Þyrluvarða

Í bók Sesselju G. Guðmundsdóttur, „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“, segir m.a. um „Þyrluvörðuna„: „Næst höldum við suðvestur frá Strokkum, förum meðfram Reykjanesbrautinni að neðanverðu, yfir lægðina [Breiðagerðisslakka] sem þarna er og að Þyrluvörðunni svokölluðu“.

Þyrluvarðan

Það var 1. maí 1965 að Sikorsky björgunarþyrla frá Varnarliðinu hrapaði niður í lægðina suðvestur frá Skrokkum norðan Reykjanesbrautar. Hún var að koma frá Hvalfirði á leið til Keflavíkurflugvallar. Þarna fórust fimm menn, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvar Varnarliðsins og var varðan reist í minningu þeirra. Lægðin mun vera hluti af svonefndum Breiðagerðisslakka.
Fréttin birtist m.a. á forsíðu MBL þriðjudaginn 4. maí – Hörmulegt slys er 5 varnarliðsmenn farast í þyrlu, þeirra á meðal yfirmaður flotastöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli – „Sá hörmulegi atburður gerðist s.l. laugardagskvöld um kl. 19, að þyrla frá varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli hrapaði til jarðar við jaðar nýja vegarins sunnan Kúagerðis upp af Landakoti á Vatnsleysuströnd, með fimm mönnum. Allir biðu þeir bana, enda varð þyrlan alelda um leið og hún snerti jörðina. Þrír ungir piltar úr Reykjavík voru sjónarvottar að slysinu og hefir einn þeirra skýrt frá því í smáatriðum í samtali við blaðið, sem birtist á öðrum stað.
Blaðamenn Mbl. fóru á slysstað þegar á laugardagskvöld, en var meinað að koma nær en sem svaraði 30-40 m. Var þá verið að bera lík hinna látnu úr flakinu, en þau voru mjög illa farin og nánast óþekkjanleg, enda mikið brunnin. Meðal þeirra sem fórust var Robert R. Sparks yfirmaður á Keflavíkurflugvelli, næstæðsti maður varnarliðsins. Hann hafði komið til Íslands síðari hluta ársins 1963 og tók þá við fyrrnefndri stöðu á Keflavíkurflugvelli.
Þyrlan var á leið ofan úr Hvalfirði. Þangað höfðu yfirmaður Vallarins, og yfirmaður landgöngulið flotans hér, A. E. House (44 ára), farið í eftirlitsferð. Aðrir í þyrlunni voru: Clinton L. Tuttle, liðsforingi (32 ára flugmaður þyrlunnar), John Brink (39 ára) og Billy W. Reynolds (27 ára sjóliði).
Frá slysstaðHingað er komin rannsóknarnefnd frá Wasington til að kanna orsök slyssins undir yfirstjórn Q. E Wilhemy. Nefndin getur ekki að svo komnu máli gefið upp ástæður slyssins, enda ekki líkur til að hún sé komin að niðurstöðu.“
Þá segir m.a. í fréttinni (bls. 3): „Um kl. 19.00 á laugardagskvöld 1 maí s.l. var hringt sunnan úr Vogum til lögreglunnar Í Hafnarfirði og henni tilkynnt að heyrzt hefði í flugvél upp af Landakoti og Vatnsleysu á Vatnsleysuströnd, en síðan sézt þaðan eldstólpi eins og vélin hefði hrapað og brunnið um leið.
Hafnarfjarðarlögreglan sneri sér til flugturnsins í Reykjavík og Keflavík. Fékk hún þau svör, að engrar flugvélar væri saknað úr fluumferðarstjórn Reykjavíkurturns, en aftur á móti var skýrt frá því á Keflavíkurflugvelli að þyra væri á leið þangað frá Hvalfirði og mundi hún vera á svipuðum slóðum og upp voru gefnar.
FórustReykjavíkurturn kallaði flugbjörgunar-
sveitina á vettvang, en þar sem þyrlan féll til jarðar rétt í vegarbrún hins nýja Keflavíkurvegar var engin þörf fyrir leit, nema að lausum hlutum úr vélinni, og ennfremur var gerð leit að einu líka hinna látnu, sem ekki fannst þegar í stað, enda hafði það lent undir flakinu.
Blaðamenn Mbl. komu á slysstað um kl. 22 á laugardagskvöld. Við okkur blasti rúst vélarinnar í hraunflákum vegbrúnarinnar en stél hennar og afturhluti lá inn á veginn með knosaðri stélkrúfu. Afturhlutinn var rauðmálaður og sást í hvíta stjörnu á bláum grunni, einkennismerki bandaríska flughersins, en að öðru leyti hvar brak vélarinnar í rúst og myrkur.
Við komumst að því meðan við stóðum við, hverjir hefðu verið um borð í þyrlunni og  fengum í stórum dráttum lýsingu á atburðinum. Var okkur þá m.a. sagt að orðið hefði vart bilunar í vélinni áður en slysið varð.“
Þyrluvarðan er reyndar ekki við slysstaðinn sjálfan. Hann er u.þ.b. 600 m norðar. Þar má enn sjá ummerki eftir slysið.

Heimild m.a.:
-Mbl. 4. maí 1965, bls. 1 og 3.
-Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi – Sesselja G. Guðmundsdóttir.

Þyrluvarðan

Hringurinn

Stefnan var tekin á Brunnastaðalangholtin í Strandarheiðinni og næsta umhverfi.
GöngusvæðiðRétt ofan við þjóðveginn, ofan Brunnastaðahverfis, er varða sem hlaðin var er þar fannst dáinn piltur sem örmagnaðist í vonskuveðri, heitir Hermannsvarða{Kristmundarvarða}. Skammt þar frá eru Gilhólar og þar eru einnig Lágarnar eða Skjaldakotslágar. Þarna upp í heiðinni er Brunnhóll, þar er hola í klöpp og þrýtur þar aldrei vatn. Þar skammt frá er Fornistekkur. Norðaustur af Skjaldakotslágum eru þrír hólar, kallast einu nafni Vatnshólar, nokkru ofar er Arnarbæli. Þar var huldufólkskirkja og sást þangað mikil kirkjuferð huldufólks. Þá er Lynghóll og tveir hólar, Klofningar, Klofningur, Neðri- og Klofningur, Efri-. Hringurinn, fjárborg eða -byrgi, einnig nefndur Langholtsbyrgi. Milli Klofninga og Kánabyrgis er jarðfall er nefnist Freygerðardalur. Stúlka með þessu nafni, Freygerður, ól þarna barn á leið sinni um heiðina. Styrkir það stoðir undir að alfaraleið hafi fyrrum legið beina leið yfir Strandarheiðina milli Kúagerðis og Skógfellavegar. Freygerðisdalur er nú kominn undir Reykjanesbrautina. Í honum voru hlaðnar tröppur í jarðfallið svo fé kæmist þar upp af eigin rammleik. Á Syðri- og Nyrðri-Fögrubrekkum eru vörður, sú nyrðri stærri og fallegri en sú syðri. Örnefnalýsingar koma heim og saman, en sumar eru nákvæmari en aðrar.

Fögrubrekkuvarðan nyrðri

Í örnefnalýsingu Ara Gíslasonar fyrir Brunnastaðahverfi má lesa eftirfarandi um miðheiðina: „Áður en lengra verður haldið hér skulum við bregða okkur aftur heim undir Traðarkot, þar upp af vegi eru klapparhólar sem heita Gilhólar og skammt austar ber í Keili frá bæ séð, heitir Skjaldarkotslágar, þar er nú ræktað tún og ofan við Gamlaveg skammt ofan Gilhóla er Brunnhóll, þar var hola niður í hraunklöpp sem sjaldan var þurr. Þar rétt norður af er stekkur, syðst og vestast í lágunum, nefndur Fornistekkur. Norðaustur af Skjaldarkotslágum heita Vatnshólar. Þessir hólar eru þrír, upp undir gamla vegi. Skammt upp af þeim er grasivaxinn hóll sem heitir Arnarbæli og skammt sunnan hans er stekkur sem heitir Ásláksstaðastekkur.“ SGG segir í bók sinni „Örnefni og gönguleiðir í Vatnsleysustrandarhreppi“ (2007) að gróin kvosin, sem stekkurinn stendur í, heiti Kúadalur. „Þar upp í sömu stefnu, heldur til austurs, er Lynghóll.“ Á sléttlendi neðan hólsins eru leifar fjárborgar. „Upp af Arnarbæli, miðja vegu upp að Hrafnagjá austur af Lynghól, eru tveir hólar sem heita Klofningar, eru með viki á milli. Mitt milli þeirra og Kánabyrgis er jarðfall sem nefnt er Freygerðardalur, þar er sagt að kona hafi borið út barn.“
Í örnefnalýsingu fyrir sama svæði segir Gísli Sigurðsson m.a.: „Eftirtalin örnefni er að finna á svæðinu milli þjóðvegarins og Hrafnagjár og verður þá byrjað syðst á landamerkjum. Úr Djúpavogi liggur landamerkjalínan upp sunnan Presthóla í Markavörðuna á Langholti sem einnig er kallað Brunnastaða-Langholt. Varðan er kölluð Langholtsvarða.“

Syðri-Brunnastaðalangholtsvarða

Langholt er langt og tvískipt og áberandi í heiðinni. Á sitt hvourum enda þess eru vörður, Nyrðri-Brunnastaðalangholtsvarða og Syðri-Brunnastaðalangholtsvarða. Syðri varðan er fiskimið frá Gullkistunni undir Vogastapa, en Gullkistan ber örnefnið vegna þess að þar var „mokað“ upp þorski, t.d. á seinni hluta 19. aldar.  Eftir endilöngu holtinu er jarðsímastrengur. „Við Langholt er lægð en nefnist Langholtsdalur og þar er fjárbyrgi, nefnt Langholtsbyrgi eða Hringurinn. Úr Markavörðunni liggur línan í vörðuna Leifur Þórðar sem er á Hrafnagjárbarmi og nokkur hluti Hrafnagjár liggur um Brunnastaðaland.
Í suður frá Grænhól er Lambskinnshóll, á honum stendur SmalaskálavarðaLambskinnshólsvarða. Þar rétt hjá er svo Guðmundarstekkur. Nokkru nær þjóðveginum er borg sem nefnist Lúsaborg og þar rétt hjá er Lúsaborgarvarða. Þá koma Presthólar tveir og nefnast Presthóll, Neðri- og Presthóll, Efri-. Í hólum þessum var mikil huldufólksbyggð. Upp frá Langholti er klapparhryggur sem nefnist Smalaskáli og þar er Smalaskálavarða. Þar austur af eru fagrar, grónar brekkur, kallast Fögrubrekkur. Þá er getið um Kánabyrgi og Kánabyrgishól. Flestir telja að rétta nafnið á þessum stað sé Gangnabyrgi og Gangnabyrgishóll. Á þessum stað komu gangnamenn saman áður en skipað var í leitir að hausti til og þar af mun nafnið dregið, auk þess sem þarna var fjárbyrgi. Frá Halakoti lá stígur upp í heiðina, nefndist Kúastígur, lá upp í svonefnda Kúadali en þar sátu þeir kýr bræðurnir frá Halakoti.

Refagildra

Rétt ofan við þjóðveginn, ofan Brunnastaðahverfis, er varða sem hlaðin var er þar fannst dáinn piltur sem örmagnaðist í vonskuveðri, heitir Hermannsvarða {Kristmundarvarða}.“ Og „Svo bar til, að haustið 1907 eða 1908 var farið í smölun í sveitinni. einn af smölunum var unglingspiltur frá Goðhól hér í sveit, sem hét Kristmundu Magnússon. Það hafði verið mjög slæmt veður, suðaustan rok og mikil rigning (dimmviðri) og fór svo, að pilturinn týndist og fannst daginn eftir örendur á þeim stað sem Kristmundarvarða stendur nú.“ Skv. upplýsingum SGG er Kristmundarvarða ofan Bieringstanga en ekki ofan Brunnastaðahverfis, sbr. lýsinguna. „Skammt þar frá eru Gilhólar og þar eru einnig Lágarnar eða Skjaldakotslágar. Þarna upp í heiðinni er Brunnhóll, þar er hola í klöpp og þrýtur þar aldrei vatn. Þar skammt frá er Fornistekkur. Norðaustur af Skjaldakotslágum eru þrír hólar, kallast einu nafni Vatnshólar, nokkru ofar er Arnarbæli {ekki í landinu (S.S.)}. Þar var huldufólkskirkja og sást þangað mikil kirkjuferð huldufólks. Þá er Lynghóll og tveir hólar, Klofningar, Klofningur, Neðri- {er í Ásláksstaðalandi} og Klofningur, Efri-{er í Ásláksstaðalandi}.
Milli Klofninga og Kánabyrgis er jarðfall er Lynghólsborgnefnist Freygerðardalur. Stúlka með þessu nafni, Freygerður, ól þarna barn á leið sinni um heiðina. Undir Hrafnagjárbarmi liggja Hrafnagjárflatir. Austasti hluti Huldugjár blasir við af Hrafnagjá. En svæðið milli gjánna nefnist Huldur vestast og síðan tekur við Margur brestur. Þá eru Hrútabrekkur, heimundir Hrafnagjá þar sem landamerkjalínan liggur er Inghóll í Inghólslágum.“
Í örnefnalýsingu Sigurjóns Sigurðssonar frá Traðarkoti segir: „Nokkuð fyrir ofan niðurlagða veginn, í suðaustur frá Skjaldarkotslágarhólnum, er klapparhóll með vörðu sem heitir Brunnhóll. Dregur nafn sitt af því að í klöpp rétt sunnan við vörðuna er svolítil hola ofan í klöppina, sem oft stendur í vatn. Í vestsuðvestur af Brunnhól er nokkuð flatlendi, sem heitir Tvívölulágar. Veit ekki af hverju þær draga nafn sitt.
Ofan og sunnan við HringurinnTvívölulágar er stekkur, sem heitir Guðmundarstekkur. Sunnan við stekkinn er langt klapparholt og allhátt, heitir það Stekkholt. Semsagt við norðurenda Stekkholtsins er Neðri-Presthóll og Efri-Presthóll, eru þeir rétt hvor hjá öðrum, liggja frá norðvestri til su[ð]austurs. Sagt er, að þeir dragi nafn sitt af því, að einhvern tíma hafi hóllinn (hólarnir) staðið opinn (opnir) og sést inn í hann (þá) og hafi þá prestur í fullum skrúða staðið þar fyrir altari (þúfur eru á báðum hólunum). Í skarðinu milli hólanna og þar suður af sér fyrir vegslóða. Sennilega er það elzti vegur um Suðurnes. Vegur þessi ber nafnið Einingarvegur. Í suðaustur af Presthólum er langt og allhátt klapparholt, sem heitir Brunnastaðarlangholt. Holtið liggur frá norðaustri til suðvesturs. Vörður eru á sitthvorum enda holtsins og heita Nyrðri- og Syðri-Brunnastaðalangholtsvörður. 

Nyrðri-Brunnastaðalangholtsvarða

Norðaustan við nyrðri vörðuna er dalur (lítil laut). Suðaustan í holtinu í suðaustur frá syðri vörðunni er dalur (lítil laut). Eru þessar lautir kallaðar Nyrðri- og Syðri-Langholtsdalir.
Skammt frá miðju Brunnastaðalangholtinu, í suðaustur, er hringlaga grjótbyrgi, sem heitir Hringurinn. Var það notað fyrir sauðfé (fjárbyrgi). Í suður frá Hringnum er alllangur klapparhryggur, sem liggur frá austri til vesturs. Vestast á honum er klapparhóll, sem heitir Smalaskáli. Á hólnum er varða.
Dagsbirtan

Í austur frá Smalaskála er alllangur klapparhryggur, sem heitir Fögrubrekkur. Á klapparhryggnum eru tvær vörður, Syðri- og Nyrðri-Fögrubrekkuvörður. Suðaustan við klapparhrygginn er dálítið leirflag með rofabörðum hér og hvar, hefir þarna sennilega verið allnokkur grasflöt og máski utan í klapparhryggnum og því hlotið nafnið Fögrubrekkur.
Í austsuðaustur frá Fögrubrekkum er jarðfall, sem heitir Freygerðardalur. Stúlka með þessu nafni, Freygerður, á að hafa fætt þarna af sér barn á leið sinni um heiðina.
Í suðaustur frá Freygerðardal er klapparhóll, Kánabyrgi; á hólnum er varða (ekkert byrgi). Nafnið á hólnum gæti eins verið Gangnabyrgi. Alltaf var og er hvílt sig á þessum hól, þá gengið var og er til smölunar úr Brunnastaðahverfi. En allir eldri menn sögðu hólinn heita Kánabyrgi.“
Frábært veður. Gangan tók 3 klst og 3 mín. 

Heimildir:
-Örnefnaskrá Gísla Sigurðssonar – 1980.
-Örnefnaskrá Ara Gíslasonar.
-Örnefnaskrá Sigurjóns Sigurðssona.
-SGG – Gönguleiðir og örnefni í Vatnsleysustarndarhreppi – 2007.

Birtan í heiðinni

Vogsósar

Eftirfarandi frétt birtist á forsíðu Fréttablaðsins 31. okt. 2007 undir fyrirsögninni Fornt handrit finnst í húsi í Hafnarfirði – Dularfullt handrit rannsakað.

„Við vitum lítið um handritið enn þá. Það fannst í húsi ef svo má segja,“ segir Vésteinn Ólason, forstöðumaður Stofnunar Handritið-Fbl.Árna Magnússonar. Stofnuninni barst fornt handrit í gær sem fannst við tiltekt í Hafnarfirði fyrir nokkrum árum.
„Handritið er með dularfullu letri sem við þekkjum ekki. Það er punktur á milli stafanna og þetta eru hvorki rúnir né latína. Þetta er einhvers konar leyniletur og skrifað á skinn sem bundið er á gamalt íslenskt band. Ég tel að það sé að minnsta kosti 200 til 300 ára gamalt og ef til vill eldra. Það er ekki vitað hvort það var skrifað á Íslandi,“ segir Vésteinn en rannsóknin er enn á frumstigi og kalla þarf til fleiri fræðimenn til þess að ráða gátuna.
Ritinu er lýst sem lítilli bók með viðarkápu sem vafin er inn í reimar. Pálmar Pétursson hafði bókina í fórum sínum í nokkur ár en ákvað að færa hana til athugunar hjá Árnastofnun. „Ég var að hjálpa bróður mínum að flytja og fann bókina á háaloftinu. Ég var þá í sagnfræðinámi og áttaði mig þess vegna á því að hún væri eitthvað til að kíkja á.“

Allt hér að aftan er að mestu til gamans gert – en öllu gamni fylgir jú einhver alvara. Skrifað hefur verið um galdrastafiÞrennt vekur athygli í fréttinni; í fyrsta lagi finnst forstöðumanni handritastofnunar handritið athyglisvert, í öðru lagi virðist textinn ólæsilegur núlifandi handritasérfræðingum og í þriðja lagi virðist handritið vera frá tíð Eiríks á Vogsósum, þess mikla galdraprests. Prestsetrið var löngum í Vogsósum uns brauðið var lagt niður árið 1907.
Séra Eiríkur Magnússon (1638-1716) mun hafa lært undir skóla hjá Jóni Daðasyni í Arnarbæli og var síðar aðstoðarprestur hans. Hann varð síðan prestur í Selvogsþingum og bjó sem ókvæntur húsmaður á Vogsósum. Til eru margar sagnir af séra Eiríki og verður ein þeirra, um galdrabókina Gráskinnu (sem sumir vildu nefna Gullskinnu (Skuggi)), rakin að hluta hér á eftir.
Eitt af sérkennum íslenskra galdramála eru galdrastafir og skræður sem fjöldi manna var dæmdur fyrir að hafa í fórum sínum. Galdraskræður voru að sjálfsögðu lífshættuleg eign á 17. öld en þó eru til fjölmargar skræður á handritasöfnum. Nokkrar þeirra eru sannanlega frá tíma galdrabrennanna, en aðrar eru skrifaðar síðar, þær yngstu á tuttugustu öld. Einhverjar uppskriftir á skræðum leynast enn í einkaeign og til skamms tíma hefur fólk ekki flíkað slíkri eign. Hingað til hefur lítið farið fyrir fræðilegum rannsóknum á innihaldi eða geymd galdrabóka. Uppistaðan í sumum eru galdrastafir með mismiklum textum um meðferð þeirra og tilgang, en aðrar eiga meira skylt við lækningabækur miðalda. Til eru einnig bækur sem innihalda leyniletur af ýmsu tagi. Sumar bækur virðast skrifaðar af einum manni en við aðrar hefur verið bætt smám saman.
Í þjóðsögum er greint frá mögnuðum galdrabókum á biskupsstólunum, Rauðskinnu Gottskálks biskups grimma og Gráskinnunum á Hólum og í Skálholti. Bækur þessar voru grafnar með eigendum sínum og til eru margar sögur um tilraunir skólapilta til að komast yfir þær, sú frægasta er sagan af Galdra-Lofti.
Íslenskir galdrastafir virðast eiga sér mismunandi rætur. Sumir sýnast runnir frá rúnaletri en aðrir eru vafalaust innfluttir og ber þar mest á innsiglum sem finna má í dulspeki miðalda.
Sumir stafir bera nöfn en aðrir ekki. Með stöfunum fylgdu síðan leiðbeiningar um til hvers þeir voru ætlaðir og hvað þyrfti að gera til að þeir hefðu tilætlaða verkan. Því máttugri sem galdurinn var því erfiðara var yfirleitt að framkvæma hann. Tilgangurinn með notkun stafanna spannar allt frá vernd og lækningum til meingjörða. Fjölmargir stafir eru til sem ætlaðir eru til að verjast þjófnaði eða finna þjóf og annar stór hluti eru ástargaldrar, flestir ætlaðir til að verða sér úti um kvenmann.
Galdrastafur um fjárvarnaskaðaEkki eru skræðurnar alltaf sammála um heiti eða notkun einstakra stafa en stafina sjálfa má finna nákvæmlega eins í eldri og yngri skræðum. Í galdramálum sem upp komu á Íslandi er yfirleitt um að ræða stafi eða blöð sem ætluð eru til að létta sér lífsbaráttuna en lítið bar á svartagaldri eða meingaldri.
Í fyrrgreindri sögu af Eiríki á Vogsósum segir: „
Í Biskupstungum var eitt sinn kotkarl nokkur gamall og forn í skapi; lítt siðblendi hafði hann við alþýðu. Hann átti tvo hluti, er honum þóttu bestir af eigum sínum; það var bók, er ekki vissu aðrir menn, hvers innihalds var, og kvíga, er hann kappól.
Karl tók sótt mikla og sendi orð Skálholtsbiskupi og bað hann koma á sinn fund. Biskup brá við skjótt og hugði gott til að tala um fyrir karli og fer til fundar við hann.
Karl mælti: „Svo er mál með vexti, herra, að ég mun skjótt deyja, og vil ég áður biðja yður lítillar bónar.“ Biskup játti því. Karl mælti: „Bók á ég hér og kvígu, er ég ann mjög, og vil ég fá hvort tveggja í gröf með mér, ella mun verr fara.“
Biskup segir, að svo skuli vera, því honum þótti ei örvænt, að karl gengi aftur að öðrum kosti. Síðan dó karl, og lét biskup grafa með honum bókina og kvíguna.
Það var löngu síðar, að þrír skólasveinar í Skálholti tóku fyrir að læra fjölkynngi. Hét einn þeirra Bogi, annar Magnús, þriðji hét Eiríkur. Sagt hafði þeim verið af karli og bók hans, og vildu þeir gjarnan eiga þá bók, fóru því til á einni nóttu að vekja upp karlinn, en enginn kunni að segja, hvar gröf hans var. Því tóku þeir það ráð að ganga á röðina og vekja upp hvern af öðrum. Fylla þeir nú kirkjuna af draugum, og kom karl ekki. Þeir koma þeim niður aftur og fylla kirkjuna í annað sinn og hið þriðja, og voru þá fá leiði eftir og karl ókominn.
Séra Eiríkur þjónaði KrýsuvíkurkirkjuÞegar þeir höfðu komið öllu fyrir aftur, vekja þeir þessa upp, og kom karl þá síðastur og hafði bók sína undir hendi sér og leiddi kvíguna. Þeir ráða allir á karl og vilja ná til bókarinnar, en karl brást við hart, og áttu þeir eigi annað að gjöra en verjast. Þó náðu þeir af bókinni framanverðri nokkrum hluta, yfirgáfu svo það eftir var og vildu koma fyrir þeim, er þá voru á kreiki, og tókst þeim það við alla nema karlinn. Við hann réðu þeir engu, og sótti hann eftir parti bókar sinnar. En þeir vörðust og áttu ærið að vinna. Gekk svo til dags. En er dagaði, hvarf karl í gröf sína, en þeir þuldu yfir henni fræði sín, og hefur karl ekki gjört vart við sig síðan.
En blöðin færðu þeir félagar sér í nyt og sömdu eftir þeim fjölkynngisbók þá, er Gráskinna er nefnd og lengi lá á skólahúsborði í Skálholti. Vann Bogi þar mest að, því hann lærði miklu mest.
Þeir félagar vígðust síðan til prestskapar; varð Eiríkur prestur á Vogsósum í Selvogi, en ekki eru nefndir staðir hinna. En það er frá þeim sagt, að Magnús gekk að eiga heitmey Boga. En er hann spurði það, fer hann til fundar við Magnús, og vissi Magnús það fyrir og það með, að ef Bogi sæi hann fyrri, væri það sinn bani.

Eiríksvarða á Arnarfelli - heiðruð af FERLIR 2006

Magnús gekk í kirkju og stóð að hurðarbaki og lét segja Boga, er hann reið í hlað, að hann væri í kór að gjöra bæn sína. Bogi gekk í kirkju og inn á gólf, og sér Magnús hann fyrri og fagnar honum nú vel. Hann tók því glaðlega, og er hann reið burt, fylgdi Magnús honum á veg.
Að skilnaði tekur Bogi upp pela og býður Magnúsi að súpa á. Hann tók við, tók úr tapann og skvettir í andlit Boga, en hann féll dauður niður. Fer Magnús síðan heim, og segir ekki fleira af honum.
Þegar Eiríkur á Vogsósum frétti þenna atburð, brá honum við og mælti: „Já, já, heillin góð“ (það var vana ávarp hans), „allir vorum við þó börn hjá Boga.“
Þó þeir félagar hefðu farið dult með fjölkynngislærdóm sinn, leið ekki á löngu, áður það komst í orð, að Eiríkur á Vogsósum væri göldróttur. Því boðaði biskup honum á sinn fund og sýndi honum Gráskinnu og bað hann gjöra grein fyrir, hvort hann kynni það, sem á henni væri.
Eiríkur fletti upp bókinni og mælti „Hér þekki ég ekki einn staf á,“ og það sór hann og fór heim síðan. Sagði hann svo síðan kunningja sínum, að hann þekkti alla stafi á bókinni nema einungis einn og bað hann segja frá því, þegar hann væri dauður, en ekki fyrr…“
Heimildir m.a.:
-Fréttablaðið 31. okt. 2007
-http://www.snerpa.is/net/thjod/eirikur.htm
-http://www.galdrasyning.is/
Â

Ísland

Í „Landfræðissaga Íslands“ – Hugmyndir manna um Ísland, náttúruskoðun þess og rannsóknir, fyrr og síðar, eftir Þorvald Thoroddsen segir m.a. um upphaf búsetu manna hér á landi:

2. Fornar sagnir um Ísland áður en það fannst

Þorvaldur Thoroddsen

Þorvaldur Thoroddsen; 1855-1921.

„Hjá ýmsum miðaldahöfundum er getið um Ísland og það sett í samband við viðburði, er gerzt hafa löngu áður en landið fannst; sést það berlega, að slíkt eru skröksagnir eða ýkjur seinni ára, og sanna þær alls ekki neitt samband við landið á þeim tíma, sem tilfærður er. Arthúr konungr, höfðingi Sílúra á Bretlandi, er nafnfræg hetja í gömlum riddarasögum og rímum; þó hafa margir efazt um, hvort hann hefir nokkurn tíma verið til; hann á að hafa dáið úr sárum árið 542 e. Kr. Í gömlum enskum bókum er opt talað um orrustur hans og sigurvinninga; þar er sagt að hann hafi lagt undir sig Norðurlönd og aðrar eyjar, og er þar talið Ísland og Grænland.
Galfried af Monmouth segir fyrstur nokkuð til muna um Arthúr konung og samkvæmar ritum hans eða frásagnirnar í Bretasögum. Þegar Arthúr konungr hafði barið á Söxum og lagt undir sig England og Skotland, er mælt hann hafi farið herferð til Írlands og síðan lagt undir sig Orkneyjar og Hjaltland og Suðureyjar, og síðan Danmörk, Noreg, Færeyjar og Gotland, og lagði svo skatt á öll þessi lönd.

Íslandskort 1576

Íslandskort 1576.

Síðan lagði Arthúr undir sig Frakkland, og líkaði Rómverjum það stórilla og sögðu honum stríð á hendur; bauð hann út miklu liði og voru með honum margir kappar og konungar úr skattlöndum hans; meðal þeirra er talinn »MaIvasíus Tíle-konungr (þat heitir nú Ísland)«. Einn af konungum þeirra, sem kom á eptir Arthúr, Malgó að nafni, »lagði undir sig allt Bretland ok Skotland, Írland, Ísland, Orkneyjar, Danmörk ok Gotland, ok voru þessi lönd öll honum skattgild, en karlmenn þýddust hann en eigi konur ok því varð guð honum reiðr«. Það sér hver maður, að frásagnir þessar eru eintómar ýkjur, tilbúnar löngu eptir þann tíma, sem um er rætt, og verður því ekkert á þeira byggt. Þess er og getið í gömlum bókum, að Kentigern biskup í Glasgow, sem var uppi á 6. öld, hafi sent kristniboða til Orkneyja, Noregs og Íslands; en þetta er jafn ótrúlegt eins og fleira, sem sagt er um þenna biskup. Sögurnar um Sunnifu hina helgu, að hún hafi farið frá Íslandi til Noregs til þess að boða þar kristni á 4. öld, hafa einnig við jafnlítið að styðjast.
Þorvaldur ThoroddsenÍ fjölda mörgum fornkvæðum og rímum er getið um Ísland og Íslendinga, án þess að nokkur fótur sé fyrir því, og – eru slíkt ekki annað en skáldaýkjur, enda tóku rímnaskáldin fram á vora daga það ekki nærri sér, þó landaskipunin væri eigi sem réttust, í »Rosmers«-kvæði er t. d. sagt frá því, að Íslands konungur byggir skip; Rosram stígur í haf ok lætur alla konungsmenn sökkva til botns og drukkna nema Alvar konungsson. Hann er þar í 8. Í öðru kvæði er sagt frá því að Burraandrisi fréttir, að Íslands konungr eigi fagra dóttur og biður hennar sér til handa og vill hafa hálft rikið í heimanmund; Gloríant dóttir konungs er lofuð Karh keisara og vill ekki þýðast risann og biður Olgeir danska að hjálpa sér; hann fer á móti Burmand risa og leggnr hann að velli. Í færeysku fornkvæði er Friðfróði látinn sigla til Íslands, og þorir þá Íslands konungur ekki annað en bjóða honum skatt til friðar sér o. s. frv. Margs konar aðrar ýkjur um Ísland má finna hér og hvar í gömlum útlendum riddarasögum, rímum og kvæðum, og yrði hér oflangt að eltast við slíkt; þó Ísland sé sumstaðar í þess konar sögum sett í samband við viðburði, sera gerðust löngu áður en landið fannst, þá er það þó þýðingarlaust; því kvæðin og sögurnar eru löngu seinna til orðnar.

Íslandskort

Íslandskort 1547.

Nokkur ágreiningur um fund Íslands hefir fyrrum orðið meðal fræðimanna út úr nokkrura gömlum páfabréfum. Þegar erkibiskupsstóll var stofnaður í Hamborg 835, þá er Ísland nefnt í páfabréfinu og hafi sumir af því viljað ráða, að Ísland hafi verið albyggt og kristið, áður en Norðrmenn námu þar land; en hér liggur í augura uppi, að eitthvað hlýtur að vera ranghermt, því landið er nefnt því nafni, er það síðar fékk (Ísland); það er því víst engum efa bundið, að nöfnunum Ísland og Grænland hefir síðar verið skotið inn í páfabréfið, og öll líkindi til, að Brima-biskupar hafi gert það, eptir að Ísland varð kristið, til þess að geta talið þetta land sem önnur norræn lönd undir biskupsstólinn. Halda sumir Aðalbert erkibiskup (1043—1072), er vígði Ísleif Gissurarson til biskups, hafi skotið nöfnunum inn í bréfið og ef til till í 4 önnur brjef, sera seinna voru útgefin.

Íslandskort

Íslandskort 1713.

Seinna spunnust ýmsar sagnir út af þessu, og í raunritum og kvæðum er Anskar hinum helga talið það til gildis, að hann hafi kristnað öll Norðurlönd og þar með líka Ísland og Grænland. Pontanus studdist við þessi páfabréf í ritdeilu sinni móti Arngrími lærða, en Arngrímur áleit, að bréfin myndu vera fölsuð, og á sama máli hafa flestir hinir merkari fræðimenn verið, t. d. K. Maurer, Finnur biskup Jónsson og Jón Sigurðsson. Sumir hafa haldið,“ að nöfnin í frumritinu hafi ranglesist og ritararnir hafi aflagað önnur nöfn og gert úr þeim Ísland og Grænland. Hinn alkunni stjórnmálagarpur Gladstone hefir mikið fengizt við fornfræði og í ritum um Horaer hefir hann komizt að þeirri skoplegu niðurstöðu, að Ísland sé eyjan Ogygia, þar sem Oddyssevs dvaldi hjá Kalypso.

3. Írar finna Ísland

Thule

Thule.

Eins og kunnugt er, voru hér Írar þegar Norðraenn komu fyrst til landsins. Ari fróði segir í Íslendingabók »þá voru her menn cristnir, þeir es Xorþmenn calla Papa, en þeir fóru síðan á braut, af því at þeir vildu eigi vera her við heiðna menn, og létu eptir bæði irscar oc bjöllur og bagla; af því mátti skilja, at þeir voru menn írskir«. Landnáma bætir við um bjöllurnar og baglana, »þat fanst í Papey austr ok í Papýli, er ok þess getið í bókum enskum, at í þann tíma var farið milli landanna«. Síðar segir um Kirkjubæ á Síðu (Ldn. IV. 11). »Þar höfðu áður setið Papar, og eigi máttu þar heiðnir menn búa«. Írar þeir er hinir íyrstu landnámsmenn kölluðu Papa, hafa eflaust verið klerkar eða munkar frá Írlandi, er höfðu leitað í einveru norður í höfum. Það sést líka á riti Dicuils munks, sem skrifað er 825, að Írar hafa fyrstir fundið Ísland. Dicuilus segir í riti sínu fyrst frá Thule og talar um hvað Solinus hafi sagt um þetta land og bætir því næst við: »Nú eru þrír tigir ára síðan, að klerkar, sem dvalið höfðu á þessari eyju frá því í byrjun febrúarmáuaðar til byrjunar ágústmánaðar, sögðu mér, að um sumarsólstöður og um næstu daga undan og eptir þá hyrfi sólin, er hún gengur til viðar eins og bak við dálítinn hól, svo að engin dimma varð um sjálfa þessa stuttu stund, hvað sem menn vilja gjöra t. d. tína lýsnar úr skyrtunni, þá má gjöra það eins og sól væri á lopti; ef þeir hefðu komið upp á há fjöll þar á eynni, mundi sólin líklega aldrei hafa horfið þeim.

Íslandskort

Íslandskort 1793.

Mitt um þessa stuttu stund er miðnætti á jörðunni miðri, það er því ætlun mín, að sólin sjáist aptur á móti um skemmstari tíma í Thule um vetrarsólstöður eða nokkrum dögum undan og eptir, en þá er miðdegi á miðri jörðunni. Þeim hefir skjátlazt, er skrifað hafa, að sjór væri frosinn kringum eyna og að einlægur dagur án nætur væri frá vorjafndægrum til haustjafndægra og aptur á móti samhangandi nótt frá haustjafndægrum til vorjafndægra, því klerkar þessir komu þangað sjóleið um þann tíma, þegar mikill kuldi er vanur að vera og dvöldu þar, og voru þá ávallt dagar og nætur á víxl nema um sólstöðurnar, en þegar þeir sigldu þaðan norður á við eina dagleið, hittu þeir frosinn sjó«. Því næst segir Dicuilus frá eyjaklasa, sem liggur tveggja daga sigling fyrir norðan Bretland og eru það líklega Færeyjar. Eyjar þessar eru allar litlar segir hann, og þröng sund á milli, og hafa þar búið í nærri hundrað ár einsetumenn frá Skotlandi, en þeir hafa orðið að flýja fyrir norskum víkingum, segir hann að þar sé ótölulegur grúi af sauðfé og alls konar sjófuglum. Af frásögn Dicuils er það auðséð að einsetumenn írskir hafa fundið Ísland líklega einhvern tíma á 8. öld, úr því Dicuilus hefir talað við klerka, sem þar höfðu verið um árið 795. Á Írlandi og Skotlandi hefir ekki verið friðsamt í þá daga þegar víkingahóparnir austan um haf alltaf voru að gera strandhögg, brenndu borgir og þorp, kirkjur og klaustur, drápu fólkið og rændu fénu; guðhræddir einsetumenn urðu að leita lengra og lengra burtu til þess að geta verið í friði.

Íslandskort

Íslandskort frá því um 1900.

Í latnesku riti um sögu Noregs, sem ritað hefir verið á Orkneyjum á miðri 13. öld, er þess getið, að þar hafi búið Piktar og Papar, er Norðmenn námu þar land; um Papana segir höfundurinn meðal annars: »Papar voru þeir kallaðir af því þeir klæddust hvítum klæðum eins og klerkar. -Þess vegna eru allir klerkar á tevtonska tungu kallaðir Papar. Ennþá heitir ein eyja Papey eptir þeim«. Allmörg örnefni á Orkneyjum og Hjaltlandseyjum benda á Papana. Í Orkneyjum eru tvær Papeyjar, Papey meiri og Papey minni (Papa-Westray og Papa Stronsay) og á tveim stöðum heitir þar Papýli, á Hrossey (Mainland) og á Rögnvaldsey (South Ronaldsay). Við Hjaltland eru líka tvær Papeyjar, Stóra Papey (Papa Stour) og Litla Papey (Papa Little) o. s. frv.  Af þessu sézt, að klerkar frá Írlandi mjög snemma hafa sest að á eyjum þessura og má svo rekja feril þeirra um Suðureyjar, Orkneyjar, Hjaltland, Færeyjar og alla leið til Íslands. Hinir fyrstu íbúar, sem menn hafa sögur af á Orkneyjum, voru Piktar, og tóku þeir snemma við kristni, sagt er að Cormac hafi boðað þar kristni á 5. öld. Piktar héldu Orkneyjum fram á níundu öld, en þá urðu bæði lærðir og leikir að stökkva úr landi fyrir ofríki hinna norrænu víkinga. Munkaflokkar frá Írlandi settust víða að á eyjum og útskerjum við strendur Skotlands á 8. og 9. öld, og finnast mjög víða merki eptir þá; þar sem byggð var boðuðu þeir kristni, og seinna settust þeir að á eyðieyjum og lifðu einsetumannalífi, fjarri róstum og ofríki víkinganna, sem þá fóru að koma í stórhópum að austan, einkum eptir það, að Haraldur hárfagri fór að brjóta undir sig Noreg. Hinir fornu Keltar á Írlandi og Skotlandi voru yfir höfuð að tala mjög gefnir fyrir sjóferðir og allt af á sífelldu flakki; það eru jafnvel nokkrar líkur til þess, að þeir hafi fundið Vesturheim fyrr en allir aðrir Norðurálfumenn, þó það sé með öllu ósannað enn.“

Heimild:
-Landfræðissaga Íslands – Hugmyndir manna um Ísland, náttúruskoðun þess og rannsóknir, fyrr og síðar eptir Þorvald Thoroddsen, gefin út af Hinu islenzka bókmenntafjelagi, I. Reykjavík, prentuð í Ísafoldarprentsmiðju 1892, bls. 13-14.

Íslandskort

Íslandskort 1548.

Þrengsli

Í Lesbók Morgunblaðsins árið 1974 má lesa eftirfarandi um Þrengsladrauginn undir fyrirsögninni „Aðsókn í Þrengslum„:
„Ég sá hann greinilega, en kann gufaði upp“.

Þrengsli

Í Þrengslum.

Rætt var við einn þeirra, sem hafa „séð“ í Þrengslunum:
„Ég sá hann greinilega, svo greinilega að ég myndi þekkja hann aftur á ljósmynd, en hann bara gufaði upp,“ sagði Jón Karlsson bifreiðarstjóri, þegar ég spurði hann um Þrengsladrauginn sem margir hafa séð veifa við veginn, en hefur svo horfið, sporlaust að sjálfsögðu, þegar þeir hafa stöðvað bíla sína.
Jón rifjaði upp fyrir mig atburð, sem henti rétt fyrir jól í fyrravetur. Þá var hann að fara austur í Þorlákshöfn síðdegis í ljósaskiptunum á vörubíl þeim, sem hann ekur þarna oft. „Þegar ég gerði mér grein fyrir, að þessi sýn var ekki af þessum heimi, þá varð ég feikilega hræddur, ég er nú ekki meiri kall en það.“
„Þetta gerðist þannig,“ sagði Jón, „að þegar ég var að aka veginn rétt hjá Raufarhólshelli við svokallaðar Draugahlíðar, sá ég allt í einu mann hægra mégin við veginn. Hann veifaði og ég stöðvaði bílinn, en horfði alltaf á hann. Þegar ég drap á bílvélinni þurfti ég að beygja mig vinstra megin við stýrið og leit því af manninum, en þegar ég leit upp aftur var hann horfinn. Ég fór þá út úr bílnum vegna þess að ég hélt, að hann hefði farið aftur fyrir hann. Þar var þá ekki sálu að sjá og svo vítt sást allt um kring, að vonlaust var, að nokkur meður hefði komizt í hvarf frá bílnum á þessum stutta tíma. Þegar ég áttaði mig á þessu greip mig mikil hræðsla og ég ók eins og druslan komst til Þorlákshafnar. Ég sá þennan mann mjög greinilega. Hann var með gráleita enska húfu og í viktoriupeysu, brúnum buxum og stígvélum, en hvítir sokkar vour brettir niður á stígvélin. Maðurinn var með pokaskjatta og líklega hefur hann verið 40—50 ára. Ekki þorði ég aftur þessa leið til Reykjavíkur um kvöldið heldur ók til Hveragerðis frá Þorlákshöfn og síðan Hellisheiðina til Reykjavíkur. Ég héf aldrei orðið var við neitt nema þetta og ekkert var ég að hugsa um slík mál þarna á Þrengslaveginum. Ég var einmitt að raula lagið um Gölla Valdason. Síðan hef ég farið þarna margar ferðir og aldrei orðið var við neitt, en þessa sýn man ég vel, hann stóð þarna fremur beinn, karlmannlegur og með veðurbarið andlit. Ég hef aldrei haft beyg af draugum, en svo hefur maður „séð“ með eigin augum og hvað getur maður þá sagt.“

threngslin-223Í sama blaði var rætt við Bergþóru Árnadóttur frá Þorlákshöfn um sama efni undir fyrirsögninni „Getur ekki ekið Þrengslin vegna aðsóknar“:
„Þetta byrjaði í haust, þegar ég fór að aka á milli Þorlákshafnar og Reykjavíkur að næturlagi, en þá fór ég að sjálfsögðu um Þrengslin. Nú fer ég ekki Þrengslin lengur heldur Hellisheiðina og frá Hveragerði til Þorlákshafnar þótt sú leið sé miklu lengri. Ég get ekki farið um Þrengslin ein að næturlagi vegna þessarar ásóknar.“
Sú, sem þetta mælir, heitir Bergþóra Árnadóttir, ung kona frá Þorlákshöfn; hún á við haustið 1973. Hún þarf oft að aka þessa leið að næturlagi vegna þess að hún er í Kórskólanum.
„Þetta lýsir sér þannig, að á ákveðnum stað i Þrengslunum, í lægðinni skammt fyrir ofan Raufarhólshelli, syfjar mig alveg óheyrilega. Ég fór þarna í nokkur skipti og það var alveg sama, þótt ég væri alls ekkert þreytt eða syfjuð, þegar ég kom þarna í Þrengslin varð ég hreinlega máttlaus af syfju og oft lá við, að ég æki út af, þótt ég færi mjög hægt.
Eina stjörnubjarta nótt í fallegu veðri nú i vetur varð ég að stöðva bílinn vegna þess, hve mig syfjaði og ákvað því að leggja mig stundarkorn og vita hvort ég yrði ekki hressari. Eftir nokkra stund vakna ég við það, að barið er nokkrum sinnum i bílinn hjá mér. Ég rís upp og gái út hélt að kind væri ef til vill af rjála við bílinn, en það sást ekkert kvikt, hvorki við bílinn né í grenndinni. Ég vildi þá helzt trúa því, að mig hefði verið að dreyma og þar sem syfjan var jafn áleitin, ákvað ég að leggja mig aftur og hreiðraði því um mig í sætinu eftir að hafa lokað bílglugganum. Þegar ég var búin að koma mér fyrir þarna í sætinu heyrði ég, að barin voru bylmingshögg í bílinn, miklu fastar en fyrr, og þá var ég ekki í neinum vafa lengur. Engin sála var við bílinn, ég ræsti vélina í skyndi og ók eins og bíllinn dró, alveg heim til Þorlákshafnar. Ég var mjög hrædd. Eftir þetta fór ég alltaf Hellisheiðina og svo frá Hveragerði til Þorlákshafnar, þar til fyrir stuttu að ég reyndi aftur að fara um Þrengslin. En það var sama sagan, ég varð svo syfjuð, að ég rétt komst heim, en drauginn hef ég aldrei séð. Þegar ég hef stigið út úr bílnum í Þorlákshöf, hefur öll syfja jafnan verið úr mér. Ég hef lfka reynt að aka í samfloti með öðrum bílum um Þrengslin og þá hefur allt verið í lagi, ef ég gæti þess að vera alltaf rétt á undan þeim. Oftast fer ég þó Heilisheiðina, þegar ég þarf að fara þarna um að næturlagi.
Fólk í Þorlákshöfn hefur oft séð mann við veginn á þessum stað, sem veifar til bíla, en þegar þeir stöva er enginn sjáanlegur. Ég held ekki, að þarna sé neitt illt á ferðinni en það er eitthvað.“

Heimild:
-Lesbók Morgunblaðsins 30. júní 1974, bls. 10.

Drykkjarsteinn

Í Ferðabók Eggerts Ólafssonar er m.a. fjalla um brýni. Í umfölluninni er getið um tvö örnefni, sem ekki lengur eru þekkt sem slík; Móháls og Drykkjarháls.

Mohals-21

Svo virðist sem þarna sé annars vegar átt við skarð þar sem gamla þjóðleiðin liggur um Mókletta norðan við Siglubergsháls milli Festarfjalls og Fiskidalsfjalls og hins vegar hálsinn vestan Drykkjarsteinsdals norðvestan Slögu. Örnefnið Móklettar er enn til norðaustan í fyrrnefnda hálsinum og Drykkjarsteinn er norðaustast í nefndum Drykkjarsteinsdal.
Í Ferðabókinni segir: „Móháls, stuttur fjallvegur á Suðurnesjum, er að mestu leyti úr grófgerðu þursabergi og eitlabergi. Frumefnið í því er dökkmórauður sandsteinn, sem hraunmolar og brimsorfnir smásteinar hafa blandast saman við.
Í Drykkjarhálsi, sem liggur nokkru fjær Grindavík er Móháls, er mikið móberg. Eru þar bæði fíngerð og Drykkjarsteinn-21gróf afbrigði þess. En af þeim er brýnissteinn (lapis cotarius particulis aequalibus mollissimis) bezta tegundin. Hann er mjög fíngerður og sléttur slípisteinn, brúngulleitur á lit. Háls þessi er merkilegur vegna nafnsins, en það er dregið af keri, sem höggvið er í sandsteinsklett uppi á fjallinu rétt við veginn vegfarendum til afnota. Kletturinn kallast Drykkjarsteinn, því að þar stóð fyrrum drykkur til reiðu þeim, sem um veginn fóru. Héraðið í kring er þurrt og vatnslaust, og því var þar maður, sem safna skyldi regnvatni eða sækja vatn lengra að, þegar þurrkar gengu, og hafa kerið ætíð fullt af súrblöndu, og sótti hann sýruna til byggða. Ef til vill var honum goldið fyrir þetta.“
Eggert Ólafsson (1726-1768) fór í rannsóknarferðir um Ísland með Bjarna Pálssyni, síðar landlækni, á árunum 1752-1757. Í þessari ferð könnuðu þeir náttúru landsins en einnig almennt ástand þess og gerðu tillögur til úrbóta.

Brynisteinn-21

Á veturna sat hann í Viðey hjá Skúla Magnússyni landfógeta – líkt og Árni Magnússon hafði hálfri öld áður setið í Skálholti milli ferða sinna um landið. Eggert samdi síðan ferðabók þeirra félaga á dönsku og kom hún út árið 1772.
Í Samvinnunni 1944 segir m.a. um Ferðabókina: „
Ferðabók þeirra Eggerts og Bjarna er víðtækasta og gagnmerkasta heimildarrit um Ísland og íslendinga á 18. öld, sem skráð hefur verið. Ber fátt gleggra vitni um armóð Íslendinga en sú furðulega staðreynd, að Ferðabókin skuli aldrei hafa verið gefin út á máli Söguþjóðarinnar fyrr en nú, þótt senn séu 200 ár liðin siðan ritið var fært í letur. Nú hefur verið úr þessu boett. Ferðabókin kom út um síðustu áramót í þýðingu Steindórs Steindórssonar frá Hlöðum, og hefur hann yfirleitt leyst verkið prýðisvel af hendi. Margir hefðu kosið snið og frágang bókarinnar nokkru vandaðra en raun ber vitni, en hvað sem því liður, er hitt víst, að bókinni var svo vel tekið, að upplagið seldist allt á skömmum tíma.“
Hafa ber í huga að staðar- og atvikslýsingar í Ferðabókinni eru ekki alltaf mjög nákvæmar, a.m.k. hvað Reykjanesskagann varðar. Til dæmis er getið um hverafugla, sem verpa harðsoðnum eggjum, hveri sem lita ullina ýmist svarta eða hvíta o.s.frv.
Í örnefnalýsingum fyrir Ísólfsskála segir eftirfarandi um Drykkjarstein og nágrenni: „
Norðanvert við Slöguna er Drykkjasteinn. Hans er víða getið, vegna þess að þar fengu ferðamenn oft svölun.
Hans er einnig getið í þjóðsögum. Norðan í, vestur af Skyggni, er svonefndur Litli-Leirdalur. En lægðin, sem Drykkjarsteinn er í, heitir Drykkjarsteinsdalur.“ Og Brynisteinn-22
Drykkjarsteinsdalur er norðan við Slögu vestanvert. Þar í er Drekkjarsteinn. Það er stakur móklettur við fjallshlíðina með nokkuð djúpum skálum en litlum um sig og þar stóð oftast vatn í sem var kærkomin svölun ferðamönnum, því lítið er um yfirborðsvatn á þessum slóðum. Skálin er nú sprungin og ekkert vatn þar lengur að hafa.“
Þegar FERLIR skoðaði framangreinda staði virtist örnefnið Móháls augljóst þar sem gamla þjóðleiðin lá um hann ofarlega í Móklettum. Gatan er þar grópuð í móbergið þar sem hún liggur um unnið skarð. Skammt neðar eru mörkuð landamerki Ísólfsskála og Hrauns (V1890). Móklettar svara vel til lýsingar Eggerts á dökkbrúnu þursabergi og eitlabergi.
Þar sem gamla þjóðleiðin lá yfir Borgarhraun og upp á hálsinn vestan Drykkjarsteinsdals má sjá nefnt brúngulleitt slípiberg, kjörið til nota sem brýni. Bergið, sem virðist hluti af fornum berggangi, er langsneiðklofið svo auðvelt hefur verið að velja réttar þykktir á brýnin, allt eftir þörfum hverju sinni.

Heimild:
-Ferðabók Eggerts Ólafssonar og Bjarna Pálssonar, 1772, bls. 196
-Samvinnan 1944, bls. 119
-Örnefnalýsing Ara Gíslasonar fyrir Ísólfsskála. Heimildarmaður er Guðmundur Guðmundsson frá Skála.
-Örnefnalýsing Lofts Jónssonar fyrrir Ísólfsskála

Frykkjarsteinn

Drykkjarsteinn.

Krýsuvík

Fyrir þá, sem eru lítið fyrir lestur, er ágætt að byrja á því að lesa niðurlag þessarar umfjöllunar. Við það gæti áhuginn á frekari lestri kviknað. Ekki eru hafðar myndir með textanum svo þær dragi ekki athyglina frá innihaldinu.

Þann 18. júní 1999 kvað Hæstiréttur Íslands upp dóm í máli Hafnarfjarðarbæjar gegn íslenska ríkinu. Efnislega krafa málsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur var að krefjast afsals fyrir landi því sem Hafnarfjarðarbær fékk vegna eignarnáms jarðarinnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ sem og öllum hlunnindum sem jörðunum fylgja. Undanskilið er það land sem þegar hafði verið afsalað með afsalsbréfi til Hafnarfjarðar af ríkinu og var útgefið 20. febrúar 1941, en það land er nú innan lögsögu Hafnarfjarðar, þ.e. landið sunnan Kleifarvatns utan nefndra jarða.
Með lögum nr. 11/1936 var ríkinu heimilað að taka nefndar jarðir eignarnámi og skyldi afhenda sveitarfélaginu Hafnarfirði afnotarétt jarðanna þannig að það fengi þörf fyrir hita, ræktun og sumarbeit fullnægt. Gullbringusýslu skyldi afhenda lítt ræktanlegt beitiland jarðanna sem afréttarland fyrir sauðfé.
Með lögum nr. 101/1940 var kveðið svo á, að Gullbringusýsla skyldi fá lítt ræktanlegt beitiland jarðanna í samræmi við skiptagerð, sem gerð hafði verið á árinu 1939 samkvæmt fyrirmælum framangreindra laga, en Hafnarfjörðir skyldi fá jarðirnar að öðru leyti.
Hafnarfjörður taldi sig aðeins hafa fengið hluta þess landssvæðis sem hann hefði átt rétt á samkvæmt þessu. Talið var að megintilgangur laganna frá 1940 hefði verið sá að afla ríkinu lögformlegrar heimildar til að afsala Hafnarfirði beinum eignarrétti að því landsvæði, sem því hefði verið markað í skiptagerðinni. Framganga Hafnarfjarðar í tengslum við afsalsgerðina og eftirfarandi aðgerðarleysi þess um árabil gæfi ótvírætt tl kynna, að það hefði verið ásátt við að tilgangi laganna hefði á þeim tíma verið fullnægt. Var staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að hafna kröfum Hafnarfjarðar gegn ríkinu.

Í rauninni er framangrein niðurstaða mun merkilegri en í fyrstu mætti ætla.

Í dómi Hérðasdóms koma fram sögulegar staðreyndir er varða undanfara eignarnámsins. Á árinu 1935 flutti Emil Jónsson, þáverandi alþingismaður Hafnarfjarðarkaupstaðar, frumvarp til laga „um eignarheimild á nokkrum löndum og á afnotarétti landsvæða í Hafnarfirði, Garðahreppi og Grindarvíkurhreppi og um stækkun lögsagnarumdæmis Hafnarfjarðar“, eins og í yfirkskrift frumvarpsins segir. Frumvarpið varð að lögum nr. 11/1936. Í 4. tl. 1. gr. laganna er ríkisstjórninni veitt heimild til að taka eignarnámi jarðirnar Krýsuvík (í lögunum segir Krísuvík) og Stóra-Nýjabæ í Grindavíkurhreppi.

Í greinargerð sem frumvarpinu fylgdi segir, að á árinu 1933 hafi verið lögð fram 3 frumvörp, sem öll hafi hnigið til sömu áttar og miðast við það, að bæta úr brýnni og aðkallandi þörf Hafnarfjarðarkaupstaðar á ræktanlegu landi. Ástæður hafi í engu verulegu breyst frá þeim tíma. Áhugi fyrir aukinni ræktun sé mikill og almennur í Hafnarfirði, en landið sé lítið nærtækt, nema hraun sem sé óræktanlegt með öllu. Í niðurlagi greinargerðar með frumvarpinu segir svo: „Enn er það nýmæli í þessu fr., að Krísuvík í Grindavíkurhreppi og Stóri-Nýjibær verð tekinn með. Er það gert með tilliti til þess, að þar eru einu jarðhitasvæðin í nágrenni Hafnarfjarðar. Hafa kaupstaðarbúar mikinn hug á að tryggja sér þau og notfæra á ýmsa lund síðar. Jarðir þessar eru nú lausar út ábúð og í eyði, svo tíminn yrði aldrei betur valinn en einmitt nú.“

Í 1. mgr. 2. gr. laganna frá 1936 segir, að eignarnámsbætur til eiganda jarðanna Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar skulu metnar af gerðardómi þriggja manna og mælt fyrir um það, hverjir skuli skipa þá til setu í gerðardóminum.

Gerðardómurinn skilaði niðurstöðu, sem dagsett er 4. nóvember 1936. Þar er tekin afstaða til verðmætis ýmissa kosta og hlunninda jarðarinnar í 10 liðum og verður hér á eftir gerð grein fyrir niðurstöðu gerðardómsins um hvern einstakan þátt.

Í I. kafla er húsakostur jarðanna beggja verðmetinn og komist að þeirri niðurstöðu, að þar í liggi engin verðmæti.

Í II. kafla dómsins er fjallað um ræktað og ræktanlegt land og sá hluti landsins metinn á kr. 10.000, án þess að landsvæðið sé afmarkað með nokkrum hætti.

Í III. kafla gerðardómsins eru vötn og tjarnir jarðanna verðmetnar og komist að þeirri niðurstöðu að ekki sé þar eftir neinu að slægjast að undanskildu Kleifarvatni. Í niðurlagi kaflans segir svo um Kleifarvatn: „En vitanlega er með öllu ómögulegt að gera sér nokkra grein fyrir því, hversu mikið vatnið kynni að auka verðmæti landsins, en eitthvert tillit virðist þó verða að taka til þess, er heildarverð landsins er ákveðið.“

Í IV. kafla eru námuréttindi jarðarinnar verðmetin. Þar er einkum fjallað um möguleika á nýtingu brennisteinsnáma, en brennistein hafði áður verið unninn þar úr jörðu. Í niðurlagi kaflans segir: „Eftir því sem fyrir liggur, virðist því ekki unnt að meta námur þessar til neinnar verulegrar hækkunar á landi jarðanna. En vera má, að þær skipti einhverju máli í sambandi við iðnað þar á staðnum, vinnslu leirs eða annara efna. Námuréttindi í landinu teljum við því að meta mætti á kr. 2000-tvöþúsund-krónur.“

Næsti kafli varðar Krýsuvíkurbjarg. Þar er nýtingarmöguleikum lýst og komist að þeirri niðurstöðu, að bjargið sé nokkur þáttur í verði jarðanna, eins og það er orðað í dóminum. Matsverð þessa þáttar nam kr. 4.000.

Í VI. kafla er jarðhiti jarðanna metinn til verðs. Þar eru raktir ýmsir nýtingarkostir og komist að þeirri niðurstöðu, að verðmæti jarðhita á allri Krýsuvíkurtorfunni sé kr. 30.000.

Óræktanlegt land er metið til verðs í VII. kafla gerðardómsins og lýst kostum þess sem afréttarlands til sauðfjárbeitar. Svo virðist sem gerðardómsmenn sjái ekki að hafa megi önnur not af landinu en til beitar og verðmat gerðardómsins miðist við þau afnot. Í niðurlagi kaflans segir, að óræktanlegt eða lítt ræktanlegt land megi áætla 5.000 kr. virði.

Í VIII. og IX. kafla dómsins er greint frá ítökum, bæði umræddra jarða í annarra manna löndum og eins ítökum annarra í landi jarðanna tveggja, Krýsuvíkur og Stóra-Nýjabæjar. Í X. kafla eru önnur hlunnindi jarðanna metinn. Það var álit gerðardómsins að þeir hagsmunir, sem lýst er í þremur síðustu köflum hans, væru svo óverulegir, að þeir hefðu engin áhrif á heildarmatsverð jarðanna.

Heildarmatsverð jarðarinnar með gögnum öllum og gæðum nam þannig kr. 51.000.

Á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar, sem haldinn var 17. nóvember 1936 var fjallað um niðurstöðu gerðardómsins og möguleg kaup bæjarfélagsins á jörðunum tveimur. Lagt var til að bjóða ríkissjóði að kaupa helming hitaréttinda jarðanna, en gengi það ekki eftir myndi bæjarfélagið kaupa jarðirnar með öllum gögnum og gæðum fyrir matsverð. Þetta var kynnt í bréfi bæjarstjóra Hafnarfjarðar til þáverandi forsætisráðherra, sem dags. er 18. nóvember s.á. og áréttað í símskeyti 24. sama mánaðar. Tilmælum bæjarstjóra virðist hafa verið svarað með bréfi dags. 3. desember s.á. en það svarbréf liggur ekki fyrir en þetta má ráða af framlögðu bréfi bæjarstjóra til atvinnu- og samgöngumálaráðuneytisins dags. 10. desember s.á. Í því bréfi leggur bæjarstjóri til, að kaupverð jarðanna verði greitt með tilteknum hætti, sem þar er nánar lýst. Í niðurlagi bréfsins segir svo: „Ef upphæðin, mót von minni, skyldi reynast of lág, geri jeg ráð fyrir að hana mætti auka nokkuð. Þetta vænti jeg að hið háa ráðuneyti láti nægja til þess að eignarnámið geti farið fram.“

Íslenska ríkið eignaðist jarðirnar Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ með afsali dags. 4. maí 1937. Í afsalinu kemur fram, að ríkissjóður hafi greitt eignarnámsþola (Einari Benediktssyni) „matsverð hinna eignarnumdu jarðeigna, sem með matsgjörð, framkvæmdri 4. nóvember 1936 samkvæmt ákvæðum niðurlags 2. gr. fyrgreindra laga, var ákveðið samtals kr. 51.000- fimmtíu og eitt þúsund kr, að frádregnum þeim kr. 2000.00- tvö þúsund-kr., sem téð námuréttindi eru metin í nefndri matsgjörð…..“ eins og þar segir.

Ekkert virðist síðan hafa verið hreyft við málinu þar til á árinu 1939 en þá var þeim mönnum, sem skipuðu gerðardóminn frá 1936, falið að ákveða landamerki milli ræktanlegs og óræktanlegs lands Krýsuvíkurtorfunnar, að beiðni þáverandi ríkisstjórnar, bæjarstjórans í Hafnarfirði og sýslumanns Gullbringusýslu. Hinn 1. maí 1939 var ákvörðun tekin á fundi gerðardómsmanna, sýslumanns Gullbringusýslu og bæjarstjórans í Hafnarfirði, um stærð ræktaðs og ræktanlegs land, sem tilheyra skyldi Hafnarfjarðarkaupstað og það afmarkað á sama kort og gerðardómurinn hafði áður notað. Fram kemur, að fulltrúar Gullbringusýslu og Hafnarfjarðarkaupstaðar hafi eftir atvikum fallist á ákvörðun gerðardómsmanna og undirrita þeir hana athugasemdalaust. Afmörkun landsvæðisins er sú sama og lýst er í kröfugerð stefnanda undir A lið.

Þáverandi sýslumaður Bergur Jónsson, f.h. Gullbringusýslu, fór þess á leit við atvinnu- og samgönguráðuneytið í bréfi dags. 6. júní 1939 að fá keypt til eignar þann hluta Krýsuvíkurtorfunnar, sem félli utan þess svæðis, sem Hafnarfjarðarkaupstað hafði verið ákvarðað fyrir kr. 5.000, sem svaraði til matsverðs. Með bréfi dags. 23. júní s.á. til sama ráðuneytis var þess óskað af hálfu bæjarstjórans í Hafnarfirði, Friðjóns Skarphéðinssonar, „að hið háa ráðuneyti gefi Hafnarfjarðarbæ afsal fyrir því landi jarðanna, sem gerðardómurinn hefur afmarkað, svo og öllum jarðhitanum“. Þessi tilmæli áréttaði bæjarstjórinn með bréfi dags. 29. september s.á.

Með lögum nr. 101/1940 er lögum nr. 11/1936 breytt. Í 1. mgr. 1. gr. laganna, sem raunar eru aðeins ein lagagrein, segir svo: „Jarðir þær, sem um getur í 4. tölul. 1. gr. skal afhenda Hafnarfjarðarkaupstað og Gullbringusýslu þannig, að sýslan fái í sinn hlut lítt ræktanlegt beitarland jarðanna til sumarbeitar fyrir sauðfé, samkvæmt skiptagerð, sem framkvæmt var af hinni þar til kjörnu matsnefnd, sbr. niðurlag þessarar greinar, 1. maí 1939, en Hafnarfjarðarkaupstaður fái jarðirnar að öðru leyti með öllum gögnum og hlunnindum, sem jörðunum fylgja og fylgja ber að undanteknum námuréttindum.“

Í greinargerð, sem fylgdi frumvarpi til þessara laga kemur fram, að eldri lögin frá 1936 hafi þótt svo óljós, að landbúnaðarráðherra hafi ekki talið sig geta framkvæmt landskiptin, samkvæmt tillögu matsnefndar (gerðardómsins). Af hálfu Emils Jónssonar, flutningsmanns frumvarpsins, kemur fram, að lagafrumvarpið sé lagt fram að ósk bæjarstjórans í Hafnarfirði, til að „taka fram skýrar en áður var það, sem ég tel, að samkomulag hafi verið um þegar lögin á sínum tíma voru sett.“ Með bréfi dags. 21. maí 1940 til atvinnumálaráðuneytisins ítrekaði Friðjón Skarphéðinsson, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, fyrri tilmæli sín með vísan til þeirra tveggja bréfa, sem áður er getið. Þar er þess óskað að ráðuneytið „láti Hafnarfjarðarbæ í tje afsal fyrir Krísuvíkurlandi samkv. lögum nr. 11, 1. febr. 1936, og samkv. lögum um breytingu á þeim lögum frá síðasta Alþingi, sem væntanlega hafa þegar hlotið staðfestingu“, eins og í bréfi hans segir.

Með afsali dags. 20. febrúar 1941 afsalaði landbúnaðarráðherra til Hafnarfjarðarkaupstaðar til eignar og umráða landsvæði því, sem nú er í eigu kaupstaðarins og er landamerkjum lýst með sama hætti og fram kemur í kröfugerð stefnanda undir A lið og áður er vikið að. Að auki er öllum hitaréttindum afsalað til kaupstaðarins á allri Krýsuvíkurtorfunni og aðstöðu til hagnýtingar þeirra. Í afsalinu kemur fram, að Hafnarfjarðarkaupstaður skuli hafa afnot af Kleifarvatni, svo og allan veiðirétt í vatninu, en óheimilt sé að setja girðingu meðfram vatninu, nema fyrir eigin landi. Þar segir ennfremur: „Öll námuréttindi eru undanskilin í afsali þessu og geymist eiganda þeirra óhindraður umferðar- og afnotaréttur af hinu afmarkaða svæði Hafnarfjarðarkaupstaðar, eftir þörfum.“ Þá er getið um það í afsalinu, að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi greitt að fullu andvirði landsins kr. 44.000, að viðbættum áföllnum kostnaði kr. 6.813.10 og lýst nánar með hvaða hætti greiðslan var innt af hendi. Í upphafsorðum afsalsins segir svo: „Samkvæmt lögum nr. 101,14 maí 1940, sbr. lög nr. 11, 1. febrúar 1936, afsala ég hér með f.h. ríkissjóðs til bæjarstjórnar Hafnarfjarðar vegna Hafnarfjarðarkaupstaðar til eignar og umráða landi úr jörðunum Krísuvík og Stóra-Nýjabæ (Krísuvíkurtorfunni)…..“ Neðanmáls í afsalinu er ritað: Samþykkur f.h. Hafnafjarðarkaupstaðar þt. Rvk 24/2 ´41 Friðjón Skarphéðinsson. Undirritun hans er vottuð af tveimur vottum.

Með afsali dags. 29. september s.á. afsalaði landbúnaðarráðherra til Gullbringusýslu „öllu lítt ræktanlegu beitilandi jarðanna Krísuvíkur og Stóra-Nýjabæjar (Krísuvíkurtorfunnar) í Grindavíkurhreppi í Gullbringusýslu, til sumarbeitar fyrir sauðfé og er þá jafnframt undanskilið úr jörðum þessum það land, sem með afsalsbréfi ráðuneytisins, dags. 20. febrúar 1941, hefur verið afsalað Hafnarfjarðarkaupstað…“ Einnig er í afsalinu sölu hitaréttinda til Hafnarfjarðarkaupstaðar getið og afnotaréttar kaupstaðarins að Kleifarvatni. Þá kemur fram í afsalinu að andvirði landsins kr. 5.000 að viðbættum kostnaði kr. 961,86 sé að fullu greitt.

Á sjöunda áratug aldarinnar reis ágreiningur um norðurmörk Krýsuvíkurlands og suðurmörk Hafnarfjarðarbæjar, sem lauk með dómi landamerkjadóms Gullbringu- og Kjósarsýslu uppkveðnum 14. desember 1971 í máli nr. 329/1964. Sóknaraðilar málsins voru Jarðeignadeild ríkisins og Gullbringusýsla, en Hafnarfjarðarbær var varnarmegin. Í upphafi dómsins segir: „Sýslusjóður Gullbringusýslu er aðili að máli þessu sem eigandi beitiréttar á öllu útlandi Krísuvíkur, sem ekki er eign Hafnarfjarðarkaupstaðar, og hinn reglulegi dómari, þá Björn Sveinbjörnsson, settur sýslumaður, er oddviti sýslunefndar Gullbringusýslu. Hefur hann því vikið sæti…….“. Í dóminum er hvergi að finna vísbendingu um það, að Hafnarfjarðarbær hafi þá talið sig eiga tilkall til eignarréttar að landsvæði því, sem beitarréttur Gullbringusýslu nær til.

Á árinu 1981 óskaði þáverandi bæjarstjóri Hafnarfjarðarbæjar eftir upplýsingum hjá landbúnaðarráðuneytinu um eignarnám það, sem átt hafði sér stað á grundvelli laganna frá 1936 og 1940. Af gögnum málsins má ráða, að bæjarstjórn Hafnarfjarðar hafi allt frá árinu 1982 gert kröfu til eignarréttar yfir þeim hluta Krýsuvíkurlands, sem Gullbringusýslu var veitt beitarafnot af með afsalinu frá 29. september 1941.

Lögin nr. 11/1936 eins og þeim hafi verið breytt með lögum nr. 101/1940, voru skýr og afdráttarlaus. Hafnarfjörður og Gullbringusýsla áttu að skipta með sér Krýsuvíkurtorfunni.

Hafnarfjörður hefur nokkrum sinnum farið fram á það við landbúnaðarráðuneytið, að gengið yrði frá afsali til bæjarins fyrir jörðunum Krýsuvík og Stóra-Nýjabæ í heild sinni, eins og kveðið sé á um í lögunum frá 1936 og 1940, en án árangurs. Með bréfi dags. 1. september 1982 hafi bæjarstjórn Hafnarfjarðar komið á framfæri við ráðuneytið samþykkt sinni frá 18. maí 1982 um að skora á ráðuneytið að gefa út afsal fyrir jörðunum og sjá til þess að lögsagnarumdæmi kaupstaðarins yrði stækkað til samræmis við 4. gr. laga nr. 11/1936. Það bréf hafi verið ítrekað 18. nóvember 1983, en ráðuneytið látið hjá líða að svara erindinu. Bæjarstjóri stefnanda hafi ritað landbúnaðarráðherra bréf þann 10. september 1985 og enn óskað svars, sem fyrst hafi borist 18. nóvember 1986. Þar hafi kröfum bæjarstjórnar verið hafnað. Sama svar hafi borist við tveimur bréfum bæjarins frá 1996, þar sem kröfur bæjarins voru enn ítrekaðar og enn hafi sama afstaða borist með bréfi ráðuneytisins dags. 25. mars 1997.

Ríkið byggir á því, að allir málsaðilar hafi litið svo á, allt frá því að lögin frá 1940 komu til framkvæmda og fyrrgreind afsöl höfðu verið gefin út, að ríkissjóður væri eigandi að því lítt ræktanlega landi, sem Gullbringusýsla hafði afnot af til sumarbeitar. Það hafi verið sameiginlegur skilningur aðilanna að fullnægt hafi verið öllum skyldum ríkissjóðs, samkvæmt lögunum frá 1936 og 1940. með afsölunum tveimur. Stefnandi hafi engar kröfur sett fram í þessu sambandi, fyrr en rúmum 40 árum síðar. Líta verði til þess, hvernig umráðum og vörslum landsvæðanna hafi verið háttað sem og, hvernig huglæg afstaða málsaðila hafi verið, en hún sýni ótvírætt, að enginn þeirra hafi dregið í efa grunneignarrétt stefnda að deilulandinu með þeim takmörkunum sem falist hafi í afsölunum tveimur, en stefnandi og réttargæslustefndi eigi þar aðeins takmörkuð réttindi til afnota, annars vegar til sumarbeitar fyrir sauðfé og hins vegar hitaréttindi og takmörkuð réttindi yfir Kleifarvatni, auk umferðarréttar. Stefndi vísar í þessu sambandi til dóms landamerkjadóms Gullbringu- og Kjósarsýslu og Hafnarfjarðar í málinu nr. 329/1964: Jarðeignadeild ríkisins og sýslusjóður Gullbringusýslu gegn Hafnarfjarðarkaupstað. Í máli því hafi verið deilt um landamerki jarðar, aðliggjandi Krýsuvíkurtorfunni. Jarðeignadeild ríkisins hafi verið aðili að málinu, sem og sýslusjóður Gullbringusýslu, en hinn síðarnefndi sem eigandi beitarréttar á öllu útlandi Krýsuvíkur. Stefnandi hafi verið varnaraðili málsins. Í þessu máli hafi því aldrei verið haldið fram af hálfu stefnanda, að hann væri rétthafi að landi því, sem nú sé deilt um. Beri því almennt og eins og málið horfi nú við sömu aðilum að telja dóm þennan hafa sönnunargildi, sbr. 116. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Þá sé ljóst, að mati ríkisins, að Hafnarfjarðarkaupstaður hafi ekki greitt fyrir annað en hitaréttindi í Krýsuvíkurtorfunni og það land sem talist hafi ræktað og ræktanlegt í skiptagerðinni frá 1. maí 1939. Hafnarfjörður hafi alls greitt kr. 44.000 fyrir ræktaða og ræktanlega landið, jarðhitann og Krýsuvíkurbjarg, sem sé innan marka hins afsalaða lands, svo sem nánar sé tilgreint í afsalinu frá 20. febrúar 1941. Þrætulandið hafi aftur á móti verið afhent Gullbringusýslu til sumarbeitarafnota, sem greitt hafi fyrir, sem svaraði til matsverðs alls landsins, samkvæmt matsgerðinni frá 1936. Sú ráðstöfun hafi verið í samræmi við heimildarlög eignarnámsins.

Ríkið kveðst byggja á þeirri meginreglu kröfuréttar um fasteignakaup, að sú réttarlega þýðing sé lögð í útgáfu afsals, að eignarréttur sé óskilyrtur og að kaup hafi verið efnd m.a. með greiðslu umsamins kaupverðs. Með afsalinu til Hafnarfjarðar frá 1941 hafi því landi verið afsalað, sem afnotaréttur Gullbringusýslu náði ekki til og hafi Hafnarfjörður einungis greitt fyrir það land og þau réttindi, sem afsal hafi tilgreint, en á það hafi verið ritað samþykki af hálfu Hafnarfjarðar. Fyrirsvarsmenn Hafnarfjarðar hafi á þeim tíma ekki staðið í þeirri trú, að þeir væru að greiða fyrir land það, sem nú sé krafist afsals að, enda hafi Hafnarfjörður hvorki þá né síðar greitt fyrir umþrætt landsvæði.

Ríkið byggir á því, að réttur til útgáfu afsals fyrir því landsvæði, sem um sé deilt í málinu, sé fallinn niður sökum fyrningar samkvæmt lögum nr. 14/1905 um fyrning skulda og annarra kröfuréttinda. Frá útgáfu afsals þann 20. febrúar 1941, uns mál þetta var höfðað þann 30. apríl 1998 hafi liðið rúm 57 ár og hugsanlegar kröfur Hafnarfjarðar á hendur ríkinu því löngu fyrndar, sbr. 4. gr. laga nr. 14/1905, jafnvel þótt miðað yrði við lengstan fyrningartíma, sem þau lög geri ráð fyrir. Ríkið byggir einnig á því að hugsanlegur kröfuréttur til útgáfu afsals á grundvelli laganna sjálfra frá 1940 sé fyrndur. Hafi falist í greiðslu Hafnarfjarðar árið 1941 andvirði lands sem ekki var gefið út afsal fyrir, sé réttur til afhendingar og/eða útgáfu afsals, samkvæmt þeim gerningi, löngu fallinn niður fyrir fyrningu.

Ríkið byggir einnig á því að krafa stefnanda sé niður fallin sökum tómlætis, enda hafi engir fyrirvarar gerðir af hálfu Hafnarfjarðar, er löglærður bæjarstjóri samþykkti afsalið fyrir hans hönd, fjórum dögum eftir útgáfu þess, en í því hafi verið vísað til laganna nr. 101/1940, auk skiptagerðarinnar frá 1939. Liðið hafi rúm 40 ár uns Hafnarfjörður lýsti annarri skoðun í bréfaskiptum sínum við landbúnaðarráðuneyti, en málið muni fyrst hafa komið til skoðunar hjá Hafnarfjarðarbæ á árinu 1981. Síðan hafi liðið 17 ár þar til mál þetta var höfðað.

Með vísan til þess, að lögsagnarumdæmi Hafnarfjarðarkaupstaðar hafi ekki verið breytt með lögum, varðandi landsvæðið umdeilda verði einnig að telja lögin frá 1936 og 1940 úr gildi fallin, þar sem þau hafi komið að fullu til framkvæmda í samræmi við tilgang þeirra. Í greinargerð með frumvarpi er varð að lögum nr. 40/1946 komi skýrt fram í fylgiskjali (bréfi bæjarstjóra Hafnarfjarðar) að einungis hafi verið um að ræða landið, sem Hafnarfirði hafi verið afsalað þann 20. febrúar 1941.

Verði litið svo á, að Hafnarfjörður hafi, samkvæmt lögum nr. 101/1940, átt lögvarinn eignarrétt að umþrættu landsvæði sé eignarhald ríkinu löngu helgað samkvæmt lögum nr. 46/1905 um hefð. Samkvæmt 1. gr. laganna megi vinna hefð á fasteign án tillits til þess, hvort hún hafi áður verið einstaks manns eign eða opinber eign. Ekki sé ágreiningur um það, að stefndi hafi haldið eignarráðum að umræddu landsvæði allt frá því að landið var tekið eignarnámi. Það hafi verið áréttað og óumdeilt í fyrrgreindu landamerkjamáli. Hafnarfjörður hafi ekki vefengt rétt ríkisins til eignarhaldsins í samræmi við 2. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1905, fyrr en með málsókn þessari, en frá því að afsalið til Hafnarfjarðar frá 20. febrúar 1941 uns málið var höfðað hefur liðið tæplega þrefaldur hefðartími samkvæmt 2. gr. laganna og enn lengri tími sé miðað við framkvæmd eignarnámsins. Liðið hafi meira en 20 ára hefðartími sé miðað við rekstur og dóm í áðurnefndu landamerkjamáli.

Af þessum sökum beri að sýkna ríkið af öllum kröfum Hafnarfjarðar. Einnig beri að líta svo á, að það sé aðeins á færi löggjafans að hlutast til um aðra tilhögun eignarréttar yfir landssvæðinu, sbr. 40. gr. stjórnarskrár lýðveldisins, sbr. og meginreglu í 1. og 2. gr. laga nr. 58/1998 um þjóðlendur og ákvörðun marka eignarlanda, þjóðlendna og afrétta.

Dómurinn lítur svo á, að við túlkun laganna verði líta til tilgangs þeirra. Ber þar fyrst að nefna, að skipan sú, sem komst á með afsali ríkisins til Hafnarfjarðar hinn 20. febrúar 1941, virðist hafa þjónaði þeim tilgangi, sem að var stefnt með lögunum frá 1936. Hafnarfjörður fékk allt ræktað og ræktanlegt land Krýsuvíkurtorfunnar til eignar, ásamt hitaréttindum alls hins eignarnumda landsvæðis. Í þessu sambandi má benda á bréf Friðjóns Skaphéðinssonar, þáverandi bæjarstjóra Hafnarfjarðarkaupstaðar til atvinnu- og samgönguráðuneytisins frá 23. júní 1939. Þar er þess óskað, „að hið háa ráðuneyti gefi Hafnarfjarðarbæ afsal fyrir því landi jarðanna, sem gerðardómurinn hefur afmarkað, svo og öllum jarðhitanum“, sjá bls 5 að framan. Einnig verður ekki fram hjá því litið, að sami Friðjón áritaði samþykki sitt á afsalið frá 20. febrúar 1941 án nokkurs fyrirvara. Til hins sama bendir langvarandi aðgerðarleysi Hafnarfjarðar.

Athyglisvert er að dómurinn lítur til áratuga aðgerðarleysis og tómlætis Hafnarfjarðar í garð Krýsuvíkurlands. Hafnarfjörður hafi í rauninni hvorki sýnt ræktarsemi við Krýsuvíkurlandið né reynt að nýta það síðustu áratugina.

Ríkið byggði einnig á því að krafa Hafnarfjarðar sé niður fallin sökum tómlætis, enda hafi engir fyrirvarar gerðir af hálfu Hafnarfjarðar er löglærður bæjarstjóri samþykkti afsalið fyrir hans hönd, fjórum dögum eftir útgáfu þess, en í því hafi verið vísað til laganna nr. 101/1940, auk skiptagerðarinnar frá 1939. Liðið hafi rúm 40 ár uns stefnandi lýsti annarri skoðun í bréfaskiptum sínum við landbúnaðarráðuneyti, en málið muni fyrst hafa komið til skoðunar hjá Hafnarfjarðarbæ á árinu 1981. Síðan hafi liðið 17 ár þar til mál þetta var höfðað.

Verði litið svo á, að Hafnarfjörður hafi, samkvæmt lögum nr. 101/1940, átt lögvarinn eignarrétt að umræddu landsvæði sé eignarhald ríkinu löngu helgað samkvæmt lögum nr. 46/1905 um hefð. Samkvæmt 1. gr. laganna megi vinna hefð á fasteign án tillits til þess, hvort hún hafi áður verið einstaks manns eign eða opinber eign.

Þegar horft er til fyrningar og tómlætis Hafnarfjarðarbæjar á nýtingu og uppgræðslu í Krýsuvík gæti Grindavíkurbær með réttu gert tilkall til landsvæðisins því útgerðarbærinn hefur langt umfram Hafnarfjörð annast uppgræðslu á svæðinu, auk þess sem bændur þar hafa nýtt landið öðrum fremur til sauðfjárbeitar og annarra hlunninda, s.s. rjúpnaveiði, útivist og heilsueflingar. Þá má með rökum sýna fram á eðlileg landfræðileg og söguleg tengsl Krýsuvíkursvæðisins við lögsagnarumdæmi Grindavíkur, bæði í fortíð og nútíð. Það ætti því ekki, á grundvelli framangreinds dóms og sömu raka, að vera því margt til fyrirstöðu að Grindavíkurbær geri tilkall til landsvæðisins, að huta eða í heild.

Rétt er að geta þess, með vísan til nútíma stjórnsýslu, að Krýsuvíkurland var afhent Hafnarfjarðarbæ á „silfurfati“ á sínum tíma. Einn maður, öðrum fremur, átti hluta að því. Og hver voru tengslin?

Guðmundur Emil Jónsson (f. 1902) var alþingismaður fyrir Hafnarfjörð 1934-’37, 1942-’53 og 1956-’59. Landskjörinn alþingismaður var hann 1937-’42, 1953-’56 og 1959 og alþingismaður Reykjaneskjördæmis 1959-´71. Hann var samgöngumálaráðherra 1947-’49, forsætis-, sjávarútvegs og samgöngmálaráðherra 1958-’59 sjávarútvegsmála- og félagsmálaráðherra 1959-’65 og utanríkisráðherra 1965-’71.
Emil var bæjarfulltrúi í Hafnarfirði 1930-’37 og bæjarstjóri í Hafnarfirði 1930-’62. Hann var formaður bæjarráðs 1942-’54 og formaður Krýsuvíkurnefndar 1938-’42 svo eitthvað sé nefnt.

Hvar eru nú alþingismenn Grindvíkinga? Ef hægt hefur verið að setja lög um séreignabreytinguna um 1940 ætti ekki að verða erfitt að setja lög um réttlætislagfæringu á heimfærslu landsins nú 65 árum síðar.
Alþingismenn eru jafnan ragir við að takast á við réttlætismál, einkum hagsmunatengd. Vonandi er þó til einhver slíkur – þótt ekki væri til annars en að hafa þor til að kynna sér málið.

Heimild m.a.:
-Hæstaréttardómur nr. 40/1999.
-Saga Hafnarfjarðar – III. bindi.

Krýsuvík

Krýsuvík – fjósið 2022.

Gestsstaðir

Gengið var frá útivistarsvæði skátanna austan undir Bæjarfelli að gömlu Krýsuvíkurrréttinni. Þaðan var haldið eftir gamalli götu í átt að Drumbsdalavegi.

Krýsuvíkurgata

Krýsuvíkurgata vestan Bæjarfells.

Gatan liggur fyrst norðan vegarins, fer síðan yfir hann þar sem varða er hlaðin norðan við veginn og liggur síðan áfram samhliða honum að sunnanverðu. Á einum stað má sjá hlaðið í moldarflag. Við götuna eru gamlar fallnar og hálffallnar vörður. Gengið var upp Sveifluhálsinn þar sem Drumbsdalavegur liggur upp hann og honum fylgt í lægð í hálsinn uns komið var að þeim stað austan Drumbs er sást yfir að gígum þeim er Ögmundarhraun rann úr, um Bleikingsdal og yfir að Vigdísarvöllum.

Gestsstaðir

Gestsstaðir – vestari tóftin (skáli).

Á hálsinum er lítil varða. Þar var snúið við og gengið eftir stíg norður með austanverðum Sveifluhálsi. Þar ofarlega hálsinum, í grónu dragi, er greinilega gömul tótt og hlaðið út frá henni. Tóttin virðist vera frá sama tíma og aðrar tóttir Gestsstaða, sem þarna eru nokkru norðar. Hún hefur þó hvergi verið skráð svo vitað sé. Sunnan undir hól, suðvestan Krýsuvíkurskóla, er löng tótt og skammt austar eru fleiri tóttir.

Gestsstaðir

Gestsstaðir sunnan Gestsstaðavatns – skáli.

Í tóttunum eru merki um friðlýstar minjar. Eftir að minjarnar höfðu verið skoðaðar var gengið til suðurs að Skugga, klettum austan undir sunnanverðum Sveifluhálsi. Frá honum var haldið yfir á Krýsuvíkurveginn og hann genginn að upphafsstað.
Frábært veður. Gangan tík 3 klst og 3. mín.

Krýsuvík

Krýsuvík – uppdráttur ÓSÁ.

Frá Skugga var gengið til austurs að Bæjarfelli og síðan austan með því norðanverðu. Þar var fyrst fyrir Hafliðastekkur og hleðslur undir stórum steini. Skammt austar er tótt uppi í hlíðinni og enn austar sést móta fyrir gömlum stekk. Frá honum var gengið yfir að Rauðhól og leitað réttar, sem þar átti að hafa verið skv. gamalli lýsingu. Ekkert sést nú móta fyrir réttinni, enda búið að leggja veginn utan í hólinn. Skoðað var brúarstæði á gömlu Krýsuvíkurleiðinni og skoðað hrossagaukshreiður, sem þar var undir gamla brúarstæðinu. Þá var litið á mógrafirnar sunnan vegarins. Þaðan var gengið var til suðurs að Snorrakoti, eftir vörslugarði þess til vesturs og beygt síðan til suðurs að Norðurkoti. Skammt norðan kotsins er tótt er liggur neðan við heimtröðina, sem þarna er greinileg. Í tóttum Norðurkots er merki um friðlýstar minjar. Þaðan var gengið að Læk og skoðaðar tóttir gamla bæjarins sem og tóttir austan þeirra. Á Vestarilæk, sem rennur vestan tóttanna, var fyrrum kornmylla. Gengið var yfir að Suðurkoti. Norðan utan í gömlum vörslugarði norðan nýrri garðs, sem liggur á milli Bæjarfells og Arnarfells, er gömul tótt.
Gangan endaði síðan á útivistarsvæði skrátanna eftir 3 klst og 11 mín ferð.
Frábært veður.

Gestsstaðir

Tóftir Gestsstaða.

Vetrarganga

„Snjóhvítt er sagt að sé efni eins hvítt og frekast er hægt að hugsa sér hvítan hlut. Bráðni snjóflyksa í lófa manns verður hún að glærum og tærum vatnsdropa, en hvíti liturinn er horfinn. Hvítleiki snævarins getur því ekki hafa stafað af neinu hvítu litarefni, sem uppleyst hafi verið í sjónum, því að þá hefði það orðið að sjást í vatnsdropanum. Sé horft á snjóflyksuna í smásjá, sést vetur-221að hún er samanofin af óteljandi örfínum ískristallsnálum, sem einatt raða sér niður í hinar fegurstu kristallamyndir og þyrpingar. Kristallafletirnir glitra og tindra er þeir endurvarpa ljósgeislum þeim, sem á þá falla. Það eru þessir kristallafletir, sem með endurvarpi sínu á ljósgeislunum í allar hugsanlegar áttir, gera það að verkum, að snjórinn er hvítur að sjá, því að hvítir eru þeir hlutir að sjá, sem endurkasta öllum ljósgeislum, sem á þá falla jafnt og í allar áttir. Þegar snjórinn bráðnar, verða snjóflyksurnar að tæru vatni, sem stundum rennur til og fyllir upp í bilin, sem eru á milli ísnálanna, og veldur því að þær endurvarpa ljósgeislum miklu verr en áður, enda er það augsýnilegt að bráðnandi snjór er ekki líkt því eins hvítur og nýfallinn frostsnjór.
Til er mjög einföld tilraun, sem færir manni heim sanninn um, að þessi skýring muni vera rétt; sé glerplata, sem að sjálfsögðu er glær og þarmeð litlaus, moluð niður í smáagnir, verður glerdustið hvítt að sjá og er það einmitt vegna þess, að í stað þess að áður var aðeins um fáa fleti að ræða, sem endurkastað, gátu ljósgeislum, eru þeir orðnir óendanlega margir í mylsnunni og liggja þannig, að endurvarpið verður jafnt í allar áttir, en það er einmitt skilyrði þess, að hlutur sé hvítur að sjá.“

Heimild:
-Náttúrufræðingurinn, 15. árg. 1945, 1. tbl. bls. 60.

Kálfadalir

Í Kálfadölum.

Reykjavík

Skemmtileg frásögn í Þjóðólfi um „Húsasölu og húsabyggíngar í Reykjavíkur haupstað árið 1855;
„Húsið nr. 20 á Arnarhólsholti fyrir 700 rddl.; kaupm. og bæjarfulltrúi þorst. Jónsson seldi, en Egill hreppst. Hallgrímsson í Minnivogum keypti. Húsið nr. 5 á Austurvelli fyrir 3000 rdl.; kaupm. E. Siemsen seldi, kBjarghus-231onferenzráfe og riddari B. Thorsteinson keypti. — Húsið nr. 10 í Grjótagötu fyrir 1200 rdl.; sameigendur: dánarbú frú Helgu Egilsson og stúdent Jón Arnason seldu, en ekkjufrú Elín Thorstensen keypti. — Húsið nr. 4 í Lækjargötu, (á horninu á Lækjartorgi fyrir 3,500 rdd.; kaupm. M. Smith, — sem keypti húsið næstl. vetur af stórkaupm. P. C. Knudtzon fyrir sama verð, — seldi, en prófastur og dómkirkjuprestur séra Ólafur Pálsson keypti. — Uppboðsölunnar á hinum nýja og gamla gildaskála, nr. 4, A og B í Aðalstræti, er fyr getið.
Tvö hús eru hér nýbyggð í sumar; reisti Tofte beykir annað, í miðju Austurstræti, það er byggt með bindíngi af múr, tvíloptað með helluþaki, en hitt kaupm. R. P. Tærgesen á horni Aðalstrætis og Læknisgötu, nr. 12, anspænis Hafnarstræti, og reif hann áður hina slábyggðu gömlu búð (Sunkenbergsbúð) er þar stóð til þessa, var sú búð hin eina enn uppistandandi af búðum þeim er fluttar voru á land úr hinum forna Hólmskaupstað, (Örfærsey). Hús það sem herra Tærgesen nú reisir þar er byggt með bindíngi og múr og tvíloptað og helluþakið, þar til bæði breiðara og lengra en búðin var sem þar stóð fyr, og verður hin mesta staðarprýði að húsi þessu, þegar það er fullgjört. Hið 3. hús reisti söðlasm. Torfi Steinsson, nýja verksmiðju áfast við íbúðarhús sitt að vestanverðu, með bindíngi og múr og með helluþaki.
Það leiddi af þessari byggíngu herra T. Steinssonar Bjarghus-232uppgötvan eina, sem ekki má vita nema geti leitt hér til mikils sparnaðar og gagns; í stað tígulsteins sem hér hefir verið vanalega hafður í múr í bindíngshúsum, flutti hann að sér hraunhellur sunnan úr Kapelluhrauni; þær eru sléttar og ekki kræklóttar, og flestar á þykkt við vanalega breidd á tígulsteini, svo að hafa má þær á rönd í múrinn, en margar þeirra eru stórar og klæða því vel af, en fyrir það sparast múrhúð (kalk) meir en til helmínga; hella þessi kostaði og híngað flutt á fiskibátum, helmíngi minna en tígulsteinn til jafnstórs húss mundi hafa kostað; en múrverkið sjálft er nokkuð seinunnara með hellu þessari, af því að höggva þarf og jafna með verkfærum brúnir hellnanna hér og hvar. En þar að auki þykir auðsætt, að húsamúr úr þessari hellu muni hafa tvo verulega og mikilvæga kosti framyfir tígulsteinsmúrinn, en það er, að hella þessi meyrnar alls ekki, eins og tígulsteinninn, þó vindur og hret leiki á henni, og að hún bæði fyrir þær sakir, og eina fyrir það hvað hún er jafn hrufótt og þétteygð, vafalaust hlýtur að halda varanlega á sér múrlíms-húðinni að utanverðu, en það vill aldrei heppnast hér á tígulsteinsmúr sem veit í móti rigníngarátt (hér allri austanátt); þess vegna hafa menn og jafnan neyðzt til að klæða þá múra með borðum og bika þau eða maka með við smjörslit árlega, og gefur að skilja, hve mikið og verulegt mundi sparast við byggíngar og viðurhald bindíngs-múrhúsa, ef þetta yrði óþarft með framtíð.
Bjarghus-233Samkynja hraunhella þeirri, sem er í Kapelluhrauni, er einnig, eins og mörgum mun kunnugt, bæði á Hellisheiði, einkum um Hellisskarðsveginn, og í hrauninu umhverfis Gjáarrétt, Kaldárbotna og Rauðahellir, fyrir ofan Hafnarfjörð, og mikil nægð af á báðum þeim svæðum. En hægast og kostnaðarminnst verður að flytja að sér helluna úr Kapelluhrauni um öll nesin hér syðra, því það má gjöra sjóveg; og er þetta einkum hægt fyrir þá, sem búsettir eru nær hrauninu, og ef menn byggði öfluga byrðínga er bæri mikið í senn, til að flytja á hraunhellu þessa til ýmsra staða, og mundi þetta geta orðið nýr atvinnuvegur, einkum ef sjávarbændur færi líka smámsaman að byggja sér, — í stað moldarkofanna sem aldrei standa, allt af er verið að káka við og þó er engin eign í, — íbúðar- og geymslu-hús úr bindíngi og múr með þessari hellu, sem útheimtir svo sárlítið múrlím, en hægt að flytja það að sér sjóveg hér um nesin úr kaupstöðunum.“

Heimild:
Þjóðólfur, 8. desember 1855, bls. 4-5.

Breiðabólstaðir

Breiðabólstaðir á Álftanesi – hlaðið steinhús.