-4. Í Fasteignamati ríkisins má sjá að jörðin er enn í byggð en liggur nú undir Grjóta sem áður var þurrabúð (191-9). Núverandi eigandi Tryggvi Gunnarsson býr í Grjóta. Hausastaðakot var miðja vegu milli Grjóta og Hausastaða.
Grjóti
Jarðardýrleiki var óviss árið 1703 en landskuld 40 álnir, borguð með tveimur fiskavættum í kaupstað. Kúgildi var eitt, greitt í smjöri til Garðastaðar og uppyngdi staðarhaldari það. Í búpeningi átti bóndi eitt hross og eina kú en fóðrast gátu tvær. Kvaðir voru hestlán, dagsláttur, hrísshestur og mannslán allt árið. Ábúandi lagði sjálfur til húsavið en hafði móskurð í landi staðarins. Dýrleikinn var enn óviss 1847, landskuldin hin sama og kúgildið eitt en 1861 var jörðin talin 6,4 ný hundruð. 1932 var verð hennar með húsakosti 36 hundruð kr., kúgildi tvö, sauðir tíu og hrossið eitt. Afrakstur 1160 m² matjurtagarða voru 15 tunnur á ári. Jörðin hafði hrognkelsaveiði og útræði en uppsátur var í Hausastaðakotsvör (191-17). Á árunum 1942-4 hafði landverðið hækkað í 45 hundruð kr., í bústofninum voru fimm nautgripir, 14 sauðir og eitt hross og garðávextir um 13 tunnur á ári. Jörðin hélt fyrri hlunnindum. Árið 1918 var tún Hausastaðakots 1 ha en hafði 1932 stækkað í 1,5 ha og fengust af því 70 hestburðir af töðu en 104 á árunum 1942-4. Norðaustan megin var Garðatúngarður (185-42)/ 190-34) en girt var umhverfis allt túnið. Austan í því var Grjóti og þarnæst land Hlíðar en að vestan voru Hausastaðir. Spilda frá Hausastaðakotstúni teygði sig milli þess og Móakots niður að sjó.“

Grjóti
Í Morgunblaðinu 1977 fjallar Gísli Sigurðsson um Garðahverfi undir fyrirsögninni „Innan um grásleppu og lambær í Garðahverfi„:
„Garðahreppur, sem síðan í fyrra heitir Garðabær, er kenndur við kirkjustaðinn Garða. Það var meiriháttar jörð og átti til dæmis að verulegu leyti það land, sem Hafnarfjarðarbæ hefur byggst á. En umhverfis Garða hefur verið og er enn talsverður fjöldi smábýla og þurrabúða og mynda Garðahverfið svonefnda.
Af holtinu ofan við Garðahverfið er víðsýnt yfir Reykjavíkursvæðið, Álftanes, Garðabæ, Hafnarfjörð og strandlengjan suður með sjó blasir við þaðan. Ugglaust má deila um, hvaða staður á þessu mesta þéttbýlissvæði landsins sé fallegastur, en mín skoðun er sú, að í grænum hallanum, þar sem þessi litlu kot kúra, sé ein fegurst perla náttúrufegurðar — ekki bara á Reykjavíkursvæðinu, heldur á landinu öllu.
Grjóti
En fegurðin verður ekki látin í frystikistur fremur en bókvitið í askana hér áður fyrr. Framtíð Garðahverfis er óljós á þessari stundu og miklar líkur á, aðafdrifarík tímamót séu framundan. Staðreyndin er sumsé sú, að það er að verulegu leyti gamalt fólk, sem býr í örsmáu bárujárnshúsunum, sem standa þarna innan um grjót og gras. Ekki tekur meira en fimm mínútur að aka út eftir þangað úr Garðabæ, eftir malbikuðum veginum til Bessastaða og framhjá lúxusvillunum, sem tyllt hefur verið niður í hraunið af mikilli nærfærni við náttúruna. Á Garðaholtinu er beygt útaf malbikinu og allt í einu er maður kominn í annan heim, sem ber keim af Selvogi eða Hornströndum. Það er eins og steinsteypuöldin hafi aldrei náð þangað, — sem betur fer ætti maður líklega að álykta.
Grjóti
Þessi staður ber með sér andblæ löngu liðins tíma; áranna eftirfyrra stríð og kreppuáranna, þegar þrjátíu fermetra hús þóttu fullboðleg. Að sjálfsögðu voru þar hvorki baðherbergi né þvottahús, sjaldnast rennandi vatn — og rafmagnið kom löngu síðar. Fyrir utan kirkjujörðina Garða, var meðalstærð býla í Garðahverfi um 30 hektarar og þar var allt með talið: Tún, grjótflákar og beitiland. Það voru og eru kotbýli, þegar miðað er við landstærð jarða í sveitum almennt og búskapurinn hlaut að verða smár í sniðum. Áður fyrr voru hlunnindin fólgin í návist hafsins; grásleppa og jafnvel þorskur voru rétt utan við landsteinana. Þá réru allir sem róið gátu. Nú eru hlunnindin fólgin í návist þéttbýlisins og flestir verkfærir menn á sæmilegum aldri sækja vinnu til nágranna bæjanna.
Samkvæmt íbúaskrá frá síðasta ári, búa samtals 53 manneskjurá 18 bæjum og húsum í Garðahverfi. Aðeins vantar einn íbúa til viðbótar og þá væru að jafnaði þrír til heimilis á hverjum bæ. Á þremur bæjum teljast aldraðar konur einsetubændur og í einu húsi er einsetumaður. Meðalaldurinn er hár; margt af þessu fólki fór að búa um 1930 og er komið á áttræðisaldur og þar yfir Túnin í Garðahverfi ná saman og mynda fallega heild. En sú ræktun, sem þarna má sjá, var komin um og fyrir stríð og síðan hefur litið gerst. Flest íbúðarhúsin eru líka frá þeim tíma.
Auðvelt er að gera því skóna, að þarna yrði geysilega eftirsótt byggingarland. En ekkert skipulag hefur verið gert, sem nær yfir Garðahverfi. Á jörðunum er leyfilegt að byggja upp, ef þess yrði óskað, en nýbýli eða ný hús þar fyrir utan eru ekki leyfð, meðan skipulag er ekki til. En auðséð er að hverju stefnir. Rétt austan við hverfið eru útmörk Hafnarfjarðarbæjar, þar sem blokkir og raðhús sækja fram eins og óvígur her.
Grjóti
Ennþá er þó hægt að njóta þess á fallegum vordegi að koma niður á fjörukambinn hjá Katrínarkoti og sjá Gunnar í Breiðholti koma að landi, drekkhlaðinn af grásleppu. Ilmur af seltu og fiski berst frá ránum, þar sem grásleppan hangir og fáeinum skrefum þaðan eru lambær að gæða sér á grængresi í Hausastaðatúninu. Kristján í Miðengi er líka að huga að lambánum sínum, hálfníræður og ofar í hverfinu situr Tryggvi í Grjóta úti undir vegg og greiðir úr grásleppuneti. Hann vantar aðeins tvö ár í áttrætt. Og í Króki stendur Þorbjörg úti við vallgróinn bæjarvegginn og minnir á gömlu konuna í Brekkukoti í sögu Laxness.
GrjótiÞessi bær býr yfir rómantískri fegurð í sátt og samlyndi við náttúruná, en ekki eru aðrir til heimilis þar en Þorbjörg. Aðeins örfá skref þaðan er félagsheimiliðá Garðaholti, þar sem nútíðin býr; blótar Mammon með ærslum, fylliríi og öskrandi hávaða og á eftir man enginn hvar hann hefur verið. En það er önnur saga.
Að sjálfsögðu er tómt mál að tala um að varðveita alla skapaða hluti, sem eftir standa frá liðnum tíma. Hitt er svo annað mál, að það er óþarft að farga því öllu og væri óneitanlega skemmtilegt að geta varðveitt þó ekki væri nema einhvern hluta Garðahverfisins. Í því sambandi kemur mér sérstaklega í hug bærinn í Miðengi; íbúðarhús, sem er örsmátt á mælikvarða nútíðar og samsvarar að flatarmáli einu sæmilegu herbergi. Samt þótti það gott framfaraspor á sinni tíð og í húsum af þessu tagi ólust jafnvel upp stórir barnahópar.
Guðmann Magnússon á Dysjum, sem verið hefur hreppstjóri i Garðahreppi þar til á síðasta ári að byggðin fékk kaupstaðarréttindi er innfæddur í Garðahverfinu og hefur alla ævi átt þar heima.
Hann sagði, þegar framtíð Garðahverfis bar á góma: „Ég á von á, að hér risi þéttbýli. Helzt vildi ég að hverfið yrði friðað, en varla er hægt að búast við að það verði gert. Garðaholtið verður tekið undir íbúðarbyggingar og svo verður saxað á ræktaða landið unz ekkert verður eftir. Þetta var allt land Garðakirkju og því heyrir það undir jarðeignaheild ríkisins. En ábúðin á jörðunum er til lífstíðar. Það lítur út fyrir að Garðahverfið í núverandi mynd sé deyjandi byggð og að þar muni koma þéttbýli í staðinn, enda fallegt byggingarland — að minnsta kosti meðan túnin eru græn og ósnortin.“

Grjóti
Í skýrslum er Grjóti jafnan nefndur sem Hausastaðakot. Þar segir m.a.: „Byggingarár 1909, Garðav. Hausastaðakot. Tegund: Timbur. Klæðning: Bárujárn. Þakgerð: Mænisþak. Þakklæðning: Bárujárn. Undirstaða: Hlaðin í múr. Íbúðarhúsið í Hausastaðakoti er friðað skv. ákvæðum laga nr. 80/2012. Óheimilt er að raska friðuðum húsum og mannvirkjum, spilla þeim eða breyta, rífa þau eða flytja úr stað nema með leyfi Minjastofnunar Íslands.
Byggingarlist: Einfalt alþýðuhús. Menningarsögulegt gildi Íbúðarhús: löng saga búsetu. Umhverfisgildi: Hluti menningarlandslags. Upprunaleiki: Form og útlit húss hefur haldist vel þrátt fyrir viðbyggingu. Ástand: Ágætt. Varðveislugildi: Varðveislugildi vegna yfirbragðs byggðar. Niðurstaða varðveislumats: Hús er friðað (blátt)

GrjótiByggingarár 1935 Garðav. hlaða Hausastaðakots

Tegund: Steinsteypt, upphafleg gerð húss. Klæðning: Bárujárn. Þakgerð: Mænisþak. Þakklæðning: Bárujárn. Undirstaða: Steinsteypt. Útlit: Einlyft. Sambyggð hlaða, geymsla og rústir af hlöðu. Ekki lengur í landbúnaðarnotum. Byggingarlist: Einfalt byggingarlag. Menningarsögulegt gildi: Hlaða og útihús. Umhverfisgildi: Hluti landbúnaðarlandslags. Upprunaleiki: Útlit hússins nálægt upprunalegu útliti. Ástand: Ágætt en mætti við viðhaldi. Varðveislugildi: Varðveislugildi vegna yfirbragðs byggðar.

Grjóti

Grjóti – endurbætur í ágúst 2022.

Niðurstaða varðveislumats: Samstæð hús og heild sem lagt er til að vernda með hverfisvernd í deiliskipulagi (gult)“.

Grjóti

Grjóti í október 2022. Verktakinn, Gunnar Ingi Jónsson frá Bæjarhúsum ehf, stendur við húsið.

Heimildir:
-Skýrsla: Verndarsvæði í byggð – Garðahverfi á Álftanesi; tillaga og greinargerð 2017.
-Húsakönnun: Garðahverfi á Álftanesi, desember 2016.
-Morgunblaðið, 31. tbl. 28.08.1977, Innan um grásleppu og lambær í Garðahverfi, Gísli Sigurðsson, bls. 7-10.
-Hjalti Hjartarson.
Grjóti

Fagradalsfjall

Fagradalsfjall er móbergsfjall á Reykjanesskaganum vestanverðum. Það er talið vera vestasti hluti Reykjanesfjallgarðsins, en vestan þess eru stök fell. Fagradalsfjall er aflangt frá austri til vesturs, um 385 metrar á hæð og er þar með hæsta fjall á Reykjanesskaga. Það hefur orðið til á ísöld við gos undir jökli og er smáhraunlag á því Fagradalsleid-21ofanverðu, sem gefur til kynna að gosið hafi náð lítið eitt upp úr jöklinum. Fjallið flokkast því sem stapi.
Stapi (eða móbergsstapi) er sérstök gerð eldfjalla sem myndast í eldgosi undir jökli eða íshellu. Gosefnin hlaðast upp í því rými sem bráðnar undan hita gossins. Fyrst um sinn hleðst upp gjóska og bólstraberg en þegar gosið hefur hlaðið sig upp fyrir mörk jökulsins og gosrásin einangrast frá vatninu hefst hraungos. Þegar jökullinn hverfur stendur eftir reisulegt kringlótt fjall með bröttum hamrabrúnum og lítilli dyngju á annars flötum toppi.
Að minnsta kosti fjörutíu stapar eru á Íslandi. Þeir mynduðust á kuldaskeiðum ísaldar en ekki er vitað til þess að slíkur hafi myndast undir núverandi jöklum landsins.
Móberg er bergtegund, sem verður til við gos undir jökli eða vatni þar sem gosopið er nálægt eða rétt undir yfirborðinu, öfugt við bólstraberg, sem myndast djúpt undir vatni. Rétt undir yfirborðinu er þrýstingurinn ekki nægur til að halda kvikunni niðri heldur brýst hún upp á yfirborðið í gufusprengingum og verður að gosösku, sem er glersalli.
Oft hefjast neðansjávargos eða gos undir jökli Fagradalsfjall - Langhollmeð bólstrabergsmyndun ef gosopið er á nægilegu dýpi en þegar á líður grynnkast á opinu og gufusprengingar hefjast með samfarandi gjóskumyndun. Í móberginu má gjarnan finna bólstrabergsbrot eða framandsteina, sem kvikan hefur hrifið með sér á leið upp á yfirborðið. Ef gosopið kemst upp úr vatninu, þannig að gufuspreningum lýkur, hefst hraunrennsli og myndast þá stapar með hraunlagi ofan á móbergsmynduninni.

Móberg er algengt á Íslandi þar sem farið hefur saman eldvirkni og langvinnar jöklanir á kuldaskeiðum ísaldar. Oft má finna hraunhettur efst á móbergsfjöllum, en þær eru, eins og fyrr segir, til marks um að eldgosið hafi náð upp úr vatninu eða jöklinum þannig að hraun hafi byrjað að renna. Þannig má áætla þykkt ísaldarjökulsins út frá hæð hraunlaga í stöpum mynduðum á kuldaskeiðum ísaldar.
Móberg verður til þegar ný gosaska hleðst upp við eldstöð og þjappast saman. Vatn gengur svo í samband við öskuna og hún ummyndast og límist saman í fast móberg, sem tekur oft á sig rauðleitan blæ. Ummyndun gosösku á sér stað við jarðhita og gerist hratt og auðveldlega við tiltölulega lágan hita. Í rannsóknum á Surtseyjargosinu kom í ljós að í 80-100 °C heitum borholum hafði gosaska ummyndast í hart móberg á aðeins einu til tveimur árum en jafnvel enn hraðar við hærri hita.

Moberg - kort II

Ummyndunin verður þannig að ýmsar katjónir losna úr gosglerinu, svo sem kísill, ál, kalsín, natrín og magnesín, en í stað þeirra gengur vatn inn í glerið og járnið í því oxast úr tvígildu járni yfir í þrígilt járn. Járnið gefur móberginu rauðan blæ en katjónirnar, sem gengu úr gosglerinu, mynda holufyllingar, sem límir glerið saman í hart móberg.
Reykjanesskagi er skagi sunnan Faxaflóa og er í laginu eins og ólögulegur fótur til vesturs út úr meginlandi Íslands. Jarðfræðilega er Reykjanesskagi allt svæðið austur að Ölfusá, Sogi, Þingvöllum og í Hvalfjarðarbotn. Hins vegar er í daglegu tali oftast átt við svæðið vestan (sunnan) Hafnarfjarðar og frá Krýsuvík og vestur (suður) úr, þegar talað er um Reykjanesskagann. Venjulega er talað um að fara suður þegar haldið er út skagann, en inn þegar farið er til baka. Suðurnesjamenn fara inn eftir til Reykjavíkur og eru þeir því einir landsmanna sem ekki fara suður til Reykjavíkur, heldur suður heim til sín. Ysti hluti skagans heitir Reykjanes (það er hællinn á fætinum).
Gróft séð er skaginn um 50 km langur og 20 km breiður eða um 1000 ferkílómetrar, sem samsvarar lauslega reiknað 1% af landinu. Hann einkennist af fjöllum, sem eru flest frekar lág móbergsfjöll, mynduð við gos undir jökli á ísöld, og hraunum, sem runnið hafa bæði fyrir landnám og á sögulegum tíma.

Gos-21

Skaginn er frekar gróðursnauður en þó má finna þar ótrúlegan tegundafjölda ef vel er að gáð. Jarðfræðilega er svæðið mjög athyglisvert og ennfremur er það kjörið til útivistar og gönguferða.
Helstu fjöll á Reykjanesskaga vestanverðum eru Langahlíð (sem blasir við frá Reykjavík), Vatnshlíð (austan við Kleifarvatn), Sveifluháls og Núpshlíðarháls (sem einnig heita Austurháls og Vesturháls) og er norðurendi þess síðarnefnda Trölladyngja og Grænadyngja, Keilir, Fagradalsfjall, Þorbjörn (Þorbjarnarfell) og Festarfjall. Mörg fleiri mætti nefna, en þau eru smærri.
Jöklar þekja stóran hluta jarðar á ísöldum. Ísöld er jarðsögulegt tímabil þar sem þykkar jökulbreiður hylja stór landsvæði. Slík tímabil geta staðið í nokkrar milljónir ára og valdið miklum breytingum á yfirborði meginlanda.
Allnokkrar ísaldir hafa sett svip á sögu jarðarinnar. Sú elsta er kennd við svokallaðan forkambrískan tíma fyrir meira en 570 milljónum ára.
Síðasta tímabil mikilla Dalahraun - loftmynd IIjökulframrása er kallað Pleistósen tímabilið og er almennt talið hafa hafist fyrir um 2,6 milljónum ára og lokið fyrir 10 þúsund árum. Sumir telja að síðustu ísöld sé ekki lokið enn heldur sé nú hlýskeið ísaldar (líkt og tiltölulega hlýr vetrardagur).

Minna kuldakast og tímabil sem einkenndist af framrás jökla hefur verið nefnt litla ísöld, en hún hófst á 16. öld og var viðvarandi næstu þrjár aldir. Litla ísöld náði hámarki árið 1750 en þá voru jöklar í mestu framrás síðan á hinni Kvarteru ísöld.
Ekki er vitað með vissu hvað veldur ísöldum en meðal þess sem getur haft áhrif eru geislun sólar, Milankovic-sveifla sem er reglubundin breyting á afstöðu sólar og jarðar, breytingar á kerfi hafsstrauma og mikil tíðni eldgosa.
Eldgos kallast sá þáttur eldvirkni, þegar bergkvika brýtur sér leið upp úr jarðskorpunni, og gosið þá annaðhvort í formi hrauns eða ösku.
Jökull er massi íss sem ekki nær að bráðna milli árstíða. Þeir eru stærsta forðabúr jarðarinnar af ferskvatni og hegða sér líkt og hægfara ár sem hreyfist undan þyngdaraflinu. Stærsti jökull jarðar er á Suðurskautslandinu. Jöklar fyrirfinnast í öllum heimsálfunum. Jöklafræði nefnist sú fræðigrein sem rannsakar sérstaklega jökla.
Jöklar flokkast annars vegar til þíðjökla, sem eru nálægt frostmarki vatns, eða gaddjökla, sem ætíð eru neðan frostmarks vatns.
Skriðjöklar kallast þeir hlutar jökuls, sem renna hægt (þ.e. skíða) út frá meginjöklinum.

Heimild:
-Wikipedia.org

Fagradalsfjall

Í Fagradalsfjalli.

Hraunssel

Grindavíkurbær, Saltfisksetrið og FERLIR buðu upp á þjóðháttakynningu um seljabúskap á vettvangi. Mæting var við Ísólfsskála, u.þ.b. 7 km austur frá Grindavík á Krýsuvíkurleið. Gangan var liður í Menningar- og viðburðadagskrá Grindavíkur.
GönguleiðinFrá Ísólfsskála var haldið að Méltunnuklifi. Um það lá hin forna þjóðleið til Krýsuvíkur. Þaðan var gengið eftir nýlegri slóða á gömlu leiðinni um Leggbrjótshraun og inn með vestanverðum Núpshlíðarhálsi í Hraunsel millum Þrengsla.
Leiðin var greiðfær og tók um 3-4 klst með fræðslustoppum á völdum stöðum. Hraunsel var sel frá Hrauni í Grindavík og að öllum líkindum einnig frá Ísólfsskála, enda selstaðan í hans landi. Þarna eru þrjár selstöður auk eldri selstöðu og tilheyrandi mannvirki.. Selstaðan er með yngstu seljum á Reykjanesskaganum, en hún mun líklega hafa lagst af árið 1914. Í selinu má sjá heillegar tóftir selsmannvirkjanna; baðstofu, búr og eldhús. Í selinu var áð og nesti borðað.
Leiðsögn var um seljabúskapinn og það sem fyrir augu bar á leiðinni. Í bakaleiðini var gengið yfir Skolahraun eftir selstígnum, niður með austanverðu Sandfelli og eftir Höfðasandi að gömlu Krýsuvíkurleiðinni um Méltunnuklif.
Lítið hefur verið skrifað um sel og seljabúskap hér á landi og mjög lítið á Reykjanesskaganum öllum, þrátt fyrir að enn megi sjá þar fjöldamargar sýnilegar selstöður (eða 250 talsins). Á sama hátt og handritin eru áþreifanlegur vottur handbragðsins fyrrum tengja minjar seljanna okkur nútímafólkið beint við þá gömlu búskaparhætti, sem tíðkuðust um aldir eða allt fram á öndverða 20. öldina.
HraunFéð var yfirleitt haft í seli frá 6. – 16. viku sumars. Í seljum voru smalinn auk selráðsmatseljunnar. Þar voru gerðir ostar, skyr, smjör og sýra úr mjólkinni. Fólkið hélt lífinu í fénu og féð hélt lífinu í fólkinu.
Merki jarðarinnar Hrauns eru samkvæmt landamerkjabréfi dagsettu 17.06.1890 og þinglýstu hinn 20.06.1890, sem hér segir: „… úr miðjum ,,markabás” í fjöru er mark á klöpp er aðskilur land jarðarinnar frá landi jarðarinnar Þórkötlustaðir, þaðan liggja mörkin til heiðar vestan til við Húsafell og yfir Vatnsheiði, þaðan sem sjónhending ræður að Vatnskötlum fyrir norðan Fagradalsfjall, þaðan til austurs á Selvallafjall upp af Sogaselsdal, þá eftir Selsvallafjalli til suðurs samhliða landamerkjum jarðarinnar Krísuvíkur þar til að mið suður-öxl á Borgarfjalli ber í merktan klett við götuna á Móklettum. Skal sú sjónhending ráða merkjum frá landi jarðarinnar Ísólfsskála, þaðan til suðurs fram yfir festargnípu í fjöru …“

 

Hraunssel

Samkvæmt þessu má segja að Hraunssel sé á hornmörkum Hrauns og Ísólfsskála. Selstöður voru reyndar mjög gjarnan á landamerkjum, einkum frá fyrstu tíð. Ekki er ólíklegt að þessir bæir hafi samnýtt selstöðuna um tíma því hvergi er að finna selstöðu frá Ísólfsskála, sem verður að teljast óvenjulegt því um fjárríka jörð var jafnan um að ræða. Skýringarinnar gæti verið að leita lengra aftur, eða allt frá því að Hraun var kirkjustaður. Þá átti Skálholtsstóll jörðina og hún verið nýtt sem hjáleiga frá Hrauni. Lítið er til af skráðum heimildum frá þessum tíma (á tímabilinu frá 12. til 17. aldar).
Samkvæmt Landnámu nam Molda-Gnúpur Hrólfsson land í Grindavík og hafa verið að því færð rök að það hafi verið í lok landnámsaldar eða á fjórða tug tíundu aldar. Ekkert er vitað um sögu Grindavíkur næstu þrjár aldirnar. Hrauns er þó getið í rekaskrá Skálholtsstaðar árið 1270. Skálholtsstaður eignaðist jörðina á 15. öld. Árið 1673 bjó þar Hávarður Ólafsson, sem gerði samning við Brynjólf biskup Sveinsson um að hann fengi að halda hluta kirkjunnar í reka á fjörum og greiddi í staðinn eina vætt fisks. Tilefni þessa samkomulags hefur ugglaust verið það að ekki hafi verið hjá því komist að hýsa jörðina að nýju. Heimildir frá 18. öld benda til að Hraun hafi á þeim tíma verið lök jörð og landskuld af jörðinni var aðeins hálft þriðja hundrað árið 1703.
Stekkur í HraunsseliÍ upphafi átjándu aldar var heimræði frá jörðinni árið um kring, en lending voveifleg samkvæmt Jarðabókinni 1703.
Árið 1703 voru á bænum auk bóndans og konu hans og tveggja barna ungra fjögur vinnuhjú. Á búinu voru 4 kýr, 30 sauðfjár og þrjú hross. Jörðin var þá í eigu Skálholtsstóls skv. Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns, þriðja bindi, bls. 9. Tvær hjáleigur voru í landi Hrauns árið 1703. Það gæti einnig skýrt fleiri en eina, eða allt að þrjár, selstöður í Hraunsseli.
Kirkja var á Hrauni allt frá miðöldum fram yfir 1600, en ekki er ljóst hvenær kirkja komst þar á. Í Fitjaannál 1602 segir frá því, að farist hafi með farmskipi Skálholtsstaðar utan við Þórkötlustaði 24 manneskjur og voru flestar jarðaðar í bænhúsinu á Hrauni. Kirkjan virðist hafa aflagst um það leyti.
Þegar kemur fram á 19. öld er sú breyting á orðin að Hraun er eitt mesta myndarbýlið í Grindavík og þar bjó sama fjölskyldan mestan hluta aldarinnar, sem var óvenjulegt í Grindavík.
SelstígurinnUm eða rétt eftir 1822 kom á jörðina Jón Jónsson og er hann í öllum heimildum talinn eigandi jarðarinnar. Hann var gildur bóndi. Hann reisti m.a. þrjú stór og reisuleg timburhús á jörðinni. Eru það fyrstu timburhúsin í hreppnum.
Í sóknarlýsingu 1840-1841 segir um Hraun: ,,Selstaða lángt frá en sæmilega góð.”
Í bókinni Handbók um hlunnindajarðir á Íslandi (1982) segir að meðal hlunninda að Hrauni árið 1932 séu reki og útræði.
Í sóknarlýsingu Geirs Bachmann um afréttarland Grindavíkur segir á bls. 144 um Grindavíkursókn: ,,Ekkert er hér afréttarland…” með þessu á presturinn við, að allt land innan sóknarmarkanna og þar með einnig hreppamarkanna sé háð einkaeignarrétti, en ekki fyrirfinnist upprekstrarland í óskiptri sameign bænda. Hann bætir því við að allt sauðfé sé rekið í selið og þar smalað á hverju máli. Þar sem eru sel, þar er land ekki afréttur í neinum skilningi.
Um landamerki
Ísólfsskála segir í landamerkjabréf dags. 20.06.1890, þinglýst 20.06.1890: „…, úr fjöru við festargnípu við svonefndan Skálasand liggja mörkin til norðurs að merktum kletti við götuna á Móklettum, þaðan til austurs sem sjónhending ræður á miðja suðuröxl á Borgarfjalli, þaðan sama sjónhending austur Selsvallafjall að landamerkjum jarðarinnar Krýsuvík, þaðan til suðurs eftir löngugörn meðfram sömu landamerkjum að Dágon kletti á kampinum fyrir vestan Selatanga, þaðan sama sjónhending fram í stórstraumsfjöruborð, einkennismerki markasteinsins er L.M……“

Hraunssel

Hraunssel.

Hér er landeigendur sammála um hornmarkið við Hraunssel og má leiða að því líkum að það hafi jafnan verið þrætulaust, enda enginn ágreiningur með Hrauns- og Ísólfsskálabændum um landamerki þeirra. Ágreiningur hefur hins vegar verið með Ísólfsskála- og Krýsuvíkurbændum um mörkin.
Um Hraun segir í Jarðabókinni 1703: ‚‚Selstaða langt í frá og þó sæmilega góð.“ Í örnefnalýsingu fyrir Ísólfsskála segir:
 „Austan við mitt Sandfell er götuslóði yfir hraunið austur í Hraunssel fremst. Inn með Núpshlíðarhálsinum að vestan eru tættur sem Hraunssel heita.“
Í örnefnalýsingu fyrir Hraun segir: „
Norðan við Höfðann, aðskilið af mjóu skarði, er Sandfell. Um þetta skarð liggur gata, sem lá um sunnanvert Þráinsskallahraun (Skolahraun) austur í svonefnd Þrengsli, en það er grasræma eða lægð, sem myndast milli Núpshlíðar að austan og hraunsins að vestan. í Þrengslum þessum eru rústir eftir Hraunssel. Þar var haft í seli endur fyrir löngu frá Hrauni.“
Gamla KrýsuvíkurleiðinÍ annarri örnefnalýsinu fyrir Hraun segir:
Á einum stað að sunnanverðu nær hraunið upp að fjalli og heitir þar Þrengsli. Þar fyrir sunnan eru tættur af gömlu seli frá Hrauni og heitir þar Hraunsel.“
Í Jarðamati 1849-1850 er minnst á sumarbeit við allar jarðir í Grindavíkur- og Vatns-leysustrandarhreppum, misjafnlega góða. Virðist yfirleitt miðað við að beitin sé í heimalöndum jarðanna, nema um Hraun í Grindavík segir: „Sumarbeit góð í seli upp til fjalla.“
Hraunssel voru skoðuð árið 2001: „Eftir að hafa skoðað stekkinn í hrauninu norðan selsins, sem eru þrjár heillegar tóftir undir Núpshlíðarhálsinum, kom í ljós ein tóft, greinilega elst þeirra, neðar og á milli tóftana og stekksins. Tóftin er orðin jarðlæg og mosi tekinn að vaxa í henni. Ekki er hægt að greina húsaskipan. Sunnan við hlaðna stekkinn er annar mun eldri. Verður því þetta seinna sel nefnt Hraunssel eldra, en þau sem ofar eru, undir hlíðinni, nefnd Hraunssel yngri. Selsstígur liggur frá selinu að suðurhlíð Hraunssels-Vatnsfells. Stök hús eru norðan við selið, sennilega kúaskjól að hluta.
Yngra selið geymir einar heillegustu tóftir á Reykjanesskaganum, enda heimildir um að það hafi að öllum líkindum verið síðast selja til að leggjast af. Veggir standa heilir og grónir. Grjóthleðslur sjást í veggjum. Stekkurinn er skammt vestar og sjást hleðslur hans og lögun mjög vel. Vatn er í grunnu gili sunnan við selið.
Eftir að hafa lýst minjunum og rifjað upp verklag í seli var selstígurinn fetaður til vesturs yfir Skolahraunið….
Gangan tók 4 klst. Frábært veður.

Hraunssel

Hraunssel- uppdráttur ÓSÁ.

 

Reykjanes

ÞÁTTUR ÚR GOSSÖGU REYKJANESS – Gosskeið fyrir um tvö þúsund árum
Náttúrufar Reykjanesskaga hefur dregið að sér athygli náttúrufræðinga allt frá 18. öld er Eggert Ólafsson og Bjarni Reykjanes-236Pálsson stunduðu sínar rannsóknir þar. Hefur athyglin einkum beinst að hraunum og gígum, jarðhita og misgengjum, en allt setur þetta sterkan svip á ásýnd Reykjanesskaga.
Allskýr mynd hefur fengist af eldvirkni á skaganum á nútíma, einkum síðustu tvö árþúsundin. Á því tímabili var eldvirknin bundin við tvö gosskeið sem stóðu yfir í allt að fjórar aldir hvort. Á báðum gosskeiðunum, sem aðgreinast af um þúsund ára löngu hléi, urðu öll eldstöðvakerfin fjögur á Reykjanesskaga virk. í ljósi þessarar vitneskju og þess sem vitað er um eldri gos má telja sennilegt að eldvirkni á fyrri hluta nútíma hafi verið með líkum hætti.

Reykjanes-237

Síðasta gosskeið á Reykjanesskaga var á tímabilinu 900-1240 og einkenndist af þrennum eldum sem stóðu yfir í nokkra áratugi hver. Á 10. öld runnu hraun á Hellisheiði og að öllum líkindum í Heiðmörk. Einnig varð þá gos í sjó undan Reykjanesi. Á 12. öld geisuðu Krýsuvíkureldar og runnu þá Ögmundarhraun og Kapelluhraun (Nýjahraun). Líklegt er að hraun hafi einnig komið upp í Brennisteinsfjöllum um sama leyti. Tvívegis gaus í sjó undan Reykjanesi. Á 13. öld brunnu Reykjaneseldar og runnu þá fjögur hraun á vestanverðum Reykjanesskaga.

Fundist hafa fjögur gjóskulög“ frá þessum eldum með upptök í sjó við Reykjanes. Fróðlegar samantektir á rannsóknarsögu Reykjanesskaga er að finna í ritum Jóns Jónssonar og Ara Trausta Guðmundssonar. Í greininni verður ekki fjallað frekar um eldgos síðasta gosskeiðs á Reykjanesskaga heldur sjónum beint að næsta gosskeiði á undan, sem var fyrir um tvö þúsund árum. Gosmenjar sem varðveittar eru frá þessum tíma, hraun, gjóskulög og gígar, veita mikilvægar upplýsingar um goshætti og umfang eldvirkninnar. Þótt enn sé margt á huldu um þetta gosskeið liggur fyrir ýmis vitneskja um það sem vert er að taka saman. Kveikjan að greininni eru athuganir höfundar á gosmenjum á Reykjanesi, suðvestasta hluta Reykjanesskaga, en þar kveður mikið að myndunum frá þessu tímabili.

REYKJANESELDSTÖÐVAKERFIÐ
Reykjanes-239Eldstöðvakerfið liggur í SV/NAstefnu, frá Reykjanesi inn á Vatnsleysuströnd. Það er 5-15 km breitt og um 45 km langt að meðtöldum 9 km kafla neðan sjávarmáls suðvestur af Reykjanesi.8 Eldvirkni er einskorðuð við syðstu 15 km kerfisins. Nesið ber þess skýr merki að þar hafa eldgos verið tíð en það er að mestum hluta þakið úfnum hraunum og fokösku. 
Um Reykjanes liggja mót Evrasíu og N-Ameríkuflekanna, mörkuð af gjám og misgengjum. Gliðnun um flekamótin er talin vera um 2 cm/ár að jafnaði.
Gígaraðir á Reykjanesi liggja á tveimur aðskildum gosreinum. Sprungugos hafa orðið á hvorri þeirra að minnsta kosti þrisvar sinnum á nútíma. Ekki er útilokað að gosin séu í raun fleiri, en um það er erfitt að dæma þar sem yngstu hraunin þekja meginhluta Reykjaness. Vestari reinin liggur til sjávar við Kerlingarbás en hin eystri endar í hraundyngjunni Skálafelli. Gosvirkni á Reykjanesi hefur síðustu 2000 árin einskorðast við vestari gosreinina, en á þeirri eystri hefur ekki gosið síðustu 3000 árin. Komið hefur í ljós að skjálftavirkni á Reykjanesi er einkum bundin við vestari reinina.

GOSSKEIÐ Á REYKJANESSKAGA FYRIR UM 2000 ÁRUM
Reykjanes-239Vitað hefur verið um nokkurt skeið að hraun runnu víða á Reykjanesskaga fyrir um 2000 árum. Öll eldstöðvakerfin fjögur á Reykjanesskaga verið virk fyrir um 1800-2100 árum. Hraun runnu á landi allt frá Reykjanesi í vestri að Nesjavöllum í austri og gjóskugos urðu í sjó undan Reykjanesi og í Þingvallavatni. Vísbendingar hafa komið fram um nokkur hraun til viðbótar, einkum í Brennisteinsfjöllum, sem gætu verið frá þessu tímabili. Því til staðfestingar vantar hins vegar traustari aldursákvarðanir. Sama má segja um hraun í Heiðmörk.
Við aldursákvörðun hrauna hefur verið stuðst við gjóskulagatímatal og 14C-aldursgreiningu á koluðum gróðurleifum sem finnast undir þeim. Aldursgreining með gjóskulagatímatali gefur besta raun ef hægt er að skoða gjóskulög bæði ofan á hrauni og undir því.
Á þann hátt má þrengja aldusbil þess verulega. Torvelt getur hins vegar reynst að komast að undirlagi hrauna, einkum hinna eldri eins og gefur að skilja. Árangursríkt hefur reynst að skoða í bakka gjallnáma og lækjarfarvega. Líkt og gildir með gömul hraun er aldur forsögulegra gjóskulaga aðallega fenginn með hjálp 14C-aldursgreininga á gróðurleifum sem liggja næst undir þeim. Nokkur skekkja getur því verið í aldri þessara gjóskulaga.
Notagild i gjóskulaga við tímasetningu gosmyndana er ekki síst fólgið í því að þau virka sem „jafntímalínur“, þ.e. sérhvert gjóskulag er jafngamalt hvar sem það finnst.
Til að gæta samræmis eru allar aldurstölur sem fengist Reykjanes-241hafa með 14C-aldursgreiningum gefnar upp í leiðréttum kolefnisárum. Komið hefur í ljós að styrkur kolefnis í andrúmslofti hefur verið breytilegur á nútíma og leiðréttinga því þörf við útreikninga á raunaldri, þó mismikilla eftir tímabilum.

Varðandi það tímabil sem hér um ræðir er einungis smávægilegra leiðréttinga þörf og m á líta svo á að kolefnisaldurinn sé mjög nærri raunaldri. Skekkjumörk (vikmörk) greininganna eru á bilinu 70-180 ár.
Fremur lítið er hægt að segja til um framvindu eldvirkninnar á gosskeiðinu vegna hárra skekkjumarka aldursgreininganna. Af 1 4 C-aldurstölunum að dæma gæti virst sem marktækur munur sé á hraunum frá Hengilskerfinu og hraunum vestar á Reykjanesskaga. Í þessu sambandi ber þó að hafa í huga að aldursgreiningar á koluðum gróðurleifum undan hrauni gefa ekki raunaldur hraunsins heldur segja til um aldur gróðurleifanna. Eiginaldur plantna er mjög mismunandi eftir tegundum og skiptir því verulegu máli hvaða tegundir veljast til aldursgreiningar. Gróðursýni geta einnig verið blönduð misgömlum plöntuhlutum, sem skekkir aldursgreininguna.
Reykjanes-243Í þessu sambandi má benda á yfirlitsgrein eftir Pál Theodórsson um aldursgreiningar með kolefni-14. Þrátt fyrir ýmsa annmarka má ljóst vera að aldursgreiningar með geislakoli gefa mikilvægar vísbendingar um aldur hrauna.

Telja verður líklegt að gosskeiðið fyrir um 2000 árum hafi einkennst af nokkrum aðgreindum eldum líkt og síðasta gosskeið á Reykjanesskaga. Þá urðu öll eldstöðvakerfin fjögur virk, hraun runnu á að minnsta kosti ellefu stöðum og þeytigos urðu í Þingvallavatni og í sjó undan Reykjanesi. Til að fá ú r þessu skorið þyrfti hins vegar mun nákvæmari aldursgreiningar en nú eru fyrir hendi. Tiltæk gögn benda til að gosskeiðið fyrir 2000 árum hafi varað í að minnsta kosti tvær aldir og það síðasta í u.þ.b. þrjár aldir. Mikill fjöldi hrauna hefur runnið á Reykjanesskaga á nútíma og eru líkur til að skipta megi þeim til gosskeiða líkt og hér hefur verið gert. Einn helsti annmarki á því er upplausn aldursgreininga. Nákvæmni 14C-aldursgreininga og gjóskulagatímatals verður almennt lakari eftir því sem lengra er farið aftur í tímann. Næsta víst m á þó telja að fyllri mynd fengist af gosvirkni á fyrri hluta nútíma með kerfisbundinni rannsókn þar sem báðum þessum aldursgreiningaraðferðum væri beitt.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 72. árg. 2004, bls. 21, 26 og 27.

Arnarseturshraun

Arnarseturshraun.