Magnús Már Lárusson, prófessor, skrifaði grein í jólablað Alþýðublaðs Hafnarfjarðar árið 1960. Greinin var framhald greinar hans í blaðið árið 1957 er nefndist „Sitthvað um Fjörðinn„. Hér skrifar hann m.a. um Skúlastaði.
„Elzta saga byggðar á Reykjanesskaga er halla óljós og gloppótt. Heimildir eru fáar og stangast iðurlega á. Náttúruhamfarir, eldgos og landbrot hafa geisað án þess að setja teljandi spor í heimildir. Og örnefni hafa týnzt eða breyzt.
Í sóknarlýsingu sinni segir síra Árni í Görðum um eyðijarðir, að hann viti ekki um neina, „nema það skyldu vera Skúlastaðir, sem mælst er hafi verið jörð áður fyrr meir, og hvar af skuli finnast minjar uppi í hrauni, suður frá Hvaleyri.“ Það er sorglegt að hann skuli ekki tilgreina staðsetninguna skilmerkilegar. En leyfilegt væri að láta sér detta í hug Kapelluhraun, því „suður“ er hér um slóðir oftast notað í merkingunni „útsuður“. Enn fremur má benda á Almenninga sunnan við Kapelluhraun. Af heimildum sést að margir bæir eiga þar beit, skóg o.fl., sem á verður drepið síðar. Þetta hefur upphaflega verið sæmilegt land og er enn ekki verulega farið að blása. Þessir Almenningar koma samt skringilega fyrir sjónir. Það er eins og eftirstöðvar af jörð séu þar eftir, sem orðið hafa almenningseign, en ekki að þeir séu óskipt sameignaland.
Nú kynni einhver að benda á svonefnt Skúlatún, sem Brynjólfur Jónsson túlkaði sem Skúlastaðatún í Árbók fornleifafélagsins 1903.
Menn kynnu að halda, að síra Árni ætti við það. En það er varla svo, því er hann ræðir um selstöður, segist hann ekki vita nema það, að Garðar eigi selstöðu í því svokallaða Kirkjulandi, sem liggur fyrir ofan byggðina, frá Elliða- og Vatnsendalandi, suður að Krýsuvíkurlandi og upp undir fjöllin, og hafði verið haft í seli þar til 1832, en aðrir í sókninni höfðu ekki notað selstöðu um hálfa öld fyrir 1842.
Svæði þetta er stórt mjög, en Jarðabók Árna Magnússonar segir, að staðurinn í Görðum eigi selstöðu, þar sem heitir við Kaldá, og eru þar bæði hagar og vatnsból gott.
Í öllum máldögum Garða er svæði þetta nefnt; „Afrétt í Múlatún“, t.d. DI iv 108, vi 123, xv 638 og var síra Árna þetta kunnugt, enda er pláss þetta í Garðalandi.
Örnefni í kringum Hafnarfjörð og í honum sjálfum hafa orðið fyrir töluverðu hnjaski innfluttra manna. Ófriðarstaðir verða Jófríðastaðir, Steinhes verður Steinhús, Melrakkagil verður Markrakagil, eða öfugt, svo örfá dæmi séu tekin. Skúlatún er vafalaust afbökun úr Múlatúni.“
Í heimildaleit FERLIRs hefur ekki ósjaldan reynt á framangreint, ekki einungis hvað Hafnarfjörð og nábýli áhrærir heldur og Reykjanesskagann allan. Forn örnefni, sem náttúruöflin ættu að hafa tortímt, horfin í sæ eða menn hafa millifært, hafa virst „dúkka upp“ annars staðar en frumheimildir herma.
„Leitin að Skúlastöðum hefur sennilega verið áköf, meðan lærðir menn bjuggu á Álftanesi og skólinn var starfræktur á Bessastöðum. Þeir hafa vitað, að Skúlastaðir eru eingöngu nefndir í Landnámu. Þeir kunna að hafa stuðlað að nýrri nafngift.
Eftirtektarvert er, að Árni Magnússon nefnir m.a. eftir sögn gamals manns, að bær hafi staðið í Lönguhlíð (!). Virðist bæjarheitið týnt, því maðurinn ruglar svo sögunni saman við skriðuhlaup á Lönguhlíð í Hörgárdal 1389, sbr. SSÍ2: I, 2 bls. 60.
Sé lýsing Brynjólfs frá Minna-Núpi í Árbók fornleifafélagsins 1908 [1903] athuguð, þá er hún ekki sannfærandi um, að þar hafi býli verið. Enda eigi heldur lýsing Þorvalds Thoroddsen í Ferðaból I.
Tilgátan, sem hér hefur verið drepið á er eigi heldur svo sennileg. Kapelluhraun og þá Nýjahraun liggur á eldra hrauni. Eftir hæðarlínum að dæma hefur þó gengið kvos í landsuður frá Straumi og myndað dalverpi rúmlega 1 km á breidd, en 3 km inn frá sjó. Pláss hefir verið þar, hefði jarðvegur verið nægur á hinu eldra hrauni.
Landnámsjarðarinnar er eðlilegast að leita við sjóinn, því fiskiföng hafa laðað frumbýlinginn.
Prófessor Ólafur Lárusson hefur bent á ákvæði í elzta máldaga Bessastaða, sem gæti, að annað hvort Sveinbjörn Ásmundsson á 12. öld eða afi hans Sveinbjörn Ólafsson á 11. öld hafi átt Bessastaði, en þeir voru í beinan karllegg af Ásbirni Özurarsyni landnámsmanni á Skúlastöðum, en landnám hans náði frá Hraunsholtslæk að Hvassahrauni, þ.e. Afstapahrauni.
Sjálfur hef ég á þessum vettvangi bent á Garða.
Nú má í því sambandi benda á annað. Sonur Sveinbjarnar Ásmundssonar var Styrkár, en hans getur í sambandi við Viðeyjarklaustur, sem hann gaf rekapart. Er þess getið í máldaga, er varðveizt hefur í afsrkift frá því um 16598, er Oddur biskup Einarsson lét gera og er prentað eftir henni í DI i 507. En eins og textinn er þar lesinn og prentaður, er hann mjögvillandi. Þó virðist hann eiga við Krýsuvík að nokkru. Það er í máldögum reyndar að finna orðlagið „til marks við Beðstæðinga“ (eða Bessstæðinga), DI ii 361, sem hefur verið skilið sem Bessastaðamenn. Gæti það þá enn stuðlað að því að binda Bessastaði við ættmenn Ásbjarnar á Skúlastöðum. Og hafa menn í því sambandi blínt á ofarnefndan máldaga og tengt Styrkár við Bessastaði og gjört ráð fyrir, að reki Styrkárs væri sami og fjórðungsmerki Viðeyjar í Krýsuvík.
Nú vill svo til, að textinn er ranglesinn, en aðeins eitt orð. Í máldaganum stendur og til hægðarauka fyrir lesendur fært til nútímastafsetningar:
„Styrkár Sveinbjarnarson galt staðnum hvalreka meðal Hraunsstjarna og Kolbeinskora, hina fjórðu hverja vætt, og hval, hvort sem er meiri eða minni. En sá maður, er býr í Krýsuvík skal skyldur að festa hvalinn, svo að ei taki sær út og gera orð til Viðeyjar fyrir þriðju sól.“
Í fornbréfasafninu stendur „í hval“. Í máldagabókinni stendur „“fyrir“ og löng z. Í landamerkjaskrá Steingríms biskups Jónssonar og með hans hendi í Lbs. 112 4to bls. 166 er lesið „og“ eins og ég geri.
Að sá lestur er réttur er tiltölulega auðvelt að sýna fram á. Í skjölum tveim frá 1497, sem varðveitzt hafa í Bessastaðaból, skrifaðri um 1570, er að finna vitnisburð um reka Viðaeyjarklausturs. Segir þar skýrt, að vitnin hafa heyrt lesinn máldaga þess efnis, að kirkja og klaustur í Viðey ætti hina fjórðu hverja vættu í öllum hvalrek utan frá Kolbeinsskor og inn að Hraunnesstjörnum eður vötnum, hvar sem á land kæmi á þessu takmarki, er liggur fyrir Strönd í Kálfatjarnarsókn…
Takmark þetta er reyndar hreppsmörk Vatnsleysustrandarhrepps. Kolbeinskorir heita nú Ytri og Innri Skor í Stapanum. Einkennilegast er, að reki þessi skuli ekki koma fram í skránum D ii 245-48.“
Fram kemur í greininni að Sveinbjörn Stykársson hafi fallið í Bæjarbardaga 1237, en sá muni hafa verið sonur fyrrnefnds Styrkárs. Sonur hans var Hafur-Björn, þess nafna er hafði átt í Grindavík á 10. öld. „Styrkár Sveinbjarnarson virðist hafa staðfestu suður með sjó, en eigi á Álftanesi og sonu hans hét Hafur-Björn. Gæti það bent til þess, að erfðir og tengdir höfðu orkað að því að tengja framangreint svæði saman að þessu leyti, er Almenningunum við kemur. Hafur-Birnir þessir tveir eru hinir einu þekktu með því nafni frá þjóðveldisöld. Enn fremur eru Hafurbjarnarstaðir á Rosmhvalanesi þeir einu með því nafni á landinu og reynar Viðeyjarklaustursjörð 1398.
Hvernig sem þessu er varið, þá er eitt ljóst, að jarðirnar við sunnanverðan Hafnarfjörð eiga samleið með Suðurnesjum, en jarðirnar norðan við hafa þar engra hagsmuna að gæta, nema Garðar, er eiga lönd undir Undirhlíðum. Og liggja skilin um Hamarinn.“
Við þetta má bæta að Hafurbjarnaholt er ofan við Straumssel. Ekki er hægt að útiloka að hraun er runnu eftir landnám, s.s. Hellnahraunið yngra, Tvíbollahraun, Húsfellsbruni eða Nýjahraun (Kapelluhraun/Bruninn) hafi runnið yfir nefnda Skúlastaði. Skúlatún gæti hafa verið hluti, þ.e. hæsti hóll, þess bæjarstæðis, enda má finna fornar minjar á nokkrum stöðum í nálægð þess, s.s. í Fagradal og Breiðdal.
Heimild:
-Magnús Már Lárusson, Enn úr Firðinum, Alþýðublað Hafnarfjarðar (jólablað) 1960, bls. 4-5.
Varða á Hafurbjarnaholti.